Hæstiréttur íslands
Mál nr. 633/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
|
|
Þriðjudaginn 9. janúar 2007. |
|
Nr. 633/2006. |
Kristján Tryggvason Inga Skarphéðinsdóttir Birkir Skarphéðinsson og Kristján Viðar Skarphéðinsson (Arnar Sigfússon hdl.) gegn Ásdísi Ásgeirsdóttur Soffíu Friðriksdóttur og Stefáni Gunnari Þengilssyni (enginn) |
Kærumál. Þinglýsing.
Eigendur landspildu, sem ber heitið Höfn, kröfðust þess að afmáð yrði úr þinglýsingabók yfirlýsing frá Á, sem hafði landið til umráða á grundvelli erfðafestusamninga frá 1935 og 1962, um mörk Hafnar 1 og Hafnar 1. Þá var þess krafist að eignaskiptayfirlýsing, sem skipti Höfn 2 í tvo matshluta, yrði afmáð úr þinglýsingabók. Þar sem samþykki eigendanna skorti fyrir ráðstöfun landsins, sem mælt var fyrir um í skjölunum, var talið að það hefði átt að hafna þinglýsingu þeirra, sbr. 1. mgr. 24. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Var því fallist á kröfu eigendanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. nóvember 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvarðanir sýslumannsins á Akureyri um að þinglýsa tveimur skjölum er lúta að fasteigninni Höfn 2, Svalbarðsstrandarhreppi. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðilar krefjast þess að nefndar ákvarðanir sýslumannsins verði felldar úr gildi og lagt fyrir hann að afmá greind skjöl úr þinglýsingabók. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins leigði Tryggvi Kristjánsson, þáverandi eigandi jarðarinnar Meyjarhóls í Svalbarðsstrandarhreppi, Steinþóri Baldvinssyni í Höfn 10 vallardagsláttur úr landi jarðarinnar á erfðafestu með samningi 7. nóvember 1935. Sagði þar að landið lægi „umhverfis býlið Höfn“ þannig að suðurmörk þess væru 30 faðma sunnan við íbúðarhúsið en norðurmörkin 84 faðma norðan við það. Árið 1962 gerðu sömu aðilar með sér samning þar sem Tryggvi leigði Steinþóri á erfðafestu viðbótarland, 2½ vallardagsláttu. Þar var tekið fram að þetta viðbótarland lægi „norðan við Hafnartúnið“ og sérstaklega tilgreint að suðurmörk þess væru „Hafnarlandið“. Leiða sóknaraðilar eignarrétt sinn á ofangreindu landi af rétti Tryggva.
Eftir lát Steinþórs mun Soffía Sigfúsdóttir, ekkja Steinþórs, hafa afhent fóstursyni sínum, Friðrik Leóssyni, býlið Höfn með öllum gögnum og gæðum. Árið 1975 undirrituðu Friðrik og eiginkona hans, varnaraðilinn Ásdís, yfirlýsingu þar sem þau afhentu dóttur þeirra, varnaraðilanum Soffíu, „útihús að Höfn í Svalbarðsstrandarhreppi ásamt erfðafestulandi þar að stærð 2,5 vallardagsláttur“ sem fyrirframgreiddan arf. Ekki var þar nánar skýrt hvar mörk þessarar spildu lægju. Mun Soffía ásamt eiginmanni sínum, varnaraðilanum Stefáni Gunnari, hafa breytt umræddum útihúsum í íbúðarhús, sem ber heitið Höfn 2, og búið þar síðan.
Friðrik Leósson er nú látinn og mun varnaraðilinn Ásdís ein vera erfðafestuhafi. Gaf hún út yfirlýsingu 27. janúar 2006 með uppdrætti þar sem landið, sem afhent hafði verið varnaraðilanum Soffíu árið 1975, var afmarkað með hnitum. Yfirlýsingu þessari ásamt uppdrættinum, svo og eignaskiptasamningi 9. febrúar 2006, þar sem lóðinni Höfn 2 var skipt í tvo matshluta, var þinglýst 13. febrúar 2006. Með máli þessu leitast sóknaraðilar við að fá hnekkt þinglýsingu þessara skjala.
II.
Af framangreindum samningum má ráða að suðurmörk þess lands, sem bætt var við Hafnarlandið árið 1962, hafi legið 84 faðma norður af íbúðarhúsinu, sem stendur á landinu og ber heitið Höfn 1. Landið, sem er afmarkað á hinum þinglýsta uppdrætti og íbúðarhúsið Höfn 2 stendur á, er aflöng spilda, sem liggur austan við íbúðarhúsið Höfn 1, og eru suðurmörk spildunnar nokkru sunnar en húsið. Samkvæmt þessu fær ekki staðist að landið, sem varnaraðilinn Soffía fékk afhent í fyrirframgreiddan arf 1975, sé sama spildan og bætt var við Hafnarlandið árið 1962, eins og haldið hefur verið fram af hálfu varnaraðila.
Í erfðafestusamningnum 7. nóvember 1935 kemur fram að leigutaki megi ekki leyfa öðrum að byggja á hinni leigðu landspildu nema með samþykki leigusala. Samkvæmt samningnum 10. nóvember 1962 bar að fylgja ákvæðum eldri samningsins nema að sá yngri viki frá þeim. Með hliðsjón af þessu og 20. gr. núgildandi ábúðarlaga nr. 80/2004, sbr. 26. gr. eldri laga um sama efni nr. 64/1976, verður að telja að erfðafestuhafa sé óheimilt að skipta landinu, sem hér um ræðir, í því skyni að byggja öðrum, nema með samþykki landeiganda. Þar sem samþykki sóknaraðila skortir fyrir þeirri ráðstöfun á téðu landi, sem mælt er fyrir um í yfirlýsingunni 27. janúar 2006 bar að hafna þinglýsingu hennar og hnitsettum uppdrætti, sem fylgdi yfirlýsingunni, sbr. 1. mgr. 24. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Á sama við um eignaskiptayfirlýsinguna 9. febrúar 2006, sem reist er á framangreindri yfirlýsingu 27. janúar 2006. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og fallist á kröfu sóknaraðila á þann veg sem í dómsorði greinir.
Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumanninn á Akureyri að afmá úr þinglýsingabók yfirlýsingu varnaraðilans Ásdísar Ásgeirsdóttur 27. janúar 2006, ásamt hnitsettum uppdrætti 25. sama mánaðar, þar sem lýst er lóðarmörkum milli Hafnar 1 og Hafnar 2, Svalbarðstrandarhreppi, sem móttekin voru til þinglýsingar 13. febrúar 2006 og innfærð 15. sama mánaðar. Þá er lagt fyrir sýslumanninn á Akureyri að afmá úr þinglýsingabók eignaskiptayfirlýsingu 9. febrúar 2006 um lóðina Höfn 2, sem móttekin var til þinglýsingar 13. febrúar 2006 og innfærð 15. sama mánaðar.
Varnaraðilar, Ásdís Ásgeirsdóttir, Soffía Friðriksdóttir og Stefán Gunnar Þengilsson, greiði sóknaraðilum, Kristjáni Tryggvasyni, Ingu Skarphéðinsdóttur, Birki Skarphéðinssyni og Kristjáni Viðari Skarphéðinssyni, samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. nóvember 2006.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 30. f.m., er til komið vegna
kröfu Arnars Sigfússonar hdl. f.h. Kristjáns Tryggvasonar [kt.], Brekkugötu 15,
Akureyri, Ingu Skarphéðinsdóttur, [kt.], Grænumýri 10, Akureyri, Birkis
Skarphéðinssonar [kt.], Þingvallastræti 12, Akureyri og Kristjáns Viðars
Skarphéðinssonar [kt.], Stekkjargerði 3, Akureyri, sem með kröfu dagsettri 5.
júní 2006 og móttekinni 6. s.m. krefst þess:
1.
Að felld verði úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins á Akureyri sem
þinglýsingastjóra að þinglýsa yfirlýsingum Ásdísar Ásgeirsdóttur, dags. 27.
janúar 2006, sem móttekin var til þinglýsingar 13. febrúar 2006 og innfærð í
þinglýsingabók 15. s.m. og auðkennd með þinglýsinganúmeri 166/2006.
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Varnaraðiljar er gerðu með sér ofangreinda löggerninga
eru þau Ásdís Ásgeirsdóttir, [kt.], Lindarsíðu 4, Akureyri, Soffía
Friðriksdóttir, [kt.], Höfn II, Svalbarðsstrandarhreppi og Stefán Gunnar
Þengilsson [kt.], s.st.
Lögmaður varnaraðilja Gunnar Sólnes hrl. gerir þær kröfur að kröfum
sóknaraðilja verði hafnað og krefst málskostnaðar að mati dómsins.
Mál þetta var þingfest 30. júní sl. og skiluðu varnaraðiljar
greinargerð þann 7. september sl.
Undir rekstri málsins varð sú breyting að meðal upphaflegra
sóknaraðilja var Brynjar Skarphéðinsson kt. 181131-2769, Skálateigi 1,
Akureyri, en hann hefur nú selt Kristjáni Tryggvasyni sinn hlut landsins og á
ekki lengur aðild að málinu.
Sóknaraðiljar rekja málavexti svo, að með samningi dagsettum 7.
nóvember 1935 og viðbótarsamningi 10. nóvember 1962 hafi Tryggvi Kristjánsson
þáverandi eigandi jarðarinnar Meyjarhóls í Svalbarðsstrandarhreppi, leigt
Steinþóri Baldvinssyni samtals 12,5 vallardagsláttur úr landi jarðarinnar á
erfðafestu. Landi þessu hafi Tryggvi
haldið eftir þegar hann seldi Meyjarhól og var eigandi þess þar til hann
andaðist 18. febrúar 1990. Gekk landið
þá til erfingja hans og eru núverandi eigendur landsins að því komnir fyrir
erfð. Land þetta ásamt viðbótarlandi
sem Steinþór þessi keypti síðar annars staðar myndar land býlisins Hafnar sem
skrásett lögbýli. Eftir lát
erfðafestuhafans, Steinþórs Baldvinssonar gaf ekkja hans Soffía Sigfúsdóttir
fóstursyni sínum Friðriki Leóssyni býlið Höfn með öllum gögnum og gæðum. Virðist hann því hafa gengið inn í réttindin
samkvæmt erfðafestusamningunum sem erfðafestuhafi en grunneignarréttur að
landinu hafi vitanlega ekkert breyst við þetta. Með yfirlýsingu dagsettri 23. júlí 1975 afhenda Friðrik Leósson
og kona hans Ásdís Ásgeirsdóttir varnaraðilji, dóttur sinni Soffíu Friðriksdóttur
varnaraðilja: „sem fyrirfram greiddan arf útihús að Höfn í
Svalbarðsstrandarhreppi, ásamt erfðafestulandi þar að stærð 2,5
vallardagsláttur.“ Soffía
Friðriksdóttir og eiginmaður hennar Stefán Gunnar Þengilsson varnaraðilji hafa
búið í Höfn frá þessum tíma. Hafi þau
breytt umræddum útihúsum í íbúðarhús og hlaut það nafnið Höfn II. Friðrik Leósson er nú látinn en ekkja hans
Ásdís Ásgeirsdóttir varnaraðilji, sitji í óskiptu búi og sé þannig formlegur
erfðafestuhafi. Land það sem afhent var
Soffíu Friðriksdóttur með yfirlýsingunni árið 1975 hafi ekki verið sérgreint
eða afmarkað. Hin svokallaða fasteign
Höfn II hafi því aldrei haft sérgreind eða afmörkuð lóðaréttindi. Þrátt fyrir það gefi Ásdís Ásgeirsdóttir út
einhliða yfirlýsingu 27. janúar 2006 þar sem hún afmarkar þetta land samkvæmt
teikningu sem fylgir yfirlýsingunni.
Þessari yfirlýsingu var þinglýst 15. febrúar 2006.
Málsástæður og lagarök.
Sóknaraðiljar telja að sú ákvörðun að þinglýsa framangreindri
yfirlýsingu Ásdísar Ásgeirsdóttur standist ekki lög af eftirgreindum
ástæðum: Í yfirlýsingunni felist
einhliða skipting á landi jarðarinnar Hafnar.
Skipting þessi sé gerð án vitundar og án samþykkis landeigenda þ.e.
sóknaraðilja. Enga heimild til slíks sé
að finna í erfðafestusamningnum sem Ásdís leiði rétt sinn af. Fráleitt sé að leigutaki geti gert slíka
gerninga nema með skýrri heimild frá landeigendum, annað væri brot gegn
friðhelgi eignarréttarins sem er stjórnarskrárverndaður. Útgefanda skjalsins skorti því heimild til
að ráðstafa eigninni á þennan hátt og því hafi borið að vísa skjalinu frá
þinglýsingu samkvæmt 24. gr. þinglýsingalaga nr. 39, 1978.
Samkvæmt 13. gr. jarðalaga nr. 81, 2004 sé óheimilt að skipta landi
jarða nema með staðfestingu landbúnaðarráðherra. Ekki verði séð að slíkrar staðfestingar hafi verið leitað í þessu
tilfelli. Þessi skipting á landi
jarðarinnar Hafnar sem í yfirlýsingunni fellst sé því ógild sbr. 2. mgr.,
13.gr. laga nr. 81, 2004.
Sama dag og framangreindri yfirlýsingu var þinglýst var einnig þinglýst
eignaskiptasamningi um lóðina Höfn II.
Sóknaraðiljar telja að þinglýsing þessa skjals hafi ekki heldur verið
lögleg. Vísa þeir til sömu raka og hér
að framan greinir, enda feli þetta skjal í sér enn frekari óheimila skiptingu á
jörðinni Höfn. Einnig er á það bent að
skjal þetta byggist algjörlega á hinu fyrra skjali og þar sem óheimilt hafi
verið að þinglýsa, því leiði af sjálfu sér að þinglýsing eignaskiptasamningsins
hafi verið óheimil. Loks benda þeir á
ákvæði laga nr. 6, 2001 um skráningu og mat fasteigna um stofnskjöl sbr. 2.
mgr., 20. gr. og 2. mgr., 6. gr. laga nr. 39, 1978, með síðari breytingum, en
þeirra hafi ekki verið gætt og telja sóknaraðiljar að ekki hafi verið heimilt
að þinglýsa skjölum sem fela í sér skiptingu eignar og þannig í raun stofnun
nýrrar eignar án þess að gilt stofnskjal lægi fyrir.
Lögmaður sóknaraðilja kveðst hafa tilkynnt þinglýsingastjóra með bréfi
dagsettu 23. maí 2006 og mótteknu sama dag að ákvarðanir hans yrðu bornar undir
héraðsdóm og hafi hann fengið gögn málsins 29. maí 2006. Varðandi tímafresti skv. 1. mgr., 3. gr.
laga nr. 39, 1978 vísar hann til þess sem rakið er í bréfi hans til
þinglýsingastjóra dagsettu 23. maí 2006 og telur að við tímafrest sé staðið.
Varðandi málavaxtalýsingu telja varnaraðiljar að um rangtúlkun sé að
ræða hjá lögmanni sóknaraðilja þar sem hann telji að aðeins sé um eitt land að
ræða sem leigt hafi verið með samningnum 7. nóvember 1935 og viðbótarsamningi 10. nóvember 1962. Hér sé um tvo leigusamninga að ræða, tvö
afmörkuð landssvæði með sitt hvoru landnúmeri.
Land samkvæmt leigusamningnum frá 1935 sé með landnúmer 152905 og land
samkvæmt leigusamningum frá 1962 með landnúmer 152906.
Varnaraðiljar mótmæla því að í yfirlýsingu sinni felist einhliða
skipting á landi jarðarinnar Hafnar.
Land það sem Soffía Friðriksdóttir fékk sem fyrirframgreiddan arf 1975
2,5 vallardagsláttur að stærð ásamt útihúsum hafi verið það land sem Tryggvi
Kristjánsson leigði Steinþóri Baldvinssyni á erfðafestu 10. nóvember 1962. Í þeim samningi hafi verið tilgreind takmörk
hinnar leigðu landsspildu, en einnig hafi verið tekið fram í sama samningi að landsspilda óræktuð sem
var á milli ræktaða landsins og sjávarbakkans fylgdi með þessu landi. Samkvæmt þessu hafi Steinþór Baldvinsson
fengið talsvert stærra land en þær 2,5 vallardagsláttur sem tilgreind er í
samningnum frá 10. nóvember 1962. Með
yfirlýsingunni frá 27. janúar 2006, þinglýsinganúmer 166/2006, hafi einungis
verið að marka þá lóð sem Soffía Friðriksdóttir hafi fengið sem fyrirfram
greiddan arf með yfirlýsingunni 23. júlí 1975.
Telja varnaraðiljar að engin skipti á landi hafi átt sér stað eins og
hér að framan er rakið og eigi því 13. gr. jarðalaganna ekki við í þessu
tilviki.
Telja varnaraðiljar þinglýsingu eignaskiptayfirlýsingarinnar nr.
167/2006 fyllilega lögmæta og vísa til þess sem að framan er rakið. Auk þess er á það bent að hér sé ekki um
óheimila skiptingu jarðarinnar Hafnar að ræða heldur sé þeim hluta landsins sem
Soffía Friðriksdóttir fékk sem fyrirfram greiddan arf skipt upp í tvær einingar
þar sem mismunandi húsakostur sé landspildunni. Þá benda varnaraðiljar á að með þinglýsingu þessara skjala sé
réttur sóknaraðilja ekki á nokkurn hátt skertur. Sóknaraðiljar hafi láti þinglýsa einhliða yfirlýsingu,
þinglýsinganúmer 2134/2004 um eignarhald þess lands sem leigt var með
samningunum 1935 og 1962 og hafa varnaraðiljar ekki gert neinar athugasemdir
við þá yfirlýsingu eða þinglýsingu hennar.
Eignarréttur sóknaraðilja sé óumdeildur og öll þau réttindi sem þeim
tilheyra og hafa ekki sætt andmælum af hálfu varnaraðilja.
Hagsmunir sóknaraðilja af því að fá kröfum sínum framgengt séu því
engir. Réttindi sóknaraðilja eru að
mestu í því fólgin að fá greidda leigu eins og tekið er fram í samningunum en
þann 28. apríl 2006 hafi verið greiddar kr. 20.000 í leigugjald með
geymslugreiðslu. Þannig hafi
varnaraðiljar fullnægt greiðsluskyldu sinni.
Þá benda varnaraðiljar á að þrátt fyrir beiðni hafa sóknaraðiljar ekki
tilnefnt fyrirsvarsmann samkvæmt 9. gr. laga nr. 81, 2004 sem þeim er
skylt. Telja varnaraðiljar að
sóknaraðiljar þurfi að fullnægja því ákvæði laganna áður en þeir takast á
hendur málarekstur sem þennan.
Við flutning málsins lagði lögmaður sóknaraðilja fram þinglýsingu um
tilnefningu Kristjáns Tryggvasonar sem fyrirsvarsmanns landeigenda. Þá mótmælti lögmaður sóknaraðilja þeirri
fullyrðingu varnaraðilja að mál þetta snúist eingöngu um erfðafestusamninginn
frá 10. nóvember 1962 og taki eingöngu til þeirrar 2,5 vallardagslátta sem þar
sé tilgreind.
Lögmaður varnaraðilja heldur fast við það að mál þetta
snúist eingöngu um land það sem selt var á erfðafestu 10. nóvember 1962, sem nú
hafi verið afmarkað. Hagsmunir
sóknaraðilja í máli þessu séu engir, þannig að hér sé um enga lögvarða hagsmuni
þeirra að ræða.
Álit dómsins:
Þess skal getið að vallardagslátta er hér um bil 3191,
5 m² og 2,5 vallardagslátta því 7978,75 m².
Samkvæmt gögnum málsins er eign sú sem Soffíu Friðriksdóttur var afhent
sem fyrirframgreiddur arfur 23. júlí 1975, útihús að Höfn í
Svalbarðsstrandarhreppi ásamt erfðafestulandi þar að stærð 2,5
vallardagsláttur. Er eignarhlutinn ekki
nánar afmarkaður.
Samkvæmt gögnum málsins verður ekki ráðið hvort að hér sé um sömu
landsspildu að ræða eins og seld var á erfðafestu 10. nóvember 1962 eins og
varnaraðiljar halda fram. Hins vegar
svarar hið útskipta land samkvæmt yfirlýsingu Ásdísar Ásgeirsdóttur frá 27.
janúar 2006 nr. 166/2006, móttekið 13. febrúar 2006 og innfært 15. s.m.,
nokkurn veginn til 2,5 dagsláttu eða nánar til tekið 8000 m² og í
yfirlýsingunni segir að þetta sé landspilda sú sem Soffíu var afhent sem
fyrirfram greiddur arfur skv. yfirlýsingunni 23. júlí 1975. Undir þá yfirlýsingu rita þau Friðrik
Leósson, Ásdís Ásgeirsdóttir og Soffía
Friðriksdóttir. Er yfirlýsingin
þinglýst á Húsavík athugasemdalaust og auðkennd Litra II 54.
Samkvæmt yfirlýsingu Ásdísar Ásgeirsdóttur 27. janúar 2006 er ekkert
tekið fram um það að hér sé um sama land að ræða og erfðafestusamningurinn frá
10. nóvember 1962 greinir, þannig að sú málsástæða skiptir ekki máli í sambandi
við úrlausn þessa máls. Hins vegar ber
að líta til þess að þegar litið er til yfirlýsingarinnar frá 23. júlí 1975, þá
hlýtur þeim núlifandi varnaraðiljum er undir hana rituðu, þ.e.a.s. Soffíu og
Ásdísi, að vera fullljóst til hvaða landspildu yfirlýsingin tók. Verður að skoða yfirlýsingu varnaraðilja,
Ásdísar Ásgeirsdóttur, frá 27. janúar 2006 í því ljósi og telja að þó svo að
lóðinni hafi verið skipti með eignaskiptayfirlýsingu þá hafi ekki á nokkurn
hátt verið gengið á rétt sóknaraðilja. Er
því kröfum sóknaraðilja hafnað.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari og hefur
uppsaga hans dregist nokkuð vegna veikinda dómara.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfum sóknaraðilja, Kristjáns Tryggvasonar, Ingu Skarphéðinsdóttur,
Birkis Skarphéðinssonar og Kristjáns Viðars Skarphéðinssonar, á hendur
varnaraðiljum, Ásdísi Ásgeirsdóttur, Soffíu Friðriksdóttur og Stefáns Gunnars
Þengilssonar, um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Akureyri, að
þinglýsa yfirlýsingu Ásdísar Ásgeirsdóttur, dagsettri 27. janúar 2006 og
innfærðri í þinglýsingabók 15. febrúar 2006, auðkennt með þinglýsingarnúmeri
166/2006 og að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Akureyri, sem
þinglýsingastjóra, að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingu um lóðina Höfn II,
Svalbarðsstrandarhreppi, dagsettri 9. febrúar 2006 og innfærðri í
þinglýsingabók 15. febrúar 2006 og auðkennt með þinglýsingarnúmeri 162/2006 og
að bæði þessi skjöl verði afmáð úr þinglýsingabók, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.