Hæstiréttur íslands
Mál nr. 543/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Veðréttur
|
|
Mánudaginn 16. september 2013. |
|
Nr. 543/2013.
|
VBS eignasafn hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Grímur Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Veðréttur.
Með úrskurði héraðsdóms var kröfu L hf. sem lýst var við slit V hf. skipað í réttindaröð sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þannig að veðréttur L hf. á grundvelli kröfunnar tæki til sex nánar tilgreindra veðskuldabréfa. Krafa L hf. við slit V hf. var reist á lánssamningi, en til tryggingar efndum hans hafði V hf. með yfirlýsingu sett að handveði sex veðskuldabréf sem nutu 1. veðréttar í tilgreindri fasteign. Fasteignin var síðar seld nauðungarsölu. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að handveðréttur L hf. hefði ekki tekið beint til fasteignarinnar, sem veðskuldabréfin hvíldu á og seld hafði verið nauðungarsölu, heldur til skuldabréfanna sjálfra. Hefði nauðungarsalan því engin áhrif haft á veðrétt L hf., heldur hefði hann færst yfir á söluandvirði eignarinnar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. maí 2009 í máli nr. 163/2009. Samkvæmt því hefði L hf. lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2013, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 101.725.219 krónur var viðurkennd við slit sóknaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þannig að veðréttur varnaraðila á grundvelli kröfunnar tæki til sex nánar tilgreindra veðskuldabréfa. Þá var vísað frá dómi kröfu varnaraðila um innheimtukostnað og kröfu sóknaraðila um staðfestingu þess að hann væri réttmætur eigandi eignarhlutar í tilteknu félagi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að krafa varnaraðila njóti stöðu í réttindaröð við slit sóknaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá er krafist í málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði reisir varnaraðili kröfu sína við slit sóknaraðila á lánssamningi sem gerður var 1. mars 2010. Til tryggingar efndum samningsins hafði sóknaraðili með yfirlýsingu 6. ágúst 2009 sett að handveði sex veðskuldabréf sem nutu 1. veðréttar í fasteigninni að Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði. Fasteignin var seld nauðungarsölu 26. maí 2010 og var kaupandi hennar Skjaldborg kröfuhafafélag 3 ehf.
Í héraði var meðal annars á því byggt af hálfu sóknaraðila að eigendur áður áhvílandi veðskuldabréfa í fasteigninni að Tjarnarvöllum 3 hafi eignast hlut í áðurnefndu félagi í hlutfalli við veðstöðu sína áður en eignin var seld nauðungarsölu og lytu hagsmunir málsaðila við svo búið að eignarhlut í því á grundvelli umræddra veðskuldabréfa er hvíldu á fasteigninni. Samhliða því að sóknaraðili krafðist þess að krafa varnaraðila nyti ekki stöðu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, gerði sóknaraðili þá kröfu fyrir héraðsdómi að staðfest yrði að hann væri réttmætur eigandi eignarhlutar í Skjaldborg kröfuhafafélagi 3 ehf. á grundvelli veðskuldabréfanna. Frá þeirri kröfu hefur sóknaraðili fallið með kæru sinni til Hæstaréttar.
Handveðréttur varnaraðila tók ekki beint til fasteignarinnar að Tjarnarvöllum 3, sem umrædd veðskuldabréf hvíldu á og seld hefur verið nauðungarsölu samkvæmt framansögðu, heldur til skuldabréfanna sjálfra. Hafði nauðungarsala fasteignarinnar því engin áhrif á veðrétt varnaraðila, heldur færðist hann yfir á söluandvirði eignarinnar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. maí 2009 í máli nr. 163/2009. Varnaraðili hefur því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Krafa varnaraðila, Landsbankans hf., að fjárhæð 101.725.219 krónur, nýtur rétthæðar eftir 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila, VBS eignasafns hf., á grundvelli handveðréttar í sex skuldabréfum, fjórum, hverju að fjárhæð 5.000.000 krónur, dagsettum 19. júní 2006, og tveimur, hvoru að fjárhæð 6.200.000 krónur, dagsettum 26. nóvember 2007, sem hvíldu á 1. veðrétti í fasteigninni að Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2013.
Þetta mál, sem barst dóminum, 6. september 2012, með bréfi slitastjórnar VBS eignasafns hf., var þingfest 6. nóvember það ár og tekið til úrskurðar 6. júní 2013.
Sóknaraðili, Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík, krefst þess að sú fjárkrafa sem hann lýsti í slitabú varnaraðila, VBS eignasafns hf., vegna peningamarkaðsláns, dags. 1. mars 2010, 104.713.948 kr., njóti rétthæðar eftir 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, þannig að veðréttur sóknaraðila á grundvelli kröfunnar taki til sex veðskuldabréfa sem voru handveðsett Sparisjóðnum í Keflavík með yfirlýsingu, 6. ágúst 2009, gefin út af Fjarðarverki ehf., kt. 580294-2789, tvö að fjárhæð 6.200.000 kr., bæði dags. 27. nóvember 2007, og fjögur að fjárhæð 5.000.000 kr., öll dags. 19. júní 2006, öll tryggð með 1. veðrétti í fasteigninni Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaður úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, VBS eignasafn hf., kt. 621096-3039, Suðurlandsbraut 6, Reykjavík, krefst þess að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar hans að krafa sóknaraðila njóti ekki stöðu skv. 111. gr. laga nr. 21/1991 á grundvelli veðsetningar sex veðskuldabréfa áhvílandi á Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði, fastanúmer 229-2050, skv. handveðsyfirlýsingu 6. ágúst 2009.
Varnaraðili krefst jafnframt staðfestingar á því að hann sé réttmætur eigandi eignarhlutar í kröfuhafafélaginu Skjaldborg 3 ehf., kt. 610510-2210, á grundvelli hinna sex veðskuldabréfa, handveðsettum Sparisjóðnum í Keflavík, er hvíldu á Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði.
Þá krefst varnaraðili málskostnaður úr hendi sóknaraðila sem taki mið af því að varnaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur.
Málavextir
Sparisjóðurinn í Keflavík (Spkef) veitti VBS fjárfestingarbanka hf. (VBS) lán. Sóknaraðili byggir kröfu sína á því láni svo og að endurgreiðsla lánsins sé tryggð með veði. Til tryggingar því að lánið yrði greitt setti VBS Spkef að veði, 16. mars 2009, fasteign á tveimur hæðum að Tjarnarbraut 24, Reykjanesbæ. Nokkrum mánuðum síðar vildi VBS selja neðri hæð fasteignarinnar. Spkef aflétti þá veðböndum af þeim hluta hússins en VBS afhenti sparisjóðnum þess í stað að handveði sex veðskuldabréf tryggð með 1. veðrétti í Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði.
Fjármálaeftirlitið skipaði, 3. mars 2010, VBS fjárfestingarbanka hf. (nú VBS eignasafn hf.) bráðabirgðastjórn með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 9. apríl 2010, var VBS fjárfestingarbanki tekinn til slitameðferðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og honum skipuð slitastjórn. Telst 3. mars 2010 vera frestdagur í skilningi 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Með ákvörðun, 22. apríl 2010, ráðstafaði Fjármálaeftirlitið eignum og skuldum Sparisjóðsins í Keflavík til Spkef sparisjóðs með heimild í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002.
Ári síðar, 5. mars 2011, ákvað Fjármálaeftirlitið að Spkef sparisjóður skyldi sameinast Landsbankanum hf. Sá síðarnefndi er því nýr kröfuhafi hinnar umdeildu kröfu og sóknaraðili málsins. Þar sem þau atvik sem hér skipta máli gerðust fyrir 22. apríl 2010, og til hægðarauka, verður þegar vísað er til Sparisjóðsins í Keflavík notuð skammstöfunin Spkef.
Spkef var stærsti hluthafi í VBS, með 13,3% eignarhlut. Að sögn varnaraðila hóf Spkef snemma á árinu 2008 að veita VBS fjárfestingarbanka lán. Vegna þessa máls hafi þýðingu peningamarkaðslán að fjárhæð 50.000.000 kr., veitt 19. mars 2009 og sams konar lán, veitt 24. mars 2009, eða samtals að 100.000.000 kr. Varnaraðili telur veðkröfu sóknaraðila byggjast á þessum peningamarkaðslánum. Lánveitingar Spkef til VBS hafi hafist í þann mund sem stjórnendur bankans hófu viðræður við stærstu lánardrottna sína um uppgjör og fjárhagslega endurskipulagningu í upphafi ársins 2008. Á þeim tíma hafi VBS glímt við lausafjárvanda eins og aðrar fjármálastofnanir en sá vandi hafi verið víðtækt vandamál á árinu 2008.
Varnaraðili getur þess að nokkrum mánuðum áður en lánin voru veitt, 19. og 24. mars 2009, nánar tiltekið 12. nóvember 2008, hafi Angantýr V. Jónasson verið kosinn í aðalstjórn VBS. Sem stjórnarmaður hafi hann meðal annars áritað ársreikning bankans árið 2008 ásamt öðrum stjórnarmönnum. Hinn 20. maí 2009 hafi hann hins vegar tekið sæti sem varamaður í stjórn VBS, en samhliða stjórnarsetunni hjá VBS sinnti hann starfi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Keflavíkur, sem hann tók við 1. júní 2009. Sú veðtrygging er sóknaraðili byggi kröfu sína á hafi verið veitt með yfirlýsingu um handveðsetningu, 6. ágúst 2009, eða rúmum tveimur mánuðum eftir að fyrrum aðalmaður í stjórn VBS og á þeim tíma varamaður, tók við starfi sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur.
Varnaraðili getur þess einnig að Þröstur Leósson, aðalmaður í stjórn VBS frá 20. maí 2009 þar til bankinn var tekinn til slitameðferðar, sinnti, samhliða stjórnarsetu sinni, starfi sem forstöðumaður fjármálasviðs Sparisjóðs Keflavíkur.
Að sögn sóknaraðila byggist krafa hans í slitabú varnaraðila á lánssamningi sem gerður var 1. mars 2010. Gjalddagi samningsins hafi verið 8. mars 2010 og skyldu samningsbundnir vextir á tímabilinu nema 311.111 kr. Það sé óumdeilt að varnaraðili hafi vanefnt samninginn og sé skylt að greiða hann.
Til tryggingar á efndum samningsins var:
a) tryggingarbréf, dags. 16. mars 2009, með 1. veðrétti í Tjarnarbraut 24, Reykjanesbæ, til tryggingar höfuðstól að fjárhæð 150.000.000 kr. og
b) handveðsyfirlýsing, dags. 6. ágúst 2009, þar sem VBS Fjárfestingarbanki setti Spkef sex veðskuldabréf að handveði. Bréfin njóti öll 1. veðréttar í Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði. Eigandi fasteignarinnar, Fjarðarverk ehf., hafi gefið bréfin út 19. júní 2006 og 27. nóvember 2007. Þau standi til tryggingar samtals 32.400.000 kr.
Bæði tryggingarbréfið og handveðsyfirlýsingin hafi verið allsherjarveð, og hafi staðið til tryggingar á öllum skuldum og fjárskuldbindingum varnaraðila við sóknaraðila, hvort sem skuldbindingarnar stofnuðust „nú eða síðar“.
Eignin að Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði, var seld á nauðungarsölu 26. maí 2010. Skjaldborg kröfuhafafélag 3 ehf., kt. 610510-2210, keypti eignina. Að sögn varnaraðila eignuðust eigendur hinna áður áhvílandi veðskuldabréfa hlut í kröfuhafafélaginu í hlutfalli við veðstöðu sína áður en eignin var seld nauðungarsölu. Hagsmunir málsaðila lúti því nú að eignarhlut í kröfuhafafélaginu Skjaldborg 3 ehf. á grundvelli hinna sex veðskuldabréfa er hvíldu á Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði.
Við aðalmeðferð málsins gerði lögmaður sóknaraðila grein fyrir því að sóknaraðili væri ekki félagi í þessu kröfuhafafélagi og nyti þar einskis réttar.
Kröfulýsingarfresti í slitabú varnaraðila lauk 12. nóvember 2010. Skiptafundur, þar sem fjallað var um skrá um lýstar kröfur á grundvelli 5. tl. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991, var haldinn 9. desember 2010. Afstaða slitastjórnar varnaraðila til kröfu sóknaraðila lá ekki fyrir á þeim fundi. Á fundinum lét sóknaraðili bóka að hann teldi kröfu sína samþykkta við skiptin, þar sem henni hefði ekki verið hafnað fyrir fundinn. Byggðist afstaða sóknaraðila á því að slitastjórn sé skylt að fylgja 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, þar sem segir að fallist skiptastjóri ekki á að viðurkenna kröfu að öllu leyti, eins og henni hefur verið lýst, skuli hann tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa um afstöðu sína til hennar með minnst viku fyrirvara áður en skiptafundur verður haldinn til að fjalla um skrá um lýstar kröfur.
Afstaða varnaraðila til kröfu sóknaraðila lá ekki fyrir fyrr en 18. ágúst 2011. Í afstöðubréfi varnaraðila segir að sú lánveiting, sem krafa sóknaraðila byggist á, hafi farið fram 1. mars 2009, eða ári fyrr en peningamarkaðslánið, sem krafa sóknaraðila byggist á, var veitt. Slitastjórn telji „veðsetningar þessar riftanlegar skv. ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991“ og hafi hafnað að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem veðkröfu á grundvelli 111. gr. laga nr. 21/1991. Krafan var hins vegar samþykkt að fjárhæð 101.725.219 kr. sem almenn krafa á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila með tölvuskeyti, 23. ágúst 2011. Á kröfuhafafundi, 23. nóvember 2011, ítrekuðu báðir aðilar afstöðu sína. Á fundinum lét lögmaður sóknaraðila bóka að umrædd lánveiting hefði farið fram 1. mars 2010, en ekki 1. mars 2009, eins og haldið væri fram í bréfi varnaraðila. Í kjölfarið var afstöðu varnaraðila til kröfunnar frestað.
Hinn 10. maí 2012 barst sóknaraðila að nýju bréf varnaraðila með afstöðu til kröfunnar. Í bréfinu miðaði varnaraðili enn við að lánveitingin, sem sóknaraðili byggir kröfu sína á, hefði farið fram 1. mars 2009. Á gjalddaga hafi lánið verið uppgreitt með nýju láni og þannig velt áfram til 11. ágúst 2009. Frá og með þeim degi hafi skilmálum lánsins verið breytt allt til 1. mars 2010, það er þess dags sem sóknaraðili byggir á að lánið hafi verið veitt. Afstaða slitastjórnar var því óbreytt. Að sögn varnaraðila kom síðar í ljós að nýir samningar voru gerðir um framlengingu eftir 11. ágúst 2009 en þeir hafi verið skráðir sem skilmálabreyting í lánakerfi VBS.
Enn var haldinn fundur, 18. maí 2012, vegna ágreinings um kröfu sóknaraðila. Á honum samþykkti varnaraðili veðréttindi sóknaraðila á grundvelli tryggingarbréfs sem tryggði lán að fjárhæð 150.000.000 kr. og hvíldi á eigninni Tjarnarbraut 24, Reykjanesbæ. Tryggingarbréfið er dagsett 16. mars 2009, eða 16 dögum eftir að umrætt lán var veitt að mati varnaraðila. Hins vegar hélt varnaraðili fast við fyrri afstöðu sína til veðréttinda sóknaraðila í sex veðskuldabréfum á grundvelli handveðsyfirlýsingar sem var gefin út 6. ágúst 2009, og taldi þá veðsetningu riftanlega á grundvelli 137. gr. laga nr. 21/1991.
Af upphaflegum ágreiningi málsaðila er því óleystur ágreiningur um þau sex veðskuldabréf sem sett voru sóknaraðila að handveði með yfirlýsingu, 6. ágúst 2009, og hvíldu á eigninni Tjarnarvellir 3, Hafnarfirði.
Í samræmi við 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skaut slitastjórn varnaraðila þessum ágreiningi til dómsins.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir dómkröfur sínar á því að slitastjórn varnaraðila hafi ekki haft lagaheimild fyrir því að hafna því að fjárkrafa hans nyti stöðu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 í kröfuröð svo seint sem hún gerði, handveðsetningin, 6. ágúst 2009, sé ekki riftanleg, sóknar- og varnaraðili séu ekki nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 og þar að auki hafi varnaraðili ekki verið ógjaldfær þegar hann setti Spkef veðskuldabréfin sex að handveði.
Ekki voru lagaskilyrði til að hafna kröfu sóknaraðila
Sóknaraðili vísar fyrst til þess að afstaða slitastjórnar VBS eignasafns til kröfu hans hafi ekki legið fyrir þegar skiptafundur um lýstar kröfur var haldinn í búi varnaraðila, 9. desember 2010. Í 5. tölulið 1. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 segi að innan mánaðar frá lokum kröfulýsingarfrests skuli halda skiptafund í þrotabúi þar sem fjallað sé um skrá um lýstar kröfur. Kröfulýsingarfresti í slitabúi varnaraðila hafi lokið 14. nóvember 2010 og fundur til að fjalla um kröfuskrá hafi verið haldinn 9. desember 2010. Óumdeilt sé að afstaða varnaraðila til kröfu sóknaraðila hafi ekki legið fyrir á þeim fundi. Því hafi sóknaraðili látið bóka að hann teldi kröfu sína samþykkta við skiptin.
Í 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 segi að skiptastjóri skuli tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa afstöðu sína til kröfu með minnst viku fyrirvara áður en haldinn sé skiptafundur til að fjalla um skrá um lýstar kröfur. Eina undantekningin frá ákvæðinu sé í 1. mgr. 119. gr. þar sem segi að skiptastjóra sé óskylt að taka afstöðu til kröfu megi telja fullvíst að ekki geti komið til greiðslu hennar að neinu leyti við skiptin. Ákvæðið eigi ekki við í tilviki sóknaraðila.
Gagnálykta verði frá ákvæði 2. mgr. 119. gr. á þann veg að berist kröfuhafa ekki minnst viku fyrir skiptafund tilkynning um afstöðu skiptastjóra til kröfunnar, teljist krafan endanlega samþykkt við skiptin. Þegar af þeirri ástæðu beri að fallast á kröfu sóknaraðila.
Veðsetningin er ekki riftanleg
Sóknaraðili byggir næst á því að óumdeilt sé að gildur veðsamningur liggi kröfu hans til grundvallar. Ágreiningur málsaðila lúti að því hvort varnaraðili geti mótmælt kröfulýsingu sóknaraðila á grundvelli 137. gr. laga nr. 21/1991 þ.e.a.s. hvort handveðsetning VBS á framangreindum sex veðskuldabréfum sé riftanlegur gerningur.
Sóknaraðili telur ráðstöfunina ekki riftanlega. Ákvæði 137. gr. laga nr. 21/1991 sé ótvírætt að því leyti að það taki aðeins til riftunar á tryggingarréttindum fyrir eldri skuld. Í því felist að sé stofnað til skuldar samtímis tryggingarréttindum eða síðar, séu slík tryggingarréttindi ekki riftanleg. Varnaraðili verði því að sýna fram á að tryggingarréttindi sóknaraðila hafi stofnast eftir að skuldin stofnaðist. Það hafi varnaraðili ekki gert.
Sóknaraðili telur hafið yfir allan vafa að sá lánssamningur, sem krafa hans í bú varnaraðila byggist á, hafi verið gerður 1. mars 2010. Sá samningur standi að öllu leyti sjálfstæður. Þar sé hvorki vísað til eldri lánssamninga, né komi þar fram að hann sé skilmálabreyting eða framlenging eldri lánssamnings. Í samningnum sé þvert á móti tekið skýrt fram hver sé höfuðstóll lánsins, lánskjör, gjalddagi, lánsnúmer og annað sem sé nauðsynlegt í lánssamningi. Í texta samningsins segi að skjalið sé staðfesting á peningamarkaðsláni og auk þess standi skýrum stöfum í samningnum: „Auk þeirra ákvæða sem fram koma í samningi þessum gilda um hann Almennir viðskiptaskilmálar VBS Fjárfestingarbanka hf., sem viðskiptamaður hefur fengið og kynnt sér.“
Skjalið hafi því ekki neina tilvísun til eldri lánssamninga og teljist sjálfstæður lánssamningur. Í því sambandi breyti ekki neinu þótt varnaraðili kunni að hafa skráð lánið á annan hátt í bækur sínar (sem þó sé ósannað). Lánið hafi verið veitt 1. mars 2010, en tryggingarréttindin hafi stofnast 6. ágúst 2009. Tryggingarréttindin séu því ekki riftanleg samkvæmt 137. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili hafi haldið því fram að samningurinn frá 1. mars 2010 sé „skilmálabreyting“ eldri samnings. Því til stuðnings hafi varnaraðili ekkert fært fram annað en útprentun úr bókhaldi sínu, sem fylgdi afstöðubréfi varnaraðila, 10. maí 2012. Sú útprentun sé afar óljós og sanni ekki fullyrðingu varnaraðila. Sóknaraðili byggir auk þess á því að útprentunin hafi ekkert sönnunargildi í málinu.
Verði þrátt fyrir það talið að úrslit málsins geti ráðist af því hvort skjalið sé skilmálabreyting eða sjálfstæður lánssamningur, tekur sóknaraðili fram:
- að hver samningur aðila hafði sjálfstætt númer, skuldbinding hvers samnings ráðist að fullu af texta hans sjálfs án tilvísana til fyrri samninga og í hverjum samningi felist skuldbinding um að efna hann á gjalddaga á þeim kjörum sem um var samið. Samningurinn sé því sjálfstæður lánssamningur, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 130/2011 og 15/2012.
- að á varnaraðila hvíli sönnunarbyrðin fyrir því að skjölin séu aðeins skilmálabreytingar en þá byrði hafi hann ekki axlað.
- að varnaraðili sjálfur samdi texta samningsins og sá um útreikning hans. Allan vafa um efni samningsins, þar með hvort hann sé skilmálabreyting eldri samnings verði að skýra varnaraðila í óhag.
Við úrlausn málsins sé mjög mikilvægt að gera skýran greinarmun á láninu sem var veitt 1. mars 2009 sem varnaraðili vísar ranglega til í bréfum sínum frá 18. ágúst 2011 og 10. maí 2012 sem peningamarkaðsláns sem krafa sóknaraðila sé reist á og lánssamningsins frá 1. mars 2010 sem krafa sóknaraðila sé raunverulega reist á.
Aðalatriðið, við mat á því hvort samningurinn frá 1. mars 2010 sé skilmálabreyting eða sjálfstæður lánssamningur, sé þó það að varnaraðili hafi sjálfur viðurkennt að frá 1. mars 2009 til 11. ágúst 2009 hafi uppgreiðsla eldri lánssamninga farið fram með nýjum lánssamningum. Þetta komi meðal annars fram í afstöðubréfi varnaraðila, 10. maí 2012, þar sem segi: Í framhaldi af lánveitingunni [1. mars 2009] var lánið uppgreitt með nýju láni og þannig velt áfram með fjölda lánveitinga allt til 11. ágúst 2009. Varnaraðili hafi enn fremur staðfest þessa afstöðu sína með því að samþykkja kröfu sóknaraðila til tryggingarréttinda sem stofnað var til 16. mars 2009 í fasteign í Reykjanesbæ. Þessi afstaða staðfesti að lánssamningur aðila hafi ekki verið gerður 1. mars 2009, enda hefði varnaraðili væntanlega haldið fast við kröfu sína um riftun tryggingarréttindanna frá 16. mars 2009 væri lánssamningurinn raunverulega frá 1. mars 2009.
Sá lánssamningur, sem varnaraðili haldi nú fram að hafi verið skilmálabreytt 1. mars 2010, hafi því samkvæmt yfirlýsingu varnaraðila verið gerður 11. ágúst 2009. Veðréttindin, sem standi til tryggingar greiðslu lánsins, hafi verið veitt sóknaraðila með handveðsetningu 6. ágúst 2009. Þótt fallist yrði á málatilbúnað varnaraðila að öllu leyti, hafi tryggingarréttindin engu að síður verið veitt fimm dögum áður en stofnað var til skuldarinnar. Tryggingarréttindin séu því ekki riftanleg á grundvelli 137. gr. laga nr. 21/1991, enda hugtaksskilyrði að til þeirra hafi verið stofnað til tryggingar á eldri skuld, þ.e. eftir að stofnað var til skuldarinnar. Óumdeilt sé að skuldin sé yngri tryggingarréttindunum sem nemi fimm dögum og því séu þau ekki riftanleg.
Varnaraðili hafi ekki fært frekari málsástæður fyrir afstöðu sinni. Því verði ekki séð hvernig unnt sé að hafna kröfulýsingu sóknaraðila.
Sóknaraðili og varnaraðili eru ekki nákomnir
Afstaða varnaraðila byggist á því að umrædd tryggingarréttindi séu riftanleg á grundvelli 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi hin meinta riftanlega ráðstöfun farið fram meira en sex mánuðum fyrir frestdag varnaraðila.
Þar sem byggt sé á 2. mgr. ákvæðisins verði varnaraðili, auk þess að sýna fram á að ráðstöfunin sé riftanleg, að sýna fram á að varnar- og sóknaraðili séu nákomnir í skilningi 3. gr. laganna. Sóknaraðili byggi á því að hann hafi ekki verið nákominn varnaraðila í skilningi ákvæðisins. Sönnunarbyrði um þetta atriði hvíli á varnaraðila.
Varnaraðili var ekki ógjaldfær
Í fjórða lagi tekur sóknaraðili fram að það sé jafnframt skilyrði riftunar skv. 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 að VBS hafi verið ógjaldfær þegar hin riftanlega ráðstöfun átti sér stað. Í bréfi varnaraðila til sóknaraðila, 18. ágúst 2011, sé því haldið fram að VBS hafi verið ógjaldfær á árinu 2008. Það sé ekki rökstutt frekar í bréfinu.
Í ársreikningi VBS vegna ársins 2008 segi meðal annars: Hagnaður varð af rekstri bankans á árinu að fjárhæð 1.095 millj. kr. samanborið við 1.416 millj. kr. hagnað á árinu 2007. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir bankans 56.272,6 millj. kr. og er bókfært eigið fé í lok ársins 8.943 millj. kr. Eiginfjárhlutfall samkvæmt ákvæðum 84. greinar laga um fjármálafyrirtæki var í lok árs 17,4% en sambærilegt hlutfall í árslok 2007, reiknað skv. eldra regluverki, var 22,3%.
Ljóst sé að bankinn hafi ekki verið ógjaldfær á árinu 2008 miðað við framangreindar yfirlýsingar hans sjálfs. Þetta skilyrði riftunar sé því ekki uppfyllt og beri varnaraðili sönnunarbyrði fyrir því að ársreikningur bankans sé rangur að þessu leyti, sem og að hann hafi verið ógjaldfær þegar hin meinta riftanlega ráðstöfun fór fram, 6. ágúst 2009.
Fjárhæð kröfu
Sóknaraðili byggir á því að samþykkja beri kröfu hans við slit varnaraðila eins og henni var lýst. Í því felist að samþykktur verði innheimtukostnaður að fjárhæð 2.988.726 kr. en varnaraðili hafi hafnað þeirri kröfu sóknaraðila. Engin rök hafi verið færð fram fyrir því að hafna kröfunni, en slíkur kostnaður við innheimtu fjárkröfu sem nemi meira en eitt hundrað milljónum króna sé með öllu eðlilegur og sanngjarn. Sóknaraðili fallist á að kostnaður vegna kröfulýsingar að fjárhæð 9.591 kr. teljist eftirstæð krafa og sé krafa sóknaraðila í þessum þætti málsins lækkuð sem því nemi.
Málskostnaður
Krafa sóknaraðila um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir á því að veðsetning hinna sex veðskuldabréfa áður áhvílandi á Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði, fastanúmer 229-2050, fari gegn 137. gr. laga nr. 21/1991. Því beri að rifta handveðsetningu þessara bréfa og staðfesta að krafa sóknaraðila njóti stöðu sem almenn krafa í slitabúi varnaraðila. Þar sem eignin hafi verið seld nauðungarsölu krefjist varnaraðili jafnframt staðfestingar á því að hann sé réttmætur eigandi eignarhlutar í kröfuhafafélaginu Skjaldborg 3 ehf. á grundvelli hinna sex veðskuldabréfa er hvíldu á Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði.
Riftun á grundvelli 137. gr. laga nr. 21/1991
Í fyrsta lagi byggir varnaraðili á því að til hinnar umdeildu veðsetningar hafi verið stofnað sóknaraðila til hagsbóta þar sem honum hafi verið veittar tryggingar fyrir eldri skuld. Veðsetningin eða veiting tryggingarréttindanna hafi ekki farið fram á sama tíma og skuldin stofnaðist.
VBS fjárfestingarbanki hf. og Spkef hafi undirritað samning, 19. mars 2009, þar sem sá síðarnefndi hafi veitt þeim fyrrnefnda peningamarkaðsláns að fjárhæð 50.000.000 kr. og annað lán að sömu fjárhæð, 24. mars 2009. Samið hafi verið um að Spkef, sem jafnframt var stærsti eigandi VBS, aðstoðaði bankann með lánveitingu og því hafi samkvæmt samningum verið millifærðar samtals 100.000.000 kr. inn á reikning VBS 19. og 24. mars 2009. Gjalddagar lánanna hafi verið 26. og 31. mars 2009 en fjöldi samninga verið útbúinn eftir gjalddaga lánanna til framlengingar þeirra, án þess að nokkrir fjármunir færu á milli aðila lánssamningsins eins og síðar verði vikið að.
Hinn 6. ágúst 2009 hafi tryggingarréttindi verið veitt sóknaraðila með veðsetningu sex veðskuldabréfa sem hvíldu á eigninni að Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði. Sú ráðstöfun hafi því farið fram um það bil fimm mánuðum eftir lánveitinguna 19. og 24. mars 2009. Þarna hafi verið veitt tryggingarréttindi fyrir eldri skuld sem stofnað var til í mars 2009. Ráðstöfunin sé því riftanleg á grundvelli 137. gr. laga nr. 21/1991.
Telja verði VBS og Spkef hafa verið nákomna í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 þegar hin riftanlega ráðstöfun fór fram, um það bil 7 mánuðum fyrir frestdag og því byggi varnaraðili á 2. mgr. 137. gr. laganna. Þar segi að ákvæði 1. mgr. eigi við að öðru leyti nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir stofnun tryggingarréttindanna. Varnaraðili telur ljóst að VBS fjárfestingarbanki hafi verið ógjaldfær snemma á árinu 2008 en sönnunarbyrði um gjaldfærni hvílir á sóknaraðila eins og leiða megi af 2. mgr. 137. gr. laganna. Í ljósi fram kominna raka og lagastoðar í ákvæðinu sé óhjákvæmilegt að rifta þeirri veðsetningu sem fór fram 6. ágúst 2009.
Lánveiting og framlenging lána
Óumdeilt sé að Spkef hafi veitt VBS fjárfestingarbanka peningamarkaðslán 19. og 24. mars 2009, hvort að fjárhæð 50.000.000 kr. eða samtals 100.000.000 kr. Eðli málsins samkvæmt hafi því verið millifærðar samtals 100.000.000 kr. af reikningi Spkef yfir á reikning VBS í mars 2009. Að mati varnaraðila verður að byggja veðkröfu sóknaraðila á þessum lánum, dags. 19. og 24. mars 2009.
Gjalddagar lánanna hafi verið 26. og 31. mars 2009 en sökum fjárhagslegra erfiðleika VBS hafi bankanum verið ógerlegt að endurgreiða þau. Því hafi verið farin sú leið að framlengja lánin og útbúnir nýir samningar sem námu sömu fjárhæðum og áður höfðu verið teknar að láni og lánin framlengd um viku, þ.e.a.s. til 2. og 7. apríl 2009.
Hinn 7. apríl 2009 hafi lánin verið sameinuð í eitt peningamarkaðslán að fjárhæð 100.000.000 kr. og gjalddaginn framlengdur til 14. apríl. Þegar VBS óskaði eftir framlengingu hafi, svo dæmi sé tekið, tölvuskeyti 1. apríl 2009 til Spkef hljóðað þannig: „náum við að rúlla þessu áfram hvoru tveggja fram á þriðjudag í næstu viku.“ Viðbrögð Spkef hafi ekki látið á sér standa og framlenging peningamarkaðslánsins hafi verið samþykkt, enda hafi Spkef, vegna eignarhluta síns í bankanum, haft fjárhagslega hagsmuni af því að lánið gjaldfélli ekki.
Bæði fyrirtækin hafi því undirritað nýjan samning 1. apríl 2009 og frestað gjalddaganum til 7. apríl. Á þeim degi hafi verið undirritaður annar samningur um framlengingu til 14. apríl 2009. Þann dag hafi verið útbúinn enn annar samningur um framlengdan gjalddaga til 21. apríl 2009 o.s.frv. Þannig hafi samskipti VBS og Spkef gengið fyrir sig vikulega á tímabilinu 18. mars 2009 til 1. mars 2010 eins og fram lagðir samningar um peningamarkaðslánið sýni.
Vegna þessa fyrirkomulags hafi peningamarkaðslánið aldrei fallið í vanskil og fært sem uppgreitt eða skilmálabreytt í bækur VBS og verið velt áfram með fjölda samninga allt til 1. mars 2010, þ.e.a.s. til þess dags er sóknaraðili telji lánið hafa verið veitt.
Samskipti vegna framlengingar lánsins virðist hafa farið fram með tölvupósti og sá háttur hafður á að VBS sendi Spkef nýjan samning undirritaðan af sinni hálfu með framlengdum gjalddaga um viku í senn. Spkef staðfesti móttöku og undirritaði af sinni hálfu samþykki fyrir framlengingu lánsins. Með þessum hætti hafi peningamarkaðslánið verið látið rúlla áfram eins og aðilar orðuðu það í samskiptum sín á milli, sbr. tölvupósta dags. 31. mars til 1. apríl 2009.
Þegar Spkef, sem lánveitandi, lengdi í lánum VBS sökum ógjaldfærni bankans hafi yfirskrift tölvupóstanna iðulega verið framlenging. Í efni póstanna hafi auk þess oftar en ekki komið fram beiðni um framlengingu sem Spkef samþykkti samdægurs. Ítrekað hafi því, á tímabilinu 18. mars 2009 til 1. mars 2010, í tölvuskeytum aðilanna, verið rætt um framlengingu peningamarkaðslánsins á einn eða annan hátt, enda hafi annað ekki verið hægt vegna ógjaldfærni VBS, sem Spkef vissi um sem lánveitandi og stærsti einstaki eigandi bankans.
Einungis í upphafi, 19. og 24. mars 2009, þegar peningamarkaðslánin voru veitt hafi Spkef afhent VBS fjármuni, samanlagt 100.000.000 kr. eins og bankayfirlit sýni. Peningamarkaðslánin frá því í mars 2009 hafi aldrei verið greidd upp við gerð hinna nýju samninga. Á milli aðila hafi ekki farið neinir fjármunir til greiðslu lánanna við gerð samninganna, hvorki við fyrsta gjalddaga 26. mars 2009, 11. ágúst 2009 né síðar, enda hafi lánið eingöngu verið framlengt. Einu greiðslurnar frá VBS til Spkef vegna peningamarkaðslána á tímabilinu 18. mars 2009 til 1. mars 2010 hafi verið samningsvextir sem rekja megi til lánsins í mars 2009, sbr. meðal annars millifærslu 359.722 kr., 11. ágúst 2008, og 311.111 kr., 1. mars 2010.
Í ljósi alls ofangreinds telur varnaraðili Spkef hafa eignast kröfu sína í mars 2009 en ekki 2010 eins og hann haldi fram. Samningaferli og samskipti aðilanna á tímabilinu beri það glöggt með sér að peningamarkaðslánið hafi verið framlengt en ekki veitt nýtt lán vikulega. Þar að auki sé ekki annað hægt við skoðun samningaferilsins en að líta til stöðu Spkef sem lánveitanda og jafnframt stærsta hluthafa í VBS. Markmiðið hafi verið skýrt, að halda VBS gangandi þrátt fyrir ógjaldfærni bankans.
Varnaraðili mótmælir því sérstaklega að sóknaraðili geti byggt kröfu sína á samningi gerðum 1. mars 2010. Krafa sóknaraðila hafi stofnast 19. mars 2009 eins og rakið hafi verið. Túlkun sóknaraðila á samningnum frá 1. mars 2010 og þýðingu hans sé að öllu leyti mótmælt. Undanfari samningsins frá 1. mars 2010 hafi verið hinir fjölmörgu samningar er gerðir voru milli aðila á tímabilinu 19. mars 2009 til 1. mars 2010. Eldri lánssamningur frá mars 2009 hafi ítrekað verið framlengdur eins og samskipti aðila og samningsferlið ber með sér. Ólíklegt sé að Spkef, sem gjörþekkt hafi stöðu VBS, hefði lánað bankanum 100.000.000 kr., tveimur dögum áður en bankinn var tekinn til slitameðferðar 3. mars 2010. Hvatir Spkef til að framlengja peningamarkaðslánið hafi verið eigin hagsmunir sem stærsta hluthafa í bankanum.
Varnaraðili mótmælir því einnig að dómar Hæstaréttar Íslands í málum nr. 130/2011 og 15/2012 geti átt við eins og atvikum hér sé háttað. Markmið og eðli gjaldmiðlaskiptasamninga eða afleiðusamninga sé allt annað en peningamarkaðslána, auk þess sem staða aðila, atvik og aðdragandi samninganna séu ekki sambærileg.
Sóknaraðili og varnaraðili eru nákomnir
Sóknaraðili byggir á því að VBS fjárfestingarbanki og Spkef hafi verið nákomnir aðilar í skilningi 5. og 6. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991. Frestdagur vegna slitameðferðar VBS sé 3. mars 2010. Hin riftanlega ráðstöfun þar sem Spkef hafi verið veitt tryggingaréttindi honum til hagsbóta hafi farið fram 6. ágúst 2009 og því utan hefðbundins riftunarfrests.
Þegar hin umdeilda veðsetning fór fram hafi Spkef verið stærsti einstaki hluthafi í VBS, með 13,3% eignarhlut og verði því að telja sparisjóðinn hafa átt verulegan eignarhlut í bankanum. Þar fyrir utan hafi Spkef átt stóran hluta í Sparisjóðsbanka Íslands hf. sem einnig hafi verið hluthafi í VBS með 4,3% hlut. Í lok árs 2008 hafi hluthafar i VBS verið 103, en stærstu hluthafar bankans utan sóknaraðila hafi verið Sund ehf. með 12,3%, BYR sparisjóður 11,4% og Sparisjóður Mýrasýslu með 10,0%. Í krafti eignarhluta síns hafi Spkef, á þessum tíma, haft stöðu í stjórn VBS sem fylgdu þau áhrif að ákvarðanir voru teknar honum til hagsbóta. Tryggingar hafi því verið settar fyrir eldri skuld til að vernda fjárhagslega hagsmuni stærsta einstaka eiganda bankans. Afleiðingarnar séu þær að jafnræði kröfuhafa hafi verið raskað, en sóknaraðila, sem sérfróðum aðila, hafi verið í lófa lagið að hafa fyrir löngu gengið frá veðsamningum vegna lánveitinga.
Tengsl aðila hafi verið þau að Angantýr V. Jónasson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, hafi verið varamaður í stjórn VBS þegar hin riftanlega ráðstöfun fór fram. Áður hafi hann lengi setið sem aðalmaður í stjórn VBS. Hann hafi verið aðalmaður í stjórn VBS þegar Spkef veitti bankanum lán í mars 2009 og gjörþekkti fjárhagslega stöðu bankans sem hafi verið vægast sagt slæm allt frá upphafi ársins 2008. Það hafi því ekki verið nein tilviljun að VBS hafi veitt Spkef tryggingar vegna eldra láns sem VBS var ófært að greiða um það bil tveimur mánuðum eftir að Angantýr tók við störfum sem sparisjóðsstjóri 1. júní 2009.
Eins og greini í lýsingu málsatvika hafi Þröstur Leósson, aðalmaður í stjórn VBS frá 20. maí 2009 þar til bankinn var tekinn til slitameðferðar, einnig verið forstöðumaður fjármálasviðs Sparisjóðsins í Keflavík. Þröstur hafi því verið forstöðumaður fjármálasviðs Spkef þegar tryggingarnar voru veittar 6. ágúst 2011 skv. handveðsyfirlýsingu. Hann hafi þar að auki tekið beinan þátt í framlengingu peningamarkaðslánsins frá mars 2009, sbr. meðal annars tölvuskeyti, 7. júlí 2009.
Ekki aðeins hafi eignarhlutur Spkef í VBS verið verulegur í skilningi 5. tl. 3. gr. laga nr 21/1991 heldur hafi tengsl félaganna tveggja í ljósi stöðu og þekkingar Angantýs og Þrastar verið þannig að skilyrðum 6. tl. 3. gr. laganna sé einnig fullnægt þar sem þau tengsl séu sambærileg þeim sem tilgreind eru í 1.-5.tl. 3. gr. Með hliðsjón af framangreindu, sérstaklega með vísan í 5. og 6. tl. 3. gr. laganna, teljist Spkef hafa verið nákominn VBS í skilningi laga nr. 21/1991.
Ógjaldfærni
Varnaraðili telur VBS Fjárfestingarbanka hafa verið ógjaldfæran þegar í byrjun árs 2008. Riftunarregla 137. gr. laga nr. 21/1991 sé hlutlæg og ráðstafanir er falli innan marka hennar séu því riftanlegar. Ráða megi af almennri orðskýringu 2. mgr. 137. gr. þar sem segir: „[...] nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær“ að sönnunarbyrðin fyrir gjaldfærni þrotamanns hvíli á riftunarþola. Sóknaraðila beri að færa sönnur fyrir því að varnaraðili hafi verið gjaldfær þegar hin riftanlega ráðstöfun fór fram, 6. ágúst 2009, en þá sönnun hafi sóknaraðili ekki fært fram.
Endurskoðunarfyrirtækið Ernst og Young hafi metið hvenær VBS hafi orðið ógjaldfær en skýrsla endurskoðendanna hafi legið fyrir 17. janúar 2011. Að mati skýrsluhöfunda hafi VBS verið orðinn ógjaldfær strax snemma árs 2008. Nánar til tekið segi í niðurstöðukafla skýrslunnar að VBS hafi verið kominn í fjárhagsleg vandræði í byrjun árs 2008 vegna lausafjárskorts. Stór hluti skulda varnaraðila hafi verið á gjalddaga á fyrstu mánuðum ársins 2008. Eignir sem varnaraðili flokkaði sem skammtímaeignir hafi í raun verið illseljanlegar og fram komi að erfitt hafi verið að breyta þeim í lausafé til að greiða af skuldum.
Sérstaklega sé í niðurstöðunum fjallað um vendipunkt í fjárhagslegri stöðu bankans þegar hann gat ekki greitt af lánum til BYRs sparisjóðs, lögbundið lausafjárhlutfall náðist ekki og bankinn neyddist til að óska eftir auknum fyrirgreiðslum hjá Landsbankanum. VBS hafi fengið þær í formi aukins yfirdráttar um einn milljarð króna og vegna þessa hafi stjórn hans skuldbundið sig til að setja Landsbankanum að veði 60% af útlánasafni sínu.
Með þessa tvo þætti í huga, greiðslufall skuldbindinga við BYR í lok febrúar og veðsetningu 60% af útlánasafni VBS til Landsbankans, hafi orðið ljóst að bankinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og ekki hafi verið nokkrar líkur á því að úr fjárhag hans rættist í náinni framtíð.
Í fyrrgreindri skýrslu Ernst og Young sé meðal annars fjallað, í kafla 2., um ársreikninga VBS og sérstaklega hvernig ársreikningur ársins 2008 hafi ekki gefið rétta mynd af raunverulegri stöðu bankans. Þar sé rakið að þyngst vegi tekjufærsla í rekstrarreikningi, sem nam tæpum 9,4 milljörðum króna, vegna mismunar á vöxtum sem VBS buðust á markaði og vöxtum á skuldbreytingarláni sem VBS fékk frá ríkissjóði vegna uppgjörs við Seðlabanka Íslands í lok árs 2008. Hefði þessi fjárhæð ekki verið tekjufærð hefði ógjaldfærni bankans verið mun greinilegri í ársreikningi 2008.
Með fyrrgreind atriði að leiðarljósi sé mómælt þeirri fullyrðingu sóknaraðila að bankinn hafi ekki verið ógjaldfær á árinu 2008. Varnaraðili ítrekar að á sóknaraðila hvíli sönnunarbyrði fyrir því að að VBS hafi verið gjaldfær. Hin umdeilda veðsetning, í ágúst 2009, hafi verið Spkef til hagsbóta, þegar VBS var löngu orðinn ógjaldfær og því beri að rifta henni á grundvelli 137. laga nr. 21/1991.
Tilgangur riftunarreglna
Varnaraðili vísar til þess að reglum gjaldþrotaskiptalaga sé að meginstefnu ætlað að veita kröfuhöfum í þrotabúum jafnan rétt til greiðslna við úthlutun til þeirra. Ein af þessum reglum taki einmitt á veðkröfu eins og þeirri sem hér sé þrætuepli.
Tilgangur riftunarreglnanna sé að tryggja markmið laganna um jafnræði kröfuhafa við úthlutun eigna þrotabús og koma í veg fyrir mismunun kröfuhafa þar sem einum sé ívilnað á kostnað annarra. Riftunarreglurnar séu því tæki til að endurheimta verðmæti við gjaldþrotaskipti og koma í raun í veg fyrir að þrotabú verði fyrir fjárhagslegu tjóni.
Yrði fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að krafa hans hafi stofnast 1. mars 2010 við gerð nýs samnings um peningamarkaðslán sé í raun sveigt fram hjá tilgangi riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga og ákvæðis 137. gr. laganna. Staðan yrði í raun sú að eftir að kröfuhafa sé veitt trygging fyrir eldri skuld, sé honum lítið til fyrirstöðu að semja upp á nýtt við skuldara um sama lán og komast hjá því að trygging sem veitt er honum til hagsbóta, sé riftanleg í skilningi gjaldþrotalaga.
Sérstaklega yrði hættulegt að fallast á þetta eins og málum sé hér háttað þar sem Spkef hafi notið áhrifa innan VBS, sökum eignarhluta síns og í krafti stjórnarsetu starfsmanns Spkef í VBS.
Almenna riftunarreglan
Þá byggir varnaraðili á því að ráðstöfunin sé einnig riftanleg á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. laga nr. 21/1991. Að mati varnaraðila hafi Spkef verið eða mátt vera ljóst að sú ráðstöfun VBS, að setja þeim fyrrnefnda sex veðskuldabréf að handveði, 6. ágúst 2009, væri ótilhlýðileg og honum til hagsbóta, á kostnað annarra kröfuhafa varnaraðila og þeim til tjóns. Gögn málsins sýni að VBS og Spkef áttu um langt skeið í viðræðum og samningum um framlengingar á skuldum varnaraðila við Spkef vegna hins umdeilda peningamarkaðsláns, auk þess sem Spkef hafi verið ljóst að VBS var ófær um að greiða skuldir sínar við hann á umsaminn hátt. Samskipti aðila í tölvuskeytum og staða Spkef sem stærsta eiganda VBS, auk stöðu sparisjóðsstjóra sem varamanns í stjórn VBS og áður stjórnarmanns, starf stjórnarmanns VBS sem forstöðumanns fjármálasviðs Spkef, staðfesti vitneskju Spkef um ógjaldfærni VBS á því tímamarki. Að mati varnaraðila séu skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun uppfyllt.
Meðferð kröfu sóknaraðila við slitameðferð VBS
Varnaraðili mótmælir alfarið þeirri málsástæðu sóknaraðila að ekki séu lagaskilyrði til að hafna kröfu hans. Krafa sóknaraðila hafi hvorki verið samþykkt sem veðkrafa á skiptafundinum 9. desember 2010 né síðar.
Túlkun sóknaraðila og gagnályktun hans frá 2. mgr. 119 gr. laga nr. 21/1991 sé sérstaklega mótmælt. Varnaraðili sjái ekki að slík túlkun eigi sér nokkur fordæmi eða hliðstæður við gjaldþrotaskipti þrotabúa. Þvert á móti sé venja fyrir því og almennt viðurkennt að skiptastjórum sé heimilt að fresta afstöðu sinni til krafna hafi nægur tími eða ráðrúm ekki gefist til að taka afstöðu eða fullnægjandi upplýsingar vanti.
Slík túlkun eigi enn síður við við slitameðferð fjármálafyrirtækis. Hundruðum krafna hafi verið lýst vegna slitameðferðar VBS og til að mynda hafi sóknaraðili lýst kröfu 9. nóvember 2010 en fyrsti skiptafundur verið haldinn 9. desember 2010. Ógerningur hefði verið fyrir slitastjórn VBS innan þessa tímaramma að fara yfir allar þær kröfur er bárust vegna slitanna og taka rökstudda afstöðu þar sem farið er ofan í kjölinn á mörgum flóknum málum sem mörg hver áttu sér langan aðdraganda ásamt því að þeim fylgdi mikið gagnamagn.
Tilgang eða markmið með því að setja tímafrest í 2. mgr. 119 gr. verði að telja þann að veita kröfuhöfum nægjanlegan fyrirvara þannig að þeir hafi tök og svigrúm til að yfirfara afstöðu skiptastjóra, þegar hún liggi fyrir, og mótmæla henni, sé ástæða til, á rökstuddan og vandaðan hátt, áður en til skiptafundar kemur.
Sú túlkun sóknaraðila á ákvæðinu, að afleiðingar þess að taka ekki beina afstöðu til lýstrar kröfu viku fyrir fyrsta skiptafund séu þær að krafa teljist þá samþykkt eins og henni er lýst, gæti aldrei átt við slitameðferð fjármálafyrirtækja, þar sem hundruð eða þúsundir krafna liggja mögulega fyrir, eins og áður segi.
Afstaða hafi verið tekin til kröfu sóknaraðila 18. ágúst 2011 eða 12 dögum fyrir annan skiptafund vegna slitameðferðar VBS, 30. ágúst 2011. Með afstöðubréfi hafi kröfu Spkef verið hafnað sem veðkröfu og hún samþykkt sem almenn krafa.
Sóknaraðili hafi ekki viðrað þá afstöðu sína við varnaraðila eftir hin meintu bókuðu mótmæli að hann teldi kröfu sína samþykkta eftir fyrsta skiptafund 9. desember 2010. Hvorki á skiptafundi, 30. ágúst 2011, þar sem hann hafði tækifæri til að koma fram mótmælum sínum varðandi afstöðu kröfunnar, né á ágreiningsfundum er haldnir voru síðar vegna kröfunnar.
Skiptastjóri eða slitastjórn verði að hafa heimild til þess að fresta því að taka afstöðu til krafna með hliðsjón af lögum um gjaldþrotaskipti og lögum um fjármálafyrirtæki. Gagnályktun sóknaraðila frá ákvæði 2. mgr. 119. gr. beri því að öllu ofangreindu að hafna.
Innheimtukostnaður
Varnaraðili hafnar með öllu kröfu sóknaraðila um innheimtukostnað, þar sem hann færi ekki önnur rök en fjárhæð lýstrar kröfu fyrir því að fjárhæð innheimtukostnaðarins sé bæði sanngjörn og eðlileg. Kröfulýsing hans í slitabú VBS hafi verið einföld. Málefnið sé hvorki lögfræðilega flókið né krefjist mikillar rannsóknarvinnu eða annarrar vinnu er geti réttlætt innheimtukostnað sem nemi milljónum. Þar sem hvorki útreikningur né vinnuskýrsla styðji kröfuna verði að hafna henni.
Til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 5. og 6. tl. 3. gr., 5. tl. 1. mgr. 85. gr, 119., 137., 141. og 171. gr. Hann vísar einnig til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa varnaraðila styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa hans um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Niðurstaða
Málsaðilar bera þann ágreining undir dóminn hvort fjárkrafa sóknaraðila í bú varnaraðila njóti stöðu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili styður dómkröfu sína í fyrsta lagi þeirri málsástæðu að slitastjórn varnaraðila hafi ekki haft lagaheimild til þess að hafna kröfu sóknaraðila svo seint sem hún gerði. Telur hann gagnályktun frá 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 leiða til þess að krafan hafi verið endanlega samþykkt á fyrsta kröfuhafafundi þar sem henni hafi ekki verið hafnað fyrir fundinn.
Ekki er unnt að fallast á þessi sjónarmið sóknaraðila. Telja verður að krafa í slitabú fjármálafyrirtækis eða þrotabú einstaklings eða lögaðila hafi ekki verið samþykkt fyrr en slitastjórn eða skiptastjóri hafi tekið rökstudda afstöðu til hennar og aðrir kröfuhafar hafi ekki mótmælt þeirri afstöðu, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 375/2012. Því verður hvorki fallist á fjárhæð kröfu sóknaraðila né að hún njóti stöðu veðkröfu í kröfuröð á þessum grunni.
Varnaraðili byggir á því að fjárkrafa sóknaraðila geti ekki notið stöðu í kröfuröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 þar sem skilyrði 137. gr. laganna séu uppfyllt. Þar sem lánið, sem sóknaraðili styður kröfu sína í slitabú varnaraðila við, hafi verið veitt 19. mars 2009 en ekki 1. mars 2010, eins og sóknaraðili haldi fram, sé sú ráðstöfun VBS fjárfestingarbanka að afhenda Spkef sex veðskuldabréf að handveði, 6. ágúst 2009, riftanleg á grundvelli 137. gr. laga nr. 21/1991, þar sem stjórnendur VBS og Spkef hafi verið nákomnir í skilningi 2. mgr. 137. gr. laganna.
Í greinargerð sinni til héraðsdóms setti varnaraðili, VBS eignasafn hf., fram þá gagnkröfu að staðfest yrði með úrskurði „riftun á veðsetningu hinna 6 veðskuldabréfa áhvílandi á Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði, fastanúmer 229-2050“. Við aðalmeðferð málsins féll varnaraðili frá þessari kröfu.
Að mati dómsins er ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort ráðstöfun sé riftanleg sé þess ekki krafist að henni sé rift. Slitabú eða þrotabú sem byggir á því að ráðstöfun sé riftanleg hlýtur að vilja ná fram þeim réttaráhrifum að réttindin sem ráðstöfuninni fylgja falli í skaut búsins. Að mati dómsins verður þeim réttaráhrifum hins vegar ekki náð fram nema ráðstöfuninni sé fyrst rift.
Þegar VBS afhenti Spkef bréfin færðist ekki beinn og óskertur eignarréttur að þeim til Spkef, einungis óbeinn eignarréttur, veðréttur. Með afhendingunni greiddi VBS ekki hluta af skuld sinni við Spkef heldur afhenti einungis tryggingu, veitti handveðrétt, í eign sinni, veðskuldabréfunum.
Veðskuldabréfin sem slitabú VBS á nú voru tryggð með 1. veðrétti í fasteign, Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði. Þegar Spkef fékk veðskuldabréfin að handveði fékk sparisjóðurinn ekki veðrétt í eigninni, einungis veðskuldabréfunum. Á fyrsta veðrétti eignarinnar hvíldu 42 skuldabréf, hvert að nafnvirði 5.000.000 kr. og 42 skuldabréf, hvert að nafnvirði 50.000 evrur. Á fyrsta veðrétti hvíldu því alls 84 skuldabréf, bréf VBS þar á meðal. Verðmætið sem bréfunum í heild sinni var ætlað að tryggja nam því 210.000.000 króna og 2.100.000 evrum. Eignin var seld á nauðungarsölu fyrir 66.000.000 króna.
Veðskuldabréfum VBS var þinglýst á eignina. Í málinu kom ekki fram hvort slitabúið hefði lýst kröfu við nauðungarsöluna. Hafi það ekki gert það bar sýslumanni, samkvæmt 5. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, að gera ráð fyrir kröfunni í frumvarpi að úthlutun söluverðs með þeirri fjárhæð sem krafan gæti hæst orðið, samkvæmt hinu þinglýsta skjali, kynni kröfunni að verða lýst síðar. Þegar kominn er tími til að greiða söluverð samkvæmt úthlutunargerð og hafi enginn gert tilkall til greiðslu sem var ákveðin í úthlutunargerð, skv. 5. mgr. 50. gr., skal sýslumaður leggja hana á sérgreindan reikning við banka eða sparisjóð.
Fjárkrafa sóknaraðila í slitabúið naut veðréttar í eign VBS, veðskuldabréfunum sex, þar sem þau bréf voru sett Spkef að handveði. Andvirði eignarinnar, samkvæmt 111. gr., er sú fjárhæð sem koma átti í hlut slitabúsins við nauðungarsölu á þeirri eign sem sett var til tryggingar greiðslu veðskuldabréfanna, það er Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði. Hafi varnaraðili viljað láta reyna á það hvort hann gæti hnekkt þeim rétti sem sóknaraðili nýtur, samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, sem handveðshafi, það er að segja tilkalli til þeirrar fjárhæðar, sem koma átti í hlut slitabús varnaraðila, hversu lág sem hún kann að vera, bar varnaraðila að krefjast þess að þeirri ráðstöfun sem fólst í handveðsetningu eignar hans, veðskuldabréfanna, yrði rift.
Þar sem varnaraðili féll frá kröfu um riftun þarf, að mati dómsins, ekki að taka afstöðu til þess hvort sú ráðstöfun VBS fjárfestingarbanka, að afhenda Spkef veðskuldabréfin að handveði, sé riftanleg. Úr því svo er þarf ekki heldur að taka afstöðu til þess hvort það lán sem fjárkrafa sóknaraðila byggist á hafi verið tekið 1. mars 2010, eins og sóknaraðili heldur fram, eða 19. mars 2009, eins varnaraðili byggir á.
Sóknaraðili nýtur handveðréttar í þeim sex veðskuldabréfum sem voru sett Spkef að handveði, 6. ágúst 2009, og því verður fallist á að höfuðstóll kröfu hans og vextir, samtals 101.725.219 kr., njóti stöðu veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991.
Fallist er á það með varnaraðila að krafa sóknaraðila um innheimtukostnað sé vanreifuð og er henni vísað frá dómi.
Við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður sóknaraðila yfir því að sóknaraðili væri ekki félagi í kröfuhafafélaginu Skjaldborg 3, ehf. Varnaraðili færði ekki heldur fram nein gögn um að sóknaraðili væri þar félagsmaður. Kröfu um viðurkenningu á eignarhluta í félaginu getur varnaraðili því ekki beint að sóknaraðila. Þessa kröfu hefur varnaraðili ekkert reifað og er henni af þeim sökum vísað frá dómi.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 900.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til skyldu sóknaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Fjárkrafa sóknaraðila, Landsbankans hf., sem hann lýsti í slitabú varnaraðila, VBS eignasafns hf., vegna láns, dags. 1. mars 2010, 101.725.219 kr., nýtur rétthæðar eftir 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, þannig að veðréttur sóknaraðila á grundvelli kröfunnar tekur til sex veðskuldabréfa sem voru handveðsett Sparisjóðnum í Keflavík með yfirlýsingu, 6. ágúst 2009, gefin út af Fjarðarverki ehf., kt. 580294-2789, tvö að fjárhæð 6.200.000 kr., bæði dags. 27. nóvember 2007, og fjögur að fjárhæð 5.000.000 kr., öll dags. 19. júní 2006, öll tryggð með 1. veðrétti í fasteigninni Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði.
Kröfu sóknaraðila um innheimtukostnað er vísað frá dómi.
Kröfu varnaraðila um staðfestingu þess að hann sé réttmætur eigandi eignarhlutar í kröfuhafafélaginu Skjaldborg 3 ehf., kt. 610510-2210, á grundvelli hinna sex veðskuldabréfa, handveðsettum Sparisjóðnum í Keflavík, er hvíldu á Tjarnarvöllum 3, Hafnarfirði, er vísað frá dómi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 900.000 krónur í málskostnað.