Hæstiréttur íslands

Mál nr. 89/2010


Lykilorð

  • Útivist í héraði
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 16. september 2010.

Nr. 89/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Útivist í héraði. Frávísun máls frá Hæstarétti.

X var gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna og án þess að hafa ökuskírteini meðferðis. Með dómi héraðsdóms var X sakfelld og dómur lagður á málið að henni fjarstaddri samkvæmt heimild í 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 2. mgr. 161. gr. sömu laga gat X ekki áfrýjað slíkum dómi, en þess í stað leitað endurupptöku eftir reglum XXIX kafla laganna. Var málinu því vísað frá Hæstarétti án kröfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun að fengnu áfrýjunarleyfi 9. febrúar 2010. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar á sakfellingu, að refsing verði milduð og sviptingu ökuréttar markaður skemmri tími.

Ákærða krefst þess að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð og sviptingu ökuréttar verði markaður skemmri tími.

Með ákæru 15. október 2009 var ákærðu gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna og án þess að hafa ökuskírteini meðferðis. Ákærða mætti ekki til þings við meðferð málsins í héraði. Var dómur lagður á málið að henni fjarstaddri samkvæmt heimild í 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem henni var gerð sektarrefsing og svipting ökuréttar. Ákærðu var birtur dómurinn 10. desember 2009. Umsókn hennar um áfrýjunarleyfi var eins og áður segir samþykkt með bréfi réttarins 9. febrúar 2010. Samkvæmt 2. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 getur ákærða ekki áfrýjað slíkum dómi, en þess í stað verður leitað endurupptöku eftir reglum XXIX. kafla laganna. Samkvæmt þessu ber að vísa málinu frá Hæstarétti án kröfu.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, sem ákveðin verða að viðbættum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.