Hæstiréttur íslands
Mál nr. 330/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Réttaráhrif dóms
- Kröfugerð
- Leiðbeiningarskylda dómara
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Mál þetta á rætur að rekja til þess að félag, sem mun að öllu leyti hafa verið í eigu sóknaraðila og borið á síðari stigum heitið Drómundur ehf., gerði samning 2. maí 2007 við Landsbanka Íslands hf. um að taka „fjölmyntalán til 2 ára að jafnvirði kr. 25.000.000 ... í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 50% JPY 50%“. Lán þetta skyldi endurgreitt í einu lagi 16. maí 2009, en vextir af því, sem áttu að vera svonefndir LIBOR vextir með 1,9% álagi, skyldu þó greiddir á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 16. nóvember 2007. Í samningnum var tekið fram að lántakinn óskaði eftir að nánar tilgreindur reikningur í eigu sóknaraðila, sem virðist hafa verið tékkareikningur í krónum við Landsbanka Íslands hf., yrði skuldfærður fyrir greiðslu vaxta af láninu og endurgreiðslu höfuðstólsins. Samkvæmt fylgiskjali með samningnum óskaði lántakinn eftir því að lánið yrði greitt út með innborgun á tiltekinn reikning í eigu sóknaraðila hjá bankanum, en ekki virðist umdeilt í málinu að þetta hafi verið innlendur gjaldeyrisreikningur í bandaríkjadölum. Til að tryggja greiðslu skuldbindinga lántakans hafði sóknaraðili áður sett að handveði til bankans 25. apríl 2007 nánar tiltekna fjármálagerninga í eigu sinni ásamt vörslureikningi sem þeir voru varðveittir á.
Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd, en ráðstafaði síðan 9. sama mánaðar tilteknum eignum og skuldbindingum þess til nýs banka, sem nú ber heiti varnaraðila. Óumdeilt er að meðal þeirra eigna hafi verið réttindi samkvæmt fyrrnefndum lánssamningi og yfirlýsingu sóknaraðila um handveð.
Fyrir liggur að sóknaraðili bar í febrúar 2009 upp ósk við varnaraðila um að fá að kaupa kröfu þess síðarnefnda á hendur Drómundi ehf. samkvæmt lánssamningnum, en til að standa straum af kaupverðinu yrðu seld verðmæti sem sóknaraðili hafði sett að handveði samkvæmt áðursögðu. Varnaraðili mun hafa neitað að framselja sóknaraðila kröfuna, en samkomulag á hinn bóginn tekist um að gera upp skuldina á þennan hátt. Í því skyni mun varnaraðili hafa komið gerningunum, sem handveðréttur hans tók til, í verð á tímabilinu frá 27. febrúar til 2. mars 2009 og lagt andvirði þeirra, 27.710.315 krónur og 245.239,57 bandaríkjadali, inn á tékkareikning og gjaldeyrisreikning sóknaraðila hjá sér. Varnaraðili mun síðan 6. mars sama ár hafa tekið síðastgreinda fjárhæð af gjaldeyrisreikningi sóknaraðila og lagt andvirði hennar, 27.501.166 krónur, inn á tékkareikning hans, en fært sama dag 51.630.533 krónur af þeim reikningi til að greiða skuld Drómundar ehf. samkvæmt lánssamningnum frá 2. maí 2007.
Sóknaraðili höfðaði 27. júlí 2012 mál á hendur varnaraðila og krafðist þess að þeim síðarnefnda yrði aðallega gert að greiða sér annars vegar 24.129.367 krónur og hins vegar 245.239,57 bandaríkjadali, til vara 232.654,54 bandaríkjadali og að því frágengnu 26.089.880 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum frá 6. mars 2009 til greiðsludags. Aðalkröfuna reisti sóknaraðili á því að handveðréttur varnaraðila yfir áðurnefndum fjármálagerningum hafi fallið niður við sölu þeirra og hafi varnaraðili ekki notið nokkurra réttinda yfir söluverðinu, sem hafi verið lagt inn á óveðsetta innlánsreikninga sóknaraðila. Varnaraðila hafi af þessum sökum verið óheimilt að taka fé af reikningunum til að greiða upp skuld Drómundar ehf. Sneri aðalkrafa sóknaraðila þannig að því að varnaraðila yrði gert að endurgreiða sér féð sem hann hafi tekið til sín á þennan hátt. Varakröfurnar tvær voru á hinn bóginn byggðar á því að fjárhæð skuldar Drómundar ehf. samkvæmt lánssamningnum 2. maí 2007, sem hafi verið í krónum, hafi andstætt ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verið bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Hafi varnaraðila ekki verið heimilt að krefjast greiðslu á hærri fjárhæð en svarað hafi til höfuðstóls lánsins í krónum og umsaminna vaxta af henni og bæri honum því að endurgreiða það, sem hann hafi oftekið við uppgjör skuldarinnar, aðallega í bandaríkjadölum en til vara samsvarandi fjárhæð í krónum. Með dómi Hæstaréttar 16. mars 2015 í máli nr. 558/2014 var varnaraðili sýknaður af þessum kröfum sóknaraðila. Að því er varðaði aðalkröfu sóknaraðila var í dóminum vísað til þess að sannað væri að samkomulag hafi tekist milli aðilanna um að fjármálagerningarnir, sem sóknaraðili hafi sett að veði til tryggingar skuld Drómundar ehf., yrðu seldir til að greiða hana upp. Yrði ekki litið svo á að réttarvernd veðréttarins hafi fallið niður við það eitt að andvirði fjármálagerninganna hafi í þessum tilgangi verið lagt inn á óveðsetta innlánsreikninga sóknaraðila í skamman tíma. Um varakröfur sóknaraðila var tekið fram að við úrlausn um hvort lán hafi verið tekið í krónum með áskilnaði um að fjárhæð þess tæki breytingum eftir gengi erlendra gjaldmiðla yrði samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar fyrst og fremst að líta til texta skuldbindingar lántaka í samningi um lánið, en leiddi skýring þess texta ekki til niðurstöðu yrði að gæta að því hvernig aðilar samningsins hafi efnt skyldur sínar og framkvæmt hann að öðru leyti. Lánið, sem um ræddi, hafi verið greitt út í bandaríkjadölum með innborgun á reikning sóknaraðila, sem hafi verið stofnaður að ósk hans vegna fyrirhugaðra fjárfestinga erlendis. Að því virtu var varakröfum sóknaraðila einnig hafnað.
II
Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðila 6. janúar 2016 og eru dómkröfur hans teknar efnislega upp í hinum kærða úrskurði á þann hátt sem hann setti þær fram í héraðsdómsstefnu. Samkvæmt henni voru kröfurnar í þremur liðum auk kröfu um málskostnað.
Í fyrsta lið dómkrafna sóknaraðila krafðist hann þess aðallega að varnaraðila yrði gert að greiða sér 6.878.054 krónur og til vara 1.084.319 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. mars 2009 til greiðsludags. Samkvæmt stefnunni tengdust þessar kröfur því að varnaraðili hafi við uppgjör á skuld Drómundar ehf. 6. mars 2009 reiknað fjárhæð hennar úr svissneskum frönkum og japönskum jenum yfir í íslenskar krónur, en „ekki úr bandarískum dölum sem var lántökumyntin og sem lánið var greitt út í við lántöku“, svo sem komist var að orði í stefnunni. Aðalkrafan í þessum lið var samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila fundin þannig að lánið hafi við útborgun þess 4. maí 2007 numið 393.314,25 bandaríkjadölum og hefði átt að endurgreiða sömu fjárhæð, en eftir gengi bandaríkjadals við uppgreiðslu lánsins 6. mars 2009 hafi hún svarað til 44.211.826 króna og vextir numið 540.653 krónum. Með því að reikna fjárhæð lánsins út í svissneskum frönkum og japönskum jenum hafi varnaraðili á hinn bóginn krafist greiðslu á 51.630.533 krónum. Sneri aðalkrafan að mismuninum á þessu. Varakrafan í þessum lið virðist eftir skýringum sóknaraðila hafa tekið til gengistaps, sem myndast hafi vegna tafa af hendi varnaraðila á því að nota fjárhæð í bandaríkjadölum, sem hafi staðið inni á gjaldeyrisreikningi sóknaraðila 2. mars 2009, til að gera upp 6. sama mánaðar skuld, sem reiknuð hafi verið í svissneskum frönkum og japönskum jenum.
Í öðrum lið kröfugerðar krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér aðallega 30.571.204 krónur, til vara 3.289.602 krónur, að því frágengnu 2.485.193 krónur en ella aðra lægri fjárhæð með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. mars 2009 til 6. janúar 2016 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Samkvæmt héraðsdómsstefnu reisti sóknaraðili aðalkröfuna í þessum lið á því að varnaraðila hafi borið samkvæmt handveðsyfirlýsingunni frá 25. apríl 2007 að tilkynna sér sem veðsala ef eftirstöðvar skuldar Drómundar ehf. eftir lánssamningnum 2. maí sama ár færu fram úr 60% af markaðsverðmæti fjármálagerninganna, sem settir voru að handveði fyrir henni. Á þeim tíma hafi þessir gerningar verið taldir að andvirði 88.000.000 krónur og sóknaraðili þannig gengið út frá því að hann myndi ekki bera áhættu af því að 40% af þeirri fjárhæð, 35.200.000 krónur, gætu tapast vegna þessarar ráðstöfunar. Varnaraðili hafi ekki tilkynnt um breytingar á veðhlutfalli, en að loknu uppgjöri skuldarinnar 6. mars 2009 hafi aðeins staðið eftir 4.628.796 krónur af andvirði veðsins. Svari aðalkrafan til mismunar þessara tveggja síðastnefndra fjárhæða. Varakröfuna byggði sóknaraðili á því að samkomulag hafi tekist milli sín og varnaraðila 17. febrúar 2009 um uppgjör skuldarinnar og hafi andvirði fjármálagerninganna þann dag numið 59.548.931 krónu, en þegar varnaraðili hafi loks komið þeim í verð hafi fengist 56.259.329 krónur fyrir þá. Tók varakrafan til mismunarins á þeim fjárhæðum. Þrautavarakröfuna í þessum lið, um greiðslu á 2.485.193 krónum, fann sóknaraðili á þann hátt að verðmæti veðsettra fjármálagerninga hafi 17. febrúar 2009 numið fyrrgreindri 59.548.931 krónu, en hefði þeim þegar verið komið í verð samkvæmt samkomulagi aðilanna hefði mátt greiða upp skuld Drómundar ehf. 20. sama mánaðar þegar fjárhæð hennar hafi verið 52.434.942 krónur. Hefðu þá staðið eftir af söluverði veðsins 7.113.989 krónur í stað áðurnefndra 4.628.796 króna og tók þessi krafa til mismunarins á þeim fjárhæðum.
Í þriðja lið dómkrafna krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér aðallega 14.757.329 krónur, til vara 5.276.513 krónur og að því frágengnu aðra lægri fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. maí 2015 til greiðsludags. Samkvæmt héraðsdómsstefnu reisti sóknaraðili þessar kröfur á því að hann hafi í tölvubréfum 11. og 17. febrúar 2009 gefið varnaraðila fyrirmæli um að koma veðsettum fjármálagerningum í verð í þeim mæli, sem þyrfti til að greiða upp skuld Drómundar ehf. við varnaraðila. Gagnstætt þessum fyrirmælum hafi varnaraðili komið öllum gerningunum í verð og sóknaraðili þannig farið á mis við tekjur af þeim hluta þeirra, sem hann hefði átt að fá haldið eftir. Í aðalkröfu í þessum lið lagði sóknaraðili til grundvallar að það hefði átt að reikna út skuld Drómundar ehf. í bandaríkjadölum á þann hátt, sem miðað var við í aðalkröfu í 1. lið dómkrafna hans, en á þeim grundvelli hefði hann átt að eiga eftir nánar tiltekinn hluta fjármálagerninganna að loknu uppgjöri skuldarinnar 6. mars 2009. Markaðsverð þessa hluta gerninganna hafi 29. maí 2015 verið búið að hækka um 14.987.060 krónur og sóknaraðili því orðið fyrir tjóni, sem því svari, að frádreginni 229.731 krónu, sem hann hafi notið í vexti á því tímabili af fjárhæðinni, sem hafi í raun staðið eftir af andvirði veðsins 6. mars 2009. Varakröfuna í þessum lið dómkrafna reisti sóknaraðili á sömu forsendum að því frátöldu að þar var lagt til grundvallar að varnaraðili hafi mátt reikna út eftirstöðvar skuldar Drómundar ehf. með þeirri aðferð, sem hann beitti í raun.
III
Eins og áður greinir var aðalkrafa sóknaraðila í fyrra máli hans á hendur varnaraðila, sem lauk með dómi Hæstaréttar 16. mars 2015, reist á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að verja fé, sem stóð á innlánsreikningum sóknaraðila hjá sér, til að greiða upp skuld Drómundar ehf. samkvæmt lánssamningnum frá 2. maí 2007 sökum þess að tryggingarréttindi samkvæmt handveðsyfirlýsingunni 25. apríl sama ár hafi ekki náð til þeirra innstæðna. Varakröfur sóknaraðila í því máli voru á hinn bóginn um endurgreiðslu á fé, sem hann taldi varnaraðila hafa oftekið af þeim innstæðum til uppgjörs á skuldinni, með því að varnaraðili hafi byggt á því að hún hafi verið í erlendum gjaldmiðlum en ekki í krónum með ólögmætum áskilnaði um gengistryggingu. Í dóminum í því máli var varnaraðili sýknaður. Sá dómur hefur gagnvart málinu, sem hér er til úrlausnar, þau áhrif sem um ræðir í 1. mgr. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Þótt mál þetta eigi rætur að rekja til sömu lögskipta aðilanna og bjuggu að baki fyrra málinu eru kröfurnar, sem sóknaraðili gerir nú, í öllum atriðum reistar á öðrum forsendum. Snýst þannig mál þetta hvorki um gildi eða umfang handveðréttinda varnaraðila samkvæmt yfirlýsingunni frá 25. apríl 2007 né hvort lánssamningurinn 2. maí sama ár hafi verið um fjárhæð í krónum. Þess í stað snúast kröfur sóknaraðila nú í fyrsta lagi um það við hvaða erlenda gjaldmiðla hafi átt að miða skuld samkvæmt lánssamningnum, í öðru lagi hvort varnaraðili hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart sóknaraðila með þeim afleiðingum að varnaraðili hafi orðið að taka til sín meira af verðmæti veðsettra fjármálagerninga til uppgjörs á skuldinni en annars hefði þurft og í þriðja lagi hvort varnaraðili hafi ráðstafað meira af þessum gerningum en heimilt hafi verið. Af þessum sökum standa hvorki ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 því í vegi að sóknaraðili hafi nú uppi dómkröfur á þessum grunni né verður litið svo á að hann hefði með réttu átt að gera þær í fyrra málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. sömu laga.
Í héraðsdómsstefnu hefur sóknaraðili sett fram dómkröfur sínar með þeim hætti að þar hefur gagnstætt fyrirmælum d. og e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 ekki verið látið við það sitja að tiltaka hvers hann krefjist í einfaldri mynd, heldur er þar í löngu máli vafið inn í kröfugerðina skýringum og málsástæðum að baki henni. Kröfur sóknaraðila eru ekki hæfar til dóms í þessum búningi. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að sóknaraðili, sem er ekki lögfræðingur að mennt, fer sjálfur með mál sitt og hvílir því á héraðsdómara að leiðbeina honum um formhlið þess, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, þar á meðal um orðalag dómkrafna. Af kærumálsgögnum verður ekki séð að þessa hafi verið gætt og eru því ekki að svo komnu efni til að vísa málinu frá dómi af þessum sökum. Að öðru leyti eru ekki annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila, sem staðið geta í vegi þess að efnisdómur verði felldur á málið. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til frekari meðferðar samkvæmt framansögðu.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Varnaraðili, Landsbankinn hf., greiði sóknaraðila, Birki Leóssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2016.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 30. mars 2016 að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað 6. janúar 2016 af Birki Leóssyni, Fannafold 176, Reykjavík á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, til endurgreiðslu á ofteknum fjármunum af bankareikningum stefnanda 6. mars 2009 og til greiðslu skaðabóta vegna tapa sem stefnandi hafi orðið fyrir af völdum stefnda.
Stefnandi setur dómkröfur sínar fram með eftirgreindum hætti.
Í fyrstu dómkröfu stefnanda krefst hann þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 6.878.054 kr. sem hann oftók af bankareikningum stefnanda 6. mars 2009 við uppgreiðslu á skuldabréfi Drómundar ehf., dags. 2. maí 2007, vegna þess að stefndi reiknaði skuldina upp í íslenskar krónur úr svissneskum frönkum og japönskum jenum en ekki úr bandarískum dölum sem var lántökumyntin og sem lánið var greitt út í við lántöku. Jafnframt er þess krafist að ofgreidd fjárhæð tildæmist að bera vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. mars 2009. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur til að bæta stefnanda tap, aðallega gengistap af skuld sem reiknuð var upp í svissneskum frönkum og japönskum jenum og gengistap af innstæðu í bandarískum dölum, sem hann varð fyrir í byrjun mars 2009, samtals 1.084.319 kr. Gengistöpin urðu vegna þess að stefndi beið í nokkra daga, til 6. mars 2009, með að ráðstafa söluandvirði verðbréfa til greiðslu á skuld Drómundar ehf. við bankann. Jafnframt er þess krafist að dæmdar skaðabætur tildæmist að bera vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. mars 2009.
Í annarri dómkröfu stefnanda krefst hann þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur, 30.571.204 kr., vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir af því að stefndi lét undir höfuð leggjast að tilkynna stefnanda sem veðsala um það þegar eftirstöðvar þeirra skulda, þriðja aðila, sem handveðið átti að tryggja fór yfir 60% af markaðsverðmæti hinna veðsettu fjármálagerninga eins og honum bar að gera samkvæmt handveðsyfirlýsingu dags. 25. apríl 2007. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur, 3.289.602 kr., vegna tjóns sem hlaust af því að hann fór ekki að fyrirmælum stefnanda um sölu verðbréfa sem samkomulag var um 17. febrúar 2009. Til þrautavara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur, 2.485.193 kr., vegna tjóns sem hlaust af því að hann stóð ekki við samkomulag aðila frá 17. febrúar 2009. Til þrautaþrautavara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að annarri fjárhæð að álitum dómsins. Þess er krafist að skaðabætur eins og þær tildæmast að vera, hvort sem þær byggja á aðalkröfu, varakröfu, þrautavarakröfu eða þrautaþrautavarakröfu, beri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. mars 2009 til 6. janúar 2016 en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Í þriðju dómkröfu stefnanda krefst hann þess aðallega að stefndi greiði stefnanda skaðabætur, 14.757.329 kr., að frádregnum tildæmdum dráttarvöxtum samkvæmt aðaldómkröfu í 1. tölulið, til að bæta fyrir það tjón sem hann varð fyrir vegna tapaðrar ávöxtunar vegna þess að stefndi innleysti meira af erlendum verðbréfum stefnanda í byrjun mars 2009 en að því marki sem dygði fyrir greiðslu skuldar Drómundar ehf. við stefnda, eins og fyrirmæli voru um í tölvuskeytum í febrúar 2009. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur, 5.276.513 kr. Til þrautavara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að annarri lægri fjárhæð að álitum dómsins. Þess er krafist að skaðabætur eins og þær tildæmast að vera, hvort sem þær byggja á aðalkröfu, varakröfu eða þrautavarakröfu, beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 29. maí 2015 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað eftir mati dómsins eða síðar fram lögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins og krafist er virðisaukaskatts af dæmdri málflutningsþóknun.
Í úrskurði þessum er til úrlausnar aðalkrafa stefnda, sem er sóknaraðili í þessum þætti málsins, um að málinu verði vísað frá dómi. Stefndi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins auk virðisaukaskatts. Stefnandi, sem er varnaraðili í þessum þætti málsins, krefst þess að kröfu stefnda um að málinu verði vísað frá dómi verði hafnað og krefst málskostnaðar að mati dómsins úr hendi stefnda.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu að í árslok 2006 hafi Hverafold ehf., síðar Drómundur ehf., skuldað stefnanda alls 24.588.045 krónur, til greiðslu í apríl 2007. Í mars 2007 hafi stefnandi haft samband við Landsbanka Íslands hf. um að Hverafold ehf. fengi 25.000.000 króna lán til að greiða skuld félagsins. Landsbanki Íslands hf. hafi samþykkt lánsveitingu til félagsins og hafi verið undirrituð handveðsyfirlýsing 25. apríl 2007 og „ISK 25.000.000 LÁNSSAMNINGUR“ 2. maí 2007. Bankinn hafi greitt andvirði lánsins inn á USD-bankareikning stefnanda að hans ósk, sem strax hafi verið millifært þaðan og yfir á vörslureikning stefnanda hjá E*Trade. Stefnandi hafi þá haft í hyggju að fjárfesta á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í gegnum E*Trade. Með handveðsyfirlýsingunni hafi stefnandi veðsett verðbréfasafn sitt á vörslureikningi hjá Landsbankanum til tryggingar fyrir láni bankans til Hverafoldar ehf.
Stefnanda hafi aldrei borist nein tilkynning frá stefnda um að eftirstöðvar þeirra skulda sem handveðið ætti að tryggja færi yfir 60% af markaðsverðmæti hinna veðsettu fjármálagerninga, þrátt fyrir ákvæði í handveðsyfirlýsingu um að handveðshafi skyldi gefa handveðssala þriggja daga frest til að bæta úr eða ákveða annað. Þetta hlutfall hafi verið 28% við lántöku árið 2007. Í byrjun febrúar 2009 hafi hlutfallið verið komið vel umfram tilgreind mörk og hafi stefnandi þá ákveðið í samráði við lögmenn sína að hafa að fyrra bragði samband við stefnda varðandi málið til að hafa áhrif á hvernig að málinu yrði staðið og hvaða verðbréf yrðu innleyst. Á fundi með útibússtjóra stefnda 10. febrúar 2009 hafi stefnandi lagt til að hann keypti skuldabréf stefnda á Drómund ehf. (áður Hverafold ehf.). Útibússtjórinn hafi tekið vel í málið en óskað eftir að hann fengi tölvupóst um það, sem honum hafi verið sendur 11. febrúar 2009. Þar hafi komið fram að Drómundur ehf. væri í raun gjaldþrota, síðan segi: „Mín hugmynd er að ég persónulega kaupi skuldabréf (lánasamning) Landsbankans á Drómund og greiði fyrir með því að selja þær eignir mínar sem bankinn hefur að veði þannig að dugi fyrir láninu“. Að lokum hafi verið spurt: „Hver er afstaða bankans, er þetta eitthvað sem kæmi til greina að gera?“. Með tölvupósti 17. febrúar 2009 hafi útibússtjórinn svarað svo: „Sæll Birkir, þetta gengur. Ég læt innleysa bréfin“. Stefnandi svari að bragði nokkrum mínútum síðar til að koma í veg fyrir misskilning og segi þá m.a. „Viltu þá innleysa að fullu báða ACM sjóðina mína og það sem þarf af Landsbanka Global Equity fund upp í restina af kaupverðinu fyrir skuldabréfinu“. Það hafi orðið samkomulag aðila.
Daginn eftir, 18. febrúar 2009, hafi stefndi afturkallað það samkomulag að hluta með tölvupósti frá Einari Kristjáni Jónssyni forstöðumanni útlánaþjónustu Landsbankans þar sem segi m.a.: „Vegna uppgjörs þriðja aðila á skuldum lántaka í bankanum hefur bankinn tekið þá stefnu að samþykkja ekki framsal á lánsskjölum samhliða uppgjöri“. Í símtali við Einar Kristján síðar sama dag komi skýrt fram hjá honum að stefndi hafi ákveðið að hætta við að framselja lánsskjöl samhliða uppgjöri en beita í staðinn veðkalli. Tölvuskeyti stefnanda 26. og 27. febrúar 2009 hafi verið send til að reka á eftir því „veðkalli“, en í fyrra tölvuskeytinu segi stefnandi: „Er ekki rétt að drífa í þessu og klára málið, innleysa sjóðina greiða fyrir lánið. Viltu láta mig vita hvenær ég má vænta þess að þessi mál verði frágengin“. Í seinni tölvuskeytinu segi stefnandi: „Ég er orðinn nokkuð stressaður á þetta hefur enn ekki verið klárað. Þetta á allt að vera komið á hreint. Er ekki hægt að klára málið í dag og ganga frá greiðslum?“.
Stefndi hafi hafið sölu hinna handveðsettu verðbréfa 27. febrúar 2009 og lokið þeim 2. mars s.á. Stefndi hafi 6. mars 2009 tekið út af bankareikningum stefnanda og greitt upp skuld Drómundar ehf., 51.630.533 krónur. Innlausnarverð verðbréfanna hafi annars vegar verið lagt inn á USD-gjaldeyrisreikning stefnanda, USD 245.239,57, en skráð gengi USD við innlausn hafi verið 112,64 krónur og virði í krónum því samtals 27.623.785 krónur. Innlausnarvirði skuldabréfasjóðs Landsbanka og Landsbanka Global Equity Fund (USD) hafi verið samtals 28.655.253 krónur, innlausnarvirði allra verðbréfanna hafi verið 55.658.118 krónur og stefndi haldið eftir fjármagnstekjuskatti af innlausnarverði, 654.187 krónum. Stefndi hafi ekki farið að fyrirmælum í tölvuskeytum sem hann hafi síðar haldið fram að hefði verið samkomulag og Hæstiréttur hafi dæmt vera samkomulag.
Stefnandi hafi gert athugsemdir við stefnda þegar hann hafi áttað sig á hvernig stefndi hafi staðið að málum, fyrst með símtali við Kristján útibússtjóra og svo á fundi með honum 25. mars 2009, og óskað eftir leiðréttingu sér til handa. Með tölvupósti 4. apríl 2009 hafi hann spurst fyrir um hvort niðurstaða væri komin í það og fengið þremur dögum síðar svar um að verið væri að fara yfir málið. Stefndi hafi í framhaldinu hafnað erindi stefnanda.
Með bréfi 12. maí 2009 hafi stefnandi krafið stefnda formlega um bætur og að stefndi skilaði sér fjármunum þeim sem stefnandi teldi stefnda hafa tekið sér með óheimilum hætti og gert athugasemdir við framkvæmd stefnda í málinu. Stefndi hafi hafnað því öllu með bréfi 8. júní 2009. Í bréfinu segi stefndi m.a.: „Millifærslan fór fram í tengslum við veðkall og gjaldfellingu myntkörfulánsins og var hluti af því uppgjöri“. Einnig segi stefndi í bréfinu: „Landsbankanum var því rétt samkvæmt samningnum að leysa til sín bréfin og gjaldfella lánasamninginn þar sem Drómundur ehf. gat ekki uppfyllt tryggingarkröfur samkvæmt ákvæðum veðsamningsins og lánasamningsins“.
Stefnandi hafi sent kvörtun til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki 29. desember 2009 og kvartað yfir því að stefndi hefði tekið án heimildar út af innlánsreikningum stefnanda hinn 6. mars 2009. Í kvörtunarbréfi komi fram að um veðkall hafi verið að ræða og væri það óumdeilt í málinu. Stefndi segi í bréfi sínu dags. 19. janúar 2010 til nefndarinnar: „Millifærslan fór fram í tengslum við veðkall og gjaldfellingu myntkörfulánsins og var hluti af því uppgjöri. Það var kvartanda ljóst“. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið að rangt hafi verið staðið að málum af hálfu stefnda bæði að því er varði sölu umræddra fjármálagerninga í nafni stefnanda og millifærslur og úttektir af reikningum stefnanda hjá stefnda. Nefndin hafi þó ekki fallist á að stefnda bæri að skila hinum óheimilu úttektum af bankareikningum þar sem hún hafi talið að þá myndi stefnandi auðgast með óréttmætum hætti á kostnað stefnda.
Stefnandi hafi verið í sambandi við starfsmann stefnda, til að leita sátta, sem hafi boðist til að endurreikna lánið sem ólöglegt íslenskt lán með Seðlabankavöxtum. Stefnandi hafi hafnað því og viljað annars vegar miða við fullnaðarkvittanir og hins vegar að hann fengi ofgreiðslu af láninu greidda frá stefnda í bandarískum dölum þar sem greiðsla af láninu hefði verið í þeirri mynt. Þann 11. apríl 2012 hafi stefnandi mætt á sáttafund hjá stefnda. Þar hafi stefndi boðist til að endurreikna lánið sem ólöglega gengistryggt lán og miðað við fullnaðarkvittanir vaxta. Aðilar hafi verið sammála um það á fundinum. Uppgreiðslufjárhæð lánsins 6. mars 2009 hefði þá numið 25.540.653 krónum (lánið 25.000.000 og vextir kr. 540.653). Endurgreiðslan hefði því numið 26.089.880 krónum (51.630.533 – 25.540.653) auk vaxta frá 6. mars 2009. Stefnandi hafi viljað fá endurgreiðsluna í bandarískum dölum enda hefði stefndi tekið meira en endurgreiðslunni næmi út af gjaldeyrisreikningi hans í USD. Stefndi hafi hins vegar talið að greiðslan yrði að vera í íslenskum krónum enda væri ekki lagalega heimilt að greiða í bandarískum dölum. Í raun hafi munað um að gengi USD hafi verið 112,14 við greiðslu árið 2009 en 126,17 krónur á umræddum tíma 2012. Það hafi munað 12,5% á aðilum. Í símtali stefnanda við starfsmann stefnda 25. apríl 2012 hafi m.a. komið fram að stefndi teldi ekki lengur að lög stæðu í vegi fyrir endurgreiðslu stefnda í bandarískum dollurum en hann ætti eftir að bera undir yfirmann sinn hvort stefndi samþykkti að greiða í bandarískum dölum. Með tölvupósti 14. maí 2012 hafi stefndi tilkynnt að hann hefði ákveðið að semja ekki.
Stefnandi stefndi þann 4. september 2012 stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Með greinargerð sinni í málinu dags 23. október 2012, hafi stefndi hafnað því að um veðkall hafi verið að ræða, þrátt fyrir að það hafi verið algjörlega ágreiningslaust með aðilum fram að því í heil þrjú ár og átta mánuði. Í greinargerðinni segi stefndi: „Stefndi telur sérstaka ástæðu til þess að benda á misskilning sem var upp í málinu á fyrri stigum og þá sérstaklega fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þar kemur fram að stefndi hafi gert veðkall á grundvelli ákvæða lánasamningsins og handveðsyfirlýsingarinnar, í kjölfari gjaldfært lánið, selt handveðsettu eignirnar í nafni stefnanda og greitt inn á reikninga hans og ráðstafað andvirðinu til greiðslu lánsins. Raunin er sú að aldrei var gert veðkall og lánið var ekki gjaldfellt á grundvelli ákvæða þar um í lánssamningi“. Meðan á samningaviðræðum aðila hafi staðið veturinn 2011/2012 hafi þeir báðir talið að um veðkall væri að ræða, sbr. t.d. tölvupóst stefnda 14. maí 2012 þar sem segi að um hafi verið að ræða gjaldfellingu á láni og fullnustu á veðsettum eignum. Þessum sinnaskiptum stefnda í greinargerð 23. október 2012 hafi verið mótmælt bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Héraðsdómur hafi í dómi 27. maí 2014 fallist á aðalkröfu stefnanda um að stefnda bæri að greiða stefnanda þær 51.630.533 krónur sem stefndi hefði tekið með óheimilum hætti út af bankareikningum stefnanda auk dráttarvaxta. Ekki hafi því reynt á varakröfu um að lánssamningur hafi ólöglega verið bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla.
Stefndi hafi áfrýjað málinu til Hæstaréttar, sem í máli nr. 558/2014, hafi hafnað bæði aðal- og varakröfum stefnanda. Höfnun aðalkröfu hafi verið studd þeim rökum að ekki verði séð af gögnum málsins að áfrýjandi hafi beitt veðkalli heldur þvert á móti verði „ekki annað ráðið en að stefndi hafi áfram haft frumkvæði að og gengið eftir því að lánssamningurinn yrði greiddur, eftir að honum var tilkynnt um að ekki yrði af framsali“. Vísi rétturinn til tölvuskeyta stefnanda 26. og 27. febrúar 2009. Það hafi komið stefnanda í koll að hafa reynt að gæta hagsmuna sinna og vinna með stefnda áfram í málinu eftir að í ljós hafi komið að stefndi hafi hafnað því að fara þá leið sem stefnandi hafi viljað í málinu. Í dóminum segi um aðalkröfu: „Eins og áður segir hóf áfrýjandi síðastgreindan dag að selja hina handveðsettu fjármálagerninga. Sölunni lauk 2. mars 2009 og var andvirðið fært til greiðslu skuldar Drómundar ehf. fjórum dögum síðar. Samkvæmt öllu framanrituðu er sannað að samkomulag tókst milli málsaðila um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í þeim tilgangi að greiða umrædda skuld. Verður í því ljósi ekki talið að réttarvernd handveðsins hafi fallið niður við það eitt að andvirði veðandlagsins var í áðurgreindum tilgangi lagt inn á kvaðalausa bankareikninga áfrýjanda í þann skamma tíma sem um ræðir. Verður áfrýjandi af þessum sökum sýknaður af aðalkröfu stefnda“.
Varðandi varakröfu hafi Hæstiréttur sagt: „Efni framangreinds lánssamnings 2. maí 2007 er rakið í héraðsdómi. Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um þann lánssamning sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti. Þegar litið er til þess að áfrýjandi efndi aðalskyldu sína á grundvelli lánssamningsins með útgreiðslu í bandaríkjadölum á gjaldeyrisreikning stefnda, sem sérstaklega var stofnaður af þessu tilefni að hans ósk vegna væntanlegra fjárfestinga erlendis, verður heldur ekki fallist á varakröfu stefnda og áfrýjandi einnig sýknaður af henni“. Varakrafan, um að lánssamningur hafi verið í íslenskum krónum, ólöglega gengistryggður, hafi einungis fengið umfjöllun dómara og dóm á einu dómstigi.
Með tölvuskeytum 11., 26. og 31. maí 2015 hafi stefnandi freistað þess að fá viðræður við stefnda með það að markmiði að ná samkomulagi um þau ágreiningsmál sem eftir standi eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 558/2014, en stefndi hafi hafnað því með tölvuskeytum 26. maí og 1. júní 2015.
Með stefnu 10. júní 2015 hafi stefnandi krafist viðurkenningar á kröfum sínum en málinu hafi verið vísað frá að kröfu stefnda með úrskurði 21. desember 2015 þar sem kröfur hafi ekki þótt nægjanlega skýrar í stefnu. Þess vegna hafi verið nauðsynlegt fyrir stefnanda að stefna stefnda aftur í máli þessu.
Stefndi mótmælir málsatvikalýsingu stefnanda og lýsir málsatvikum svo í greinargerð að áður hafi verið leyst úr ágreiningi milli sömu aðila fyrir dómi sem rekja megi til sömu atvika. Því máli hafi lokið 16. mars 2015 með dómi Hæstaréttar um að stefndi skyldi vera sýkn af kröfum stefnanda. Þrátt fyrir það hafi stefnandi aftur höfðað dómsmál á hendur stefnda en því hafi verið vísað frá dómi. Þar sem stefnandi hafi enn á ný höfðað dómsmál á hendur stefnda, telji stefndi rétt að reifa málsatvik að nýju.
Þann 2. maí 2007 hafi félaginu Drómundi ehf. (áður Hverafold ehf.) í eigu stefnanda, verið veitt lán á grundvelli lánssamnings. Stefnandi hafi upphaflega óskað eftir að taka lánið sjálfur en hafi hætt við það og óskað eftir að lántaki yrði einkahlutafélag sem væri 100% í hans eigu. Stefnandi hafi haft ákveðnar óskir um skilmála lánsins, m.a. um vaxtagjalddaga lánsins og um lengd lánstímans. Af hálfu Landsbanka Íslands hafi verið fallist á óskir stefnanda um skilmálana. Félagið hafi óskað eftir láni í japönskum jenum og svissneskum frönkum og á ákvörðunarblaði Landsbanka Íslands hf. komi eftirfarandi fram: „Birkir Leósson, endurskoðandi og einn af eigendum Deloitte óskar eftir 25 mkr. láni í JPY/CHF til tveggja ára og með möguleika á framlengingu. Hann ætlar sér að fjárfesta í bréfum á US- markaði, hefur hugsað sér að kaupa í félögum eða hlutabréfasjóðum utan USA en skráðum á US mörkuðum.“
Þar komi einnig fram að til tryggingar á láninu hafi félagið boðið fram persónulegar eignir stefnanda, handveð í verðbréfaeign, en hann hafi verið með 88 m.kr. skráðar hjá Landsbanka Íslands hf., sem hafi verið 28% veðhlutfall. Ítarleg grein sé gerð fyrir verðbréfaeign stefnanda í handveðsyfirlýsingunni, en þar séu sjóðirnir taldir upp:
Global Growth Trends Portfolio-A-USD að nafnvirði ISK 4.753,650,
Global Value Portfolio-A-USD að nafnvirði ISK 17.330,840,
Landsbankinn Global Equity Fund að nafnvirði ISK 30.413,8415 og
American Value Portf.-A-USD að nafnvirði 22.916,333.
Lánið hafi verið veitt í japönskum jenum og svissneskum frönkum, sbr. kaupnótu 4. maí 2007. Félagið hafi óskað eftir því að fá lánið greitt út í bandarískum dollurum enda væri það til hagræðis fyrir eiganda þess, stefnanda, þar sem hann hafi ætlað þá til fjárfestinga í bandarískum félögum eða hlutabréfasjóðum utan Bandaríkjanna en skráðum á bandarískum mörkuðum. Með viðauka við lánasamninginn hafi félagið óskað eftir því skriflega að lánið yrði greitt út þann 4. maí 2007 og farið hafi verið fram á að andvirði lánsins yrði lagt inn á gjaldeyrisreikning stefnanda nr. 0116-38-100800, í bandarískum dollurum. Þennan reikning hafi stefnandi stofnað 30. apríl 2007 og í umsókn um reikninginn komi fram að stefnandi óski eftir því að gjaldeyrisreikningurinn yrði stofnaður í USD. Þann 4. maí 2007 hafi erlendu myntirnar (CHF og JPY) verið seldar og fyrir andvirði þeirra verið keyptir dollarar sem lagðir hafi verið inn á gjaldeyrisreikning stefnanda nr. 0116-38-100800.
Drómundi ehf. hafi borið að endurgreiða lánið með einni afborgun í lok lánstímans þann 16. maí 2009. Stefnandi hafi haft samband við Kristján Guðmundsson, þáverandi útibússtjóra stefnda, með tölvupósti 11. febrúar 2009, þar sem hann hafi staðfest að Drómundur ehf. ætti ekki fyrir skuldum og upplýst að hann væri að reyna að bjarga félaginu og væri tilbúinn til að ganga langt í þeim efnum. Hann hafi lagt til að hann seldi handveðsettu eignir sínar hjá bankanum og greiddi upp lánið. Stefnandi hafi vonast til þess að handveðsettu eignirnar dygðu til að greiða að fullu upp lán félagsins og hann myndi þannig „kaupa kröfu“ Landsbankans á hendur Drómundi ehf. Þann 17. febrúar 2009 hafi Kristján svarað erindi stefnanda með tölvupósti þar sem hann hafi samþykkt tillögu hans um fyrirkomulag á greiðslu skulda félagsins, enda hafi hann talið að fyrirkomulagið sem stefnandi hafði lagt upp myndi ganga. Komið hafi fram að bankinn myndi innleysa bréfin fyrir hönd stefnanda og nota andvirðið til að greiða inn á skuld félagsins við bankann. Í kjölfarið hafi farið fram samskipti milli starfsmanna stefnda og stefnanda um hvort honum yrði gert heimilt að fá lánaskjöl framseld við uppgreiðslu lánsins, sbr. tölvupóstsamskipti dags. 23. til 3. mars 2009. Í þeim komi fram að stefnandi hafi viljað fá lánsskjölin framseld til sín við uppgjör lánsins en afstaða stefnda hafi verið að gera það ekki. Stefndi hafi þó komið til móts við óskir hans með því að gefa út yfirlýsingu þess efnis að stefndi hefði fengið lánið að fullu greitt frá stefnanda. Þann 26. febrúar 2009 hafi borist fyrirmæli frá stefnanda um að innleysa sjóðina og greiða upp lánið og hafi hann óskað staðfestingar á uppgreiðslu lánsins.
Daginn eftir, 27. febrúar 2009, hafi stefndi byrjað að selja hina handveðsettu fjármálagerninga og hafi lokið sölu þeirra 2. mars 2009. Hluta af andvirði fjármálagerninganna hafi stefndi lagt inn á gjaldeyrisreikning stefnanda enda hafi andvirði þeirra verið greitt í USD og þann hluta sem greiddur hafi verið í íslenskum krónum hafi stefndi lagt beint inn á tékkareikning stefnanda. Þann 6. mars 2009 hafi stefndi tekið út af gjaldeyrisreikningnum andvirði hinna handveðsettu fjármálagerninga, selt dollarana fyrir 27.501.166 krónur og lagt þá fjárhæð inn á tékkareikning stefnanda nr. 0116-26-1704, sem stefnandi hafi heimilað Landsbanka Íslands hf. að skuldfæra fyrir greiðslum af láninu. Sama dag hafi stefndi tekið út af tékkareikningnum 51.630.533 krónur og greitt upp skuld Drómundar ehf. við stefnda í samræmi við fyrirmæli stefnanda og hafi hann fengið tilkynningar um uppgreiðsluna.
Í greinargerð stefnda í fyrra máli milli sömu aðila hafi stefndi leiðrétt misskilning sem uppi hafi verið í málinu á fyrri stigum og þá sérstaklega fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þar hafi komið fram að stefndi hefði gert veðkall á grundvelli ákvæða lánasamningsins og handveðsyfirlýsingarinnar, í kjölfarið gjaldfellt lánið, selt handveðsettu eignirnar í nafni stefnanda og greitt inn á reikninga hans og ráðstafað andvirðinu til greiðslu lánsins. Raunin hafi verið sú að aldrei hafi verið gert veðkall og lánið hafi ekki verið gjaldfellt á grundvelli ákvæða þar um í lánssamningi.
Stefnandi hafi höfðað mál á hendur stefnda 27. júlí 2012 þar sem hann hafi krafist þess að stefndi greiddi honum tilteknar fjárhæðir í íslenskum krónum og bandaríkjadölum auk málskostnaðar. Þá hafi stefnandi einnig haft uppi varakröfu sem hafi byggst á því að um gengistryggt lán hefði verið að ræða en ekki lán í hinum erlendu myntum. Í dómi héraðsdóms 27. maí 2014 hafi verið fallist á kröfu í lið nr. 1 og varakröfu í lið nr. 2 í dómkröfum stefnanda og stefndi verið dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Stefndi hafi skotið málinu til Hæstaréttar og krafist sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Hæstaréttar hafi verið kveðinn upp 16. mars 2015 í máli nr. 558/2014. Dómsorðið hafi hljóðað svo:
„Áfrýjandi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnda, Birkis Leóssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.“
Í kjölfar dómsins hafi átt sér stað nokkur tölvupóstsamskipti milli aðila þar sem fram hafi komið af hálfu stefnda að stefndi teldi málinu lokið með dómi Hæstaréttar. Nýju máli stefnanda með fjórum viðurkenningarkröfum var vísað frá dómi 21. desember sl.
Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir dómkröfum sínum
Stefna þessi byggi á dómsniðurstöðum Hæstaréttar, í máli nr. 558/2014. Í fyrsta lagi að ekki hafi verið um að ræða veðkall eins og stefnandi hafi talið og stefndi hafi sjálfur haldið fram allt frá byrjun máls þar til honum hafi verið stefnt í málinu, eða í þrjú ár og átta mánuði. Í öðru lagi að sannað sé að með tölvuskeytum í febrúar 2009 milli stefnanda og stefnda hafi komist á samkomulag „milli málsaðila um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í þeim tilgangi að greiða umrædda skuld“. Í þriðja lagi að lánssamningur hafi verið um löglegt erlent lán þar sem „áfrýjandi efndi aðalskyldu sína á grundvelli lánssamningsins með útgreiðslu í bandaríkjadölum á gjaldeyrisreikning stefnda“.
Það hefði verið flókið mál og hefði leitt til mikils óhagræðis að hafa kröfur þessa máls uppi í fyrra máli milli sömu aðila sem Hæstaréttardómur nr. 558/2014 hafi gengið um. Sá dómur hafi skýrt réttarstöðu aðila mikið frá því sem áður hafi verið og hafi því einfaldað þetta mál, þó ekki sé hægt að halda því fram að það sé orðið einfalt.
Líta verði til þess að stefndi sé fjármálafyrirtæki sem starfi í skjóli leyfis skv. II. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og beri skv. 1. mgr. 19. gr. að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Stefnda beri að fara að ákvæðum II. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 13. gr. um heimildir til að selja og framselja fjármálagerninga, 18. gr. um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini og 19. gr. um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum. Stefndi sé skaðabótaskyldur samkvæmt VII. kafla laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar vegna tjóns sem hann hafi valdið stefnanda með því að fara ekki að samningum og hans fyrirmælum sem stefndi sjálfur og Hæstiréttur telji sannað að hafi verið samkomulag aðila.
Dómkrafa 1 Aðalkrafan sé að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 6.878.054 krónur sem hann hafi oftekið af bankareikningum stefnanda 6. mars 2009 við uppgreiðslu á skuldabréfi Drómundar ehf. 2. maí 2007 vegna þess að stefndi hafi reiknað skuldina upp í íslenskar krónur úr svissneskum frönkum og japönskum jenum en ekki úr bandarískum dölum sem verið hafi lántökumyntin og sem lánið hafi verið greitt út í við lántöku.
Lán samkvæmt lánssamningi Landsbanka Íslands hf. við Hverafold ehf., síðar Drómundur ehf., dags. 2. maí 2007, sem stefnandi hafi gengið í tryggingu fyrir, hafi verið í bandaríkjadölum. Hæstiréttur hafi í máli nr. 558/2014 hafnað því að lánssamningurinn hafi verið um ólöglegt gengistryggt lán í íslenskum krónum, á grundvelli fráviks frá algjörlega sambærilegu máli réttarins, nr. 155/2012.
Stefnandi sé réttur eigandi þessarar kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu vegna ofgreiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfinu þar sem stefnda hafi einungis verið heimilt að taka út af bankareikningi stefnanda þá fjárhæð sem dygði til að greiða upp lögformlega skuld Drómundar við stefnda og ekki meira. Stjórn Drómundar ehf. hafi undirritað framsalsyfirlýsingu til stefnanda 4. febrúar 2013.
Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú, að jafnvel þó að heiti lánssamnings væri skýrt „ISK 25.000.000 LÁNSSAMNINGUR“, væri ekki getið þar um erlendar fjárhæðir og að allar greiðslur af láninu skyldu skuldfærast af bankareikningi í íslenskum krónum og þó að lánið hafi verið tekið gagngert í þeim tilgangi að lántaki greiddi með andvirði þess upp skuld sína í íslenskum krónum við stefnanda, þá væri það yfirsterkara að lánið hefði verið greitt út í bandaríkjadölum inn á bankareikning kröfuhafa til uppgreiðslu á skuld í íslenskum krónum og þess vegna væri um löglegt erlent lán að ræða. Til að ítreka gildi þess að greitt hafi verið með dollurum hafi sérstaklega verið tekið fram í dóminum að sá kröfuhafi sem fengið hafi kröfu sína greidda með lánsandvirðinu, þ.e. stefnandi, hafi ætlað sér að fjárfesta fyrir dollarana erlendis. Samkvæmt þessum rökstuðningi Hæstaréttar hljóti lánið því að hafa verið í bandaríkjadölum en hvorki í íslenskum krónum né svissneskum frönkum og japönskum jenum. Hvorki lántaki né stefnandi hafi nokkurn tímann átt gjaldeyri eða bankareikninga í þeim gjaldmiðlum né átt viðskipti í þeim löndum.
Við útgreiðslu lánsins 4. maí 2007 hafi lántökufjárhæðin USD 393.314,25 að frádregnum 0,30% lántökukostnaði, verið greidd inn á USD-bankareikning stefnanda hjá stefnda, alls USD 392.134,31. Við uppgreiðslu lánsins 6. mars 2009 hafi skráð gengi á USD hjá stefnda verið 112,41 króna þannig að uppgreiðsla USD 393.314,25 hafi verið samtals 44.211.826 krónur. Greiddir vextir af láninu samkvæmt fullnaðarkvittun Landsbankans hafi numið 540.653 krónum. Samtals hafi því greiðsla af láninu, afborgun og vextir, verið alls 44.752.479 krónur. Stefndi hafi hins vegar tekið 51.630.533 krónur til uppgreiðslu lánsins sama dag eða 6.878.054 krónur umfram það sem hann hefði átti að gera til uppgreiðslu á láni í bandaríkjadölum.
Stefnda beri að fara að ákvæðum II. kafla laga 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 18. gr. um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini og 19. gr. um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum.
Til vara sé gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur til að bæta stefnanda tap, aðallega gengistap af skuld sem reiknuð hafi verið upp í svissneskum frönkum og japönskum jenum og gengistap af innstæðu í bandarískum dölum, sem hann hafi orðið fyrir í byrjun mars 2009, samtals 1.084.319 krónur. Gengistöp hafi orðið vegna þess að stefndi hafi beðið í nokkra daga, til 6. mars 2009, með að ráðstafa söluandvirði verðbréfa til greiðslu á skuld Drómundar ehf. við bankann.
Það liggi fyrir sannað að andvirði innleystra verðbréfa hafi ekki verið ráðstafað án tafar til greiðslu á láni heldur hafi stefndi lagt andvirðið inn á bankareikninga stefnanda tímabundið, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 558/2014, að: „Sölunni lauk 2. mars 2009 og var andvirðið fært til greiðslu skuldar Drómundar ehf. fjórum dögum síðar“. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið að tilgangur sölu handveðsettra fjármálagerninga hafi verið að ráðstafa söluandvirði þeirra til greiðslu á tilgreindri skuld við stefnda. Þar með hafi stefndi einungis haft heimild til að selja verðbréf stefnanda að því marki að dygði til greiðslu umræddrar skuldar og einungis í þeim tilgangi að greiða skuld en ekki til að láta söluandvirði verðbréfanna rýrna á bankareikningi á sama tíma og skuldin hafi aukist. Að minnsta kosti hljóti þá stefndi að vera skaðabótaskyldur fyrir tjóni sem hann hafi valdið stefnanda vegna þess að hann hafi ekki farið að skýrum ákvæðum samkomulags aðila um þessi atriði. Af gögnum megi sjá að stefndi hafi ekki fylgt þeim fyrirmælum í tölvuskeytum stefnanda sem stefndi hafi sjálfur haldið fram fyrir dómstólum að hann hefði fylgt og hafi verið samkomulag um og Hæstiréttur telji í dómi sínum sannað að hafi verið samkomulag.
Það standi stefnda nær en stefnanda að bera tap sem leitt hafi af ástæðulausri töf stefnda á að ráðstafa söluandvirði verðbréfanna til greiðslu af skuldabréfinu. Aðallega gengistapi sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að skuld Drómundar ehf. hafi hækkað í krónum talið á umræddu tímabili, þó stutt hafi verið, en einnig hafi þarna haft áhrif gengistap þar sem andvirði bandaríkjadalanna sem lagðir hafi verið á innlánsreikning hans hafi rýrnað í krónum talið á umræddum tíma og vextir hafi þarna einnig lítillega haft áhrif. Nánar tilgreint sundurliðist tjónið þannig miðað við að söluandvirði verðbréfa hefði beint verið ráðstafað til greiðslu á skuldinni eins og borið hafi að gera samkvæmt dæmdu samkomulagi:
Hverafold ehf. hafi tekið umrætt lán hjá stefnda í þeim eina tilgangi að greiða ISK 24.588.045 skuld sína við stefnanda. Ástæða þess að lánið hafi upphaflega verið greitt út í bandaríkjadölum en ekki íslenskum krónum, eins og stefndi hafi ætlað að gera, hafi verið að stefnandi sem kröfuhafi lántaka hafi óskað eftir því að stefndi greiddi andvirði lánsins inn á USD-gjaldeyrisreikning sinn þar sem hann hafi ætlað að nota fjármunina til fjárfestinga í verðbréfum á bandarískum hlutabréfamarkaði og viljað takmarka gengisáhættu sína þá fáu daga sem liðið hafi þar til hann keypti verðbréf. Auk þess sem beint komi fram í dæmdu samkomulagi aðila, að stefnda hafi einnig vel verið kunnugt um frá fyrri viðskiptum að stefnandi vildi ekki taka óþarfa gengisáhættu. Stefnda hafi vel verið kunnugt um að stefnandi vildi ráðstafa andvirði seldra verðbréfa beint og án tafar til greiðslu skuldar.
Stefnda hafi borið að fara að ákvæðum 18. og 19. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Stefnda hafi borið að fara að fyrirmælum stefnanda og tryggja stefnanda bestu mögulegu niðurstöðu en hafi hvorugt gert. Stefndi beri skaðabótaskyldu samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar af því tjóni sem hann hafi valdið stefnanda með því að fara ekki að hans fyrirmælum sem stefndi sjálfur og Hæstiréttur telji sannað að hafi verið samkomulag.
Dómkrafa 2 byggi á kröfu um skaðabætur vegna tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir af völdum stefnda við það að hann hafi ekki staðið við samninga milli aðila. Aðalkrafa um skaðabætur, 30.571.204 krónur, byggi á því að við lántöku og veðsetningu hafi fjármálagerningar verið að verðmæti 88 milljóna króna samkvæmt ákvarðanayfirliti bankans við lánveitingu 27. apríl 2007. Stefnandi sem veðsali hafi með handveðssamningi 25. apríl 2007 verið tilbúinn að hætta á að tapa þar allt að 60% hinna veðsettu fjármálagerninga þannig að hann ætti þá eftir 40% eignanna eða 35,2 milljónir króna sem hann hafi ekki ætlað að hætta á að tapa með þessum samningi, nema þá að til kæmi upplýst ákvörðun síðar, ef þær aðstæður mynduðust. Þegar upp hafi verið staðið 6. mars 2009, eftir sölu handveðsettra eigna og uppgreiðslu skuldar, hafi einungis staðið eftir 4.628.796 krónur af verðmæti hinna handveðsettu eigna stefnanda. Tjón stefnanda af þessum sökum sé því alls 30.571.204 krónur (þ.e. 35.200.000 – 4.628.796) af völdum stefnda.
Við lánveitingu og samþykkt handveðsyfirlýsingar, sem útbúin hafi verið einhliða af stefnda, hafi hinar tryggðu skuldir numið 28% af markaðsverðmæti handveðsettu fjármálagerninganna samkvæmt ákvarðanayfirliti bankans við lánveitingu. Handveðssamningurinn hafi verið milli þriggja aðila, tveggja félaga (skuldara og kröfuhafa) og einstaklings (veðsala), og þar af tveggja aðila sem átt hafi á hættu að tapa fjármunum vegna hans. Handveðssamningurinn hafi falið í sér bæði réttindi og skyldur fyrir málsaðila. Þannig hafi veðsali verið tilbúinn að taka þá áhættu að tapa allt að 60% hinna veðsettu fjármálagerninga sinna án þess að nokkur aðili samningsins þyrfti að gera nokkuð meira, en hafi hins vegar ekki samþykkt að hætta á að tapa meiru en það án upplýstrar ákvörðunar þar um kæmi sú staða upp að hætta væri á slíku. Stefnda hafi sem veðhafa borið samkvæmt 6. mgr. í handveðsyfirlýsingunni að tilkynna stefnanda, handveðssala, um að hlutfall skulda væri komið yfir 60% og gefa honum þriggja daga frest til að bæta úr eða ákveða annað ef eftirstöðvar þeirrar skuldar þriðja aðila, Hverafoldar ehf., síðar Dómundar ehf., sem handveðið hafi átt að tryggja færi yfir 60% af markaðsverðmæti hinna veðsettu fjármálagerninga. Veðsali, stefnandi, hafi átt við þær aðstæður að fá tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun um hvort hann vildi annars vegar taka áhættu á frekara tapi með því að leggja fram fleiri og meiri eignir að handveði og e.t.v. eiga þá möguleika á að tapið gengi að einhverju leyti til baka síðar eða hins vegar taka þá upplýstu ákvörðun að sætta sig við það tap sem orðið hafi og loka málinu þannig með því að gera samninga upp með því tapi.
Stefndi sem veðhafi hafi látið undir höfuð leggjast að upplýsa stefnanda, veðsala, um það þegar hlutfall skulda af veðsettum fjármálagerningum hafi farið yfir 60% og hafi þannig haft af honum það val að taka upplýsta ákvörðun um hvernig hann vildi bregðast við til að takmarka sitt tap. Þess í stað hafi stefndi sem veðhafi tekið einhliða ákvörðun um að hætta enn meiri fjármunum stefnanda, veðsala, án hans samþykkis og hafi með því brotið gegn 18. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavin. Með þessu hafi stefndi komið í veg fyrir að stefnandi gæti lágmarkað tjón sitt. Stefndi sé skaðabótaskyldur vegna þessa bæði samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar af því tjóni sem hann hafi valdið stefnanda með því að gæta ekki hagsmuna hans sem handveðsala.
Varakrafa í dómkröfu 2 um skaðabætur, 3.289.602 krónur, byggi á að bindandi samkomulag hafi tekist milli stefnanda og stefnda þann 17. febrúar 2007. Fyrirmæli stefnanda um innlausn, sölu, handveðsettra verðbréfa í tölvupósti þann dag hafi verið afdráttarlaus og samþykkt af stefnda sbr. tölvupóst sama dag. Söluandvirði verðbréfanna 17. febrúar 2009 hafi numið 59.548.931 krónu sbr. yfirlit stefnda, en hafi einungis numið 56.259.329 krónum þegar þau hafi loks verið innleyst. Mismunur þarna á, 3.289.602 krónur, sé tjón stefnanda af því að stefndi hafi ekki strax farið að fyrirmælum stefnanda sem hann þó hafi samþykkt. Stefnda hafi borið að fara að ákvæðum II. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 18. gr. um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini og 19. gr. um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum. Stefndi sé skaðabótaskyldur vegna þessa bæði samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar af því tjóni sem hann olli stefnanda með því að gæta ekki hagsmuna hans sem handveðsala.
Þrautavarakrafa í dómkröfu 2 um skaðabætur, 2.485.193 krónur, byggi á því að bindandi samkomulag hafi tekist milli stefnanda og stefnda þann 17. febrúar 2007, um sölu handveðsettra verðbréfa til greiðslu andvirðis þeirra fyrir skuldabréf/lánssamning. Tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir af völdum tafa stefnda á uppgjöri vegna þess að stefndi hafi ekki viljað standa við gerðan samning heldur breyta honum telji stefnandi vera á ábyrgð stefnda og fari því fram á skaðabætur vegna þessa tjóns. Tjónið sé mismunur á andvirði hinna handveðsettu fjármuna eftir uppgreiðslu skulda sem eftir hefðu staðið í höndum stefnanda, 7.113.989 krónur, ef sala verðbréfa hefði átt sér stað strax 17. febrúar 2009 og þeirra fjármuna sem eftir hafi staðið í höndum stefnanda eftir uppgjör í byrjun mars 2009, 4.628.796 krónur. Nánari sundurliðun tjóns sé eftirfarandi:
Stefnda hafi borið að fara að ákvæðum II. kafla laga 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 18. gr. um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini og 19. gr. um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum. Stefndi sé skaðabótaskyldur vegna þessa bæði samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar af því tjóni sem hann hafi valdið stefnanda með því að gæta ekki hagsmuna hans sem handveðsala.
Þrautaþrautavarakrafa í dómkröfu 2. Telji dómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að sanna beint fjártjón sitt, svo sem aðalkrafa, varakrafa og þrautavarakrafa hans byggi á, sé til þrautaþrautavara gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur eftir álitum dómsins. Þá sé á því byggt að háttsemi stefnda hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda vegna þess að stefnandi hafi af völdum stefnda ekki fengið umsamið tækifæri til að bregðast við og til að taka upplýsta ákvörðun svo sem hann hafi átt rétt á til að lágmarka tjón sitt þegar hlutfall handveðtryggðra skulda hafi farið yfir 60% af markaðsvirði handveðsettra fjármálagerninga. Byggt sé á því að með því að stefndi hafi ekki staðið við samkomulag aðila frá 17. febrúar 2009, fyrirmæli um sölu handveðsettra verðbréfa, með tilheyrandi töfum á uppgjöri, hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem stefndi eigi að bæta. Byggt sé á því að í samræmi við venju og viðurkenndar kenningar hafi dómstólar heimild til að ákveða fjárhæð skaðabóta að álitum.
Dómkrafa 3. Stefndi hafi samkvæmt fyrirmælum í tölvuskeytum í febrúar 2009 einungis átt að innleysa verðbréf stefnanda að því marki sem dygði fyrir greiðslu skuldar Drómundar ehf. við stefnda. Krafan byggi á því að í máli nr. 558/2014 telji Hæstiréttur „sannað að samkomulag tókst milli málsaðila um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í þeim tilgangi að greiða umrædda skuld“. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið afdráttarlaus um að ekki hefði verið um veðkall að ræða, heldur hafi fyrirmæli stefnanda í tölvuskeytum verið samkomulag aðila, eins og stefndi hafi haldið fram í málflutningi sínum í dómsmálinu. Fyrir liggi að stefndi hafi innleyst öll verðbréf stefnanda á vörslureikningum hjá honum en ekki einungis þau verðbréf sem fyrirmæli og samkomulag hafi verið um að innleysa til að greiða umrædda skuld. Skýr fyrirmæli hafi verið í tölvuskeytum stefnanda 11. febrúar 2009: „og greiði fyrir með því að selja þær eignir mínar sem bankinn hefur að veði þannig að dugi fyrir láninu“ og í tölvupósti 17. febrúar 2009: „Viltu þá innleysa að fullu báða ACM sjóðina mína og það sem þarf af Landsbanka Global Equity fund upp í restina af kaupverðinu fyrir skuldabréfinu“. Fyrirmælin sýni glögglega að aldrei hafi staðið til af hálfu stefnanda að meira yrði innleyst af verðbréfum í febrúar og mars 2009 en dygði til þess eins að greiða skuld Drómundar ehf. við stefnda. Tjón stefnanda sé að hafa af völdum stefnda orðið af þeirri ávöxtun sem fjárfesting hans í Landsbanka Global Equity Fund hefði skilað honum ef stefndi hefði farið að þeim fyrirmælum sem Hæstiréttur hefur dæmt að kröfu stefnda að hafi verið samkomulag aðila. Stefnandi krefjist bóta vegna þessarar töpuðu ávöxtunar að frádregnum þeim vaxtatekjum sem hann hafi haft af of innleystum fjármunum.
Stefnda hafi borið að fara að ákvæðum II. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. sérstaklega 13. gr. um framsalsáritun, 18. gr. um bestu framkvæmd og bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini og 19. gr. um framkvæmd fyrirmæla frá viðskiptavinum. Stefndi hafi selt og framselt fjármálagerninga umfram það sem hann hafi haft umboð til, hafi ekki farið að fyrirmælum stefnanda og ekki tryggt honum bestu mögulegu niðurstöðu. Stefndi sé skaðabótaskyldur vegna þessa bæði samkvæmt 29. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar af því tjóni sem hann hafi valdið stefnanda með því að fara ekki að hans fyrirmælum sem stefndi sjálfur og Hæstiréttur telji sannað að hafi verið samkomulag.
Aðalkrafa í dómkröfu 3 eigi við ef fallist verði á aðaldómkröfu í 1. tölulið og sé kröfufjárhæð skaðabóta 14.757.329 krónur að frádregnum tildæmdum dráttarvöxtum samkvæmt aðaldómkröfu í 1. tölulið. Krafan byggi á því að til að greiða lán í bandaríkjadölum hefði samkvæmt fyrrgreindum tölvupósti 17. febrúar 2009 einungis átt að innleysa 18.480,519 hluti í Landsbanka Global Equity Fund en ekki alla hluti og þar af leiðandi hefði stefnandi átt að eiga áfram hluti að nafnverði 11.933,323 sem að markaðsvirði hafi verið 11.121.618 krónur við innlausn miðað við gengið 931,98 á hlut. Þegar gerð hafi verið krafa um bætur 29. maí 2015 og fyrra mál hafi farið af stað hafi innlausnargengi sjóðsins verið 2187,88 og markaðsverðið 26.108.679 krónur. Töpuð ávöxtun af þvingaðri innlausn og því að eiga ekki áfram umrædd verðbréf hafi því numið 14.987.060 krónum en frá þeirri fjárhæð dragist almennir sparisjóðsvextir af 3.994.318 krónum (sem stefnandi fékk til frjálsrar ráðstöfunar) frá 6. mars 2009 til 29. maí 2015, samtals 229.731 króna að meðtöldum vaxtavöxtum. Samtals sé því tjónið 14.757.329 krónur en frá því eigi að draga tildæmda dráttarvexti samkvæmt aðaldómkröfu í 1. tölulið. Nánari sundurliðun sé þannig:
Varakrafa í dómkröfu 3. Verði ekki fallist á aðalkröfu undir þessum lið sé gerð varakrafa um skaðabætur, 5.276.513 krónur. Krafan byggi á því að til að greiða lán í svissneskum frönkum og japönskum jenum hefði samkvæmt fyrrgreindum tölvupósti 17. febrúar 2009 einungis átt að innleysa 26.029,541 hlut í Landsbanka Global Equity Fund en ekki alla hluti og þar af leiðandi hefði stefnandi átt að eiga áfram hluti að nafnverði 4.384,301 sem að markaðsvirði hafi verið 4.086.081 króna við innlausn miðað við gengið 931,98 á hlut. Þegar gerð hafi verið krafa um bætur 29. maí 2015 og fyrra mál farið af stað hafi innlausnargengi sjóðsins verið 2187,88 og markaðsverðið 9.592.324 krónur. Töpuð ávöxtun af þvingaðri innlausn og því að eiga ekki áfram umrædd verðbréf hafi því numið 5.506.244 krónum, en frá þeirri fjárhæð dragist almennir sparisjóðsvextir af 3.994.318 krónum (sem stefnandi fékk til frjálsrar ráðstöfunar) frá 6. mars 2009 til 29. maí 2015, samtals 229.731 króna að meðtöldum vaxtavöxtum. Samtals sé því tjónið 5.276.513 krónur sem gerð sé krafa um að stefndi bæti stefnanda. Nánari sundurliðun sé þannig:
Þrautavarakrafa í dómkröfu 3. Telji dómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að sanna beint fjártjón sitt, svo sem aðalkrafa og varakrafa hans séu byggðar á, sé til þrautarvara gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur eftir álitum dómsins. Þá sé á því byggt að háttsemi stefnda hafi leitt til þess að stefnandi hafi ekki fengið notið þeirrar ávöxtunar sem hann hefði annars fengið ef stefndi hefði ekki innleyst alla erlenda fjármálagerninga stefnanda og umfram það sem hann hafði fyrirmæli um að gera og að í samræmi við venju og viðurkenndar kenningar hafi dómstólar heimild til að ákveða fjárhæð skaðabóta að álitum.
Stefnandi vísi til almennra reglna skaðabótaréttar og almennra reglna samninga- og kröfuréttar innan og utan samninga. Vísað sé til samningalaga nr. 7/1936, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Um varnarþing sé vísað til 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og til 129., 130. og 131. gr. sömu laga varðandi málskostnað.
Málsástæður og lagarök stefnda fyrir kröfu sinni um frávísun málsins frá dómi
Stefndi byggi kröfu sína um frávísun á því að málatilbúnaður stefnanda sé haldinn annmörkum sem leiða eigi til frávísunar málsins frá dómi. Stefndi telji að málatilbúnaðurinn standist ekki kröfur d-, e- og f-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran og glöggan málatilbúnað.
Kröfugerð stefnanda sé það óskýr og óljós að með öllu sé ógerlegt að taka hana óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu í dómsmáli. Framsetningin sé ruglingsleg en stefnandi sé með þrjár aðalkröfur, þrjár varakröfur, tvær þrautavarakröfur og tvær þrautaþrautavarakröfur. Þá sé málsástæðum blandað við dómkröfurnar sem gerir það að verkum að kröfugerð stefnanda ætti aldrei að geta orðið grundvöllur dóms í málinu að mati stefnda. Enn fremur sé engin umfjöllun í stefnu um vaxtakröfur stefnanda og því sé erfitt fyrir stefnda að átta sig á þeim, enda um fullkomna vanreifun að ræða hvað það varði. Með öllu sé óskiljanlegt hvers vegna stefnandi krefjist vaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 í dómkröfunum með númerið 1, frá 29. maí 2015 í dómkröfunum nr. 3 með vísun til sama ákvæðis, en krefjist í dómkröfum númer 2 vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga frá 6. mars 2009 til 6. janúar 2016 en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá sé með öllu vanreifað í skaðabótakröfunum hvernig skilyrði almennra reglna skaðabótaréttar séu uppfyllt og verði ekki með vissu ráðið hvort skaðabótakröfur stefnanda séu byggðar á reglum um bætur innan samninga eða utan. Almennar tilvísanir til laga um fjármálafyrirtæki, laga um rafræna eignaskráningu verðbréfa og laga um verðbréfaviðskipti séu á engan hátt fullnægjandi til grundvallar slíkum kröfum. Telji stefndi með vísan til alls ofangreinds að vísa eigi máli þessu frá dómi.
Stefndi byggi á því að óumdeilt sé að Drómundur ehf. hafi verið lántaki láns nr. 7837 en stefnandi hafi veitt félaginu veð til tryggingar á efndum lánsins. Stefnandi hafi á engan hátt reynt að rökstyðja að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm um að lánssamningurinn hafi í raun verið í bandaríkjadölum. Það sé með öllu vanreifað hvers vegna Drómundur ehf. sé ekki aðili að máli þessu með stefnanda enda bæri þeim samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að sækja mál sitt í sameiningu þar sem ljóst sé að dómur um réttarstöðuna hafi óhjákvæmilega bein áhrif á hagsmuni beggja aðila. Stefnandi hafi eignast kröfu á hendur Drómundi ehf. við uppgreiðslu lánsins og myndi Drómundur ehf. hafa hagsmuna að gæta í slíku dómsmáli. Stefndi telji útilokað að mögulegt væri að greina á milli réttinda stefnanda og Drómundar ehf. í slíku dómsmáli, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, og beri því einnig að vísa þessari dómkröfu frá dómi með vísan til 2. mgr. 18. gr. sömu laga. Óvottuð yfirlýsing hafi ekki verið lögð fram fyrr en eftir skil greinargerðar í öðru dómsmáli milli sömu aðila og stefnandi verði að bera hallann af því að hafa ekki lagt yfirlýsinguna fyrr fram. Þá sé framsalið samkvæmt efni sínu eingöngu um oftekinn kostnað, en ekki t.d. um greiðslu skaðabóta.
Um fyrstu aðalkröfu stefnanda byggi stefndi enn fremur á því að hún sé vanreifuð og rangt reiknuð út frá forsendum stefnanda. Ekkert sé t.d. fjallað um muninn á LIBOR-vöxtum í USD annars vegar og CHF og JPY hins vegar á greiðslutímabili lánsins en stefnandi hljóti að þurfa að reikna það út ef hann heldur því fram að lánið hafi í raun verið í USD. Þessi krafa sé því það vanreifuð að henni beri að vísa frá dómi.
Um fyrstu varakröfu stefnanda byggi stefndi einnig á að hún sé vanreifuð enda reyni stefnandi á engan hátt að sýna fram á í stefnu að framkvæmdin við sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga hafi á einhvern hátt valdið honum tjóni eða að hún hafi á einhvern hátt verið óvenjuleg. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa þessari kröfu frá dómi.
Um aðra aðalkröfu stefnanda byggi stefndi einnig á að hún sé með öllu vanreifuð. Engin umfjöllun sé um það í stefnu hvenær stefnandi telji að stefndi eða forveri hans hefði átt að bregðast við gagnvart aðalskuldara. Því sé ógerningur fyrir stefnda að vita hvort sú meinta skylda hefði átt að hvíla á stefnda eða forvera hans, Landsbanka Íslands hf. Leiði þessi vanreifun til þess að erfitt sé fyrir stefnda að átta sig á hvort um aðildarskort til varnar sé að ræða eða hvort hann þurfi að verjast þessari dómkröfu og málsástæðu með öðrum hætti. Beri því að vísa þessari dómkröfu frá dómi.
Með vísan til framangreinds beri einnig að vísa annarri varakröfu og annarri þrautavarakröfu stefnanda frá dómi enda séu þær einnig vanreifaðar. Sama eigi við um þrautaþrautavarakröfu stefnanda og þriðju þrautavarakröfu enda engin skilyrði til að dæma skaðabætur að álitum í þessu máli þar eð hinn meinti tjónsatburður hafi átt sér stað fyrir um sjö árum.
Stefndi byggi einnig á því að þriðja aðalkrafa og þriðja varakrafa stefnanda séu vanreifaðar en reikniaðferðir stefnanda þar séu illskiljanlegar og byggi t.d. hin fyrri krafa á forsendum í aðalkröfu nr. 1 um að lánið hafi verið í bandaríkjadölum.
Samkvæmt 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála beri stefnanda að leggja grunn að málsókn sinni með stefnu svo stefndi geti áttað sig á málatilbúnaði stefnanda, haldið uppi vörnum í greinargerð og byggt varnir sínar á þeim grundvelli sem markaður sé í stefnu. Ljóst sé að umfjöllun um þau atriði sem gerð hafi verið grein fyrir geti skipt verulegu máli um varnir stefnda. Með því að málatilbúnaði stefnanda sé jafn ábótavant og raun beri vitni sé stefnda gert mjög erfitt um vik að halda uppi vörnum. Stefndi telji að stefnandi geti ekki í samræmi við meginreglur einkamálaréttarfars bætt úr þessum annmörkum undir rekstri málsins og að vísa beri máli þessu frá dómi í heild sinni.
Leyst hafi verið úr ágreiningi milli sömu aðila varðandi sömu málsatvik í öðru dómsmáli sem lokið hafi endanlega með dómi Hæstaréttar frá 16. mars 2015 í máli nr. 558/2014. Þótt dómkröfur stefnanda í þessu máli og málinu sem vísað hafi verið frá dómi hafi ekki verið hafðar uppi í hinu fyrra máli verði ekki annað séð en að fullt tilefni hafi verið til þess þá, fyrst stefnandi vilji fá úrlausn dómstóla um þær. Verði því að telja að þær málsástæður, sem stefnandi byggi nú á, hefðu mátt koma fram í því máli. Með því að láta undir höfuð leggjast að halda þessum málsástæðum fram í fyrra málinu telji stefndi að meginregla 5. gr. 101. gr. laga nr. 91/1991 girði fyrir að stefnandi geti byggt málatilbúnað sinn í þessu máli á þeim málsástæðum sem hann hafi nú uppi, enda væri það andstætt þeirri reglu ef komast mætti hjá henni með nýrri málsókn og sé öllum málsástæðum því mótmælt sem of seint fram komnum.
Kröfur stefnda styðjist við lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 18. gr., 27. gr. 80. gr. og 5. mgr. 101. gr. Jafnframt sé vísað til almennra reglna skaðabótaréttar um sönnun sakar, orsakasamband, fyrirsjáanleika og sönnun tjóns. Krafa stefnda um málskostnað byggi á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnenda.
Málsástæður stefnanda fyrir kröfu sinni um að frávísunarkröfu verði hafnað
Stefnandi mótmælti málsástæðum stefnda við munnlegan málflutning um kröfu stefnda um frávísun og telur málatilbúnað sinn fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til slíks í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og stefndi hafi getað tekið varna. Hvergi sé bannað að greina frá málsástæðum með dómkröfum og engin nauðsyn sé að taka kröfur orðréttar upp í dómsorði. Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem nægilega sé reifað, en engin þörf hafi verið á að reifa vaxtakröfur nánar. Þá sé samaðild með félaginu Drómundi ehf. útilokuð þar sem nú sé búið að slíta félaginu. Stefnandi hafi ekki átt þess kost að sækja allar kröfur sínar í hinu fyrra máli, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um meðferð einkamála, m.a. vegna þess að stefndi hafi þá haldið því fram að veðkall hafi verið gert. Nú sé sá misskilningur úr sögunni og málið hafi skýrst í Hæstarétti.
Niðurstaða
Fyrsta aðalkrafa stefnanda er endurgreiðslukrafa vegna meintrar oftöku stefnda af fjármunum af bankareikningi stefnanda 6. mars 2009, þar sem krafist er endurgreiðslu hluta þess fjár sem stefndi tók út af bankareikningi stefnanda þann dag til þess að greiða skuld Drómundar ehf. Stefndi var með dómi Hæstaréttar 16. mars 2015 í málinu nr. 558/2014 sýknaður af kröfu stefnanda um endurgreiðslu þeirra fjármuna í heild sinni og verður ekki dæmt um þá kröfu að nýju í máli þessu, sbr. 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Aðrar kröfur stefnanda eru bótakröfur, sem virðast byggja á málsástæðum um að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna þess hvernig stefndi hafi haldið á málefnum stefnanda sem viðskiptamanns í þeim viðskiptum aðila sem fjallað er um í fyrrgreindum dómi, en fallast verður á það með stefnda að nokkuð skortir á að grundvöllur bótakrafna sé reifaður með skýrum hætti í stefnu.
Þeim forsendum í niðurstöðu úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki 27. apríl 2010, að rangt hafi verið staðið að málum við sölu fjármálagerninga í nafni stefnanda og við millifærslur og úttektir af reikningum hans hjá stefnda, var efnislega hrundið með niðurstöðu Hæstaréttar í máli réttarins nr. 558/2014. Úrskurðarnefndin hafði talið að handveðsyfirlýsing væri ekki nægilega skýr heimild fyrir stefnda til að selja fjármálagerninga í nafni stefnanda eða taka fjármuni af bankareikningi hans til að greiða skuld Drómundar ehf. Í héraðsdómi 27. maí 2014 var fallist á kröfu stefnanda á þeim forsendum og stefnda gert að endurgreiða stefnanda fjármunina.
Með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar var hrundið þeirri niðurstöðu héraðsdóms, að stefnda hefði verið óheimilt að ráðstafa fjármálagerningum stefnanda og taka fjármuni af bankareikningi hans til að greiða skuld Drómundar ehf. við sig með þeim hætti sem stefndi gerði, og var stefndi sýknaður af fjárkröfu stefnanda. Talið var sannað að samkomulag hefði tekist milli málsaðila um sölu hinna handveðsettu fjármálagerninga í þeim tilgangi að greiða umrædda skuld Drómundar ehf. og að veðsetningin hefði náð til andvirðis veðandlagsins, sem lagt var inn á bankareikninga stefnanda í skamman tíma.
Samkvæmt framansögðu liggur fyrir endanlegur dómur um málsatvik og umrædd viðskipti aðila þar sem greiðsluskyldu stefnda við stefnanda vegna viðskiptanna var hafnað. Bótakröfur stefnanda verða ekki reistar á sömu atvikum í nýju máli þótt kröfur hans séu nú færðar í nýjan búning og studdar nýjum málsástæðum. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur máli verið vísað frá héraðsdómi á grundvelli 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 ef stefnandi þess máls hefur áður höfðað mál og látið undir höfuð leggjast að færa fyrir kröfu sinni málsástæður, sem hann hefði getað teflt fram í því máli, sbr. til dæmis dóma réttarins 2. apríl 2004 í máli nr. 100/2004 og 20. janúar 2014 í máli nr. 817/2013. Þegar af þeirri ástæðu að svo stendur á hér verður fallist á kröfu stefnda og máli þessu verður vísað frá dómi.
Í ljósi úrslita málsins og með vísun til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Úrskurðinn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Varnaraðili, Birkir Leósson, greiði sóknaraðila, Landsbankanum hf., 200.000 krónur í málskostnað.