Hæstiréttur íslands
Mál nr. 176/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Erfð
- Hjón
- Lagaskil
|
|
Föstudaginn 8. apríl 2011. |
|
Nr. 176/2011.
|
A og B (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn C (Árni Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðir. Hjón. Lagaskil.
A og B kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa C um að hún stæði ein til lögerfða eftir D við opinber skipti á dánarbúi hans. D var íslenskur ríkisborgari er hann lést og átti hér lögheimili. A og B, synir látinnar systur D, töldu sig standa eina til lögerfða eftir hann vegna skyldleika. C sem var japanskur ríkisborgari hélt því fram að hún hefði á árinu 2004 í heimalandi sínu stofnað til hjúskapar við D, sem enn hefði staðið við andlát hans og taldi hún sig þannig rýma út lögerfðarétti A og B. Í Hæstarétti var fallist á með héraðsdómi að C hefði nægilega í ljós leitt efni japanskra réttarreglna um stofnun hjúskapar að því leyti sem á þær reyndi í málinu. Leggja yrði til grundvallar að C hefði í málinu sýnt nægilega fram á að hún hefði stofnað á þann hátt til hjúskapar við D að gilt hefði verið að japönskum lögum. Eftir meginreglum íslensks sifjaréttar yrði viðurkenndur hér á landi hjúskapur sem stofnað hefði verið til erlendis svo gilt væri eftir löggjöf hlutaðeigandi ríkis enda hefði það ekki verið á neinn þann hátt sem stríddi gegn íslenskri réttarskipan. Við það yrði að miða að C hefði eftir japönskum lögum stofnað til hjúskapar við D með því að afhenda sameiginlega skriflega yfirlýsingu þeirra um það efni sem þar til bært stjórnvald hefði metið gilda og skráð á viðeigandi hátt. Því hefði ekki verið borið við að hjúskap þeirra hefði verið slitið að íslenskum eða erlendum lögum fyrir andlát D. Var C því talin standa ein til lögerfða gagnvart A og B við skipti á dánarbúi látins eiginmanns hennar. Var hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að hún skuli standa ein til lögerfða eftir D við opinber skipti á dánarbúi hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast að þessari kröfu varnaraðila verði hafnað og henni gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
D, sem var bandarískur ríkisborgari fæddur 9. mars 1943, var veittur íslenskur ríkisborgararéttur með lögum nr. 16/2005, sem tóku gildi 22. mars 2005. Samkvæmt gögnum málsins átti hann lögheimili hér á landi frá þeim degi þar til hann lést 17. janúar 2008, en dánarbú hans var tekið til opinberra skipta með dómi Hæstaréttar 8. desember 2009 í máli nr. 661/2009. Við skiptin reis ágreiningur um erfðaréttindi eftir þann látna, en sóknaraðilar kveðast vera synir látinnar systur hans og standa einir til lögerfða eftir hann vegna skyldleika. Varnaraðili, sem er japanskur ríkisborgari, kveðst á hinn bóginn hafa á árinu 2004 stofnað í sínu heimalandi til hjúskapar við D, sem enn hafi staðið við andlát hans, og telji hún sig þannig rýma út lögerfðarétti sóknaraðila eftir hann samkvæmt 1. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962 með síðari breytingum. Skiptastjóri í dánarbúinu vísaði 26. janúar 2010 ágreiningi um erfðaréttindi eftir þann látna til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur og var mál þetta þingfest af því tilefni 19. mars sama ár.
Fallast verður á með héraðsdómi að varnaraðili hafi leitt nægilega í ljós efni japanskra réttarreglna um stofnun hjúskapar að því leyti, sem á þær reynir í málinu, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við það verður að miða að í meginatriðum gildi þær reglur eftir IV. þætti japanskra einkamálalaga að stofnað sé þar í landi til hjúskapar með því að hjónaefni beini tilkynningu um það efni til stjórnvalds, sem fallist ekki á hana fyrr en það hafi gengið úr skugga um að nánar tilteknir hjúskapartálmar standi henni ekki í vegi, en sé slík tilkynning skrifleg skuli hún undirrituð af hjónaefnum báðum og tveimur vottum. Stjórnvaldið, sem þar eigi í hlut, sé héraðsstjóri, sem jafnframt hafi á hendi fjölskylduskráningu eftir sérstökum lögum um það efni. Síðastnefnd lög ásamt stjórnvaldsfyrirmælum á grundvelli þeirra geymi meðal annars nánari reglur um upplýsingar, sem skráðar verði í tengslum við stofnun hjúskapar, svo og um sérstaka upplýsingagjöf þegar hjónaefni sé erlendur ríkisborgari.
Varnaraðili hefur lagt fram í málinu ljósrit skriflegrar tilkynningar um stofnun hjúskapar, sem hún kveðst hafa undirritað ásamt D og tveimur vottum og móttekin hafi verið af héraðsstjóra í Ota í Tokyo í Japan 6. september 2004. Í tilkynningunni, sem gerð var með útfyllingu eyðublaðs, var greint frá upplýsingum um hjónaefnin og virðast hafa fylgt henni fæðingarvottorð D, ljósrit úr bandarísku vegabréfi hans og yfirlýsing, sem hann undirritaði 31. ágúst 2004, þar sem meðal annars kom fram að hann væri einhleypur og að engar hindranir stæðu að lögum eða venjum við því að hann gengi í hjúskap við varnaraðila. Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili borið því við í málatilbúnaði sínum að héraðsstjóri hafi ekki talið sér fært að taka afstöðu til þessarar tilkynningar þegar í stað við afhendingu hennar sökum atriða, sem vörðuðu upplýsingar og gögn um D, en að fenginni leiðsögn frá japanska dómsmálaráðuneytinu hafi þessi tilkynning verið metin gild 28. janúar 2005 með þeim áhrifum að stofnað hafi verið til hjúskapar við afhendingu hennar 6. september 2004. Þessi lýsing varnaraðila á sér nægilega stoð í framlögðum gögnum og vitnaskýrslu, sem annar votturinn á tilkynningunni gaf við aðalmeðferð málsins í héraði. Þá hefur varnaraðili lagt fram vottorð sendiráðs Japan á Íslandi frá 30. janúar 2008 um að hún hafi stofnað til hjúskapar við D 6. september 2004 í Ota í Tokyo. Í því vottorði er tekið fram að það sé reist á útskrift úr fjölskylduskrá, sem staðfest sé af héraðsstjóra í Ota, en sú útskrift liggur einnig fyrir á frummáli og í þýðingu. Að þessu öllu virtu verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi sýnt nægilega fram á að hún hafi stofnað á þennan hátt til hjúskapar við D þannig að gilt hafi verið eftir japönskum lögum.
Eftir meginreglum íslensks sifjaréttar verður viðurkenndur hér á landi hjúskapur, sem stofnað hefur verið til erlendis svo að gilt sé eftir löggjöf hlutaðeigandi ríkis, enda hafi það ekki verið á einhvern þann hátt, sem stríði gegn íslenskri réttarskipan. Samkvæmt framansögðu verður við það að miða að varnaraðili hafi eftir japönskum lögum stofnað til hjúskapar við D með því að afhenda sameiginlega skriflega yfirlýsingu þeirra um það efni, sem þar til bært stjórnvald hefur metið gilda og skráð á viðeigandi hátt. Þótt hjónaefnin hafi samkvæmt þessu ekki komið fyrir vígslumann og staðfest vilja sinn til að stofna til hjúskapar, svo sem þau hefðu gert við hjónavígslu hér á landi, getur það ekki staðið því í vegi að hann verði viðurkenndur, enda er það meginatriði ljóst af gögnum málsins að vilji beggja stóð til að ganga í hjónaband. Því hefur ekki verið borið við að hjúskap þeirra hafi verið slitið að íslenskum lögum eða erlendum fyrir andlát D. Ekki verður fallist á með sóknaraðilum að nokkru geti breytt um gildi hjónabandsins af hvaða ástæðu D kunni að hafa stofnað til þess eða hverju hann kunni að hafa lýst við aðra á síðustu árum ævi sinnar um hjúskaparstöðu sína eða samband sitt við varnaraðila. Að þessu öllu virtu verður varnaraðili talin gagnvart sóknaraðilum standa ein til lögerfða við skipti á dánarbúi látins eiginmanns hennar.
Samkvæmt framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað, en eins og atvikum í málinu er háttað er rétt að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af því á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2011.
Með bréfi skiptastjóra í dánarbúi D, mótteknu 28. janúar 2010, var ágreiningsefni þessa máls skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 19. mars sl. og tekið til úrskurðar 17. nóvember sl. að aflokinni aðalmeðferð en endurupptekið og tekið til úrskurðar á ný 3. febrúar að afloknum endurflutningi.
Sóknaraðili, C, krefst þess að viðurkennt verði að hún sé lögerfingi D samkvæmt 4. tölulið 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðilar, A og B, krefjast þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Málavextir
D fæddist í Bandaríkjum Norður-Ameríku 9. mars 1943, sonur E og F, konu hans. Hann lést í Reykjavík 17. janúar 2008. Systir D var G, fædd 8. júlí 1937, en hún er nú látin. Hún giftist H 27. september 1958 og eignuðust þau þrjú börn, varnaraðila þessa máls og eina dóttur, I, sem nú er látin. I var barnlaus en lét eftir sig eiginmann. Varnaraðilar, A og B, kveðast vera nánustu ættingjar D.
Sóknaraðili, C, kveðst vera [...]fræðingur að mennt og [...] japanska skáksambandsins. Hafi hún kynnst hinum látna, D, árið 1973 í Japan. Hann, þá um þrítugt, hafi komið til Japans, til þess að hitta félaga frá japanska skáksambandinu. Tveimur félögum þess hafi verið boðið að tefla við hann og hafi sóknaraðili, C, sem þá var 28 ára gömul, verið einn þeirra. Í kjölfar þessa hafi tekist vinskapur milli sóknaraðila og D til fjölda ára. Að hennar sögn héldu þau sambandi sínu með bréfaskriftum, símtölum og heimsóknum. D hafi meðal annars boðið henni til Belgrad árið 1992 til þess að fylgjast með einvígi sínu við J. Á meðan dvöl D í Ungverjalandi stóð, eftir áðurnefnt einvígi, hafi tekist kærleikar milli sóknaraðila og D.
Sóknaraðili ber að 28. janúar 2000 hafi D komið til Tókýó í Japan, flutt til sóknaraðila og búið hjá henni frá þeim tíma, de facto í hjúskap í um fjögur ár. Á því tímabili hafi þau ferðast víða, jafnt innan Japans sem utan. Sóknaraðila og D hafi verið í mun að halda einkalífi sínu frá öðrum, og þá sérstaklega fjölmiðlum. Hinn 13. júlí 2004 hafi D verið hnepptur í gæsluvarðhald í Japan á Narita International Airport. Hafi hann verið hann sviptur bandarísku vegabréfi sínu. Hinn 10. ágúst 2004 hafi D verið fluttur til Ushiku gæslustöðvarinnar en sóknaraðili hafi heimsótt hann á nær hverjum virkum degi þangað. Við þessar erfiðu aðstæður hafi sóknaraðili og D ákveðið að nauðsynlegt væri að opinbera samband sitt og ganga jafnframt í hjúskap. Það hafi þó verið þeim áfram mikilvægt að halda friðhelgi einkalífs síns.
Sóknaraðili lýsir því að formleg stofnun hjúskapar í Japan fari þannig fram að hjónaefni sendi tilkynningu um hjúskaparstofnun til borgar- eða umdæmisyfirvalda. Starfsmenn borgaryfirvalda athugi þá hvort skilyrði hjúskaparstofnunar séu uppfyllt. Í því skyni geti þeir beint hjónaefnum í viðtal til sín til þess að svara spurningum þeirra og jafnframt vísað málum til dómsmálaráðuneytis til ákvörðunar um það hvort eigi að samþykkja og skrá hjúskapinn.
Sóknaraðili og D hafi óskað eftir skráningu hjúskapar síns í byrjun hausts 2004. Tilkynning þeirra um hjúskaparstofnun, ásamt gögnum, hafi verið móttekin af hálfu japanskra yfirvalda í Ota-umdæmi, Tókýó (Ota sé umdæmi eða borgarhluti borgarinnar Tókýó, á ensku Ota Ward, á japönsku Ota-ku) 6. september 2004. Við móttöku gagnanna hafi þó ekki verið fullnægt því skilyrði japanskra laga að D legði fram gilt vegabréf eða aðra staðfestingu frá Bandaríkjunum sem staðfesti ríkisborgararétt hans. Því hafi borgaryfirvöld sent gögn málsins til Skrifstofu lögfræðimála Tókýó (e. the Tokyo Legal Affairs Bureau), sem sé deild innan dómsmálaráðuneytis Japans, til þess að staðfest yrði hvort borgaryfirvöld mættu samþykkja hjúskaparskráninguna á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Þegar vegabréfs sé krafist í þessu skyni sé það til að staðfesta að viðkomandi sé sá sem hann segist vera. Í tilviki D hafi hins vegar viljað svo til að umrætt vegabréf hafi ásamt öðru orðið til að yfirvöld, bæði í Japan og Bandaríkjunum, hafi ekki verið í minnsta vafa um að handhafinn væri sá sem hann segðist vera. Af þessari ástæðu hafi, við nánari skoðun, ekki komið til þess að framvísun vegabréfs réði úrslitum. Yfirmanni Ota-umdæmis hafi, 28. janúar 2005, borist svar frá yfirmanni Skrifstofu lögfræðimála Tókýó um að samþykkja mætti hjúskapinn. Samskipti yfirmanns Skrifstofu lögfræðimála Tókýó við umdæmisstjóra Ota-umdæmis, æðsta yfirmanns yfirvalda í Ota-umdæmi Tókýóborgar, sé hins vegar ekki unnt að nálgast með auðveldum hætti, enda um innri samskipti stjórnvalda í Japan að ræða.
Afstaða Skrifstofu lögfræðimála Tókýó og þar af leiðandi umdæmisstjóra Ota-umdæmis hafi orðið til þess að hjúskapurinn hafi verið samþykktur og skráður inn í fjölskylduskrá sóknaraðila, C, 28. janúar 2005. Þannig hafi umdæmisstjóri Ota-umdæmis samþykkt hjúskaparstofnunina frá þeim degi sem sóknaraðili og D hafi sent inn tilkynningu um hjúskaparstofnunina, eða 6. september 2004. Líkt og að framan greini hafi D og sóknaraðila verið áfram mikilvægt að halda friðhelgi einkalífs síns. Því hafi ekki verið greint frá skráningu hjúskaparins í fjölmiðlum.
Í þessu samhengi sé rétt að geta þess að í Japan sé ekki gefið út sérstakt hjúskaparvottorð, heldur gildi samþykkisvottorð og fjölskylduskrá viðkomandi aðila sem sönnun fyrir hjúskap aðila. Japönsk sendiráð geti þó gefið út sérstakt hjúskaparvottorð fyrir japanska ríkisborgara byggt á framangreindum gögnum ef á þurfi að halda.
Með lögum frá 21. mars 2005 nr. 16/2005 um veitingu ríkisborgararéttar hafi D verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Sóknaraðili hafi fylgt D til Íslands 24. mars 2005. Sóknaraðili kveðst síðan þá, þau þrjú ár sem D átti heimili á Íslandi, hafa komið yfir tuttugu sinnum til Íslands og dvalið hjá D. Árið 2005 hafi hún komið átta sinnum til landsins, fimm sinnum árið 2006 og níu sinnum árið 2007. Á meðan D hafi dvalið hér á landi hafi þau hjónin þess á milli jafnframt verið í miklum samskiptum, jafnt í síma og með tölvupósti.
D hafi átt við alvarleg veikindi að stríða og dvalist á sjúkrahúsi um hríð árið 2007. Síðustu samverustundir sóknaraðila og D hafi verið frá 28. desember 2007 fram í janúar 2008.
Hinn 17. janúar 2008 lést D í Reykjavík og 11. febrúar sama ár sendi sóknaraðili beiðni til sýslumanns um leyfi til einkaskipta. Með beiðninni var meðal annars lagt fram hjúskaparvottorð útgefið af sendiráði Japans í Reykjavík. Með bréfi til sýslumannsins í Reykjavík, dagsettu 23. janúar 2008, kröfðust varnaraðilar þess að sýslumaður tæki eignir búsins í sína umsjón og skrásetti þær, sbr. 16. og 17. gr. laga nr. 20/1991. Erindið var ítrekað með bréfi 27. sama mánaðar. Með bréfi sýslumannsins í Reykjavík, 1. apríl 2008, var kröfum varnaraðila hafnað á þeim grundvelli að þeir væru ekki erfingjar D.
Varnaraðilar kröfðust með bréfi, 16. maí 2008, opinberra skipta á dánarbúi D . Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms 26. maí 2008. Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2008. Hæstiréttur ómerkti hinn kærða úrskurð og vísaði málinu heim í hérað. Hinn 14. nóvember var málið tekið fyrir að nýju í héraðsdómi þar sem varnaraðilar lögðu fram gögn og kröfðust þess að dómari viki sæti. Með úrskurði 9. desember 2008 hafnaði héraðsdómari þeirri kröfu varnaraðila og var sú niðurstaða staðfest af Hæstarétti 20. janúar 2009.
Með úrskurði héraðsdóms, 30. október 2009, var álitið að sóknaraðili hefði sýnt fram á hjúskapinn með nægum gögnum og var kröfu um opinber skipti dánarbús D hafnað. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 8. desember 2009 í máli nr. 661/2009 var hins vegar talið að ekki hefði verið færð fram fullnægjandi sönnun þess að sóknaraðili og D hefðu gengið í hjónaband. Féllst Hæstiréttur því á kröfu varnaraðila um opinber skipti dánarbúsins. Hinn 11. desember 2009 var í Héraðsdómi Reykjavíkur skipaður skiptastjóri við opinber skipti á dánarbúinu. Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 28. janúar 2010, var ágreiningsefni þessa máls skotið til úrlausnar dómsins. Í bréfinu kemur fram að þá, sem geri tilkall til arfs eftir hinn látna, greini á um það hvort sóknaraðili og hinn látni hafi við andlát hans verið í hjúskap í skilningi íslenskra laga. Þar sem ekki hafi tekist að jafna ágreininginn sé nauðsynlegt að vísa honum til héraðsdóms á grundvelli 122. gr., sbr. 112. gr. laga um skipti á dánarbúum og fl. nr. 20/1991.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst hafa aflað þeirra gagna sem honum hafi verið kleift til þess að færa sönnur á hjúskap hans og D.
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á vottorði um samþykki á hjúskapartilkynningu. Að sögn sóknaraðila stofnast hjúskapur í Japan þannig að skrifstofa viðkomandi umdæmis í Japan gefi út vottorð um samþykki á stofnun hjúskapar (e. Certification of Acceptance of Notification of Marriage). Slíkt vottorð hafi verið gefið út af hálfu japanskra yfirvalda í Ota-umdæmi, Tókýó, á japönsku, sem staðfesti hjúskaparstofnun sóknaraðila og D (þ.e. samþykki hjúskapartilkynningar) 6. september 2004. Það staðfesti umdæmisstjóri Ota-umdæmis í framlögðu vottorði. Þar sem vottorðið sé á japönsku, hafi sóknaraðili hlutast til um að fá staðfestingu löggilts skjalaþýðanda á efni þess. Eins og framlögð gögn beri með sér hafi K, löggiltur skjalaþýðandi, staðfest að viðkomandi vottorð hafi verið gefið út. Sé það nefnt móttökuvottorð í lýsingu hennar. Af framangreindu skjali sé ljóst að japönsk yfirvöld í Ota-umdæmi hafi 28. janúar 2005 fallist á þau skjöl sem hafi legið hjúskapnum til grundvallar. Þannig hafi stofnun hjúskapar sóknaraðila og D verið skráð frá og með 6. september 2004 eða frá þeim degi sem tilkynning um slíkt hafi borist yfirvöldum Ota-umdæmis. Skráningin í fjölskylduskrána hafi þannig farið fram 28. janúar 2005.
Þetta sé annað þeirra skjala sem staðfest geti hjúskaparstofnun að japönskum lögum.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á skráningu hjúskaparins í opinbera fjölskylduskrá japanskra ríkisborgara. Í Japan sé haldin opinber skrá yfir alla ríkisborgara (e. Official Family Register), þar sem fram komi meðal annars fæðingardagur þeirra, lögheimili og börn. Í Japan sé hjúskapur jafnframt ávallt skráður í opinbera fjölskylduskrá viðkomandi japanskra ríkisborgara.
Í málinu liggi fyrir vottorð um sóknaraðila úr opinberri fjölskylduskrá í Ota-umdæmi, Tókýó, gefið út 20. maí 2010 og innsiglað af umdæmisstjóra Ota-umdæmis. Samkvæmt vottorðinu hafi verið stofnað til hjúskapar sóknaraðila og D 6. september 2004. Hjúskapurinn hafi svo verið skráður í fjölskylduskrá sóknaraðila 28. janúar 2005. Lát eiginmannsins, D , 17. janúar 2008, hafi jafnframt verið skráð í hina opinberu fjölskylduskrá 8. maí 2008. Umrætt vottorð fjölskylduskrár sóknaraðila sýni þannig, svo óyggjandi sé, að í opinberum og staðfestum japönskum skrám hafi sóknaraðili og D verið skráð í hjúskap við lát hins síðarnefnda.
Sóknaraðili leggi auk þess fram staðfestingu japanska utanríkisráðuneytisins (e. apostille), dags. 27. maí 2010, á vottorðinu úr fjölskylduskrá hennar. Þýðing löggilts skjalaþýðanda á vottorði úr fjölskylduskrá sóknaraðila yfir á ensku sé lagt fram og hafi enska þýðingin einnig verið staðfest af japanska utanríkisráðuneytinu (e. apostille), og með drengskaparheiti japansks lögmanns af hinni virtu japönsku lögmannsstofu Nishimura & Asahi. Löggilt íslensk þýðing á enskri þýðingu vottorðsins úr fjölskylduskrá sóknaraðila C sé einnig lögð fram.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á hjúskaparvottorði sem sé gefið út af fulltrúa japanskra yfirvalda á Íslandi. Eins og áður hafi komið fram sé í Japan ekki gefið út sérstakt hjúskaparvottorð, heldur gildi fjölskylduskrá viðkomandi aðila sem sönnun fyrir hjúskap hans eða samþykkisvottorð borgaryfirvalda. Japönsk sendiráð geti þó gefið út sérstakt hjúskaparvottorð fyrir japanska ríkisborgara byggt á framangreindum gögnum ef á þurfi að halda.
Samkvæmt upplýsingum frá japönskum yfirvöldum sé slíkt hjúskaparvottorð því aðeins gefið út að viðkomandi aðili, sem vottorðið lúti að, komi í sendiráðið og biðji sjálfur um slíkt afrit, enda hugsað sem hagræði fyrir þá japönsku ríkisborgara sem búi erlendis. Í þessu augnamiði hafi sóknaraðili óskað eftir hjúskaparvottorði frá japanska sendiráðinu eftir lát D , vegna beiðni sóknaraðila um einkaskipti á búi D. Japanska sendiráðið hafi orðið við þessari beiðni. Í málinu hafi þá verið lagt fram hjúskaparvottorð, útgefið af sendiráði Japans á Íslandi 30. janúar 2008. Sóknaraðili leggi einnig fram löggilta skjalaþýðingu hjúskaparvottorðsins á íslensku.
Með hjúskaparvottorðinu hafi japönsk yfirvöld á Íslandi staðfest hjúskapinn á grundvelli staðfests vottorðs úr opinberri fjölskylduskrá sóknaraðila frá 21. janúar 2008, þ.e. á grundvelli gagna sem sendiráðið taldi veita örugga og trygga sönnun um hjúskap sóknaraðila og D .
Af þessu megi leiða að vottorð það sem lagt er fram staðfesti að sóknaraðili C og D voru skráð í hjúskap við lát hins síðarnefnda.
Í fjórða lagi bendir sóknaraðili á að milli Íslands og Japans gildi gagnkvæm viðurkenning opinberra skjala. Þannig sé Ísland, frá 27. nóvember 2004, aðili að Haag-samningi um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala frá 5. október 1961. Japan hafi verið aðili að sama samningi frá 27. júlí 1970. Með samningnum skuldbindi samningsríkin sig til að undanþiggja opinber skjöl, sem gerð séu í einu samningsríki, frá staðfestingu í öðru samningsríki, þar sem skjölin séu lögð fram. Þess í stað megi, í því ríki þar sem leggja eigi fram erlent opinbert skjal, aðeins krefjast þess að bætt sé við skjalið vottorði („apostille“) útgefnu af þar til bæru yfirvaldi þess ríkis sem gefur skjalið út. Með aðild Íslands að samningnum hafi fallið niður gagnvart öðrum samningsríkjum krafan um tvöfalda staðfestingu opinberra skjala. Aðilar, sem hyggist hér leggja fram opinbert skjal frá öðrum samningsríkjum, þurfi þannig einungis að fá gefið út vottorð frá tilnefndu yfirvaldi um að viðkomandi skjal hafi verið vottað eða gefið út af þar til bæru yfirvaldi („apostille“).
Vegna þessa sé augljóst að skjöl, þar á meðal afrit úr fjölskylduskrá sóknaraðila, staðfest með vottorði, útgefnu af fulltrúa utanríkisráðuneytis („apostille“), verði lögð til grundvallar í þessu máli. Sóknaraðili hafi hins vegar, eins og áður hefur komið fram, þar að auki fengið útgefna staðfestingu frá japanska sendiráðinu á Íslandi um hjúskapinn.
Í fimmta lagi byggir sóknaraðili á því að íslenskum yfirvöldum beri að viðurkenna hjúskap sem stofnað hafi verið til í öðru landi. Sóknaraðili kveðst hafa lagt fram þau persónulegu gögn sem henni hafi verið kleift að nálgast frá japönskum yfirvöldum og varði þetta mál með beinum hætti. Af þeim sé ljóst að hjúskapur sóknaraðila og D hafi verið samþykktur og skráður af hálfu japanskra yfirvalda við lát D. Sóknaraðili hafi lagt fram opinberar staðfestingar frá þar til bærum embættismönnum og japönskum yfirvöldum og frá japanska sendiráðinu á Íslandi um hjúskap sinn og D.
Um sönnunargildi opinberra skjala gildi einnig almennt sú regla í einkamálaréttarfari, að innihald þeirra sé talið rétt að því er varði atvik sem skjalið tjáir hafa gerst í embætti eða sýslan útgefanda þar til hið gagnstæða sannist eða sé gert sennilegt. Sóknaraðili telji því að byggja verði á þeim atriðum sem þar komi fram um hjúskap hennar og D .
Sóknaraðili leggi því áherslu á þá óskráðu meginreglu íslensks réttar að hjúskapur, sem stofnað hafi verið til með löglegum hætti í öðru landi, sé gildur hér á landi. Í þessu felist að hafi maður og kona stofnað til hjúskapar með löglegum hætti í einhverju ríki, verði þau einnig álitin vera í hjúskap hér á landi. Þannig teljist hjónavígsla, þar á meðal borgaraleg vígsla eins og hér um ræðir, sem farið hafi fram erlendis að réttum lögum hlutaðeigandi lands og ekki sé andstæð lögum og góðu velsæmi hér á landi, jafngild íslenskri hjónavígslu í lögfræðilegum skilningi.
Í ljósi ofangreinds sé ljóst að ekki þurfi að afla allra þeirra gagna sem liggi að baki hjúskaparskráningu sóknaraðila og D í Japan. Hlutverk dómstóla á Íslandi sé ekki að endurmeta mat japanskra yfirvalda á því hvort þau gögn sem liggi til grundvallar hjúskap, sem þar stofnist, og skráningu hans í fjölskylduskrá hafi uppfyllt skilyrði japanskra hjúskaparlaga. Því hljóti að mega ganga út frá því að opinber skjöl, útgefin af japönskum yfirvöldum ásamt staðfestingum yfirvalda í Japan, ríkis sem jafnframt sé aðili að Haag-samningnum, nægi til þess að sýna fram á hjúskaparstofnun í Japan. Í þessu tilliti megi ekki fara í manngreinarálit eða láta frásagnir fjölmiðla villa sýn.
Í sjötta lagi vill sóknaraðili geta þess að samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá, hafi hjúskaparstaða D verið skráð „óupplýst” í þjóðskrá og hafi það haldist svo til dauðadags hans. Slík skráning sé einungis notuð um útlendinga, skráða í þjóðskrá án þess að upplýsingar um hjúskaparstöðu þeirra hafi verið veittar. Af þessu verði vitaskuld hvorki dregin sú ályktun að D hafi ekki verið í hjúskap með sóknaraðila né að hann hafi ekki talið sig vera í hjúskap.
Ástæður þess að ekki hafi verið upplýst um hjúskapinn í fjölmiðlum skipti ekki máli þegar skera eigi úr um lögmæti hjúskapar. Þá bendir sóknaraðili á að af fréttum fjölmiðla eða viðtölum verði alls ekki dregnar ályktanir um staðreyndir milli hjónaefna. Sóknaraðili bendir á að ummæli í viðtölum verði ekki lögð til grundvallar líkt og hefði viðkomandi borið um sömu atriði í vitnaskýrslu fyrir dómi og hafi slík skjöl ekki sjálfstætt sönnunargildi. Sóknaraðili hafni því að umfjallanir eða viðtöl í fjölmiðlum skipti nokkru máli í tengslum við mat á lögmæti hjúskapar þess sem hér um ræðir.
Sóknaraðili áréttar einnig að D hafi verið heimsfrægur og þekktur fyrir að ganga langt í að leyna aðra einkamálum sínum og einkalífi. Samband hans við sóknaraðila hafi ekki verið nein undantekning þar á.
Opinber gögn um hjúskap sóknaraðila og D, staðfest af þar til bærum japönskum yfirvöldum, séu helstu gögn sem hafa sönnunargildi í máli þessu.
Í sjöunda lagi vísar sóknaraðili til þess að lögerfðatengsl myndist hér á landi milli hjóna, þegar lögleg hjónavígsla hafi farið fram. Þannig gangi lögerfðaréttur ekkju D, sóknaraðila, til arfs framar réttindum varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í greininni segi um II. erfð, að eigi arfleifandi engan niðja á lífi, taki maki allan arf. Að öllu ofangreindu virtu telur sóknaraðili að nefnd grein erfðalaga eigi við í þessu máli.
Sóknaraðili vísar einkum til meginreglna hjúskapar- og erfðaréttar. Einnig vísar hann til meginreglna alþjóðlegs einkamálaréttar. Þá er vísað til laga um skipti á dánarbúum nr. 20/1991, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og til Haag-samnings um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala frá 5. október 1961. Til stuðnings kröfu um málskostnað er vísað til XXI. kafla sömu laga og til stuðnings kröfu um virðisaukaskatt til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðilar vísa fyrst til þess að við úrlausn ágreinings um hvort bú D heitins skyldi tekið til opinberra skipta, sbr. mál nr. Q-3/2009 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hæstaréttarmál nr. 661/2009, hafi sóknaraðili að nokkru byggt á annarri málsatvikalýsingu og öðrum málsástæðum en gert sé í þessu máli. Vilja varnaraðilar í þeim atvikum einkum vekja athygli á eftirfarandi:
Í greinargerð sóknaraðila í máli nr. Q-3/2009 hafi því verið haldið fram að borgaryfirvöld í Ota-umdæmi, Tókýó, Japan, hefðu 6. september 2004 fallist á skjöl, sem legið hafi til grundvallar ætluðum hjúskap sóknaraðila og D og gefið út vottorð þar að lútandi 23. apríl 2009. Nú sé því hins vegar haldið fram af hálfu sóknaraðila að gögn málsins, ásamt tilkynningu um hjúskaparstofnun, hafi einungis verið móttekin af hálfu yfirvalda í Ota-umdæmi 6. september 2004 og síðan send tilgreindri deild dómsmálaráðuneytis Japans.
Jafnframt sé í greinargerð sóknaraðila í máli nr. Q-3/2009 byggt á því að dómsmálaráðuneytið hafi skoðað gögn málsins og staðfest skráningu hjúskaparins að henni lokinni 28. janúar 2005. Nú sé hins vegar byggt á því að eftir móttöku tilkynningar um meintan hjúskap hafi gögnin verið send dómsmálaráðuneyti í því skyni að fá það staðfest hvort yfirvöld í Ota-umdæmi, Tókýó, mættu samþykkja skráninguna. Þá sé því jafnframt haldið fram að svar ráðuneytisins þar um hafi borist 28. janúar 2005, en ekki sé unnt að nálgast það „með auðveldum hætti“. Hafi hjúskapurinn í kjölfarið verið skráður afturvirkt frá þeim tíma sem sóknaraðili og D eigi að hafa sent tilkynningu um ætlaða hjúskaparstofnun sína. Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti vegna kæru úrskurðar í máli nr. Q-3/2009 hafi því verið haldið fram að eina tilkynning japanskra yfirvalda á skráningu ætlaðs hjúskapar hafi borist sóknaraðila símleiðis.
Varnaraðilar byggja í öðru lagi á því að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 20/ 1991 um skipti á dánarbúum o.fl. þurfi sá sem geri tilkall til arfs ekki að færa sönnur á erfðatengsl við hinn látna nema brigður séu bornar á tengslin. Sóknaraðili geri tilkall til arfs eftir D heitinn á grundvelli þess að hann hafi verið í hjúskap með hinum látna. Hafi þau tengsl verið vefengd af hálfu varnaraðila og því beri sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir meintum erfðarétti sínum. Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili ekki axlað framangreinda sönnunarbyrði sína.
Samkvæmt vottorði Þjóðskrár, dagsettu 5. júní 2008, hafi hjúskaparstaða D verið skráð „ótilgreind“ og hafi svo haldist til dauðadags hans. Það bendi til þess að hann hafi hvorki við öflun ríkisborgararéttar hér á landi, í byrjun árs 2005, né síðar á þeim tæpum þremur árum sem hann bjó hérlendis, talið sig vera í hjúskap með sóknaraðila. Hafi varnaraðilar og vitneskju um að sóknaraðila hafi í engu verið getið í umsókn D um íslenskan ríkisborgararétt, svo sem væntanlega hefði verið hefði hann þá talið sig vera í fullgildum hjúskap með sóknaraðila.
Í fjórða lagi vísa varnaraðilar til þess að sóknaraðili hafi í fyrri dómsmálum aðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. mál nr. D-24/2008 og Q-3/2009, vísað til ýmissa skjala, sem sé ætlað að sýna fram á meintan hjúskap sóknaraðila og D . Byggi sóknaraðili enn á þessum skjölum.
Sóknaraðili hafi til stuðnings fullyrðingum sínum um ætlaðan hjúskap sinn og D í fyrsta lagi vísað til skráningar í fjölskylduskrá sinni í íbúaskrá í Ota-umdæmi. Vísa varnaraðilar til skjals, dagsetts 21. janúar 2008, sem fylgt hafi bréfi skiptastjóra til héraðsdóms, þar sem fram komi að ætlað hjónaband sóknaraðila og D hafi verið skráð í fjölskylduskrá sóknaraðila 28. janúar 2005 eða tæpum fimm mánuðum eftir að það á að hafa átt sér stað.
Að mati varnaraðila sé ekki unnt að leggja framangreinda skráningu í fjölskylduskrá sóknaraðila í Japan til grundvallar um lögerfðaréttindi eftir hinn látna. Af hálfu sóknaraðila hafi ekki verið lögð fram nein gögn, sem kynnu að hafa getað verið grundvöllur nefndrar skráningar, s.s. tilkynning um meintan hjúskap eða önnur skjöl undirrituð af hinum látna. Því liggi ekkert fyrir um á hvaða gögnum umrædd skráning í fjölskylduskrá sóknaraðila í íbúaskrá eigi að hafa byggst. Hafi sóknaraðili því ekki sýnt nægilega fram á að hann hafi verið í hjúskap með hinum látna á dánardegi. Að auki megi draga mjög í efa að hinn látni hafi skilið eða gert sér grein fyrir efni þeirra skjala á japönsku, sem hann kann hugsanlega að hafa undirritað í tengslum við hinn meinta hjúskap.
Í fyrri dómsmálum aðila hafi sóknaraðili lagt fram skjal, sem hann kveði nú vera svonefnt staðfestingarvottorð eða vottorð um samþykki hjúskapartilkynningar. Dómskjalið muni vera á japönsku og sé varnaraðilum og lögmanni þeirra með öllu óskiljanlegt. Í fyrri dómsmálum hafi sóknaraðili nefnt skjalið móttökuvottorð. Sóknaraðili hafi byggt á því að skjalið sýni fram á móttöku tiltekinna gagna um ætlaðan hjúskap sóknaraðila og D en nú kveði sóknaraðili vottorðið vera gefið til samþykkis á stofnun hjúskapar eða til samþykkis hjúskapartilkynningu. Í öllu falli sé ljóst að þau gögn, sem liggja eiga til grundvallar þessu fjölnafna vottorði, hafi ekki verið lögð fram, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir varnaraðila til sóknaraðila. Því hafi vottorð um samþykki hjúskapartilkynningar ekki neina þýðingu við úrlausn málsins.
Sóknaraðili hafi einnig lagt fram bréf löggilts skjalaþýðanda, dagsett 12. maí 2009, þar sem hann kveðst staðfesta að samkvæmt meðfylgjandi móttökuvottorði hafi nafngreindur umdæmisstjóri tekið við hjúskaparskráningu sóknaraðila og D heitins. Svonefnt móttöku- eða staðfestingarvottorð hafi þó ekki fylgt bréfi skjalaþýðandans og hafi bréfið því ekki neina þýðingu við úrlausn þessa máls. Jafnvel þótt efni meints vottorðs væri það sem segi í bréfi skjalaþýðandans myndi það eftir sem áður ekki færa neinar sönnur á ætlaðan hjúskap sóknaraðila og D og gildi hans, heldur eingöngu móttöku tilkynningar.
Enn fremur hafi sóknaraðili vísað til svonefnds hjónavígsluvottorðs. Það skjal beri þó með sér að vera byggt á skráningu svonefndrar „opinberr[ar] fjölskylduskrifstofu“, sem sóknaraðili hafi borið við að sé áþekk þjóðskrá hér á landi. Þetta sé ekki eiginlegt hjónavígsluvottorð heldur aðeins staðfesting á því sem fram komi í útprentun úr persónuskrá nefndrar skrifstofu í Ota-umdæmi. Geti heiti skjalsins ekki breytt neinu um að samkvæmt efni sínu staðfesti skjalið eingöngu efni útprentunar úr persónuskrá sóknaraðila.
Að mati varnaraðila verði niðurstaða um gildi ætlaðs hjúskapar sóknaraðila og hins látna ekki byggð á þessum skjölum, sem öll eigi rætur sínar að rekja til persónuskráningar sóknaraðila, sérstaklega ekki þegar hliðsjón sé höfð af öðrum gögnum málsins og málatilbúnaði sóknaraðila eins og nú verði rakið.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands 8. desember 2009, í máli varnaraðila gegn sóknaraðila, hafi þau gögn, sem sóknaraðili hafði þá lagt fram, og séu tilgreind hér að ofan, ekki þótt nægja til að færa fram fullnægjandi sönnun fyrir því að sóknaraðili hefði verið í gildum hjúskap með D er hann lést. Hafi sóknaraðili heldur ekki, þrátt fyrir áskorun varnaraðila, lagt fram gögn sem hafi átt að vera til grundvallar skráningu hins meinta hjúskapar. Hafi þau gögn heldur ekki verið lögð fram í þessu máli þrátt fyrir að bæði hafi verið fullt tilefni og nægur tími til.
Rétt sé að taka fram að þegar Hæstiréttur Íslands hafi kveðið upp dóm sinn í ofangreindu máli hafi legið fyrir réttinum afrit staðfestingarvottorðs, dagsetts 23. apríl 2009, og staðfesting löggilts skjalaþýðanda á efni þess, dagsett 12. maí 2009, sem sóknaraðili hafi nú aftur lagt fram. Jafnframt hafi verið meðal gagna málsins hjúskaparvottorð, dagsett 30. janúar 2008, og íslensk þýðing þess, dagsett 15. apríl 2009, sem sóknaraðili hafi einnig lagt fram nú. Þá hafi einnig legið fyrir réttinum staðfest vottorð úr opinberri fjölskylduskrá sóknaraðila í Ota-umdæmi, Tókýó.
Af fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands verði ráðið að framlagt móttöku- eða staðfestingarvottorð, hjúskaparvottorð og endurrit úr persónuskrá sóknaraðila séu ekki nægileg sönnun ætlaðs hjúskapar sóknaraðila og D heitins. Telji varnaraðilar leiða af reglum um res judicata áhrif að dómur Hæstaréttar sé að þessu leyti bindandi við úrlausn þessa máls, sbr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Verði þessi gögn því ekki lögð til grundvallar um lögerfðatengsl sóknaraðila og D, enda sýni þau að mati Hæstaréttar Íslands ekki fram á hjúskap þeirra. Í öllu falli hljóti dómurinn að hafa fordæmisgildi um þýðingu greindra skjala við mat á sönnun á ætluðum hjúskap sóknaraðila og D heitins.
Varnaraðilar benda á að sóknaraðili hafi við meðferð þessa ágreiningsmáls lagt fram ýmis ný skjöl í því skyni að sýna fram á að til gilds hjúskapar hafi stofnast með sér og D.
Í fyrsta lagi hafi sóknaraðili lagt fram nýtt persónuvottorð úr fjölskylduskrá, gefið út 20. maí 2010 og staðfest af japanska utanríkisráðuneytinu 27. maí 2010. Vottorðið sé hið sama og sóknaraðili hafi þegar lagt fram, að því frátöldu að þar sé getið dánardags D heitins. Hafi þegar verið tekin afstaða til þess af hálfu Hæstaréttar Íslands að vottorð úr fjölskylduskrá sóknaraðila nægi ekki til sönnunar á ætluðum hjúskap hans og D. Hafi þetta vottorð því ekki neina þýðingu og breyti viðfest staðfesting japanska utanríkisráðuneytisins þar engu um. Hið sama eigi við um drengskaparheit tilgreinds japansks lögmanns.
Í öðru lagi hafi sóknaraðili lagt fram bréf frá japanska sendiráðinu hér á landi til lögmanns sóknaraðila, dagsett 1. febrúar 2010. Bréfið sé á ensku, en þýðing nafngreinds lögfræðings á íslensku. Bréfið virðist vera svarbréf við bréfi lögmanns sóknaraðila, dagsettu 6. janúar 2010. Hafi bréf sendiráðsins enga þýðingu í málinu. Þó megi geta þess að af bréfinu verði ráðið að sóknaraðili hafi sjálfur tækifæri til að afla sér ótiltekinna upplýsinga eða skjals í Japan.
Í þriðja lagi hafi sóknaraðili lagt fram bréf frá japanskri lögmannsstofu til lögmanns sóknaraðila, dagsett 21. maí 2010, ásamt íslenskri þýðingu nafngreinds lögfræðings á íslensku. Bréfið sé skrifað af japönskum lögmönnum fyrir sóknaraðila og virðist fela í sér svör við tilteknum spurningum, sem sóknaraðili hafi lagt fram, og ráðleggingar honum til handa. Hafi bréfið ekki neina þýðingu um sönnun ætlaðs hjúskapar sóknaraðila og D heitins. Varnaraðilar vekja þó athygli á því að samkvæmt bréfinu þurfi tilkynning um hjúskap að vera undirrituð af báðum þeim sem hyggjast ganga í hjúskap. Til að giftast í Japan þurfi að útvega gilt ökuskírteini eða annað samþykkt persónuskilríki með mynd, útgefið af opinberri skrifstofu. Óumdeilt sé að D hafi ekki haft gild skírteini í fórum sínum á þeim tíma, sem ætlaður hjúskapur eigi að hafa stofnast. Jafnframt þurfi maður „sem ekki er japanskur ríkisborgari að láta í té eiðsvarna yfirlýsingu um getu til þess að ganga í hjúskap útgefna af erlendri skrifstofu ríkisstjórnar og japanska þýðingu yfirlýsingarinnar“. Eiðsvarin yfirlýsing D staðfest af skrifstofu ríkisstjórnar og japönsk þýðing hennar hafi ekki verið lögð fram þrátt fyrir fyrri áskoranir um framlagningu gagna. Enn fremur þurfi að leggja fram hjúskapartilkynningu og nauðsynleg gögn til skrifstofu borgarhverfis eða bæjarskrifstofu. Hjúskapartilkynning og nauðsynleg gögn hafi ekki verið lögð fram af hálfu sóknaraðila þrátt fyrir fyrri áskoranir um framlagningu gagna. Í einhverjum tilvikum sé gert ráð fyrir aðkomu fjölskyldudómstóls að ferli til staðfestingar hjúskapar eftir samþykki á hjúskapartilkynningu. Ekkert liggi fyrir um slíkt í þessu máli. Enn fremur standi í bréfinu að staðfest afrit úr opinberri fjölskylduskrá og afrit af vottorði um samþykki á hjúskapartilkynningu séu „yfirleitt“ talin fullnægjandi sönnun hjúskapar. Umrædd gögn séu því ekki fortakslaust nægileg til sönnunar hjúskapar eins og haldið sé fram af hálfu sóknaraðila. Hæstiréttur Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi sínum 8. desember 2009 að umrædd gögn veittu ekki fullnægjandi sönnun á að til hjúskapar sóknaraðila og hins látna hefði stofnast.
Í fjórða lagi hafi sóknaraðili lagt fram vottorð um samþykki tilkynningar um hjúskap, dagsett 4. júní 2010. Varnaraðilar telji vottorðið enga þýðingu hafa um sönnun hjúskapar sóknaraðila og D . Breyti staðfesting skjalsins þar engu um. Tilkynningin sjálf, sem samkvæmt framanrituðu hefði þurft að vera undirrituð bæði af sóknaraðila og D, hafi ekki verið lögð fram þrátt fyrir áskoranir. Hið sama sé að segja um gögn, sem sóknaraðili kveður hafa fylgt tilkynningunni. Vottorðið beri það með sér að sóknaraðili hafi tilkynnt um ætlaðan hjúskap, en hvorki japanskur lögmaður hins látna né nokkrir aðrir en sóknaraðili sjálfur virðist hafa haft hugmynd um að skráning hins meinta hjúskapar hafi verið samþykkt af japanska dómsmálaráðuneytinu. Þá ítreka varnaraðilar að jafnvel þótt litið yrði svo á að vottorðið hefði einhverja sérstaka þýðingu, sé það samkvæmt gögnum, sem sóknaraðili hafi sjálfur lagt fram, ekki fortakslaus sönnun þess að til hjúskapar hafi stofnast fremur en útprentun úr fjölskylduskrá sóknaraðila.
Í fimmta lagi hafi sóknaraðili lagt fram bréf frá áðurnefndri lögmannsstofu í Japan til lögmanns sóknaraðila, dagsett 19. október 2010. Bréfið feli í sér greinargerð japanskra lögmanna sóknaraðila í hans þágu og verði að meta sem slíkt. Hafi það enga þýðingu við úrlausn málsins. Geti slík greinargerð, sem greitt hafi verið fyrir af hálfu annars aðila dómsmáls, ekki haft neitt sönnunargildi í máli þessu.
Önnur gögn, sem sóknaraðili hafi lagt fram, hafi ekki þýðingu um ætluð lögerfðatengsl sóknaraðila og D. Að mati varnaraðila hnekki ný gögn sóknaraðila ekki því mati Hæstaréttar Íslands að ekki hafi verið færð fullnægjandi sönnun fyrir meintum hjúskap sóknaraðila og D. Varnaraðilar ítreka að þeir hafi um langa hríð skorað á sóknaraðila að leggja fram gögn, sem átt hafi að liggja til grundvallar skráningu ætlaðs hjúskapar. Hafi heldur ekki enn borist fullnægjandi skýringar á því hvað kunni að standa því í vegi, sbr. dóm Hæstaréttar 8. desember 2009 í máli aðila nr. 661/2009.
Í greinargerð sóknaraðila í máli nr. Q-3/2009 hafi því verið haldið fram að dómsmálaráðherra Japans hefði þann 28. janúar 2005 samþykkt skráningu hjúskapar sóknaraðila og D. Nú sé því borið við að samþykki þessa efnis hafi borist yfirmanni Ota-umdæmis, Tókýó, frá yfirmanni skrifstofu lögfræðimála í Tókýó, sem sé deild í japanska dómsmálaráðuneytinu. Engin gögn hafi hins vegar verið lögð fram af hálfu sóknaraðila þessu til stuðnings. Hafi sóknaraðili borið því við að ekki sé unnt að nálgast slík gögn „með auðveldum hætti“ enda sé um innri samskipti stjórnvalda í Japan að ræða. Í greinargerð sóknaraðila vegna kæru í máli nr. Q-3/2009 hafi því hins vegar verið haldið fram að sóknaraðili „gæti ekki fengið slík skjöl í hendur“.
Varnaraðilar ítreka að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. hvíli sönnun um erfðatengsl á þeim, sem geri tilkall til arfs, séu brigður bornar á tengslin. Ekki sé heimilt að víkja frá þeirri reglu eða slaka á sönnunarkröfum sakir þess að þeim, sem tilkall geri til arfs, reynist ekki unnt að færa fram sönnun „með auðveldum hætti“.
Sóknaraðili hafi um framangreind efni nú vísað til bréfs frá sendiráði Japans á Íslandi, dags. 1. febrúar 2010, og íslenskrar þýðingar þess. Að mati varnaraðila verði þessi skilningur sóknaraðila ekki ráðinn af greindum dómskjölum. Að svo miklu leyti sem tilgreind dómskjöl kunni að varða aðgang sóknaraðila að gögnum um ætlað samþykki japanska dómsmálaráðherrans eða -ráðuneytisins á meintum hjúskap sóknaraðila og D, sé ljóst að sóknaraðili sé þvert á móti hvattur til að sækja sjálfur hlutaðeigandi upplýsingar eða skjal í Japan.
Varnaraðilar benda á að L, sem hafi verið lögmaður D í Japan, hafi sagt í viðtali 2. febrúar 2005, eða fimm dögum eftir ætlað samþykki dómsmálaráðherra Japans, að endanleg viðurkenning dómsmálaráðuneytisins á hjúskap þeirra lægi ekki fyrir (e. The final recognition by the Ministry of Justice has not been made though the marriage registration has been submitted several months ago.).
Jafnvel þótt ótilgreind gögn um meintan hjúskap sóknaraðila og D kunni að hafa verið móttekin hjá yfirvöldum í Ota-umdæmi, Tókýó og hjúskaparins getið í fjölskylduskrá sóknaraðila, sem engin fullvissa sé um hvaða áhrif eigi að hafa eða hversu áreiðanleg séu, virðist ljóst af framangreindu að gildi hjúskaparins hafi a.m.k. verið háð samþykki eða staðfestingu japanska dómsmálaráðuneytisins. Þetta sé staðfest í framangreindu viðtali við lögmann D í Japan og jafnframt á því byggt af hálfu sóknaraðila eins og fyrr sé rakið. Varnaraðilar ítreka að sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn um samþykki ráðuneytisins og samkvæmt viðtali við lögmann hins látna í Japan hafi það samþykki ekki legið fyrir fimm dögum eftir það tímamark, sem sóknaraðili kveður samþykkið hafa fengist.
Samkvæmt framansögðu virðist hvorki lögmanni hins látna í Japan né nokkrum öðrum en sóknaraðila hafa verið kunnugt um ætlað samþykki japanska dómsmálaráðuneytisins á meintum hjúskap fyrr en eftir andlát hans. Kveður sóknaraðili nú að sér hafi verið tilkynnt símleiðis um skráningu hjúskaparins en engin skjöl hafi verið gefin út þess efnis.
Að mati varnaraðila verður ekki horft fram hjá því, í ljósi atvika, að í viðtali við sóknaraðila 22. mars 2005, þ.e. sama dag og hinn látni öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt, komi fram að sóknaraðili hafi áformað að flytja með D til Íslands þegar hann yrði látinn laus úr varðhaldi. Síðan er haft orðrétt eftir sóknaraðila: „Við munum skoða síðar hvort við giftum okkur á Íslandi en því ferli hefur verið frestað.“
Að mati varnaraðila bendi þetta eindregið til þess að tilskilin staðfesting japanska dómsmálaráðuneytisins á meintum hjúskap sóknaraðila og D hafi ekki fengist eða í öllu falli að ekki hafi stofnast til gilds hjúskapar. Það sé einnig í samræmi við það sem fram komi hjá japönskum lögmanni D nokkru áður. Síðari tíma skýringar sóknaraðila á ummælum sínum og annarra í fjölmiðlum og ætlaðri leynd hans og hins látna á meintum hjúskap sínum séu ótrúverðugar og að engu hafandi.
Varnaraðilum sé ekki kunnugt um að greindur móðurbróðir þeirra hafi nokkurn tíma gengið í hjúskap, hvorki með sóknaraðila né öðrum. Hafi hann margoft lýst því yfir við vini sína og velgjörðarmenn hérlendis eftir að hann hafði fengið íslenskan ríkisborgararétt og flust hingað út að hann væri ókvæntur. Hafi hann ítrekað getið þess að sóknaraðili væri eingöngu vinkona hans, en ekki unnusta og því síður eiginkona. Varnaraðilar telja hinn látna og sóknaraðila aldrei hafa haldið heimili saman.
Varnaraðilar benda jafnframt á að ekki séu nein teikn um að hinn látni eða nokkur sá er taldist til vina hans hafi talið að til gilds hjúskapar hafi stofnast milli sóknaraðila og hins látna á þeim tíma sem haldið er fram af hálfu sóknaraðila. Þá sé meðal annars til þess að líta að hérlendir vinir D hafi farið utan til Japans til að reyna að fá hann leystan úr varðhaldi og hafi verið þar í landi nokkru eftir að sóknaraðili kveði dómsmálaráðuneyti Japans hafa samþykkt skráningu hjúskapar hans og hins látna. Í viðtölum við þá á þeim tíma sé ítrekað vísað til sóknaraðila sem unnustu hins látna. Það sé með miklum ólíkindum að hvorki hinn látni né sóknaraðili hafi gert þeim grein fyrir ætluðum hjúskap þeirra eða samþykki japanska dómsmálaráðuneytisins fyrir skráningu hans, einkum þegar litið sé til þeirrar þýðingar sem hjúskapnum hafi verið ætlað að hafa við að fá D leystan úr haldi í Japan. Hafi umræddir vinir D heitins gagngert verið í Japan til að aðstoða hann í þeim efnum. Þá sé þess einnig að geta að í erlendum fjölmiðlum á þessum tíma sé jafnframt vísað til sóknaraðila sem unnustu hins látna (e. fiance).
Þá verði heldur ekki fram hjá því horft að samkvæmt vottorði Þjóðskrár hafi hjúskaparstaða hins látna verið skráð ótilgreind frá því hann var fyrst skráður í þjóðskrá og til dánardags. Bendi það eindregið til þess að hinn látni hafi ekki talið sig vera í hjúskap. Samkvæmt öðru vottorði Þjóðskrár hafi hjúskaparstaða hins látna með sama hætti verið skráð óupplýst.
Loks geta varnaraðilar þess að þeim sé ekki kunnugt um að nein gögn um ætlaðan hjúskap sóknaraðila og D hafi verið á heimili D eftir andlát hans.
Varnaraðilar taka fram að D heitinn hafi verið ríkisfangslaus á þeim tíma, sem hinn ætlaði hjúskapur eigi að hafa átt sér stað, þar sem hann hafi verið sviptur bandarísku vegabréfi sínu árið 2003. Þetta sé ágreiningslaust með aðilum. Byggja varnaraðilar á því að hann hafi af þeim sökum ekki getað gengið í hjúskap samkvæmt japönskum lögum óháð því hvort vilji hans hafi staðið til þess eða ekki.
Af fréttum fjölmiðla frá árinu 2004 verði ráðið að sóknaraðili hafi haft í hyggju að giftast D til málamynda til að forða honum frá framsali til Bandaríkja Norður-Ameríku þar sem hans hefði beðið fangelsisvist vegna ætlaðra brota hans gegn þarlendum lögum. Japönsk yfirvöld hafi hins vegar ekki fallist á að um gilt hjónaband væri að ræða, m.a. sakir þess að D hafi ekki verið með gilt vegabréf.
Samkvæmt greinargerð japanskrar lögmannsstofu, sem sóknaraðili hafi lagt fram, þurfi þeir sem hyggist ganga í hjúskap í Japan að leggja fram gild persónuskilríki. Í greinargerð sóknaraðila komi fram að skilyrði japanskra laga um að D legði fram gilt vegabréf eða staðfestingu frá Bandaríkjum Norður-Ameríku hefði ekki verið fullnægt. Því sé hins vegar haldið fram að japanska dómsmálaráðuneytið hafi þrátt fyrir þetta staðfest að samþykkja mætti skráningu ætlaðs hjúskapar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Beri sóknaraðili því við að vegabréf, sem D hafði verið sviptur, „ásamt öðru“ ótilgreindu, hafi orðið til þess að bæði bandarísk yfirvöld og japönsk hafi ekki verið „í minnsta vafa“ um hver D væri. Virðist því mega ráða af málatilbúnaði sóknaraðila að japönsk stjórnvöld hafi vikið frá skilyrði japanskra laga að þessu leyti, eftir atvikum með aðstoð bandarískra yfirvalda. Engin gögn hafi þó verið lögð fram, sem staðfesti að vikið hafi verið frá téðu skilyrði eða hvers vegna og þá á grundvelli hvaða gagna. Á meðan svo hátti til sé ekki unnt að miða við annað en að hinum látna hafi verið ógerlegt að ganga í hjúskap með sóknaraðila.
Verði einhverra hluta vegna talið sannað að til hjúskapar hafi stofnast milli sóknaraðila og D heitins, byggja varnaraðilar á því að sá hjúskapur hafi verið til málamynda og geti því ekki verið gildur að lögum. Eins og fyrr greini hafi D verið ófrjáls maður í gæslu japanskra yfirvalda þá er hann eigi að hafa gengið í hjúskap með sóknaraðila. Hafi verið leitað allra leiða til að forða honum frá framsali til Bandaríkja Norður-Ameríku þar sem hann hafi átt yfir höfði sér fangelsisdóm. Megi og ráða að sá hafi verið tilgangur með meintum hjúskap sóknaraðila og D og hann því eingöngu til málamynda. Geti slíkur hjúskapur ekki talist gildur að lögum og leitt til lögerfðatengsla milli sóknaraðila og hins látna.
Auk þess telja varnaraðilar ástæðu til að ætla að andlegri heilsu D hafi verið þannig háttað eftir langa frelsissviptingu í Japan að hann hafi verið ófær um að skuldbinda sig að lögum til hjúskapar þá er ætlaður hjúskapur á að hafa stofnast.
Að framanröktu sé ljóst að gögn þau, sem sóknaraðili hafi lagt fram til stuðnings fullyrðingum sínum um hjúskap sinn og D, séu með öllu ófullnægjandi og nægi engan veginn til að sýna fram á að réttur sóknaraðila til arfs eftir hinn látna gangi framar lögerfðaréttindum varnaraðila. Eins og fyrr greini hafi Hæstiréttur Íslands þegar hafnað því að svonefnt móttöku- eða staðfestingarvottorð, hjúskaparvottorð og endurrit úr fjölskylduskrá sóknaraðila, sem sóknaraðili hafi lagt fram, nægi til að sýna fram á að til gilds hjúskapar hafi stofnast milli sóknaraðila og D. Telji varnaraðilar héraðsdóm bundinn við þá niðurstöðu Hæstaréttar um mat á sönnunargildi framlagðra skjala. Ný skjöl, sem sóknaraðili hafi lagt fram, bæti engu efnislega við þau skjöl, sem þegar hafi verið lögð fram.
Ekki hafi fundist á heimili hins látna nein gögn um meintan hjúskap. Frásagnir annarra bendi til þess að hann hafi ítrekað sagst vera ókvæntur. Þá hafir sóknaraðila ekki verið getið í tengslum við umsókn hins látna um íslenskan ríkisborgararétt, hjúskaparstaða hans í þjóðskrá var ótilgreind í þau tæpu þrjú ár sem hann bjó hérlendis og sóknaraðili og hinn látni héldu aldrei heimili saman. Að auki bendi margt til þess að hinum látna hafi verið ógerlegt að ganga í hjúskap á ætluðum hjúskapardegi sakir þess að hann var þá án gilds vegabréfs. Þá virðist sóknaraðili einn hafa komið að skráningu hins meinta hjúskapar og verði ráðið af viðtölum að bæði japönskum lögmanni, sem vann að málum D í Japan, og hérlendum vinum hans hafi verið ókunnugt um meint samþykki japanska dómsmálaráðuneytisins á skráningu hjúskaparins. Við framangreint bætist að sóknaraðili hafi þverskallast við ítrekuðum áskorunum um framlagningu gagna, sem eigi að hafa legið til grundvallar skráningu ætlaðs hjúskapar. Verður sóknaraðili að bera hallann þar af, sbr. 67. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Eins og málið liggi fyrir stangist fullyrðingar sóknaraðila um meintan hjúskap hans og D , sem sóknaraðili virðist sjálfur hafa tilkynnt um, á við allt annað sem fyrir liggi í málinu um hjúskaparstöðu hins látna sé frá talin útprentun úr fjölskylduskrá sóknaraðila, sem öll önnur skjöl virðist byggð á. Geti sóknaraðili ekki vikist undan áskorunum um framlagningu gagna, sem eigi að hafa verið grundvöllur ætlaðs hjúskapar, með því einu að vísa til staðfestingar japanska utanríkisráðuneytisins á skjölum, sem Hæstiréttur hefur þegar talið ófullnægjandi. Breytir staðfestingin engu þar um.
Varnaraðilar benda á að sóknaraðili ætti að eiga hægt um vik við að útvega þau gögn, sem sögð séu liggja til grundvallar hjúskap hans, þ.á m. samþykki japanska dómsmálaráðuneytisins, enda varði upplýsingarnar sóknaraðila persónulega og ættu að vera til staðar á heimaslóðum hans. Vísa varnaraðilar enn fremur í þessum efnum til svars sendiráðs Japans á Íslandi sem sóknaraðili hafi lagt fram. Séu umrædd gögn til ættu þau að geta skorið úr um hvort samþykki ráðuneytisins hafi legið fyrir og þar með um gildi meints hjúskapar sóknaraðila og D og lögerfðarétt sóknaraðila. Verði sóknaraðili að bera allan halla í þessum efnum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. maí 2009 í máli nr. 160/2009.
Samkvæmt framansögðu verði að miða við að sóknaraðila hafi ekki lánast að sýna fram á að stofnast hafi til gilds hjúskapar milli sín og D. Því verði ekki hjá því komist að hafna öllum kröfum sóknaraðila.
Til stuðnings kröfum sínum vísa varnaraðilar til laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, erfðalaga nr. 8/1962 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Vegna kröfu um málskostnað er vísað til XXI. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988.
Framburður fyrir dómi
Vitnið M, Kanadamaður af júgóslavnesku bergi brotinn, starfaði fyrir N í Japan á þeim tíma sem D var handtekinn. Vitnið bar að sama morgun og það hafi heyrt fréttir af handtöku D hafi það haft samband við japanska skáksambandið og boðið fram aðstoð sína við að leysa D úr varðhaldinu. Sóknaraðili hafi verið starfandi formaður japanska skáksambandsins. Hafi vitnið þrýst mjög á að fá að hitta D í fangelsinu en D hafi ekki viljað hitta neinn enda hafi hann haft mjög góðar ástæður til að vantreysta ókunnugum. Vitnið hafi því þurft að sannfæra D um það að vitnið hefði lögmæta ástæðu til að hjálpa honum.
Strax á fyrsta fundi vitnisins með D hafi vitnið fundið fyrir því að eitthvað lægi í loftinu milli sóknaraðila og D sem var látið ósagt. Hafi vitnið þá strax grunað að þau tvö væru par. Tveimur til þremur dögum síðar, á næsta fundi með D, hafi vitninu fundist, til að kanna lagalega stöðu D, að það þyrfti að spyrja sóknaraðila um samband hennar og D, þrátt fyrir að Japanir séu mjög hlédrægir með einkalíf sitt. Vitnið hafi því, eins varfærnislega og því hafi verið unnt, bent sóknaraðila á að það gæti verið gagnlegt fyrir vitnið að vita hvort sóknaraðili og D væru í sambandi þar sem vitnið væri að reyna að grafa upp hver væri lagaleg staða D í Japan. Þar sem vitnið hafi spurt af lagalegum ástæðum hafi sóknaraðili sagt vitninu að hún og D hefðu verið í sambandi árum saman.
Stuttu síðar hefði D einnig sagt vitninu að hann og sóknaraðili væru hjón í skilningi engilsaxnesks venjuréttar (common law couple). Vitnið bar að samkvæmt kanadískum lögum hefði fólk, sem hefði búið saman í meira en ár, sömu lagalegu stöðu og hjón, með öllum sömu réttindum og skyldum og eiginmaður og eiginkona.
Í því skyni að afla D stuðningsmanna úr hópi lögfræðinga og þekktra einstaklinga hafi vitnið óskað eftir að vita hverjir sætu í stjórn japanska skáksambandsins. Í ljós hafi komið að fyrrum aðstoðarutanríkisráðherra Japans ætti sæti í stjórninni.
Vitnið bar að aðdragandann að hjúskap sóknaraðila og D mætti rekja til þess að þau tvö hefðu þekkt hvort annað frá miðjum áttunda áratugnum en þau hefðu verið í sambandi allt frá þeim tíma. Áður en D hafi verið hnepptur í gæsluvarðhald í Japan hafi hann búið með sóknaraðila á heimili sóknaraðila í nokkur ár. Vitnið bar að D hefði átt erfitt með að fá dvalarleyfi í Japan vegna hindrana bandaríska sendiráðsins þar, sem áttu rætur að rekja til ágreinings sem risið hefði þegar D lék skák í fyrrum Júgóslavíu 1992.
Í stað þess að sækja um, í Bandaríkjunum, vegabréfsáritun og heimild til dvalar í Japan, eins og hann hefði að öllu öðru eðlilegu átt að gera, hafi hann nýtt sér það að Vesturlandabúar geti dvalið allt að 90 dögum í Japan án þess að sækja sérstaklega um dvalarleyfi. D hafi því reglubundið komið til Japans og hafi þá dvalið hjá sóknaraðila í 90 daga. Að þeim tíma liðnum hafi hann farið til nálægs ríkis, eins og Hong Kong eða Filippseyja, þar sem hann taldi sig nokkuð öruggan og að ferðafrelsi hans yrði ekki heft. Hann hafi dvalið utan Japans í nokkrar vikur, jafnvel tvo mánuði, og komið síðan til baka til Japans. Vitnið hafi komist að því síðar að D hafi skilið allar eigur sínar eftir á heimili sóknaraðila í Japan meðan á þessum ferðalögum stóð. Vitnið bar að D hefði sagt honum að hann byggi hjá sóknaraðila í Japan.
Vitnið bar að það og sóknaraðili hefðu fundað með fyrrum aðstoðarutanríkisráðherra Japans til að ræða lagalega stöðu D og hafi þá verið örfáir dagar þar til taka hafi átt fyrir brottvísunarmál D. Þar sem D hafi viðurkennt fyrir vitninu að hann og sóknaraðili væru hjón í skilningi venjuréttar hafi vitnið þurft að vita hvort réttindi sambúðarfólks í Japan væru sambærileg réttindum sambúðarfólks í Kanada, því væri svo gæti D sótt um búsetuleyfi í Japan sem maki sóknaraðila.
Komið hafi í ljós að lagaleg staða sambúðarfólks í Japan væri ekki sú sama og sambúðarfólks í Kanada. Fyrrum utanríkisráðherra Japans hafi hins vegar lagt til að D og sóknaraðili skráðu hjúskap sinn til þess að breyta afstöðu japanskra yfirvalda og japansks almennings til D, öðlast það sem kalla mætti „skilning“ eða „viðurkenningu á staðreyndum“. Stuðningsmenn D hafi alltaf vitað að hann fengi ekki dvalarleyfi í Japan þar sem vegabréfið hefði verið tekið af honum.
Kvað vitnið markmið sitt hafa verið að koma í veg fyrir að D yrði framseldur til Bandaríkjanna því ekki hefðu verið neinar líkur á því að hann fengi réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum þar. Hafi vitnið því reynt af fremsta megni að halda D í Japan þar til önnur lausn fyndist á málunum.
Kvaðst vitnið hafa borið þessa uppástungu fyrrum aðstoðarutanríkisráðherra Japans undir D sem hafi lýst því yfir að hann og sóknaraðili væru nú þegar hjón. Hafi vitnið engu að síður brýnt fyrir D að hjúskaparloforð mætti ekki gefa nema með fullri sannfæringu og hafi vitnið því beðið D að hugleiða þessa uppástungu vel. Þegar vitnið hafi rætt við D, tveimur til þremur vikum síðar, hafi D sagt vitninu að hann ætlaði að láta skrá hjúskap sinn og sóknaraðila í Japan vegna þess að hann ætlaði að gera sóknaraðila að „heiðvirðri konu“. Þegar vitnið hafi spurt hvort D hygðist ekki biðja um hönd sóknaraðila hafi D sagst hafa gert það mörgum árum áður.
Vitnið kvaðst hafa spurt D af hverju þau hefðu ekki skráð hjónaband sitt fyrr úr því þau hefðu búið saman eins og hjón. Hafi D þá svarað því til að hann tryði ekki á að stjórnvöld ættu að hafa afskipti af einkalífi hans. Hefði hann fengið sig fullsaddan af því. Auk þess þyrfti hann, til að skrá hjúskapinn, að fara í bandaríska sendiráðið í Japan, sem hann taldi sér ekki fært.
Að sögn vitnisins þurfa brúðgumi og brúður, til þess að skrá hjónaband sitt í Japan, að hafa tvö vitni, leggja fram fæðingarvottorð, vegabréf, sé annar hvor aðilinn útlendingur, og eiðsvarna yfirlýsingu frá sendiráði heimalands útlendingsins þar sem fram komi að ekkert standi því í vegi að viðkomandi gangi í hjúskap.
Komið hafi í ljós að D geymdi afrit af vegabréfi sínu á heimili sóknaraðila og hafi það verið lagt fram á skráningarstofunni. Vegna eiðsvörnu yfirlýsingarinnar hafi D sagt að starfsmenn bandaríska sendiráðsins kæmu reglulega í fangelsið og gætu þeir í næsta sinn látið hann sverja eið að slíkri yfirlýsingu. Þegar til hafi átt að taka hafi starfsmenn sendiráðsins þó hafnað því að taka slíka yfirlýsingu af D. Hafi hann þá reiðst við, lýst því yfir að hann þyrfti ekki á neinum stjórnvöldum að halda og hafi útbúið framlagða yfirlýsingu um hjúskap sinn og sóknaraðila dagsetta 11. ágúst 2004.
Vitnið kvaðst hafa bent D á að fyrir japanska stjórnsýslu væri yfirlýsingin frá 11. ágúst 2004 ekki nægileg heldur þyrfti hann að útbúa skjal sambærilegt því sem starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna hefðu að öllu eðlilegu látið hann votta. Hafi D þá útbúið framlagt skjal dagsett 30. ágúst 2004. Næsta dag, 31. ágúst 2004, hafi D gert ítarlegra skjal sama efnis þar sem tilgreindur hafi verið fæðingarstaður og dvalarstaður D í Bandaríkjunum. Vitnið kvaðst hafa séð D undirrita þetta skjal í fangelsinu.
Vitnið bar að skráning hjúskapar D og sóknaraðila hefði tafist af þremur ástæðum. Fyrst þeirri að yfirlýsing D hefði ekki verið staðfest af bandaríska sendiráðinu í Japan. Síðan þeirri að einungis hafi verið lagt fram ljósrit af vegabréfi D en ekki sjálft vegabréfið og með því staðfest ljósrit og í þriðja lagi vegna þess að D hafi ekki komið á skrifstofu Ota-umdæmis til þess að leggja fram umsókn um skráningu hjúskaparins ásamt sóknaraðila og svaramönnunum þar sem hann hafi setið í gæsluvarðhaldi.
Vitnið kvaðst hafa farið á skrifstofu umdæmisins með sóknaraðila sem svaramaður D. Í Japan komi það fyrir að fólk í fangelsi gangi í hjúskap. Til sé málsmeðferð þar sem skrifstofa umdæmisins hafi samband við fangelsið og fái staðfest að viðkomandi sé í fangelsinu. Hins vegar sé ekki til málsmeðferð um það að fá staðfest skjöl, sem þessi, sem hvert sendiráð útbúi fyrir fólk undir öllum öðrum kringumstæðum.
Tafir hafi stafað að því að skrifstofa Ota-umdæmis hafi þurft að hafa samband við japanska dómsmálaráðuneytið. Það hafi síðan þurft að hafa samband við bandaríska sendiráðið til þess að staðfesta að ljósritið væri af vegabréfi D og að yfirlýsingin um að hann væri ekki giftur væri efnislega rétt.
Vitnið bar að sóknaraðili og svaramennirnir hefðu lagt fram skjölin á skrifstofu umdæmisins. Við venjulegar aðstæður séu gögnin afhent til baka eftir 5 mínútna athugun og staðfest sé að hjúskapurinn sé skráður. Þegar vitnið hafi sjálft skráð hjúskap sinn í Japan hafi það tekið innan við tíu mínútur að fá skráninguna afgreidda með því að framlögð gögn væru samþykkt og stimpluð.
Í tilviki sóknaraðila og D hafi starfsmenn skrifstofu Ota-umdæmis tekið við gögnunum og gefið til baka númer til staðfestingar á móttöku gagnanna en þau hafi ekki fengið gögnin til baka stimpluð um samþykki. Margir mánuðir hafi liðið þar til loksins hafi komið skrifleg staðfesting á því að skráning hjúskaparins væri samþykkt.
Vitnið kvaðst hafa frétt í febrúar 2005, frá sóknaraðila eða lögmanninum L, að japönsk yfirvöld hefðu loks lokið fimm mínútna málsmeðferðinni.
Niðurstaða
Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort stofnast hafi til gilds hjúskapar á milli sóknaraðila og D sem lést hér á landi 17. janúar 2008.
Sóknaraðili staðhæfir að þau hafi stofnað til hjúskapar í Japan í samræmi við þarlend lög um stofnun hjúskapar. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 skal sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu leiða tilvist og efni hennar í ljós. Til þess að færa sönnur á japanska löggjöf um stofnun hjúskapar hefur sóknaraðili lagt fram greinargerð japönsku lögmannsstofunnar P dagsetta 19. október 2010. Í greinargerðinni er einnig gerð grein fyrir því hvaða skjöl teljist sönnun þess að til hjúskapar hafi stofnast.
Varnaraðilar kveða þessa greinargerð ekki hafa neina þýðingu til sönnunar á meintum hjúskap sóknaraðila og D. Varnaraðilar bera því þó hvorki við að til hjúskapar stofnist á annan hátt en lýst er í greinargerð japönsku lögmannanna né að önnur gögn en þeir telja upp séu í Japan vottorð þess að til lögformlega gilD hjúskapar hafi stofnast. Því verður miðað við að til gilds hjúskapar stofnist í Japan á þann hátt sem japönsku lögmennirnir gera grein fyrir og að þau opinberu vottorð sem þar eru tilgreind séu þau vottorð sem þurfi að leggja fram til að færa sönnur á tilvist hjúskaparins.
Samkvæmt þessu leggja hjónaefni fram á skrifstofu þess borgarumdæmis þar sem þau búa tilkynningu um hjúskap samkvæmt lögum um fjölskylduskráningu. Yfirmaður skrifstofu umdæmisins samþykkir skráninguna eftir að hafa athugað hvort lagaskilyrði séu uppfyllt og ekki sé ástæða fyrir ógildi hjúskaparins. Við þetta samþykki fær hjúskapurinn gildi og er skráður í hina opinberu fjölskylduskrá. Samkvæmt greinargerð lögmannanna eru opinbera fjölskylduskráin og samþykki tilkynningar um hjúskap fullnægjandi sönnun um löglegan og gildan hjúskap samkvæmt japönskum lögum.
Sóknaraðili hefur orðið við áskorun varnaraðila og lagt fram afrit af sameiginlegri tilkynningu hennar og D um hjúskap sem þau lögðu inn hjá skrifstofu fjölskyldumála í Ota-umdæmi í Tókýó. Tilkynningin er undirrituð af þeim báðum og hjúskaparvotti hvors um sig. Samkvæmt enskri og íslenskri þýðingu skjalsins var tilkynningin móttekin 6. september 2004 og afgreidd 28. janúar 2005 og er þetta staðfest af vitninu M sem fór með sóknaraðila til að leggja tilkynninguna inn til skráningar.
Varnaraðilar draga trúverðugleika skjalsins í efa þar sem það hafi ekki verið fest við meintar þýðingar á því á íslensku og ensku. Af þeim sökum verði því ekki slegið föstu að framlagðar þýðingar séu sama efnis og tilkynningin. Þessi gögn lágu að sönnu ekki fyrir fyrr en um viku fyrir aðalmeðferð málsins. Hefðu varnaraðilar viljað mótmæla sönnunargildi framlagðs afrits og mótmæla því að framlagðar þýðingar væru þýðingar á því skjali hefði þeim verið í lófa lagið að óska þess að aðalmeðferð málsins yrði frestað svo þeim gæfist kostur á, til dæmis með nýjum þýðingum, að hnekkja framlögðum þýðingum. Það gerðu þeir ekki og því þykja mótmæli þeirra ekki haldbær.
Varnaraðilar ítreka enn fremur að umdæmisstjóri Ota-umdæmis hafi ekki afgreitt tilkynningu sóknaraðila og D um hjúskap samdægurs. Hafi það stafað af því, að sögn vitnisins M, að D hafi ekki getað komið sjálfur á skráningarstofuna þar sem hann hafi þá setið í gæsluvarðhaldi, einungis hafi verið lagt fram ljósrit af vegabréfi hans en ekki sjálft vegabréfið og í þriðja lagi af því að yfirlýsing D, þess efnis að ekkert stæði hjúskapnum í vegi, hafi ekki verið staðfest af sendiráði Bandaríkjanna í Japan. Af þessum sökum hafi þurft að fá sérstakt samþykki frá japanska dómsmálaráðuneytinu áður en skrifstofa Ota-umdæmis hafi getað afgreitt tilkynningu sóknaraðila og D um hjúskap. Þetta samþykki verði sóknaraðili að leggja fram. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi sóknaraðili ekki fært sönnur fyrir því að milli hans og D hafi stofnast gildur hjúskapur.
Ekki þykir nein ástæða til að vefengja hvorki framlagt afrit af tilkynningu um hjúskap né þýðingar á því skjali á ensku og íslensku. Samkvæmt þessum skjölum afgreiddi umdæmisstjóri Ota-umdæmis, O, tilkynningu sóknaraðila og D um hjúskap 28. janúar 2005. Samkvæmt framlögðu vottorði sama manns, útgefnu 4. júní 2010, tók tilkynning um hjúskap sóknaraðila og D gildi 6. september 2004.
Í málinu hefur einnig verið lagt fram nýtt vottorð úr fjölskylduskrá sóknaraðila útgefið 27. maí 2010. Það er samhljóða vottorði úr fjölskylduskrá sem var lagt fram í fyrra dómsmáli sömu málsaðila en á það hefur verið bætt dánardægri D.
Með þessum tveimur skjölum þykir komin fram fullnægjandi sönnun þess að 6. september 2004 hafi stofnast til gilds hjúskapar milli sóknaraðila og D.
O, umdæmisstjóri Ota-umdæmis í Tókýó, hefur í tvígang, 23. apríl 2009 og 4. júní 2010, gefið út staðfestingu þess að hjúskapartilkynning sóknaraðila og D hafi verið samþykkt af yfirvöldum og hún hafi tekið gildi frá og með 6. september 2004. Sami embættismaður hefur einnig í tvígang, 21. janúar 2005 og 20. maí 2010, gefið út vottorð úr fjölskylduskrá sóknaraðila þar sem er staðfest að sóknaraðili og D hafi stofnað til hjúskapar 6. september 2004 og að hjúskapurinn hafi verið skráður 28. janúar 2005. Í því vottorði sem síðar er gefið út kemur fram að eiginmaður sóknaraðila, D, hafi látist 17. janúar 2008 og að andlátið hafi verið skráð í fjölskylduskrána 8. maí 2008. Þau skjöl sem gefin eru út 4. júní 2010 og 20. maí 2010 hefur utanríkisráðuneyti Japans vottað með svonefndu „apostille“ vottorði að séu gefin út af O, umdæmisstjóra Ota-umdæmis.
Varnaraðilar sjá ástæðu til að vefengja sannleiksgildi þessara yfirlýsinga, sem gefnar eru af opinberum japönskum embættismanni. Að mati dómsins fylgir þessum skjölum ekki minni lögtrúnaður en íslenskum skjölum gefnum út af opinberum íslenskum embættismönnum sbr. fyrirmæli 71. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins eru þau skjöl opinber, sem embættis- eða sýslunarmenn gefa út í embættisnafni um það sem gerist í embætti þeirra eða sýslan. Enn fremur er tekið fram í 2. mgr. ákvæðisins að þar til annað sannist skuli telja íslenskt opinbert skjal ófalsað stafi það frá embættis- eða sýslunarmanni eftir formi sínu og efni. Í ákvæðinu segir að það sama eigi við um erlent opinbert skjal votti ræðismaður eða annar trúnaðarmaður íslenska ríkisins í hlutaðeigandi ríki að útgefandi skjals hafi heimild til þess eftir lögum þess ríkis eða það sé sýnt með öðrum fullnægjandi hætti. Í 3. mgr. ákvæðisins er áréttað að þar til annað sannist skuli efni opinbers skjals talið rétt varði það tiltekin atvik sem sagt sé að hafi gerst í embætti eða sýslan útgefanda.
Varnaraðilar mótmæla því ekki að framlögð skjöl séu gefin út af O í krafti embættis hans sem umdæmisstjóra Ota-umdæmis. Fram er komið að íslenska og japanska ríkið eru bæði aðilar að Haag-samningi um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala frá 5. október 1961. Það þýðir að ekki þarf að leita til ræðismanns eða annars trúnaðarmanns íslenska ríkisins í Japan til að votta að útgefandi skjals hafi heimild til þess eftir lögum þess ríkis þar sem slík vottun hefur farið fram í japanska utanríkisráðuneytinu með svonefndu „apostille“ vottorði.
Þar sem sóknaraðili hefur lagt fram fjöldamörg vottorð útgefin af opinberum japönskum embættismanni, sem hann gefur út í krafti embættis síns, og varða tiltekin atvik sem sagt er að hafi gerst í embætti hans eða sýslan þá hlýtur það að hvíla á varnaraðilum að sanna að efni þessara skjala sé ekki rétt, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991.
Þykir það ekki varpa neinum skugga á trúverðugleika þeirra skjala, sem umdæmisstjóri Ota-umdæmis hefur gefið út, að sóknaraðili hafi ekki lagt fram gögn frá dómsmálaráðuneyti Japans þess efnis að það hafi lagt blessun sína yfir tilkynningu sóknaraðila og D um hjúskap þeirra, enda stendur á tilkynningunni að hún hafi verið afgreidd 28. janúar 2005 og þykir það nægileg staðfesting á því að samþykki japanska dómsmálaráðuneytisins hafi áður verið fengið.
Varnaraðilar byggja enn fremur á því að Hæstiréttur hafi með dómi í máli nr. 661/2009 tekið afstöðu til sönnunargildis vottorðs úr fjölskylduskrá sóknaraðila og vottorðs um samþykki skráningar á hjúskap sóknaraðila og D. Þessi vottorð hafa nú fengið stuðning af nýju skjali, tilkynningu sóknaraðila og D um hjúskap. Það skjal nægir, að mati dómsins, eitt og sér til sönnunar á því að japönsk yfirvöld hafi þann 28. janúar 2005 fallist á að uppfyllt væru öll skilyrði fyrir því að skrá mætti opinberlega hjúskap sóknaraðila og D en færir þar að auki stoðir undir það sem stendur í vottorði um samþykki hjúskapartilkynningar og vottorði úr fjölskylduskrá sóknaraðila.
Ekki þykir sérstök þörf á að fjalla um hvaða sönnunargildi það hafi sem haft er eftir sóknaraðila, D, lögmönnum þeirra, vinum og öðrum í fjölmiðlum, hérlendum eða erlendum. Skráning á hjúskaparstöðu D í þjóðskrá hérlendis þykir ekki heldur geta haft sönnunargildi í málinu þar sem ekki hefur verið leitt í ljós hvernig staðið var að þeirri skráningu.
Vitnið M greindi ítarlega frá því hvernig það bar til að sóknaraðili og D ákváðu að skrá hjúskap sinn í Japan. Þykja varnaraðilar ekki hafa fært neinar sönnur fyrir því að sú skráning hafi verið gerð til málamynda. Þykir mega leggja til grundvallar þann framburð vitnisins að D hafi þá þegar litið svo á að sóknaraðili og hann væru í óskráðum hjúskap samkvæmt engilsaxneskum venjurétti (common law couple).
Enn síður hafa varnaraðilar fært nokkuð fram um það að andlegri heilsu D hafi verið svo áfátt eftir dvöl hans í gæsluvarðhaldi að hann hafi verið ófær um að skuldbinda sig að lögum til hjúskapar.
Eins og áður er komið fram varð sóknaraðili við áskorun varnaraðila og lagði fram afrit af sameiginlegri tilkynningu sinni og D til japanskra yfirvalda um skráningu hjúskapar þeirra. Á henni stendur að hún hafi verið móttekin 6. september 2004 og afgreidd 28. janúar 2005. Varnaraðilar hafa ekki hnekkt því að til hjúskapar stofnist samkvæmt japönskum lögum með því að þar til bær yfirvöld afgreiði tilkynningu hjónaefna um stofnun hjúskapar. Með þessu skjali þykir sóknaraðili hafa fært fullnægjandi sönnur fyrir því að japönsk yfirvöld hafi samþykkt tilkynningu þeirra um hjúskap og þar með hefur hún fært fullnægjandi sönnur fyrir því að hún og D hafi verið í hjúskap þegar D lést 17. janúar 2008. Þessu skjali til stuðnings koma einnig vottorð úr fjölskylduskrá sóknaraðila, gefið út 20. maí 2010 af O, staðfest af japanska utanríkisráðuneytinu 27. maí 2010 og vottorð um samþykki tilkynningar um hjúskap, gefið út af O 4. júní 2010 og staðfest af japanska utanríkisráðuneytinu 17. júní 2010.
Þar sem sóknaraðili hefur fært fullnægjandi sönnur fyrir því að hún hafi verið í hjúskap með D þegar hann lést er fallist á að sóknaraðili sé lögerfingi D samkvæmt 4. tölulið 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða varnaraðilar dæmdir til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 6.650.000 krónur
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Sóknaraðili, C, er lögerfingi D.
Varnaraðilar, A og B, greiði sóknaraðila 6.650.000 krónur í málskostnað.