Hæstiréttur íslands
Mál nr. 417/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Sakarefni
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 1. nóvember 2004. |
|
Nr. 417/2004. |
Guðbjörn Jónsson(sjálfur) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Sakarefni. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Málatilbúnaður G var ekki í samræmi við 1. mgr. 24., 1. mgr. 25. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var máli hans því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2004 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Dómkröfur sóknaraðila í máli þessu varða allar málefni, sem tengjast einkahlutafélaginu Fiski. Gjaldþrotaskiptum á búi þess félags lauk 10. desember 2002 og reyndist það eignalaust. Sóknaraðili höfðar málið í eigin nafni og segir kröfur sínar helgast af því, að hann hafi verið hluthafi í einkahlutafélaginu. Varnaraðili hefur meðal annars vísað til 16. og 17. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings frávísunarkröfu sinni. Af þessu tilefni skal tekið fram, að varnir byggðar á aðildarskorti leiða til sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna. Ekki verður séð að ákvæði 17. gr. standi í vegi fyrir málsókn sóknaraðila. Málinu verður því ekki vísað frá dómi af þessum sökum.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er fyrsta dómkrafa sóknaraðila í máli þessu sú, að felld verði úr gildi „ákvörðun yfirskattanefndar í úrskurði nr. 265/2003 um að Fiskir ehf. ... skuldi virðisaukaskatt að upphæð kr. 1.564.560, eins og tilgreint er á bls. 2 í áðurgreindum úrskurði.“ Á hinum tilgreinda stað í úrskurði yfirskattanefndar er að finna orðrétta lýsingu á efni bréfs skattrannsóknarstjóra til yfirskattanefndar í máli, þar sem hafðar voru uppi sakir á hendur sóknaraðila og öðrum nafngreindum manni fyrir meint skattalagabrot. Var kröfum á hendur sóknaraðila raunar hafnað í úrskurðinum. Þessi dómkrafa hefur enga þýðingu að lögum fyrir sóknaraðila og fer því gegn 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun hennar frá dómi staðfest.
Önnur dómkrafa sóknaraðila lýtur að ógildingu á „ákvörðun ríkisskattstjóra um að svonefnd „kvótaleiga“ skuli undanþegin virðisaukaskatti, þannig að óheimilt sé að skrá innskatt vegna svonefndrar „kvótaleigu“, eins og fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra nr. 157/90, dagsettu 6. nóvember 1990 og öðru bréfi ríkisskattstjóra dags. 30. júlí 2002.“ Sóknaraðili hefur reyndar aðeins lagt fram í málinu annað þessara bréfa. Ljóst er að í bréfunum felast ekki ákvarðanir stjórnvalds sem beinast að sóknaraðila með þeim hætti að hann geti borið þær undir dómstóla. Krafan miðar í reynd að því að fá fram afstöðu dómstóla til skattalegrar meðferðar í því efni sem nefnt er í texta kröfunnar. Hún er því krafa um lögfræðiálit, sem tengist ekki ákveðinni kröfu í dómsmáli svo sem tilskilið er í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Ber að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar um frávísun þessarar kröfu frá dómi.
Loks gerir sóknaraðili kröfu um leiðréttingar á tilteknum færslum innskatts í skilum Fiskis ehf. á virðisaukaskatti svo sem nánar er lýst í hinum kærða úrskurði. Það er ekki unnt að bera undir dómstóla kröfur um leiðréttingar á bókfærslu og skilagreinum skattaðila svo sem gert er með kröfu þessari. Fer slík kröfugerð gegn ákvæðum 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr laga nr. 91/1991. Verður því niðurstaða hins áfrýjaða úrskurðar einnig staðfest að því er þessa kröfu varðar.
Tekið skal fram, að málatilbúnaður sóknaraðila í þessu máli er í ýmsum fleiri greinum andstæður ákvæðum laga nr. 91/1991. Vísast í því efni til d., e., f. og g. liða í 1. mgr. 80 gr. laganna. Þá hefur sóknaraðili lagt fram útprentanir allmargra laga og reglugerða, sem hann telur varða málatilbúnað sinn. Slík framlagning skjala nýtur engrar lagaheimildar og þjónar engum tilgangi.
Samkvæmt því sem að framan segir verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Guðbjörn Jónsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2004.
Stefnandi þessa máls er Guðbjörn Jónsson, [...], en stefndu ríkisskattstjóri og fjármálaráðherra.
Dómkröfur stefnanda eru „að felld verði úr gildi ákvörðun Yfirskattanefndar í úrskurði nr. 265/2003 um að Fiskir ehf. kt: 590899-2249, skuldi virðisaukaskatt að upphæð kr. 1.564.560, eins og tilgreint er á bls. 2. í áðurgreindum úrskurði. Krafist er ógildingar á ákvörðun ríkisskattstjóra um að svonefnd “kvótaleiga” skuli undanþegin virðisaukaskatti, þannig að óheimilt sé að skrá innskatt vegna svonefndrar “kvótaleigu”, eins og fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra nr. 157/90, dagsettu 6. nóvember 1990 og öðru bréfi ríkisskattstjóra dags. 30. júlí 2002. Krafist er leiðréttingar á færslum innskatts í skilum Fiskis ehf. á virðisaukaskatti, að því leyti að gjald fyrir svonefnda “kvótaleigu” teljist falla undir gjaldskyldu virðisaukaskatts frá og með 1. janúar 1994, samanber b-lið 19. gr. laga nr. 122/1993, Lög um breytingar í skattamálum og 2. gr. reglugerðar nr. 554/1993, þar sem fiskur er ákvarðaður í gjaldflokk fyrir 14% virðisaukaskatt.”
Dómkröfur stefndu eru aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið.
Málið var munnlega flutt um frávísunarkröfuna 21. september sl. og er sá ágreiningur hér til úrlausnar.
Helstu málsatvik eru að bú Fiskis ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði 26. janúar 2001. Hlöðver Kjartansson hrl. var skipaður skiptastjóri búsins.
Af skjölum málsins má ráða að skiptastjóri hafi með ákveðnum hætti átt frumkvæði að því að formleg rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst 26. september 2001 á ætluðum vanskilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatta vegna tekjuársins 2000.
Rannsókn lauk 5. júní 2002. Samkvæmt rannsókninni nam vangoldin skilaskyld staðgreiðsla félagsins 729.814 krónum og vanskil á innheimtum virðisaukaskatti 1.564.560 krónum til sýslumannsins í Hafnarfirði.
Með bréfi 12. nóvember 2002 krafðist skattrannsóknarstjóri þess að yfirskattanefnd ákvarðaði sekt á hendur Guðmundi Jóhannessyni, sem fyrrum stjórnarmanni og prókúruhafa félagsins, og stefnanda, sem fyrrum framkvæmdastjóra félagsins, fyrir brot á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt.
Skiptum á þrotabúi félagsins lauk 10. desember 2002 og reyndist búið eignalaust.
Þann 24. september 2003 var Guðmundi Jóhannessyni með úrskurði yfirskattanefndar gert að greiða sekt að fjárhæð 4.000.000 króna. Stefnanda var hins vegar ekki gerð sekt í málinu, en hann hafði staðhæft við skýrslutöku að hafa hvorki komið nálægt rekstri né fjármálum félagsins. Þá þótti ekki full vissa fyrir því að hann hefði haft prókúru.
Stefndu byggja kröfu um frávísun málsins frá dómi á því að kröfur og málatilbúnaður stefnanda sé með þeim hætti að ófært sé að fella dóm í málinu. Aðild stefnanda sé óljós og tengsl hans við dómkröfur málsins án samhengis. Málsóknin sé því andstæð 24., 25. og 80. gr. laga nr. 91/1991.
Vísað er til þess að úrskurður yfirskattanefndar nr. 265/2003 varðar sektir, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992. Í kjölfar rannsóknar á skattskilum Fiskis ehf. hafi skattrannsóknarstjóri krafist þess að stefnandi og Guðmundur Jóhannesson yrðu sektaðir. Yfirskattanefnd hafi gert Guðmundi að greiða sekt en stefnanda ekki. Úrlausnaratriði nefndarinnar hafi einvörðungu varðað kröfu um sektir í máli gegn stefnanda og Guðmundi. Dómkröfur stefnanda standi ekki í rökréttu samhengi við úrskurð nefndarinnar eða niðurstöðu hans. Stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni að fá ógiltar forsendur í úrskurði um skattsektakröfu sem honum hafi ekki verið gert að greiða.
Þá telja stefndu að stefnanda bresti heimild til að bera undir dómstóla kröfu um ógildingu á ákvörðun ríkisskattstjóra um að kvótaleiga skuli undanþegin virðisaukaskatti þannig að óheimilt sé að skrá innskatt vegna hennar eins og fram komi í tveimur tilgreindum bréfum ríkisskattstjóra. Ekki sé um að ræða tiltekna álagningu á stefnanda sjálfan eða á aðila sem stefnandi svari fyrir samkvæmt almennum reglum.
Einnig telja stefndu að lagaskilyrði séu ekki fyrir því að krafa stefnanda um leiðréttingu á færslum innskatts í skilum Fiskis ehf. á virðisaukaskatti verði skotið til dómstóla. Krafan sé ekki tengd tiltekinni álagningu eða úrskurði um skattskil eða skattstofna og að auki óljós og vanreifuð.
Stefnandi byggir á því að hann hafi lögmæta hagsmuni af því að fá dóm fyrir kröfum sínum. Málsástæður hans séu svo skýrar að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé.
Ályktunarorð: Kröfugerð og málsókn stefnanda að öðru leyti fullnægir engan veginn kröfum réttarfarsins um skýran og skilmerkilegan málatilbúnað. Þá er fallist á með stefnda að aðild stefnanda sé óljós og tengsl hans við dómkröfur málsins án samhengis. Málinu verður því vísað frá dómi.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Málinu er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður.