Hæstiréttur íslands
Mál nr. 368/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
|
|
Föstudaginn 30. maí 2014. |
|
Nr. 368/2014.
|
Ákæruvaldið (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Leifur Runólfsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. maí 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 24. júní 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. maí 2014.
Með erindi er barst dómnum í gær hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að [...], fd. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til honum verður vísað brott frá landinu, eða dómur fellur í máli hans nr. S-453/2014, sem rekið er fyrir héraðsdómi Reykjavíkur, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 24. júní 2014, kl. 16:00.
Kærði krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað.
I
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að 28. apríl sl. hafi kærði sent tölvupóst á póstfang Útlendingastofnunar þar sem hann hafi lýst því yfir að hann ætlaði sér að brenna inni þá hælisleitendur sem dveldu á [...] í [...], auk tveggja nafngreindra starfsmanna félagsmálastofnunar [...].
Stuttu síðar hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu á skrifstofu félagsmálastofnunar [...] að [...] vegna hótana kærða við starfsfólk hennar. Er lögregla kom á vettvang hafi starfsmenn félagsþjónustunnar greint lögreglu svo frá að kærði hefði hótað því að ef hann fengi ekki úrlausn sinna mála samdægurs myndi hann daginn eftir læsa alla dvalargesti á [...] inni og kveikja í húsinu. Viðkomandi starfsmaður hafi tekið þessum hótunum kærða alvarlega og óttast að hann myndi láta verða af þeim.
Í kjölfarið hafi kærði verið handtekinn og yfirheyrður vegna hótananna. Hafi kærði gengist við því að hafa haft þær uppi. Kærði hafi verið inntur eftir því hvort hann ætlaði sér að fylgja hótunum sínum eftir og hann svarað því til að ef mál hans hjá Útlendingastofnun fengi ekki framgang væri möguleiki á því. Kærði hafi vísað til þess að hann drykki oft áfengi og undir áhrifum gæti hann gert eitthvað.
Lögreglustjóri vísar og til þess að kærði hafi kynnt sig og skrifað undir skýrsluna sína hjá lögreglu sem [...], fæddur [...]. Samkvæmt upplýsingum Interpol í Rússlandi heiti kærði hins vegar [...]og sé hann fæddur [...]. Kærði hafi því sagt lögreglu rangt til um nafn sitt og fæðingardag. Það hafi hann síðan viðurkennt í þinghaldi í Héraðsdómi Reykjaness [...]sl. í máli [...]/2014.
Lögreglustjóri segir kærða eiga sögu um ofbeldi hér á landi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi verið með til rannsóknar sérstaklega hættulega líkamsárás kærða gagnvart georgískum ríkisborgara í verslunarmiðstöðinni Kringlunni 1. nóvember 2013, lögreglumál nr. 007-2013-57964. Í því máli sé kærði sakaður um að hafa verið í slagsmálum í Kringlunni. Aðili sem kærði hafi verið að kljást við hafi hlaupið í burtu eftir að hafa verið kýldur í andlitið nokkrum sinnum og kærði hlaupið á eftir. Kærði hafi þá dregið upp hníf, náð hinum aðilanum og stungið hann með hnífnum tvisvar sinnum, annað hnífslagið við vinstra viðbein og hitt hafi komið á utanverðan vinstri upphandlegg. Rannsókn málsins sé lokið hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Málið hafi verið sent embætti ríkissaksóknara sem gefið hafi út ákæru á hendur kærða vegna málsins 9. maí sl. og hafi málið verið þingfest við héraðsdóm Reykjavíkur 20. maí sl. Við þingfestinguna hafi kærði játað að hafa stungið brotaþola í málinu tvívegis en borið því við að það hafi hann gert í sjálfsvörn. Hafi málinu í kjölfarið verið frestað til aðalmeðferðar sem fram muni fara 11. júní nk.
Af hálfu lögreglustjóra er einnig til þess vísað að Útlendingastofnun hafi þegar tekið ákvörðun um að brottvísa kærða af landinu, en sú ákvörðun hafi enn ekki verið birt kærða. Birtingin sé í höndum alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra sem hafi greint lögreglu frá því að ákvörðunin muni ekki verða birt kærða fyrr en niðurstaða í framangreindu dómsmáli liggi fyrir. Það liggi því fyrir að kærða verði vísað brott af landinu þegar niðurstaða er komin í hans mál fyrir dómstólum. Verði kærði sýknaður af ákæru ríkissaksóknara mun kærða því verða vísað brott af landinu við fyrsta tækifæri. Komi til þess að kærði verði sakfelldur mun kærða verða vísað brott eftir að hann hefur lokið við afplánun þess dóms sem hann kunni að hljóta, að því gefnu að kærða verði gert að sæta fangelsi vegna meints brots síns.
II
Af framansögðu og með vísan til gagna málsins telur lögreglustjóri ljóst að kærði hafi gefið lögreglu rangar upplýsingar um það hver hann sé, sbr. 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008. Jafnframt telur lögreglustjóri að kærði hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að hann sé hættulegur, sbr. tilvitnuð lagaákvæði. Varðandi lagarök bendir lögreglustjóri á nefndarálit meirihluta allsherjarnefndar Alþingis vegna 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002, en þar komi fram það mat að nauðsynlegt sé að hnykkja á þeirri meginreglu að þeir útlendingar sem ekki liggi fyrir hverjir séu, eða sýni af sér hegðun sem bendi til þess að af þeim stafi hætta, eigi ekki rétt til að ganga lausir hér á landi. Hafi meirihlutinn talið rétt að umorða ákvæði 7. mgr. 29. gr. til að þessu væri slegið föstu með afgerandi hætti. Telur lögregla að hvort tveggja eigi við í þessu máli, þ.e. að kærði hafi viljandi greint lögreglu frá röngu nafni við skýrslutökuna og að kærði hafi sýnt af sér hegðun sem bendi til þess að af honum kunni að stafa hætta, þ.e. með áðurlýstum hótunum um íkveikju.
Enn fremur vísar lögreglustjóri til þess að kærði sé erlendur ríkisborgari sem virðist hafa takmörkuð tengsl við landið. Kærði hafi sótt um hæli hér á landi en nú dregið hælisumsókn sína til baka. Af þessum sökum sé hætta á að kærði kunni að reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar, meðal annars vegna þess máls sem hann eigi ólokið, gangi hann laus meðan mál hans sé til meðferðar innan dómskerfisins. Af þessum sökum sé það mat lögreglu að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í málinu.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til honum verður vísað brott frá landinu, eða dómur fellur í máli hans, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 24. júní 2014, kl. 16:00.
III
Til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er nú mál á hendur kærða fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Er kærða í málinu gefið að sök brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa stungið mann með hnífi í verslunarmiðstöðinni Kringlunni í Reykjavík.
Fyrir liggur að kærði er erlendur ríkisborgari og stundar hann hvorki atvinnu hér á landi né á hér fjölskyldu. Þá hefur kærði dregið umsókn sína um hæli til baka. Samkvæmt áðursögðu er fyrir hendi rökstuddur grunur um að hann hafi gerst brotlegur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn því ákvæði getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Að framansögðu virtu verður að telja hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn áður en mál hans verður til lykta leitt. Eins og atvikum er háttað þykja því vera uppfyllt skilyrði til að beita gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans nr. S-453/2014, sem rekið er fyrir héraðsdómi Reykjavíkur, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 24. júní 2014, kl. 16:00.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, [...], f.d. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans nr. S-453/2014, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 24. júní 2014, kl. 16:00.