Hæstiréttur íslands
Mál nr. 530/2008
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Örorka
- Endurupptaka
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 14. maí 2009. |
|
Nr 530/2008. |
Sigurður Skjaldberg(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. og Ragnheiði Sigríði Gestsdóttur (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Endurupptaka. Sératkvæði.
S krafðist bóta vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir 25. október 1996. Í apríl 2000 greiddi V honum bætur vegna slyssins. Við uppgjörið naut S aðstoðar hæstaréttarlögmanns sem gaf fyrir hans hönd kvittun fyrir bótunum, þar sem tekið var fram að um væri að ræða lokauppgjör bóta og S félli frá frekari kröfum. S taldi að eftir uppgjörið hefðu komið fram breytingar á heilsufari hans sem gæfu tilefni til frekari kröfu samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. S krafðist ómerkingar héraðsdóms á þeim grundvelli að héraðsdómara hefði borið að kveðja sérfræðinga í læknisfræði sem meðdómendur til setu í dómi með sér, þar sem úrlausn málsins réðist af mati á læknisfræðilegum úrlausnarefnum sem komist væri að mismunandi niðurstöðu um í þeim álitsgerðum sem fyrir lægju í málinu. Hæstiréttur taldi að niðurstaða héraðsdóms hefði ráðist af því að S hefði ekki tekist að sýna fram á að hann hefði orðið fyrir frekara tjóni af völdum slyssins en það sem hann hefði fengið að fullu bætt í apríl 2000. Því hefði ekki verið þörf sérfróðra meðdómenda. Þá taldi Hæstiréttur að S hefði ekki tekist að færa fram sönnur fyrir því að slíkar ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu hans eftir uppgjörið í apríl 2000 að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga væru uppfyllt. Í þeirri niðurstöðu fælist að ekki væru efni til að taka til greina málsástæður S sem lytu að brostnum forsendum fyrir uppgjöri bóta og ógildingu þess samkomulags sem í uppgjörinu fólst með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þá var talið að ekki væru efni til að fjalla um málsástæðu V og R um fyrningu kröfu S samkvæmt 99. gr. umferðalaga nr. 50/1987, þar sem því væri hafnað að S ætti fjárkröfu á hendur þeim. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu V og R af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2008. Hann krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og að málinu verði vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Til vara krefst hann þess að stefndu greiði sér óskipt 2.891.152 krónur með 2% ársvöxtum frá 25. október 1996 til 19. nóvember 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst hann þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér óskipt 1.970.077 krónur með sömu vöxtum og í varakröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hann naut í héraði.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þau lækkunar á kröfu áfrýjanda og niðurfellingar málskostnaðar.
Áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti yfirmatsgerð 22. nóvember 2008, sem einkum virðist hafa verið beint að úrlausnarefnum í undirmatsgerðinni 25. september 2006 um afleiðingar slyss áfrýjanda 15. júlí 2001. Í beiðni áfrýjanda um dómkvaðningu yfirmatsmanna til þessa mats eru allt að einu settar fram spurningar um örorku áfrýjanda eftir slysið 25. október 1996, sem um hafði verið fjallað í annarri yfirmatsgerð, sem grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi og vikið verður að. Í hinni nýju yfirmatsgerð eru veitt svör við þessum spurningum. Samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður einungis aflað einnar yfirmatsgerðar til endurmats á atriðum sem metin eru undirmati. Samkvæmt þessu verður litið framhjá svörum yfirmatsmanna í matsgerðinni 22. nóvember 2008, sem lúta að afleiðingum slyssins 25. október 1996 og svarað var í fyrri yfirmatsgerðinni.
I
Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi krefst áfrýjandi í málinu bóta vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir 25. október 1996. Hinn 10. apríl 2000 greiddi stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. honum bætur vegna slyssins, samtals 1.629.779 krónur. Við uppgjörið naut áfrýjandi aðstoðar hæstaréttarlögmanns sem gaf fyrir hans hönd kvittun fyrir bótunum, þar sem tekið var fram að um væri að ræða lokauppgjör bóta og áfrýjandi félli frá frekari kröfum. Áfrýjandi telur að eftir uppgjörið hafi komið fram breytingar á heilsufari hans sem gefi tilefni til frekari kröfu samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í hinum áfrýjaða dómi er vikið að tveimur öðrum umferðarslysum sem áfrýjandi varð fyrir 12. febrúar 1996 og 15. júlí 2001 og sjónarmiðum aðila um þýðingu þeirra fyrir úrlausnarefni þessa máls. Áfrýjandi byggir kröfu sína á mati tveggja dómkvaddra matsmanna 25. september 2006, þar sem honum var metin hærri varanleg örorka og miski vegna slyssins 25. október 1996, en við hafði verið miðað við uppgjörið 10. apríl 2000. Stefndi telur hins vegar réttara að miða við niðurstöðu þriggja dómkvaddra yfirmatsmanna. Matsgerð þeirra er ódagsett, en var lögð fram á dómþingi í málinu 11. september 2007. Er í hinum áfrýjaða dómi gerð grein fyrir þessum matsgerðum sem og eldri álitsgerðum þar sem metnar höfðu verið afleiðingar slyssins fyrir áfrýjanda og í hverju munur á niðurstöðu þeirra felst. Meðal annars felst veigamikill munur í því að undirmatsmenn töldu áfrýjanda hafa orðið fyrir heilaskaða við höfuðhögg sem hann hlaut í slysinu, en aðrir matsmenn hafa ekki metið afleiðingar slíks skaða. Leggja undirmatsmenn til grundvallar mati sínu meðal annars að áfrýjandi hafi misst meðvitund í slysinu og megi af því draga ályktanir um skerðingu á andlegri heilsu hans. Þá hafa þeir einnig viljað miða við að afleiðingar annarra áverka áfrýjanda gefi tilefni til hærra mats en aðrir matsmenn hafa talið.
II
Í málinu liggja fyrir ýmis læknisfræðileg gögn um kvartanir áfrýjanda og læknismeðferð eftir slysið. Í vottorði Heilsugæslustöðvarinnar Höfn í Hornafirði, en þangað leitaði áfrýjandi eftir áreksturinn, er sagt frá áverkum áfrýjanda og kvörtunum. Þar er gerð grein fyrir áverkum á höfði en ekki minnst á að hann hafi misst meðvitund eða sett fram kvartanir sem bent gætu til heilaáverka. Í matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar 9. mars 2000 er áverkum lýst og meðal annars sagt: „Hann kveðst ekki hafa misst meðvitund.“ Ekki er þar heldur vikið að kvörtunum sem bent hefðu getað til áverka á heila.
Áfrýjandi leitaði til Marinós P. Hafstein læknis 5. janúar 2005. Svo sem fyrr greinir hafði áfrýjandi þá lent í öðru slysi 15. júlí 2001. Í vottorði læknisins 15. janúar 2005 lýsir hann læknisskoðun á áfrýjanda. Þar segir meðal annars: „Gróf skoðun á æðri heilastarfsemi er eðlileg. Heilataugar eru eðlilegar. Vöðvakraftur er alls staðar 5/5 eða eðlilegur og það er hvergi um staðbundna vöðvarýrnun að ræða. Sinaviðbrögð eru um 2 og jöfn báðum megin. Iljarsvörun er eðlileg báðum megin. Skynskoðun er eðlileg. Skoðun á litla heila er eðlileg.“ Síðar í vottorðinu segir svo: „Vegna verulegs gruns um taugaskaða út frá baki bæði frá hálshrygg og lendhrygg var ítarlegt vöðvarafrit og taugaleiðningarannsókn framkvæmd af undirrituðum 11. janúar 2005 en sú rannsókn reyndist algjörlega eðlileg.“ Í niðurstöðu læknisins er meðal annars tekið fram að áfrýjandi þjáist af slæmum tognunum í hálsi, herðum, olnbogum, niður eftir öllu baki og utanvert á mjöðmum auk þess sem hann sé með skaða á brjóski í hægra hné. Kveðst læknirinn ekki hafa getað sýnt fram á neinn taugaskaða sem orsakaði þau einkenni sem áfrýjandi kvartaði um.
Það er fyrst í vottorði Ásgeirs Karlssonar geðlæknis 5. apríl 2005 sem fram koma athugasemdir sem bent gætu til heilaskaða af völdum höfuðhöggs. Læknirinn lýsir stuttlega frásögn áfrýjanda af atvikum hinna þriggja umferðarslysa. Hefur hann meðal annars eftir áfrýjanda að hann hafi í slysinu 12. febrúar 1996 fengið allmikið högg og „steinrotast“. Frásögn áfrýjanda af slysinu 25. október 1996, sem um er fjallað í þessu máli, er lýst svo: „Hann kastaðist á framrúðuna og fékk mikið högg, skarst mikið í andliti, fann til í vi. olnboga og var mjög marinn og með verki í hálsi og herðum.“ Um slysið 15. júlí 2001 er sagt að áfrýjandi hafi einnig fengið höfuðhögg „og rotaðist og var vankaður um tíma og telur sig hafa misst meðvitund.“ Þrátt fyrir að áfrýjandi hafi samkvæmt þessu lýst meðvitundarleysi í fyrsta og síðasta slysinu, en ekki í því sem fjallað er um í þessu máli, segir í framhaldinu svo í vottorði læknisins: „Í öllum þessum þremur umferðarslysum hefur sjúklingur rotast“. Í niðurstöðukafla vottorðsins lætur læknirinn í ljós þá skoðun að áfrýjandi hafi fengið áverka á heila í síðasta slysinu 2001. Ekki sé heldur hægt að útiloka að fyrri slys hafi einnig stuðlað að núverandi líðan.
Í beiðni lögmanns áfrýjanda um dómkvaðningu matsmanna 6. september 2005 er haft eftir áfrýjanda að hann hafi rotast í slysinu 25. október 1996. Í undirmatinu 25. september 2006 er þetta lagt til grundvallar og talið að áfrýjandi hafi misst „langvarandi meðvitund vegna höfuðáverka í síðara slysinu á árinu 1996“. Svo sem fyrr segir mátu þessir matsmenn heilaáverka til varanlegrar örorku og miska og hefur áfrýjandi miðað kröfugerð sína við matsgerð þeirra. Yfirmatsmenn hafna þessu í matsgerð sinni. Segja þeir að hvergi í samtímaheimildum meðferðaraðila komi fram að áfrýjandi hafi fengið alvarlegan heilaáverka og rotast. Einkenni um slíkt hefðu leitt til viðbragða meðferðarlækna. Að auki segja yfirmatsmenn að ekkert komi fram við skoðun á áfrýjanda nú „í þá veru að yfirmatsþoli hafi einkenni heilaskaða.“ Yfirmatsmenn staðfestu niðurstöðu um varanlega örorku og miska sem lögð hafði verið til grundvallar við uppgjör bóta til áfrýjanda 10. apríl 2000.
III
Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms byggir áfrýjandi á því að héraðsdómara hafi borið að kveðja sérfræðinga í læknisfræði sem meðdómendur til setu í dómi með sér, þar sem úrlausn málsins ráðist af mati á læknisfræðilegum úrlausnarefnum sem komist sé að mismunandi niðurstöðu um í þeim álitsgerðum lækna sem fyrir liggja í málinu.
Af hinum áfrýjaða dómi verður ráðið að niðurstaða hans ræðst af því að áfrýjanda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir frekara tjóni af völdum slyssins en hann hafi að fullu fengið bætt 10. apríl 2000. Er ljóst af forsendum dómsins að því er hafnað að lýsing áfrýjanda á tjónsatvikinu, sem fyrst kom fram meira en átta árum eftir slysið, geti orðið grundvöllur mats á afleiðingum þess fyrir heilsufar hans. Verður ekki talið að þörf hafi verið sérfróðra meðdómenda til að leysa úr þessu og verður kröfu áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms því hafnað.
IV
Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga er það skilyrði fyrir kröfu tjónþola um að tekin verði upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Áfrýjanda hefur ekki tekist að færa fram sönnur fyrir því að slíkar ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hans eftir uppgjörið 10. apríl 2000 að skilyrði greinarinnar séu uppfyllt.
Í framangreindri niðurstöðu felst að ekki eru efni til að taka til greina málsástæður áfrýjanda sem lúta að brostnum forsendum fyrir uppgjöri bóta og ógildingu þess samkomulags sem í uppgjörinu fólst með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þar sem því er hafnað að áfrýjandi eigi fjárkröfu á hendur stefndu eru ekki efni til að fjalla um málsástæðu stefndu um fyrningu kröfu áfrýjanda samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Samkvæmt því sem að framan segir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi verður með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða stefndu óskipt upp í málskostnað þeirra fyrir Hæstarétti fjárhæð sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sigurður Skjaldberg, greiði stefndu, Vátryggingafélagi Íslands hf. og Ragnheiði Sigríði Gestsdóttur, óskipt 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
Áfrýjandi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og að málinu verði vísað heim í hérað til meðferðar á ný.
Aflað hefur verið svonefnds tveggja lækna mats, læknisfræðilegra- og taugasálfræðilegra álitsgerða, undirmatsgerðar og yfirmats. Verulegur skoðanaágreiningur kemur fram í þessum sérfræðigögnum. Eins og fram kemur í dómi meirihluta dómsins lýsti áfrýjandi ekki höfuðhöggi eða meðvitundarleysi eftir slysið 25. október 1996 samkvæmt samtímagögnum og er lýsing hans í þá veru fyrst skjalfest í vottorði Ásgeirs Karlssonar geðlæknis átta og hálfu ári síðar. Undirmatsmenn telja engu að síður að gögn um áverka hans og sjálft slysið beri vitni um að hann muni hafa hlotið höfuðhögg og misst meðvitund í slysinu. Sérfræðinga greinir einnig á um það hvort áfrýjandi beri nú merki um heilaskaða.
Það er önnur tveggja forsendna fyrir mati á því hvort áfrýjandi geti átt rétt til endurupptöku bótauppgjörs samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að hann hafi heilsufarsleg einkenni sem rekja megi til slyssins 25. október 1996, og þau hafi fyrst komið fram eftir bótauppgjörið 10. apríl 2000. Að mínu mati er það sérfræðilegt úrlausnarefni hvort áfrýjandi hafi hlotið heilaáverka í greindu slysi og gat niðurstaða um það ekki einvörðungu oltið á frásögn áfrýjanda. Eins og fram kemur í atkvæði meiri hluta dómsins bar umsögnum lækna ekki saman um þetta grundvallaratriði og komist er að ólíkri niðurstöðu í þeim matsgerðum sem lagðar eru fram í málinu. Bar því að mínum dómi nauðsyn til að skipa héraðsdóm sérfróðum meðdómsmönnum eins og heimilt er samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af þessum ástæðum tel ég að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm og vísa málin aftur heim í hérað til nýrrar meðferðar.
Þar sem meiri hluti dómsins hefur ekki fallist á framangreind rök fyrir ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins, ber mér að taka þátt í afgreiðslu um efnisþætti þess samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991. Niðurstaðan er leidd af fyrirliggjandi sönnunargögnum. Er ég sammála afgreiðslu þeirra og niðurstöðu að frátöldum III. kafla dómsins eins og gerð hefur verið grein fyrir.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 27. júní 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. júní 2008, er höfðað 18. júlí 2006.
Stefnandi er Sigurður Skjaldberg, Tunguvegi 70, Reykjavík.
Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík og Ragnheiður Sigríður Gestsdóttir, Júllatúni 5, Höfn í Hornafirði.
Endanlegar dómkröfu stefnanda eru þær aðallega að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 2.891.152 krónur með 2% ársvöxtum frá slysdegi 25. október 1996 til þingfestingardags 7. september 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða honum 1.970.007 krónur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Mál þetta var upphaflega höfðað á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. til heimtu bóta vegna umferðarslyss 12. febrúar 1996, á hendur báðum stefndu til heimtu bóta vegna umferðarslyss 25. október sama ár og jafnframt á hendur Sjóvá Almennum tryggingum hf. og Vífilfelli hf. til heimtu bóta vegna umferðarslyss 15. júlí 2001. Kröfum á hendur síðastgreindum aðilum var vísað frá dómi með úrskurði 27. febrúar 2007, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 26. mars sama ár. Undir rekstri málsins hefur stefnandi fallið frá kröfum vegna umferðarslyss 12. febrúar 1996.
Er til úrlausnar í máli þessu krafa stefnanda á hendur stefndu um greiðslu frekari bóta vegna umferðarslyssins 25. október 1996. Byggir stefnandi á að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu uppfyllt og að hann eigi af þeim sökum rétt á frekari bótum en hann samdi um við stefnda og fékk greiddar 10. apríl 2000.
I.
Málavextir eru þeir að þann 25. október 1996 var stefnandi farþegi í framsæti bifreiðar sem lenti í hörðum árekstri á einbreiðri brú yfir Holtakíl (Djúpá) á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu. Kastaðist stefnandi, sem ekki mun hafa verið í bílbelti, með andlitið í framrúðu bifreiðarinnar sem við það brotnaði. Stefnandi var fluttur samdægurs á heilsugæslustöðina á Höfn í Hornafirði og kemur fram í læknisvottorði Baldurs P. Thorstensen, 16. mars 1999 að stefnandi hafi við komu verið með mörg hrufl og skurðsár í andliti og djúpan skurð á vinstri olnboga. Hann hafi einnig verið mjög marinn. Glerbrot úr sárum hafi verið hreinsuð þann dag og næstu daga og sár hafi verið saumuð. Sárið á vinstri olnboga hafi náð inn í slímhúðarpoka og hafi hann verið saumaður að hluta, en einnig settur inn keri og hann settur á sýklalyf. Stefnandi hafi komið næstu daga reglulega til skiptinga á sáraumbúðum og hafi glerbrot verið týnd úr sárunum. Sár hafi verið gróin og stefnandi talinn vinnufær 21. nóvember 1996. Þá kemur fram í læknisvottorðinu að stefnandi hafi kvartað um bakverki eftir slysið, sem hann hafi ekki fundið fyrir fyrr. Hann hafi haft einkenni af brjósklosi og hafi verið sendur í tölvusneiðmynd af mjóbaki í júlí 1998, sem sýnt hafi brjósklos. Hafi hann verið í sjúkraþjálfun um tíma vegna þessa.
Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. viðurkenndi bótaskyldu vegna slyssins, en bifreið sú sem slysinu olli var vátryggð hjá því félagi, en í eigu stefndu Ragnheiðar Sigríðar Gestsdóttur. Óskuðu stefnandi og stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., sameiginlega eftir mati læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar á tjóni stefnanda og er matsgerð læknanna dagsett 9. mars 2000. Fjallaði matið einnig um afleiðingar umferðarslyss 12. febrúar 1996, sem fyrr er minnst á. Um umferðarslysið 25. október 1996 sagði að tímabundið atvinnutjón vegna slyssins teldist frá 25. október til 21. nóvember 1996. Við slysið hafi stefnandi fengið fjölmarga skurði í andlit er hann hafi kastast í framrúðu bifreiðar. Hann hafi eftir það lýtandi ör. Þá hafi hann hlotið skurð á vinstri olnboga sem hafi gróið og hafi hann ör á olnboganum með nokkrum eymslum og dofa í kring. Stefnandi hafi haft óþægindi í baki eftir slysið sem talin séu stafa af mjóbakstognun. Hann hafi enn óþægindi í mjóhrygg sem komi við átak og álag og hafi hindrað hann í störfum og gert sé ráð fyrir að svo geti orðið til frambúðar. Um þjáningabætur kemur fram að stefnandi hafi ekki verið rúmliggjandi en teljist batnandi án þess að vera rúmliggjandi í sex mánuði. Varanlegur miski var talinn 7% og varanleg örorka sömuleiðis 7%. Þá kemur fram að við mat á varanlegum miska hafi verið tekið mið af tognunaráverka í mjóhrygg, óþæginda í vinstri olnboga og lýtandi öra í andliti. Við mat á varanlegri örorku sé litið til þess að stefnandi hafi verið einkennalaus fyrir slysið og fullvinnufær. Vegna óþæginda í baki eftir slysið hafi hann ekki getað gengið til hvaða vinnu sem er og fái óþægindi við álagsvinnu sem talin séu geta dregið úr vinnugetu hans og þar með tekjumyndun.
Voru bætur til stefnanda í samræmi við framangreint ákveðnar 1.629.779 krónur og voru greiddar 10. apríl 2000. Kemur fram á tjónskvittun, sem undirrituð er af þáverandi lögmanni stefnanda, að staðfest sé, eftir nákvæma athugun mála og móttöku á nefndri upphæð, að fallið sé frá öllum frekari kröfum jafnt gegn vátryggingartaka og Vátryggingafélagi Íslands hf.
Þann 28. október 2005 voru Viðar Már Matthíasson, prófessor í lögum og Sverrir Bergmann, læknir og sérfræðingur í taugalækningum dómkvaddir til að meta afleiðingar þriggja umferðarslysa, 12. febrúar 1996, 25. október sama ár og 15. júlí 2001. Matsgerð þeirra er dagsett 25. september 2006. Kemur þar meðal annars fram að batahvörf eftir slysið 25. október 1996 hafi verið 25. apríl 1997, tímabundin óvinnufærni frá slysdegi til 21. nóvember 1996, tímabil þjáningabóta frá slysdegi til 21. nóvember 1996, varanlegur miski er talinn 25 stig og varanleg örorka 15 stig. Segir í matsgerð að matsmenn telji að í slysinu hafi stefnandi hlotið alvarlega áverka, enda bendi allt til þess að um harðan árekstur hafi verið að ræða. Matsmenn telji að stefnandi hafi hlotið mikinn höfuðáverka enda hafi hann verið rænulaus í nokkurn tíma á eftir. Hann hafi hlotið verulegan hnykk og vinding á allt bakið, en mest þó á mjóbak og brjósthrygg. Hann hafi einnig hlotið nokkurn hnykk á hálshrygginn. Stefnandi hafi fengið mikinn tognunaráverka og líklega brjósklos í mjóbaki. Hann hafi hlotið áverka á vinstri olnboga og hafi marist í andliti og hlotið þar marga skurði. Nefáverki hafi stuðlað að kæfisvefni, en stefnandi hafi fengið lækningu við því ástandi síðar. Um breytingar á heilsu stefnanda er í stuttu máli sagt að í fyrri matsgerðum hafi ekki verið tekið tillit til andlegra afleiðinga líkamstjóna stefnanda, en það sé gert í þessari matsgerð og byggt á læknisfræðilegum og sálfræðilegum gögnum, sem þá liggi fyrir, auk þess sem byggt sé á viðtali við stefnanda. Umtalsverðar breytingar verði á niðurstöðum fyrri matsgerða þegar tekið sé tillit til andlegra afleiðinga. Rekja undirmatsmenn umræddar andlegar afleiðingar til heilaskaða sem þeir telja að stefnandi hafi orðið fyrir við slysið.
Mál þetta var þingfest 7. september 2006, eða nokkru áður en mat undirmatsmanna lá fyrir.
Þann 27. mars 2007 voru að beiðni stefndu dómkvaddir til að meta yfirmati afleiðingar umferðarslyssins 25. október 1996, þeir Aron Björnsson, heila- og taugaskurðlæknir, Sigurður Thorlacius, heila- og taugalæknir og Ingvar Sveinbjörnsson, hæstaréttarlögmaður. Er yfirmatsgerð þeirra ódagsett en lögð fram á dómþingi 11. september 2007. Í niðurstöðu matsgerðar segir að stefnandi hafi hlotið í umræddu slysi tognun í mjóbaki, áverka á vinstri olnboga og lýtandi ör í andliti, ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir 21. nóvember 1996, tímabil tímabundinnar óvinnufærni hafi verið frá slysdegi til sama dags, sem og tímabil þjáninga án rúmlegu. Varanlegur miski er talinn 7% og varanleg örorka 7%. Er áverkum stefnanda vegna slyssins lýst þannig að hann hafi í slysinu fengið fjölmarga skurði í andlit við að skella í framrúðu sem hafi brotnað. Hann hafi borið fyrir sig handleggi og skorist á vinstri olnboga. Hann hafi fengið hnykk á háls og mjóbak. Hvergi í samtímaheimildum meðferðaraðila komi fram að stefnandi hafi fengið alvarlegan heilaáverka og rotast. Sjálfur beri stefnandi, eins og fram komi í mati læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar, að hann hafi ekki misst meðvitund. Það sé ekki fyrr en mörgum árum seinna að stefnandi nefni þetta. Þá hafi bætur vegna slyssins löngu verið gerðar upp. Niðurstaða undirmats um að stefnandi hafi hlotið við þetta slys alvarlega heilaáverka sé ekki studd neinum samtímaheimildum. Einkenni um slíkt hefðu leitt til allt annarra viðbragða meðferðarlækna. Ekki hafi t.d. verið talin nein þörf á að mynda heilann eða fylgjast sérstaklega með stefnanda vegna þessa, t.d. með innlögn á heilaskurðdeild. Stefnandi hafi verið kominn í vinnu innan mánaðar frá slysinu. Ekkert komi fram við skoðun nú í þá veru að stefnandi hafi einkenni heilaskaða. Telja yfirmatsmenn í matsgerð sinni að niðurstaða undirmats um að stefnandi hafi orðið fyrir heilaskaða í nefndu slysi sé fráleit, enda sé hún sett fram nær tíu árum eftir slysið og byggð á gögnum sem komi fram níu árum eftir slysið. Sé niðurstaða undirmatsmanna einnig ekki að öllu leyti í samræmi við síðastnefnd gögn um ætlaðan heilaskaða stefnanda, sem þar sé rakinn að mestu til slyss sem hann hafi orðið fyrir 15. júlí 2001.
Rétt þykir samhengis vegna að gera sérstaklega grein fyrir málsatvikalýsingu stefnanda eins og hún birtist í stefnu, en hann hefur í málatilbúnaði sínum lagt sérstaka áherslu á að skoða verði samhengi á milli afleiðinga þeirra þriggja umferðarslysa sem hann hafi lent í. Kveður hann atvik þau að hann hafi slasast í þremur árekstrum (umferðarslysum), 12. febrúar 1996, 25. október sama ár og 15. júlí 2001. Hafi tveir þeir síðarnefndu verið verulega harðir og hafi hann í þeim hlotið höfuðtengda áverka, með því að fá bæði slink á höfuð (með því að höfuðið hafi kastast fram) og þungt högg á höfuðið. Í lögregluskýrslu frá 12. febrúar 1996 segi: „Sigurður kvartaði um eymsli á höfði og var fluttur á slysadeild FSA til athugunar.“ Í vottorði Júlíusar Gestssonar frá 6. september 1999 komi fram að stefnandi kvarti yfir höfuðverk að framan til hægra megin.
Í slysinu þann 25. október 1996 hafi bifreið verið ekið á miklum hraða framan á bifreið sem stefnandi hafi verið farþegi í. Hafi stefnandi ekki verið í belti og hafi kastast fram úr sæti sínu á mælaborð og framrúðu bifreiðarinnar. Hafi höfuð stefnanda farið í framrúðuna og hafi stefnandi hlotið ljót skurðsár í andlit og hafi hann rotast, þrátt fyrir að hafa borið hendurnar fyrir sig, en hægri olnbogi hans hafi skaddast illa í þessum árekstri. Sé um þessa áverka meðal annars vísað til mynda sem hafi verið teknar af lögreglunni á Höfn í Hornafirði og hafi verið lagðar fram í málinu.
Þann 15. júlí 2001 hafi stefnandi einnig lent í hörðum árekstri, enda þótt lögregluskýrsla sé fáorð um það sem og þau læknisvottorð sem lýsi slysáverkunum. Það komi þó í ljós að bifreiðin sem stefnandi hafi ekið hafi verið flutt af vettvangi með dráttarbíl. Þá komi fram í skýrslunni að bremsuför bifreiðarinnar hafi verið um 10 metrar. Stefnandi kveður að við áreksturinn hafi hann fengið mikinn slink á háls og hafi höfuð hans rekist í. Telji hann sig hafa misst meðvitund eða að minnsta kosti hafa vankast verulega. Hann hafi hins vegar ekki verið spurður út í þessi atriði af læknum og ekki haft af þessu áhyggjur, eða tengt þessa áverka við sína líkamlegu verki.
Eftir síðasta slysið 15. júlí 2001 hafi stefnandi nær ekkert unnið, eins og skattframtöl hans sýni ljóslega. Hafi stefnandi alltaf verið með verki í hálsi og baki vegna áverka sem hann telji að hafi aukist mjög eftir síðasta slysið. Einnig hafi sálarlíf hans verið verulega bágborið. Hann sé kvíðinn, þunglyndur og sinnulaus og komi engu í verk.
Telji stefnandi að tveggja lækna matið frá 9. mars 2000 gefi ranga mynd af þeim áverkum sem hann hafi fengið í umferðarslysunum árið 1996, enda hafi annar læknanna, Ragnar Jónsson, ekki verið hlutlaus matsmaður, sem trúnaðarlæknir stefnda Vátryggingafélags Íslands hf.
Varðandi matið frá 7. mars 2003, kveður matsbeiðandi, að öll gögn um andlega líðan hans eftir slysið hafi vantað, sem og næga lýsingu á áverkunum. Þá hafi ekki verið kannað nægilega af hverju skerðing á vinnugetu stefnanda hafi stafað og hvort orsökin gæti verið verkir og aðrir andlegir áverkar.
Í læknisvottorði Marinós P. Hafstein frá 15. janúar 2005 segi meðal annars: „Höfuðhreyfingar eru stirðar og sársaukafullar [...] Það eru geysileg eymsli yfir hnakkfestum, hnakka- og herðavöðvum, yfir öxlum og olnbogum og niður eftir öllu baki og miðlungs slæm eymsli yfir mjöðmum báðum megin. [...] Sigurður Skjaldberg þjáist af slæmum tognunum í hálsi, herðum, olnbogum, niður eftir öllu baki og utanvert á mjöðmum auk þess sem hann er með skaða á brjóski í hægra hné.“
Í læknisvottorði Ásgeirs Karlssonar frá 5. apríl 2005 segi svo: „Við skoðun hjá Marinó P. Hafstein, lækni, sem gerð var í janúar 2005 kom fram mikill óbærilegur sársauki í hálsi, herðum og niður eftir útlimum. Þessi verkur liggur alveg niður á miðjan brjóstkassa. Hann er með mjög slæma verki í mjóbaki sem leiða niður í fætur reyni hann eitthvað á sig.“
Síðan segi: „Þau einkenni sem Sigurður hefur, sem tengja má alvarlegum áföllum á heilavef eru: Sigurður segir að einbeiting hafi verið mjög slæm frá því hann varð fyrir slysinu 2001 svo og minni [...] Sjúklingur segist vera haldinn nær stöðugri spennu. Honum finnst hann eiginlega einungis eiga einn möguleika eftir það er að lenda í fjórða óhappinu. Hann er verulega hræddur við að ferðast s.s. að fljúga og þarf þá yfirleitt að standa nær allan tímann og hreyfa sig. Honum líður illa í bíl, sérstaklega ef hann ekur ekki sjálfur. Hann dreymir slysið ennþá og finnst það vera undir því komið hvernig líðanin sé, hvort hann sé undir einhverri ákveðinni pressu.
Sjúklingur segist einnig eiga mjög erfitt með að þola sól og notar þá yfirleitt sólgleraugu. Þreytist mjög á því að lesa, hann les einungis fyrirsagnir í blöðum, notar mikið textavarp. Minnið er mjög slæmt, notar yfirleitt dagbók til þess að skrifa niður þá hluti sem hann þarf að gera. Jafnframt með nær stöðugt suð fyrir báðum eyrum. Einnig er hann með stjarfa þar sem hugurinn tæmist og hann verður ónæmur fyrir umhverfi sínu án þess þó að detta niður.“
Taugasálfræðilegt mat Smára Pálssonar, frá 27. ágúst 2005 staðfesti ofangreindar niðurstöður Ásgeirs Karlssonar, geðlæknis um að stefnandi sé vegna slysanna haldinn áfallastreituröskun, kvíða og depurð, auk þess sem veruleg truflun sé á einbeitingarúthaldi. Í áliti hans segi meðal annars: „Nokkur geðræn einkenni eins og depurð, kvíði og áfallastreita koma fram hjá Sigurði og hann þarf tvímælalaust að leita sér hjálpar hvað þau varðar. Frammistaða Sigurðar á taugasálfræðilegu prófunum var mjög mismunandi, allt frá því að teljast töluvert skert og upp í það að teljast góð. Tildrög þeirra slysa sem Sigurður hefur orðið fyrir, lýsingar hans og maka á þeim breytingum sem orðið hafa á honum, meðfylgjandi gögn og svo hin taugasálfræðilega útkoma benda til þess að Sigurður hafi fengið talsverðan heilaskaða...“
Þarna komi greinilega fram bæði hjá Ásgeiri Karlssyni, lækni og Smára Pálssyni, taugasálfræðingi að þeir telji að stefnandi hafi orðið fyrir heilaskaða sem rekja megi til ofangreindra slysa.
Stefnandi kveðst árétta að eftir síðasta slysið hafi hann ekkert unnið. Hann hafi reynt að afla sér menntunar til að auka möguleika sína á að fá annað starf, sem henti núverandi ástandi hans, en námið hafi ekkert gengið sökum lélegrar námsgetu.
Stefnandi kveðst einnig taka fram að verkir hans og vanlíðan hafi stöðugt aukist, svo sem verkir í baki, höndum og fótleggjum. Sem dæmi kveðst stefnandi nefna að hann hafi öðru hverju fengið logandi verki í olnboga hægri handar og ætíð kvartað yfir því við lækna en ekkert hafi fundist og hafi verkirnir oftast verið á undanhaldi er til lækna hafi verið komið. Nú í vor hafi þetta endurtekið sig og hafi hann þá leitað til Boga Jónssonar, bæklunarlæknis, sem fundið hafi beinflís í olnboganum, sem verið hafi vegna áverka sem stefnandi hafi fengið í árekstrinum í október 1996. Eins hafi nefáverkar sem stefnandi hafi fengið í sama slysi gert honum sífellt erfiðara fyrir með svefn. Hafi stefnandi því farið í uppskurð á nefi nú nýlega og fengið einhverja bót.
Varðandi atvik kveðst stefnandi einnig vísa til þeirra matsgerða sem fyrir liggi í málinu en þar sé rakin atvinnusaga hans eftir slysin þar til í mars 2003 og síðan til skattframtala hans gjaldárin 2005 og 2006, en gögn þessi staðfesti að síðustu ár hafi stefnandi engar tekjur haft af vinnu.
Verst hafi þó farið með stefnanda að hafa ekki getað aflað sér frekari menntunar, sem hann hafi þráð eftir að hafa ráðið bug á áfengisfíkn sinni. Sé hann af ofangreindum ástæðum nú knúinn til að höfða mál þetta.
II.
Stefnandi kveðst styðja dómkröfur sínar við ákvæði bótakafla umferðarlaga. Hann hafi orðið fyrir fébótaskyldu tjóni í umferðarslysi, þannig að ákvæði bótakafla umferðarlaganna eigi við, en ekki sé í málinu deilt um skaðabótaskyldu. Stefnandi byggi á að sú bótaákvörðun sem byggð sá á matsgerð 9. mars 2000 fái ekki staðist, þar sem fyrir liggi afleiðingar slyssins sem ekki sé tekið tillit til í matsgerðinni.
Kveðst stefnandi byggja endurupptökukröfu sína, eða kröfu um nýja bótaákvörðun á eftirtöldum málsástæðum.
A. Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á að þegar heilsa (heilbrigðistástand/miski/varanleg örorka) hans hafi verið metin í mars árið 2000, vegna afleiðinga slysanna árið 1996 og síðan aftur í mars 2003, hafi ekki verið fyrirséð að slíkar breytingar yrðu á heilsu hans, miska og varanlegri örorku, sem raunin hafi orðið á. Sé því til grundvallar vísað til læknisvottorða Marínó P. Hafstein, Ásgeirs Karlssonar og Boga Jónssonar. Byggi stefnandi á því að geta hans til að afla vinnutekna sé um leið hans líkamlega og andlega heilsa, ástand líkama og sálar. Þegar byggt sé á hugtakinu heilsa sé ekki hægt að aðgreina miska og varanlega örorku. Þessu til grundvallar bendi stefnandi á að 11. gr. skaðabótalaga nefni breytingar á heilsu þannig, að miski eða varanleg örorka sé verulega hærri en áður hafi verið talið. Byggi stefnandi á að svo sé einmitt í hans tilviki, eins og fram komi meðal annars í taugasálfræðilegu mati Smára Pálssonar frá 27. ágúst 2005. Miðað við niðurstöðu síðastgreindra vottorða sé um að ræða verulega hærra stig miska og örorku en áður hafi verið miðað við. Þar með sé fullnægt skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 fyrir endurupptöku málsins.
B. Stefnandi kveðst einnig reisa kröfu sína á að lög nr. 50/1993 byggi á að mat á miska og varanlegri örorku gangi greiðlega fyrir sig og gert sé ráð fyrir að tjónþolar leiti til matslækna til mats meðal annars á varanlegri örorku, sem fyrst eftir að áverkar þeirra komist í jafnvægi og ekki sé að vænta frekari bata. Tímabundinni örorku ljúki þegar ekki er að vænta frekari bata, eða við svokallaðan stöðugleikapunkt. Á þeim tímapunkti ríði á að niðurstaða fáist fljótlega um hver varanleg örorka sé, þar sem tjónþolar séu frá þessum tímapunkti án allra bóta og eigi oft erfitt uppdráttar, þar til endanleg niðurstaða fáist. Tryggingafélög greiði ekki tímabundnar örorkubætur lengur en eitt ár nema í sérstökum tilvikum. Tjónþolar verði og að treysta því að möt matslækna séu traust og rétt grundvölluð. Er tjónþolar hafi fengið mat á örorku vegna slysa, sé ekki annað ráð til en að byggja á viðkomandi mati, því mjög kostnaðarsamt og tímafrekt sé að biðja um viðbótarmat eða dómkvaðningu sérfróðra matsmanna enda þótt einhver vafi sé í huga viðkomandi tjónþola gagnvart fyrirliggjandi mati. Einnig verði það til þess, að tjónþoli verði án bóta í langan tíma. Við þessa stöðu tjónþola bætist síðan að þeir séu oftar en ekki í erfiðri samningsstöðu við viðkomandi tryggingafélag. Allt þetta geri það að verkum að líta verði með sanngirni á mál eins og þetta þar sem í ljós hafi komið að miski og varanleg örorka sé verulega hærri en fram komi í því mati sem fyrr hafi verið byggt á.
C. Stefnandi byggi dómkröfur sínar einnig á reglum kröfuréttar um rangar og brostnar forsendur. Byggi stefnandi á að 11. gr. skaðabótalaga hafi komið til viðbótar reglum um rangar og brostnar forsendur sem enn séu því í gildi. Byggi stefnandi á að þau læknisfræðilegu gögn sem nú hafi verið lögð fram staðfesti að allar forsendur fyrirliggjandi matsgerða hafi brostið eða hafi frá upphafi verið rangar. Verði ekki á það fallist að um sé að ræða forsendubrest að þessu leyti, sem ekki verði byggt á, þá felist í því þrenging á þeim reglum sem áður hafi gilt í þessum efnum á grundvelli meginreglna kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur og sanngirnisrök varðandi endurupptöku skaðabótamála vegna líkamstjóna. Þar með brjóti 11. gr. skaðabótalaga gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar, en Hæstiréttur Íslands hafi í þremur dómsmálum 1998, bls. 1976, bls. 2002 og bls. 2233 viðurkennt að í vinnugetu manna felist eignarréttindi sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar.
D. Stefnandi kveðst einnig byggja dómkröfur sínar á 36. gr. samningalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986 og 33. gr. samningalaga. Sé á því byggt að það sé bersýnilega ósanngjarnt með hliðsjón af atvikum öllum, sem og stöðu aðila, að þau bótauppgjör sem byggð hafi verið á fyrri matsgerðum fáist ekki endurskoðuð, með hliðsjón af þeim aðstæðum sem stefnandi búi við í dag. Stefnandi árétti að fjárhagsstaða hans hafi verið erfið um það leyti sem bótauppgjör hafi farið fram. Hafi það stuðlað að því að hann hafi samþykkt boðnar bætur. Stefnandi kveðst einnig byggja á lögum nr. 14/1905, a., b., c. og d liðum 36. gr. samningalaga, þar sem í raun hafi ekki verið samið sérstaklega um bætur heldur hafi nánast verið stuðst við staðlaða samningsskilmála, þ.e. tryggingaskilmála þá sem reistir hafi verið á bótakafla umferðarlaganna og stefnanda í raun boðnar ákveðnar bætur, sem ekki hafi verið fyrirséð að væru nokkru hærri. Varðandi þessa málsástæðu verði sérstaklega að horfa til þess að uppgjörið vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir á árinu 1996 hafi alfarið byggst á matsgerðinni frá 9. mars 2000 sem gerð hafi verið af Ragnari Jónssyni, trúnaðarlækni Vátryggingafélags Íslands hf. Byggi stefnandi á að Ragnar hafi verið vanhæfur til matsgerðarinnar, sem trúnaðarlæknir Vátryggingafélags Íslands hf. þar sem um verulega matskenndar niðurstöður hafi verið að ræða. Því beri að víkja matsgerðinni til hliðar gagnvart dómkröfum stefnanda. Hætt sé við að Ragnar hafi ekki haft hagsmuni stefnanda að leiðarljósi, heldur hagsmuni tryggingafélagsins, sem hann fái borgað fyrir að gæta. Alls ekki sé loku fyrir það skotið að svo hafi verið.
Byggir stefnandi á að þó að hann hafi haft lögfræðing sér til aðstoðar við uppgjörið þá hafi sá lögfræðingur ekki staðið að matsgerð sem uppgjörið hafi síðan alfarið verið grundvallað á. Hafi lögfræðingurinn einungis gætt hagsmuna stefnanda eftir að viðkomandi matsgerðir hafi legið fyrir, auk þess sem hann hafi ekki vitað um tengsl Ragnars við Vátryggingafélag Íslands hf.
Við munnlegan málflutning gerði lögmaður stefnanda grein fyrir endanlegri dómkröfu með þeim hætti að hún miðaðist við niðurstöðu undirmats. Aðalkrafa að fjárhæð 2.891.152 krónur sundurliðist þannig að 1.143.619 krónur væru vegna varanlegs miska, en það væri mismunur á þeim 7 stiga varanlega miska sem stefnandi hefði þegar fengið greiddan og þeim 25 stiga miska sem greindi í undirmatsgerð eða 18% af 6.353.443 krónum en síðastnefnd fjárhæð sé miðuð við lánskjaravísitölu í september 2006. Krafa vegna varanlegrar örorku sé á sama hátt miðuð við niðurstöðu undirmats og samkvæmt því eigi stefnandi rétt á 8% viðbótargreiðslu vegna varanlegrar örorku. Árslaunaviðmið sé það sama og miðað hefði verið við í uppgjöri frá apríl 2000 en launaviðmið sé hækkað samkvæmt launavísitölu frá apríl 2000 til september 2006. Krafan nemi því 1.747.903 krónum. Varakrafa að fjárhæð 1.970.007 krónur sé byggð á framangreindri niðurstöðu undirmats um miskastig og varanlega örorku en forsendur séu í einu og öllu þær sömu og lagðar hafi verið til grundvallar við bótauppgjör í apríl 2000. Vaxtakrafa sé sett fram með sama hætti og gert hafi verið í stefnu.
Þá mótmælti lögmaðurinn því að fyrningarregla 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 gæti átt við þegar um endurupptökumál á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 væri að ræða.
Varðandi lagarök kveðst stefnandi styðja kröfur sínar við 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 1. mgr. 5. gr. sömu laga og þau rýmkandi lögskýringarsjónarmið, að skýra verði ákvæði 11. gr. tjónþola í vil, sé vafi um lögskýringarleiðir. Þá kveðst stefnandi vísa til almennra reglna fjármunaréttar um endurupptöku mála og til reglna um brostnar forsendur, sem og til meginreglna 36. gr. samningalaga og þeirra neytendasjónarmiða sem sú grein byggi á. Stefnandi vísi og til þeirrar grundvallarreglu skaðabótaréttar að byggja eigi á sanngirnissjónarmiðum og að þegar fyrir hendi séu ábyrgðartryggingar, til að dreifa áhættu, eigi enn frekar að líta til slíkra sanngirnissjónarmiða. Stefnandi skírskoti einnig til bótakafla umferðarlaga dómkröfum sínum til stuðnings. Þá kveðst stefnandi vísa til 72. gr. stjórnarskrárinnar og eignarverndarákvæða þeirra sáttmála sem Ísland hafi undirgengist. Bótafjárhæð kveðst stefnandi byggja á 1. gr., 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
III.
Stefndu kveðast byggja aðalkröfu sína um sýknu einkum á því að hugsanleg bótakrafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og skýrri og nýlegri dómaframkvæmd Hæstaréttar í sams konar málum.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnist allar bótakröfur, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.
Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar þeirra Ragnars Jónssonar læknis og Atla Þórs Ólasonar læknis sé ljóst að ekki hafi verið að vænta frekari bata sex mánuðum eftir slys, eða í lok apríl 1997. Það sé samhljóða niðurstöðu hinna dómkvöddu undirmatsmanna, en samkvæmt matsgerð þeirra hafi batahvörf verið þann 27. apríl 1997. Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga og dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi fyrningarfresturinn byrjað að líða í lok árs 1997. Þar sem fyrningarfresturinn sé fjögur ár hafi krafa stefnanda fyrnst þann 1. janúar 2002. Sé ekkert í málinu sem réttlætt geti drátt stefnanda á að leita fullnustu kröfu sinnar. Þvert á móti sé haft eftir stefnanda að hann hafi ekki sagt neinum læknum frá því að hann hefði rotast og þeim óþægindum sem því hafi fylgt og afleiðinga í kjölfarið, sem nú sé krafist bóta fyrir. Sú fullyrðing stefnanda að hann hefi ekki sagt læknum frá öllum þeim áverkum sem hann nú geri sér grein fyrir, fái stoð í öllum samtímagögnum sem fyrir liggi í málinu. Stefnandi hafi aldrei haft uppi kvartanir um að hafa vankast eða rotast í slysinu 25. október 1996 fyrr en í ársbyrjun 2005, en þá hafi krafa hans verið löngu fyrnd.
Vísað sé til dómaframkvæmdar Hæstaréttar, sérstaklega dóma nr. 276/2003 frá 12. febrúar 2004 og nr. 392/2004 frá 3. febrúar 2005. Sé í þessum tveimur nýlegu dómum Hæstaréttar slegið föstu að fyrningarfrestur byrji að líða samkvæmt 99. gr. umferðarlaga í lok þess almanaksárs, sem tímabært hafi verið að meta umrætt slys að mati matsmanna.
Stefndu hafni alfarið niðurstöðu hinna dómkvöddu undirmatsmanna um að afleiðingar ætlaðra höfuðáverka sem orðið hafi í slysinu 25. október 1996 hafi verið að koma fram allt til ársins 2003. Það fái með engu móti staðist. Stefndu fallist ekki á matsgerð undirmatsmanna og telji hana ranga og byggjast á röngum forsendum.
Stefndu kveðast einnig styðja sýknukröfu sína við að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda séu ekki fyrir hendi. Það verði ekki lagt til grundvallar að ætlaðir höfuðáverkar og andlegar afleiðingar vegna þeirra sé að rekja til slyss hans 25. október 1996, sem stefnandi segi í janúar 2005 að hann hafi aldrei nefnt við lækna fyrr en þá. Sú fullyrðing stefnanda, að hann hafi ekki nefnt umrædda höfuðáverka fyrr en þá, fái stoð í öllum gögnum málsins. Þess sé aldrei getið í vottorðum lækna vegna slyss stefnanda 25. október 1996 að hann hafi vankast eða rotast. Hvergi í læknisfræðilegum gögnum eða í öðrum gögnum málsins sjái þess nokkurn stað að stefnandi hafi fengið mikinn hnykk og vinding á hrygginn, einkum á mjóbakið, en einnig hálshrygginn, eins og segi í matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra Sverris Bergmann, læknis og Viðars Más Matthíassonar prófessors, dags. 25. mars 2006. Segi einnig í þeirri matsgerð að stefnandi hafi misst meðvitund sem og ökumenn beggja bifreiðanna. Segir að meðvitundarleysi stefnanda hafi staðið í nokkra stund. Stefndu telji að fullyrðingar matsmanna um meðvitundarleysi stefnanda fái enga stoð í neinum þeirra samtímagagna sem fyrir liggi í málinu. Þó stefnandi hafi haft einkenni tognunar í baki eftir slysið, sbr. það sem segi í vottorði Baldurs P Thorsteinsen, dags. 16. mars 1999 verði með engu móti lagt til grundvallar að brjósklos sem greint hafi verið hjá stefnanda í júlí 1998, tæpum tveimur árum eftir slysið, sé að rekja til þess, eins og fullyrt sé í áðurnefndri undirmatsgerð. Allar þær afleiðingar sem stefnandi hafi vegna tjónsins frá því í október 1996 hafi verið metnar á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Ófyrirséðar breytingar á heilsu stefnanda sem rekja megi til slyssins sé með öllu ósannaðar.
Stefnandi byggi á því í stefnu að líta verði með sanngirni á mál eins og þetta. Sá ætlaði flýtir á uppgjöri sem stefnandi reki í tengslum við reifun sanngirnissjónarmiða fái ekki staðist þegar horft sé annars vegar til þess hvenær slysið hafi orðið, í október 1996, og svo hvenær matsgerð til grundvallar uppgjöri hafi legið fyrir, sem hafi verið í mars 2000. Við það uppgjör hafi stefnandi notið aðstoðar lögmanns og hafi uppgjörið farið fram án allra fyrirvara af hálfu stefnanda. Af þessu sé ljóst að allrar sanngirni hafi verið gætt við meðferð máls stefnanda hjá stefnda VÍS hf.
Stefnandi byggi ennfremur á því að 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 feli í sér þrengingu á áðurgildandi reglum í þessum efnum. Kveðast stefndu hafna þessu og vísa því til stuðnings til athugasemda við 11. gr. í greinargerð með frumvarpi til laganna. Segi þar berum orðum að ákvæði 11. gr. séu í samræmi við almennar reglur fjármunaréttarins. Óumdeilt sé að löggjafinn hafi heimild til að setja reglur um ákvörðun skaðabóta og því jafnframt reglur um endurupptöku mála. Markmið slíkra reglna löggjafans sé að fullar bætur komi fyrir líkamstjón. Ekki verði talið að ákvæði 11. gr. skaðabótalaga séu á nokkurn hátt ómálefnaleg, heldur sé þar gætt jafnræðis og samræmis. Því sé þannig hafnað að reglur um rangar og brostnar forsendur eigi að leiða til þess að stefnandi geti krafist endurupptöku á máli sínu vegna ákvörðunar um bótafjárhæð, svo og að 11. gr. skaðabótalaga gangi í berhögg við stjórnarskrá Íslands.
Stefnandi byggi enn fremur á því að það sé bersýnilega ósanngjarnt að bótauppgjör grundvölluð á fyrri matsgerðum fáist ekki endurskoðuð og styðji það við 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Stefndu kveðast alfarið hafna því að nokkuð slíkt eigi við í máli þessu. Áður sé komið fram að stefnandi hafi notið aðstoðar lögmanns við uppgjör bótanna, auk þess sem hann hafi engan fyrirvara gert við uppgjörið. Öllum sjónarmiðum um að við uppgjörið hafi verið stuðst við staðlaða samningsskilmála og boðnar ákveðnar bætur sé alfarið hafnað. Uppgjör bóta vegna slyss stefnanda í október 1996 hafi farið fram á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Lögin séu grundvölluð á fjárhagslegum örorkumati eins og segi í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna. Segi einnig að megintilgangur þess að taka upp fjárhagslegt mat í stað læknisfræðilegs sé sá að með því megi almennt fá raunhæfari grundvöll til að miða varanlegt tekjutap við. Stefndu vilji leiðrétta það sem fram komi í stefnu að Ragnar Jónsson læknir, hafi verið eða sé trúnaðarlæknir stefnda VÍS hf. Hið rétta sé að Ragnar Jónsson sé þessum stefnda til ráðgjafar um læknisfræðileg atriði sem verktaki.
Fullyrðingum stefnanda um að hann hafi einungis notið aðstoðar lögmanns eftir að matsgerðir hafi legið fyrir sé mótmælt, auk þess sem það breytti engu um að stefnandi hafi notið aðstoðar lögmanns þegar uppgjörið hafi farið fram og hafi haft í hendi sér að taka afstöðu til þess hvort við það yrði unað eða ekki.
Með vísan til ofangreinds sé óhjákvæmilegt annað en að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Til rökstuðnings varakröfu kveða stefndu stefnanda byggja dómkröfu sína á matsgerð dómkvaddra undirmatsmanna frá 25. september 2006, en stefndu byggi á að niðurstöður undirmatsmannanna séu ekki réttar. Stefndu fallist ekki á niðurstöðu matsgerðar um að stefnandi hafi vegna slyssins hlotið 25 stiga miska og 15% varanlega örorku. Í þessu samhengi bendi stefndu á að í málinu liggi fyrir matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar frá 9. mars 2000 þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski hafi verið 7 stig og varanleg örorka 7%. Sé niðurstaða þeirra vel rökstudd, byggð á vottorðum þeirra sem að málinu hafi komið, en ekki einvörðungu frásögn stefnanda. Stefndi hafni því með öllu að sannað sé að stefnandi hafi rotast og hlotið höfuðáverka í slysinu með þeim afleiðingum sem nú sé krafist bóta fyrir. Þá vísuðu stefndu við munnlegan málflutning til yfirmatsgerðar sem aflað var eftir að stefndu lögðu fram greinargerð sína. Byggja þeir á að í yfirmatsgerð séu niðurstöður fyrrnefnds mats frá því í mars 2000 staðfestar og sýnt fram á að ekki sé orsakatengsl á milli ætlaðs tjóns stefnanda og umrædds slyss.
Lögmaður stefndu mótmælti við munnlegan málflutning að lagastoð væri fyrir þeirri vísitöluhækkun sem stefnandi reiknaði inn í aðalkröfu sína og taldi að yrði á annað borð fallist á kröfur stefnanda væri varakrafa hans í betra samræmi við það sem rétt gæti talist.
Kveðast stefndu loks gera almennan fyrirvara við vaxtakröfu stefnanda. Kröfu um dráttarvexti sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, sbr. 4. mgr. 5. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Vextir eldri en fjögurra ára séu fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.
Krafa um málskostnað í aðalkröfu byggi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en krafa um málskostnað í varakröfu byggi á 3. mgr. 130. gr. sömu laga. Um lagarök að öðru leyti vísist til meginreglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, skaðabótalaga nr. 50/1993, umferðarlaga nr. 50/1987 og samningalaga nr. 7/1936.
IV.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá voru teknar skýrslur af Sverri Bergmann og Viðari Má Matthíassyni og staðfestu þeir undirmatsgerð sína og svöruðu spurningum er að henni lutu. Þá voru sömuleiðis teknar skýrslur af yfirmatsmönnunum Ingvari Sveinbjörnssyni og Sigurði Thorlacius. Staðfestu þeir yfirmatsgerð og svöruðu spurningum um efni hennar. Yfirmatsmaðurinn Aron Björnsson kom ekki fyrir dóminn og sætti það ekki athugasemdum af hálfu stefnanda.
Eins og fyrr greinir hefur stefnandi undir rekstri málsins fallið frá kröfum á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna umferðarslyss 12. febrúar 1996.
Ekki er ágreiningur um það í málinu að stefndu beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi 25. október 1996, stefnda Ragnheiður Sigríður Gestsdóttir, sem eigandi bifreiðarinnar sem slysinu olli, sbr. 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. sem vátryggjandi sömu bifreiðar, sbr. 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 91. gr. sömu laga og er þeim báðum stefnt í málinu í samræmi við ákvæði 97. gr. laganna. Þá liggur fyrir að stefnandi tók við án fyrirvara uppgjöri bóta frá stefnda VÍS hf. að fjárhæð 1.629.779 krónur þann 10. apríl 2000 vegna umrædds slyss.
Stefnandi byggir á að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu fyrir hendi til að ákvörðun miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku verði endurskoðuð. Í nefndu lagaákvæði er kveðið á um að heimilt sé, að kröfu tjónþola, að taka upp að nýju ákvörðun um varanlegan miska eða örorkubætur. Segir einnig að skilyrði þess að svo verði gert sé að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örkorkustig sé verulega hærra en áður var talið.
Eins og fyrr er rakið liggur fyrir í málinu undirmatsgerð þeirra Sverris Bergmann læknis og Viðars Más Matthíassonar prófessors í lögum. Samkvæmt matsgerð þeirra telja þeir að í mati Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar hafi miski stefnanda verið vanmetinn. Kveða þeir vanmatið annars vegar felast í því að tognunaráverkar hafi að réttu átt að metast til 15 miskastiga, en ekki 7 eins og í hinu eldra mati og að hins vegar hafi andlegar afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda að réttu átt að metast til 10 miskastiga. Væri miski hans því samtals 25 miskastig. Byggist þetta á því að undirmatsmenn komust að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði orðið fyrir heilaskaða í slysinu. Þá telja þeir að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins eigi að réttu að vera 15% og taka fram að sá munur sem sé á þeirra mati og því sem bótaákvörðun var byggð á felist fyrst og fremst í þeim andlegu afleiðingum sem ekki hafi verið metnar af þeim Atla og Ragnari. Í undirmatsgerð eru batahvörf sögð 25. apríl 1997. Sérstaklega aðspurður fyrir dómi kvað Sverrir Bergmann, undirmatsmaður, að hann teldi að sá heilaskaði sem byggt er á í undirmati að stefnandi hafi orðið fyrir hafi að fullu verið kominn fram á þeim degi.
Í niðurstöðu yfirmatsgerðar er því afdráttarlaust hafnað að stefnandi hafi orðið fyrir heilaskaða í títtnefndu umferðarslysi og staðfesta yfirmatsmenn niðurstöðu mats Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar, um 7 stiga varanlegan miska og 7% varanlega örorku stefnanda vegna slyssins, en sú niðurstaða varð eins og fyrr segir grundvöllur þess bótauppgjörs sem fram fór milli stefnanda og stefndu á árinu 2000. Telja þeir að stefnandi hafi ekki mátt vænta frekari bata eftir 21. nóvember 1996.
Í ljósi niðurstöðu yfirmats verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir frekara tjóni í títtnefndu slysi en hann fékk að fullu bætt í apríl 2000. Eru málsástæður hans um endurupptöku bótaákvörðunar á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga, um brostnar eða rangar forsendur fyrir bótaákvörðun og ógildingarsjónarmið á grundvelli m. a. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 því haldlausar að fenginni þeirri niðurstöðu. Ber að sýkna stefndu þegar af þessari ástæðu.
Stefnandi hefur byggt á því að líta beri framhjá niðurstöðu yfirmatsmanna og byggja á niðurstöðu undirmats. Sé undirmatsgerð ítarlegar rökstudd og eins kom fram við aðalmeðferð að stefnanda þóttu svör undirmatsmanna fyrir dómi um heimfærslu til einstakra liða í miskatöflum skýrari og skilmerkilegri en yfirmatsmanna. Þykir rétt í ljósi þessa að fjalla um sjónarmið er varða fyrningu.
Í 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 kemur fram að bætur samkvæmt XIII. kafla laganna bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi hafi fengið vitneskju um kröfu sína og hafi fyrst átt þess kost að leita fullnustu hennar. Kröfur fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.
Í undirmati sem liggur fyrir í málinu er samkvæmt framansögðu talið að batahvörf stefnanda hafi verið 25. apríl 1997, en í yfirmatsgerð að ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir 21. nóvember 1996. Þá er rétt að nefna að í mati Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar er þess getið að stefnandi hafi verið greindur með brjósklos í júlí 1998, en klínísk merki hafi verið um þetta strax eftir slysið. Telja verður að tjónþoli teljist almennt hafa fengið vitneskju um kröfu sína og hafi fyrst átt þess kost að leita fullnustu hennar í skilningi framangreinds ákvæðis 99. gr. umferðarlaga við þann tímapunkt þegar ekki er að vænta frekari bata samkvæmt mati. Ber tjónþoli sönnunarbyrði fyrir því að einhver þau atvik hafi orðið sem réttlætt geti að miða skuli við síðara tímamark. Þykir stefnandi ekki hafa fært fram slíka sönnun. Var hugsanleg bótakrafa hans því löngu fyrnd þegar mál þetta var höfðað og leiðir það einnig til þess að sýkna ber stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir í ljósi allra atvika að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og er þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Halldór Björnsson settur héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Ragnheiður Sigríður Gestsdóttir, eru sýkn af kröfu stefnanda, Sigurðar Skjaldberg, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og er þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 622.500 krónur.