Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-25
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Bifreið
- Munatjón
- Húftrygging
- Endurkrafa
- Stórkostlegt gáleysi
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 2. mars 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. febrúar sama ár í máli nr. 708/2021: Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A. Gagnaðili hefur ekki látið beiðnina til sín taka.
3. Mál þetta lýtur að endurkröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda vegna greiðslu bóta úr húftryggingu bifreiðar í kjölfar áreksturs tveggja bifreiða en gagnaðili taldi að leyfisbeiðandi hefði ollið tjóninu með stórkostlegu gáleysi.
4. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 3.213.285 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Í dómi Landsréttar var niðurstaða greiningar sem lögregla aflaði á ökuhraða bifreiðar sem leyfisbeiðandi ók lögð til grundvallar og því slegið föstu að hraði hennar hefði ekki verið minni en 96 kílómetrar á klukkustund á vegi þar sem leyfður hámarkshraði var 60 kílómetrar á klukkustund. Landsréttur vísaði til þess að niðurstaða greiningarinnar fengi stoð í framburði vitna. Leyfisbeiðandi hefði í umrætt sinn sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 19. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hvorki var fallist á að krafa gagnaðila hefði verið fallin niður sökum samsömunar í skilningi 29. og 39. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga né tómlætis gagnaðila við innheimtu kröfunnar. Þá taldi Landsréttur að ekki væru efni til að beita lækkunarheimild 24. gr. skaðabótalaga. Loks var því hafnað að lækka kröfuna á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. 25. gr. skaðabótalaga þar sem gagnaðili hefði greitt tjónið úr húftryggingu og því ætti lagaákvæðið ekki við.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem gagnaðili hafi ekki aflað matsgerðar dómkvadds manns um hraða bifreiðarinnar og því hafi ekki verið farið að meginreglum einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði. Hann byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni hans. Leyfisbeiðandi hafi hrökklast úr námi vegna nokkuð alvarlegra afleiðinga slyssins en stundi nú nám að takmörkuðu leyti. Þá geti hann vart staðið undir greiðslu dómkröfunnar og telur hann að skilyrði fyrir lækkun hennar samkvæmt 24. gr. skaðabótalaga sé fullnægt. Loks telur hann að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til að því er varðar beitingu 25. gr. skaðabótalaga auk þess sem Landsréttur hafi farið gegn meginreglum einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði hvað varðar mat á sönnunargildi útreiknings á hraða bifreiðarinnar.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.