Hæstiréttur íslands

Mál nr. 371/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald


                                                                                              

Föstudaginn 30. maí 2014.

Nr. 371/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 25. júní 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2914.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að að kærða [...], kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 25. júní nk. kl. 16:00.

          Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að aðfaranótt sunnudagsins 30. mars sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...]. Þar hafi karlmaður verið stunginn og átti erfitt með öndun. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi hún hitt fyrir brotaþola, [...], og kærustu hans, [...]. Hafi brotaþoli verið með stungusár undir vinstra brjósti sem blætt hafi úr og hafi hann í kjölfarið verið fluttur á slysadeild þar sem hann hafi skýrt frá því að kærði [...] hafi stungið hann. Skömmu síðar hafi kærði leitað á slysadeild þar sem hann hafi verið handtekinn grunaður um að hafa stungið brotaþola.

Í framhaldi af handtöku kærða var hann 30. mars sl úrskurðaður í gæsluvarðahald á grund­velli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b- liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2014 til 3 apríl sl. Kærði var í framhaldi úrskurð­aður í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna með úrskurði Héraðs­dóms Reykjavíkur nr. [...]/2014 til 30. apríl sl. og þann dag úrskurðaður með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2014 í gæsluvarðhald til dagsins í dag.

                Kærði beri fyrir sig minnisleysi en minnist þess að hafa verið staddur á heimili systur sinnar, [...], að [...] í [...]. Þar hafi einnig verið staddur [...]sem hafi með einhverjum hætti reitt kærða til reiði en hann hafi verið með vesen og hafi ekki viljað fara af heimili [...] og verið að rífast við [...], kærustuna sína. Kærði kveðist hafa séð rautt vegna háttsemi brotaþola en síðan muni hann ekki fyrr en hann hafi verið staddur í Skeifunni í Reykjavík og systir hans hafi hringt brjáluð í hann. Aðspurður um það hvort hann hafi stungið brotaþola kveðst kærði ekki muna það en hann segist ekki draga framburð systur sinna um það í efa.

          Brotaþoli segist hafa verið staddur á heimili [...] ásamt [...],[...] og kærða. Hann hafi verið að yfirgefa heimilið þegar kærði hafi fyrirvara­laust stungið hann í brjóstið með steikarhníf. Framburður brotaþola fær stoð í fram­burði vitnanna [...] og [...] sem beri á sama veg.

          Vegna rannsóknar málsins hafi lítill steikarhnífur með skörðóttu hnífsblaði verið haldlagður. Blóðkám hafi verið að sjá á hnífsblaðinu sem hafi verið bogið. Ætla megi að um sé að ræða hnífinn sem  notaður hafi verið við árásina. Samkvæmt upplýsingum frá slysadeild hafi hnífurinn gengið 4-5 cm inn í brjóst brotaþola og í áverkavottorði Bergs Stefánssonar sérfræðings á bráðamóttöku Landspítalans komi fram að hefði stungan verið eilítið dýpri hefði hann hæglega geta hitt brotaþola beint í hjartastað og þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.

                Tómas Zoëga geðlæknir hafi unnið sakhæfismat á kærða og sé það mat Tómasar að kærði sé sakhæfur í skilningi almennra hegningarlaga.

Rannsókn málsins er lokið og hefur Ríkissaksóknari gefið út ákæru vegna háttsemi kærða.

                Kærði liggi nú undir sterkum grun um að hafa ráðist á brotaþola án nokkurrar ástæðu og veitt honum áverka sem hefðu hæglega geta dregið brotaþola til dauða. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Brot kærða sé talið varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. s.l.  og kunni því að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt því sem fram er komið er kærði undir sterkum grun um að hafa stungið karl­mann með hnífi í brjóstið vinstra megin og með því gerst sekur um brot sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi. Kærði hefur setið í gæslu­varð­haldi vegna þessa, fyrst á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 en síðan 2. mgr. 95. gr. frá 30. mars sl. Liggur fyrir að rannsókn málsins er lokið og ákæra hefur verið gefin út.  Með tilliti til almannahagsmuna verður á það fallist með lögreglustjóra að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus meðan mál hans er til meðferðar, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður því orðið við kröfunni eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, [...], kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarð­haldi, allt til miðvikudagsins 25. júní nk. kl. 16.00

.