Hæstiréttur íslands
Mál nr. 423/2003
Lykilorð
- Líkamsárás
- Frávísun frá héraðsdómi
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 4. mars 2004. |
|
Nr. 423/2003. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn John Edwin Rehm III (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Frávísun skaðabótakröfu frá héraðsdómi. Aðfinnslur.
Að morgni sunnudagsins 1. júní 2003 kom til átaka í miðborg Reykjavíkur milli bandarískra varnarliðsmanna og íslenskra ungmenna. Í átökunum varð Y fyrir fimm hnífsstungum og voru þrjár þeirra taldar lífshættulegar. J gaf sig fram við lögreglu nokkru síðar og viðurkenndi að hann hefði beitt hnífi gegn Y og vísaði á hnífinn. Blóð á hnífnum reyndist vera úr Y. Í niðurstöðu réttarmeinafræðings um áverka á Y kom fram að einn hinna lífshættulegu áverka gæti ekki verið eftir umræddan hníf. J kvaðst hafa verið sleginn með flösku í höfuðið aftanfrá og hafi hann gripið til hnífsins og otað honum blindandi í þá átt sem hann taldi árásina koma úr. Taldi hann sig hafa fundið fyrir því einu sinni að hnífurinn hafi komist í snertingu við eitthvað. Var J ákærður fyrir tilraun til manndráps. Fjölskipaður héraðsdómur taldi sannað að J hefði lagt til Y með hnífnum en ósannað að hann hefði veitt Y fleiri en einn áverka. Þá væri ósannað að J hefði veitt Y einn hinna lífshættulegu áverka og því bæri að heimfæra háttsemi hans undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga en ekki 211. gr. samanber 20. gr. sömu laga. Einnig var talið ósannað að árás J á Y hefði verið í samverknaði við annan mann. Ekki var fallist á að verknaður J gæti talist refsilaus vegna neyðarvarnar. Í dómi Hæstaréttar var fundið að rannsókn málsins þar sem ekki hafði verið rannsakað hverjir aðrir kynnu að hafa veitt Y áverka í umræddum átökum, eins og fullt tilefni hafi verið til í ljósi niðurstöðu réttarmeinafræðingsins og að ekki hafi verið kannað sannleiksgildi framburðar J um áverka sem hann hafi hlotið við að vera sleginn með flösku í höfuðið. Þar sem ákærði hafði ekki gefið skýrslu fyrir Hæstarétti gat rétturinn ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og ekki var talið sýnt að ný meðferð fyrir héraðsdómi myndi varpa skýrara ljósi á málið. Var því niðurstaða héraðsdóms staðfest. Refsing J var ákveðin 18 mánaða fangelsi. Þar sem bótakrafa Y var miðuð við það að J hefði valdið öllu tjóni hans og í málinu taldist ósannað að svo hefði verið var ekki talið unnt að leggja dóm á kröfuna og var henni því vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. október 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins sem krefst sakfellingar ákærða samkvæmt ákæru, en til vara að sakfelling héraðsdóms verði staðfest. Jafnframt er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til að greiða Y 3.000.000 krónur í skaðabætur, auk vaxta og dráttarvaxta eins og í ákæru greinir.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð.
I.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Þar kemur fram að um sexleytið sunnudagsmorguninn 1. júní 2003 kom til átaka milli bandarískra varnarliðsmanna og íslenskra ungmenna framan við Hafnarstræti 21 í Reykjavík. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var átökunum lokið en þeim var skýrt frá því að Y hefði verið stunginn með hnífi og lá hann þarna í blóði sínu. Sjúkrabifreið með lækni kom á staðinn og var Y fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Margt fólk var þarna saman komið. Handtóku lögreglumenn alls 12 manns þennan morgun vegna rannsóknar málsins, þeirra á meðal varnarliðsmenn. Handtökurnar fóru fram bæði á vettvangi og eins voru handteknir farþegar úr bifreið, sem þar hafði verið, en horfið á braut áður en lögreglumennirnir komu. Nokkrir varnarliðsmannanna fóru hins vegar til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli áður en lögreglumenn gátu haft tal af þeim, þeirra á meðal var ákærði. Í málinu liggja frammi myndir úr eftirlitsmyndavél, sem nær yfir austurenda Hafnarstrætis, en þó ekki þann hluta þar sem átökin sjálf urðu. Á myndunum gefur að líta þann hóp manna sem þarna var og kenna má þar meðal annarra ákærða og Y.
Y greindi lögreglu svo frá að hann hafi ásamt fleirum nokkru fyrir átökin átt í orðahnippingum við varnarliðsmenn. Hann hafi eftir að átökin hófust blandað sér í þau til að aðstoða kunningja sinn. Hafi þá tveir menn dregið hann aðeins út úr hópnum og hafi þeir tekið að berja sig. Hann hafi gripið um höfuð sér þar sem hann hafi búist við að sparkað yrði í sig, en þá hafi hann fengið högg í kviðinn, sem reyndust vera hnífstungur. Þegar hann tók hendur frá höfði sér hafi árasarmaðurinn eða mennirnir verið horfnir á braut. Hann hafði það eftir tveimur kunningjum sínum að þeir hefðu séð tvo menn berja á honum. Hafi annar þeirra verið klæddur í dökka yfirhöfn en hinn í ljósa.
Þegar ákærði kom fyrir héraðsdóm og ákæra hafði verið kynnt fyrir honum var hann spurður að því hvort hann hefði stungið manninn fimm sinnum með hnífi. Hann svaraði því svo, að það hefði hann gert eftir því sem hann best vissi. Við aðalmeðferð málsins sagði ákærði að nokkru fyrir átökin hafi einn af félögum sínum lent í átökum við Íslending við pylsuvagn á Lækjartorgi. Eftir þau átök hafi þeir félagarnir gengið til Hafnarstrætis en þar hafi hópur Íslendinga safnast saman og hafi komið til deilna um það sem gerðist við pylsuvagninn. Hafi hvað leitt af öðru og ólgan á staðnum vaxið. Sumir Íslendinganna hafi verið með tómar bjórflöskur í höndum, viðhaft gróft orðbragð og sýnt ofbeldisfulla líkamstjáningu. Hann hafi heyrt á samtal karls og konu þar sem hún ásakaði manninn um að vera með hníf. Hann hafi ekki haft ástæðu til annars en að ætla það rétt. Hann hafi reynt að koma félögum sínum á braut en það gengið erfiðlega og allt í einu hafi verið ráðist að einum þeirra og hafi hann reynt að koma honum til hjálpar. Þá hafi verið komið aftan að sér og hann sleginn í höfuðið með bjórflösku. Hann hafi orðið hræddur um líf sitt og gripið til hnífs sem hann hafði á sér og otað honum í þá átt sem árásin kom úr. Hann hafi ekki beint hnífnum að nokkrum sérstökum. Hann hafi verið með lokuð augun en kvaðst minnast þess að hafa fundið að minnsta kosti einu sinni að hnífurinn komst í snertingu við einhvern og óttast að sá sem hnífurinn fór í hefði látist. Hann gat sér þess til að Y hefði verið sá sem veitti honum höggið með flöskunni. Sagði hann að flaskan hafi brotnað á höfði sér og hafi honum blætt við vinstra gagnauga. Eftir árásina hafi hann hlaupið í burtu og hent hnífnum í ruslatunnu þar sem hann síðar vísaði lögreglu á hann. Hefur DNA- rannsókn leitt í ljós að blóð úr Y var á blaði hnífsins. Hnífinn hafði ákærði tekið af félaga sínum fyrr um kvöldið og taldi að hann hefði haft hann í fórum sínum í 1 eða 2 klukkustundir þegar atburður þessi varð. Hann hitti síðan tvo af félögum sínum upp við styttu Leifs Eiríkssonar á Skólavörðuholti, náðu þeir sér í leigubifreið og var ekið á Keflavíkurflugvöll. Þegar þangað var komið varð honum það fyrst fyrir að taka fötin, sem hann hafði verið í, fara með þau á stað á vesturhluta vallarins og kveikja í þeim. Daginn eftir klippti hann einnig á sér hárið. Hann kvaðst hafa ákveðið að játa þetta brot á sig þar sem honum hafi verið gefið tækifæri til þess að segja sannleikann um hvað gerst hefði og að félagi sinn hafi verið í fangelsi en ekki átt að vera það. Fram er komið að hann hafði verið kallaður til yfirheyrslu rannsóknardeildar sjóhersins (U.S. Naval Criminal Investigative Service) og þar játað verknaðinn fyrst. Hann vildi ekki svara því hvort hann hefði rætt við einhverja aðra áður en hann gaf sig fram.
Framburði vitna er lýst í héraðsdómi. Þar er einnig tekið upp læknisvottorð 13. júní 2003 varðandi Y, sem ritað er af Þorvaldi Jónssyni dr. med. Þar kemur fram að Y varð fyrir lífshættulegum áverkum af beittu lagvopni, sem á þremur stöðum gekk inn í líkamshol. Fullvíst er þar talið að þeir áverkar hefðu leitt til dauða hefði ekkert verið að gert.
Þóra Steinunn Steffensen réttarmeinafræðingur rannsakaði áverka Y. Hefur hún lýst fimm áverkum í skýrslu sinni. Í lok greinargerðar hennar segir að hvorki sé unnt að segja til um hvort allir áverkarnir voru veittir af einum eða fleiri mönnum né hvort þeir voru rétthentir eða örvhentir. Áverkana merkir hún I-V og segir í skýrslunni að áverkar I-III hafi hver sem einn getað valdið dauða Y hefði hann ekki komist eins fljótt til aðgerðar og raun bar vitni. Hún kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína og skýrði út að útilokað væri að áverki III gæti verið eftir hnífinn sem um er getið í málinu. Hún kvaðst ekki geta útilokað að sá hnífur hefði valdið öllum hinum sárunum eða einhver annar hnífur hefði gert það.
II.
Ákæruvaldið fellir sig við lýsingu héraðsdóms á málsatvikum að öllu verulegu leyti og gerir ekki athugasemdir við rakningu framburðar vitna. Hins vegar eru gerðar athugasemdir við þá niðurstöðu héraðsdóms að ákærði hafi ekki verið einn um að leggja til Y með eggvopni og ekki sé upplýst hver eða hverjir voru þar að verki. Jafnframt sé ósannað að ákærði hafi lagt oftar en einu sinni til Y. Vitnar ákæruvaldið í þessu sambandi til játningar ákærða og telur með vísan til þess og annarra gagna málsins að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að ákærði hafi veitt Y þessa áverka. Þá gerir ákæruvaldið athugasemd við þá ályktun héraðsdóms að ekkert sé fram komið sem bendi til þess að fyrir ákærða hafi vakað að ráða Y af dögum. Er á það bent að ákærði hafi vísvitandi lagt til Y með 9 cm löngu hnífsblaði og því hlotið að vera ljóst að langlíklegast væri að hann hlyti bana af. Þá hafi ákærði sjálfur talið að svo hefði orðið. Loks er því andmælt að við ákvörðun refsingar sé rétt að horfa til 2. og 9. tl. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 218. gr. a. sömu laga, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981, svo sem gert sé í héraðsdómi.
Verjandi ákærða fellst einnig á málsatvikalýsingu héraðsdóms en gerir þá athugasemd við hana að í niðurstöðukafla dómsins sé ekki reifaður sá framburður ákærða að hann hafi ætlað að Y væri vopnaður hnífi og væri að ráðast á sig með honum. Framburður hans sé studdur vætti P sem sagt hafi einhverjum varnarliðsmönnum að Y væri vopnaður hnífi.
Y hefur neitað því að hafa verið vopnaður hnífi og jafnframt hefur hann neitað því að hafa slegið ákærða í höfuðið með flösku. Þótt vera kunni að eitthvert umtal væri á staðnum um að einhverjir Íslendinganna væru vopnaðir hnífum verður ekki ráðið af málsatvikum að það hafi átt við Y. Þá verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að ákærði viti ekki hvort það var Y sem sló hann með flösku eða einhver annar og í raun er ekkert annað því til stuðnings utan framburður N, svo sem um getur í héraðsdómi, en af endurriti af framburði hennar er í raun óljóst hvort hún á við Y eða einhvern annan, þótt héraðsdómur meti framburð hennar á þann veg. Engin rannsókn fór fram á ákærða eftir átökin og hann virðist ekki hafa leitað til læknis. Af gögnum málsins má þó ráða að einhverjir Íslendinganna beittu flöskum í átökunum. Verður að þessu vikið við mat á því hvort ákærði hafi réttilega litið svo á að sér væri ógnað og því gripið til hnífsins en ákærði heldur því fram að verknaður hans hafi verið refsilaus af þessum sökum og hafi helgast af neyðarvörn. Heldur hann því jafnframt fram að þeir varnarliðsmennirnir hafi verið 14 saman en Íslendingarnir hafi verið um 60.
III.
Að framan er því lýst að átök brutust út milli nokkurs hóps Íslendinga og varnarliðsmanna í Hafnarstræti að morgni 1. júní 2003. Má af myndum úr eftirlitsmyndavélum sjá að ýfingar hafa orðið með mönnum, en myndirnar styðja ekki þá fullyrðingu ákærða að um 60 Íslendingar hafi ráðist að þeim varnarliðsmönnum, enda verður ekki greint að nærri því svo margir hafi verið á vettvangi. Þá verður ekki annað af myndunum séð en fæstir Íslendinganna hafi tekið þátt í átökunum. Af gögnum málsins verður einnig ráðið að flestir varnarliðsmannanna voru úr herlögreglu liðsins og af því ætti að mega álykta að þeir hafi hlotið nokkra þjálfun í átökum.
Rannsókn málsins er í verulegum atriðum ábótavant. Þar skiptir mestu að lítil sem engin rannsókn hefur farið fram á því hvort einhverjir fleiri áttu hlut að árásinni á Y og þá á hvaða hátt, en fullt tilefni var til þess samkvæmt skýrslu Þóru Steinunnar Steffensen réttarmeinafræðings. Þá nýtur engra gagna um það hvort ákærði leitaði læknis vegna ætlaðra áverka á höfði og ekki liggur fyrir hvort lögreglan leitaði eftir því að þetta væri kannað.
Ákærði hefur ekki gefið skýrslu fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, getur rétturinn því ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar. Ekki er sýnt að ný meðferð fyrir héraðsdómi myndi varpa skýrara ljósi á málið. Niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var þremur embættisdómurum, ræðst að verulegu leyti af afstöðu dómsins til framburðar ákærða og vitna. Hefur dómurinn skýrt játningu ákærða á verknaðinum í samræmi við framburð hans að öðru leyti og með vísun til hans og skýrslu og framburðar Þóru Steinunnar Steffensen, sem að framan er rakinn, komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að hann hafi lagt oftar til Y en einu sinni. Hefur héraðsdómur metið það svo að ekki sé sannað að ákærði hafi valdið einum hinna þriggja lífshættulegu áverka, sbr. og 46. gr. laga nr. 19/1991. Verður samkvæmt þessu og með vísun til sönnunaraðstöðu málsins að öðru leyti að staðfesta þá niðurstöðu. Á sama hátt ber að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi veist að Y en ósannað hins vegar að það hafi verið samantekin ráð fleiri manna.
Þegar framangreind niðurstaða er virt verður ekki talið sannað að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að mannsbani gæti hlotist af atlögu hans og verður hann því ekki sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. sömu laga. Staðfest er því heimfærsla héraðsdóms á broti hans til ákvæðis 2. mgr. 218. gr. þeirra laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Ákærði krefst þess að svo verði litið á að verknaður hans hafi verið refsilaus á grundvelli neyðarvarnar, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Að framan er því lýst að aðeins nýtur framburðar N um það upphaf átaka ákærða við Y að hann hafi brotið flösku á höfði ákærða. Af endurriti framburðar hennar er ekki ljóst hvort það var í raun Y sem þetta gerði. Ákærði leitaði ekki til læknis vegna þessa höfuðhöggs. Það þykir því ekki nægjanlega í ljós leitt gegn neitun Y að hann hafi hafið átök við ákærða. Af myndum úr eftirlitsmyndavélum verður ekki annað séð en að varnarliðsmennirnir hefðu getað komið sér á brott hefðu þeir það viljað og talið sér ógnað. Af myndunum verður heldur ekki annað ráðið en ákærði ýki í verulegum atriðum fjölda þeirra Íslendinga sem blönduðu sér í ýfingarnar við varnarliðsmennina. Það verða heldur ekki talin eðlileg viðbrögð manns í aðstöðu ákærða að grípa til svo hættulegs vopns og þess er hann beitti í greint sinn. Staðfesta ber því þá niðurstöðu héraðsdóms að verknaður hans hafi ekki helgast af neyðarvörn og verður ekki talið að 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga eigi við um verknað hans né heldur 2. mgr. sömu greinar.
Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga eigi við um ákvörðun refsingar ákærða. Af gögnum málsins, sem áður eru rakin, verður ekki ráðið að ákærði hafi ótilkvaddur sagt til brots síns eða að hann hafi hreinskilningslega sagt frá öllum atvikum. Verða ákvæði 74. gr. sömu laga ekki talin eiga við um málsefnið, svo sem talið er í héraðsdómi. Þegar það er virt að sannað þykir að hann hafi otað frá sér með háskalegum hnífi í mannþröng verður ekki litið öðruvísi á en atlaga hans að Y hafi verið stórhættuleg og samkvæmt lýsingu hans sjálfs á verknaðinum var það hending ein hvernig færi. Hann hefur ekki áður gerst brotlegur við almenn hegningarlög svo að vitað sé. Að öllu framanrituðu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin í héraðsdómi.
Bótakrafa Y er við það miðuð að ákærði hafi einn valdið öllu tjóni hans. Að framan er því lýst að ósannað er talið í þessu refsimáli að ákærði hafi valdið þeim lífshættulegu áverkum, sem ákært er út af. Þá hefur einnig verið komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að um samverknað hafi verið að ræða. Samkvæmt framanrituðu er ekki unnt að leggja dóm á bótakröfuna og ber því að vísa henni frá dómi.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda, er staðfest að öðru leyti en um þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verður í dómsorði.
Ákærði greiði annan kostnað af áfrýjun málsins.
Ríkissaksóknari hefur gert við það athugasemd að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi ákveðið verjanda ákærða degi fyrir uppsögu héraðsdóms eða 25. september 2003 sérstaklega þóknun fyrir störf hans. Hafi hann fengið þá þóknun greidda auk þóknunar samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms. Fallast má á það með ríkissaksóknara að þessi háttur á ákvörðun þóknunar verjanda sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 13. gr. laga nr. 36/1999, sbr. og 2. mgr. 168. gr. sömu laga.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða og sakarkostnað nema um þóknun réttargæslumanns.
Skaðabótakröfu Y er vísað frá héraðsdómi.
Ákærði, John Edwin Rehm III, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.
Þóknun réttargæslumanns Y í héraði og fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 300.000 krónur greiðast úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2003.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 8. júlí 2003 á hendur: ,,John Edwin Rehm III, fæddum 2. ágúst 1978, bandarískum ríkisborgara, hermanni í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa að morgni sunnudagsins 1. júní 2003, á gangstétt við Hafnarstræti 21 í Reykjavík, einn eða í félagi við fleiri, veist að Y og stungið hann fimm stungum með hnífi eða hnífum í brjóst- og kviðarhol og mjöðm. Við þetta hlaut Y eftirtalda áverka, þar af þrjá lífshættulega sbr. 1.-3. tölulið:
1. Tíu sentimetra langt sár þverlægt á hægra brjóstkassa frá bringubeini og út til hliðar fimm sentimetrum neðan við geirvörtu. Náði þetta sár í gegnum öll lög brjóstkassa og inn í brjósthol þannig að sá í lunga og gollurshús og sogaðist loft inn um það við hvern andardrátt.
2. Sjö sentimetra langt sár á kviðvegg hægra megin sem byrjaði þremur sentimetrum hægra megin við miðlínu og lá síðan 30° skálægt niður og til hægri. Þetta sár náði að hluta í gegnum öll lög kviðveggjar og inn í undirliggjandi kviðarholslíffæri.
3. Eins til þriggja sentimetra langt sár fimm sentimetrum neðan við geirvörtu beint niður af aftari holhandarfellingu. Það sár náði í gegnum öll lög brjóstveggjar og inn í annaðhvort brjóst- eða kviðarhol eða hvort tveggja.
4. Þriggja sentimetra langt sár þremur sentimetrum ofar og fimm sentimetrum aftar en framangreint sár. Þetta sár náði aðeins inn að undirliggjandi rifi.
5. Skeifulaga sár með mesta mál fimm sentimetra yfir vinstri mjaðmakúlu og náði það í gegnum öll húðlög og niður í undirhúðarfitu.
Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakrafa:
Af hálfu Y, er krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 3.225.706 auk vaxta og dráttarvaxta frá 1. júní 2003 samkvæmt lögum nr. 8, 2001 um vexti og verðtryggingu.“
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Komi til refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar með fullri dagatölu. Þess er í öllum tilvikum krafist að skaðabótakröfu Y verði vísað frá dómi. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Í lögregluskýrslu dags. 1. júní sl. er því lýst er lögreglan var send í Hafnarstræti laust fyrir kl. 06.00 á sunnudagsmorgni vegna slagsmála, eins og segir í skýrslunni. Á leið á vettvang var lögreglu greint frá því að hópslagsmál væru í gangi. Er lögreglan kom á vettvang var tilkynnt að maður hefði verið stunginn með hnífi. Í skýrslunni er lýst ráðstöfunum lögreglu á vettvangi og hvar Y, sem hafði verið stunginn, lá í blóði sínu á gangstéttinni framan við hús Zimsen. Sjúkrabifreið kom með lækni innborðs og var Y fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Í skýrslunni segir að margt fólk hafi verið á vettvangi, mikil ölvun og mikill æsingur í fólki og reyndist erfitt að ræða við fólk af þessum sökum. Segir í skýrslunni að margir sem rætt var við á vettvangi hafi nefnt tiltekið bílnúmer og greint svo frá að árásarmenn hefðu farið í burt á þessum bíl.
Samkvæmt annarri lögregluskýrslu dags. 1. júní sl. voru 12 manns handteknir í þágu rannsóknar málsins.
Í læknisvottorði Y kemur fram að hann hlaut þrjá lífshættulega áverka, en alls fimm stungusár. Vikið verður nánar að þessu síðar.
Y greindi lögreglu frá því er tveir menn drógu hann frá, þar sem hann var að reyna að aðstoða kunningja sinn, en hann kvað þrjá varnarliðsmenn hafa verið að berja hann. Hann hafi gripið um höfuð sér, þar sem hann hafi gert ráð fyrir því að verða sleginn, en þá hafi hann fengið högg í kviðinn, sem reyndust hafa verið hnífstungur. Er hann tók hendur frá höfði sér hafi árásarmaðurinn eða árásarmennirnir verið horfnir á braut.
Ákærði var ekki meðal þeirra sem voru handteknir í upphafi í þágu rannsóknar málsins. Hann gaf sig hins vegar fram hjá rannsóknardeild ameríska sjóhersins á Keflavíkurflugvelli daginn eftir. Þar greindi ákærði svo frá að mikill æsingur hafi verið í mannfjöldanum, sem staddur var í Hafnarstræti á þessum tíma. Hann lýsti útistöðum sem félagar hans, þeir A og K, stóðu í. Hann lýsti því er hann ætlaði að koma K til aðstoðar er ákærði sá hann sleginn í hnakkann. Í þann mund sem ákærði reyndi að toga í K hafi hann verið sleginn með flösku í höfuðið svo honum sortnaði fyrir augum. Hann taldi víst að maðurinn sem sló hann með flöskunni hafi verið hinn sami og ákærði vissi að var með hníf og kvaðst ákærði hafa talið að maðurinn myndi nota hnífinn gegn sér. Ákærði kvaðst hafa talið að hann kæmist ekki lifandi út úr mannmergðinni, en hann kvaðst hafa tekið upp hníf en mundi ekki hvenær í atburðarrásinni það var. Ákærði kvaðst hafa otað hnífnum fram fyrir sig til vinstri, en ekki vera viss um hversu oft. Þá hafi einhver sagt: ,,þú stakkst hann.“ Ákærði lýsti því síðan hvernig honum tókst að komast á brott og að hnífnum, sem hann beitti og var í eigu A, hafi hann fleygt í ruslatunnu. Ákærði sagði að það hafi ekki verið ætlun sína að stinga nokkurn mann. Hann kvaðst hafa beitt hnífnum vegna þess að hann hafi verið hræddur um líf sitt og hann kæmist ekki lifandi út úr mannmergðinni. Síðar voru teknar af ákærða skýrslur hjá lögreglunni, þar sem hann lýsti atburðum efnislega á sama veg.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði játar að hafa beitt hnífi á þeim tíma, sem í ákæru greinir og kvaðst ekki vita betur en að hann hafi verið einn að verki og hafi því valdið áverkunum sem lýst er í ákærunni. Hann kvaðst ekki hafa lagt til Y af ásetningi og í ljósi þess sem gerðist neita því að hafa veist að honum. Ákærði kvaðst fyrr um kvöldið hafa beðið A félaga sinn um að afhenda sér hníf, sem A hafði meðferðis, en þetta kvaðst ákærði hafa gert í því skyni að koma í veg fyrir að A notaði hnífinn, en hann hafi drukkið mikið þetta kvöld. Ákærði lýsti því er einn félaga hans, varnarliðsmaður, lenti í átökum við Íslending á Lækjartorgi. Síðar hafi allir varnarliðsmennirnir farið í Hafnarstræti þar sem mikil læti urðu og deilur vegna atviksins, sem áður átti sér stað á Lækjartorgi. Ákærði kvað ólguna á staðnum hafa aukist, en hann taldi að þarna hafi verið um 60 Íslendingar, en varnarliðsmennirnir hafi verið 14 talsins. Íslendingarnir hafi verið með tómar bjórflöskur í hendi og sýndu af sér ofbeldisfulla tilburði, en af framburði ákærða má ráða að hann réði þetta af orðbragði þeirra og líkamlegum tilburðum. Ákærði kvaðst þarna hafa heyrt unga stúlku, sem hann lýsti, ásaka karlmann um að vera með hníf í fórum sínum. Maðurinn hafi beðið stúlkuna um að þegja yfir þessu, en ákærði kvaðst eftir þetta hafa talið þennan mann með hníf í sínum fórum. Þetta hafi átt sér stað 5 til 10 mínútum áður en ákærði beitti hnífnum. Hann kvaðst hafa reynt að halda ró sinni. Hann lýsti því er ráðist var á K, sem var einn varnarliðsmannanna, og hann sleginn í höfuðið og kvaðst ákærði hafa komið honum til aðstoðar án þess að beita árásarmann ofbeldi. Í þann mund sem ákærði var að aðstoða K hafi honum verið snúið og hann sleginn aftan frá í höfuðið með flösku, en þetta hafi átt sér stað fyrir framan hús Zimsen í Hafnarstræti. Þá lýsti ákærði staðsetningu sinni og atburða í vettvangsgöngu. Við það að fá flösku í höfuðið hafi hann hlotið blæðandi höfuðáverka. Á þessari stundu kvaðst hann hafa orðið hræddur um líf sitt og félaga sinna og gripið hnífinn, þótt hann myndi ekki eftir því, þar sem hann taldi að um ósjálfráð viðbrögð hafi verið að ræða af sinni hálfu. Hann hafi otað hnífnum í þá átt sem árásin á hann var gerð. Hann kvaðst ekki hafa beitt hnífnum í áttina að neinum sérstökum manni, en hann kvaðst ekki hafa séð hvað gerðist og mundi hann ekki hvort það hafi verið sökum þess að hann hafi haft augun lokuð, þar sem nýbúið var að berja hann í höfuðið með flösku, eins og lýst var, eða hvort honum hafi sortnað fyrir augum af þessum sökum. Taldi ákærði sig hafa átt rétt á því að bregðast svona við árásinni. Hann kvaðst muna eftir því að hafa fundið að minnsta kosti einu sinni er hnífurinn komist í snertingu við einhvern og kvaðst hann hafa orðið hræddur um að þessi einstaklingur væri látinn. Hann kvað útilokað að gera sér grein fyrir því hversu oft hnífurinn lenti í fyrirstöðu er hann beitti honum. Þá kvaðst hann ekki geta útilokað að aðrir en hann hafi beitt hníf, en hann kvaðst ekki hafa séð aðra varnarliðsmenn með hníf á þessum tíma. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa séð Y um kvöldið. Hann greindi svo frá að er hann hafi verið sleginn í höfuðið með flöskunni hafi hann gripið hnífinn og snúið sér við til að taka á móti árásinni. Hann hafi því getið sér þess til eða haldið og haft á tilfinningunni, að Y hafi verið sá sem sló hann með flöskunni. Ákærði lýsti því hjá lögreglunni og fyrir dómi er hann hljóp á brott og kastaði hnífnum í ruslafötu á leiðinni. Hann kvaðst hafa ákveðið að greina satt og rétt frá er tekin var af honum skýrsla í herstöðinni, en skýrslan var rakin að framan.
Vitnið, Y, lýsti atburði, sem átti sér stað á Lækjartorgi er tveir varnarliðsmenn hafi lamið tvo Íslendinga, sem kunningi Y þekkti. Síðar færði hópurinn sig í Hafnarstræti og kvaðst Y hafa staðið fyrir framan Nonnabita er varnarliðsmennirnir gengu fram hjá. Hafi hann þá gefið þeim ,,fock you merki” og hafi ákærði verið annar mannanna, sem hann gaf merkið. Ákærði og félagi hans hafi þá gefið sig á tal við hann, en þau mál hafi leyst með samkomulagi að því er hann taldi. Y kvaðst hafa staðið fyrir framan Zimsen húsið og horft á það sem fram fór. Hann kvað vin sinn hafa verið að kljást við varnarliðsmann og hafi Y þá farið inn í hópinn í því skyni að ýta varnarliðsmönnunum frá. Þá hafi tveir menn gripið í hann aftan frá og dregið í burtu og hafi honum verið kastað í götuna. Hann vissi ekki hvort ákærði var annar þessara manna. Hann kvaðst hafa gripið um höfuð sér, þar sem hann hafi gert ráð fyrir því að sparkað yrði í sig. Hann hafi síðan fundið högg og talið mennina hafa sparkað í sig, er hann var sitjandi í götunni. Mennirnir hafi síðan hlaupið á brott og kvaðst hann ekki vita hverjir stungu hann. Aðspurður kvaðst Y telja að hann hafi hlotið alla áverkana eftir að hann hafði verið dreginn út úr þvögunni þótt hugsast gæti að einhvern áverkann hafi hann hlotið er hann var dreginn út úr þvögunni. Er hann stóð á fætur hafi hann séð að hann hafði verið stunginn. Læknisvottorð Y verða rakin síðar, en Y lýsti afleiðingum þessa atburðar. Hann kvaðst ekki hafa séð mennina sem þarna áttu hlut að máli og ekki vita hvort ákærði átti hlut að máli.
Vitnið, A, kvaðst hafa átt hnífinn, sem ákærði hafði í fórum sínum þennan morgun, en hann kvaðst hafa afhent ákærða hnífinn svo hann tapaði honum ekki. A staðfesti að hnífur sem lá frammi undir aðalmeðferð málsins væri samskonar hnífur og sá sem hann hafði afhent ákærða. Hann kvaðst hafa verið staddur í Hafnarstræti á þessum tíma ásamt fleiri varnarliðsmönnum. Hann kvað mikinn æsing hafa verið í fólki, en hann kvaðst ekki hafa séð átök og ekki hafa vitað af hnífstungunum fyrr en eftir á. Hann kvaðst hafa verið ölvaður þetta kvöld og ekki muna allt sem gerðist og minntist hann þess ekki að hafa lent í áflogum þessa nótt.
Vitnið, B, kvaðst hafa verið í Hafnarstræti á þessum tíma sem í ákæru greinir. Hann kvað slagsmál hafa átt sér stað milli nokkurra varnarliðsmanna og Íslendinga og ákærði hafi verið þeirra á meðal. Ráða má af vitnisburði hans að hann hafi ekki séð ákærða á þeirri stundu er atburðirnir, sem lýst er í ákærunni, áttu sér stað. Hann kvað mikinn æsing hafa verið á staðnum og hættuástand.
Vitnið, C, kvaðst hafa verið í Hafnarstræti á þessum tíma, en ekki séð er hnífstungurnar áttu sér stað. Hann hafi verið ökumaður og allsgáður. C lýsti átökum sem þarna urðu og margir hefðu tekið þátt í þeim, en hann hafi ekki vitað fyrr en eftir á að ákærði hefði verið þarna. Hann hefði ekki séð til hans. C lýsti átökum sem A átti í fyrr um kvöldið áður en haldið var í Hafnarstræti. Hann gat ekkert borið um athafnir ákærða þar. C kvað sér hafa verið greint frá því á staðnum að maðurinn sem var stunginn hafi haft hníf í fórum sínum.
Vitnið, D, var staddur í Hafnarstræti á þessum tíma. Hann kvað stúlku hafa greint sér frá því að piltur, sem áður hafði gefið vitninu og félaga þess dónalegt fingurmerki, væri með hníf. D kvaðst hafa verið á gangi er flöskum var kastað og slagsmál brutust út. Hann kvað aðra flöskuna hafa lent í félaga sínum, en hann vissi ekki hvar hin flaskan lenti. Hann lýsti ástandinu á vettvangi og að hópamyndun hafi verið byrjuð og mannþröngin hafi orðið þéttari. Varnarliðsmennirnir hafi þá tekið að kallast á og ætlað að forða sér áður en vandræði hlytust af. Þeir hafi verið á leiðinni burt er félaga hans var hrint og slagsmálin brutust út. Hann kvaðst ekki hafa séð til ferða ákærða og ekkert geta borið um atburði, sem í ákæru greinir.
Vitnið, E, kvað mikinn mannfjölda hafa verið í Hafnarstræti á þessum tíma. Hann kvað ákærða hafa verið í mannþrönginni, en vissi ekki hvað hann aðhafðist og gat ekkert borið um atburði þá sem í ákæru greinir. Hann kvaðst fyrst hafa frétt af hnífstungunni er hann kom á lögreglustöð. E lýsti því er K félagi hans úr varnarliðinu, var sleginn í höfuðið með flösku og eftir það hafi brotist út hópslagsmál. Hann minntist þess ekki að hafa séð fleiri slegna með flösku, en margir hafi haldið á flöskum er þetta átti sér stað. Þá greindi E frá því að stúlka hafi sagt sér að einhver sem þarna var staddur hefði hníf í fórum sínum og einnig hafi hann heyrt einhvern hafa orð á því að þessi maður væri ekki sá eini sem hefði hníf í sínum fórum. E kvaðst hafa reynt að ná athygli félaga sinna til að benda þeim á þetta.
Vitnið, F, kvað Bandaríkjamenn og Íslendinga hafa slegist á þeim tíma, sem í ákæru greinir. Hann kvaðst hafa séð fjölda manns í slagsmálum, en hann kvaðst ekki vita hvert upphafið var. F kvað I félaga sinn hafa fengið flösku í höfuðið og kvaðst hann hafa reist hann við og þeir hlaupið í burtu. Hann lýsti því er hann elti mann í kringum mannþvöguna, sem þarna var. Hann taldi að maðurinn hefði slegið ákærða með flösku í höfuðið, en ákærði hefði slegið frá sér, en F kvaðst ekki hafa haft nein samskipti við ákærða eftir að leiðir þeirra skyldu eftir að þeir hefðu rætt saman við pylsuvagn á Lækjartorgi. Hann kvaðst minnast þess að það hafi verið Ö, félagi hans, sem greindi honum frá því að einhverjir væru með hnífa.
Vitnið, G, kvaðst hafa verið í Hafnarstræti á þessum tíma, en ekki minnast þess að hafa séð ákærða eiga í útistöðum. Hann kvaðst telja að eftir að A lenti í útistöðum við Íslending hefði soðið upp úr og slagsmál hafist. Hann kvað flösku hafa verið kastað í I og K hafi verið sleginn með flösku. G lýsti þessum átökum ítarlega og beitingu flaskna í skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu og hjá rannsóknardeild ameríska sjóhersins. Skýrslurnar staðfesti hann fyrir dómi, en hann bar ekkert um ætlaða háttsemi ákærða í skýrslunni.
Vitnið, H, lýsti átökum í Hafnarstræti á þessum tíma og að í upphafi átakanna hafi K verið sleginn með flösku í höfuðið og flösku hafi verið kastað í höfuð I, en vitnið lýsti því að hann hafi áður en þetta gerðist kallað viðvörunarorð til félaga sinna um að maður væri með flösku og hníf í hendi. Maður þessi hafi beðið færis til að nota flöskuna gegn A. Þá hafi einhverjir ætlað í A vopnaðir flösku, en vitnið taldi að þeim hafi ekki tekist að slá hann, en áður hafi A lent í slagsmálum á Lækjartorgi. H kvað þá ákærða hafa komið I til aðstoðar er hann fékk flöskuna í sig, en I hafi fallið í götuna við þetta. Eftir að slagsmálin hófust kvaðst hann ekki geta greint hverjir voru hvar, þar sem allir voru í einni þvögu, en rétt áður kvaðst hann hafa greint ákærða í mannmergðinni, þar sem hann var að fylgjast með ástandinu. Hann lýsti því að áður en slagsmálin brutust út hafi hann séð til manns, sem hélt á hníf og flösku. Hnífurinn hafi verið 20 cm langur, ekki með breiðu blaði.
Vitnið, I, lýsti því er hann sá hvar ákærða og K hefði verið stillt upp við vegg með um það bil 1 ½ m millibili. Vitnið taldi fjóra til fimm menn hafa verið á hvorum um sig. I kvaðst hafa ætlað að koma félögum sínum til aðstoðar og að aðstoða konu, sem lá í götunni, en stór og þrekvaxinn karlmaður kom og skipaði honum þá að hafa sig á brott. Hann kvaðst hafa gert það og hafa gengið nokkur skref er flösku var kastað í höfuð hans og hann féll í götuna. Það næsta sem hann mundi var er félagar hans þeir F og H, aðstoðuðu hann og allir hlupu í burtu. I gat ekkert borið um háttsemi þá sem lýst er í ákærunni.
Vitnið, K, lýsti því er hann var sleginn með bjórflösku í hnakkann, þar sem hann stóð stóð í Hafnarstræti, á þeim tíma sem í ákæru greini. Hann kvað íslenska konu hafa aðstoðað sig við að komast í burtu. Hann vissi ekki hvar ákærði var á þessari stundu og minntist þess ekki að hafa hitt hann fyrr en daginn eftir.
Vitnið, J, lýsti slagsmálum sem hann og félagar hans lentu í við varnarliðsmann á Lækjaratorgi skömmu fyrir atburðinn, sem í ákæru greinir. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við hnífa í Hafnarstræti, en hann kvaða menn hafa haldið á flöskum og hafa verið búnir að ,,setja úrin yfir hnúana á sér eða lyklana milli puttanna.” Eftir að slagsmálin höfðu staðið yfir stutta stund kvað J einhvern hafa kallað upp að maður hefði verið stunginn, en hann kvaðst ekki hafa séð það gerast.
Vitnið, L, lýsti því er kunningi hans var laminn af varnarliðsmanni á Lækjartorgi. Eftir að fólkið hafi flutt sig í Hafnarstræti byrjuðu þar slagsmál, en hann kvað Íslendingunum hafa verið safnað saman í hóp. Hann lýsti því að menn hefði verið slegnir með flöskum, en hann vissi ekki deili á þeim sem urðu fyrir því. Hann kvaðst hafa fylgst með því ásamt M kunningja sínum er fjórir menn voru saman í hóp og einn þeirra hafi haldið á lofti hníf. Skömmu síðar var Y stunginn, en hann kvaðst ekki hafa séð það og ekki vita hver var hlutur hvers þeirra þriggja manna, sem áður greindi, í árásinni. L kvað einn þessara manna hafa verið dökkan á hörund og hafi sá farið í burtu í bíl. Hinir tveir hafi gengið í burtu og annar þeirra hafi fengið flösku í höfuðið. Hann kvað lögregluna hafa handtekið annan mannanna, en hann vissi ekki hvað varð um hinn. Ítrekað aðspurður kvaðst vitnið telja sig hafa munað atburði betur hjá lögreglunni, en þar greindi hann svo frá að báðir mennirnir hefðu verið handteknir.
Vitnið, M, kvaðst hafa vitað af átökum, sem áttu sér stað á Lækjartorgi skömmu áður en atburðurinn, sem í ákæru greinir, átti sér stað. Hann kvaðst hafa verið staddur inni á skemmtistað en þangað var hringt í hann og hann beðinn um að koma út, sem hann gerði. Hann kvað J, sem þar átti hlut að máli, hafa ætlað að kæra en hann hafi þá verið sleginn niður og þá hófust átök. Hann kvaðst hafa séð hníf á lofti, en hann kvað manninn, sem áður hafði lent í slagsmálum við J á Lækjartorgi hafa sagt að hann hefði hníf meðferðis. Hjá lögreglunni greindi vitnið svo frá að hann hefði talið þennan mann árásarmanninn. Hann staðfesti þetta fyrir dómi og lýsti útliti og klæðaburði þessa manns. Hann kvaðst hafa séð tvo menn draga Y út úr þvögunni, þar sem hann hafði verið að aðstoða vin sinn. Síðan var Y stunginn með hnífi. Meðan á þessu stóð hafi komið þarna að maður, út úr bifreið. Hann vissi ekki erindi þessa manns, sem var dökkur á hörund. Eftir árásina hafi tveir fyrrnefndu mennirnir hlaupið í burtu. Hann kvaðst síðar hafa bent lögreglunni á annan þeirra, sem þá var handtekinn. Hann vissi ekki hvað varð af hinum manninum.
Vitnið, N, lýsti því er allt sprakk og hópáflog hófust í Hafnarstræti. Hún kvaðst hafa talið að ástæðan hafi verið ,,fyllirísrugl”, en mikill pirringur og æsingur hafi verið í fólki. Hún lýsti því er Y átti í útistöðum við varnarliðsmenn skömmu áður en hann var stunginn, en hún kvaðst ekki hafa séð það. Hún kvað þrjá menn hafa hlaupið í burtu. Tveir, annar dökkur á hörund, sem hafi forðað sér inn í bifreið, en lögreglan hafi náð þeim báðum síðar. Sá þriðji hafi verið handtekinn eftir að hafa hlaupið upp Hverfisgötu. N lýsti því að Y hafi lamið varnarliðsmann aftan frá með flösku í höfuðið áður en þessir atburðir gerðust. Hún kvað flöskuna hafa brotnað og maðurinn vankast. Er hún kom þar að hafi hún séð að búið var að stinga Y, en hún kvaðst engan hníf hafa séð á lofti. Þessi atburðarrás hafi tekið mjög skamma stund.
Vitnið, O, kvaðst hafa komið út af skemmtistaðnum Spotlight og þá séð múg og margmenni samankomin í Hafnarstræti. Hann kvað æsing hafa verið milli Keflvíkinga og varnarliðsmanna. Hann kvaðst hafa rætt við einn varnarliðsmannanna, en skyndilega hafi orðið uppþot. Slagsmál hafi hafist fyrir framan Zimsen-húsið. O kvaðst hafa haldið varnarliðsmanni upp við vegg, en maðurinn hafi haldið hníf á lofti. O lýsti manninum og hnífnum. Er hér var komið kvaðst hann hafa sleppt manninum og forðað sér. Hann kvaðst ekki hafa séð er Y varð fyrir hnífstungunum. Hann kvaðst hafa séð varnarliðsmennina hlaupa á brott og inn í bíl. Undir rannsókn málsins skoðaði O ljósmyndir í því skyni að freista þess að þekkja aftur manninn sem hann hélt upp við vegginn. Hann benti á ljósmynd af öðrum manni en ákærða.
Vitnið, P, kvaðst hafa séð er ósætti var milli varnarliðsmanna og Íslendinga í Hafnarstræti. Hún kvað fjóra menn, varnarliðsmenn, hafa verið í kringum Y er hann var stunginn. Hún sá ekki hnífstungurnar og vissi ekki hvort fleiri en einn maður stakk. Hún lýsti því að einn árásarmanna hafi verið handtekinn skömmu síðar. Hún lýsti útliti þessa manns og samsvarar sú lýsing ekki til ákærða, enda var hann ekki handtekinn á vettvangi. Hún kvaðst ekki vita hvort sá stakk Y, en hún hafi spurt þennan mann að því hvers vegna hann hefði stungið vin sinn og hafi maðurinn þá svarað að þetta kæmi henni ekki við. P greindi svo frá í lögregluskýrslu tveimur dögum eftir atburðinn að hún hafi séð mann stinga Y tvisvar sinnum. Hún lýsti hnífnum sem notaður var. Fyrir dómi kvaðst hún þennan vitnisburð sinn réttan, en hún kvað hnífinn sem hún sá á vettvangi hafa verið frábrugðinn hnífnum, sem vitninu var sýndur í réttinum, en sá hnífur er samskonar hnífur og ákærði hafði í fórum sínum. Þá lýsti hún húðlit árásarmannsins þannig að hann væri mitt á milli þess að vera hvítur og svartur. P greindi frá því að áður en atburðurinn átti sér stað hafi hún rætt við varnarliðsmann og beðið hann um að fara vegna þess að Y væri með hníf á sér. Hún kvaðst vita að Y gengi alltaf með hníf á sér, en á þessari stundu kvaðst hún hafa vitað til þess að Æ hafi verið búinn að taka hnífinn af Y. Það hafi gerst er þeir voru staddir inn á skemmtistaðnum Spotlight og það hafi verið gert, þar sem Y hafi ætlað í slagsmál þar.
Vitnið, Q, kvað slagsmál hafa brotist út milli hópa Bandaríkjamanna og Íslendinga í Hafnarstræti á þessum tíma. Hann kvaðst hafa séð tvo menn veitast að einum, sem lá í götunni. Hann kvað sér í fyrstu hafa virst maðurinn sem lá í götunni hafa verið barinn. Síðan kvaðst hann hafa séð að maður hélt á hnífi og stakk manninn sem lá í götunni í magann. Hinn árásarmaðurinn hafi á sama tíma lamið manninn í andlitið. Hann lýsti hnífnum og kvað hann líkjast hnífnum sem lá frammi undir aðalmeðferð málsins og er samskonar hnífur og sá sem ákærði bar þetta kvöld. Hann lýsti útliti mannsins, sem var með hnífinn, og kvaðst hafa talið hann Bandaríkjamann. Mennirnir hafi síðan hlaupið í burtu, en Q vissi ekki hvort þeir voru handteknir.
Vitnið, R, kvaðst hafa verið kallaður út af skemmtistaðnum Spotlight vegna deilna milli varnarliðsmanna og Íslendinga. Hann kvaðst hafa rætt við varnarliðsmann utandyra og þeir hafi ætlað að fara, en þá hafi flaska hafnað í höfði manns, sem hann kvaðst ekki viss um hvort var varnarliðsmaður. Hann kvað þann sem fékk flöskuna í sig hafa vankast og sá hafi ekki verið einn árásarmanna á Y. Eftir þetta hafi brotist út hópslagsmál og er hann leit til hliðar kvaðst hann hafa séð þrjá menn á Y. Þar af hafi tveir verið með hníf. Síðar í skýrslutökunni kvað R einn árásarmann hafa haldið á einhverju, en hann var ekki viss um hvort það var hnífur. Lögregluskýrsla var tekin af R sama dag og atburðurinn gerðist og þar kvaðst hann hafa séð tvo menn með hníf. Aðspurður um þetta fyrir dómi kvaðst hann telja þetta rétt þar sem hann hafi munað atburði betur er hann gaf skýrslu hjá lögreglunni. R kvaðst hafa haldið þangað sem mennirnir voru, en þá hafi maður komið á móti sér með hníf á lofti, en á meðan hafi annar maður verið í síðunni á Y. R lýsti útliti þessa manns hjá lögreglunni og fyrir dómi. Hann kvað annan hafa verið dökkan á hörund í hvítum hlýrabol og hinn hafi verið með klippingu sem hann lýsti, en getur ekki átt við ákærða eins og hann var klipptur á þessum tíma og ljósmyndir bera með sé. R var ekki viss um það hver þessi maður var og þekkti hann ekki í sakbendingu undir rannsókn málsins.
Vitnið, S, lýsti því er hópslagsmál brutust út í Hafnarstræti milli varnarliðsmanna og Íslendinga, en að upphaf átakanna hafi verið deilur milli þeirra. Hann sá ekki er Y var stunginn, en S lýsti því hvernig hann og fleiri menn aðstoðuðu Y eftir hnífstungurnar.
Vitnið, T, kvaðst hafa komið út af skemmtistaðnum Spotlight á þessum tíma og séð átök á milli varnarliðsmanna og Íslendinga. Hann varð ekki vitni að því er hnífstungurnar áttu sér stað og verður vitnisburður hans ekki rakinn frekar, þar sem hann er ekki til upplýsinga um málavexti.
Vitnið, U, kvaðst hafa séð varnarliðsmennina handleika hníf á Lækjartorgi rétt áður en atburðurinn í ákæru átti sér stað, en hann var um garð genginn er vitnið kom í Hafnarstræti skömmu síðar. Hann kvaðst ekkert geta borið um það, sem þar gerðist.
Vitnið, V, kvaðst hafa séð mann upp við húsvegg haldandi á hníf. Hann kvaðst ekki hafa séð er Y var stunginn og verður ráðið af vitnisburði V hvort þetta átti sér stað fyrir eða eftir hnífstunguna. Vitnisburðurinn verður ekki rakinn frekar.
Vitnið, Þ, kvaðst ekki hafa séð atburðinn, sem í ákæru greinir, en hann lýsti hópslagsmálum í Hafnarstræti á sama tíma. Hann lýsti því meðal annars er hann sá varnarliðsmanni skellt upp við vegg svo hann rotaðist og eftir á hafi verið sparkað í höfuðið á honum.
Í læknisvottorði Y, sem dags. er 13. júní sl., og Þorvaldur Jónsson dr. med. ritaði segir m.a: ,,[...] er fluttur með neyðarbíl úr miðbæ Reykjavíkur á bráðamóttöku Landsspítala Fossvogi og kemur þangað 01.06.03 kl. 06.34. Samkvæmt upplýsingum læknis á neyðarbíl hafði Y orðið fyrir hnífsstunguárás í tengslum við hópslagsmál af einhverri gerð sem brotist höfðu út í miðbænum þennan morgun. Hann hafði allt frá því læknir neyðarbíls kom að honum verið við fulla meðvitund og var það við komu á bráðamóttöku. Engin merki voru um áverka eða önnur sár á höfði, eða útlimum og enginn grunur um miðtaugakerfisáverka. Við skoðun á bráðamóttöku komu eftirfarandi áverkar í ljós:
1. 10 cm langt sár þverlægt á hægri brjóstkassa frá brigubeini og út til
hliðar 5 cm neðan við geirvörtu. Náði þetta sár í gegnum öll lög
brjóstkassa og inn í brjósthol þannig að sá í lunga og gollurshús og
sogaðist loft inn um það við hvern andardrátt.
2. Hægra megin á kviðvegg er 7 cm langt sár sem byrjar 3 cm hægra
megin við miðlínu og liggur síðan 30° skálægt niður og til hægri.
Þetta sár náði að hluta í gegnum öll lög kviðveggjar og inn í undir-
liggjandi kviðarholslíffæri.
3. 3ja cm langt sár 5 cm neðan geirvörtu vinstra megin á brjóstkassa
beint niður af aftari holhandarfellingu. Það sár nær í gegnum öll
lög brjóstveggjar og inn í annað hvort brjóst-eða kviðarhol eða hvort
tveggja.
4. 3ja cm sár 3 cm ofar og 5 cm aftar en síðast lýstu sárin. Þetta sár nær
aðeins inn að undirliggjandi rifi.
5. Skeifulaga sár með mesta mál 5 cm yfir vinstra mjaðmarkúlu og nær
það í gegnum öll húðlög og niður í undirhúðarfitu.
Strax við komu á bráðamóttöku er hafin gjöf á neyðarblóði og settir 2 sogkerar í brjóst hægra megin eftir að sjúgandi sárinu þar hafði verið lokað til bráðabirgða með loftþéttum umbúðum. Eftir að nauðsynlegum nálum hefur verið komið fyrir í æðakerfi er sjúklingur fluttur beint á skurðstofu og hefst skurðaðgerð kl. 07.15. Kviðarhol er fyrst opnað um miðlínuskurð og áverkar undir sárinu hægra megin á kvið, sbr. lið 2 að ofan kannaðir. Í ljós kemur að beini kviðvöðvinn þar hefur verið tekinn í sundur að mestu og stungusár síðan í gegnum hægri lifrarhluta og inn í gallblöðru sem liggur þar undir. Nauðsynlegt var því að fjarlæga gallblöðruna og var það gert. Sárið á brjóstkassa neðan til vinstra megin sbr. liður 3 að ofan var síðan kannað og kemur í ljós að þar hefur lag farið í gegnum þindina og niður í vinstri hluta lifrar. Um 3ja cm langt gat á þindinni var saumað. Eftir ofantaldar aðgerðir höfðu blæðingar úr lifur stöðvast, en samtals var blæðing inn í kviðarhol í kringum 200 ml. Því næst var brjóstholssárið hægra megin sbr. liður 1 . að ofan kannað. Kemur þá í ljós að auk þess að allir millirifjavöðvar hafa verið skornir í sundur eins og að ofan er lýst, hefur liðurinn milli geislungs og bringubeins verið opnaður og að auki liggur fyrir um það bil 5 cm skurður í gegum gollurshús og 3ja cm skurður í ystu lög hjartavöðvans þar undir. Veruleg blæðing var frá millirifjaæðum og slagæð undir bringubeini og var hún stöðvuð og vefjalím úðað á hjartavöðvann en ekki var ástæða til að sauma í hann. Brjóstholssárinu var síðan lokað og öðrum húðsárum sömuleiðis. Fyrir og í aðgerð fékk sjúklingur samtals 6 ein. af blóði og héldust lífsmörk öll innan eðlilegra marka með því móti, auk gjafar á saltvökva í æð. Hann var síðan vistaður á gjörgæsludeild sólarhringinn á eftir en síðan fluttur á almenna legudeild.
Frekari áverkar en að framan eru greindir komu í ljós, en fram kom þó að einhver áverki hefur orðið á hægri lunga sem olli tímabundnum loftleka úr því. Við þetta var ráðið með sogkerum og gréri það sár því af sjálfu sér.
Sjúklingur vr síðan útskrifaður af Landspítalanum 10.06.03.
Í samantekt varð [Y] fyrir umtalsverðum og lífshótandi áverka með einhvers konar beittu lagvopni, sem á þremur stöðum hafði gengið inn í líkamshol. Tvö sár voru á lifur og eitt á gallblöðru og hafði af þessu hlotist um 200 ml blóðtap. Stórt sár var á hægri brjóstkassahluta með mjög virkri blæðingu frá slagæðum og hafði það lag gengið í gegnum gollurhús og að hluta í gegnum hjartavegg. Blóðtap frá þeim áverka og minni stunguáverka á vinstri brjóstkassahelming var áætlað milli 2 og 2 ½ lítra. Fullvíst er að hér var um lífshótandi áverka að ræða sem hlotist hefði bani af hefði ekki verið að gert. Á þessu stigi verður ekkert fullyrt um hugsanleg framtíðarmein sem af þessum áverkum kann að hljótast.“
Þorvaldur kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði læknisvottorðið og taldi Y hafa látist hefði hann ekki komist undir læknishendur. Þrír áverkanna hafi verið lífshættulegir, en tveir hafi verið yfirborðsáverkar.
Þóra Steinunn Steffensen réttarmeinafræðingur gerði réttarmeinafræðilega rannsókn á áverkum Y. Þar lýsti hún áverkunum fimm, sem í ákæru greinir. Í lok greinargerðarinnar segir m.a.: ,,Ekki er unnt að segja til um hvort allir áverkarnir voru veittir af einum eða fleiri einstaklingum.
Ekki er unnt að segja til um hvort áverkarnir voru veittir af rétthentum eða örvhentum einstaklingi/um.
Áverki I, áverki II og áverki III hefði hver og einn, einn og sér verið nægjanlegur til að valda dauða [Y] ef hann hefði ekki komist eins fljótt til aðgerðar og raun var á.”
Þóra Steinunn kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði skýrslu sína sem rakin var. Hún skýrði hvers vegna útilokað væri að áverki nr. III, sem lýst er í ákæru, hafi verið eftir hnífinn sem hér um ræðir. Þóra kvaðst einungis hafa skoðað einn hníf og metið áverkana með tilliti til þess hvort þeir kynnu að vera eftir þann hníf. Hún greindi svo frá að hefði hún fengið annan hníf til skoðunar þá hefði hún þurft að meta þetta aftur. Hún kvaðst þannig ekki geta útilokað að hnífurinn, sem notaður var til veita áverka nr. III, hafi verið notaður til að veita alla hina áverkana, eða einhver annar hnífur.
Hinn 3. júní fór ákærði, í fylgd, lögreglu til að freista þess að benda á staðinn, þar sem hann kastaði frá sér hnífnum, sem hann hafði í vörslum sínum þennan morgun. Leiddi þetta til þess að hnífurinn fannst í ruslatunnu í Ingólfsstræti. Hnífurinn var rannsakaður þar sem á honum fannst blóð. Í álitsgerð Rannsóknarstofu í réttarmeinafræði, sem dags. er 2. júlí sl., segir meðal annars í lokaniðurstöðukafla: ,,Samkvæmt rannsóknarniðurstöðum er DNA-snið blóðs, sem fannst á hnífsblaði því, sem talið vopnið í máli þessu, af sömu gerð og DNA-snið það, sem finnst í þolanda, [Y]”
Niðurstaða:
Í máli þessu er fram komið að átök brutust út milli nokkurs hóps Íslendinga og varnarliðsmanna í Hafnarstræti að morgni 1. júní sl. Má sjá af upptökum úr eftirlitsmyndavél lögreglu í Hafnarstræti að nokkrar ýfingar hafa orðið með þessum hópum. Eins og rakið hefur verið varð Y fyrir árás á gangstéttinni við Hafnarstræti 21, svonefnt Zimsen hús, og hlaut hann fimm stungusár í brjóst- kviðarhol og mjöðm, þar af voru þrír áverkanna lífshættulegir og hefðu dregið hann til dauða hefði hann ekki komist undir læknishendur. Fram er komið að atlagan að Y sést ekki á umræddum myndum, enda er svæðið þar sem hann varð fyrir hnífsstungunum utan myndsviðs eftirlitsmyndavélarinnar.
Ákærði hefur játað að hafa beitt hnífi í umræddum átökum. Kvaðst hann hafa komið félaga sínum til hjálpar, en þá hefði honum verið snúið við og hann sleginn með flösku í andlitið. Ákærði kvaðst hafa orðið hræddur um líf sitt og félaga sinna og því hefði hann gripið til hnífs, sem hann hafði á sér, og otað honum að þeim manni sem hann taldi að ráðist hefði á sig. Kannaðist ákærði við að hnífurinn hefði að minnsta kosti einu sinni komist í snertingu við einhvern. Ákærði kvaðst ekki vita til að aðrir en hann hafi beitt hnífi, en gat ekki útilokað að svo hefði verið. Ákærði neitaði hins vegar að hafa í félagi við aðra veist að Y og stungið hann eins og í ákæru greinir.
Ákærði var ekki handtekinn á vettvangi en hann gaf sig fram við rannsóknardeild bandaríska sjóhersins daginn eftir. Hann vísaði lögreglu á hníf þann er hann sagðist hafa notað og síðan fleygt í ruslatunnu í Ingólfsstræti. Með DNA-rannsókn hefur verið staðfest að blóð úr Y var á hnífnum. Samkvæmt þessu og með vísan til framburðar ákærða og annarra gagna málsins er því fram komin lögfull sönnun þess efnis að ákærði hafi lagt til Y með hnífnum.
Fjöldi vitna, bæði íslenskra og bandarískra, hefur verið yfirheyrður fyrir dómi um atlöguna að Y. Vitnið, L, kvaðst telja árásarmennina hafa verið handtekna. M lýsti útliti manns sem hann taldi árásarmann og hafði áður séð með hníf í fórum sínum. N kvaðst telja lögreglu hafa handtekið alla þrjá árásarmennina. O, sem kvaðst hafa haldið varnarliðsmanni, vopnuðum hnífi, upp við húsvegg, benti á ljósmynd af öðrum manni en ákærða. P lýsti einum árásarmanni þannig að ekki kemur heim og saman við útlit ákærða. R lýsti árásarmönnum svo að tæpast getur átt við um ákærða. Allmörg vitni tóku þátt í sakbendingu sem fram fór u.þ.b. mánuði síðar, eða 2. júlí sl. Ekkert vitnanna benti á ákærða sem líklegan árásarmann.
Vitnið, Y, hefur lýst atburðum þannig að tveir menn hafi gripið sig aftan frá og dregið út úr hópnum, sem myndast hafði á átakasvæðinu. Þessir menn hafi síðan veist að sér, en Y gat ekki lýst þessu nánar þar sem hann kvaðst hafa gripið um höfuð sér. Vitnið, M, bar fyrir dómi að hann hefði séð tvo menn draga Y úr þvögu sem myndaðist og síðan hafi Y verið stunginn með hnífi. Vitnið, Q, kvaðst einnig hafa séð tvo menn veitast að Y og hafi annar þeirra haldið á hnífi. Vitnið, P, hefur hins vegar lýst því að fjórir menn hafi verið í kringum Y þegar hann var stunginn og vissi hún ekki hvort fleiri en einn beittu hnífi. Vitnið, L, hefur einnig lýst því að fjórir menn hafi verið í hóp og einn þeirra haldið á hnífi þegar Y var stunginn. Þá hefur vitnið, R, lýst því að þrír menn hafi ráðist á Y og tveir verið með hníf. Önnur vitni hafa ekki getað borið um atburði þegar Y var stunginn.
Samkvæmt rannsókn Þóru Steinunnar Steffensen réttarmeinafræðings, sem hún hefur staðfest fyrir dómi, er útilokað að áverki nr. 3, sem lýst er í ákæru, sé eftir hníf þann sem ákærði hefur viðurkennt að hafa beitt gegn Y. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að ákærði hafi haft fleiri hnífa undir höndum. Þá hefur Þóra Steinunn ekki útilokað að hinn óþekkti hnífur hafi verið notaður til að veita alla hina áverkana. Er því ljóst að ákærði var ekki einn um að leggja til Y með eggvopni, en ekki hefur verið upplýst hver eða hverjir aðrir voru þar að verki. Samkvæmt framansögðu er því ósannað að ákærði hafi lagt oftar til Y en einu sinni og þá verður ekki talin fram komin lögfull sönnun fyrir því að það hnífslag hafi valdið einum hinna þriggja lífshættulegu áverka.
Þegar framburður vitna í máli þessu er metinn verður að telja ósannað að ákærði hafi í félagi við fleiri veist að Y, sem bar að ekki væri útilokað að hann hefði hlotið einhvern áverkanna er hann var dreginn út úr mannþrönginni. Hins vegar er ljóst að ákærði veitti honum áverka með hnífi og má því fallast á þá verknaðarlýsingu í ákæru, að ákærði hafi veist að Y.
Í máli þessu er ekkert fram komið sem bendir til þess að fyrir ákærða hafi vakað að ráða Y bana eða honum hafi mátt vera ljóst að mannsbani gæti hlotist af atlögunni. Verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. sömu laga. Ákærði greip hins vegar til sérstaklega hættulegs vopns og beitti því án þess að skeyta um afleiðingarnar. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Stendur 117. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ekki í vegi fyrir þeirri niðurstöðu, enda hefur vörn ákærða ekki orðið áfátt með tilliti til þeirrar heimfærslu brotsins.
Ákærði hefur borið því við að verknaður hans hafi verið refsilaus á grundvelli neyðarvarnar, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur greint frá því að hann hafi í umrætt sinn verið sleginn með flösku í höfuðið og telur að Y hafi verið þar að verki. Lögregla hlutaðist ekki til um að ákærði gengi undir læknisrannsókn til að unnt væri að ganga úr skugga um þetta, þótt ákærði hafi greint frá þessu þegar í upphafi rannsóknar málsins. Verður því byggt á frásögn ákærða að þessu leyti, en hún fær stoð í vitnisburði N, sem sagði að Y hefði lamið varnarliðsmann í höfuð með flösku, og í vætti F, sem sagði að ákærði hefði verið sleginn með flösku. Þrátt fyrir þetta og þótt ákærði hafi með réttu talið sig og félaga sína eiga í vök að verjast gagnvart hópi manna verður ekki fallist á það með ákærða að honum hafi verið heimilt að leggja til Y með hnífi, enda fráleitt að ákærða hafi staðið sú ógn af honum að slík atlaga verði með nokkru móti réttlætt. Þrátt fyrir að fallast megi á að þau viðbrögð ákærða að bregðast við, er hann fékk flösku í höfuðið, hafi í ljósi aðstæðna verið eðlileg, verður ekki talið að verknaður hans hafi getað helgast af neyðarvörn. Verður kröfu ákærða að þessu leyti því hafnað.
Við ákvörðun refsingar ákærða þykir mega líta til ákvæða 2. og 9. tl. 74. gr. almennra hegningarlaga, svo og 3. mgr. 218. gr. a sömu laga, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981. Hins vegar ber til þess að líta að atlagan að Y var stórhættuleg og virðist hending hafa ráðið að ekki fór verr. Á hinn bóginn verður að virða ákærða til nokkurra málsbóta að brotið var framið í átökum sem upp komu milli ákærða og félaga hans í varnarliðinu við fjölda manns við háskalegar aðstæður, sem skapast höfðu. Ákærði gekkst undir lögreglustjórasátt á síðasta ári fyrir umferðarlagabrot. Hann hefur ekki áður gerst brotlegur við almenn hegningarlög. Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi. Ákærði er sakfelldur fyrir alvarlegt brot og þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivistinni óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 4. júní sl.
Y krefst skaðabóta úr hendi ákærða, eins og lýst er í ákæru. Þótt komið hafi í ljós að áverkar Y séu af völdum fleiri en ákærða ber hann óskipta bótaábyrgð gagnvart brotaþola. Samkvæmt þessu og með vísan til 26. gr skaðabótalaga, nr. 50/1993, verða Y dæmdar miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 800.000 krónur, auk dráttarvaxta frá 1. ágúst 2003 að telja, en þá var mánuður liðinn frá því ákærða var birt bótakrafan.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda og þóknun til réttargæslumanns Y, eins og nánar greinir í dómsorði.
Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir, Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Benedikt Bogason og Hjörtur O. Aðalsteinsson.
DÓMSORÐ:
Ákærði, John Edwin Rehm III., sæti fangelsi í 18 mánuði, en draga skal óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 4. júní sl. frá refsivistinni.
Ákærði greiði Y 800.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum frá 1. ágúst 2003 að telja og til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 200.000 krónur í réttargæsluþóknun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y, og 700.000 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.