Hæstiréttur íslands
Mál nr. 672/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
|
|
Miðvikudaginn 17. desember 2008. |
|
Nr. 672/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannesdóttir, fulltrúi) gegn X (Unnar Steinn Bjarndal hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. desember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. desember 2008.
Með beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri í dag, er þess krafist að Xs, fd. [...], litháískum ríkisborgara, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember 2008, kl. 16.00. Upphaf málsins má rekja til þess að erlendur maður kom með umslag merkt "The Criminal Department" og afhenti lögreglumanni fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu, Reykjavík og hljóp síðan á brott. Í bréfinu var að finna upplýsingar um fjóra aðila sem væru á leiðinni úr landi með flugi á nánar tilgreindum dögum. Við þýðingu bréfsins kom fram að það fólk sem nefnt er í bréfinu hafi stundað innbrot og þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og ætli með þýfið úr landi í farangri með flugi út. Þá var vakin sérstök athygli á tveimur aðilum sem ætluðu að senda bifreið með gámi út og sé í bifreiðinni og gámnum þýfi en reikna mætti jafnframt með að þau færu með þýfi úr landi.
Þann 14. desember sl. var kærði handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við för úr landi en það er sá dagur sem bréfið bar með sér að kærði væri á leið úr landi. Við skoðun á farangri hans kom í ljós talsvert af munum, ætlað þýfi. Var kærði í kjölfarið handtekinn. Við skýrslutöku hjá lögreglu bar kærði að hann hefði keypt munina og væri andvirði þeirra um 400.000,- til 500.000,- krónur.
Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Telur lögreglan rökstuddan grun fyrir því að kærði sé viðriðinn umfangsmikla og skipulagða þjófnaðastarfsemi og innbrot og hafi ætlað að koma ætluðu þýfi úr landi. Verið er að rannsaka tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og erlendis auk annarra atriða. Þá vinnur lögreglan að því hörðum höndum að staðsetja hina ætluðu bifreið og gám og standa þær aðgerðir nú yfir. Telur lögreglan að ætluð háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 einkum 244. gr. Lögregla telur að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. desember 2008 kl. 16.00.
Kærði andmælti gæsluvarðhaldskröfunni er hann kom fyrir dóminn.
Aðspurður fyrir dóminum hvar kærði hafi fengið úr sem fannst í fórum hans og hvaða skýringar hann geti gefið á því að engin kvittun er til staðar eða ábyrgðarskírteini og eins á því hvers vegna úrið hafi ekki verið umbúðum sem lögreglan telur sig hafa fullvissu um að slík úr séu afgreidd í til viðskiptavina, kveðst kærði ekki geta skýrt það en hann hafi keypt úrið fyrir 63- til 66.0000 krónur og greitt með reiðufé.
Brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 getur varðað allt að 6 ára fangelsi. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, fyrirliggjandi rannsóknargagna rökstuðnings lögreglustjóra þykja dómara lög standa til þess að verða við kröfu hans eins og hún er fram sett. Bæði þykir hafa verið sýnt fram á rökstuddan grun um brot ákærða og að hætta sé á að hann kunni að torvelda rannsókn málsins í heild verði hann látinn laus.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
X sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 19. desember n.k. kl. 16:00.