Hæstiréttur íslands
Mál nr. 2/2008
Lykilorð
- Aflamark
- Skilasvik
- Fjárnám
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2008. |
|
Nr. 2/2008. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn X(Grétar Haraldsson hrl.) |
Aflamark. Skilasvik. Fjárnám.
X var ákærður fyrir brot gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í nóvember 2002 selt aflamark skipsins Z í löngu og skötusel vegna fiskveiðiársins 2002/2003 til Þ ehf., þrátt fyrir að hann vissi að fjárnám hefði verið gert í hinu selda. X neitaði sök og hélt því fram að honum hefði verið heimilt að flytja aflamarkið. Í athugasemdum í greinargerð með 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð kemur fram að ekki þurfi samþykki veðhafa þótt aflamark sé flutt milli skipa. Þá leitaði X heimildar F til flutningsins og var hún veitt. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að þegar litið væri til þeirra reglna sem um aflamark gilda og eðli réttindanna yrði talið að sú háttsemi sem ákært var fyrir teldist ekki til skilasvika samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga. Var X því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. desember 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvalds og frávísunar skaðabótakröfu.
Ákærði var daglegur stjórnandi og prókúruhafi Útgerðarfélagsins Y ehf. og síðar Ö ehf. sem keypti allt hlutafé Y ehf. 6. febrúar 2002. Eina eign félagsins mun hafa verið fiskveiðiskipið Z, skipaskrárnúmer [...], sem sökk [dags.]. Um framangreinda sölu félagsins sá fyrirtæki sem samkvæmt gögnum málsins ber heitið Skipamiðlunin V. Óumdeilt er að skipið hafði aflahlutdeild í löngu, keilu og skötusel og hafði verið úthlutað aflamarki í sömu tegundum vegna fiskveiðiársins 2001/2002 þegar það sökk. Það fékk einnig úthlutað aflamarki vegna fiskveiðiársins 2002/2003. Eftir að skipið sökk voru í september og október 2002 gerð nokkur fjárnám í því „ásamt öllu því sem skipinu fylgir og fylgja ber, þ.m.t. aflahlutdeild skipsins í löngu, keilu og skötusel og aflamark skipsins vegna fiskveiðiársins 2002/2003 í löngu, keilu og skötusel.“ Fjárnám voru einnig gerð í væntanlegum vátryggingabótum vegna skipsins. Hinn 25. nóvember 2002 tilkynntu ákærði fyrir hönd Útgerðarfélagsins Y ehf. og útgerðin Þ ehf. Fiskistofu um flutning aflamarks Z í löngu og skötusel yfir á Æ og staðfesti Fiskistofa hann 3. desember 2002. Af hálfu ákærða er því haldið fram að hinn 1. mars 2003 hefðu veiðiheimildir samkvæmt aflamarki fallið niður ef þær hefðu ekki verið nýttar. Hinn [dags.] 2004 var bú Y ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Ódagsett kæra fjárnámshafa vegna framangreinds flutnings aflamarksins var móttekin af lögreglustjóranum í Reykjavík 24. maí 2004.
Aflahlutdeild fylgir skipi. Um veðhæfi aflaheimilda er fjallað í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð en þar segir að óheimilt sé „að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips“. Var með ákvæði þessu tekinn af allur vafi um það að ekki mætti veðsetja aflahlutdeild sérstaklega. Að því er varðar samþykki hugsanlegs veðhafa fyrir framsali aflahlutdeildar frá veðsettu skipi segir hins vegar í athugasemdum um 4. mgr. 3. gr. í frumvarpi til laga um samningsveð: „Hvað aflahlutdeild fiskiskips varðar er rétt að taka fram að þar er einvörðungu átt við þá aflahlutdeild sem helst óbreytt milli ára, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990. Samkvæmt því þarf ekki samþykki veðhafa þótt aflamark sé flutt milli skipa eftir þeim reglum sem um það gilda samkvæmt lögum nr. 38/1990.“ Aflamark er tímabundin heimild skips til að veiða tiltekið magn af tiltekinni tegund á tilteknu fiskveiðitímabili, og er það ákveðið af Fiskistofu á grundvelli aflahlutdeildar skipsins, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990, sjá nú lög nr. 116/2006. Afstaða Fiskistofu, sem fram kemur í bréfi hennar til lögreglu vegna málsins 25. janúar 2005, er í samræmi við þetta, en þar segir að lög standi ekki í vegi fyrir því að Fiskistofa heimili flutning aflamarks á milli skipa þó að fjárnám hafi verið gert í skipi sem flytja á aflamarkið frá. Í sama bréfi kom fram að ekki væri skylt að leggja fram veðbókarvottorð við flutning aflamarks. Z sökk á fiskveiðiárinu 2001/2002. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990 hélt útgerðin aflamarki skipsins í 12 mánuði frá 1. mars 2002 auk þess aflamarks sem úthlutað var vegna fiskveiðiársins 2002/2003.
Ákærði neitar sök og heldur því fram að honum hafi verið heimilt að flytja aflamarkið og að tilgangur hans hafi verið að forða því að verðmæti færu til spillis. Eins og að framan er rakið leitaði hann heimildar Fiskistofu til flutningsins og var hún veitt. Var flutningurinn liður í eðlilegri ráðstöfun útgerðarinnar á aflamarki sem hún ein hafði umráð yfir. Eins og að framan er rakið verður hvorki aflahlutdeild skips né aflamark veðsett sérstaklega heldur fylgja þau réttindi því veðandlagi sem skipið er. Um hin varanlegu réttindi sem felast í aflahlutdeild og fylgja skipi gilda þær sérstöku reglur að þau verða ekki framseld frá því nema með samþykki veðhafa þess. Hið sama gildir hins vegar ekki um hin tímabundnu réttindi, sem felast í aflamarki skips, enda er aflamarkið þess eðlis að á það gengur eftir því sem veitt er og sú skylda hvílir ekki á eiganda skips að ráðstafa andvirði aflans sérstaklega til veðhafa þess. Aflamarki má þannig ráðstafa til þriðja manns án tilkynningar til veðhafa skips. Þegar litið er til þeirra reglna sem um aflamark gilda og eðli réttindanna verður að telja að sú háttsemi ákærða að flytja aflamark umrædds skips teljist ekki til skilasvika samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Skal ákærði því sýkn saka og verður framkominni skaðabótakröfu þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi.
Það athugast að verjandi ákærða í héraði starfaði hjá Skipamiðluninni V, sem sá um hin umdeildu viðskipti. Til þess fyrirtækis rann endurgjald vegna kostnaðar við milligöngu um færslu aflamarksins og vegna áðurgreindrar sölu á Útgerðarfélaginu Y ehf. Óheimilt var því að skipa hann verjanda samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem komið gat til greina að kveðja hann sem vitni í málinu.
Ákvæði héraðsdóms um fjárhæð sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda verður staðfest, en sá sakarkostnaður verður felldur á ríkissjóð sem og áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.
Skaðabótakröfu Faxa ehf., Fiskhella ehf., Skipalyftunnar hf., Netasölunnar ehf., Vöruvals ehf., Neta ehf., Eyjaradíós ehf., Björgunarfélags Vestmannaeyja og Þórs ehf. vélaverkstæðis er vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um fjárhæð sakarkostnaðar er óraskað, en hann greiðist úr ríkissjóði.
Áfrýjunarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti samtals 238.073 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Grétars Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 217.875 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 11. september 2007 á hendur X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, fyrir skilasvik, sem daglegur stjórnandi, prókúruhafi og varamaður í stjórn Y ehf., kt. [...], selt í nóvember 2002 aflamark skipsins Z löngu og skötusel vegna fiskveiðiársins 2002/2003 til Þ., kt. [...], á 845.600 krónur og ráðstafað í þágu Y. þrátt fyrir að hann vissi að fjárnám hefði verið gert í hinu selda 6. september og 18. október sama ár fyrir 9 kröfum jafnmargra kröfuhafa að fjárhæð samtals 5.677.513 krónur, sem þinglýst var 11. september og 29. október sama ár en með úthlutun úr þrotabúi Y ehf. greiddust 1.113.981 króna upp í kröfurnar.
Þetta er talið varða við 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu krefst Jón G. Valgeirsson hf. (svo) þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 845.699 krónur ásamt lögmannsþóknun 54.780 krónur.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Með bréfi, sem móttekið var hjá lögreglu 24. maí 2004, var af hálfu einkahlutafélaganna Faxa, Fiskhellu, Netasölunnar, Vöruvals, Nets, Eyjaradíós og Þórs Vélaverkstæðis, hlutafélagsins Skipalyftunnar og Björgunarfélags Vestmannaeyja lögð fram kæra á hendur fyrirsvarsmönnum Útgerðarfélagsins Y ehf., sem úrskurðað hafi verið gjaldþrota 23. mars 2004. Í kærunni kemur fram að Útgerðarfélagið Y ehf. hafi skipt um eigendur í febrúar 2002 þar sem hlutafé félagsins hafi verið selt án þess að kærendum hafi verið kunnugt um. Félagið hafi átt skipið Z, skipaskrárnúmer [...]. Skipið hafi farist [dags]. Í kjölfarið hafi kærendur tekið dóma fyrir viðskiptaskuldum sínum hjá Útgerðarfélaginu Y ehf. Gert hafi verið fjárnám fyrir kröfunum hjá sýslumanninum í Reykjavík, annars vegar fyrir 6 kröfum þann 6. september 2002 og hins vegar fyrir 3 síðustu kröfunum 18. október 2002. Fjárnámunum hafi verið þinglýst á skipið vegna fyrri 6 fjárnámanna 11. september 2002 og vegna hinna seinni 3ja þann 29. október 2002. Fjárnámið hafi verið gert þannig og bókað: ,, skipinu Z, skipaskrárnar. [...], ásamt öllu sem skipinu fylgir og fylgja ber, þ.m.t. aflahlutdeild skipsins í löngu, keilu og skötusel og aflamark skipsins vegna fiskveiðiársins 2002/2003 í löngu, keilu og skötusel. Einnig er gert fjárnám í vátryggingarbótum skipsins Z sem kunna að vera greiddar frá Tryggingarmiðstöðinni hf. sem gerðarþoli telur sig eiga rétt á vegna þess að skipið fórst þann [dags.]“. Gerðarþoli hafi mótmælt fjárnámunum og skotið 6 fyrstu málunum til Héraðsdóms Reykjavíkur. Eitt mál hafi verið rekið þar en þau hafi öll verið sambærileg. Hafi málið verið þingfest 18. október 2002 og flutt fyrir dómi. Málið hafi verið tekið til úrskurðar 27. nóvember 2002 og úrskurður fallið í málinu 9. janúar 2003. Hafi fjárnámsgerðir sýslumanns verið staðfestar.
Fiskistofu hafi verið tilkynnt um 6 fyrstu fjárnámsgerðirnar með bréfi 12. september 2002. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hafi Útgerðarfélagið Y ehf. selt allt aflamark skipsins í löngu og skötusel vegna kvótaársins 2002/2003 til Þ ehf. með tilkynningu 25. nóvember 2002, sem móttekin hafi verið af Fiskistofu 27. nóvember 2002. Hafi verð hins selda aflamarks verið 845.600 krónur. Undir tilkynninguna hafi X, ákærði í máli þessu, ritað f.h. Útgerðarfélagsins Y ehf. Hafi það verið gert þrátt fyrir að í fjárnámsgerðum kæmi skýrt fram að kærendur ættu veð í öllu aflamarki skipsins í löngu, keilu og skötusel vegna fiskveiðiársins 2002/2003. Í ljósi málavaxta hafi fyrirsvarsmönnum verið fullkunnugt um þessar takmarkanir þar sem þeir hafi verið viðstödd þau, þeim hafi verið þinglýst á skipið og málinu skotið til dómstóla. Sé því augljóst að verið hafi verið að skjóta undan veðsettum eignum án heimildar. Kærendur telji því augljóst að verið sé að brjóta á þeim rétt og aðgerðin til þess fallin að valda þeim fjárhagslegu tjóni enda sérstaklega tiltekið að veð hafi verið tekið í hinu selda. Samkvæmt því hafi þurft leyfi veðhafa fyrir sölunni og að andvirðinu yrði ráðstafað til veðhafa. Í kærunni var gerður fyrirvari um bótakröfur á hendur fyrirsvarsmönnum Útgerðarfélagsins Y ehf.
Með bréfi kærenda voru afrit af skjölum. Var um að ræða endurrit úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík vegna 9 fjárnáma, veðbókarvottorð vegna Z, tilkynning til Fiskistofu frá 12. september 2002, tilkynningarblað til Fiskistofu vegna sölu aflamarks sem móttekin var 27. nóvember 2002, upplýsingar frá Fiskistofu um aflamark Z vegna fiskveiðiársins 2002/2003, úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. janúar 2003 og bókanir um niðurfellingu mála, upplýsingar um fyrirsvarsmenn Útgerðarfélagsins Y ehf. og loks úrskurður um gjaldþrotaskipti.
Í rannsóknargögnum málsins eru afrit af stefnum, aðfarabeiðnum og boðunum vegna fjárnáma tiltekinna kærenda á hendur Útgerðarfélaginu Y ehf. Stefnurnar eru dagsettar 24. og 25. apríl og 24. maí 2002, aðfararbeiðnirnar 8. ágúst og 23. september 2002 og boðanirnar 22. ágúst og 1. október 2002. Tilteknar boðanir hafa verið birtar fyrir A, sem fyrirsvarsmanni Útgerðarfélagsins Y., mánudaginn 2. september 2002 og aðrar fyrir ákærða sem fyrirsvarsmanni Útgerðarfélagsins Y ehf. 8. október 2002.
Samkvæmt yfirliti úr Hlutafélagaskrá skipa stjórn Útgerðarfélagsins Y ehf. samkvæmt fundi 6. febrúar 2002 A sem stjórnarmaður og ákærði sem varamaður. Bæði til heimilis að [...] í Reykjavík. Ákærði er skráður með prókúru. Fram kemur að félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 23. mars 2004.
Með bréfi 6. nóvember 2006 hafði Jón G. Valgeirsson héraðsdómslögmaður uppi skaðabótakröfu á hendur fyrirsvarsmönnum Útgerðarfélagsins Y ehf. Er skaðabótakrafan að fjárhæð 845.600 krónur, auk vaxta og lögmannskostnaðar. Í bréfinu kemur fram að við úthlutun úr þrotabúi Útgerðarfélagsins Y ehf. hafi greiðst 1.113.981 króna upp í kröfur kærenda sem samtals hafi numið 8.060.647 krónum.
Með bréfi 22. nóvember 2004 til Fiskistofu fór lögregla þess á leit að upplýsingar yrðu veittar lögreglu vegna rannsóknar málsins. Var um að ræða ljósrit af öllum gögnum Fiskistofu varðandi flutning á aflamarki Z á löngu og skötusel fyrir fiskveiðiárið 2002/2003 yfir á Æ. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvort öllum skilyrðum laga og reglugerða hafi verið fullnægt við flutning á aflamarkinu og engar vanheimildir verið af hálfu þeirra aðila sem óskað hafi eftir flutningnum. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um skyldur Fiskistofu í því tilviki sem væri til rannsóknar en fram hafi komið að Fiskistofu hafi bréflega verið tilkynnt um fjárnámsgerðir í málinu.
Fiskistofa svaraði bréfi lögreglustjóra 25. janúar 2005. Voru með bréfinu send afrit af gögnum er lögreglustjóri leitaði eftir. Þá er tekið fram að öllum formskilyrðum við flutning aflamarksins af Z yfir á Æ hafi verið fullnægt, þ.e. undirskrift eiganda og útgerðaraðila sem flutt hafi verið frá, undirskrift útgerðaraðila þess skips sem flutt hafi verið til og upplýsingar um verð. Tekið er fram að við flutning aflamarks þurfi ekki að liggja frammi veðbókarvottorð. Þá er tekið fram að í 7. mgr. 12. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða segi að á hverju fiskveiðiári sé einungis heimilt að flytja af fiskiskipi aflamark, umfram aflamark sem flutt sé til skips, sem nemi 50% af samanlögðu aflamarki sem fiskiskipi sé úthlutað. Þá segi að Fiskistofu sé heimilt að víkja frá þessari takmörkun á heimild til flutnings aflamarks vegna breytinga á skipakosti útgerðar eða þegar skip hverfi úr rekstri um lengri tíma vegna alvarlegra bilana eða sjótjóns. Beiðni um flutning aflamarks í löngu og skötusel umfram 50% frá Z til Æ hafi verið móttekin af Fiskistofu 27. nóvember 2002, þ.e. innan fiskveiðiársins 2002/2003. Í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990 komi fram að farist skip skuli útgerð halda aflamarki skipsins í 12 mánuði talið frá upphafi næsta mánaðar eftir að skipið fórst enda þótt nýkeypt skip hafi ekki komið í stað þess innan þess tíma. Frá og með 1. mars 2002 hafi útgerð Z því haft heimild til að halda aflamarki skipsins í 12 mánuði jafnframt því aflamarki sem úthlutað hafi verið á skipið á fiskveiðiárinu 2002/2003. Flutningur aflamarksins grundvallist því á reglum um breytingu á skipakosti. Samkvæmt þeim reglum er um slík atvik gildi þá sé heimilt að flytja allt aflamark ef skip sekkur. Undanþáguákvæðið gildi fyrst og fremst um tilvik um flutning aflamarks milli tveggja eða fleiri skipa í eigu sama aðila. Aðili sem eigi eitt skip geti ekki á grundvelli undanþáguákvæðisins flutt aflamark umfram 50% af úthlutuðu aflamarki skipsins til skips í eigu annars aðila nema viðkomandi, í þessu tilviki útgerð Z, eigi ekki annað skip og óviðráðanlegar ástæður, s.s. að skipið sökkvi, leiði til þess að flytja þurfi aflamark frá skipinu.
Að því er fjárnámsgerðir í málinu varði þá hafi Fiskistofu ekki borist neinar bréflegar tilkynningar um fjárnámsgerðirnar. Þótt bréfleg tilkynning um fjárnámsgerðir hafi borist Fiskistofu þá breyti það engu um heimildina til flutnings aflamarksins milli Z og Æ því að hvorki í lögum um samningsveð né í lögum um aðför eða öðrum lögum sé lagt bann við því að Fiskistofa heimili flutning aflamarks ef fjárnám hefur verið gert í því skipi sem flytja eigi aflamarkið frá. Af þeim sökum hafi Fiskistofa talið sér heimilt að flytja aflamark á milli skipa þrátt fyrir að fjárnám hafi farið fram í því skipi sem flytja á aflamarkið frá. Af þessu leiði að flutningur aflamarksins af Z yfir á Æ hafi verið heimilaður á grundvelli breytinga á skipakosti að öllum laga- og formskilyrðum uppfylltum.
Lögregla hefur ritað í málinu upplýsingaskýrslu dagsetta 17. janúar 2007. Í skýrslunni er tekið fram að í samtali 2. nóvember 2006 við C, fyrirsvarsmann skipamiðlunarinnar V, [...], Reykjavík, hafi C upplýst að Ö ehf., X, hafi keypt Útgerðarfélagið Y ehf. 6. febrúar 2002, en eina eign félagsins hafi verið fiskiskipið Z. Við færslu aflamarks af Z yfir á Æ hafi andvirði aflamarksins runnið til V sem greiðsla söluþóknunar vegna kaupanna frá 6. febrúar 2002 þar sem kaupandi taki að sér greiðslu söluþóknunar, auk þóknunar við milligöngu um færslu aflamarksins. Hafi C afhent lögreglumanni reikning að fjárhæð 845.604 krónur að þessu lútandi, sem dagsettur hafi verið 6. desember 2002, samþykktan af X. Einnig hafi C afhent ljósrit af skeyti til B fyrirsvarsmanns Þ ehf., dagsett 25. nóvember 2002, þar sem fram hafi komið að greiðsla fyrir flutning umrædds aflamarks skyldi greidd inn á vörslureikning V hjá Búnaðarbanka Íslands.
Tekin var skýrsla af B, fyrirsvarsmanni Þ ehf., hjá lögreglu 31. október 2006. Var honum í upphafi kynnt ljósrit af tilkynningu til Fiskistofu um flutning á aflamarki milli skipa 27. nóvember 2002 frá Z yfir á Æ. Kvaðst B aldrei hafa hitt ákærða vegna þessara ráðstafana, né rætt við hann. Viðskiptin hafi farið fram í gegnum fyrirtækið V. Hafi B undirritað tilkynningu til Fiskistofu um flutning á aflamarkinu og sent hana í faxi til V. Kvaðst B á þessum tíma hafa verið í stjórn Þ ehf. og hafi Æ verið skráð hjá V. Bátar hafi gjarnan verið skráðir hjá kvótasölum með ósk um leigu á kvóta. Síðan væri haft samband þegar kvóti byðist. Þannig hafi það verið í tilviki Z og Æ. Fyrir aflamarkið hafi verið greiddar 900.000 krónur, en inni í fjárhæðinni hafi verið þóknun til V. Framvísaði B skjali frá 25. nóvember 2002 því til staðfestingar. Eftir að fjárhæðin hafi verið greidd hafi aflamarkið verið fært yfir á Æ. Hluti af aflamarkinu hafi í framhaldi verið leigt til annarra skipa, en hluti verið veiddur af Æ.
Ákærði kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri Ö ehf, sem keypt hafi Y ehf. 6. febrúar 2002. Útgerð fiskiskipsins Z hafi verið aðalverkefni þess fyrirtækis. Hafi ákærði verið framkvæmdastjóri Y ehf. á meðan það starfaði. Starfsemi fyrirtækisins hafi öll lagst niður er Z hafi sokkið [dags.], en með skipinu hafi farist tveir menn. Þá hafi staðið til að gera skipið út frá Suðurnesjum en er skipið fórst hafi það verið á leið frá Vestmannaeyjum. Skipið hafi verið tryggt hjá Tryggingarmiðstöðinni hf. Y ehf. hafi verið dæmdar tryggingarbætur í undirrétti en Hæstiréttur Íslands hafi snúið þeim dómi við og tryggingarfélagið verið sýknað af greiðslu bóta. Þetta hafi orðið til þess að enginn grundvöllur hafi lengur orðið til að baki Y ehf. Ef tryggingabæturnar hafi komið til hafi verið unnt að gera upp við alla kröfuhafa og enginn borið skarðan hlut frá borði. Ákærði kvað skráningu á stjórn í Hlutafélagaskrá vera mistök því hann hafi alltaf talið sig vera framkvæmdastjóra Y ehf. Ákærði kvaðst ekki hafa verið viðstaddur er fjárnámsgerðir sýslumannsins í Reykjavík hafi verið gerðar 6. september og 18. október 2002. D hafi séð um öll mál Útgerðarfélagsins Y ehf. Hafi ákærði upphaflega leitað til D í kjölfar þess að Z hafi sokkið til að sækja tryggingabætur á hendur vátryggingarfélaginu. Kvaðst ákærði ekki muna það með vissu hvort D hafi upplýst ákærða um fjárnámsgerðirnar. Ákærði kvaðst hafa ritað skjal til Fiskistofu 25. september 2002 með beiðni um heimild til að færa aflamark. Hafi ákærði ritað undir skjalið um leigu á aflmarki, en ekki hafi verið um sölu að ræða. Leigan hafi verið gerð til að koma í veg fyrir að aflamarkið félli niður, enda ekki heimilt að halda aflamarki á skipi sem væri sokkið í lengri tíma en 12 mánuði án þess að ráðstafa aflamarkinu annað. Kvaðst ákærði ekki muna betur en D hafi ákveðið að þetta yrði með þessum hætti og hafi ákærði hlýtt þeirri ráðgjöf. Sennilega hafi ákærði leitað til D til að fá ráðgjöf um þetta efni. Ekki kvaðst ákærði vita hvað hafi orðið af þeim 845.600 krónum er hann hafi fengið fyrir aflamarkið. Kvaðst hann hafa reiknað með að féð myndi renna inn á vörslureiknings lögmanns ákærða sem í framhaldi myndi ráðstafa því í þágu Útgerðarfélagsins Y ehf. til greiðslu skulda, málskostnaðar og annarra krafna á hendur félaginu. Ákærði kvaðst hafa litið svo á að honum væri frjálst að færa aflamarkið yfir á annað skip líkt og hann hafi gert. Hafi hann einungis verið að bjarga umræddu aflamarki frá því að falla niður. Kvaðst ákærði telja sig hafa haft vissu fyrir því að kröfuhafar hafi ekki getað fénýtt sér aflamarkið þrátt fyrir úrskurð sýslumanns og Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. Ákærði kvaðst reyndar telja að hann hafi ætlað að leigja aflamarkið yfir á annað skip þar til hann væri kominn með annað skip í stað Z. Þá yrði aflamarkið fært aftur yfir á það skip. Ákærði kvað aflahlutdeild er fram kæmi á dskj. nr. 5 hafa verið færða af skiptastjóra þrotabús Y ehf. Ákærði kvaðst ekki hafa talið að hann gæti flutt aflamark skipsins en hlutdeildina hafi hann getað fært. Hafi ákærði þekkt muninn á aflahlutdeild og aflamarki. Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt neitt fyrirsvarsmenn Þ ehf. sem hafi fengið aflamarkið. Öll viðskiptin hafi farið fram í gegnum skipa- og bátasöluna V. Aðilar á þeim bæ hafi fundið Æ. Ákærði kvað eiginkonu sína ekki hafa komið neitt nærri umræddum færslum á aflamarkinu.
D kvaðst á sínum tíma hafa annast hagsmunagæslu fyrir ákærða í tengslum við Útgerðarfélagið Y ehf. D kvað sér hafa verið kunnugt um fjárnámsgerðir í málinu þegar þær hafi farið fram. Fjárnám hafi verið gert í skipi, tryggingarbótum og aflamarki skipsins. Kvað hann ákærða hafa verið fullljósar þær fjárnámsaðgerðir sem fram hafi farið á sínum tíma enda hafi ákærði móttekið hluta þeirra kvaðninga sem birtar hafi verið vegna boðunar sýslumannsins í Reykjavík. Þá hafi ákærða verið send afrit af boðunum til fjárnáms. Sennilega hafi D beðið E hæstaréttarlögmann um að mæta fyrir sig við fjárnámsgerðirnar. Eins hafi ákærði verið upplýstur um að úrskurðum sýslumanns hafi verið skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur með kröfu um ógildingu. Þá kvað hann ekki rétt hjá ákærða að D hafi ráðlagt ákærða að færa umrætt aflamark frá Z yfir á Æ.
Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, sem í gildi voru er atvik í þessu máli áttu sér stað, skal veiðiheimildum, á þeim tegundum sem heildarafli er takmarkaður af, úthlutað til einstakra skipa. Skal hverju skipi úthlutað tiltekinni hlutdeild af leyfðum heildarafla tegundarinnar. Nefnist það aflahlutdeild skips og helst hún óbreytt á milli ára. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. ræðst aflamark skips á hverju veiðitímabili eða vertíð af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla samkvæmt 2. mgr. 7. gr. Skal Fiskistofa senda sérstaka tilkynningu vegna hvers skips um aflamark þess í upphafi veiðitímabils eða vertíðar. Samkvæmt 6. mgr. 11. gr. laganna er heimilt að framselja aflahlutdeild skips að hluta eða öllu leyti og sameina hana aflahlutdeild annarra skipa, enda leiði flutningur aflahlutdeildarinnar ekki til þess að veiðiheimildir þess skips, sem flutt er til, verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Þá er á grundvelli 12. gr. laganna heimilt að flytja aflamark milli skipa eftir þeim reglum er þar er kveðið á um. Farist skip skal útgerð þess halda aflamarki skipsins í 12 mánuði talið frá upphafi næsta mánaðar eftir að skipið fórst, enda þótt nýtt skip eða nýkeypt hafi ekki komið í stað þess innan þess tíma, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Af þessum ákvæðum laga nr. 38/1990 verður ráðið að aflamark skips er afsprengi aflahlutdeildar skips og mælir fyrir um, út frá aflahlutdeild skips, hve mikið magn einstakra fisktegunda skipinu er heimilt að veiða á fiskveiðiárinu.
Í máli þessu liggur fyrir að fiskveiðiskipið Z fórst [dags.]. Þá hafði skipið aflahlutdeild og á fiskveiðiárinu 2002/2003 aflamark á grundvelli hennar í löngu samtals 4,242 kg og skötusel samtals 6,346 kg. Tekið var fjárnám í aflahlutdeildinni og framangreindu aflamarki 6. september 2002 og 18. október 2002. Var fjárnámunum þinglýst 11. september 2002 og 29. október 2002. Með tilkynningu um flutning aflamarksins milli skipa 27. nóvember 2002 flutti ákærði aflamarkið yfir til Þ ehf. gegn greiðslu á 845.600 krónum, en veðhafar í aflamarkinu höfðu ekki samþykkt þann flutning. Þeim fjármunum var öllum ráðstafað í þágu Útgerðarfélagsins Y ehf. til að greiða sölulaun til báta- og kvótasölunnar V vegna kaupa félagsins á Z og vegna flutnings á aflamarkinu.
Svo sem áður var rakið er heimilt að framselja aflahlutdeild skips og verður ráðið að það sama gildi í reynd um aflamark, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990, en flutningur á aflamarki yfir á skip í eigu annarra gegn endurgjaldi er samkvæmt efni sínu framsal á aflamarki. Er aflamarkið eign sem hefur fjárhagslegt verðgildi, sem best sést á því að er ákærði afhenti aflamarkið kom endurgjald í stað þess. Svo sem berlega sést af endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík var m.a. lýst yfir fjárnámi í aflamarki Z. Var tekist á um gildi fjárnámsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sem kvað upp úrskurð í málinu 9. janúar 2003 í máli nr. Y-15/2002. Var þar vikið sérstaklega að aflahlutdeildinni. Var þar m.a. staðfest fjárnámsgerð sú sem fór fram í aflahlutdeildinni og aflamarkinu. Við svo búið var ákærða með öllu óheimilt án samþykkis veðhafanna að ráðstafa aflamarkinu sem veðhafarnir höfðu þá öðlast tryggingarréttindi yfir. Breytir engu um það þó svo ákærði hafi talið sig vera að bjarga verðmætum, sem ella hefðu farið forgörðum. Bera gögn málsins með sér að Útgerðarfélagið Y ehf. hafi á þessari stundu staðið höllum fæti fjárhagslega og var útgerðarfélagið úrskurðað gjaldþrota [dags.] 2004. Með því að ráðstafa aflamarkinu með þeim hætti er ákærði gerði til báta- og kvótasölunnar V var hann að mismuna kröfuhöfum sem kröfur áttu á hendur útgerðarfélaginu. Varnir ákærða um að honum hafi ekki verið kunnugt um fjárnámið fást ekki staðist. Honum voru sannanlega birtar boðanir vegna fjárnáma. Þá verður ekki við annað miðað en að hann, ásamt lögmanni sínum, hafi tekið ákvarðanir um að láta á gildi umræddra fjárnáma reyna fyrir dómstólum. Sú háttsemi ákærða að ráðstafa aflamarkinu með þeim hætti er hann gerði án samþykkis veðhafa var skilasvik samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940. Í þessu ljósi verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru.
Ákærði er fæddur í mars 1938. Hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir auðgunarbrot að nokkurri fjárhæð. Hann hefur hins vegar ekki áður gerst brotlegur við refsilög. Þá verður ekki hjá því komist að líta til þess við ákvörðun refsingar hve lengi málið hefur verið til meðferðar hjá lögreglu. Var málinu vísað til lögreglu með kæru sem móttekin var 24. maí 2004. Í nóvember það ár sendi lögregla Fiskistofu bréf vegna málsins. Lögregluskýrslur voru ekki teknar fyrr en í október 2006 og í janúar- og febrúarmánuðum 2007. Ákæra var fyrst gefin út í september 2007. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 30 daga, sem skilorðbundið verður með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Jón G. Valgeirsson héraðsdómslögmaður hefur fyrir hönd kærenda krafist skaðabóta, vaxta og lögmannskostnaðar úr hendi ákærða. Miðar bótakrafan við höfuðstól hin selda aflamarks fiskveiðiársins 2002/2003 í löngu og skötusel. Fram kemur að skiptum í þrotabúi Útgerðarfélagsins Y ehf. hafi lokið [dags.] 2006 og hafi kærendur fengið úthlutað 13,82% upp í lýstar kröfur sínar í þrotabúið. Lýstar og samþykktar kröfur hafi numið samtals 8.060.647 krónum og því greiðst 1.113.981 króna upp í tjón kærenda. Sé krafan byggð á reglum skaðabóta- og kröfuréttar. Ákærði hefur í vörn sinni ekki andmælt skaðabótakröfunni tölulega. Ákærði, sem daglegur stjórnandi, prókúruhafi og varamaður í stjórn Útgerðarfélagsins Y ehf., tók ákvörðun um flutning á hinu umdeilda aflmarki. Leiddi sú ráðstöfun hans til þess að kærendur, sem veðrétt áttu í aflamarkinu, fengu ekkert í sinn hlut af verðmæti aflamarksins sem rann óskipt til skipa- og bátasölunnar V. Urðu þeir fyrir tjóni sem því nemur, sem ákærði ber skaðabótaábyrgð á. Er krafan nægjanlega skýr til að hún verði tekin til greina. Þá þykir framsetning skaðabótakröfunnar í ákæruskjali ekki varna því að á kröfuna verði lagður dómur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða kærendum kostnað, sem þeir hafa haft af því að halda fram kröfum sínum, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991. Lögmannskostnaður telst hæfilega ákveðinn 54.780 krónur.
Ákærði greiði flugfargjald vitnis að fjárhæð 25.560 krónur. Kostnaður vegna vinnutekjutaps sama vitnis þykir hæfilega ákvarðaður 35.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Loks greiði ákærði málsvarnarlaun verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Guðjón Magnússon fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði Faxa ehf., Fiskhellu ehf., Skipalyftunni hf., Netasölunni ehf., Vöruvali ehf., Neti ehf., Eyjaradíói ehf., Björgunarfélagi Vestmannaeyja og Þór ehf. Vélaverkstæði sameiginlega 845.600 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2006 til 18. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði 54.780 krónur í lögmannskostnað.
Ákærði greiði 164.144 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Thóroddsen héraðsdómslögmanns, 103.584 krónur.