Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Bótagreiðsla
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 19. júní 2003. |
|
Nr. 45/2003. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Sigurði Ívari Mássyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Bótagreiðsla. Skilorð.
S var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við X á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Tekið var fram að skilja yrði niðurstöðu héraðsdóms svo að framburður stúlkunnar væri trúverðugur og framburður S ótrúverðugur. Væri því fram komin nægileg sönnun sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, um að S hefði haft samræði við stúlkuna er ástand hennar var með þeim hætti að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga, sbr. 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing S ákveðin fangelsi í 12 mánuði en 9 mánuðir af refsingunni voru skilorðsbundnir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2003 að tilhlutan ákærða en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar. Til vara krefst hann sýknu.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi varðar mál þetta verknað sem X, þá ný orðin átján ára, kærði hjá lögreglu kvöldið 14. júlí 2000. Lýsti hún atburði sem gerst hafði nóttina áður, í kjölfar talsverðrar áfengisneyslu þeirra sem hlut áttu að máli. Bera frásagnir þeirra keim af því.
Svo sem rakið er í héraðsdómi hefur frásögn stúlkunnar frá upphafi verið á þá leið að tveir piltar hafi verið viðriðnir kynferðisbrotið og að það hafi verið framið í öðru rúmi í öðru herbergi en hún var í með húsráðanda, sem sofið hafi þar áfengisdauða. Eftir að niðurstaða DNA rannsóknar á lífefnum lá fyrir játaði ákærði loks að hafa haft við hana samræði, en segir það hafa verið með vilja hennar. Annar gerandi fannst ekki, en hinir fjórir, sem þarna komu um nóttina, lágu undir grun.
Skilja verður niðurstöðu héraðsdóms svo að framburður stúlkunnar sé talinn trúverðugur. Jafnframt liggur fyrir að framburður ákærða tók breytingum og að héraðsdómur hefur ekki metið skýringar hans á því trúverðugar.
Þótt sannanir skorti um að stúlkan hafi verið flutt milli herbergja og að fleiri en ákærði hafi haft við hana samræði, eins og hún hefur greint frá, er fram komin nægileg sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, um að hann hafi haft samræði við hana er ástand hennar var eins og í ákæru greinir, og að hún hafi ekki sökum ölvunar og svefndrunga getað spornað við verknaðinum. Er því fallist á sakfellingu héraðsdóms að þessu leyti.
Með rökum þeim er í héraðsdómi greinir er fallist á að refsing hans sé þar hæfilega ákvörðuð fangelsi 12 mánuði. Með vísan til þeirra atriða er rakin eru í forsendum héraðsdóms þykir mega fresta fullnustu 9 mánaða af refsingunni í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður Ívar Másson, sæti fangelsi 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni í 3 ár frá birtingu dóms þessa og falli sá hluti hennar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2002.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 22. apríl 2002 á hendur: ,,Sigurði Ívari Mássyni, [ ], fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 14. júlí 2000, að [ ], Reykjavík, haft samræði við [X], en ákærði notfærði sér að [X] gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.
Telst þetta varða við 196. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40, 1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins, verði greidd úr ríkissjóði. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og verði refsivist dæmd þá verði hún skilorðsbundin að öllu leyti og að málsvarnarlaun verði dæmd að mati dómsins.
Samkvæmt ódagsettri lögregluskýrslu, sem ráða má af gögnum málsins og af vitnisburði X að hafi verið tekin 14. júlí 2000, kom X til lögreglu þann dag og kærði nauðgun sem hún kvað hafa átt sér stað aðfaranótt 14. júlí 2000 að [...] hér í borg. Hún kvað gerendur hafa verið tvo karlmenn, sem hún viti lítil deili á. Hún kvaðst hafa farið í heimsókn til A kunningja síns í [...], fimmtudagskvöldið 13. júlí, þar sem hún kvaðst hafa drukkið bjór. Þau hafi síðan farið á Glaumbar þar sem hún lýsti áfengisdrykkju sinni og fleiru. Hún kvaðst hafa ,,fundið aðeins til áfengisáhrifa”. Er hún fór af Glaumbar um kl. 01.30 ásamt A, sem hún kallaði A, hafi þau tekið leigubíl heim til hans að [...]. Þar hafi þau farið inn í herbergi A og haft samfarir og sofnað bæði eftir það. Hún kvað þau hafa vaknað hugsanlega einni klukkustund síðar, en þá hafi A farið til dyra og hleypt einhverjum inn. A hafi strax farið í rúmið aftur, en stuttu síðar hafi komið inn í herbergið maður að nafni B og hafði A spurt hann að því hverjir væru með honum, en B svaraði eitthvað á þá leið ,,strákarnir”. A hafi þá beðið B um að fara fram og loka á eftir sér. Stuttu síðar hafi B komið aftur inn í herbergið og tveir menn með honum. X kvað mennina hafa kynnt sig, en hún mundi ekki nöfn þeirra. Mennirnir hafi rætt við hana stutta stund uns þeir fóru fram í stofu að hún taldi. X kvaðst ekki muna hversu lengi hún hafi verið búin að sofa er hún var ávörpuð með nafni. Hún kvaðst ekki hafa sinnt þessu en haldið áfram að sofa og hafa talið að þetta hafi verið A. Þessu næst kvaðst hún hafa orðið vör við það að henni var lyft upp úr rúminu og hún hafi verið borin út úr herbergi A og inn í stofuna, þar sem strákarnir hafi verið fyrir um það bil einni klukkustund, en þeir hafi þá verið farnir. Hún hafi verið borin inn í herbergi föður A og lögð í rúm hans. Hún kvaðst hafa orðið vör við tvo menn meðan á þessu stóð. Hún kvaðst muna að mennirnir hefðu lagst í rúmið sitt hvorum megin við hana. Sá mannanna sem hafi verið henni á vinstri hönd hafi byrjað að fara höndum um líkama hennar og kvaðst hún hafa fundið er hann setti fingur inn í leggöng hennar. Þessi maður hafi síðan lagst ofan á hana og haft við hana samfarir. Hún kvaðst litla mótspyrnu hafa veitt, en reynt það eftir veikum mætti. Hún kvaðst hafa hugsað að best væri fyrir sig að láta þetta yfir sig ganga. Hún kvaðst ekki geta lýst manninum, enda hafi hún verið undir áhrifum áfengis og mjög þreytt. X kvaðst ekki vita hvort maðurinn hafi náð að ljúka sér af, en hann hafi staðið á fætur og gengið til dyra og kvaðst hún þá hafa haft það á tilfinningunni að hann hafi staðið þar til þess að fylgjast með. X kvað hinn manninn einnig hafa sett fingur í leggöng hennar og reynt að kyssa hana. Þessi maður hafi einnig haft við hana kynmök. Hún kvaðst hafa beðið síðari manninn um að hætta, en hann þá sagt að þetta væri allt í lagi og að þetta væri A, en hún kvaðst viss um að svo hafi ekki verið. Hún kvaðst nú hafa streist aðeins meira á móti og hafi hún náð að setjast upp. Maðurinn hafi þá reynt að þvinga hana niður aftur, en hún kvaðst þá hafa verið ákveðin í því að láta þetta ekki yfir sig ganga og sagt manninum að hætta og fara af sér, sem hann hafi gert. Maðurinn hafi staðið á fætur og kvaðst hún hafa séð hann renna upp buxnaklauf á gallabuxum sem hann var í. Hún kvaðst hafa legið í rúminu í nokkrar mínútur uns hún hafi staðið á fætur og farið fram og þá séð að útidyrnar féllu ekki að stöfum, smárifa hafi verið. Hún kvaðst hafa farið inn í herbergi A og séð hann þar sofandi. Hún lýsti því síðan er hún sótti föt sín, klæddi sig og fór út úr íbúðinni og að hún hafi um kl. 03.45 hringt í H, fyrrverandi kærasta sinn, og kvaðst hún hafa sagt honum grátandi lauslega frá því sem gerst hafði. Hún kvaðst hafa gist heima hjá H það sem eftir leið nætur. Hún kvaðst síðan hafa farið á neyðarmóttöku eftir að vinkonur hennar, þær F og G, ráðlögðu henni það daginn eftir.
Meðal skjala málsins er bréf, dags. 18. desember 2000, undirritað af X og réttargæslumanni hennar. Þar segir meðal annars: ,,Ég undirrituð [X] afturkalla kæru dags. 15.07.2000, sem ég setti fram vegna meints kynferðisbrots, sem átti sér stað hinn 14.07.2000. Kæran og framlögð skaðabótakrafa eru með bréfi þessu afturkölluð og er þess óskað að málið verði fellt niður og rannsókn þess hætt.”
Hinn 19. desember 2000 kom X til lögreglu í fylgd réttargæslumanns síns og staðfesti afturköllun kæru og féll frá öllum kröfum í málinu.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 18. september 2000, þar sem hann neitaði að hafa haft mök við X aðfaranótt 14. júlí sama ár. Þá var tekin skýrsla af ákærða 6. október 2000. Þá var ákæðra kynnt álitsgerð prófessors Gunnlaugs Geissonar um að telja mætti víst að unnt væri að nota sýni frá kæranda til kennslagreiningar með DNA-aðferðum til rannsókna á því hvort sæði sem fannst gæti verið frá tilteknum manni eða ekki. Aðspurður hvort ákærði vildi eitthvað tjá sig um þetta tók hann fram að framburður sem hann hefði gefið í málinu væri réttur. Í bréfi Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði, dagsettu 29. nóvember 2000, segir m.a. að niðurstaða DNA-rannsókna á sæði sem fannst í kynfærum X samrýmist því að vera frá ákærða. Tekin var skýrsla af ákærða 12. desember 2000 þar sem þessi niðurstaða var kynnt honum og hann þá spurður meðal annars með tilliti til niðurstöðu DNA-rannsóknarinnar. Ákærði kvaðst þá enga skýringar hafa á því hvers vegna sæði frá honum hafi fundist í sýni frá kynfærum X. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa haft mök við X án vilja hennar.
Nú verður rakinn framburður ákærða fyrir dómi og vitnisburður.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa haft samræði við X á þeim tíma sem í ákæru greinir, en það hafi verið með samþykki hennar. Hann kvaðst hafa hitt X á Glaumbar að kvöldi 13. júlí 2000, en þar hafi hún verið í fylgd A, vinar ákærða. Ákærði kvaðst hafa rætt við hana þar ásamt félögum sínum. Hann kvaðst ekki hafa boðið henni að drekka. Ákærði kvað A og X hafa farið á undan þeim heim til A, en ákærði og félagar hans, þeir D, E, B og C, hefðu komið þangað síðar, en A hefði boðið þeim heim til sín, en ákærði kvaðst hafa dvalið á Glaumbar að minnsta kosti fram að lokun kl. 01.30. Eftir að komið var í [ ], sem ákærði taldi að hafi getað verið um kl. 02.00, hafi ákærði og einhverjir kunningjar hans farið inn í herbergið þar sem A og X voru og kvaðst ákærði hafa rætt við þau um stund, en A hafi verið mjög ölvaður, en þau X hafi getað haldið uppi samræðum. Að lokum kvaðst ákærði hafa orðið einn eftir inni í herberginu. Þau X hafi rætt saman um ýmislegt og lýsti ákærði því. Þetta hafi síðan endað með því að ákærði hafði samfarir við hana og kvaðst ákærði ekki hafa séð annað en að hún hafi tekið fullan þátt í þeim. Hann kvaðst hafa verið ölvaður er þetta átti sér stað og ekki vera dómbær á ástand X, en hún hafi að mati ákærða ekki verið verr á sig kominn en ákærði sjálfur. Hann kvaðst ekki geta sagt hvort þeirra áttu frumkvæðið að samförunum, en hann kvað eitt hafa leitt af öðru. Hann kvaðst hafa farið undir sæng til hennar en hún hafi verið nakin fyrir og ákærði hafi klætt sig úr buxum. Ákærði kvað A hafa verið sofandi í rúminu á meðan. Þetta hafi staðið stutt yfir að sögn ákærða, en hann taldi að hann kunni að hafa dvalið einn í herberginu í 10 til 15 mínútur eftir að félagar hans fóru út. Eftir samfarirnar kveðst ákærði hafa farið fram þar sem félagar hans voru. Hann kvað þá hafa dvalið í íbúðinni í 20 mínútur til eina klukkustund eftir þetta, en hann kvaðst ekki viss um tímann, en að lokum hafi þeir allir farið í burtu, en C hafi ekið bifreið sem þeir félagar fóru í. Ákærða hafi verið ekið í [...] þar sem hann dvaldi.
Aðspurður um ástæðu þess að ákærði hafi ekki greint frá þessu eins og lýst var við skýrslutöku hjá lögreglunni kvað ákærði hafa verið þá að hann hafi ekki viljað að fram kæmi að hann hefði haldið framhjá konu sinni, sem honum þætti mjög vænt um. Ákærði var spurður nánar út í lögregluskýrslu sem hann gaf 18. september 2000, þar sem hann svaraði neitandi spurningunni um það hvort hann hefði haft mök við X í íbúðinni um nóttina. Í fyrstu kvaðst ákærði hafa svarað eins og hann gerði vegna þess að hann hafi talið að verið væri að spyrja hann hvort hann hefði beitt X þvingunum og kært hafi verið fyrir nauðgun. Síðar kvaðst ákærði hljóta að hafa misskilið spurningu hjá lögreglunni að þessu leyti. Ákærði greindi frá því aðspurður að lögmaður hefði annast milligöngu um peningagreiðslu til X. Það hafi verið gert án skilyrða af sinni hálfu. Hann heimilaði að lögmaðurinn kæmi fyrir dóm og skýrði frá samskiptum varðandi peningagreiðsluna til X. Lögmaðurinn var ekki kvaddur fyrir dóminn.
X lýsti því er hún fór heim til A, [...], fimmtudagskvöldið 13. júlí 2000, þar sem hún kvaðst hafa drukkið bjór. Síðar um kvöldið um kl. 23.00, að því er hún taldi, fóru þau á Glaumbar. Aðspurð um áfengisneyslu sína þar kvaðst hún hafa drukkið einn eða tvo kokkteila og staup af líkjör. Síðar kom fram hjá henni að henni hafi verið gefinn drykkur sem heitir B-52, en hún hafi ekki drukkið hann. Þá taldi hún sig hafa drukkið bjór, en í ljós kom hjá henni að hún mundi illa eftir því sem hún drakk á skemmtistaðnum. Hún kvað þau A síðan hafa tekið leigubíl heim til hans í [...]. Þar hafi ef til vill verið drukkinn einn bjór, en ekki meira, en hún kvaðst þá hafa verið orðin töluvert ölvuð. Síðar í skýrslu sinni greindi hún frá því að hún hafi fundið vel til áfengisáhrifa við heimkomuna, en hún hafi vitað vel hvað hún gerði. Hún kvað þau A hafa sofnað eftir að hafa haft samfarir. Hún mundi eftir því að hafa vaknað er dyrabjallan hringdi, en A, sem hún kallaði A, hafi þá farið til dyra og hleypt fimm vinum sínum inn, en hún vissi ekki hversu langur tími leið frá heimkomunni í [...] þar til gestirnir komu. Það gæti hafa verið ein klukkustund að hennar sögn. Hún kvaðst hafa haldið áfram að sofa. Síðar kvaðst hún muna eftir því að einhver piltanna sem komu um nóttina hafi farið inn í herbergi til þeirra A og rætt við hana. Fram kom í vitnisburði hennar að hún mundi þetta ekki vel. Hún kvaðst síðan hafa rumskað er nafn hennar var kallað. Hún kvaðst ekki hafa sinnt þessu, en sofið áfram. Hún kvaðst síðan hafa rumskað við það að verið var að bera hana út úr herbergi A og inn í herbergi við hliðina, þar sem hún hafi verið lögð í annað rúm. Hún kvaðst ekki hafa opnað augun, en gengið var með hana í gegnum stofuna, en hún hafi verið á milli svefns og vöku á þessari stundu. Hún kvaðst hafa verið hrædd, en vaknað við að einhver var að hafa við hana samræði. Hún kvaðst ekki hafa þorað að opna augun strax, en gert sér grein fyrir því að mennirnir voru tveir, annar ofan á henni og hinn við hlið hennar í rúminu. Hún kvað allt hafa verið eins og í móðu, en hún kvaðst hafa gert sér grein fyrir því að annar mannanna hafi staðið í dyrunum og hafi sá verið að passa. Eftir að fyrri maðurinn hafði lokið sér af hafi hinn komið og haft við hana samræði, en hún hafi ýtt honum af sér. Eftir smátíma hafi maðurinn staðið á fætur og báðir farið burt. Síðar greindi hún svo frá að henni hafi verið haldið, en hún hafi ekki barist á móti. Hún kvaðst hafa beðið mennina um að hætta og er hún streittist á móti undir lokun og mennirnir hafi gert sér grein fyrir því að hún var með fullri rænu hafi þeir orðið hræddir. Hún kvaðst hafa séð framan í hvorugan mannanna, en hafa séð að annar þeirra var klæddur gallabuxum. Hún kvaðst hafa beðið í herberginu uns hún heyrði mennina fara út úr íbúðinni. Þá hafi hún farið inn í herbergi A, sótt föt sín og farið burt.
X greindi frá því er skipaður réttargæslumaður hennar hafði samband við hana eftir að þáverandi verjandi ákærða hafði samband og bauð fram greiðslu og kvaðst hún hafa fengið greiddar 1,5 milljónir króna fyrir milligöngu réttargæslumannsins. Hún kvaðst eftir það hafa afturkallað kæru sína. Hún lýsti samskiptunum við réttargæslumanninn vegna þessa og heimilaði að hann kæmi fyrir dóm og vitnaði um þessi samskipti. Réttargæslumaðurinn var ekki kvaddur fyrir dóminn til vitnisburðar um þetta.
X kom aftur fyrir dóminn og í síðara skiptið í tilefni nýrra gagna og upplýsinga, meðal annars um hótanir, sem hún hafði sætt. Hún kvað hótanirnar hafa borist sér gegnum þáverandi kærasta sinn. Vitnisburður hennar um þetta var mjög óljós og þykir ekki varpa ljósi á málavexti og verður hann því ekki rakinn frekar.
Ebba Margrét Magnúsdóttir, sérfræðingur á kvennadeild Landspítala, tók á móti og skoðaði X er hún kom á neyðarmóttöku 14. júlí 2000. Hún staðfesti og skýrði skýrslu sína um læknisskoðunina. Kafli í skýrslunni ber heitið frásögn sjúklings. Þar segir meðal annars: ,,Þau voru vakin eftir klukkutíma og þá komu fimm strákar inn í íbúðina og þrír þeirra komu inn í svefnherbergið, þar sem hún lá nakin undir sænginni. Þeir fóru síðan fram og lokuðu hurðinni og þau fóru að sofa. Hún man síðan næst að tveir af þeim eru að vekja hana og héldu þeir á henni inn í næsta herbergi, sem er svefnherbergi föður A. Þeir voru í fötunum og lögðu hana á rúmið og lögðust sitt hvorum megin við hana. Þá hélt annar henni niðri, höndunum fyrir ofan höfuð á meðan hinn hafði við hana samfarir. Þegar hún bað þá að hætta þá sögðu þeir að þetta væri allt í lagi, því að þetta væri A. Síðan þegar sá fyrri hafði lokið sér af fór hann út úr herberginu og henni fannst hann standa vörð við dyrnar. Hinn tók þá við og hafði við hana samfarir og þá streittist hún verulega á móti og eftir langan tíma þegar hún settist upp hætti hann og fór hann út. Hún leit framan í þennan seinni og telur sig geta þekkt hann aftur, ca. 20 til 25 ára. Þeir yfirgáfu síðan íbúðina og hún fór þá fram og þar var sjónvarp í gangi, en enginn frammi.” Ebba Margrét kvað þessa frásögn skrifaða beint eftir X. Ebba kvaðst hafa það sem vinnureglu að láta viðkomandi sjúkling lesa frásögnina yfir í því skyni að kanna að allt sé rétt sem er haft. Hugsanlegt hafi verið að hún hafi borið frásögnina undir X. Hún hafi prentað skýrsluna og undirritað hana þetta sama kvöld.
A lýsti því að þau X hafi hist heima hjá honum að [...] að kvöldi 13. júlí 2000. Þar hafi þau dvalið í um hálfan klukkustund þar til að þau fóru á Glaumbar. Hann gat hvorki borið um áfengisdrykkju X áður en þau fóru á Glaumbar né eftir komuna þangað. Eftir dvölina á Glaumbar hafi þau X farið heim til hans. A kvaðst hafa verið mjög ölvaður og ekki muna eftir þeirri ferð. Hann kvaðst minnast þess að hafa opnað svalahurð á heimili sínu í því skyni að hleypa þar inn fólki. Fram kom hjá A að hann mundi lítið eftir atburðum eftir heimkomu sökum ölvunar. Hann mundi til að mynda ekki eftir neinum samskiptum við X eftir heimkomuna. Þá mundi hann ekki eftir neinum samskiptum við gestina sem komu um nóttina, en hann kvað sig ráma í það að einhver hefði komið inn í herbergið þar sem hann lá. Hann mundi þetta ekki. A greindi frá hótunum sem hann hafði orðið fyrir eftir að mál þetta kom upp. Hann kvaðst hafa greint lögreglumanni, sem tók af honum skýrslu 19. júlí 2000, frá þessu, en sá hafi talið óráðlegt að láta þessa getið í skýrslunni. A kvað hótanir bæði hafa borist símleiðis og með SMS-skilaboðum og einnig hafi menn komið að máli við hann. Menn hafi komið bæði heim til hans og þá hafi eitt sinn komið fjórir menn að máli við hann í vinnuna. Hann kvað hótanirnar hafa snúist um það að hann hafi verið beðinn að gefa upp tiltekin nöfn sem tengdust málinu, en þessir menn hafi ætlað að útkljá málið sjálfir. Hann kvað þessar hótanir hafa átt sér stað fram til þess tíma er hann kom fyrir dóminn til skýrslugjafar.
H lýsti því er X hringdi í hann að næturlagi og bað hann um að sækja sig, þar sem hún var stödd við verslun Nóatúns í [...]. Hann kvað X hafa lýst því að hún hafi verið stödd á heimili A ásamt þremur öðrum strákum. A hafi sofnað áfengisdauða, einn strákanna hafi síðan ákveðið að halda fótgangandi heim til sín, en þeir tveir sem eftir voru hafi þá farið með hana inn í herbergi, þar sem þeir hefðu nauðgað henni. X hafi ekki lýst því sem gerðist nánar á þessari stundu, en eftir að þessu lauk hafi hún farið út úr húsinu og hringt í vitnið sem sótti hana eins og áður er getið. X hafi verið svolítið drukkin er hann sótti hana og hún hafi verið í mjög miklu uppnámi. H lýst því að X hefði síðar greint sér frá því sem gerðist og þá lýsti hún því að mennirnir hefðu haldið henni niðri meðan þeir skiptust á, eins og vitnið komst að orði. H kvaðst hafa skilið frásögn hennar þannig að hún hafi verið vakandi meðan á þessu stóð.
F kvaðst vera vinkona X. Hún lýsti því er X hafði samband við hana 14. júlí 2000 og bað hana um að koma í heimsókn. F kvað X hafa greint sér frá ferð sinni í bæinn með A kvöldið áður og ferð hennar heim með honum. Um nóttina hefðu tveir menn dregið hana inn í herbergi og nauðgað henni. F lýsti ástandi X þannig, að hún hafi verið ,,í rusli” og skolfið. Síðar í vitnisburði sínum greindi F frá því að hún vissi ekki nákvæmlega hvort X hefði notað orðið nauðgun, en hún hljóti að hafa gert það, þar sem hún lýsti því að hún hafi verið dregin inn í herbergi. F kvað þær G hafa talað X til og fengið hana til að fara á neyðarmóttöku þennan dag.
G kvaðst vera vinkona X. Vitnið lýsti því er X hringdi í hana og F daginn eftir atburðinn sem í ákæru greinir og bað þær um að koma í heimsókn til sín. Hún kvað X hafa greint sér frá því að tveir strákar hafi tekið hana þar sem hún var sofandi hjá A og flutt hana yfir í annað herbergi og nauðgað henni. X hafi ekki lýst þessu nánar. Hún hafi ekki rætt atburði nánar við vitnið, en X hafi ávallt rætt um atburðinn sem nauðgun.
D lýsti dvöl sinni á skemmtistað í miðborginni áður en þeir héldu í [...] aðfaranótt 14. júlí 2000, þar sem boðið hafði verið í partí. Auk vitnisins kvað hann A hafa verið á skemmtistaðnum, ákærða, B, C og E. Hann kvað sig minna að A hafi verið farinn á undan, en hinir sem nafngreindir voru hafi farið saman í bíl í [...] og kvað hann sig minna að þeir hafi farið inn í húsið bakdyramegin. Hann kvað sig minna að hann ásamt fleirum hafi farið inn í herbergi, þar sem A og X voru. Hann kvað X hafa verið vakandi, en ráða má af vitnisburði hans að hann hafi rætt lítillega bæði við A og X inni í herberginu þar sem þau voru. Hann kvað þá ákærða, B, C og E alla hafa farið af staðnum á sama tíma eftir dvöl þar í um eina til eina og hálfa klukkustund, en þann tíma hafi hann dvalið í stofunni og úti á verönd. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við að X hafi verið borin í gegnum stofuna á meðan hann dvaldi þar. Hann hefði örugglega munað eftir því hefði það átt sér stað.
C lýsti ferð sinni, B bróður síns, A og X úr [...] á Glaumbar aðfaranótt 14. júlí 2000. Hann kvaðst ekkert hafa rætt við X á Glaumbar, en A hafi boðið þeim heim til síns eftir lokun staðarins. A hafi verið kominn heim á undan þeim félögum er þeir komu í [...] og mundi hann ekki eftir hvernig þeim var hleypt inn. Hann mundi ekki eftir hvort hann ræddi við A á staðnum, en vitnið kvaðst ekki hafa rætt við X þar. Hann gat ekkert borið um hugsanleg samskipti annarra sem þarna voru staddir við X. Hann mundi ekki hversu lengi hann dvaldi í [...], en það gæti hafa verið hálf til ein klukkustund. Hann kvaðst hafa farið ásamt ákærða, B, E og D, en vitnið kvaðst hafa ekið bifreiðinni sem þeir urðu samferða í.
B lýsti dvöl sinni á Glaumbar þessa nótt. Hann kvað sér hafa skilist að A hafi boðið þeim félögum heim til sín um nóttina. Þeir sem fóru þangað hafi verið C bróðir vitnisins, [...], D og einhverjir fleiri. Hann kvað A hafa verið kominn heim til sín fyrstan, en hann kvaðst halda að X hafi farið heim með A. Hann kvaðst hvorki muna eftir því að hafa rætt við A í [...] né X. Hann kvað C hafa ekið bifreið sem vitnið, ákærði, E og D urðu samferða í er þeir fóru á brott.
D lýsti því er hann var staddur á Glaumbar aðfaranótt 14. júlí 2000. Þar hitti hann A og X hafi einnig verið þar, en E kvaðst engin samskipti hafa haft við hana. Hann kvað þá B og D einnig hafa verið þarna og drukkið með vitninu. Um nóttina hafi A boðið í partí í [...], en A og X hafi farið á undan, en vitnið hafi farið í bifreið með C, ákærða, B og D. Hann kvað þá félaga hafa dvalið í um eina klukkustund á staðnum, en þeir hafi allir farið saman á brott í bifreið sem C ók, en vitnið kvaðst hafa farið úr bifreiðinni um leið og ákærði er þeir voru í [...], en þeir hafi báðir dvalið þar í sömu íbúð. Hann mundi ekki eftir því að hafa rætt við A eða X á staðnum. Hann kvaðst hvorugt hafa séð og vissi ekki hvort ákærði hafði einhver samskipti við X um nóttina.
Stefán Örn Guðjónsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti að A hafi einhvern tíma nefnt hótanir, sem hann hefði orðið fyrir í tengslum við mál þetta. Vitnið mundi ekki nánar eftir þessu. Vitnisburður hans er ekki til þess fallinn að varpa ljósi á málavexti og verður ekki rakinn frekar hér.
Niðurstaða
Fram kom hjá X að hún hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hún kom í [...] um nóttina. Ekki hefur verið upplýst með vissu um áfengisdrykkju hennar um kvöldið og um nóttina, en af því sem rakið hefur verið að framan er ljóst að hún neytti áfengis. Vitni báru að einhverjir gestanna sem komu um nóttina í [...] hafi farið inn í herbergi, þar sem X hafði lagst til svefns, og ýmist báru vitnin að rætt hafi verið við hana eða A. Vitnisburður að þessu leyti var óljós. Ákærði hefur borið að hann hafi farið þarna inn ásamt öðrum en orðið eftir og þá hafi hann haft samfarir við X, en með hennar samþykki.
Gegn neitun ákærða er ósannað að hann hafi verið annar mannanna sem fluttu X á milli herberja og höfðu við hana mök. X lýsti því að hún hafi vaknað við það er verið var að flytja hana á milli herbergja. Eftir það var hún vakandi og lýsing hennar á því sem síðar gerðist samrýmist því að um nauðgun hafi verið að ræða, en ekki brot gegn 196. gr. almennra hegningarlaga eins og ákært er fyrir. X hefur ekki lýst neinum samskiptum við ákærða, hvorki við skýrslugjöf hjá lögreglu né fyrir dómi. Hún hefur einungis lýst háttsemi mannanna tveggja sem báru hana á milli herbergja og höfðu við hana mök. Þessu lýsti hún einnig við skoðun á neyðarmóttöku daginn eftir, eins og rakið var. Bendir þetta til þess að hún hafi hvorki vitað af sér er ákærði hafði við hana samfarirnar né gert sér grein fyrir því sem gerðist sökum ástands síns.
Eins og lýst var er ósannað að ákærði hafi verið annar mannanna sem höfðu mök við X eftir að hafa flutt hana milli herbergja eins og hún lýsti. Er því framburður ákærða um það hvar samræðið átti sér stað lagður til grundvallar niðurstöðunni. Þessi niðurstaða fær einnig stoð í vitnisburði X um að hún hafi fyrst vitað af sér er hún var flutt á milli herbergja. Eins og rakið var er það álit dómsins að hún hafi hvorki vitað af sér er ákærði hafði við hana samfarirnar né gert sér grein fyrir því sem gerðist sökum ástands síns en ákærði kvaðst hafa verið ölvaður og ekki hafa verið dómbær á ástand X.
Teknar voru af ákærða þrjár lögregluskýrslur sem bera það með sér að þá hafi honum verið kynnt kæruefnið sem var rannsókn meints brots gegn 196. gr. almennra hegningarlaga. Í öll skiptin var þáverandi skipaður verjandi ákærða viðstaddur skýrslutökurnar. Eins og rakið hefur verið tók framburður ákærða breytingum allt til þess að hann játaði fyrir dómi að hafa haft samfarir við X, en með hennar samþykki. Skýringar ákærða á breyttum framburði, meðal annars sú skýring að hann hafi misskilið spurningar við skýrslutöku hjá lögreglu að verjanda sínum viðstöddum, eru ekki trúlegar. Þetta bendir eindregið til þess að ákærði hafi gert sér grein fyrir ástandi X er hann hafði við hana mök, en hann hafi ætlað að leyna því sem hann gerði þar til DNA-rannsóknin lá fyrir.
Ákærði bar að hann hafi verið ölvaður og ekki dómbær á ástand eins og rakið var. Hann greiddi henni hins vegar háa peningafjárhæð sem bendir eindregið til þess að ákærði hafi talið sig hafa gert eitthvað á hennar hlut, en ákærði hefur borið að greiðslan hafi verið án skilyrða. Að áliti dómsins er ekki um að ræða aðra skynsamlega skýringu fyrir peningagreiðslunni.
Að öllu ofanrituðu virtu telur dómurinn sannað með vitnisburði X, niðurstöðu DNA-rannsóknar og með játningu ákærða um samræðið, þótt hann neiti sök, og að virtum ótrúverðugum og breytilegum framburði ákærða og með öðrum gögnum málsins en gegn neitun ákærða, að hann hafi á þessum tíma haft samræði við X er ástand hennar var eins og í ákæru greinir og að hún hafi ekki sökum ölvunar og svefndrunga getað spornað við verknaðinum.
Brot ákærða varðar við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.
Ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu. Brot hans er alvarlegt og beindist gegn kynfrelsi X. Ljóst virðist að brotið hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir hana, þótt ráða megi af gögnum málsins að önnur tilvik, ákærða óviðkomandi, blandist þar nokkuð inn í. Ákærði hefur greitt X 1,5 milljónir króna eins og rakið var. Þótt ákærði hafi lýst því að peningagreiðslan hafi verið án skilyrða af sinni hálfu og þrátt fyrir að verjandi ákærða hafi haldið því fram undir rekstri málsins að greiðslan hafi ekki falið í sér viðurkenningu ákærða á því að hann hafi gerst brotlegur, þykir dóminum eftir atvikum rétt, með vísan til þess sem áður var rakið um peningagreiðsluna og hvernig beri að meta hana, að líta svo á að ákærði hafi með greiðslunni leitast við að bæta fyrir skaðlegar afleiðingar verknaðar síns, sbr. 8. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga. Er þetta virt ákærða til refsilækkunar.
Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 12 mánuði.
Kæra var lögð fram í málinu 14. júlí 2000. Rannsókn málsins var endanlega lokið og það sent ríkissaksóknara með bréfi dags. 25. mars 2002. Fyrir liggur að rannsókn málsins lá niðri mánuðum saman hjá lögreglu og átti ákærði þar ekki sök á. Dráttur á rannsókn málsins er ámælisverður og er í andstöðu við meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem kveðið er á um það að hraða skuli meðferð máls eftir föngum. Dráttur málsins hjá lögreglu er einnig andstæður 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994.
Fyrir liggur að hagir ákærða eru breyttir frá því að hann framdi brot sitt, en hann er nú í sambúð og með barn á framfæri.
Að öllu ofanrituðu virtu og sérstaklega hinum langa tíma sem liðinn er frá framningu brotsins þykir eftir atvikum rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða skilorðsbundið í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með taldar í 250.000 krónur í málsvarnarlaun til Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns.
Ragnheiður Harðardóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Hjördís Hákonardóttir og Logi Guðbrandsson.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Sigurður Ívar Másson, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með taldar 250.000 krónur í málsvarnarlaun til Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns.