Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2000
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Ökumannstrygging
- Gjafsókn
|
|
Mánudaginn 17. apríl 2000. |
|
Nr. 1/2000. |
Jómundur Ólason(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Jakob R. Möller hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Ökumannstrygging. Gjafsókn.
J, sem var við vinnu á dráttarvél, sem dró heybindivél, festi hægri hönd sína í heybindivélinni þegar hann gekk aftur með vélinni og hrasaði. Hann krafði vátryggingafélagið S um bætur úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt þágildandi 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrir tjón sitt. Talið var að sá þáttur í starfi J, að stíga niður af drátttarvélinni til að huga að búnaði heybindivélarinnar, hefði ekki lotið að stjórn dráttarvélarinnar sem vélknúins ökutækis í merkingu 92. gr. umferðarlaga. Þá væri einnig til þess að líta að meiðsl J hefðu orðið af völdum sérstaks vinnutækis, en ekki dráttarvélarinnar sem ökutækis. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að vátrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga hefði ekki tekið til tjóns J og að sýkna bæri S af kröfum J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. janúar 2000. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmur til að greiða sér 23.741.235 krónur með 2% ársvöxtum af 18.838.114 krónum frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 23.741.235 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann 21.622.875 króna með 2% ársvöxtum af 16.719.784 krónum frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en dráttarvöxtum af 21.622.875 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst hann 15.162.709 króna með 2% ársvöxtum af 10.259.618 krónum frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en dráttarvöxtum af 15.162.709 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst hann 13.086.739 króna með 2% ársvöxtum af 8.183.648 krónum frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en dráttarvöxtum af 13.086.739 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem rakið er í héraðsdómi á ágreiningur málsaðila rætur að rekja til slyss, sem áfrýjandi varð fyrir 17. september 1997. Ók hann í umrætt sinn dráttarvél, sem dró heybindivél, en búnaður hennar var tengdur aflvél dráttarvélarinnar. Þegar áfrýjandi hafði stöðvað dráttarvélina og gengið aftur með heybindivélinni hrasaði hann og festi hægri hönd sína í henni með þeim afleiðingum að handlegginn tók af neðan við öxl. Krefur hann stefnda um bætur á grundvelli þeirrar vátryggingar, sem ökumaður naut samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eins og það ákvæði hljóðaði fyrir breytingu með 2. gr. laga nr. 32/1998. Er málsástæðum aðila, svo og afleiðingum slyssins nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Vátrygging samkvæmt þágildandi 92. gr. umferðarlaga tók til ökumanns, er stjórnaði skráningarskyldu vélknúnu ökutæki. Áfrýjandi varð fyrir slysinu þegar hann hafði stigið niður af dráttarvélinni til að huga að búnaði heybindivélarinnar. Sá þáttur í starfi hans laut ekki að stjórn dráttarvélarinnar sem vélknúins ökutækis í merkingu 92. gr. umferðarlaga. Þá er einnig til þess að líta að meiðsl áfrýjanda urðu af völdum sérstaks vinnutækis, en ekki dráttarvélarinnar sem ökutækis. Getur þá ekki ráðið úrslitum að aflvél hennar var jafnframt nýtt til að knýja það tæki, sem tjóninu olli. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að vátrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga hafi ekki tekið til tjóns áfrýjanda. Verður héraðsdómur samkvæmt því staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað og gjafsóknarlaun.
Hvor aðili skal bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti er ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jómundar Ólasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal þóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 1999.
Mál þetta, sem er höfðað er með stefnu, þingfestri 29. apríl síðastliðinn, var dómtekið var 7. þessa mánaðar að loknum munnlegum málflutningi, en endurupptekið og dómtekið að nýju 20. sama mánaðar.
Stefnandi er Jómundur Ólason, kt. 180859-3659, Skarðshömrum, Borgarbyggð.
Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
Aðalkrafa: að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 23.451.835 kr. með 2% ársvöxtum af 18.838.144 kr. frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en með dráttarvöxtum af 23.451.835 kr. samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
l. varakrafa: að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 21.622.875 kr. með 2% ársvöxtum af 16.719.784 kr. frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en með dráttarvöxtum af 21.311.475 kr. samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
2. varakrafa: að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 15.162.709 kr. með 2% ársvöxtum af 10.259.618 kr. frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en með dráttarvöxtum af 14.873.309 kr. samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
3. varakrafa: að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 13.086.739 kr. með 2% ársvöxtum af 8.183.648 kr. frá 17. september 1997 til 29. apríl 1999, en með dráttarvöxtum af 12.797.339 kr. samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að verða sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá krafðist stefndi upphaflega til vara lækkunar á stefnukröfum vegna eigin sakar stefnanda og niðurfellingar málskostnaðar, en féll frá þeirri kröfu eftir skýrslu stefnanda við aðalmeðferð málsins.
I.
Málsatvik
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Borgarnesi barst henni tilkynning kl. 19.20 að kvöldi 17. september 1997 um, að maður hefði misst handlegg í vinnuslysi við bæinn Hraunsnef í Norðurárdal. Í skýrslunni kemur fram, að hinn slasaði, stefnandi í máli þessu, hefði verið við heyskap á engjum niður við Norðurá, ásamt Elvari, bróður sínum. Hafi stefnandi verið á dráttarvélinni ZO-530, sem var með Deutz-Fahr heybindivél driftengda aftan í sér, og verið að binda heyrúllur. Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir áðurnefndan bróður stefnanda. Í skýrslunni er haft eftir honum, að um kl. 19.00 hafi hann verið á dráttarvél skammt frá stefnanda, er hann hafi skyndilega séð, hvar stefnandi lá á jörðinni og veifaði til hans. Hafi hann strax farið til stefnanda, sem hafi legið skammt frá dráttarvélinni ZO-530, og þá séð, að hann hafði misst hægri handlegginn. Hafi stefnandi skýrt honum frá því, að hann hefði farið úr dráttarvélinni og verið að lagfæra bandið á heybindivélinni, er hann hefði hrasað og lent með peysuna í bindivélinni. Hefði handlegginn dregist inn í vélina, þar til hann brotnaði af ofan við olnboga. Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins um slysið segir, að stefnandi hafi greint sinn farið út úr dráttarvélinni og upp á beisli rúllubindivélarinnar, til að athuga hana eða til að laga bindigarn. Hafi hann hrasað og peysa hans lent í rúllubindivélinni og hægri handleggur hans dregist inn í vélina, þar til hann brotnaði af ofan við olnboga. Engar athugasemdir voru gerðar við vélina af hálfu vinnueftirlitsins og var allur hlífðarbúnaður hennar í lagi.
Fyrir dómi skýrði stefnandi hins vegar svo frá, að hann hefði heyrt hávaða greint sinn, farið út úr dráttarvélinni og aftur fyrir rúllubindivélina. Taldi stefnandi, að hljóðin hefðu sennilega stafað frá steinum í völsum vélarinnar. Kvaðst stefnandi hafa hlaupið við fót meðfram vélinni, en hrasað og brugðið hendinni fyrir sig. Við það hefði peysan, sem hann var í, fest í nálunum eða garninu [í heybindivélinni]. Hefði stefnandi reynt að slíta hana út, en það ekki tekist, fyrr en hann hefði brotið hana af.
Ekki reyndist unnt að græða handlegginn á. Stefnandi var til endurhæfingarmeðferðar fram til mánaðarmóta nóvember/desember 1997. Í mars 1998 fékk hann gervihandlegg, sem nýtist þó einungis að takmörkuðu leyti, en stefnandi er rétthentur. Stefnandi var skráður eigandi dráttarvélarinnar. Hún var tryggð hinum lögboðnu tryggingum samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 hjá stefnda. Samkvæmt álitsgerð örorkunefndar frá 23. mars 1999 gat stefnandi ekki vænst frekari bata af afleiðingum slyssins eftir l. október 1998. Var hann talinn hafa hlotið 65% varanlegan miska og 75% varanlega örorku af völdum slyssins. Stefndi hefur ekki viðurkennt bótaskyldu.
Með bréfi, dagsettu 6. maí 1998, var stefnanda veitt gjafsókn til reksturs málsins.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því, að slysið hafi orðið við stjórn ökutækis í skilningi 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt 2. gr. umferðarlaga sé dráttarvél vélknúið ökutæki, sem aðallega sé hannað til að draga annað ökutæki og draga, ýta, flytja og knýja vinnutæki og sé á hjólum og/eða beltum. Náin tengsl séu þannig milli vinnutækis og dráttarvélar og milli notkunar dráttavélar og notkunar vinnutækis, sem er tengt henni. Skipti þá ekki síst máli, að heybindivélin, sem stefnandi slasaðist við, hafi verið knúin áfram af vélarafli dráttarvélarinnar. Þá er bent á, að stjórnenda ökutækis beri lögum samkvæmt að halda tækjum því tengdu í góðu ástandi, sbr. 3. mgr. 59. gr. umferðarlaga. Það sé því ljóst, að slysið hafi orðið, er stefnandi sinnti lögboðnum skyldum sínum sem stjórnandi dráttarvélarinnar og þar af leiðandi verið við stjórn hennar í skilningi 92. gr. umferðarlaga. Stefnandi sé af þessum sökum, sem vátryggjandi dráttarvélarinnar, bótaskyldur gagnvart stefnanda.
2. Fjárhæð bóta.
Stefnandi byggir kröfugerð sína á skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996. Krafist er bóta fyrir þjáningar, miska, tímabundið tekjutap, varanlega örorku og annað fjártjón. Allar bótafjárhæðir taki mið af lánskjaravísitölu á þingfestingardegi (3661). Munur á aðalkröfu og 1. og 2. varakröfu skýrist af mismunandi kröfum um bætur fyrir varanlega örorku.
2.1. Þjáningar.
Krafist er bóta fyrir þjáningar frá slysdegi til 1. október 1998.Stefnandi hafi frá slysdegi þjáðst af þrálátum verkjum, m.a. slæmum draugaverkjum, sem hafi verið meðhöndlaðir með lyfjum, raförvun og deyfingum, án sjáanlegs bata. Þessir verkir hrjái stefnanda enn og leiði til þess, að hann teljist hafa verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga allt fram til l. október 1998. Þann 15. mars 1998 hafi stefnandi fengið gervihandlegg og sé litið svo á, að hann hafi verið rúmliggjandi fram til þess tíma. Krafa um þjáningabætur meðan stefnandi var rúmliggjandi (185 dagar x kr. 1.450) nemi 268.250 kr. Krafa um þjáningabætur, meðan stefnandi var veikur, en ekki rúmliggjandi (195 dagar x kr. 780), nemi 152.100 kr. Samtals nemi krafa um þjáningabætur því 420.350 kr.
2.2. Varanlegur miski.
Krafa um bætur fyrir varanlegan miska miðist við mat örorkunefndar, 65%. Krafa um bætur fyrir varanlegan miska nemi skv. þessu (65% x 4.462.000) 2.900.300 kr.
2.3. Tímabundið tekjutjón.
Ekki hafi farið fram mat á tímabundinni óvinnufærni stefnanda, en krafa um bætur fyrir tímabundið tekjutjón miðist við, að stefnandi hafi verið óvinnufær að öllu leyti fram til þess tíma, þegar hann gat ekki vænst frekari bata af afleiðingum slyssins, þ.e. fram til 1. október 1998. Mótmæli stefndi þessu, byggir stefnandi á því, að sönnunarbyrðin um hið gagnstæða hvíli á stefnda.
Bótakrafa stefnanda fyrir tímabundið tekjutjón byggir á meðaltalstekjum. Stefnandi hafi lagt stund á sjálfstæðan búrekstur, og sé ljóst, að hann hafi orðið fyrir tímabundnu tekjutjóni. Um það sé vísað til hruns á tekjum stefnanda af rekstrinum eftir slysið. Um þær tekjur vísist til sérstakra yfirlita meðfylgjandi skattframtölum áranna 1994 -1999. Á árinu 1998 verði megnið af tekjum stefnanda rakið til óreglulegra tekna í formi styrks til úreldingar á mjólkurframleiðslu. Sé litið fram hjá þeim styrk og öðrum óreglulegum tekjum (söluhagnaði) séu rekstrartekjur ársins 1998 3.029.896 kr., meðan rekstrargjöld séu 7.117.545 kr., eða nettótap upp á 4.087.649 kr. Árið, sem slysið átti sér stað, 1997, hafi nettótap stefnanda af búrekstrinum verið 1.505.599 kr. Árin fyrir slys, þ.e. 1996, 1995, 1994 og 1993, hafi stefnandi hins vegar haft hagnað af búrekstrinum. Nettótekjurnar þessi ár hafi í sömu röð verið 127.645 kr., 82.284 kr., 1.186.952 kr., 374.705 kr., eða að jafnaði 442.897 kr. Engin ástæða sé til að ætla annað, en rekstrarafkoma stefnanda af búrekstrinum hefði orðið sambærileg árin 1997 og 1998 og verið hafði fram að þeim tíma, hefði slysið ekki átt sér stað. Það leiði til þess, að stefnandi eigi rétt á bótum fyrir tímabundið tekjutjón á árinu 1997, að fjárhæð 1.948.496 kr., sem sé nettótap ársins 1997, að viðbættum meðalnettóhagnaði undangenginna ára (1.505.599 kr. + 442.897 kr.). Stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata vegna afleiðinga slyssins þann 1. október 1998 og eigi hann því rétt á bótum fyrir tímabundið tekjutjón 2/3 hluta ársins 1998. Fjárhæð bóta vegna þess tímabils sé 2.315.195 kr., eða 2/3 hlutar nettótaps ársins 1998, að viðbættum meðalnettóhagnaði áranna fyrir slys (2/3 af 3.029.896 kr. + 442.897 kr.). Heildarkrafa stefnanda um bætur fyrir tímabundið tekjutjón nemi þannig 4.263.691 kr.
2.4. Varanleg örorka.
Kröfur stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku miðist í aðalkröfu, 1. varakröfu og 3. varakröfu við mat örorkunefndar, þ.e. 75%. Í 2. varakröfu er byggt á mati örorkunefndar á varanlegum miska, þ.e. 65%. Stefnandi hafi verið 38 ára, er hann slasaðist. Bótaskerðing vegna aldurs, sbr. 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga, sé því í öllum tilvikum 13%. Aðalkrafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku taki mið af reiknuðu endurgjaldi hans vegna búrekstursins árið fyrir slys, að viðbættri þeirri duldu verðmætaaukningu, sem fólst í rétti hans til að krefjast styrks til úreldingar mjólkurframleiðslu sinnar. Reiknað endurgjald stefnanda af búrekstrinum árið 1996, en aðalkrafa stefnanda er miðuð við það, hafi verið 674.856 kr. Þar að auki sé rétt að líta svo á, að úreldingarréttur stefnanda séu tekjur, sem hafi orðið til yfir árabilið frá því ákvæði um slíkan rétt voru fyrst tekin í lög (lög nr. 112/1992), er tekið hafi gildi í árslok 1992) og þangað til stefnandi seldi úreldingarréttinn vorið 1998 fyrir 17.403.662 kr. Eins og sjá megi í fylgigögnum með skattframtali 1999 teljist einungis helmingur þeirrar greiðslu til tekna, en hinn helmingur afrakstur af sölu eignar. Tekjur, sem jafnist yfir tímabilið ársbyrjun 1993 til loka apríl 1998, séu því 8.701.831 kr., sem geri 1.631.593 kr. á ári. Tekjur á árinu 1996 teljist samkvæmt þessu hafa verið 2.306.449 kr. Við þetta bætist svo 10.000 kr. tekjur frá Sparisjóði Mýrasýslu árið 1996. Heildartekjur árið 1996 séu því 2.316.449 kr. Að teknu tilliti til vísitöluuppfærslu samkvæmt 2. mgr. 1 gr. skaðabótalaga verði tekjuviðmið samkvæmt 7. gr. laganna, miðað við þessar forsendur, samtals 2.378.160 kr. (3661/3566 x 2.316.449 kr.). Þar sem hér sé miðað við tekjur af sjálfstæðum búrekstri, sé ekki gerð krafa um 6% framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Aðalkrafa um bætur fyrir varanlega örorku sé þannig samkvæmt reiknireglu 6. gr. skaðabótalaganna 17.836.200 kr. (2.378.160 kr. x 10 x 75%) og að teknu tilliti til aldursskerðingar samtals 15.517.494 kr.
l. varakrafa.
Fallist dómurinn ekki á tekjuviðmiðun í aðalkröfu sé byggt á því, að leggja eigi til grundvallar meðaltekjur iðnaðarmanna. Ástæða þess sé sú, að stefnandi hafi lagt stund á sjálfstæðan búrekstur, sem lúti flóknum reglum og sæti verulegum afskiptum hins opinbera, njóti styrkja og byggist á framleiðslustýringu, sem dylji að miklu leyti raunverulega tekjusköpun í atvinnurekstrinum. Þar fyrir utan sé bent á, að ýmislegt hagræði fylgi búsetu í sveit, sem ekki komi fram í tekjum á skattframtali. Það sé t.d. ljóst, að fólk, sem hafi með höndum búskap, framleiði til eigin þarfa ýmis matvæli, og sé sjálfu sér nægilegt um mun fleiri aðföng til heimilisins, heldur en venjulegur launamaður í þéttbýli. Framangreindar aðstæður víki frá því, sem almennt tíðkist, og heimili, að vikið sé frá viðmiðunartekjum árið fyrir slys, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Meðaltekjur iðnaðarmanna á slysdegi hafi verið 1.887.000 kr. Að teknu tilliti til vísitöluhækkunar og skyldu vinnuveitanda að inna af hendi 6% mótframlag í lífeyrissjóð, verði tekjuviðmið 2.053.507 kr. (3661/3566 x 1.887.000 kr. x 106%). 1. varakrafa um bætur fyrir varanlega örorku sé þannig samkvæmt reiknireglu 6. gr. skaðabótalaganna 15.401.303 kr. (2.053.507 kr. x 10 x 75%) og að teknu tilliti til aldursskerðingar samtals 13.399.134 kr.
2. varakrafa.
Vilji dómurinn ekki fallast á forsendur í aðalkröfu og 1. varakröfu er byggt á því, að stefnandi falli undir reglu 8. gr. skaðabótalaga. Byggist það á þeirri sérstöðu, sem felist í búrekstri. Slíkur rekstur leiði ekki til mikilla beinna vinnutekna í formi reiðufjár, heldur feli í sér hagræði um öflun aðfanga, sem fólk í þéttbýli þurfi jafnan að afla gegn greiðslu í reiðufé. Fallist dómurinn því ekki á aðalkröfu og l. varakröfu, sé í versta falli ljóst, að aðstæður stefnanda leiði til þess, að hann verði felldur undir ákvæði 8. gr. skaðabótalaga. Krafa um bætur vegna þessa sé samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laganna 7.975.825 kr. (2.900.300 kr. x 275%) og að teknu tilliti til aldursskerðingar samtals 6.938.968 kr.
3. varakrafa.
Fallist dómurinn ekki á neina framangreindra krafna um bætur fyrir varanlega örorku er byggt á því, að stefnandi eigi rétt til bóta miðað við reiknað endurgjald af búrekstri hans árið 1996, þ.e. 674.856 kr., að viðbættum 10.000 kr. í tekjum frá Sparisjóði Mýrasýslu, samtals 684.856 kr. Tekjuviðmiðun með vísitölubótum og tillagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð verði samkvæmt þessu 745.287 kr. Krafa um bætur samkvæmt þessu verði því 5.589.653 kr. (745.287 kr. x 10 x 75%) og að teknu tilliti til aldursskerðingar samtals 4.862.998 kr.
2.5. Annað fjártjón.
Ljóst sé, að slysið hafi valdið stefnanda margvíslegum útgjöldum, sem hafi ekki fengist bætt. Hér megi nefna lækniskostnað, lyfjakostnað, kostnað vegna gervilims, kostnað vegna endurhæfingar og sjúkraþjálfunar, kostnað vegna langra ferða til og frá meðferðaraðilum. Varlega áætlaður sé þessi kostnaður 350.000 kr., og er gerð krafa um greiðslu þeirrar fjárhæðar.
Krafist er 2% vaxta af bótum fyrir þjáningar, miska og varanlega örorku frá slysdegi til þingfestingardags, sbr. 16. gr. skaðabótalaga. Þá er krafist dráttarvaxta af öllum kröfuliðum frá þingfestingardegi sbr. 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 4. gr. laga nr. 67/1989.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Aðalkröfu um sýknu byggir stefndi á því, að í 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, eins og hún var á slysdegi, komi fram, að vátrygging samkvæmt þeirri grein gildi fyrir hvern ökumann, sem tækinu stjórnar, og að hún skuli tryggja bætur vegna slyss, sem ökumaður kann að verða fyrir við starfa sinn. Í dómaframkvæmd hafi Hæstiréttur staðfest þann skilning, að trygging samkvæmt 92. gr. taki til slysa, sem stafa af notkun skráningarskylds ökutækis í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, sbr. H 1995.856, H 1995.1727 og H 1997.3287. Samkvæmt því verði, við ákvörðun um rétt til bóta úr tryggingu samkvæmt 92. gr., að leggja dóm á það, hvort slysatvik hafi stafað af notkun dráttarvélarinnar í skilningi 1. mgr. 88. gr. Stafi slysið ekki af notkun í þeim skilningi, sé ekki um bótaskyldu að ræða. 88. gr. umferðarlaga nái einvörðungu til notkunar skráningarskyldra ökutækja, þ.m.t. dráttarvéla, en ekki til vélknúinna vinnuvéla eða annarra tækja, sem við þau eru tengd og sérbúnaðar þeirra. Gildi það, hvort heldur aflvél kyrrstæðrar dráttarvélar er aflgjafi vinnutækisins, eða annars konar aflvél.
Stefnandi hafi slasast af völdum heybindivélarinnar, án þess að það væri tengt nokkru því, sem varðaði stjórnun dráttarvélarinnar. Hafi slysið ekki hlotist af dráttarvélinni sjálfri, búnaði hennar, drifskafti eða tengibúnaði milli dráttarvélarinnar og heybindivélarinnar, heldur af búnaði heybindivélarinnar. Hættueiginleikar dráttarvélarinnar sem ökutækis og dráttartækis hafi þannig engan þátt átt í slysinu. Sé slys stefnanda í þeim tengslum einum við dráttarvélina, að hún var aflgjafi heybindivélarinnar. Dráttarvélin sjálf, sem hafi verið kyrrstæð, er slysið varð, eða búnaður hennar, hafi að öðru leyti ekki komið við sögu. Hafi slysið því ekki stafað af notkun dráttarvélarinnar í skilningi 88. gr. umferðarlaga, heldur hafi hún verið sem hver annar aflgjafi fyrir heybindivélina. Tengist athugun eða lagfæring bindigarns heybindivélar ekki þeim starfa ökumanns að stjórna ökutæki í skilningi 92.gr. umferðarlaganna. Slysið hafi hins vegar tengst sérstökum útbúnaði bindivélarinnar sem slíkrar. Heybindivélin sé sjálfstætt vinnutæki, en ekki hluti dráttarvélarinnar. Þetta megi sjá glöggt af 2. gr. umferðarlaga, en þar sé tekið fram, að dráttarvél sé ,,vélknúið ökutæki, sem aðallega sé hannað til að draga annað ökutæki og draga ýta, flytja og knýja vinnutæki og er á hjólum og/eða beltum.” Skýr greinarmunur sé því gerður á dráttarvélinni sjálfri og því vinnutæki, sem hún sé hönnuð til að draga, ýta, flytja og knýja. Hvergi komi fram í gögnum málsins, að það hafi verið dráttarvélin, sem hafi valdið því, að stefnandi hrasaði og lenti í bindivélinni. Hafi slysið verið óhappatilvik, sem tengist á engan hátt dráttarvélinni og notkun hennar sem ökutækis.
Þeirri málsástæðu stefnanda, að stefnandi hafi verið að sinna lögboðnum skyldum sínum samkvæmt 3. mg. 59. gr. umferðarlaga, er mótmælt. Greinin beri það með sér, að tilgangur hennar sé, að ökumaður sjái til þess, að ökutæki sé þannig búið, að það skapi ekki hættu í umferðinni. Samkvæmt greininni skuli sérstaklega gæta að því, að stýrisbúnaður, hemlar, merkjatæki og ljósabúnaður séu í lögmæltu ástandi og virki örugglega, og sé tekið fram, að það sama eigi við um eftirvagna og tengitæki, svo og tengingu þeirra og tengibúnað. Athugun heybindivélar eða bindigarns í henni falli augljóslega ekki undir 3. mgr. 59. gr.
Þjáningabætur. Eigi stefnandi rétt til bóta, sé ljóst, að þar á meðal séu þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Kröfu stefnanda um þjáningabætur fyrir 185 daga rúmliggjandi er mótmælt. Sjúkrahúsvist og meðferð á Reykjalundi hafi lokið 30. nóvember 1997, það er 74 dögum eftir slys. Eftir þann tíma geti stefnandi ekki hafa talist rúmliggjandi, þrátt fyrir að hann hafi ekki fengið gervihandlegg, fyrr en 15. mars 1998. Eigi þá stefnandi rétt á þjáningabótum sem rúmliggjandi í 74 daga, þ.e. 1.450 kr. x 74 = 107.300, og þjáningabótum sem veikur, án þess að vera rúmliggjandi, í 306 daga, þ.e. 780 kr. x 306 = 238.680. Alls næmu þá þjáningabætur 345.980 kr. Bæri þá og að lækka þjáningabætur samkvæmt 3. málsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem þjáningabætur samkvæmt þessum útreikningi fari fram úr marki 3. málsliðar 1. mgr. 3. gr.
Tímabundið atvinnutjón. Útreikningi stefnanda á tímabundnu atvinnutjóni er mótmælt. Með tímabundnu atvinnutjóni í 2. gr. skaðabótalaga, sé átt við tímabundinn missi á launatekjum eftir slys, ekki sé átt við bætur vegna minnkaðra tekna í eigin atvinnurekstri. Ekki verði séð af skattframtölum, að reiknað endurgjald stefnanda vegna eigin atvinnureksturs á árunum 1997 og 1998, hafi vikið í miklum mæli frá því, sem það hafi verið á árunum fyrir slysið. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á tímabundið atvinnutjón, og þar sem hann beri sönnunarbyrði fyrir umfangi tjóns síns, beri að sýkna af þessum kröfulið.
Varanleg örorka. Samkvæmt því, sem fram komi í álitsgerð örorkunefndar, hafi stefnandi stundað búskap allt frá árinu 1980, eða um 18 ára skeið. Stefnandi hafi því stundað sjálfstæðan atvinnurekstur þennan tíma. Tekjur hans hafi því verið af tvennum toga, annars vegar reiknuð laun af atvinnu við búskapinn og hins vegar tekjur af atvinnurekstrinum sjálfum, þar á meðal tekjur atvinnurekstursins, sem mynduðust af vinnu annarra, sem við búskapinn kunna að hafa unnið. Þetta verði að hafa í huga, þegar kröfugerð stefnanda er athuguð. Ekki megi blanda saman einkatekjum stefnanda sjálfs og tekjum hins sjálfstæða atvinnureksturs. Jafnframt verði að hafa í huga, að verðmætamyndun, sem fólst í uppsöfnuðum rétti til úreldingar mjólkurframleiðslu, hafi orðið á öllum tímanum frá 1980, þótt ákvæði um úreldingarréttinn sjálfan tækju ekki gildi, fyrr en frá árinu 1992. Einnig gildi um þessa verðmætamyndun hið sama og aðrar tekjur af hinum sjálfstæða atvinnurekstri, hún kunni að hafa myndast vegna vinnuframlags annarra við búið, og verði þá ekki litið á hana sem einkatekjur stefnanda sjálfs í skilningi 7. gr. skaðabótalaga.
Aðalkröfu stefnanda vegna varanlegrar örorku er mótmælt og vísað til þess, er að framan greinir. Þegar varanleg örorka er metin skuli leggja til grundvallar árslaun tjónþola. Með árslaunum sé átt við heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag, sem tjón varð, sbr. 7. gr. skaðabótalaga. Hér eigi við sama röksemd og áður um tímabundið atvinnutjón, þ.e. ekki beri að leggja til grundvallar tekjur í atvinnurekstrinum sjálfum.
Fyrstu varakröfu stefnanda er einnig mótmælt. Stefnandi sé ekki iðnmenntaður, hafi ekki starfað við slík störf, né verið líklegur til slíkra starfa í framtíðinni, áður en slysið varð, og styðjist ekki við nein rök að miða við meðaltekjur iðnaðarmanna við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku. Væri nær að miða við meðaltekjur bænda, án tillits til úreldingarréttar.
Stefnandi telur, að búsetu í sveit og búskap fylgi dulið hagræði, sem ekki komi fram á skattframtölum. Jafnvel þótt slíkt dulið hagræði væri viðurkennt, sé ekki þar með sagt, að það eigi einhliða að reiknast til hækkunar tekna, enda sé í rökstuðningi stefnanda ekki tekið tillit til þess, að á móti þessu dulda hagræði, gæti jafnframt komið óhagræði, sem stafi af búsetu í dreifbýli.
Annarri varakröfu er mótmælt. Samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga verði greininni beitt um börn og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig, að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur. 8. gr. skaðabótalaga eigi því ekki við um stefnanda. Samkvæmt framlögðum skattframtölum fyrir árin 1993 -1998 hafi stefnandi haft atvinnutekjur.
Í þriðju varakröfu stefnanda sé réttilega miðað við reiknað endurgjald af búrekstri, auk tekna frá Sparisjóði Mýrasýslu. Stefnandi eigi þó ekki rétt á því, að til viðbótar tekjum eigi að reiknast mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð, þar sem um sjálfstæðan atvinnurekstur stefnanda sé að ræða og gögn málsins beri það ekki með sér, að þetta mótframlag hafi áður verið greitt.
Annað fjártjón. Kröfu stefnanda um annað fjártjón er mótmælt. Um ýmsa þá liði, sem stefnandi tilgreini, sé augljóst, að auðveldlega hefði mátt leggja fram reikninga til sönnunar tjóni, en það hefur stefnandi ekki gert. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar megi vera, að stefnandi eigi rétt á nokkrum bótum fyrir annað fjártjón samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga, en 350.000 kr. séu fjarri lagi.
Að lokum krefst stefndi þess, að dráttarvextir verði ekki lagðir á, fyrr en frá dómsuppsögudegi, sbr. 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Stefnandi krefst bóta úr hendi stefnda úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Áður en lagagreininni var breytt með lögum nr. 32/1998, er tóku gildi 1. júlí 1998, var hún orðuð þannig, að slysatryggingin gilti fyrir hvern ökumann, sem tækinu stjórnaði og skyldi vátryggingin tryggja bætur vegna slyss, sem ökumaður kynni að verða fyrir við starfa sinn. Hefur Hæstiréttur skýrt umrætt lagaákvæði þannig, að tryggingin taki til tjóns, sem ökumaður verður fyrir við stjórnun ökutækis og jafnframt, að slysið verði rakið til notkunar ökutækisins í skilningi 1. mgr. 88. gr. laganna, sbr. dóma réttarins 23. mars 1995 í máli nr. 369/1992, 15. júní sama ár í máli nr. 11/1993, 13. nóvember 1997 í máli nr. 47/1997 og 21. október 1999 í máli nr. 116/1999.
Aðilar eru sammála um að leggja skýrslu stefnanda fyrir dómi til grundvallar um atvik að slysinu. Samkvæmt henni var aðdragandi þess sá, að stefnandi heyrði einhvern hávaða greint sinn frá heybindivélinni, sem tengd var drifskafti dráttarvélarinnar. Hljóp stefnandi við fót meðfram vélinni, en hrasaði og brá fyrir sig hendinni. Við það festist peysa, sem hann klæddist, í nálum eða garni ofan á heybindivélinni með þeim afleiðingum, er að framan greinir.
Samkvæmt 2. gr. umferðarlaga er dráttarvél vélknúið ökutæki, sem aðallega er hannað til að draga annað ökutæki og draga, ýta, flytja og knýja vinnutæki og er á hjólum og/eða beltum.
Til þess að bótaábyrgð verði lögð á stefnda samkvæmt framansögðu þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt; annars vegar, að stefnandi hafi verið við stjórn dráttarvélarinnar og hins vegar, að slysið verði rakið til notkunar hennar í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga.
Ekki verður fallist á með stefnanda, að hann hafi umrætt sinn verið að sinna því lögboðna hlutverki sínu sem ökumanns samkvæmt 3. mgr. 59. gr. umferðarlaga að gæta að því, að ökutækið væri í góðu ástandi, enda laut athugun stefnanda ekki að stjórntækjum dráttarvélarinnar sem ökutækis eða öðrum útbúnaði hennar, heldur að sérstökum búnaði heybindivélarinnar. Verður því ekki talið, að slysið verði rakið til lögboðinna skyldna stefnanda sem ökumanns dráttarvélarinnar.
Dráttarvélin var kyrrstæð og ekki í notkun að öðru leyti, en að hún var aflgjafi fyrir heybindivélina. Áttu hinir sérstöku hættueiginleikar dráttarvélarinnar sem vélknúins ökutækis þannig engan þátt í slysinu, heldur hlaust það af sérbúnaði heybindivélarinnar.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður falli niður.
Allur gjafsóknarkostnaður málsins, þar með talin laun lögmanns stefnanda, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl., sem eru hæfilega ákveðin 450.000 krónur, og útlagður kostnaður, 88.271 króna, eða samtals 538.271 króna, greiðist úr ríkissjóði.
Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Jómundar Ólasonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 538.271 króna, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl., 450.000 krónur.