Hæstiréttur íslands
Mál nr. 229/2000
Lykilorð
- Þjófnaður
- Tilraun
- Fíkniefnalagabrot
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
- Reynslulausn
|
|
Fimmtudaginn 26. október 2000. |
|
Nr. 229/2000. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Garðari Garðarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Tilraun. Fíkniefnalagabrot. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Reynslulausn.
G var ákærður fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar og fíkniefnalagabrot í tveimur málum, sem sameinuð voru fyrir Hæstarétti. Um var að ræða ítrekuð brot og rof á skilorði reynslulaunsar. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu staðfest, en refsingin þyngd og G, sem er vanaafbrotamaður, dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut til Hæstaréttar með stefnu 29. maí 2000 dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar sama árs, þar sem ákærði var dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú ár, og með stefnu 13. júní 2000 dómi Héraðsdóms Suðurlands 7. apríl sama árs, þar sem ákærði var dæmdur í sex mánaða fangelsi. Var það gert í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds. Hafa málin verið sameinuð fyrir Hæstarétti. Af hálfu ákæruvalds er krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing samkvæmt héraðsdómum verði milduð. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfum, sem hann var dæmdur til að greiða í héraði, verði vísað frá héraðsdómi.
Málið, sem lokið var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2000, var höfðað á hendur ákærða með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 26. október 1999. Ákærða var þar gefið að sök að hafa brotið gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa stolið nánar tilgreindum munum 23. apríl 1999 á Hótel Loftleiðum í Reykjavík og 2. júní sama árs á bensínstöð Olíufélagsins hf. við Borgartún í Reykjavík, svo og að hafa brotið gegn sama ákvæði, sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga, með tilraun til þjófnaðar 18. mars 1999 í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð í Reykjavík. Þá var ákærða jafnframt gefið að sök fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 2. júní 1999 3,31 g af hassi og 6,06 g af amfetamíni. Með vísan til forsendna héraðsdómsins verður staðfest niðurstaða hans að sakfella ákærða fyrir öll þessi brot önnur en vörslur á 3,31 g af hassi, þó þannig að í samræmi við ákæru tekur sakfelling ákærða vegna varslna á amfetamíni til 6,06 g, en ekki 6,6 g eins og misritast hefur í forsendum dómsins.
Málið á hendur ákærða, sem var dæmt í Héraðsdómi Suðurlands 7. apríl 2000, var höfðað með ákæru sýslumannsins á Selfossi 8. desember 1999. Ákærða voru þar gefin að sök brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa stolið nánar tilgreindum verðmætum 28. júlí 1999 úr íbúðarherbergi að Eyravegi 37 á Selfossi og húsakynnum Verkfræðistofu Suðurlands að Austurvegi 3-5 á Selfossi og á tímabilinu frá 26. til 30. sama mánaðar úr húsi að Þelamörk 60 í Hveragerði. Ákærði var þar einnig borinn sökum um brot gegn sama lagaákvæði, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa gert tilraun til þjófnaðar 28. júlí 1999 í húsakynnum Húsasmiðjunnar hf. að Eyravegi 37 á Selfossi, svo og fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 13. ágúst sama árs nánar tilgreint magn af kókaíni, hassi og tóbaksblönduðu hassi. Með héraðsdóminum var ákærði sýknaður af sakargiftum um þjófnað að Þelamörk 60 og fíkniefnalagabrot, en sakfelldur að öðru leyti samkvæmt ákæru. Ákæruvaldið unir við þá niðurstöðu. Með vísan til forsendna héraðsdómsins verður hún staðfest.
Áður en ákærði framdi þau brot, sem að framan greinir, hafði hann 18 sinnum hlotið dóm hér á landi meðal annars fyrir skjalafals, auðgunarbrot, nytjastuld og umferðarlagabrot. Síðast var ákærði dæmdur hér á landi með dómi Hæstaréttar 3. desember 1992 fyrir þjófnað og umferðarlagabrot. Í ellefu skipti hafði hann gengist undir sátt fyrir vopnalagabrot, umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot, þjófnað og nytjastuld. Ákærði var dæmdur í Þýskalandi 20. janúar 1989 til að sæta fangelsi í eitt ár og tíu mánuði fyrir hegningarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Þá hlaut hann þrjá dóma í Danmörku á árunum 1993 og 1994 fyrir ýmis hegningarlagabrot, þar á meðal auðgunarbrot, og vopnalagabrot, en með þeim dómum var ákærða gert að sæta fangelsi í samtals fimm ár og níu mánuði. Hinn 23. nóvember 1998 var ákærða veitt reynslulausn í þrjú ár á eftirstöðvum refsingar, samtals 931 dags fangelsi, samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar 3. desember 1992 og tveimur dönskum dómum frá 1994. Með brotunum, sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli, rauf hann skilyrði reynslulausnar og verður honum því nú gerð refsing í einu lagi, sbr. 1. mgr. 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Umræddur dómur Hæstaréttar og dönsku dómarnir tveir hafa allir ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú að því er varðar auðgunarbrot ákærða, sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur lagt í vana sinn að drýgja auðgunarbrot. Verður því að gæta ákvæðis 72. gr. almennra hegningarlaga við refsiákvörðun. Að öllu þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til 2. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár.
Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um skaðabætur, upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Garðar Garðarsson, sæti fangelsi í fjögur ár.
Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um skaðabætur, upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2000.
Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 26. október 1999 á hendur:
Garðari Garðarssyni, kt. 100165-4499,
Laufskógum 15, Hveragerði,
X
og
Y
“fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 1999:
I
[...]
II
Ákærða Garðari:
1.
Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 2. júní brotist í auðgunarskyni inn í húsnæði Olíufélagsins Esso hf. við Borgartún, með því að fara inn um útidyr að salerni og brotið sér þaðan áfram leið inn í húsnæðið með því að brjóta gat á millivegg, rótað mikið til í húsnæðinu og hirslum þess og stolið frostþolsmæli að verðmæti kr. 17.800.
(Mál nr. 010-1999-12548)
2.
Fíkniefnalagabrot, með því að hafa ofangreinda nótt í bifreiðinni MZ-692, á Grettisgötu við Klapparstíg, haft í vörslum sínum 3,31 g af hassi, 6,06 g af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á.
(Mál nr. 010-1999-12548)
III
Ákærða Garðari og Y fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa í félagi aðfaranótt fimmtudagsins 18. mars reynt í auðgunarskyni að brjótast inn í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð, en ákærðu flúðu af vettvangi þegar lögregla kom að þeim.
(Mál nr. 010-1999-6183)
IV
Ákærðu X og Garðari fyrir þjófnað með því að hafa í félagi föstudaginn 23. apríl farið inn á skrifstofu veitingastjórans á Hótel Loftleiðum við Hlíðarfót, Reykjavíkurflugvelli, og stolið vasaútvarpi, að verðmæti um kr. 6.000, og sparibauk sem innihélt um kr. 5.000 í peningum, en ákærðu flúðu af vettvangi þegar komið var að þeim.
(Mál nr. 010-1999-9278)
Ofangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga að því er varðar brotið í III. kafla. Brotið í kafla II.2 telst varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985, og 2. gr., sbr. 10. gr., reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. reglugerð nr. 177.1986 og auglýsingu nr. 84, 1986.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að framangreind fíkniefni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986.
Í málinu gera eftirtaldir aðilar kröfu um skaðabætur:
1.
[...]
2.
Á hendur ákærða Garðari gerir Óskar Óskarsson fyrir hönd Olíufélagsins Esso hf. kröfu að fjárhæð kr. 156.334.
3.
Á hendur ákærðu Garðari og Y gerir Lárus H. Bjarnason fyrir hönd Menntaskólans við Hamrahlíð kröfu að fjárhæð kr. 20.191.”
[...]
Málmeðferð og kröfugerð
Þann 15. apríl 1999 var þingfest sakamálið 779/99 ákæruvaldið gegn ákærða X en því var frestað óákveðið vegna væntanlegra ákæra á hendur honum. Þann 25. október 1999 var þingfest sakamálið 2331/99 á hendur sama aðila og það sameinað hinu fyrra máli. Þann 18. nóvember 1999 var þingfest málið nr. 2594/99 á hendur ákærðu, Garðari, X og Y, og því frestað til 24. nóvember 1999. Þann dag er þingfest sakamálið nr. 2798/99 á hendur ákærða, X, og málin sameinuð hinum fyrri undir málanúmerinu S-2594/99. Þá var einnig tekið fyrir málið S-779/99 gegn ákærða X, og það einnig sameinað undir málanúmerinu S-2594/99.
Málinu var frestað til aðalmeðferðar þann 14. desember 1999 og fór hún þá fram en þá frestað til framhalds aðalmeðferðar til mánudagsins 17. janúar 2000 vegna vitnaboðunar. Þann 17. janúar sl. var málinu frestað utan réttar til 8. febrúar 2000 þegar framhald aðalmeðferðar fór fram og málið var dómtekið. Þá var ákveðinn dómsuppsaga 18. febrúar.
Með bréfi lögreglustjórns í Reykjavík, dags. 16. febrúar sl., var dómari upplýstur um að á sakavottorði ákærða Garðars, sem lagt var fram í dóminum var þess ekki getið að ákærða hafði verið veitt reynslulausn á 931 daga eftirstöðvum fangelsisrefsinga skv. bréfi Fangelsimálastofnunar ríkisins dagsettu sama dag. Dómari ákvað með vísan til 131. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að endurupptaka málið. Það var gert og sakflytjendum gefið færi á að tjá sig um refsiviðurlög. Málið var því næst dómtekið að nýju.
Að hálfu ákæruvaldsins eru gerðar sömu kröfur og fram koma í ákærum, nema að því leyti, að fallið er frá ákæru í 2.tl., I. kafla ákæru, dags. 28. september 1999, um að ákærði hafi haft í vörslum sínum 0,23 g af amfetamíni.
Verjandi ákærða, Garðars Garðarssonar gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu. Þá, verði bótakröfum Olíufélagsins Esso og Menntaskólans í Hamrahlíð vísað frá dómi. Enn fremur verði allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun.
[...]
Ákæruatriðin verða nú rakin í sömu röð og ákærur hér að framan.
Ákæra dags. 26 október 1999.
Kafli I
[...]
Kafli II liður 1 og 2
Miðvikudaginn 2. júní 1999 kl. 04.39 var tilkynnt til lögreglu, innbrot á bensínstöð Esso í Borgartúni. Ummerki á staðnum báru með sér að farið hafði verið inn um salernishurð, sem staðsett er á austurgafli bensínstöðvarinnar. Þar hafi síðan verið brotið gat á millivegg, sem er úr spónaplötu, og þaðan farið inn í skrifstofu- og kaffiaðstöðu starfsfólks ásamt afgreiðslu. Rótað hafi verið í skúffum og töskum. Á salerni mátti sjá töluvert af blóði og tóku menn frá tæknideild lögreglunnar sýni af því. Þá um nóttina eða kl. 05.08 var ákærði, Garðar, handtekinn, þar sem hann ók bifreiðinni MZ-692 og var hann grunaður um ölvunarakstur. Öndunarsýni gaf ekki til kynna að svo væri raunin. Við leit í fötum ákærða fannst í buxnavasa hans brot úr spónaplötu, sem hann gat ekki gert grein fyrir auk þess sem ákærði var með sár á vinstri framhandlegg. Þá fannst einnig ætlað fíkniefni, brúnt og hvítt efni. Samkvæmt rannsókn tæknideildar lögreglu reyndist efnið við litaprófun innihalda samtals, amfetamín 6,06 g og brúnt hass 3,31 g.
Í bifreiðinni fannst einnig verkfærataska sem innihélt m.a. skrúfjárn, tangir, hamar, lítið kúbein og fleira. Eftir að í ljós kom að saknað var öryggislykils af peningaflutningatösku Securitas, sem geymd hafði verið á skrifstofu- kaffistofu Esso, var gerð leit í bifreiðinni MZ-692 og á milli framsæta í bifreiðinni fannst umræddur lykill. Einnig fannst í bifreiðinni blár og svartur mælir, sem reyndist vera frostþolsmælir, sem saknað var af innbrotsstað.
Þá var ákærða tekið blóð til DNA-rannsóknar og það borið saman við blóðsýni það sem tekið var á innbrotsstað. Samkvæmt álitsgerð Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði, dags. 30. ágúst 1999, voru blóðsýnin send til kennslagreiningar í Noregi. Samkvæmt rannsókn þar kom í ljós að DNA-snið blóðs frá vettvangi reyndist samskonar og það sem fannst í blóði ákærða. Í álitsgerðinni sagði, að líkurnar fyrir því að finna mann með sama DNA-snið og hér um ræðir, eru ávallt minni en 1:10000 (0,001%). Í niðurstöðu segir svo: “Samkvæmt framanskráðu samrýmast niðurstöðurnar því að blóð það, sem fannst á vettvangi, sé úr Garðari Garðarssyni (100165-4449) og eru líkurnar fyrir því svo sterkar að víst megi telja að blóðið sé úr honum.” Gunnlaugur Geirsson prófessor, sem undirritaði álitsgerðina, kom fyrir dóm og staðfesti hana.
Ákærði hefur staðfastlega neitað sök bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Kvaðst hann hafa verið að aka um bæinn á bifreiðinni MZ-692 umrædda nótt ásamt Hauki Guðmundssyni. Hann kvað fíkniefnið sem fannst í bifreiðinni hafa verið í eigu Hauks. Hann kvaðst hafa verið, þá um daginn, á veitingahúsinu Lilleput við smíðar og þar fengið sár á hendi.
Vitnið, Pétur Guðmundsson varðstjóri, kom fyrir dóminn, en hann stöðvaði akstur ákærða umrædda nótt og framkvæmdi á honum leit. Vitnið bar að ákærði hefði verið með nýlegt sár á hendi. Ekki þykir ástæða til þess að rekja framburð hans frekar.
Vitnið Ragnar Þór Ragnarsson lögreglumaður kom fyrir dóminn sem vitni en hann gerði skýrslu um innbrotið í bensínstöð Esso.
Þá kom fyrir dóminn vitnið, Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður, sem sá um rannsókn á innbrotsvettvangi. Vitnið tók sýni af blóðblettum á salerni bensínstöðvarinnar. Vitnið bar að starfsfólk stöðvarinnar hafi ekki kannast við að blóð hefði verið þarna kvöldið áður. Dró vitnið þá ályktun að sá sem hefði brotið gat á millivegg hefði hlotið við það sár og úr því blætt.
Eins og rakið hefur verið hér að framan var ákærði handtekinn skömmu eftir að tilkynnt var um innbrot í bensínstöð Esso. Í bifreið hans fundust ýmis verkfæri, t.d. hamar og lítið kúbein, sem nota má til innbrota. Þá reyndist hann vera með sár á hendi, en sá sem braust inn í bensínstöðina hafði skilið eftir blóð á salerni. Samkvæmt áliti Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði, sem lét framkvæma DNA-rannsókn á blóðsýni á vettvangi, kom í ljós að yfirgnæfandi líkur væru að það væri úr ákærða. Þá fundust á ákærða leifar af spónaplötu sem, að mati lögreglumanna, gátu stafað frá innbrotsstað. Þá fundust í bifreið ákærða frostþolsmælir og lykill að tösku, sem hafði verið á innbrotsstað og ákærði hefur ekki getað gert grein fyrir.
Þegar þetta er virt telur dómurinn að komin sé fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um innbrot í húsnæði Olíufélagsins Esso hf. í Borgartúni svo sem í ákæru greinir
Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa Olíufélagsins hf. samtals 156.334 krónur. Krafa þessi er ekki studd neinum gögnum og hefur verið mótmælt að hálfu ákærða. Ber að vísa henni frá dómi.
Ákærði hefur gefið þá skýringu á fíkniefnum sem fundust í bifreið hans að þau hafi verið í eigu Hauks Guðmundssonar. Ráða má af skýrslu lögreglu um leit og haldlagningu að amfetamín, samtals 6,6 g, hafi fundist í jakka ákærða í bifreiðinni. Samkvæmt því þykir sannað að ákærði hafi haft það efni í sínum vörslum. Samkvæmt sömu skýrslu fannst brúnt efni í jakka ákærða og í hólfi í bifreiðinni sem reyndist við litapróf vera hass. Ekki þykir ákæruvaldið hafa sýnt fram á að ákærði hafi haft í vörslum sínum það efni sem fannst í hólfi bifreiðarinnar. Í skýrslu lögreglu kemur hins vegar ekki fram hversu mikið magn fannst á hvorum stað fyrir sig. Ber því að sýkna ákærða af þessu ákæruatriði. Varðandi brot sem ákærði er sakfelldur fyrir er vísað til heimfærslu refsingar í ákæru.
Kafli III
Fimmtudaginn 18. mars kl. 04.14 barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning frá Hans Snorra Kristjánssyni um skemmdarverk við Menntaskólann í Hamrahlíð. Lögreglumenn komu þegar á staðinn og sást þá til tveggja manna, sem tóku til fótanna í suðurátt er þeir urðu varir lögreglumannanna. Lögreglumenn hlupu á eftir þeim og náðu ákærða, Y, og ákærða, Garðari, skammt sunnan skólans og voru báðir mennirnir handteknir og færðir á aðalstöð. Sjáanlegar skemmdir voru á hurð á austurhlið, þar sem búið var að spenna til hliðar járn, sem notað er til að hlífa skránni. Lögreglumenn veittu athygli að hraðbanki frá Búnaðarbanka Íslands er rétt innan við áðurnefndar dyr. Við líkamsleit á ákærða, Garðari, fundust ávísanahefti frá Búnaðarbanka og lítill síll og meitill.
Hjá lögreglu kvaðst ákærði, Garðar, hafa verið ölvaður þá um kvöldið og verið á leið inn í Kópavog þegar lögreglan handtók hann. Hann hafi verið mjög drukkinn um nóttina og mundi ekki hvað hafði gerst. Hann kannaðist ekki við meitil og síl og vissi ekki hvernig þeir hlutir hefðu komist í hans vörslu. Ákærði kvaðst ekki muna neitt eftir að hafa reynt að brjótast inn í Menntaskólann í Hamrahlíð.
Ákærði, Y sagði við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann og meðákærði, Garðar, hefðu verið að þvælast eitthvað og hafi þeir ákveðið að brjótast inn í Menntaskólann í Hamrahlíð, þegar þeir hefðu verið staddir þar fyrir utan. Ákærði, Y, kvaðst hafa verið mjög ölvaður og lítið muna hvað hann gerði. Taldi hann að þeir hefðu verið með lítið kúbein til þess að spenna upp hurð skólans, en vissi ekki hvað hafi orðið um það.
Fyrir dóminum kvaðst ákærði, Y, aðspurður um atburðarás lítið muna sökum ölvunar. Ákærði minntist þess ekki að hafa verið við Menntaskólann við Hamrahlíð í umrætt sinn og kveðst hann ekki hafa verið með nein verkfæri á sér. Hann kannaðist við undirskrift sína á lögregluskýrslu og dró ekki í efa að rétt hafi verið eftir honum haft. Hins vegar neitaði hann að hafa ákveðið að brjótast inn í skólann eins og þar kemur fram. Kvaðst hann hafa verið illa fyrir kallaður er hann gaf skýrsluna. Aðspurður um ástæðu þess, að gefa upp rangt nafn við handtöku, sagði ákærði að verið geti að hann hafi verið eitthvað ruglaður af neyslu á vímuefnum.
Ákærði, Garðar, neitaði fyrir dómi sök samkvæmt þessum ákærulið. Kvaðst hann hafa verið ölvaður og muna lítið eftir nánari atburðarás kvöldsins. Hann kvaðst hafa verið á veitingahúsi um kvöldið og verið á heimleið ásamt meðákærða, Y, og átt leið fram hjá skólanum. Ákærði neitaði að hafa verið með verkfæri á sér.
Hér fyrir dómi kvaðst vitnið, Hans Orri Kristjánsson, nemandi við Menntaskólann í Hamrahlíð, hafa verið ásamt nokkrum nemendum skólans að vinna á staðnum umrædda nótt. Hann varð var við mann eða menn og sá mann sem var að brjótast inn í skólann með verkfæri sem hann taldi að hafi verið kúbein. Nokkru síðar hafi farið að heyrast þyngri högg á hurðina og þá hafi verið hringt á lögreglu sem kom þegar. Hafi vitnið séð mennina hlaupa á brott og lögreglumenn á eftir. Vitnið kvaðst hafa séð þegar komið var með mennina til baka og þekkt, m.a. úlpu annars þeirra, sem hafi verið mosagræn.
Einnig kom fyrir dóminn vitnið, Ásdís Sveinsdóttir, nemandi við Menntaskólann í Hamrahlíð, sem einnig var á staðnum umrædda nótt. Ekki þykir ástæða til að rekja framburð hennar hér.
Vitnið, Tómas Frosti Sæmundsson lögreglumaður, bar fyrir dóminum að lögreglumenn hafi verið við Öskjuhlíð á tveimur ómerktum bílum þegar útkall kom frá Menntaskólanum. Þeir hafi komið mönnunum á óvart þar sem þeir voru að bisa við hurð með verkfæri til að reyna að komast inn í skólann. Þegar lögreglumenn kölluðu til þeirra hafi þeir hlaupið hvor í sína áttina en náðst brátt. Vitnið hafði hitt annan ákærðu, þ.e. Garðar, fyrr um kvöldið þar sem ákærða var vísað út af bar. Vitnið kvað skólann hafa verið uppljómaðan og mannaferðir í byggingunni. Skemmdir hafi verið sýnilegar á hurðinni og líkamsleit hafi verið framkvæmd á Garðari og hafi þar fundist lítill síl.
Vitnið, Kristján Helgi Þráinsson lögreglumaður, kom á vettvang ásamt Tómasi Frosta. Fyrir dóminum var framburður hans samhljóða framburði vitnisins, Tómasar Frosta.
Þegar það er virt sem hér að framan greinir þykir sannað með framburði vitnanna Hans Snorra Kristjánssonar og lögreglumannanna Tómasar Frosta og Kristjáns Helga að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi, sem þeir eru ákærðir fyrir, og er í ákæru réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa Menntaskólans í Hamrahlíð. Krafa þessi er studd tveimur reikningum. Ljóst er af þeim að efniskostnaður, 1.075 krónur og virðisaukaskattur 263 krónur, samtals 1.338 krónur, er tvítalinn og ber að lækka kröfuna sem því nemur. Að öðru leyti ber að taka kröfuna til greina þannig leiðrétta, samtals 18.853 krónur sem ákærðu ber að greiða óskipt.
Kafli IV
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu fóru lögreglumenn að Hótel Loftleiðum, um kl. 13.00, 23. apríl 1999 þar sem tilkynnt hafði verið um þjófnað og hittu þar fyrir Guðvarð Gíslason veitingamann og ákærðu, Garðar og X. Í skýrslunni kemur fram að Guðvarður hafi hlaupið á eftir ákærða, Garðari, út af hótelinu og náð honum skammt frá, á lóðinni. Á hlaupunum hafi ákærði hent frá sér bakpoka, sem var á vettvangi. Guðvarður kvað Láru Margréti Ísleifsdóttur hafa veitt mönnunum athygli þar sem þeir voru að róta og skoða ofan í skúffur inni á skrifstofu hans. Í umræddum bakpoka reyndust vera ýmis verkfæri, hettur, svört úlpa, lyklakippa, sem á voru margir lyklar og spjald, sem á stóð Víkingasalur útidyr. Þá kemur fram í skýrslunni að Guðvarður hafi fundið “vasadiskó” í bakpokanum, sem hafi tilheyrt honum.
Ákærði, Garðar, neitaði hjá lögreglu að hafa átt þátt í þjófnaði á Hótel Loftleiðum. Hann tók þó fram að hann hefði verið undir áhrifum vímuefna og því myndi hann ekki glöggt eftir atburðarásinni. Hann hafi farið á hótelið um klukkan eitt um daginn ásamt meðákærða, X, og manni að nafni Andri. Ákærði Garðar kvaðst lítið þekkja til Andra eða geta gert frekari grein fyrir þeim manni. Hann kvaðst ekki muna eftir bakpoka og kvaðst ekki kannast við innihald hans.
Ákærði, X, bar hjá lögreglu að hann og meðákærði, Garðar, hefðu verið við áfengisneyslu í miðbænum og hitt þar mann, sem heitir Andri eða Andrés. Þeir hafi síðan farið með honum á Hótel Loftleiðir til að kaupa þar áfengi og sækja þangað fjármuni sem hann kvaðst eiga hjá einhverjum starfsmanni.
Fyrir dóminum neitaði ákærði, Garðar, sök samkvæmt ákærulið þessum. Hann kvaðst hafa farið inn á hótelið til að kaupa bjór á barnum. Hann hafi hins vegar aldrei farið inn á skrifstofu veitingastjórans og ekki verið með bakpoka með sér. Maður að nafni Andri hafi hins vegar verið með bakpoka. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og ekki muna atburðarás glögglega heldur “ráma í hana”. Hann kvað skýrslu sína hjá lögreglu um þetta efni vera rétta.
Fyrir dómi kvaðst ákærði, X, ekki minnast þess að hafa farið inn á skrifstofu veitingastjórans. Hann hafi farið á Hótel Loftleiðir ásamt meðákærða, Garðari, og manni sem hann taldi að héti Andri, til að fá sér bjór. Þeir hafi misst sjónar af Andra og því hafi hann og Garðar gengið eitthvað þarna um og verið að svipast um eftir honum. Í því hafi kona komið æpandi og hann þá lagt á flótta ásamt meðákærða, Garðari. Hann hafi síðan stöðvað og komið aftur inn í hótelið. Ákærði kvaðst ekki hafa séð hvort meðákærði, Garðar, hafi verið hlaupinn uppi. Ákærði staðfesti framburð sinn fyrir lögreglu í réttinum.
Vitnið, Guðvarður Gíslason, kvaðst fyrir dómi hafa verið að vinna skammt frá skrifstofu sinni þegar Lára Margét Gísladóttir hafi kallað til hans. Þegar hann kom, hafi mennirnir verið komnir út en vitnið hafi náð öðrum þeirra. Hinn hafi þá stöðvað úti á lóðinni og komið til baka þegar vitnið kallaði til hans. Lögreglumenn hafi síðan komið á staðinn. Vitnið kvað mennina hafa talað um einhvern þriðja mann en hann hafi ekki fundist þrátt fyrir leit.
Fyrir dóminum kvaðst vitnið, Lára Margrét Gísladóttir, hafa gengið fram hjá skrifstofu veitingastjórans og séð tvo pilta þar inni eitthvað að róta í skrifborðinu. Aðspurðir kváðust þeir vera að bíða eftir Guðvarði. Vitninu hafi ekki fundist þetta eðlilegt og því kallað til Guðvarðar. Vitnið kvaðst hafa staðið í dyragættinni til að hindra þá en þeir þá ýtt henni til hliðar og hlaupið út. Vitnið hafi síðan séð piltana aftur þegar Guðvarður hafi hlaupið annan uppi en hinn hafi komið sjálfviljugur. Vitnið kvaðst hafa séð bakpoka en ekki muna hvort piltarnir hafi verið með hann. Í skýrslu sem vitnið gaf hjá lögreglu kvaðst vitnið hafa séð annan manninn grípa með sér bakpoka, sem lá á gólfinu við skrifstofuna, þó muni hún ekki nákvæmlega hvar bakpokinn var staðsettur. Eftir að lögregla kom hafi vitnið uppgötvað að mennirnir hefðu haft á brott með sér sparibauk og ferðageislaspilara eða “vasadiskó” af skrifstofu Guðvarðar. Vitnið staðfesti skýrslu sína hjá lögreglu fyrir dómi.
Vitnið, Pétur Guðmundsson varðstjóri, kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína frá 23. apríl 1999 og þykir ekki ástæða til þess að rekja framburð hans fyrir dóminum frekar.
Ákærðu hafa báðir neitað sök fyrir dómi. Samkvæmt framburði vitnisins, Láru Margrétar Gísladóttur, sá hún ákærðu inn á skrifstofu veitingastjórans við að róta í skrifborði hans. Þegar ákærðu urðu hennar varir ruddust þeir fram hjá henni og hlupu út. Enn fremur ber vitnið að hún hafi séð ákærðu hrifsa með sér bakpoka á leiðinni út. Vitnið hafi kallað í Guðvarð, sem hafi verið að vinna þarna skammt frá, og hafi hann náð öðrum ákærða. Ákærðu hafa hins vegar enga eðlilega skýringu getað gefið á veru sinni inni á skrifstofu veitingastjórans og þeim munum sem þeir eru ákærðir fyrir að hafa tekið af skrifstofu hans. Með ofangreindum framburði vitnanna, Láru Margrétar og Guðvarðs Gíslasonar, telur dómurinn sannað að að ákærðu, Garðar og X, hafi gerst sekir um háttsemi þá sem þeim er gefin að sök samkvæmt IV. kafla ákæru dags. 26. október 1999 og er þar réttilega færð til refsiákvæða.
[...]
Refsingar.
Ákærði Garðar Garðarsson
Ákærði, Garðar, er fæddur 1965 og á að baki langan sakarferil. Frá átján ára aldri hefur ákærði hlotið tuttuogeinn refsidóm á Íslandi og erlendis og sjö sinnum gengist undir sátt fyrir ýmis brot. Ákærði hefur margoft verið dæmdur fyrir þjófnað hér á landi, alls níu sinnum, síðast með dómi Hæstaréttar frá árinu 1992, þar sem ákærði var dæmdur til fangelsisrefsingar í tvö ár og sex mánuði. Í mars 1993 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, fyrir ýmis hegningarlagabrot, í Byretten í Kaupmannhöfn. Í janúar 1994 var ákærði dæmdur, í Helsingör í Danmörku, í eins árs og sex mánaða fangelsi fyrir valdbeitingu gegn opinberum starfsmönnum, rán, þjófnað, nytjastuld, brot gegn vopnalögum og fíkniefnalöggjöf. Í september 1994 hlaut ákærði dóm í Byretten í Kaupmannahöfn, fjögurra ára fangelsi, fyrir brot gegn vopnalögum, nytjastuld, rán og svik. Dómur þessi var staðfestur í Östre Landsret í nóvember 1994. Enginn þessara dóma hefur ítrekunaráhrif á brot þau sem ákærði hefur gerst sekur um í þessu máli.
Ákærða hlaut, hinn 23. nóvember 1998, reynslulausn í 3 ár á 931 daga eftirstöðvum refsingar. Ákærði hefur með þeim brotum, sem hann er nú sakfelldur fyrir, rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber að taka hana upp og dæma með máli þessu, sbr. 1. mgr. 42. gr., sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði olli ekki miklu tjóni með brotum þeim sem hér skal lagður dómur á. Hins vegar ber til þess að líta að sakaferill ákærða langur og að hann gerist ítrekað sekur um auðgunarbrot og brot á fíkniefnalögum skömmu eftir að honum var veitt reynslulausn. Þykir refsing ákærða, með hliðsjón af 77. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár.
[...]
Ákærðu, Garðar og Y, greiði Lárusi H. Bjarnasyni f.h. Menntaskólans í Hamrahlíð, óskipt 18.853 krónur.
[...]
Upptækt skal gera í ríkissjóð eftir þeim lagaákvæðum sem greinir í IV. kafla ákæru, dags. 26. október 1999, 3,31 g af hassi og 6,06 g af amfetamíni. Þá er gert upptækt í ríkissjóð, eftir þeim lagaákvæðum sem greinir í 2. lið I. kafla og IV. kafla ákæru, dags. 28. september 1999, 0,23 g af amfetamíni og stunguvopn (rýtingur) með 18 sm löngu, tvíeggja blaði sem tekið var úr vörslum ákærða, X, þann 25. apríl 1999. Enn fremur skal gerður upptækur í ríkissjóð, fjaðrahnífur, sem tekinn var úr vörslum ákærða þann 8. maí 1999, skv. þeim lagaákvæðum sem greinir í ákæru dags. 23. nóvember 1999.
Ákærði, Garðar, greiði sakarkostnað samkvæmt framlögðum reikningi, 47.055 krónur og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 100.000 krónur.
[...]
Að hálfu ákæruvaldsins flutti málið, Hjalti Pálmason, fulltrúi Lögreglustjórans í Reykjavík.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Garðar Garðarsson, sæti fangelsi í 3 ár.
[...]
Ákærði, Garðar, greiði sakarkostnað samkvæmt framlögðum reikningi, 47.055 krónur og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 100.000 krónur.
[...]
Ákærðu, Garðar Garðarsson og Y, greiði Lárusi H. Bjarnasyni f.h. Menntaskólans í Hamrahlíð, óskipt 18.853 krónur.
[...]
Upptækt er gert 3,31 g af hassi, 6,06 af amfetamíni, 0,23 g af amfetamíni og stunguvopn (rýtingur) með 18 sm löngu, tvíeggja blaði og fjaðrahnífur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 7. apríl 2000.
Mál þetta var höfðað með ákæru sýslumannsins á Selfossi, dagsettri 8. desember 1999, á hendur Garðari Garðarssyni, kt. 100165-4499, Laufskógum 15, Hveragerði. Málið var dómtekið 22. mars sl.
Sakargiftum og kröfugerð, þ.á.m. skaðabótakröfum, er lýst í ákæru:
"
I
fyrir þjófnað
með því að hafa, mánudaginn 28. júlí 1999, brotist inn í íbúðarherbergi á annarri hæð í verslunar- og skrifstofuhúsnæði Húsasmiðjunnar að Eyravegi 37 á Selfossi, sem Alex Þorsteinsson hafði umráð yfir, með því að spenna upp hurð á herberginu og fyrir að hafa stolið þaðan eftirtöldum munum: Tíu hljómdiskum með ýmsum titlum, tólf geisladiskum með ýmsum tölvuleikjum, stjórntæki fyrir leikjatölvu, tveimur armbandsúrum, tveimur hringjum, einum silfurvindlakveikjara, stafnum L ( gylltur), gylltri keðju og tveimur hálsmenum, á öðru hálsmeninu var áletrunin “Alex” á framhlið, en “Þín Anna Lea” á bakhlið.
II
fyrir tilraun til þjófnaðar
með því að hafa, mánudaginn 28. júlí 1999, í framangreindu verslunar- og skrifstofuhúsnæði Húsasmiðjunnar að Eyravegi 37 á Selfossi, í þjófnaðarskyni notað verkfæri til að spenna upp hurð að herbergi á annarri hæð, sem fyrirtækið Húsasmiðjan hefur til umráða, en innangengt er í það herbergi úr áðurnefndu herbergi sem Alex Þorsteinsson hefur umráð yfir.
III
fyrir þjófnað
með því að hafa, síðdegis mánudaginn 28. júlí 1999, farið inn á skrifstofu Páls Bjarnasonar í húsnæði Verkfræðistofu Suðurlands á annarri hæð í húsinu nr. 3-5 við Austurveg á Selfossi, og tekið úr peysuvasa Páls, sem hékk á snaga við inngang skrifstofunnar, seðlaveski sem í var kr. 10.000.- í peningum, ökuskírteini og debetkort Páls Bjarnasonar og afrifa af reikningi frá fyrirtækinu Bílfoss, samtals að verðmæti kr. 16.105-.
IV
fyrir þjófnað
með því að hafa, á tímabilinu frá morgni mánudagsins 26. júlí 1999 til síðdegis föstudagsins 30. júlí 1999, brotist inn í húsið nr. 60 við Þelamörk í Hveragerði með því að fara inn um hurð á austurhlið hússins og stolið þaðan eftirtöldum munum: Canon myndvél Ixus AF-S, perluhálsmeni, fjórum hringjum þar af einum hring með steini, silfurhring og gullhring með demanti, tveimur hálsmenum, öðru með fisklaga steini og hinu með tveimur fisktáknum, hálsfesti og eyrnalokkum úr steini, silfurkross, nælu, vegabréfi Önnu Maríu Svavarsdóttur, gömlum peningaseðlum og miða með upplýsingum um Visa pinnúmer, móttakara fyrir gervihnattadisk, videomyndavél í tösku ásamt spólum, tveimur skartgripaskrínum, öðru úr jaspis, steini úr ambra, pendúl úr messing, tveimur videospólum, átta tónlistardiskum og heyrnatólum af Sonygerð.
V
fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni
með því að hafa, laust eftir hádegi föstudaginn 13. ágúst 1999, haft í vörslu sinni á heimili sínu að Laufskógum 15 í Hveragerði samtals 0,09 gr. af kókaíni, 12,68 gr. af brúnu hassi og 1,05 gr. af tóbaksblönduðu hassi, en lögregla fann fyrrgreind fíkniefni innan dyra við húsleit á heimili ákærða þann dag.
Telst liður I, III og IV varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
Telst liður II varða við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Telst liður V varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985 og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. reglugerð nr. 177, 1986, sbr. auglýsingu nr. 84, 1986.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá 6527) og á eftirtöldum munum sem notaðir höfðu verið eða ætlaðir til ólögmætrar meðferðar fíkniefna: Gullituð pípa með efnisleyfum, svört og brún pípa með efnisleyfum, eirrörbútur með hvítum efnisleyfum, vatnslón, 2. stk. topplyklar með vírsíu, rörbútur með vírsíu og efnisleyfum, pípuhaus með efnisleyfum (munaskrá 33-1999-2557 2, 6, 19, 20, 22 og 23). Lagt var hald á fíkniefni og muni í tilgreint skipti samkvæmt 6.mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2.mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986
Í málinu gerir Steinar Árnason, f.h. Húsasmiðjunnar hf., kt. 520171-0299, kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð kr. 98.816.
Í málinu gerir Wolfgang Roling, kt. 151055-8269 og Anna María Svavarsdóttir, kt. 200255-7049, kröfu um að ákærða verði gert að bæta þeim að fullu upp skaðann, samkvæmt nánari tilgreiningu á verðmæti muna, samtals að fjárhæð kr. 212.000.-
Í málinu gerir Páll Bjarnason, kt. 191259-2469, kröfu vegna þjófnaðar að fjárhæð kr. 16.105.-"
Við aðalmeðferð var af hálfu ákæruvalds krafist til vara um ákæruliði I og IV sakfellingar samkvæmt 254. gr. almennra hegningarlaga um þá muni sem fundust í bifreið ákærða þann 28. júlí og þá muni er fundust við húsleit á heimili ákærða 15. ágúst.
Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvalds, til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa. Hann krefst þess að bótakröfum verði vísað frá dómi og loks að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði. Þá mótmælir hann því sérstaklega að unnt sé að sakfella hann fyrir brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga, en verknaðarlýsing ákæru sé ekki glögg um efnisatriði þess brots.
Fyrir dómi vildi ákærði lítið tjá sig um ákæruatriði en vísaði ítrekað til skýrslu sinnar hjá lögreglu. Fram kom hjá honum að hann hefði verið með bíl unnustu sinnar, Sólrúnar Axelsdóttur, að láni og komið á Selfoss með manni að nafni Haukur Guðmundsson. Hann neitaði að hafa farið inn í húsið að Eyravegi 37. Hann neitaði að hafa stolið veski úr jakkavasa að Austurvegi 3-5 og hann neitaði að hafa brotist inn í húsið að Þelamörk 60 í Hveragerði. Loks neitaði hann að hafa átt eða vitað um fíkniefni sem talin eru í 5. lið ákæru.
Ákæruliðir I, II og III.
Lögreglunni á Selfossi var tilkynnt um innbrot í íbúðarherbergi Alex Þorsteinssonar að Eyravegi 37 kl. 18:49 þann 28. júlí. Klukkan 17:55 var tilkynnt um stuld á veski úr vasa Páls Bjarnasonar á Verkfræðistofu Suðurlands að Austurvegi 3-5. Klukkan 19:14 var tikynnt um ferðir manns við Fossnesti og fór lögregla þangað og einnig Páll Bjarnason. Páll bar þar á staðnum kennsl á ákærða og kvað hann hafa verið á ferð á Verkfræðistofunni fyrr um daginn. Ákærði var handtekinn. Var síðan með leyfi Sólrúnar Axelsdóttur leitað í bifreiðinni. Fundust þar ýmsir þeir munir sem Alex Þorsteinsson saknaði úr herbergi sínu, en þeir eru taldir í I. lið ákæru. Þá fannst í bifreiðinni hluti af reikningi frá Bílfoss á Selfossi, sem bar með sér að hafa verið greiddur með debetkorti Páls Bjarnasonar.
Enginn varð var við ferðir ákærða að Eyravegi 37 þennan dag. Ákæruvald byggir sönnunarfærslu sína um þetta atriði eingöngu á þeirri staðreynd að þýfi úr innbrotinu í herbergi Alex Þorsteinssonar fannst í bifreið þeirri sem ákærði var á er hann var handtekinn um kvöldmatarleytið.
Alex Þorsteinsson kom ekki fyrir dóm. Hjá lögreglu skýrði hann svo frá að hann hefði farið úr herberginu um klukkan 7:30 um morguninn og ekki komið þar aftur fyrr en um klukkan 18:30 og þá hafi hann séð að brotist hefði verið inn. Við athugun á vettvangi sást að einnig hafði verið sprengd upp hurð inn í innra herbergi, þar sem geymd voru ýmis bókhaldsgögn Húsasmiðjunnar, sem er eigandi húsnæðisins. Engu var stolið úr því herbergi. Alex kvaðst hjá lögreglu þekkja þá muni sem taldir eru í ákæru og hefðu þeir verið teknir úr herbergi hans.
Páll Bjarnason gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa verið við vinnu á skrifstofu sinni síðari hluta dagsins og brugðið sér fram í eldhúsið á hæðinni. Þá hafi hann mætt manni sem hafi spurt hvort einhver hefði komið þar. Hafi hann vísað honum til annars manns sem var á skrifstofu innar á ganginum. Er hann hafi örfáum mínútum síðar komið til baka úr eldhúsinu hafi maður þessi verið að koma úr þeirri átt sem skrifstofa sín sé. Hafi hann skipst á nokkrum orðum við hann. Skömmu síðar hafi hann áttað sig á því að veski sitt væri horfið úr vasa á peysu, sem hékk nálægt dyrunum á skrifstofu hans. Hafi hann farið að leita að því en ekki fundið. Hann kvaðst hafa verið með veskið er hann brá sér niður í verslun KÁ á neðri hæðinni um kaffileytið sama dag. Hann hefði annars ekki skilið veskið við sig nema þessa stund er hann var í eldhúsinu. Lögreglan hefði síðan hringt í sig og sagt að maður er svaraði til lýsinga hans hefði sést við Fossnesti og hefði hann farið þangað og bent á manninn, sem reyndist vera ákærði.
Aðspurður kvað hann líklegt að afrit af debetkortafærslu hjá Bílfoss hefði verið í veskinu. Hann hefði á þessum tíma átt nokkur viðskipti þar og geymdi svona afrit venjulega í eina til tvær vikur í veski sínu.
Lögreglumenn þeir er komu að rannsókn málsins og handtóku ákærða komu fyrir dóm til skýrslugjafar. Ekki er nauðsynlegt að rekja framburð þeirra sérstaklega um þessa liði ákæru, en fram kom hjá þeim að ekki hefði verið sjáanlegt annað en að ákærði væri einn á ferð. Þá hefði þýfið og annað dót verið alls staðar í bifreiðinni, þ.á.m. í framsæti við hlið ökumanns.
Ákærði neitaði alfarið sök samkvæmt þessum liðum bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann kvaðst hafa komið á Selfoss með Hauki Guðmundssyni. Hann kannaðist við að hafa komið inn á Verkfræðistofuna, en hann hefði verið að leita að Hauki sem hefði sagst eiga þar eitthvert erindi. Sagði hann að Haukur hefði verið með dót það sem fannst í bifreiðinni.
Haukur Guðmundsson var færður fyrir dóm, en hann er nú refsifangi á Litla-Hrauni. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa verið á ferð með ákærða á Selfossi þennan dag eða í annan tíma. Hann gaf ekki skýrslu hjá lögreglu, en Grímur Hergeirsson, lögreglumaður, náði í hann í GSM-síma síðdegis þann 29. júlí. Þá hafi hann sagst hafa verið í Reykjavík daginn áður og ekki farið austur fyrir fjall.
Tekin voru upp fingraför af hurð þeirri sem sprengd var upp að Eyravegi 37 (ákæruliður II). Þau reyndust hvorki vera af ákærða né Hauki Guðmundssyni.
Skýringar ákærða á ferðum sínum og að Haukur Guðmundsson hafi verið með sér eru ósannfærandi. Haukur kveðst ekki hafa verið á ferð með ákærða og ekki sást til ferða hans á Selfossi þennan dag. Aðkoma í bifreið þeirri er ákærði ók bendir ennfremur til þess að hann hafi verið einn á ferð. Verður með hliðsjón af þeim atvikum sem upplýst eru að telja fram komna lögfulla sönnun þess að ákærði hafi framið þau brot sem talin eru í liðum I, II og III í ákæru og eru þar réttilega færð til refsiákvæða.
Ákæruliðir IV og V.
Innbrot í húsið að Þelamörk 60 var tilkynnt til lögreglu föstudaginn 30. júlí kl. 19:05. Húsráðendur voru þá að koma heim, en þau höfðu farið að heiman að morgni mánudags 26. sama mánaðar. Var í frumskýrslu lögreglu gerð skrá um muni er saknað var.
Með úrskurði 12. ágúst var heimiluð húsleit á heimili ákærða að Laufskógum 15 í Hveragerði vegna grunar um fíkniefnamisferli. Leitin hófst klukkan 02:06 aðfaranótt 15. ágúst. Við leitina fundust ýmis áhöld til fíkniefnaneyslu og efni sem talið var að væru fíkniefni. Þá fundust nokkrir af þeim munum sem saknað var úr húsinu að Þelamörk 60.
Ákærði hefur eins og áður segir neitað að hafa átt nokkur fíkniefni og að hafa brotist inn í Þelamörk 60. Hann hélt því fram hjá lögreglu og fyrir dómi að talsverður gestagangur hafi verið heima hjá sér um þetta leyti og geti vel verið að einhver gestanna hafi verið með þýfið og fíkniefnin. Hann kveðst sjálfur ekki neyta fíkniefna.
Framburður Sólrúnar Axelsdóttur var á sama veg og ákærða.
Ekki hefur verið upplýst um hverjir hafi vanið komur sínar á heimili ákærða í Hveragerði. Frásögn ákærða er ekki skýr, en hann segir að heimili sitt hafi verið partýstaðurinn á þessum tíma. Gat hann ekki nafngreint neinn af gestum sínum. Þá beindist rannsókn lögreglu ekki sérstaklega að því að upplýsa um gestakomur hjá ákærða dagana áður en húsleitin var gerð.
Efni þau sem fundust við húsleitina voru tekin til litaprófunar hjá Tæknideild Lögreglunnar í Reykjavík 23. ágúst. Kom fram að 0,09 grömm af hvítu dufti væri kókaín, brúnn moli 12,68 grömm væri hass og tóbaksblandað hass, samtals 1.05 grömm.
Ekki eru önnur sönnunargögn færð fram um meint þjófnaðarbrot ákærða samkvæmt lið IV í ákæru. Þó talsverðar líkur séu á að ákærði hafi framið brot þetta er ekki fram komin lögfull sönnun um aðild hans að innbrotinu. Þá er ekki fram komin nægileg vísbending til að hann verði sakfelldur fyrir brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga, en ekkert er leitt í ljós um meðferð ákærða á þýfinu.
Sömuleiðis verður að sýkna ákærða af fíkniefnabroti samkvæmt lið V í ákæru þar sem ekki er með þeim sönnunargögnum sem fram eru komin hægt að útiloka að aðrir hafi átt þau fíkniefni sem fundust við húsleitina.
Ákvörðun viðurlaga, skaðabætur og sakarkostnaður.
Ákærði er vanaafbrotamaður. Síðast var honum ákveðin refsing með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar sl. Hann var þar dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú ár. Um var að ræða þjófnaðarbrot og tilraun til þjófnaðar, auk þess sem eftirstöðvar refsingar samkvæmt reynslulausn, 931 dagur, voru dæmdar með.
Ákærði var fyrst dæmdur til að sæta fangelsi óskilorðsbundið með dómi Sakadóms Reykjavíkur 13. október 1983 og hefur verið dæmdur til refsingar margoft síðan bæði hér á landi og í Danmörku og Þýskalandi. Ekki er ástæða til að reifa sakavottorð ákærða nánar.
Refsingu ber að ákveða sem hegningarauka við áðurgreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákveðst hún fangelsi í 6 mánuði.
Skaðabótakrafa Páls Bjarnasonar er sundurliðuð og studd gögnum eftir því sem unnt er. Verður hún dæmd.
Skaðabótakrafa Húsasmiðjunnar hf. er ekki studd gögnum og verður að vísa henni frá dómi.
Þar sem ákærði er sýknaður af IV. lið ákæru verður að vísa skaðabótakröfu Wolfgangs Rolings og Önnu Maríu Svavarsdóttur frá dómi.
Fíkniefnin ber að gera upptæk, svo og áhöld þau til fíkniefnaneyslu sem talin eru í ákæru, sbr. 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.
Dæma ber ákærða til að greiða sakarkostnað að 3/4 hlutum, þ.m.t. málsvarnarlaun, 70.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Garðar Garðarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði Páli Bjarnasyni 16.105 krónur.
Skaðabótakröfu Húsasmiðjunnar hf. er vísað frá dómi.
Skaðabótakröfu Wolfgangs Rolings og Önnu Maríu Svavarsdóttur er vísað frá dómi.
Framangreind fíkniefni (efnaskrá 6527) og áhöld til fíkniefnaneyslu (munaskrá 33-1999-2557 2, 6, 19, 20, 22 og 23) skulu upptæk.
Ákærði greiði 3/4 hluta alls sakarkostnaðar, þ.m.t. málsvarnarlaun, 70.000 krónur.