Hæstiréttur íslands

Mál nr. 217/2003


Lykilorð

  • Skip
  • Kaupsamningur
  • Veiðiheimildir
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003.

Nr. 217/2003.

Pétursskip, útgerðarfélag ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Tómasi Sæmundssyni

(Garðar Garðarsson hrl.)

og gagnsök

 

Skip. Kaupsamningur. Veiðiheimildir. Skaðabætur.

Í kaupsamningi og afsali vegna sölu T á tilteknu fiskiskipi til P, var tekið fram að skipið væri selt án þar tilgreindra fiskveiðiréttinda. Samkvæmt reglugerð nr. 631/2001 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2000/2001, sem gefin var út þremur dögum eftir gerð samningsins var heildarafli á keilu, löngu og skötusel takmarkaður, en áður höfðu veiðar á þessum tegundum ekki sætt takmörkunum. Skyldi tekið mið af veiðireynslu fiskiskipa á árunum 1998 til 2001 við úthlutun veiðiheimilda á þessum tegundum. Ekkert var kveðið á um það í samningi T við P hvorum þessi réttur skyldi tilheyra. Með vísan til dóms Hæstaréttar 1996:126 var fallist á að T hafi átt rétt á að fá í sinn hlut aflamark og aflahlutdeild, sem ágreiningur þeirra snerist um. Matsgerð var lögð til grundvallar um tjón T, enda hafði P ekki hlutast til um að fá henni hnekkt með yfirmati og engum stoðum rennt undir andmæli við henni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2003. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 12. júní 2003. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 7.119.821 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 6.153.353 krónum frá 1. september 2001 til 1. september 2002, en af 7.119.821 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að ákvæði kaupsamnings málsaðila frá 13. ágúst 2001 verði vikið til hliðar og breytt þannig að kaupverð þar tilgreinds skips hækki um 7.119.821 krónu, úr 8.000.000 krónum í 15.119.821 krónu, og að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða dráttarvexti eins og í aðalkröfu. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti og að málskostnaður í héraði verði hækkaður.

Gagnáfrýjandi stefndi Bátum og búnaði ehf. og Jóni Ólafi Þórðarsyni til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Hafa þeir ekki látið málið til sín taka.

I.

Gagnáfrýjandi seldi Pétri F. Karlssyni fiskiskipið Hafnarberg RE 400 með kaupsamningi 13. ágúst 2001 fyrir 8.000.000 krónur. Í samningnum áskildi kaupandinn sér rétt til að fá afsal fyrir skipinu gefið út á nafn einkahlutafélags, sem enn átti eftir að stofna. Seljandinn afsalaði skipinu síðan til aðaláfrýjanda 30. sama mánaðar. Var tekið fram bæði í kaupsamningi og afsali að skipið væri selt án aflahlutdeildar og aflamarks og að réttur þess samkvæmt ákvæði XXV til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með áorðnum breytingum „til úthlutunar úr 3000 lesta potti“ fylgdi því ekki og flytji seljandi þann rétt yfir á annað skip. Nafni skipsins var breytt við eigendaskiptin í Jói á Nesi SH 359. Gagnáfrýjandi keypti annað fiskiskip og fékk öll fiskveiðiréttindi, sem úthlutað hafði verið á eldra skip hans, færð yfir á hið nýja.

Fyrir kaupin voru veiðar á keilu, löngu og skötusel frjálsar öllum, sem höfðu almennt veiðileyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/1990, og sættu veiðar á þessum fisktegundum ekki takmörkunum á leyfilegum heildarafla, sbr. 1. mgr. 7. gr. sömu laga. Á þessu var gerð breyting með reglugerð nr. 631/2001 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2001/2002, sem gefin var út 16. ágúst 2001 eða þremur dögum eftir gerð kaupsamnings aðilanna. Samkvæmt henni var heildarafli þessara fisktegunda takmarkaður frá og með nýju fiskveiðiári 1. september 2001 og skyldi fiskiskipum, sem aflareynslu höfðu af veiðum á keilu, löngu og skötusel á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001, úthlutað aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu sinnar á áðurgreindu tímabili í þeim tegundum. Ekkert var kveðið á um það í kaupsamningi aðilanna hvorum þessi réttur skyldi tilheyra. Fiskistofa færði aflamark til veiða á þessum tegundum af eldra skipi gagnáfrýjanda yfir á hið nýja og óskaði sá síðastnefndi ennfremur eftir því að aðaláfrýjandi hlutaðist til um að stofnunin færði aflahlutdeild í þessum tegundum með sama hætti yfir á nýja skipið. Neitaði aðaláfrýjandi því og krafðist þess jafnframt að Fiskistofa færði til baka á skip hans aflamark, sem úthlutað hafði verið á nýtt skip gagnáfrýjanda til veiða á áðurnefndum þremur fisktegundum á grundvelli veiðireynslu eldra skipsins. Var aflamarkið flutt á Jóa á Nesi að kröfu aðaláfrýjanda 5. júlí 2002. Átti gagnáfrýjandi þess því ekki kost að nýta umrædd fiskveiðiréttindi og heldur hann fram að hann hafi af þeim sökum neyðst til að leigja slík réttindi, enda veiði hann með dragnót á nýja skipinu og nefndar fisktegundir komi jafnan með í slík veiðarfæri. Er í héraðsdómi nánar lýst samskiptum aðilanna við samningsgerðina og eftir það og vitneskju þeirra um fyrirhugaðar takmarkanir á heimild til veiða á áðurnefndum tegundum meðan á samningsgerð þeirra stóð. Fékk gagnáfrýjandi dómkvaddan mann til að meta ætlað tjón sitt vegna áðurnefndrar aflahlutdeildar og aflamarks, sem hann hafi farið á mis við vegna afstöðu aðaláfrýjanda. Reisir gagnáfrýjandi kröfur sínar á niðurstöðu matsmannsins, sem hann telur að ekki hafi verið hnekkt. Atvik málsins sem og málsástæður aðilanna eru að öðru leyti nánar raktar í héraðsdómi.

II.

Mál hafa áður verið borin undir dómstóla, þar sem ágreiningur reis milli kaupanda og seljanda fiskiskips um það hvorum veiðireynsla skipsins tilheyrði þegar takmarkanir voru settar á veiði á fisktegundum, sem áður mátti veiða án takmarkana, og ekki var kveðið á um það í samningi aðila. Þeir dómar Hæstaréttar, sem einkum koma til álita sem fordæmi í þessu sambandi, eru dómur 1996, bls. 126 í dómasafni réttarins það ár, dómur 1998, bls. 799 og dómur 21. júní 2001 í máli nr. 40/2001. Í fyrstnefnda dóminum var skorið úr ágreiningi um það hvorum samningsaðila veiðireynsla í skarkolaveiðum tilheyrði, en til viðmiðunar um rétt til aflamarks og aflahlutdeildar í þessum veiðum var tekið tímabil meðan seljandi átti skipið. Varð niðurstaða málsins sú að seljandi ætti þennan rétt og hafi kaupanda borið að efna kaupsamninginn með því að framselja viðsemjanda sínum aflahlutdeild í skarkola, þegar kaupandinn fékk henni úthlutað eftir eigendaskiptin á skipinu. Aðstaðan í því máli, sem hér er til úrlausnar, er í meginatriðum sambærileg þeirri, sem var í áðurnefndu máli. Verður ekki komist hjá að fallast á með gagnáfrýjanda að líta beri til þessa dóms sem fordæmis við úrlausn um ágreining málsaðila nú. Verður samkvæmt því fallist á að gagnáfrýjandi hafi átt rétt á að fá í sinn hlut aflamark og aflahlutdeild, sem ágreiningur málsaðila snýst um. Aðaláfrýjandi kom í veg fyrir að gagnáfrýjandi gæti nýtt sér umrædd réttindi og er því skylt að svara gagnáfrýjanda skaðabótum vegna tjóns, sem hann varð fyrir af þeim sökum. Hinir dómarnir tveir, sem að framan var getið, breyta ekki þessari niðurstöðu, enda atvik þar ólík um mikilvæg atriði. Í málinu frá 1998 var deilt um veiðireynslu á steinbít, en gagngert var tekið fram í reglugerð um takmarkanir á heildarafla á þeirri fisktegund að hafi veiðileyfi verið flutt milli skipa fylgdi aflareynslan veiðileyfinu. Ekki var hins vegar kveðið á um þetta í reglugerð nr. 631/2001 varðandi takmörkun á heildarafla keilu, löngu og skötusels. Í málinu frá 2001 laut ágreiningurinn að veiðireynslu á úthafskarfa og þorski utan íslensku efnahagslögsögunnar. Var tekið fram í dómi Hæstaréttar að um væri að ræða veiðar utan íslensku lögsögunnar, þær hafi verið öllum frjálsar og ekki lotið heildarstjórnun stjórnvalda fyrr en um þremur árum eftir sölu umrædds skips og að seljandinn hafi átt skip, sem engan veiðirétt átti í íslensku lögsögunni. Gætu eldri dómar því ekki haft fordæmisgildi í því máli.

Gagnáfrýjandi styður kröfu sína tölulega við mat dómkvadds manns. Aðaláfrýjandi hefur þau andmæli uppi að ráða megi að matsmaðurinn miði verðmæti umrædds aflamarks og aflahlutdeildar við markaðsverð þeirra í júlí 2002, sem sé undir lok fiskveiðiársins, en þá sé verðmætið hærra en í byrjun þess. Upphafstíma vaxta miði gagnáfrýjandi engu að síður við 1. september 2001. Hinn síðastnefndi mótmælir þessari staðhæfingu og kveður verðmæti slíkra heimilda þvert á móti gjarnan vera lægra í lok fiskveiðiárs en í byrjun þess. Aðaláfrýjandi hefur ekki hlutast til um að fá matsgerðinni hnekkt með yfirmati og engum stoðum hefur verið skotið undir framangreind andmæli. Verður matsgerðin lögð til grundvallar um tjón gagnáfrýjanda.

Samkvæmt öllu framanröktu verður aðalkrafa gagnáfrýjanda tekin til greina með dráttarvöxtum frá því mánuður var liðinn frá dagsetningu kröfubréfs hans 28. ágúst 2002. Verður aðaláfrýjandi jafnframt dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Pétursskip, útgerðarfélag ehf., greiði gagnáfrýjanda, Tómasi Sæmundssyni, 7.119.821 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. september 2002 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2003.

Stefnandi málsins er Tómas Sæmundsson, 150436-2659, Skildinganesi 45, Reykjavík, en stefndi er Pétursskip, útgerðarfélag ehf., kt. 550801-2640, Ólafsbraut 28, Ólafsvík. Réttargæslustefndu eru Skipasalan Bátar og búnaður ehf., kt. 410467-0119, Barónsstíg 5, Reykjavík og Jón Ólafur Þórðarson hdl, kt. 160146-4279Arnartanga 60, Mosfellsbæ.

Málið er höfðað með stefnu dagsettri 27. september 2002, sem árituð var um birt­ingu af lögmanni stefnda f.h. félagsins hinn 3. október s.á. Það var þingfest hér í dómi 10. október s.á. Ekki var mætt í málinu af hálfu réttargæslustefndu.

Málið var dómtekið 25. febrúar sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega, að stefndi, Pétursskip, útgerðarfélag ehf., verði dæmt til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 7.119.821 kr., auk dráttarvaxta skv. 9. sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 6.153.353 kr. frá 1. september 2001 til 1. september 2002 en af 7.119.821 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess:

að ákvæði kaupsamnings aðila, dags. 13. ágúst 2001, um kaupverð skipsins, verði með dómi vikið til hliðar og því breytt þannig að kaupverðið hækki um 7.119.821 kr., úr 8.000.000 kr. í 15.119.821 kr. og

að stefnda verði dæmt skylt að greiða stefnanda 7.119.821 kr., auk dráttarvaxta  skv. 9. sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 6.153.353 kr. frá 1. september 2001 til 1. september 2002 en af 7.119.821 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar skv. gjaldskrá lögmannsstofunnar Landslaga ehf.  Við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar við matsgerð, sem lögð er fram í málinu.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu.

Málavextir.

Stefnandi seldi Pétri K. Karlssyni, Frostafold 14, Reykjavík, vélskipið Hafnarberg RE 404, skipaskrárnúmer 0617, sem nú heitir Jói á Nesi SH 359. Réttargæslustefndi Bátar og búnaður ehf. hafði milligöngu um söluna. Í kaupsamningi áskildi kaupandi sér að fá afsal gefið út á væntanlegt einkahlutafélag.  Kaupsamningur er dags. 13. ágúst 2001, en afsal fyrir bátnum er dags. 30. ágúst 2001. Í afsali er kaupandi tilgreindur Pétursskip ehf., kt. 550801 2640, Ólafsbraut 28, Snæfellsbæ, en Pétur F. Karlsson er skráður formaður stjórnar Pétursskips, útgerðarfélags ehf.  Í kaupsamningi og afsali er tekið fram, að báturinn seljist án aflahlutdeildar og aflamarks.  Enn fremur segir í þessum skjölum, að réttur til úthlutunar í samræmi við ákvæði XXV. til bráðabirgða  í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða fylgi ekki. Umsamið verð bátsins nam 8 milljónum króna, auk viðurkenndrar ábyrgðar tryggingafélags á tjóni, sem báturinn hafði orðið fyrir. Sjávarútvegsráðuneytið gaf hinn 16. ágúst s.á. út reglugerð nr. 631/2001 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2001/2002.  Þar var ákveðið, að veiðar á keilu, löngu og skötusel skyldu framvegis sæta takmörkunum. Í niðurlagsákvæði reglugerðarinnar, sem ber yfirskriftina Ákvæði til bráðabirgða, er tekið fram, að bátum, sem veitt höfðu þessar tegundir á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001, skyldi úthlutað aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu þeirra.  Það var hins vegar ekki gert í upphafi fiskveiðiársins 2001/2002, heldur var úthlutað til bráðabirgða 80% af leyfilegum heildarafla í hverri tegund og skipseig­endum gefinn kostur á að gera athugasemdir við upplýsingar Fiskistofu um veiðar ein­stakra skipa á viðmiðunartímabilinu. Ekki var hægt að flytja aflahlutdeild í þessum tegundum milli skipa, fyrr en lokaúthlutun hefði farið fram.

Öll fiskveiðiréttindi bátsins (aflahlutdeild og aflamark) voru flutt af Jóa á Nesi hinn 28. september s.á. yfir á nýjan bát stefnanda, sem bar nafnið Hafnarberg RE-404, skipaskrárnúmer 1855, í samræmi ákvæði kaupsamningsins, einnig aflamark til veiða á keilu, löngu og skötusel, en aflahlutdeild þessara fiskitegunda var ekki hægt að flytja strax. Að sögn stefnanda veitti stefndi atbeina sinn til þessara ráðstafana. Reikningur Fiskistofu yfir veiðieftirlitsgjald þessara fiskitegunda, svo og annarra fiskitegunda, sem tilheyrðu hinum selda bát, var stílaður á stefnda.  Stefnandi greiddi reikninginn og einnig reikning Fiskistofu vegna Þróunarsjóðsgjalds, en innifalið í þeim reikningi var einnig gjald fyrir aflamark í keilu, löngu og skötusel. Að sögn stefnanda neitaði fyrirsvarsmaður stefnda að flytja milli skipa aflahlutdeild í keilu, löngu og skötusel, þegar Fiskistofa veitti heimild til þess. Bar stefndi því við, að óljóst væri, hvort honum væri það skylt. Lögmaður stefnda ritaði Fiskistofu bréf, dags. 23. maí 2002 og krafðist þess, að aflamark keilu, löngu og skötusels fyrir fiskveiðiárið 2001/2002 yrði flutt af bát stefnanda og yfir á Jóa á Nesi og byggði á því, að skriflegt samþykki fyrirsvarsmanna stefnda hefði ekki legið fyrir, þegar aflamark þessara tegunda var flutt af Jóa á Nesi yfir á bát stefnanda í september árið áður.  Fiskistofa féllst á kröfu stefnda og tilkynnti stefnanda um þá ákvörðun með bréfi dags. 5. júlí 2002, sem ber yfirskriftina Varðar: Ógildingu á millifærslu aflamarks, Stefnandi missti þannig nýtingarrétt sinn á aflamarki í umræddum tegundum fyrir fiskveiðiárið 2001/2002.

Að beiðni stefnanda dómkvaddi Héraðsdómur Reykjavíkur hinn 24. maí 2002, Björn Jónsson, forstöðumann kvótamiðlunar LÍÚ, til að meta til fjár þá aflahlutdeild og það aflamark í keilu, löngu og skötusel, sem stefnandi taldi sig rétthafa að. Um var að ræða aflahlutdeildir, sem hér segir: 0,2380025% í löngu, 0,0089800% í keilu og 0,2581206% í skötusel og tilsvarandi aflamark. Matsgerð hans er dags. 3. júlí 2002.  Niðurstaða hans byggðist á markaðsverði aflahlutdeildar og aflamarks á þeim tíma, sem matið er framkvæmt.  Aflamarkið var miðað við úthlutun fiskveiðiársins 2001/2002, sem lauk þann 31. ágúst 2002. Aflamarki fyrir umræddar tegundir hefur verið úthlutað fyrir fiskveiðiárið 2002/2003 á grundvelli aflahlutdeildar Jóa á Nesi. Úthlutað var 1. september 2002 sama magni af löngu og skötusel og fiskveiðiárið 2001/2002, en í keilu var úthlutað 283 kg í stað 364 kg árið áður.

Niðurstöður matsmanns voru þessar:

Aflahlutdeild:

Tegund:

Verðmæti í kr.

Langa

2.570.400

Keila

69.160

Skötuselur

2.544.405

 

5.183.965

Aflamark 2001/2002:

Tegund:

Verðmæti í kr.

Langa

468.384

Keila

13.104

Skötuselur

487.900

 

969.388

 

Samtals nemur aflamark og aflahlutdeild þannig 6.153.353. Stefnandi byggir fjárkröfu sína á hendur stefnda á niðurstöðu matsgerðarinnar, en auk þess gerir stefnandi kröfu til bóta fyrir misst aflamark á fiskveiðiárinu 2002/2003, sem byggt er á sömu verðforsendum. Aflamark í keilu er nokkrum kílóum minna. Að sögn stefnanda er krafa hans því lækkuð um 2.920 kr. (kr. 36 x 81 kg) og verður 966.467 kr. fyrir fiskveiðiárið 2002/2003.  Heildardómkrafan nemi þannig samtals 7.119.821 kr.

Stefnandi festi kaup á öðrum báti, eftir söluna á Jóa á Nesi, og rekur enn útgerð.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi kveður sig knúinn til að höfða mál þetta á hendur stefnda, þar sem stefndi hafi neitað að verða við samningsbundnum skyldum sínum að ljá til þess nauðsynlegan og lögbundinn atbeina sinn til að stefnandi fái notið réttinda sinna. Aðalkrafan lúti að greiðslu skaðabóta vegna þess tjóns, sem stefnandi hafi orðið fyrir við það að missa aflahlutdeild sína í keilu, löngu og skötusel, og tilheyrandi aflamark.  Verði ekki fallist á skaðabótakröfuna, krefst stefnandi þess, að ákvæði kaupsamnings þeirra um kaupverð skipsins verði vikið til hliðar og því breytt á grundvelli heimildar í 36. gr. laga nr. 7/1936 með síðari breytingu, allt eins og síðan verður gerð grein fyrir.

Um aðalkröfu:

Stefnandi telur dagljóst, að hann hafi einungis selt stefnda skipið sjálft, en engin réttindi tengd veiðum þess, hvorki aflahlutdeild, aflamark né réttindi byggð á afla­reynslu skipsins.  Stefnandi telur, að auglýsingar á skipinu hafi gefið þetta kynna, umsamið kaupverð þess og öll þau ákvæði, sem um veiðiréttindin fjölluðu í kaupsamningi og afsali, og síðan öll eftirfarandi framkvæmd málsins.  Umsamið kaupverð hafi numið 8.000.000 kr. fyrir skipið, svo farið sem það var, en ástand þess hafi verið rækilega tíundað í kaupsamningi.  Aðilum hafi báðum verið um það kunnugt, að ráðgert hafi verið að setja takmarkanir á veiðar í umræddum tegundum þá daga, sem verið var að ganga frá kaupunum.  Hefði áunnin veiðireynsla skipsins átt að fylgja, því hefði þurft að taka það fram í kaupsamningi og það, sem meira var, að þurft hefði að taka tillit til þess við ákvörðun kaupverðs.  Stefndi geti ekki vænst þess, að þessi réttindi falli honum í skaut án endurgjalds og slík niðurstaða myndi leiða til óeðlilegrar og ósanngjarnrar niðurstöðu. Það sé að sönnu rétt, að í skjölum hafi einungis komið fram, að skipið seldist án aflahlutdeildar og aflamarks og án réttinda í “3.000 tonna pottinum” og ekki sé þar minnst á “veiðireynslu”.  Engu að síður geti stefndi ekki byggt á því, að þau réttindi, sem veiðireynslan skapaði, hafi átt að falla til hans; hvorki hafi það byggst á samningnum sjálfum, atvikum öðrum, lagaákvæðum, venju né dómafordæmum.  Pétur, forsvarsmaður stefnda, hafi í samtölum við lögmann stefnanda gefið þá skýringu á afstöðu sinni, að hann teldi líklegt, að aflareynslan eigi að falla honum í skaut, þar sem hún sé ekki undanskilin berum orðum í kaupsamningi; þ.e. að þar sem veiðileyfi hafi fylgt bátnum, þá eigi úthlutun á þeim nýju tegundum sem settar voru takmarkanir á með rgl. 631/2001, keilu, löngu og skötusel, að fylgja bátnum og verða eign hans (án endurgjalds). 

Stefndi byggi á dómi Hæstaréttar frá árinu 1998 í máli Flóa ehf. gegn Ými ehf.  Sá dómur skapi ekki fordæmi í þeim viðskiptum, sem hér séu til úrslausnar. Í umræddum dómi sé vísað til rgl. 362/1996, en þar segi:  Hafi veiðileyfi verið flutt milli skipa fylgir aflareynslan veiðileyfinu.  Hæstiréttur hafi talið ósannað í því máli, að veiðireynsla (í steinbít) hafi verið undanskilin í þessum tilteknu viðskipum en sagði svo:  Gera verður ráð fyrir því að aðilar hafi metið veiðileyfið til fjár í kaupum sínum.  Liggur í þessum orðum, að Hæstiréttur meti það svo, að veiðireynsla hafi verið innifalin í mati á verðmæti veiðileyfisins, þar sem annað hafi ekki sannast í málinu. Veiðileyfi skipa hafi verið mjög verðmæt, þegar dómurinn gekk, þar sem réttur til endurnýjunar skipa hafi verið háður veiðileyfinu, auk þess sem veiðireynsla hafi fylgt veiðileyfinu, nema um annað væri samið.  Þetta hafi gjörbreyst með lögum nr. 1/1999, sem sett voru í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 3. des. 1998, svokallaðs “Valdimarsdóms”.  Nú geti eigendur fiskiskipa viðstöðulaust fengið veiðileyfi, ef skip þeirra séu á íslenskri skipaskrá og hafi haffærisskírteini.  Veiðileyfi kosti einungis 16.500 kr. og geti sú fjárhæð ekki haft nein áhrif á verðmat fiskiskipa; þar komi nú allt önnur atriði til mats.  Nú séu engin sérstök réttindi tengd veiðileyfinu per se, og í rgl. nr. 631/2001 séu ekki ákvæði sambærileg þeim, sem vísað var til fyrr um flutning veiðileyfis í rgl.  362/1996.  Lagaumhverfið sé því gjörbreytt frá árinu 1998 og verði ekki byggt á eldri dómum hvað þetta varði.

Stefnandi telur því öll rök hníga til þess, að hann eigi umrædd réttindi, einn og óskipt.  Þessum réttindum haldi stefndi fyrir honum og hafi þannig vanefnt kaupsamn­ing aðila vísvitandi með ólögmætum hætti.  Því eigi stefnandi ekki annars kost en að krefjast skaðabóta fyrir missi þessara réttinda á grundvelli almennra reglna kröfuréttar, sakarreglunnar og annarra skaðabótareglna innan og utan samninga.

Um varakröfu:

Stefnandi byggir varakröfu sína á ákvæðum 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 1. gr laga 14/1995 og 6. gr. laga 11/1986. Krafan feli í sér, að ákvæði kaupsamnings aðila um verð skipsins verði vikið til hliðar og breytt. Í umræddri lagagrein segi efnislega, að samningi megi víkja til hliðar í heild eða hluta, ef það yrði talið andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Við mat á góðri viðskiptavenju skal m.a. líta til efnis samnings, atvika við samning og atvika, sem síðar komu til.  

Með þessari lagagrein sé dómara veitt víðtæk heimild til að endurmeta ákvæði samninga til að ná eðlilegri og sanngjarnri niðurstöðu.  Nái stefnandi ekki fram skaðabótakröfu sinni, sé þess krafist, að dómurinn hækki kaupverð skipsins um sömu fjárhæð og skaðabótakröfunni nemi og dæmi auk þess stefnda til að greiða dráttarvexti af þessu hækkaða kaupverði með sama hætti og krafist sé í skaðabótakröfunni, auk málskostnaðar.  Stefnandi bendir á þá augljósu staðreynd, að ekki hafi verið tekið tillit til þessara réttinda við verðmat á bátnum, né reynt að meta þau til fjár.  Því beri stefnda að greiða fyrir þessi réttindi, ef hann eigi að halda þeim.  Krafan byggi á því, að með henni sé stefndi að greiða sanngjarnt og raunverulegt verðmæti þeirra réttinda, sem hann hafi fengið við kaupsamning aðila. Stefnandi geri jafnframt kröfu um greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt framansögðu, samtals kr. 7.199.821, auk dráttarvaxta og áfallins og áfallandi kostnaðar.

Um réttargæslustefndu:

Verði ekki fallist á kröfur stefnanda á hendur stefnda, telur stefnandi sig eiga skaðabótakröfu á hendur þeim aðilum, sem hann fól að annast sölu á bátnum vegna ófullnægjandi skjalagerðar.  Slíkt krafa verði ekki höfð uppi í þessu máli, en þótt hafi rétt að stefna þessum aðilum til réttargæslu, og skorar stefnandi á réttargæslustefndu að veita honum það liðsinni, sem þeir best geti í málinu.

Um vaxtakröfur:

Stefnandi byggir dráttarvaxtakröfu sína á því, að réttindi þau, sem stefnandi krefst hér bóta fyrir hafi skapast eða átt að verða stefnanda til ráðstöfunar í upphafi fiskveiðiársins 2001/2002, sem var 1. september 2001.  Það eigi við um aflahlut­deild­ina og aflamark fiskveiðiársins 2001/2002.  Því sé krafist dráttarvaxta af verðmæti þessara réttinda frá þeim degi.  Krafa vegna verðmætis aflamarks fiskveiðiársins 2002/2003 hafi á hinn bóginn orðið til 1. september 2002 og sé krafist dráttarvaxta vegna þess hluta kröfunnar frá þeim degi til greiðsludags.  Um vaxtakröfu stefnanda vísast til ákvæða III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu.

Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að með efndum á ákvæðum kaup­samningsins og afsals, hafi lögskipti aðila verið til lykta leidd, svo sem almennast sé. Stefnandi eigi ekki á grundvelli samningsins rétt til úthlutunar aflaheimilda, sem stefnda hafi verið úthlutað eftir undirritun kaupsamnings. Við undirritun hans hinn 13. ágúst 2001 hafi þau réttindi, sem um sé að tefla, einfaldlega ekki verið fyrir hendi. Ekki verði litið framhjá því, að öllum, sem veiðileyfi höfðu, hafi verið frjálst að veiða löngu, keilu og skötusel, þegar kaupsamningurinn var gerður. Í kaupsamningnum hafi verið tekið fram, að báturinn seldist án aflahlutdeildar og aflamarks, sem þá tilheyrði bátnum. Ekkert segi þar á hinn bóginn um, hvernig fara skyldi með aflareynslu bátsins á fiskitegundum, sem ekki sættu takmörkunum á leyfilegum heildarafla.

Nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar, sbr. 1. ml. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990. Stefnandi eigi ekki eignarréttarlegt tilkall til hinna umþrættu aflaheimilda. Aflaheimildum sé úthlutað til einstakra skipa en ekki eigenda þeirra á grundvelli 7. gr. sömu laga. Þar sem ekki hafi verið sérstaklega mælt fyrir um það í kaupsamningi aðila, hvernig farið skyldi með rétt til úthlutunar á grundvelli aflareynslu, hvíli á stefnanda að sanna að aflareynsla í keilu, löngu og skötusel hafi verið sérstaklega undanskilin kaupunum og að stefnda hafi mátt vera ljóst, að skilningur hans væri á þann veg. Sú sönnun hafi ekki tekist.

Stefnda hafi verið alls ókunnugt um, að ráðgert hafi verið að takmarka veiðar á umræddum fisktegundum, enda hafi ekki komið til umræðu við samningsgerðina, að til slíkrar skerðingar kynni að koma. Á hinn bóginn komi fram í stefnu, að stefnanda hafi verið þetta ljóst og hafi honum því verið í lófa lagið að kveða sérstaklega á um það í samningi aðila, hvernig umræddum aflaheimildum yrði ráðstafað. Þetta hafi stefnandi ekki gert og verði að bera hallann af því. Líta verði einnig til þess, að samningur aðila sé gerður af sérfróðum ráðgjafa stefnanda, réttargæslustefnda, sem stefnandi hafði falið að gæta hagsmuna sinna við kaupin. Ljóst sé af öllu framan­greindu, að stefndi hafi ekki vanefnt samning sinn við stefnanda og beri því að hafna aðalkröfu stefnanda.

Stefndi byggir einnig á því, ef ekki verði fallist framangreind sjónarmið, að sýkna beri stefnda allt að einu á þeirri forsendu, að stefnandi hafi ekki staðreynt tjón sitt. Matsgerð sú, sem stefnandi byggi á, miðist við verðmæti aflahlutdeildar og aflamarks á þeim tíma, sem matið var framkvæmt, þ.e. í júlí 2002. Á þær forsendur matsgerðarinnar verði ekki fallist.  Ljóst sé, að verðmæti aflaheimilda taki breytingum frá einum tíma til annars. Almennt sé það svo, að markaðsverð aflaheimilda fari hækkandi eftir því, sem líði í fiskveiðiárið. Stefnandi byggi sjálfur á því, að réttindi þau, sem hann krefst bóta fyrir, hafi skapast eða átt að vera stefnanda til ráðstöfunar í upphafi fiskveiðiársins 2001/2002, sem var 1. september 2001. Við þann tímapunkt miði hann kröfu sína um dráttarvexti. Stefnukrafa málsins hefði því átt að taka mið af verðmæti hinna umþrættu aflaheimilda á þeim degi. Því hafi stefnandi ekki fært fullnægjandi sönnur á tjóni því, sem hann geri kröfu um að fá bætt. Stefnda beri því að sýkna af kröfu stefnanda.

Fyrst ekki séu skilyrði fyrir því að taka aðalkröfu stefnanda til greina, verði ekki litið svo á, að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju, að stefndi beri kaupsamninginn fyrir sig gagnvart stefnanda. Tillitið til stöðu aðila við samnings­gerðina styðji einnig þá niðurstöðu. Þá sé að mati stefnda óhugsandi, að dómari geti með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 ríflega tvöfaldað umsamið kaupverð, enda væri með því gjörbreytt öllum forsendum samningsins. Stefndi hefði aldrei gengið til kaupanna fyrir slíkt verð. Beri af þeirri ástæðu að hafna varakröfu stefnanda.

Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda, enda geti aðalkrafan fyrst borið dráttarvexti frá því er liðinn var mánuður frá því, að stefnandi lagði fram þær upplýsingar, sem þörf var á til að meta fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Að því er varakröfu stefnanda varðar, komi ekki til greina að fallast á dráttarvexti, fyrr en við dómsuppsögu. Verði krafan tekin til greina beri að miða við þann tíma, enda hafi samningi aðila þá fyrst verið breytt.

Sú staðreynd, að stefnandi hafi greitt reikninga Fiskistofu vegna veiðieftir­litsgjalds annars vegar og Þróunarsjóðsgjalds hins vegar, fái ekki breytt framangreind­um niðurstöðum eða eðli málsins yfirleitt, enda sé málatilbúnaður stefnanda ekki á því reistur. Þó þyki rétt að taka fram, að samtala þessara reikninga nemi 258.772 kr., en þar af séu 16.353 kr., eða um 6%, vegna tegunda sem tilheyri stefnda, þ.e. keilu, löngu og skötusels. Einnig þyki rétt að geta þess, að stefndi hafi síðan greitt alla reikninga vegna þessa, eins og málskjöl sýni.

Kröfur stefnanda séu ekki reistar á því, að stefndi hafi auðgast á kostnað stefn­anda vegna þess, að veiðireynsla bátsins í tíð eignarumráða stefnanda hafi nýst honum við úthlutun á aflaheimildum í keilu, löngu og skötusel árið 2001. Um sjónarmið þar að lútandi verði því ekki fjallað. 

Loks vill stefndi vekja athygli á því, að lagagrundvöllur aðalkröfu stefnanda sé afar óskýr og sjálfsagt ófullnægjandi, en krafist sé skaðabóta fyrir missi réttinda "á grundvelli almennra reglna kröfuréttar, sakarreglunnar og annarra skaðabótareglna innan og utan samninga."

Niðurstaða:

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins og einnig Guðmundur Björn Steinþórsson stjórnarmaður í stjórn stefnda. Þá mættu til skýrslu­gjafar, Jón Ólafur Þórðarson, réttargæslustefndi, og Gunnlaugur Jónsson, sölumaður hjá réttargæslustefnda, Bátum og búnaði ehf. 

Verður framburði þeirra nú rakinn í meginatriðum.

Stefnandi sagði engar aflaheimildir hafa átt að fylgja með í sölu á m/b Hafnar­nesi til stefnda, þ.e. aflahlutdeild, aflamark og/eða veiðireynsla, enda sýni söluverð skipsins það. Skipasölunni hafi verið fullkunnugt um þetta og einnig Pétri F. Karlssyni, fyrirsvarsmanni stefnda. Tryggingamat bátsins hafi numið u.þ.b. 40 milljónum króna, en umsamið verð verið 8 milljónir króna. Á þessum tíma hafi öllum verið ljóst að takmarka átti veiðar á löngu, keilu og skötusel, en Fiskistofa hafði þá ekki reiknað út aflahlutdeild bátsins í þessum tegundum á grundvelli veiðireynslu. Það hafi dregist fram yfir undirritun kaupsamnings og því hafi ekki verið hægt að færa aflamark þessara tegunda yfir á báti, sem mætti var að kaupa.  Mætti kvaðst hafa greitt gjald í Þróunarsjóð sjávarútvegsins vegna aflamarks í umræddum fiskitegundum. Það hafi gerst með þeim hætti, að stefnda hafi borist gíróseðil vegna þessa gjalds og einnig veiðieftirlitsgjalds, sem tilheyrt hafi þessari nýju kvótaúthlutun. Pétur F. Karlsson hafi látið hann fá þennan gíróseðil með þeim ummælum, að þessi gjöld tilheyrðu stefn­anda, en sagt um leið í gríni, að hann vildi gjarnan fá að greiða þetta, ef veiðiheimild­irnar myndu fylgja. Mætti sagði, að það hafi reynst sér bæði dýrt og erfitt að fá ekki umræddar aflaheimildir. Þessar fiskitegundir fylgi óhjákvæmilega sem meðafli veiða á öðrum tegundum.  Hann hafi orðið að leigja sér kvóta í stað þeirra heimilda, sem stefndi haldi fyrir honum eða skipta á öðrum tegundum, s.s. ýsu, sem hann hafi heimildir til að veiða. Sérstaklega aðspurður kvaðst mætti ekki muna, hvort rætt hafi verið um, að veiðireynsla bátsins ætti að fylgja eða ekki, en ítrekar að öllum hafi verið það ljóst, á þeim tíma, þegar lögskiptin voru afráðin, að takmarka ætti veiðar á umræddum tegundum, en Fiskistofa hefði þá ekki verið búinn að reikna út veiðiheimildir bátsins á grundvelli veiðireynslu hans. Að hans dómi hafi verið búið að kvótasetja þessar tegundir, þegar undirritun kaupsamnings átti sér stað, og því verið óþarft að geta sérstaklega um, hvernig með veiðireynsluna skyldi fara. Hann hafi treyst fullkomlega starfsmönnum skipasölunnar Báta og búnaðar ehf. til að ganga frá samningum milli málsaðila með þeim hætti, að engin áunnin fiskveiðiréttindi fylgdu með í kaupunum, þar með talin veiðireynsla.

Guðmundur Björn Steinþórsson, stjórnarmaður í stjórn stefnda, kvaðst vera löggiltur fasteigna- og skipasali, en ekki hafa starfað við skipasölu og hafi því ekki kynnt sér fiskveiðistjórnunarlögin. Hann hafi síðasta árið starfað sem sjómaður.  Honum sagðist svo frá, að Pétur fósturfaðir hafi lengi stundað sjó og fengist við útgerð. Pétur hafi hætt útgerð nokkrum árum fyrir kaupin á Jóa á Nesi og lagt fiskverkun fyrir sig.  Þeir feðgar hafi lengi ráðgert að hefja hefðbundna vertíðarútgerð og hafi ákveðið að láta verða af því með kaupum á Jóa á Nesi. Þeir hafi litið til manna, sem stunduðu útgerð með leigukvóta frá Ólafsvík og séð, að þeim vegnaði vel, að því er virtist, og hafi þeir því ráðist í kaupin á bátnum með það fyrir augum að gera bátinn út þaðan.  Forsendur hafi breyst á nýju fiskveiðiári strax eftir kaupin. Leigukvóti hafi  t.d. hækkað mjög hratt og því sé enginn grundvöllur fyrir þessu útgerðarformi í dag. Þeir hafi orðið að hætta útgerð bátsins í apríl 2002, þar sem verð á leigukvóta hafi reynst þeim ofviða. Kvótalaus skip séu nú verðlaus og óseljanleg. Þeir hafi því tapað verulega á þessum kaupum og spurningin sé aðeins sú, hversu mikið tapið verði. Þeim feðgum hafi verið ókunnugt um það, þegar þeir keyptu bátinn, að ráðgert væri, að takmarka veiðar á veiðum á keilu, löngu og skötusel.  Hann sagðist ekki hafa verið viðstaddur undirritun kaupsamnings, en kvaðst hafi verið viðstaddur, þegar afsal var gefið út til stefnda.  Þá hafi ekki verið talað sérstaklega um kaup á veiðireynslu, en þeir hafi talið sig vera að kaupa öll réttindi, sem skipinu fylgdu, m.a. heimild til veiða á kvótalausum tegundum. Aðspurður um reikninga vegna veiðieftirlitsgjalds og gjalds í þróunarsjóð, sagði mætti, að þeir hafi borist stefnda sem eiganda að Jóa á Nesi. Þar hafi m.a. komið fram, að verið væri að innheimta gjald vegna veiðiheimilda á þorski og fleiri tegundum. Þeir hafi á þessum tíma ekki vitað að búið væri að kvótasetja veiðar á löngu, keilu og skötusel, og því hafi þeir talið, að reikningarnir tilheyrðu stefnanda og látið hann fá þá.

Jón Ólafur Þórðarson hdl. skipasali og réttargæslustefndi kvaðst hafa annast uppsetningu á samningum málsaðila. Báturinn hafi verið í slipp og hafi seljandi átt að kosta tilteknar viðgerðir á honum. Togast hafi verið á um það, hversu víðtækar lagfæringar seljandi skyldi kosta. Muni hann eftir málinu út af þessu.  Ekki hafi verið rætt um aflaheimildir í hans eyru meðan á samningagerðinni stóð. Það hafi aftur á móti gerst síðar. Samningar hafi átt sér stað rétt um fiskveiðiáramótin og hafi áhersla verið lögð á það, að koma samningunum á fyrir þann tíma, svo að aflamarkið færi ekki á bátinn. Menn hafi frest nokkra fyrstu daga ágústmánaðar til að tilkynna um eigendaskipti að bátum, en eftir þann tíma geti reynst erfitt að færa aflamark milli báta. Meðan á samningaferlinu stóð hafi umræddar þrjár fisktegundir ekki verið kvótasettar, það hafi komið eftir á og ekkert verið inni í myndinni við samninga­gerðina.  Hann kvað ástæðuna fyrir því, að hann hafi ekki sett í samning málsaðila ákvæði, sem lutu að því, að öll veiðireynsla skyldi tilheyra seljanda, að hann hafi talið um mjög óverulega hagsmuni að ræða, en annað hafi komið á daginn.

Gunnlaugur Jónsson sölumaður hjá réttargæslustefnda, Bátum og búnaði ehf., upplýsti dóminn um það, að ekki hafi staðið til, að bátnum fylgdu einhverjar veiði­heimildir við sölu hans, enda hafi verð bátsins miðast við það. Sama ætti við um veiðireynslu bátsins. Á fundi með fyrirsvarsmönnum málsaðila, sem haldinn hafi verið eftir kaupin og eftir að búið var að úthluta aflaheimildum á bátinn, hafi komið skýrt fram hjá fyrirsvarsmanni stefnda, að hann hafi ekki talið sig vera að kaupa veiðireynslu bátsins, en myndi ætla láta reyna á það.  Stefndi hafi gert góð kaup, að mati vitnisins, miðað við ástand bátsins, markaðsaðstæður og að teknu tilliti til þess, að engar veiðiheimildir áttu að fylgja honum.

Álit dómsins.

Ágreiningur málsaðila lýtur að því álitaefni, hvort aflahlutdeild og afleitt aflamark í löngu, keilu og skötusel hafi átt að fylgja m/b Jóa á Nesi við sölu hans til stefnda, eða hvort túlka beri þann fyrirvara í kaupsamningi og afsali til stefnda þannig, að báturinn seljist án aflahlutdeildar, aflamarks og annarra veiðiheimilda, utan leyfis til veiða á ókvótabundnum tegundum.

Lögin um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 (fvstl.) byggja á því, að öll réttindi til veiða fylgi skipi, hvort heldur um sé að ræða heimildir til veiða á fiskistofnun, sem takmarkaður aðgangur er að, eða til veiða á fiskistofnum, sem öllum er frjálst að veiða.

Þau skip ein hafa heimild til veiða við Ísland í atvinnuskyni, sem fengið hafa til þess almennt veiðileyfi, sbr. 4. gr. fiskveiðistjórnunarlagana (fvstl.) Séu veiðiheimildir takmarkaðar er fyrirfram ákveðnu hlutfalli heildarafla (aflahlutdeild ) úthlutað árlega til einstaks skips (aflamark), sbr. 7. gr. fvstl. Aflahlutdeild fylgir skipi við eiganda­skipti, nema aðilar geri sín á milli skriflegt samkomulag um annað, sbr. 2. mgr. 11. gr. fvstl.

Í máli því, sem hér er til úrlausnar, var þess sérstaklega getið í heimildarskjölum að eignayfirfærslu m/b Jóa á Nesi, áður Hafnarbergs, (kaupsamningi og afsali), að báturinn seljist án aflahlutdeildar og aflamarks. Einnig er sérstakt ákvæði um ráðstöfun á rétti til úthlutunar úr 3000 lesta potti, sem tilheyra skyldi stefnanda.  Ekkert er vikið að því í samningi málsaðila, hvor þeirra skyldi njóta veiðireynslu bátsins, ef takmarkaður yrði aðgangur að öðrum fisktegundum, eins og síðar varð raunin.  Með reglugerð nr. 631/2001, sem áður er lýst, voru veiðar á keilu, löngu og skötusel takmarkaðar. Úthlutun aflahlutdeildar var byggð á veiðireynslu hins selda fiskibáts, sem varð til á eignarhaldstíma stefnanda.

Með vísan til 2. mgr. 11. gr. fvstl. fylgja öll veiðiréttindi skipi við eigendaskipti, nema þau séu sérstaklega undan skilin með skriflegum hætti. Af því leiðir, að sú veiðireynsla, sem úthlutun aflamarks og síðar aflahlutdeildar í umræddum þremur fiskitegundum byggðist á, fylgdi bátnum við sölu hans til stefnda, þar sem stefnandi hafði ekki sérstaklega með skriflegum hætti undanskilið veiðireynslu í heimildar­skjölum að eignayfirfærslu bátsins.

Þessum réttindum verður því aðeins ráðstafað aftur til stefnanda með skriflegri yfirlýsingu stefnda til Fiskistofu, sbr. 10. og 11. gr. rgl. 631/2001. Stefndi hefur hafnað þeirri úrlausn.

Því verður að taka afstöðu til þess, hvort stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda eða hækkunar á verði hins selda báts, eins og hann gerir kröfu til.  Við mat á því álitaefni þykir verða að líta til aðstæðna við samningsgerðina.

Aðstæður stefnanda voru þær, að hann var í þann mund að festa kaup á nýjum fiskibáti, þegar salan á m/b Jóa á Nesi átti sér stað, og því þykir því fullljóst, að hann hugðist flytja öll fiskveiðiréttindi, sem tilheyrðu þeim fiskibáti yfir á nýja bátinn, sem hann og gerði. Stefnandi bar það fyrir dóminum, að öllum hafi verið ljóst á þessum tíma, að takmarka ætti veiðar á umræddum tegundum, einnig Pétri F. Karlssyni, viðsemjanda hans, en Fiskistofa hefði þá ekki verið búin að reikna út aflahlutdeild bátsins á grundvelli veiðireynslu hans. Því hafi fyrirvari í kaupsamningi og afsali um, að aflahlutdeild og aflamark fylgdi ekki, einnig náð til umræddra tegunda, enda hafi samningsaðilar og starfsmenn réttargæslustefnda talið, að svo ætti að vera.

Ljóst þykir samkvæmt framanskráðu, að stefnandi mat ekki andvirði aflahlut­deildar og aflamarks á löngu, keilu og skötusel til fjár við sölu bátsins til stefnda, sbr. ummæli í dómi Hæstaréttar í máli nr. 305/1997, sem áður er vísað til.

Reglugerð nr. 631/2001 var gefin út 16. ágúst 2001 eða þremur dögum eftir undirritun kaupsamnings, og tók gildi sama dag, sbr. 17. gr. hennar.

Í 2. mgr. 3. gr. fvstl. segir, að Sjávarútvegsráðherra skuli ákveða og gefa út reglugerð fyrir leyfðan heildarafla hverrar tegundar fyrir 1. ágúst ár hvert fyrir komandi fiskveiðiár. Reglugerðin átti samkvæmt því að hafa tekið gildi við undirritun kaupsamnings, ef rétt verið að verki staðið, með þeim réttaráhrifum, að ákvæði samningsins um aflahlutdeild og aflamark og önnur fiskveiðiréttindi hefðu tekið af öll tvímæli um réttarstöðu málsaðila.

Pétur F. Karlsson og síðan stefndi keyptu umræddan bát í þeim tilgangi að gera hann út frá Ólafsvík og leigja sér kvóta til veiða á kvótabundnum tegundum, eins og Guðmundur Björn Steinþórsson, stjórnarmaður í stjórn stefnda greindi réttinum frá. Ljóst er engu að síður, að hagsmunir stefnda voru jafnríkir hagsmunum stefnanda af því að öðlast rétt til aflahlutdeildar og aflamarks umræddra tegunda.

Stefnandi lét flytja aflamark fyrir löngu, keilu og skötusel yfir á bát sinn undir lok september 2001, ásamt aflahlutdeild og aflamarki annarra tegunda, sem ekki er ágreiningur um, að stefnanda væri heimilt að flytja. Stefndi virðist engum athugasemdum hafa hreyft við þessari ráðstöfun stefnanda, fyrr en á árinu 2002, þegar aflahlutdeild þessara tegunda var úthlutað. Fyrst í maímánuði það ár gerir stefndi reka að því að fá aflamark flutt að nýju af báti stefnanda yfir á m/b Jóa á Nesi. Afstaða fyrirsvarsmanna stefndu gagnvart veiðieftirlitsgjaldi og gjaldi í þróunarsjóð, sem áður er lýst, þykir einnig styrkja þá fullyrðingu stefnanda, að stefndu hafi í upphafi litið svo á, að veiðireynsla og afleidd réttindi hafi ekki átt að fylgja bátnum við kaupin. Guðmundur Björn Steinþórsson bar það fyrir dóminum, að hann hefði ekki verið viðstaddur gerð og undirritun kaupsamnings og geti því ekki af eigin raun upplýst, hvað þar fór fram. Pétur F. Karlsson kaus að mæta ekki til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. Verður því að styðjast við skýrslu stefnanda hér fyrir dómi um aðdraganda kaupsamningsins svo og um það, hvernig orð féllu við samningsgerðina.  Gunnlaugur Jónsson, sölumaður hjá Bátum og búnaði ehf., skýrði dóminum frá því, að ekki hafi staðið til, að bátnum ættu að fylgja veiðiheimildir af nokkru tagi við sölu hans og verð bátsins hefði miðast við það. Fyrirsvarsmanni stefnda hafi verið þetta ljóst.

Dómurinn telur því rétt, með vísan til þess, sem að framan er rakið, og með hliðsjón af 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum, að fallast á kröfu stefnanda með eftirfarandi athugasemdum.

Lögmaður stefnda mótmælti matsgerð Björns Jónssonar frá 3. júlí 2002 í greinargerð sinni, og studdi mótmæli sín þeim rökum, að matsmaður hafi miðað við verðmæti aflahlutdeildar og aflamarks við þann tíma, þegar matið fór fram. Verð á aflaheimildum sé mjög breytilegt eftir markaðsaðstæðum og fari almennt hækkandi eftir því sem líður á fiskveiðiárið.

Í beiðni lögmanns stefnanda til Héraðsdóms Reykjavíkur um dómkvaðningu matsmanns, segir m.a. svo: Ég vil hér með, herra dómstjóri, óska eftir því að þér dómkveðið hæfan og óvilhallan matsmann til að meta ofangreindar aflahlutdeildir til fjár miðað við gangverð þeirra í dag.  Í matsgerð er fært til bókar að lögmaður stefnda sé mættur á fundi, sem matsmaður hélt 2. júlí með lögmönnum málsaðila. Ekki er að sjá, að lögmaður stefnda hafi gert athugasemdir við framgang matsgerðarinnar á framangreindum forsendum.  Verður því að telja að mótmæli stefnda á síðari stigum séu of seint fram komin.

Því þykir rétt að leggja matsgerðina til grundvallar, enda hefur stefndi ekki krafist yfirmats.

Það er því niðurstaða dómsins með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum, að stefnda ber því að greiða stefnanda andvirði aflahlutdeildar löngu keilu og skötusels, eins og þessi réttindi hefðu sérstaklega verið verðlögð við kaupsamningsgerðina við því verði, sem matsgerð Björns Jónssonar gerir ráð fyrir, enda er ekki við annað að styðjast.

Aflamarksréttindi eru á hinn bóginn afleidd af aflahlutdeild og beintengd henni og verður stefnda því ekki gert að bæta stefnanda fyrir missi þeirra réttinda, enda er við það miðað, að eignayfirfærsla aflahlutdeildar hafi átt sér stað um leið og kaupin á m/b Jóa á Nesi voru afráðin.

Samkvæmt því ber stefnda að greiða stefnanda 5.183.965 kr., sem sundurliðast þannig:

Aflahlutdeild í löngu                           2.570.400 kr.

aflahlutdeild í keilu                                 69.160 kr.

aflahlutdeild í skötusel                        2.544.405 kr.

                                                                                5.183.965 kr.

 

Rétt þykir, eins og málið er vaxið, að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti af tildæmdri fjárhæð frá 3. október 2002, þegar stefna var birt fyrir lögmanni stefnda til greiðsludags, eins og nánar er lýst í dómsorði.

Með vísan til 1. tl. 130. gr. ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 550.000 krónur, þar með talinn matskostnaður.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Stefndi, Pétursskip, útgerðarfélag ehf., greiði stefnanda, Tómasi Sæmundssyni, 5.183.965 kr., auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. október 2002 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.