Hæstiréttur íslands

Mál nr. 451/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetning
  • Eignarréttarfyrirvari


Miðvikudaginn 1

 

Miðvikudaginn 1. desember 2004.

Nr. 451/2004.

Toppkart ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Þór hf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Kærumál. Innsetning. Eignarréttarfyrirvari.

Þ hf. krafðist að honum yrði með beinni aðfarargerð afhentar tvær tilteknar vélar sem T ehf. hafði keypt af honum samkvæmt munnlegum samningi. Í reikningi Þ hf. var greint frá kaupunum og verði vélanna. Tveimur dögum eftir útgáfu hans ritaði fyrirsvarsmaður undir yfirlýsingu sem nefnd var eignarréttarfyrirvari. Með vísan til þess að yfirlýsingin væri óskýr í nokkrum atriðum auk þess sem fyrir lægi að T ehf. hefði greitt Þ hf. þá fjárhæð sem reikningurinn kvað á um og T ehf. hefði að minnsta kosti greitt andvirði verðminni vélarinnar þegar hin umdeilda yfirlýsing var gefin út var talið að ekki væri fullnægt skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til að veita Þ hf. umráð yfir vélunum með beinni aðfarargerð. Var úrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 3. nóvember 2004 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. október 2004, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá tvær tilteknar vélar teknar úr umráðum sóknaraðila og fengnar sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um heimild til fyrrgreindrar aðfarargerðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt gögnum málsins munu aðilar hafa gert munnlegan samning um kaup sóknaraðila á tveimur vélum til jarðyrkju. Í reikningi varnaraðila sem gefinn var út á sóknaraðila 10. september 2001 er greint frá kaupum á vélunum. Þar kom fram að önnur þeirra hafi kostað 770.000 krónur án virðisaukaskatts, en hin 5.082.000 án virðisaukaskatts, en samtals hafi þær með virðisaukaskatti kostað 7.285.740 krónur. Tveimur dögum eftir útgáfu reikningsins ritaði fyrirsvarsmaður sóknaraðila undir svofellda yfirlýsingu: „EIGNARRÉTTARFYRIRVARI. Undirritaður kaupandi að eftirfarandi vörum samkvæmt reikn Nr. VD-010080 dags. 10.09.2001. 1 stk GRIMME, gerð „KS-3000“ Sláttuvél f. kartöflugras og 1 stk GRIMME, gerð „RL-3000“ Kartöfluupptökuvél, 4-raða samþykkir með undirritun sinni, að hin selda eign (vara) sé að öllu leyti í eign, þar til hún er að fullu greidd.“ Sóknaraðili hafði fyrir útgáfu reikningsins greitt 3.500.000 krónur og við útgáfu hans mun varnaraðili hafa gefið út víxil með gjalddaga 30. október 2001 að fjárhæð 3.785.740 krónur er samþykktur var til greiðslu af hálfu sóknaraðila. Ekki verður af gögnum málsins ráðið hvenær vélarnar voru afhentar sóknaraðila. Sóknaraðili kveður það ekki hafa verið fyrr en sex mánuðum eftir samning aðila, en varnaraðili segir þær hafa verið afhentar á „umsömdum“ tíma, án þess að nefna sérstaka dagsetningu. Þá er óumdeilt að sóknaraðili hefur greitt varnaraðila þá fjárhæð sem tilgreind er á framangreindum reikningi á tímabilinu frá 12. júlí 2001 til 14. apríl 2003, en varnaraðili rifti samningi aðila með bréfi 18. júní 2004 vegna ætlaðra vanefnda sóknaraðila.

Málsástæðum og lagarökum aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Framangreind yfirlýsing 12. september 2001, sem varnaraðili reisir kröfu sína á, er óskýr í nokkrum atriðum. Er þar fyrst til að taka að ekki er sagt berum orðum í hvers eigu vélarnar skuli vera og raunar oft skírskotað til einnar eignar í stað tveggja, sem samningur aðila kvað á um. Þar virðist sem eignarréttarfyrirvarinn eigi að hafa gildi uns eigin sé „að fullu greidd.“ Hins vegar er hvorki kveðið á um dráttarvexti né mælt fyrir um kostnað af vanskilum, heldur einungis skírskotað til framangreinds reiknings. Fyrir liggur að sóknaraðili hefur greitt varnaraðila þá fjárhæð, sem reikningurinn kveður á um, þótt þær greiðslur hafi átt sér stað á löngu tímabili, en deilur eru milli málsaðila um réttar efndir hins munnlega samnings. Á þeim tíma sem umdeild yfirlýsing var útgefin hafði sóknaraðili að minnsta kosti greitt andvirði verðminni vélarinnar og eins og að framan er rakið er einungis skírskotað til einnar eignar í nefndri yfirlýsingu.

Að öllu framanrituðu virtu verður ekki talið að gögn málsins beri svo skýrlega með sér rétt sóknaraðila til vélanna að lagaskilyrði séu til að aðfarargerðin nái fram að ganga, sbr. 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga. Ber því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfu varnaraðila, Þórs hf., um beina aðfarargerð á hendur sóknaraðila, Toppkart ehf., er hafnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úr­skurður Héraðs­dóms Suður­lands 22. október 2004.

            Sóknaraðili er Þór hf., kt. 710269-3869, Ármúla 11, Reykjavík.

            Varnaraðili er Toppkart ehf., kt. 440297-2509, Lyngási 4, Hellu.

            Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að eftirtalin tæki verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengin lögmanni sóknaraðila fyrir hönd hans:

1. stk. Grimme, gerð KS-3000 sláttuvél fyrir kartöflugras og 1. stk. Grimme, gerð RL-3000 kartöfluupptökuvél, 4-raða.

            Aðfararbeiðnin er dagsett 21. júní s.l. og barst dóminum daginn eftir.  Varnaraðili skilaði greinargerð 1. september s.l. og var málið lagt í úrskurð dómsins 28. september s.l. án málflutnings.

            Sóknaraðili segir hér um að ræða kartöfluupptökuvél og sláttuvél fyrir kartöflugras sem hann hafi selt varnaraðila samkvæmt reikningi dagsettum 10. september 2001.  Sé reikningurinn að fjárhæð 7.285.740 krónur og hafi verið svo um samið að sóknaraðili væri eigandi vélanna þar til kaupverðið væri að fullu greitt, sbr. samning dagsettan 12. september sama ár.  Þá hafi sóknaraðili fengið í hendur víxil, samþykktan af varnaraðila að fjárhæð 3.785.740 krónur, með gjalddaga 30. október sama ár til tryggingar eftirstöðvum kaupverðs.  Sóknaraðili segir greiðslu eftirstöðva hafa dregist úr hófi og séu nú ógreiddar 874.805 krónur auk innheimtukostnaðar að fjárhæð 75.800 krónur.  Sé innborgunum venju samkvæmt fyrst ráðstafað inn á kostnað, síðan á dráttarvexti og loks inn á höfuðstól.  Séu dráttarvextir reiknaðir frá 30. október 2001, en það hafi verið síðasti dagur sem varnaraðila hafi verið heimilt að greiða eftirstöðvar kaupverðs án dráttarvaxta.  Sóknaraðili tekur fram að með móttöku tryggingarvíxilsins hafi ekki falist fullnaðarkvittun kaupverðs vélanna, enda hefði eignarréttarfyrirvarinn þá ekki verið gerður samhliða.

            Varnaraðila mun hafa verið sent riftunarbréf 18. júní s.l. þar sem skorað var á hann að afhenda tækin, en þar sem hann hafi ekki orðið við þeim áskorunum sé nauðsynlegt að setja kröfu þessa fram.  Sóknaraðili segir eftirstöðvar kaupverðsins nú nema 950.605 krónum og þá er í aðfararbeiðni gerð grein fyrir innborgunum varnaraðila, samtals 7.285.740 á tímabilinu frá 12. júlí 2001 til 14. apríl 2003.

            Sóknaraðili byggir kröfu sína á 78. gr. laga nr. 90/1989.

            Varnaraðili gerir þær athugsemdir við málsatvikalýsingu sóknaraðila að hann hafi þurft að bíða í hálft ár frá undirskrift samnings eftir að fá vélarnar afhentar.  Hafi það valdið varnaraðila miklu tjóni og hafi sóknaraðili ætíð lofað afslætti af kaupsamningsverði og áföllnum vöxtum vegna víxlanna.

            Varnaraðili byggir á því í fyrsta lagi að málið sé vanreifað af hálfu sóknaraðila.  Ekki sé ljóst hvort byggt sé á víxlunum eða þeim reikningum sem greiddir hafi verið með víxlunum.  Sé greiðsluáskorun ekki fyrir hendi og verði því ekki á víxlunum byggt.  Í aðfararbeiðni sé talið að sóknaraðili hafi selt varnaraðila vélarnar, en þó felist ekki fullnaðarkvittun í móttöku víxlanna, þar sem eignarréttarfyrirvari hafi verið gerður samhliða.  Þá sé riftunarkrafan ekki gerð á grundvelli kaupverðs vélanna, heldur á grundvelli eftirstöðva víxilfjárhæðarinnar, höfuðstóls hans.  Sé því ekki verið að rifta þeim kaupsamningi sem falist hafi í reikningunum og hafi engin réttmæt eða lögleg riftun farið fram.  Sé ljóst að fjárkrafan byggi á víxlunum, en það staðfesti að kaupin haldi, þar sem víxlarnir hafi verið greiðsla kaupverðsins á sínum tíma.  Sé málið því vanreifað.

            Varnaraðili byggir einnig á því að enginn eignarréttarfyrirvari sé fyrir hendi.  Verði slíkir íþyngjandi samningar að vera skýrir og ljósir að efni og ekki í andstöðu við raunveruleikann.  Geti vélarnar, sem kostað hafi 7.285.740 krónur, og greiddar hafi verið að fullu, ekki verið háðar eignarréttarfyrirvara eða eignarrétti seljanda.  Tekur varnaraðili fram að sú fjárhæð sem hann sé krafinn um sé vextir af þeim víxlum sem greitt hafi verið með.  Byggir varnaraðili einnig á því að það sé ósanngjarnt og í ósamræmi við almenna og góða viðskiptahætti ef sóknaraðili nær fram kröfu sinni með þeim hætti sem hann ætlar sér.

            Í þriðja lagi byggir varnaraðili á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 78. gr. aðfaralaga fyrir innsetningu, sbr. 83. gr. sömu laga.  Varnaraðili vísar einnig til 36. gr. samningalaga í heild sinni, grundvallarreglna eignarréttar og eðlis máls.

Niðurstaða.

 

            Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili keypti umræddar vélar af sóknaraðila 10. september 2001 og samdægurs samþykkti varnaraðili víxil til tryggingar eftirstöðvum kaupverðs.  Tveimur dögum síðar samþykkti varnaraðili með undirritun sinni að vélarnar yrðu að öllu leyti í eign (svo) þar til þær yrðu að fullu greiddar.  Ljóst er af gögnum málsins að varnaraðili hefur staðið sóknaraðila skil á höfuðstólsandvirði vélanna, 7.285.740 krónum, en því er ekki mótmælt að það gerðist með innborgunum á tímabilinu frá 12. júlí 2001 til 14. apríl 2003.  Hefur sóknaraðili í samræmi við venju ráðstafað innborgunum til greiðslu kostnaðar og dráttarvaxta og loks inn á höfuðstól.  Hefur varnaraðili ekki borið brigður á það að eftirstöðvar skuldarinnar 21. júní s.l. nemi 950.605 krónum.  Hefur sóknaraðili af þessum sökum lýst yfir riftun á kaupunum og krafist afhendingar á vélunum á grundvelli umrædds eignarréttarfyrirvara.

            Varnaraðili byggir á því í fyrsta lagi að krafa sóknaraðila sé vanreifuð.  Ekki verður á það fallist.  Sóknaraðili hefur lagt fram gögn sem sýna fram á vanskil varnaraðila og hefur þeim ekki verið hnekkt með framlagningu gagna sem heimilt er að afla í máli sem þessu, sbr. 78. gr., sbr. 83. gr. laga um aðför.  Þá er á því byggt af hálfu varnaraðila að enginn eignarréttarfyrirvari sé fyrir hendi.  Á það verður engan veginn fallist.  Fyrirsvarsmaður varnaraðila hefur ritað nafn sitt undir skjal sem ber heitið EIGNARRÉTTARFYRIRVARI.  Kemur þar nægilega skýrt fram að hin selda eign sé háð slíkum fyrirvara þar til hún er að fullu greidd.  Þar sem ljóst er, að varnaraðili hefur ekki að fullu staðið sóknaraðila skil á andvirði hins selda, er með vísan til þessa fyrirvara ljóst að vélarnar eru enn í eigu sóknaraðila.  Þar sem varnaraðila hefur ekki tekist að sýna fram á að þetta samningsákvæði sé í andstöðu við 36. gr. samningalaga eða varhugavert sé af öðrum ástæðum að krafa sóknaraðila nái fram að ganga, verður að telja lagaskilyrði vera til innsetningar samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989.  Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila um að umrædd aðfarargerð megi fara fram.  Eftir þessum úrslitum ber að úrskurða varnaraðila til að greiða sóknaraðila 100. 000 þúsund krónur í málskostnað.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

            Hin umkrafða aðfarargerð má fara fram.

            Varnaraðili, Toppkart ehf., greiði sóknaraðila, Þór hf., 100.000 krónur í málskostnað.