Hæstiréttur íslands
Mál nr. 311/2012
Lykilorð
- Hættubrot
- Vopnalagabrot
- Upptaka
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 21. mars 2013. |
|
Nr. 311/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Tómasi Pálssyni Eyþórssyni (Bjarni Hauksson hrl.) (Björn Jóhannesson hrl. réttargæslumaður) |
Hættubrot. Vopnalagabrot. Upptaka. Skaðabætur.
T var sakfelldur fyrir hlutdeild í hættubroti einkum með vísan til þess að hann hefði vitað að X var vopnaður byssu sem hann hafði skotið af að bifreið A og B og að T hefði allt að einu veitt bifreiðinni eftirför og reynt að nálgast hana til að komast í skotfæri við hana. Var brot T talið varða við 4. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var T sakfelldur fyrir vopnalagabrot með því að hafa haft kylfu í vörslum sínum í bifreið sem hann hafði umráð yfir. Var refsing T ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá var T gert að greiða B skaðabætur að fjárhæð 600.000 krónur og sæta upptöku kylfunnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. apríl 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af þeim sökum, sem hann er borinn í 1. lið ákæru, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
B krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur, þar af 600.000 krónur sameiginlega með X, með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Til vara krefst hann þess að niðurstaða héraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimvísun brota hans til refsiákvæða. Að teknu tilliti til þeirra atriða, sem greinir í héraðsdómi varðandi refsingu ákærða, verður hún ákveðin fangelsi í 2 ár, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald, sem hann sætti frá 21. nóvember 2011 til 22. mars 2012. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um upptöku, sakarkostnað og einkaréttarkröfu.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Tómas Pálsson Eyþórsson, sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhald, sem hann sætti frá 21. nóvember 2011 til 22. mars 2012.
Héraðsdómur skal að öðru leyti óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 674.302 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Björns Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 7. mars 2012, er höfðað samkvæmt ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 13. febrúar 2012, á hendur Y, kt. [...], [...], [...], X, kt. [...], [...], [...], og Tómasi Pálssyni Eyþórssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir hegningarlaga-, fíkniefnalaga- og vopnalagabrot, sem hér greinir:
1. Gegn ákærðu öllum fyrir tilraun til manndráps með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 18. nóvember 2011, farið saman á bifreiðinni AO-[...], sem ákærði Tómas ók, á bifreiðastæði við bifreiðasöluna [...] að [...] í Reykjavík, þar sem ákærði Tómas hafði mælt sér mót við A vegna ágreinings um fjárskuld á milli Tómasar og A. Þegar ákærðu komu á vettvang fóru þeir allir út úr bifreiðinni og gengu að bifreiðinni OV-[...], sem A ók og B var farþegi í, og sparkaði ákærði Tómas í bifreiðina. Er A bakkaði bifreiðinni til að komast undan ákærðu skaut ákærði X úr haglabyssu einu skoti í áttina að bifreiðinni framanverðri, en hæfði ekki. A ók bifreiðinni á brott en ákærðu veittu honum eftirför á bifreiðinni AO-[...], sem ákærði Tómas ók, frá [...] um Sævarhöfða að hringtorginu við Bíldshöfða, þar sem ákærði X skaut öðru skoti úr haglabyssunni út um glugga bifreiðarinnar AO-[...] á bifreið A aftanverða, með þeim afleiðingum að afturrúða bifreiðarinnar brotnaði og miklar skemmdir urðu á bifreiðinni, auk þess sem brot úr hagli hafnaði í baki vinstra aftursætis bifreiðarinnar. Eftir árásina tók ákærði Y haglabyssuna með sér heim. Með þessari háttsemi stofnuðu ákærðu lífi og heilsu A og B í augljósan háska.
Telst háttsemi ákærða X varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og háttsemi ákærðu Tómasar og Y við 211. gr., sbr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga, en til vara við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga að því er varðar ákærða X og við 4. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga að því er varðar ákærðu Tómas og Y.
2. Gegn ákærða Tómasi fyrir vopnalagabrot með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 18. nóvember 2011, haft í vörslum sínum í bifreiðinni AO-[...], sem hann hafði þá umráð yfir, einn brúsa af úðavopni og kylfu, sem lögregla fann við leit.
Telst þetta varða við c-lið 2. mgr. og 4. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
3. Gegn ákærða X fyrir vopnalagabrot, með því að hafa, mánudaginn 28. nóvember 2011, á heimili sínu að [...] í [...], haft í vörslum sínum fjóra brúsa af úðavopnum, sem lögregla fann við leit.
Telst þetta varða við 4. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
4. Gegn ákærða Y fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, miðvikudaginn 7. desember 2011, á heimili sínu að [...] í [...], haft í vörslum sínum 8,78 g af marijúana, sem lögregla fann við leit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998, að ákærðu verði gert að sæta upptöku á fimm úðavopnum og kylfu, sem lögregla fann við leit, sbr. 2. og 3. ákærulið, og á 8,78 grömmum af marijúana, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. 4. ákærulið.
Af hálfu B, kt. [...], er gerð sú krafa á hendur ákærðu að þeir verði dæmdir sameiginlega til að greiða brotaþola miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 1.200.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 18. nóvember 2011, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, sbr. 48. gr. og 216. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Við aðalmeðferð málsins féll A frá skaðabótakröfu á hendur ákærðu.
Verjandi ákærða Y krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af 1. ákærulið, en dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa vegna þess brots er í 4. ákærulið greinir. Til vara er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa, sem jafnframt verði bundin skilorði að öllu leyti eða hluta og að gæsluvarðahaldsvist sem ákærði hefur sætt komi að fullu til frádráttar refsingu. Þá er krafist frávísunar skaðabótakröfu, til vara að ákærði verði sýknaður af bótakröfu, en til þrautavara að bótakrafa sæti verulegri lækkun. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Verjandi ákærða X krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af 1. ákærulið, en dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa vegna þess brots er í 3. ákærulið greinir. Til vara er þess krafist að háttsemi ákærða samkvæmt 1. ákærulið verði talin varða við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa og að gæsluvarðahaldsvist sem ákærði hefur sætt komi að fullu til frádráttar refsingu. Þá er krafist frávísunar skaðabótakröfu, til vara að ákærði verði sýknaður af bótakröfu, en til þrautavara að bótakrafa sæti verulegri lækkun. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Verjandi ákærða Tómasar Pálssonar Eyþórssonar krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af 1. ákærulið, en dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa vegna þess brots er í 2. ákærulið greinir. Til vara er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa og að gæsluvarðahaldsvist sem ákærði hefur sætt komi að fullu til frádráttar refsingu. Þá er krafist frávísunar skaðabótakröfu, en til vara að bótakrafa sæti verulegri lækkun. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
Föstudaginn 18. nóvember 2011, klukkan 19:57, barst lögreglu tilkynning um að skotið hefði verið af haglabyssu á bifreið við [...] í Reykjavík. Skömmu síðar kom A akandi að lögreglustöðinni á bifreiðinni OV-[...] af [...]-gerð og reyndust voru skotför á bifreiðinni og afturrúða brotin. Kvaðst A hafa mælt sér mót við ákærða Tómas Pálsson Eyþórsson á bifreiðastæði við bifreiðasölu að [...]. Þegar þangað kom hefðu tvær bifreiðar verið á bifreiðastæðinu, grá [...]-bifreið og dökk skutbifreið. Tómas hefði verið ökumaður [...]-bifreiðarinnar og hefði hann ekið í veg fyrir bifreið A. Hann hefði síðan stigið út úr bifreiðinni, ásamt tveimur mönnum, íklæddum hettupeysum, með hulin andlit og hefði annar þeirra haldið á haglabyssu, sennilega afsagaðri. Hefði Tómas verið mjög æstur og sparkað í bifreið A. Kvaðst A hafa ekið bifreið sinni aftur á bak, en þegar hann hefði verið kominn í um 20 m fjarlægð hefði sá sem hélt á byssunni hleypt af henni og skot hæft bifreiðina framanverða. A kvaðst hafa ekið á brott, en [...]-bifreiðin fylgt á eftir og hefði ökumaður hennar tvívegis reynt að aka fram úr bifreið hans og í veg fyrir hana. Hann hefði ekið bifreiðinni um Bíldshöfða og um hringtorg á móts við Sæbraut, en þá hefði aftur verið skotið á bifreiðina og afturrúða brotnað við það. Kvaðst A hafa beygt inn á Sæbraut, en [...]-bifreiðinni verið ekið áfram eftir Bíldshöfða. Við skýrslutöku hjá lögreglu 20. nóvember upplýsti A að B hefði verið með honum í bifreiðinni. Hann kvaðst hafa hleypt B út úr bifreiðinni áður en hann kom á lögreglustöðina, en þeir hefðu ákveðið í flýti að halda honum utan við málið. A kvað þá Tómas hafa deilt um peningamál, en Tómas skuldaði sér fé. Hefði komið til ryskinga á milli þeirra vegna þessa tveimur dögum fyrir atvikið.
Í skýrslu tæknideildar lögreglu um rannsókn á bifreiðinni OV-[...] kemur fram að ummerki eftir haglaskot hafi verið aftan á bifreiðinni, hægra megin. Voru skotför á svæði frá hægra afturhorni bifreiðarinnar niður að afturhlera við stuðara. Þá mátti sjá ákomu efir högl á afturrúðuþurrku. Reyndust för eftir högl vera 161 talsins, en af því megi álykta að notuð hafi verið skot númer 4 til 5 með hleðsluþyngdinni 36 g eða 42 g. Var það niðurstaða rannsóknarinnar, miðað við hagladreifingu, að skotið hefði verið á bifreiðina af 12 til 18 m færi. Skýrslunni fylgja ljósmyndir af bifreiðinni, þar sem m.a. sést málmögn á aftanverðu baki vinstra aftursætis, ætlað brot úr hagli. Þá kemur fram í skýrslunni að lögreglumenn hafi fundið forhlað úr haglabyssuskoti á Bíldshöfða vestan við hringtorg við Sævarhöfða. Sams konar forhlað hafi fundist á bifreiðastæðinu við [...].
Sama kvöld og tilkynnt var um skotárásina barst lögreglu tilkynning um mannlausa bifreið á bifreiðastæði við bifreiðasölu við Bíldshöfða og kom lýsing bifreiðarinnar heim og saman við lýsingu A á bifreiðinni sem árásarmennirnir hefðu ekið. Um var að ræða gráa [...]-bifreið og kemur fram í skýrslu lögreglu að upplýsingar hafi legið fyrir um að ákærði Tómas hafi haft afnot af bifreiðinni á þessum tíma. Í bifreiðinni fundust hafnarboltakylfa og brúsi með gasúða.
Ákærði Tómas gaf sig fram við lögreglu sunnudaginn 20. nóvember. Við yfirheyrslu kvaðst ákærði hafa skuldað A fé og hefði þá greint á um fjárhæð skuldarinnar. Hefði A haft í hótunum við hann vegna þessa. Ákærði kvaðst hafa leitað ásjár erlends vinar síns vegna málsins og hefði hann fyrir milligöngu þessa manns sótt tvo menn í Árbæjarhverfi á milli klukkan 18 og 19 föstudaginn 18. nóvember. Mennirnir hefðu verið með „buff“ eða kúrekaklút fyrir andliti og hefði annar þeirra talað íslensku. Hann hefði séð að þeir höfðu tvær kylfur meðferðis. Ákærði kvaðst hafa hringt til A og mælt sér mót við hann í bryggjuhverfinu. Hann kvaðst hafa verið reiður og þegar hann kom á mótsstaðinn hefði hann gengið að bifreið A og sparkað í hana. Kvaðst ákærði síðan hafa heyrt hvell, en ekki vitað hver væri orsök hans. Hann hefði farið í bifreið sína á ný og ekið á eftir bifreið A. Þegar hann hefði verið kominn að hringtorgi hefði hann heyrt annan hvell. Hann hefði stöðvað bifreiðina skömmu síðar og hleypt mönnunum út. Ákærði sagði mennina hafa átt að gæta þess að A ynni honum ekki mein, en hann hefði ekki beðið þá um að gera A neitt. Hann hefði aðeins ætlað að ræða við A. Ákærði var yfirheyrður nokkrum sinnum, m.a. um aðild meðákærðu að málinu, og neitaði hann ítrekað að þeir ættu hlut að máli.
Við yfirheyrslu 13. desember kvaðst ákærði vilja breyta framburði sínum. Kvað hann ákærða X hafa farið með sér að hitta A í umrætt sinn, ásamt manni að nafni Y, sem þeir hefðu sótt að [...] í [...]. Ákærði kvaðst hafa ekið í veg fyrir bifreið A þegar þeir komu á fundarstaðinn, en hann hefði ætlað að ná tali af A. Hefðu ákærðu allir stigið út úr bifreiðinni og gengið að bifreið A og kvaðst ákærði hafa sparkað í spegil bifreiðarinnar. A hefði þá ekið bifreiðinni aftur á bak. Kvaðst ákærði hafa heyrt hvell, en ekki gert sér grein fyrir því í fyrstu frá hverju hann stafaði. Þeir hefðu farið aftur inn í bifreiðina og ekið greitt á eftir bifreið A. Í sömu mund og A beygði í átt að Sæbraut kvaðst ákærði hafa orðið var við að afturrúðu bifreiðarinnar hefði verið rennt niður og hefði hann séð X teygja byssu út úr bifreiðinni og skjóta í átt að bifreið A. Ákærði kvaðst hafa ákveðið að hætta eftirförinni og hefði hann ekið áfram, en numið staðar við bifreiðaumboð við Bíldshöfða. Þar hefði beðið þeirra önnur bifreið og hefðu þeir farið yfir í hana og Y verið ekið heim. Hefði Y tekið byssuna með sér þegar hann yfirgaf bifreiðina. Síðar um nóttina hefði þeim X verið ekið upp í sveit, þar sem þeir hefðu dvalið um helgina. Ákærði kvaðst síðan hafa ákveðið að gefa sig fram við lögreglu á sunnudeginum og hefði hann farið á lögreglustöð í fylgd lögmanns síns.
Ákærði kvaðst hafa beðið X um að hjálpa sér og hefði X hringt í Y, og fengið hann til að koma með þeim. Þeir C hefðu verið saman á bifreið C og hefðu þeir farið að sækja X í íbúð við [...] í [...]. Hefði X haft tösku meðferðis þegar hann kom með þeim, en þeir hefðu síðan farið að sækja Y. C hefði síðan ekið þeim að heimili Tómasar í bryggjuhverfinu í [...] og skilið við þá þar. Ákærði kvaðst hafa hringt til A og mælt sér mót við hann á bifreiðastæðinu við [...]. Þeir hefðu síðan ekið þangað, svo sem fyrr greinir. Ákærði kvað X hafa skotið af byssunni í bæði skiptin. Hann kvaðst hafa séð þessa byssu hjá X á fimmtudeginum, en ekki vitað að hann hefði haft hana með sér. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að skotvopn væri meðferðis þegar þeir fóru að hitta A. Hann kvaðst hafa ætlað að fá A yfir í bifreiðina til sín og kýla hann einhver högg og hefði hann fengið meðákærðu með sér sem liðsstyrk. Hann hefði gert þetta þar sem A hefði áður haft í hótunum við hann vegna skuldamála.
Ákærði X var handtekinn 28. nóvember og ákærði Y 7. desember. Ákærðu neituðu aðild að málinu við yfirheyrslur hjá lögreglu og kváðust ekki hafa verið á vettvangi skotárásarinnar.
Lögregla lagði hald á tvær afsagaðar haglabyssur við rannsókn málsins, í geymslu á heimili D og í bílskúr við [...] í [...], þar sem E hafði aðstöðu. Ekki var staðreynt við rannsókn lögreglu að vopnin hefðu verið notuð við skotárásina.
Fyrir liggur myndband með upptöku úr öryggismyndavél við bifreiðastæðið að [...], en ákærðu báru kennsl á sig á upptökunni við aðalmeðferð málsins. Á myndbandinu sést bifreiðin AO-[...] á bifreiðastæðinu og skömmu síðar er bifreiðinni OV-[...] ekið um stæðið að hinni bifreiðinni, sem þá er í hvarfi frá myndavélinni. Sést hvar ákærðu ganga að bifreiðinni OV-[...], ákærði Tómas fremstur og sparkar hann í bifreiðina. Á eftir Tómasi gengur ákærði X og sést að hann beinir haglabyssu að bifreiðinni, sem er ekið aftur á bak á mikilli ferð, en ákærði skýtur af byssunni eftir að bifreiðin er komin út úr mynd. Á myndbandinu sést ákærði Y koma í humátt á eftir meðákærðu, en ákærðu hraða sér síðan inn í bifreiðina eftir að skotið ríður af.
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna við aðalmeðferð málsins.
Ákærði, Tómas Pálsson Eyþórsson, kvaðst hafa mælt sér mót við A við [...] að kvöldi föstudagsins 18. nóvember í því skyni að ræða við hann um skuldamál sín. Ákærði kvaðst hafa skuldað A 140.000 krónur. Miðvikudagskvöldið 16. nóvember hefði hann hitt A og greitt honum 100.000 krónur. A hefði brugðist reiður við og sagt honum að skuldin hefði hækkað í 500.000 krónur. Hefði A gefið honum tveggja daga frest til að borga fyrri afborgun af skuldinni, en viku til að greiða eftirstöðvarnar. A hefði hótað honum líkamsmeiðingum ef hann greiddi ekki og sagt honum að hann myndi finna hann hvar sem hann reyndi að fela sig. Ákærði kvaðst hafa verið mjög langt niðri vegna þessa og hefði hann íhugað sjálfsvíg. Hann hefði borið sig upp við C, vin sinn, og hefðu þeir rætt við F, sameiginlegan vin þeirra X, sem hefði haft milligöngu um að X aðstoðaði hann vegna málsins. Ákærði kvaðst hafa hitt X á veitingastað á fimmtudagskvöldinu og hefðu þeir komið sér saman um að X myndi koma með honum að hitta A til að aðstoða hann við að losna við þessa skuld. Hefði hann lofað X að hann fengi greitt því sem nam helmingi af upphaflegri skuld sinni við A fyrir vikið. Ákærði kvaðst hafa haft samband við X eftir hádegi daginn eftir og hefðu þeir C farið að hitta hann þar sem hann dvaldi í íbúð í bryggjuhverfinu í [...]. Þar hefðu einnig verið vinkona X, G, og tveir piltar. X hefði komið með þeim C og hefði hann haft svarta íþróttatösku með sér. Þegar hann var kominn út í bifreið C hefði hann haft á orði að hann þyrfti að hafa einhvern með sér og hringt í Y. C hefði ekki rætt það sérstaklega við Y hvað stæði til, en hann hefði í framhaldinu verið sóttur á heimili sitt í [...].
Ákærði kvaðst síðan hafa mælt sér mót við A og hefðu þeir farið að hitta hann á bifreið sem ákærði hafði í láni. Hefði hann ekið bifreiðinni, en meðákærðu setið í aftursætinu. Ekkert hefði verið rætt um tilgang ferðarinnar í bifreiðinni. Þegar þeir komu á fundarstaðinn hefði hann yfirgefið bifreiðina og ætlað að tala við A, en hann hefði séð að annar maður var með honum í bifreiðinni. A hefði verið búinn að læsa dyrum bifreiðarinnar og kvaðst ákærði þá hafa sparkað í bifreiðina, en A hefði þá byrjað að bakka henni. Ákærði kvaðst hafa snúið við og ætlað aftur í bifreið sína, en hann hefði þá heyrt einhvern hvell. Þeir hefðu farið aftur í bifreiðina og eltingarleikur upphafist. Ákærði kvaðst hafa ekið bifreiðinni og hefðu meðákærðu setið í aftursæti. Ekki hefði verið mikið rætt í bifreiðinni meðan á eftirförinni stóð, en ákærði kvaðst hafa gætt þess að hafa nægilega langt á milli bifreiðanna til að lenda ekki aftan á bifreið A ef hann hemlaði snöggt. Þegar þeir komu inn á hringtorgið kvaðst ákærði hafa séð X skjóta af byssunni, en þeir hefðu þá verið í um 20 til 30 m fjarlægð frá bifreið A. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við byssuna fyrr, en hann hefði áttað sig á því frá hverju hvellurinn sem hann heyrði áður stafaði. Þetta hefði verið afsöguð haglabyssa. Þeir hefðu hætt eftirförinni og hefði X fyrirskipað honum að aka að [...]. Þar hefðu piltarnir tveir, sem voru í íbúðinni í [...] fyrr um daginn, beðið þeirra á bifreið og ekið þeim á brott. Ákærði kvað Y hafa tekið byssuna með sér þegar hann yfirgaf bifreiðina við heimili sitt.
Ákærði kvað ekkert hafa verið rætt um að taka byssu með á stefnumótið við A. Hann hefði ætlað að ræða við A og hefði sennilega „skilað honum einhverjum af höggunum“, sem A hefði veitt honum á miðvikudagskvöldinu. Hann kvaðst þó hafa séð X handleika byssuna á fimmtudagskvöldinu. Þeir hefðu þá verið í samkvæmi í bílskúr í [...]. Hann kvaðst ekki hafa séð X taka byssuna með sér þaðan, en hún hefði litið eins út og sú sem hann notaði við skotárásina.
Ákærði kvaðst ekki minnast þess að neitt hefði verið rætt við Y um ástæðu fundarins með A. X hefði hringt í Y og sagt við hann að hann þarfnaðist aðstoðar og að þeir væru að koma að sækja hann. Þeir hefðu ekið að heimili Y og hann komið út í bifreiðina til þeirra. Ekkert hefði verið rætt um það á leiðinni að [...] hvað stæði til. Þá kvaðst ákærði ekki minnast þess að Y segði neitt meðan á eftirförinni stóð.
Ákærði, Y, viðurkenndi að hafa verið á vettvangi skotárásarinnar við [...] í umrætt sinn. Ákærði kvaðst hafa fengið símtal frá X, sem hefði beðið hann um að veita sér „smá hjálp“. Hefði X beðið hann um að vera „back up“ fyrir sig. Ákærði kvað meðákærðu og C hafa sótt sig skömmu síðar. Hefði verið rætt um það í bifreiðinni að til stæði að ræða við einhverja stráka sem hefðu verið að kúga Tómas. Hefði verið rætt um að þeir þyrftu að „streighta þessa gæja til“ og að hann ætti að vera „back up“. Þeir hefðu farið heim til Tómasar, sem hefði náð símasambandi við þann sem hann taldi sig eiga sökótt við og hefðu þeir mælt sér mót. Þeir hefðu farið á fundarstaðinn og hefði Tómas ekið bifreiðinni, en þeir X setið í aftursæti. Er þeir komu að bifreiðasölunni við [...] hefði Tómas öskrað: „Allir út“. Ákærði kvaðst þá hafa dregið bolinn upp fyrir nef, farið út úr bifreiðinni og stigið tvö eða þrjú skref, en þá heyrt háan hvell og hlaupið aftur inn í bifreiðina. Hann hefði sest í aftursætið, en X setið fram í við hlið Tómasar og hefði upphafist mikill eltingaleikur. Hefði X beðið Tómas um að aka ekki of nálægt hinni bifreiðinni, ef ökumaðurinn skyldi hemla. Tómas hefði ekið mjög hratt og nokkrum sinnum reynt að komast fram úr hinni bifreiðinni. Þeir hefðu síðan komið að hringtorginu og hefði Tómas þá öskrað á X: „Skjóttu - hittu bílinn“. Hefði X þá hleypt af byssunni. Hin bifreiðin hefði þá verið við brúna eða á henni. Þeir hefðu síðan ekið að bifreiðasölu skammt frá, en þar hefðu yngri bróðir X og annar piltur beðið þeirra á annarri bifreið og hefði honum verið ekið heim. Ekkert hefði verið rætt um það áður að fyrirhugað væri að skipta um bifreið. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið byssuna með sér þegar hann yfirgaf bifreiðina. X hefði beðið hann um það, en hann hefði hrist höfuðið til marks um að hann vildi það ekki. X hefði síðar sagt honum að hann hefði hent byssunni í sjóinn.
Ákærði kvaðst nokkurn veginn hafa áttað sig á því hvað hefði gerst þegar hvellurinn heyrðist við [...]. Hann hefði litið til X þegar hann heyrði hvellinn, séð glitta í eitthvað, og gert sér grein fyrir því að það var byssa, sem hafði verið skotið af. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við byssuna fyrr. Hann kvaðst hafa farið inn í bifreiðina því að hann hefði ekki vitað hvað hann ætti annað að gera. Þegar þeir komu að hringtorginu hefði hann síðan séð X taka byssuna undan erminni og skjóta út um gluggann. X hefði verið með byssuna í bandi yfir hægri öxl og hefði hún legið niður með síðu hans. Hann kvaðst ekkert hafa orðið var við byssuna þegar þeir X sátu saman í aftursætinu á leiðinni að [...].
Ákærði kvaðst hafa verið í þeirri trú að þeir væru að fara til fundar við þennan mann til að ógna honum, í mesta lagi myndi Tómas slá hann. Hann hefði sett bolinn fyrir andlit sér til að vera ógnvekjandi. Hann kvað bifreiðina hafa verið komna í verulega fjarlægð þegar skotið reið af við [...], eða út í enda bifreiðastæðisins. Þegar síðara skotið reið af hefði bifreið ákærðu verið komin að hringtorginu, en hin bifreiðin hefði verið á brúnni og við það að „detta af henni“.
Ákærði, X, kvað Tómas hafa komið að máli við sig á fimmtudagskvöldinu og sagst vera í vandræðum vegna manns sem væri að ganga á hann með skuld og hefði beitt hann ofbeldi til að kúga af honum fé. Þeir hefðu hist á bar til að ræða málin og hefði Tómas viljað „ganga í manninn með hörku“, þ.e. beita hann ofbeldi. Kvaðst X hafa rætt það við Tómas að hræða manninn svo að hann léti af háttsemi sinni. Ákærði kvað þá Tómas hafa farið af barnum í bílskúr uppi í [...], en þar hafi þessi byssa verið geymd, og hefðu þeir verið að handleika hana um nóttina. Hefðu þeir ákveðið að „taka þessa byssu með fyrir þetta“. Daginn eftir hefði Tómas haft samband og spurt hvort hægt væri að „ganga í þetta“. Hefðu Tómas og C komið að sækja hann þar sem hann dvaldi hjá vinkonu sinni í [...]. Hann hefði síðan hringt í Y og beðið hann um að hjálpa sér. Y hefði átt að vera til aðstoðar og vera á svæðinu ef A kæmi með fleiri menn með sér til fundarins. Annars hefði ekki verið gert ráð fyrir því að Y kæmi út úr bifreiðinni.
Ákærði kvað byssuna hafa verið geymda á heimili Tómasar og hefðu þeir tekið hana með sér, eftir að Tómas hafði mælt sér mót við A. Hann kvaðst hafa setið aftur í bifreiðinni á leiðinni að bifreiðasölunni við [...]og hefði hann haft byssuna inni á sér. Hann hefði verið búinn að hlaða hana heima hjá Tómasi. Hann tók fram að Y hefði ekki séð byssuna. Ákærði kvað Tómas síðan hafa kallað að þeir væru komnir og hefði hann rokið út úr bifreiðinni og í bifreið A. Ákærði hefði farið á eftir honum og tekið haglabyssuna fram. Hann hefði stigið út úr bifreiðinni, séð bifreið A og beint byssunni að henni. Hefði A bakkað bifreiðinni með miklum hraða. Kvaðst ákærði hafa leyft honum að bakka í hæfilega fjarlægð áður en hann mundaði byssuna og skaut einu skoti yfir bifreiðina. Þeir hefðu síðan farið aftur inn í bifreiðina og veitt A og félaga hans eftirför. Hefði tilgangurinn með eftirförinni verið að hræða mennina. Ákærði kvaðst hafa setið í framsæti bifreiðarinnar og hefði hann sagt Tómasi að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá hinni bifreiðinni svo að hann myndi ekki aka á hana. Hefði Tómas reynt að taka fram úr og sveigja fyrir bifreiðina. Við hringtorgið hefði Tómas sagt honum að skjóta og hitta bifreiðina. Hefði Tómas stöðvað alveg við hringtorgið, og kvaðst ákærði hafa teygt byssuna út um gluggann og skotið í afturljós bifreiðar A, sem þá hefði verið á brúnni. Þeir hefðu síðan hætt eftirförinni og farið yfir í bifreið sem bróðir ákærða ók af vettvangi. Ákærði kvaðst hafa beðið Y um að taka byssuna með sér þegar hann yfirgaf bifreiðina, en Y hefði neitað því.
Ákærði kvaðst hafa verið með hálsklút, sem hann hefði dregið fyrir andlit sitt svo að hann þekktist ekki. Hann kvaðst ekki hafa ætlað að slasa neinn og hefði hann notað hálfgerð leirdúfuskot við verkið. Hann viðurkenndi að hafa miðað á bifreiðina við [...], en kvaðst hafa beint byssunni yfir bifreiðina þegar hann skaut. Ætlunin hefði verið að skjóta einu „hræðsluskoti“, ekki hefði átt að slasa neinn. Hann hefði verið viss um að skotið myndi fara yfir bifreiðina. Hann hefði miðað á afturhlera bifreiðarinnar þegar hann skaut í síðara skiptið. Bifreiðin hefði verið í 25 til 30 m fjarlægð og kvaðst ákærði hafa vitað að höglin myndu ekki drífa inn í hana.
Ákærði kvaðst hafa haft byssuna inni í peysuermi sinni, undir handleggnum, í bifreiðinni á leiðinni að [...]. Hún hefði hangið í ól yfir hægri öxl hans innanklæða. Þeir Tómas hefðu vitað að hann hafði byssuna meðferðis, en ekki Y. Ákærði kvaðst svo hafa gripið byssuna fram þegar hann kom út á bifreiðastæðið og hefði hann náð henni auðveldlega fram þótt hún væri innanklæða.
Vitnið, A, bar fyrir sig minnisleysi um atvik er hann kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst ekki geta lýst atvikum í umrætt sinn og kvað ekki rifjast upp fyrir sér þegar lögregluskýrslur hans voru bornar undir hann. Vitnið kannaðist þó við að hafa kært atvikið til lögreglu og kvað kæruna ekki vera ranga.
Vitnið, B, kvað A hafa hringt til sín og sagst vera skelkaður. Hefði hann sagt að hann hefði mælt sér mót við mann í [...] og að „það væri verið að setja hann upp“. Vitnið kvaðst hafa slegist í för með A og hefðu þeir ekið á mótsstaðinn. Þegar þangað kom hefði bifreið verið þar fyrir, sem hefði verið ekið í veg fyrir bifreið A. Þrír menn hefðu komið hlaupandi út úr bifreiðinni og hefði einn þeirra sparkað í bifreið A. Hinir mennirnir tveir hefðu verið grímuklæddir og hefði annar þeirra haldið á haglabyssu, en hinn á járnröri eða einhverju slíku. Sá sem hélt á byssunni hefði beint henni að þeim. A hefði bakkað og maðurinn skotið í átt að bifreiðinni. Vitnið treysti sér ekki til að segja til um hve langt þeir höfðu bakkað þegar skotið reið af. Mennirnir hefðu elt þá af vettvangi og reynt að taka fram úr þeim á leiðinni. Hefði skotmaðurinn sest aftur í bifreiðina áður en henni var ekið af stað. Bifreiðunum hefði verið ekið með miklum hraða. Þegar þeir A voru að taka beygjuna út af hringtorginu við bifreiðaumboð [...] hefði verið skotið á bifreiðina. Hin bifreiðin hefði verið alveg við hringtorgið þegar skotið reið af.
Vitnið, C, kvað ákærða Tómas hafa verið mjög miður sín yfir því að einhver maður væri að kúga af honum fé, sem nam hálfri milljón króna, og hefði hann leitað til gamals kunningja síns, ákærða X, vegna málsins. Vitnið kvaðst hafa heyrt ákærðu ræða um að hræða þennan mann, en ekki hafi staðið til að beita ofbeldi. Hann kvaðst hafa farið með Tómasi að sækja X í [...] á föstudeginum og hefðu þeir síðan sótt annan mann í [...]. Hann hefði skutlað þeim heim til Tómasar í bryggjuhverfinu í [...] og hefðu þeir verið að tala um að fara að hitta manninn sem Tómas skuldaði. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við að ákærðu hefðu byssu eða önnur vopn meðferðis.
Vitnið, G, kvaðst hafa verið með X í íbúð í bryggjuhverfinu í [...] á föstudeginum þegar Tómas og C komu þangað. Yngri bróðir X og vinur hans hefðu verið þarna líka. Tómas hefði verið að biðja X um hjálp vegna einhvers stráks sem hann var í „veseni með“. Hefði Tómas verið æstur og viljað láta „ganga frá“ honum, en X verið „slakur“ og frekar viljað hræða hann. Vitnið kvaðst hafa farið með H í heimsókn á bæ í [...] síðar um helgina, en Tómas og X hefðu þá dvalið þar. Hefði Tómas komið með þeim til baka í bæinn. Ekkert hefði verið rætt um skotárásina í umrætt sinn.
Vitnið, I, kvaðst hafa verið með vini sínum J, bróður ákærða X, á föstudeginum og hefðu þeir komið við í íbúð í [...] þar sem X og Tómas voru fyrir. Hann kvaðst ekki hafa heyrt hvað þeir ræddu, en þeir J hefðu staðið stutt við. J hefði verið á hvítri bifreið, sem hann hefði fengið að láni, og hefði X beðið hann um að sækja sig við [...]. Vitnið kvað þá hafa verið að fá sér að borða við [...] þegar þrír menn hefðu skyndilega komið inn í bifreiðina og sagt þeim að aka á brott. Honum hefði brugðið mjög við þetta og kvaðst hann ekki muna eftir orðaskiptum í bifreiðinni eða hvert var ekið. Vitnið kvaðst ekki hafa séð byssu í bifreiðinni.
Vitnið, K, kvaðst hafa ekið ákærðu Tómasi og X upp í [...] á laugardagsmorgninum og vitnið, H, kvaðst hafa sótt Tómas þangað á sunnudeginum. Hvorugt vitnanna kvaðst hafa heyrt minnst á skotárás. H, sem kvaðst vera góður vinur X, sagði Tómas hafa verið ánægðan og stoltan yfir einhverju sem hefði átt sér stað.
Vitnin, L og M, húsráðendur að [...] í [...], sögðu X og Tómas hafa dvalið hjá þeim þessa helgi. L, sem kvaðst vera æskuvinur X, sagðist þó ekki vera með tímasetningar á hreinu, en hann hefði verið undir áhrifum áfengis er þetta var. Vitnin kváðu Tómas hafa verið að gorta af því sem hefði átt sér stað og hefði hann virst stoltur af því sem hefði gerst, en gátu ekki lýst því nánar hvernig það hefði komið fram eða orðaskiptum í því sambandi.
Vitnið, F, kvað ákærða Tómas og C hafa rætt við sig nokkrum dögum fyrir skotárásina. Hefði Tómas verið miður sín og sagt að allt væri búið og að hann yrði að leita sér aðstoðar. Kvaðst vitnið hafa látið Tómas fá símanúmer X, en þeir væru báðir vinir hans.
Vitnið, D, var spurður um samskipti við ákærðu X og Tómas eftir skotárásina, en hann kvaðst ekki vera viss um hvenær þeir komu til hans. Þeir hefðu ekkert rætt um skorárásina við hann. Vitnið vísaði því alfarið á bug að byssa sem fannst við leit á heimili hans tengdist málinu.
Vitnin, J, bróðir ákærða X og N og O, sambýliskonur ákærðu X og Y, skoruðust undan því að gefa skýrslu fyrir dóminum.
Vitnið, Guðmundur Tómasson, rannsóknarlögreglumaður gerði grein fyrir rannsókn á forhlöðum úr haglabyssu sem fundust á vettvangi og rannsókn á bifreiðinni OV-[...]. Vitnið kvað þrjár málmagnir hafa fundist inni í bifreiðinni, þ.m.t. ein á aftanverðu farþegasæti. Hefði verið talið að um væri að ræða agnir úr höglum, en það hefði ekki verið rannsakað frekar. Vitnið kvað ágiskun um að skotið hefði verið úr 15 m fjarlægð (+/- 3 m) á bifreiðina hafa byggst á dreifingu hagla, miðað við stærð hagla sem talið var að hefðu verið notuð. Tók vitnið fram að margar breytur gætu haft áhrif á niðurstöðu þessara útreikninga. Þá kvaðst vitnið ekki geta sagt til um hvaða áhrif það myndi hafa á útreikning á svonefndu öryggissvæði, að skot mætti fyrirstöðu eins og rúðu í bifreið. Ekki hefði verið rannsakað hvaða áhrif slík fyrirstaða myndi hafa á skot af þessu færi.
Vitnið, Jóhann Vilhjálmsson, byssusmiður og leiðbeinandi um notkun skotvopna, kvaðst hafa reiknað út með hliðsjón af ljósmynd af bifreiðinni OV-[...] að skotið hefði verið af 12 til 18 m færi. Unnt væri að finna vegalengdina nokkurn veginn út með því að skoða dreifingu haglanna. Gengið hefði verið út frá því að skotið hefði verið af afsagaðri haglabyssu, þ.e. óþrengdri. Vitnið vísaði til útreiknings á öryggissvæði, sem gerð er grein fyrir í skýrslu tæknideildar. Hann kvað 12 til 18 m teljast stutt færi og stafi mikil hætta af skoti af minna en 20 m færi. Hann kvaðst ekki geta sagt til um hvaða áhrif fyrirstaða af rúðu hefði í þessu sambandi. Vitnið kvað haglabyssu með fullri þrengingu skila 70% hagladreifingu, en óþrengd byssa 40%. Hafi verið gengið út frá því við rannsóknina að byssan sem skotið var af hefði verið óþrengd og mat á fjarlægð sem skotið hefði verið úr tæki mið af því. Vitninu var kynnt að ákærðu hefðu borið að skotið hefði verið af 25 til 30 m færi. Áréttaði vitnið að miðað við dreifingu haglanna teldi hann að skotið hefði verið af styttra færi, eða sem næmi 12 til 18 m.
Þá komu fyrir dóminn sem vitni lögreglumennirnir Sigurður Ingi Eiríksson, sem ritaði frumskýrslu í málinu, og Jóhann B. Skúlason, sem einnig kom að rannsókn málsins í upphafi. Vitnin staðfestu skýrslur sínar í málinu. Loks kom Snorri Örn Árnason, sérfræðingur hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, fyrir dóminn sem vitni og gerði grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á staðsetningu símanúmera, en greinargerð vitnisins um þá rannsókn liggur fyrir í málinu.
Niðurstaða
Ákæruliður 1
Ákærði X hefur viðurkennt að hafa skotið tvívegis af afsagaðri haglabyssu að bifreiðinni OV-[...], sem í ákæru greinir. Kvaðst ákærði hafa beint byssunni yfir bifreið A er hann skaut fyrra skotinu, en miðað á afturhlera hennar við síðara skotið. Hafi hann ætlað að hræða þá sem í bifreiðinni voru, en ekki hafi verið ætlunin að slasa neinn. Ekki liggur fyrir af hvaða færi ákærði skaut að bifreiðinni í fyrra skiptið, en af myndbandsupptöku úr öryggismyndavél verður ráðið að fjarlægðin var nokkur. Samkvæmt útreikningum lögreglu reið síðara skotið af á um 15 m færi, en ákærðu hafa borið að um lengri fjarlægð hafi verið að ræða, eða allt að 25 til 30 m. Fram kom hjá vitnunum Guðmundi Tómassyni og Jóhanni Vilhjálmssyni að ekki hafi verið kannað hvaða áhrif fyrirstaða af rúðu, sem högl lentu í, hefði á útreikninga á fjarlægð. Þá var ekki rannsakað hvort þrjár málmagnir sem fundust í farangursrými bifreiðarinnar væru hlutar úr höglum. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið telst varhugavert að slá því föstu að ákærði X hafi skotið á bifreiðina af um 15 m færi og verður lagt til grundvallar að færið hafi getað verið lengra. Jafnframt telst ósannað að högl hafi borist inn í bifreiðina í umrætt sinn. Samkvæmt framansögðu telst ekki nægilega sýnt fram á að ákærði hafi beitt skotvopninu með þeim hætti að mennirnir sem í bifreiðinni voru hefðu getað beðið bana af, eða að ásetningur ákærða hafi staðið til þess. Verður ákærði sýknaður af ákæru um tilraun til manndráps. Á hinn bóginn er til þess að líta að sú háttsemi ákærða að skjóta í tvígang af byssunni að bifreiðinni var sérlega ófyrirleitin. Hlaut hann að sjá það fyrir að með því stofnaði hann lífi og heilsu mannanna tveggja sem í bifreiðinni voru í augljósan háska. Verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Svo sem rakið hefur verið átti ákærði Tómas frumkvæði að fundinum með A, sem hann taldi sig eiga sökótt við. Kvaðst ákærði hafa mælt sér mót við A til að fá hann ofan af því að innheimta skuld hjá sér og leitaði hann liðsinnis ákærða X í því skyni. X kvað þá Tómas hafa rætt um að hræða A til að láta af háttsemi sinni og hefðu þeir ákveðið að taka byssuna með á fundinn. Bar ákærðu saman um að þeir hefðu kvöldið áður skoðað byssuna í bílskúr í [...] og sagði X Tómas hafa geymt byssuna á heimili sínu um nóttina. Þá er framburður Tómasar um að hann hafi ekki áttað sig á því að byssan var meðferðis fyrr en síðara skotið reið af afar ótrúverðugur að mati dómsins. Verður lagt til grundvallar að ákærðu Tómas og X hafi sammælst um að hafa byssuna með á fundinn í því skyni að fá A ofan af því að krefja Tómas um greiðslu skuldarinnar. Af myndbandsupptöku úr öryggismyndavél við [...] verður ráðið að Tómas hafi farið fyrir ákærðu á vettvangi. Sést hann sparka í bifreið A og hraða sér aftur í bifreið sína eftir að skot ríður af byssunni. Í framhaldinu upphófst eftirför og hafa ákærðu og vitnið B borið að Tómas hafi ekið með miklum hraða á eftir bifreið A. Ákærðu X og Y báru að X hefði setið í framsæti bifreiðarinnar meðan á eftirförinni stóð og hafi Tómas hvatt hann til að skjóta á bifreið A. Framburður ákærðu X og Y um það sem átti sér stað í bifreiðinni ber þess þó merki að nokkuð sé gert úr hlut Tómasar, sem upplýsti um þátt hinna við lögreglurannsókn málsins. Hefur Tómas borið að X hafi setið í aftursæti bifreiðarinnar og er það í samræmi við framburð vitnisins B. Samkvæmt því sem rakið hefur verið vissi Tómas að X var vopnaður byssu, sem hann hafði skotið af að bifreið A. Allt að einu veitti hann bifreið A eftirför og var aksturslag hans til marks um að hann hafi reynt að nálgast bifreiðina til að komast í skotfæri við hana. Samkvæmt framansögðu þykir sannað að Tómas hafi sammælst X um að skjóta af byssunni að bifreið A. Það gerði X í tvígang og gat Tómasi ekki dulist að sú háttsemi stofnaði lífi og heilsu mannanna tveggja sem í bifreiðinni voru í augljósan háska. Að mati dómsins er nægilega fram komið að ákærðu Tómas og X hafi skipulagt verkið í sameiningu og staðið jafnt að vígi við framkvæmd þess. Eins og ákæru er háttað verður ákærði Tómas sakfelldur fyrir hlutdeild í broti meðákærða og telst brot hans varða við 4. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Í ákæru er háttsemi ákærða Y talin til hlutdeildarverknaðar, án þess að því sé lýst með hvaða hætti ákærði hafi veitt liðsinni við verknaðinn. Ákærði hefur borið að hann hafi ekki vitað um byssuna fyrr en X skaut af henni við [...]. Fram er komið að ákærði slóst í för með meðákærðu með skömmum fyrirvara og ber ákærðu saman um að ekkert hafi verið rætt við hann um að byssa yrði höfð meðferðis. Þá hefur ákærði X borið að hann hafi haft byssuna innanklæða í bifreiðinni á leiðinni að [...]. Með hliðsjón af framansögðu telst ósannað að ákærði hafi vitað um byssuna þegar hann hélt með meðákærðu til fundar við A. Þá verður ráðið af myndbandsupptöku úr öryggismyndavél að ákærði hafi lítið haft sig í frammi á vettvangi. Þótt ákærði hafi verið í bifreiðinni með meðákærðu meðan á eftirförinni stóð er ekkert komið fram um að hann hafi átt nokkurn þátt í því að skotið var öðru skoti að bifreið A. Enn fremur telst ósannað, gegn neitun ákærða, sem fær stuðning í framburði X, að ákærði hafi haft byssuna með sér heim síðar um kvöldið. Samkvæmt framansögðu verður ákærði Y sýknaður af þessum ákærulið.
Ákæruliðir 2 til 4
Ákærði Tómas hefur viðurkennt að hafa vitað af kylfu, sem lögregla lagði hald á í bifreiðinni AO-[...], sem hann hafði umráð yfir, og kvaðst hann hafa haft kylfuna með sér að heiman í umrætt sinn. Hann neitar hins vegar að hafa vitað af brúsa með úðavopni, sem fannst í bifreiðinni. Gegn neitun ákærða telst ósannað að hann hafi haft úðavopnið í vörslum sínum og verður hann sýknaður af ákæru þar um. Að öðru leyti er ákærði sakfelldur samkvæmt 2. ákærulið og er brot hans þar rétt heimfært til refsiákvæða.
Ákærðu X og Y hafa hvor um sig skýlaust játað brot sín samkvæmt 3. og 4. ákærulið. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærðu eru sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði, X, er fæddur í [...] 1980 og á hann allnokkurn sakaferil. Ákærði hlaut fyrst refsidóm 17. mars 1998, 15 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað, gripdeild og rán. Hinn 29. desember 1998 var hann dæmdur í 16 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað og var þá skilorðsdómurinn frá 17. mars 1998 dæmdur upp. Á árinu 2002 var hann dæmdur til að greiða 25.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot og 110.000 króna sekt fyrir sams konar brot á árinu 2003. Sama ár var hann dæmdur til að greiða 75.000 króna sekt fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og á árinu 2004 var honum gerð sekt fyrir ýmis brot, m.a. fíkniefnalagabrot. Með dómi 9. júlí 2004, sem staðfestur var í Hæstarétti 20. janúar 2005, var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. og 106. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærði hinn 25. febrúar 2005 dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, og til greiðslu sektar fyrir þjófnað og hylmingu, en þar var um hegningarauka að ræða. Hinn 26. apríl 2006 var ákærði dæmdur til að greiða sekt fyrir fíkniefnalagabrot og 27. apríl 2007 gekkst hann undir lögreglustjórasátt fyrir sams konar brot. Með dómi Hæstaréttar 24. janúar 2008 var ákærði dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn 231. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá var honum gerður hegningarauki 16. júlí 2009, sekt að fjárhæð 28.000 krónur, fyrir fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot. Loks var ákærði 21. desember 2010 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga, en þar var um hegningarauka að ræða. Sama dag var ákærða veitt reynslulausn í tvö ár á 264 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 24. janúar 2008. Með brotum þeim sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar og refsidómsins frá 21. desember 2010. Verða eldri málin tekin til meðferðar jafnframt því máli sem nú hefur verið höfðað og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsingar nr. 49/2005 og 60. gr. almennra hegningarlaga. Refsing verður tiltekin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að atlaga hans að A og B var ófyrirleitin og stórhættuleg. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár. Frá refsingu dregst óslitið gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 29. nóvember 2011.
Ákærði, Tómas Pálsson Eyþórsson, er fæddur í október 1986. Samkvæmt sakavottorði var ákærði dæmdur 2. mars 2006 í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr., 226. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærði 2. júní sama ár dæmdur í 3 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði er sakfelldur fyrir hlutdeild í hættulegri og ófyrirleitinni atlögu að brotaþolunum tveimur. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingu dregst óslitið gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 21. nóvember 2011.
Ákærði, Y, hefur í máli þessu verið sýknaður af 1. ákærulið, en sakfelldur fyrir að hafa í vörslum sínum 8,78 g af marijúana, sbr. 4. ákærulið. Ákærði sem er fæddur í [...] 1978, gekkst á árunum 2009 til 2011 fjórum sinnum undir lögreglustjórasáttir fyrir að aka bifreið undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna og sviptur ökurétti. Þá var hann 12. október 2011 dæmdur í 10 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Brot ákærða, sem hann er nú sakfelldur fyrir, er smávægilegt og verður refsing fyrir það dæmd sér í lagi. Verður ákærði dæmdur til að greiða 66.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsuppkvaðningu að telja, en sæti ella fangelsi í 6 daga.
Af hálfu B hefur þess verið krafist að ákærðu verði dæmdir til þess að greiða sameiginlega miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur auk vaxta. Ákærði Y hefur verið sýknaður af ákæru að þessu leyti og verður bótakröfu því vísað frá dómi að því er hann varðar. Háttsemi ákærðu X og Tómasar fól í sér stórfellda og ólögmæta meingerð gagnvart B, sem þeir áttu ekkert sökótt við. Á B rétt á miskabótum úr hendi ákærðu, samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Verða ákærðu dæmdir til að greiða B sameiginlega miskabætur, sem teljast hæfilega ákveðnar 600.000 krónur, með vöxtum sem í dómsorði greinir.
Ákærða Tómasi verður gert að sæta upptöku á kylfu og ákærða X upptöku á fjórum brúsum af úðavopnum, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga. Samkvæmt sama lagaákvæði verður gert upptækt úðavopn, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, sbr. 2. ákærulið. Ákærði Y sæti upptöku á 8,78 g af marijúana samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Björgvins Jónssonar hrl., 1.079.300 krónur, auk aksturskostnaðar, 39.960 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Reynis Loga Ólafssonar hdl., 1.292.650 krónur, auk aksturskostnaðar, 36.630 krónur. Ákærði, Tómas Pálsson Eyþórsson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 891.050 krónur, auk aksturskostnaðar, 13.320 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 276.100 krónur auk aksturskostnaðar, 39.294 krónur. Ákærðu, X og Tómas, greiði sameiginlega 1.141.943 krónur í annan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 640.050 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna og réttargæsluþóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari.
Héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, Guðjón St. Marteinsson og Ingimundur Einarsson kváðu upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Y, greiði 66.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá dómsuppkvaðningu að telja, en sæti ella fangelsi í 6 daga.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 ár. Frá refsingu ákærða dregst óslitið gæsluvarðhald frá 29. nóvember 2011.
Ákærði, Tómas Pálsson Eyþórsson, sæti fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingu ákærða dregst óslitið gæsluvarðhald frá 21. nóvember 2011.
Ákærðu, X og Tómas, greiði B sameiginlega 600.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. nóvember 2011 til 22. mars 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Upptæk eru dæmd fimm úðavopn, kylfa og 8,78 g af marijúana.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða Y, Björgvins Jónssonar hrl., 1.079.300 krónur, auk aksturskostnaðar, 39.960 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Reynis Loga Ólafssonar hdl., 1.292.650 krónur, auk aksturskostnaðar, 36.630 krónur. Ákærði, Tómas, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 891.050 krónur, auk aksturskostnaðar, 13.320 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 276.100 krónur, auk aksturskostnaðar, 39.294 krónur. Ákærðu, X og Tómas, greiði sameiginlega 1.141.943 krónur í annan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 640.050 krónur.