Hæstiréttur íslands
Mál nr. 52/2002
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Húsbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2002. |
|
Nr. 52/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Ágústi Þór Gestssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Húsbrot. Skaðabætur.
Á var ákærður fyrir húsbrot og kynferðisbrot með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn í ólæsta íbúð B og átt við hana kynferðislega, eftir að hafa ekið henni heim í leigubifreið sinni. Gat B ekki spornað við kynferðisbrotinu sökum ölvunar og svefndrunga. Á viðurkenndi að hafa verið í íbúðinni og átt kynferðismök við B en kvað B hafa átt frumkvæði að þeim, er hann sneri aftur að heimili hennar til að skila henni eyrnalokki. Var frambuður tveggja vitna, sem aðstoðað höfðu B við að komast til síns heima og lagt hana í rúm sitt, lagður til grundvallar og talið ótrúverðugt, miðað við ástand hennar, að hún hafi vaknað við að Á barði að dyrum, farið til dyra og upphafið þau atlot sem Á hélt fram. Þótti sannað að Á hefði gerst sekur um umrædd brot. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að auk þess að vera sakfelldur fyrir að brjóta gegn kynfrelsi B væri hann sakfelldur fyrir að brjóta friðhelgi heimilis hennar. Á hafi notfært sér vitneskju um ástand B, sem hann hafi komist að í starfi sínu sem leigubifreiðastjóri og þótti það vera til þyngingar refsingunni. Var Á gert að sæta fangelsi í 18 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. janúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, þyngingar á refsingu og greiðslu miskabóta að fjárhæð 700.000 krónur.
Ákærði krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá dómi en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsmeðferðar að nýju. Til þrautavara krefst hann sýknu en ella að refsing verði milduð verulega og bótakrafa lækkuð.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Með vísan til forsendna dómsins er fallist á sakarmat hans.
Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess, að auk þess að vera sakfelldur fyrir að brjóta gegn kynfrelsi brotaþola er ákærði sakfelldur fyrir að brjóta friðhelgi heimilis hennar. Ákærði notfærði sér vitneskju um ástand hennar, sem hann komst að í starfi sínu sem leigubifreiðastjóri, og er það til þyngingar refsingunni. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Ákvörðun héraðsdóms um skaðabætur til brotaþola er staðfest, en þær beri dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá þeim degi er ákærða var kynnt bótakrafan.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ágúst Þór Gestsson, skal sæta fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði skal greiða B 700.000 krónur í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. ágúst 2001 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, eru staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur, og þóknun til skipaðs réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2001.
Mál þetta sem dómtekið var 6. desember sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara hinn 11. september sl. á hendur ákærða, Ágústi Þór Gestssyni, kt. 120668-4129, Viðarási 55, Reykjavík, fyrir húsbrot og kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 3. júní 2001 að [ ], Reykjavík, ruðst í heimildarleysi inn í íbúð B, fæddri 1970, lagst ofan á B, káfað á og sett fingur inn í kynfæri hennar, en ákærði notfærði sér það að B gat ekki spornað við kynferðisbrotinu sökum ölvunar og svefndrunga.
Þetta er talið varða við 231. gr. og 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
B krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. júní 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og greiðslu lögmannskostnaðar.
Af hálfu ákærða er krafist sýknu, að réttargæslu- og málsvarnarþóknun verjanda verði greidd úr ríkissjóði og að bótakröfu verði vísað frá dómi.
Við aðalmeðferð máls þessa gaf ákærði skýrslu, einnig vitnin B, C, D, E, Kristín Andersen læknir, Leifur Dungal læknir og Guðbjörg Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur.
Málsatvik, framburður vitna og önnur sönnunargögn
Brotaþoli, B, fór með vinkonu sinni, vitninu C, á veitingastaðinn Áslák í Mosfellssveit laugardagskvöldið 2. júní 2001, en maður C, vitnið D, spilaði þar fyrir dansi. B varð að eigin sögn og samkvæmt vætti C, D og E mjög drukkin. Þegar þau héldu heim um fjögurleytið um nóttina var hún, að sögn þessara vitna, hálf rænulaus. Sjálf man hún ekki eftir heimferðinni, en vitnin C og D bera að þau hafi þurft að ganga undir henni út í leigubifreiðina og setja hana inn í bílinn. Vitnið E kvaðst hafa séð hana stuttu áður en þau yfirgáfu staðinn og hafi hún þá verið áfengisdauð í anddyrinu, hengt haus þar sem hún sat hjá C og D, sem hefðu verið að reyna að vekja hana en ekki tekist. Kvað hann útilokað að hún hefði komist út af sjálfsdáðum. Ákærði heldur því hins vegar fram að þau hafi staðið fyrir utan Áslák þegar hann kom þar að og að öll þrjú hafi gengið óstudd að bifreiðinni og sest inn, hefðu öll farið inn hægra megin. C sat aftur í hjá B og kvaðst hafa setið fast upp við hana til að styðja við hana og kvaðst hún hafa reynt að tala við hana annað slagið. D, sem sat fram í, kvað B hafa verið áfengisdauða á leiðinni og ekki hafa tekið þátt í samræðum, en þau hin hafi spjallað eitthvað við bílstjórann. Ákærði kvað konurnar hafa talað saman í byrjun ferðarinnar, en hann hefði ekki hlustað eftir um hvað. Kvað hann B hafa lognaðist út af í bifreiðinni á leiðinni.
Ekið var fyrst að heimili B, [ ]. Þar segjast vitnin C og D hafa hjálpast að við að taka B út úr bifreiðinni og hafa gengið undir henni að húsinu, en þar sem C hafi ekki ráðið við að bera hana upp tröppurnar hafi ákærði komið og hjálpað D við að koma henni upp, og hafi þeir haldið undir axlirnar á henni. C hafi farið á undan og opnað dyrnar að íbúðinni. Þegar þar var komið inn í anddyrið hafi C tekið við af ákærða. Er framburður þeirra þriggja samhljóða um þetta að öðru leyti en því að ákærði heldur því fram að það hafi komið líf í B þegar búið var að toga hana út úr bílnum og hafi hún getað staðið í fæturna og hafi ýmist labbað sjálf eða lyft upp fótunum. Honum hafi virst eins og einhver mótþrói væri í henni, að hún hafi verið að þráast við og viljað fara eitthvað annað. Vitnin C og D hafna þessari lýsingu ákærða og segja B hafa verið áfengisdauða, hún kunni eitthvað að hafa hreyft fæturnar en það hafi þurft að halda henni uppi og bera hana upp stigann og hún hafi ekki streist á móti.
Fyrir dóminum bar C og D saman um að þegar komið var inn í íbúðina hefði D hjálpað C við að styðja B að baðherbergisdyrunum, C hefði hjálpað henni þar ein að fara á salernið og síðan hefði D komið og þau bæði stutt hana inn í svefnherbergið og lagt hana á rúmið. D kvaðst hafa tekið hana úr skónum og síðan farið fram. Þá hefði B legið hreyfingarlaus á rúminu. C hefði aðstoðað hana eitthvað frekar. C kvaðst hafa skilið við hana í öllum fötunum nema hún hefði klætt hana úr peysu, og hún hefði breitt yfir hana. Hún kvaðst ekki hafa náð neinu sambandi við hana eftir að hún var komin í rúmið. Bæði telja þau að ákærði hafi farið niður þegar B var komin inn í íbúðina. Ákærði lýsir því hins vegar svo að B hafi gengið óstudd þegar komið var inn í íbúðina og D hafi ekki hjálpað til þar. Hafi þeir D beðið saman fyrir utan smástund og hafi D kveikt sér í sígarettu. Það virðist þó óumdeilt að ákærði hafi farið á undan niður í bílinn.
Þegar C og D yfirgáfu íbúðina gátu þau ekki læst henni þar sem einungis er hægt að læsa utan frá með lykli. Þau skildu því dyrnar eftir ólæstar. Þeim ber saman um að þau hafi haft áhyggjur af þessu og hafi rætt það á leiðinni út. C heldur að þau hafi þó ekki rætt þetta eftir að þau komu í leigubílinn, en D kvaðst viss um það, þegar hann kom fyrir dóminn, að þau hefðu enn verið að tala um þetta eftir að þau komu inn í leigubílinn. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að ekki var hægt að læsa íbúðinni og kannaðist ekki við að hafa heyrt fólkið tala um það. Ákærði ók síðan C og D að [ ] þar sem þau bjuggu og virðist eitthvað hafa verið þráttað um ökugjaldið.
Ákærði kvaðst nú hafa ekið spölkorn frá en þá stöðvað bifreiðina og lagfært gólfmottur aftur í, án þess að fara út, og kannað hvort nokkrir lausamunir hefðu orðið eftir í bifreiðinni. Kvað hann það vera vana sinn að gera þetta eftir hverja ferð, sem og að reyna að koma strax til skila því sem fólk gleymdi eða týndi í bifreiðinni. Hann kvaðst þarna hafa fundið eyrnalokk á gólfinu úti við dyrnar fyrir aftan bílstjórasætið. Kvaðst hann hafa verið viss um að B ætti lokkinn og ákveðið að fara með hann [á heimili hennar]. Klukkan mun hafa verið á milli fjögur og fimm. Spurður hvers vegna hann hefði ekki farið með hann til C og D, kvaðst hann ekki hafa vitað hvar í húsinu þau byggju. Hann kvaðst síðan hafa ekið í [ ] og bankað á dyr B. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa vitað þá að þar væri dyrabjalla, en vita það nú. Þar sem enginn hefði svarað hefði hann snúið við niður stigann og verið búinn að stinga lokknum í vasann þegar dyrnar hefðu verið opnaðar og B hefði sagt eitthvað sem hann heyrði ekki. Hann kvaðst hafa kynnt sig sem leigubílstjórann sem hefði ekið henni heim og skýrt erindi sitt. Hún hefði sagt honum að koma inn, hann hefði hikað við en gert það þó. Hún hefði lokað og þegar í stað tekið utan um hann og kysst hann. Þótt honum hefði brugðið hefði hann svarað atlotum hennar. Lýsti hann síðan áframhaldandi atlotum þeirra í stofunni og síðan inni í svefnherberginu og hvernig þau hefðu hjálpast að við að afklæðast. Þá lýsti hann gagnkvæmum gælum þeirra við kynfæri í rúminu. Ekkert hefði þó orðið úr samförum þar sem hann hefði ekki fengið stinningu. Engu að síður hefði honum orðið sáðlát. Vildi hann draga úr fyrri framburði sínum um að hann hefði sett fingur inn í kynfæri konunnar, og varð hann margsaga um þetta atriði fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa verið um tíu til tuttugu mínútur inni í íbúðinni og taldi að klukkan hefði verið rúmlega fimm þegar hann fór. Hann kvað konuna hafa beðið sig að fara ekki þegar hann stóð upp. Hefði þetta verið það eina sem þau ræddu saman, þegar hún bað hann að koma inn og þegar hún bað hann um að fara ekki. Hann kvaðst hafa verið með samviskubit á eftir yfir því að hafa átt kynmök við drukkna konu, sjálfur verandi ódrukkinn. Hafi hann vitað að þetta væri rangt og dómgreindarskortur af sinni hálfu. Þá væri hann fjölskyldumaður. Hann fullyrti hins vegar að hún hefði átt frumkvæðið og að ekkert hefði bent til þess að hún vissi ekki hvað hún væri að gera og honum hefði fundist konan aðlaðandi. Hann kvað konuna hafa verið í svipuðu ástandi þegar hann kom aftur einn og þegar hann skildi við hana eftir heimkeyrsluna. Hann hefur haldið því fram að hún hafi þá ekki verið eins illa á sig komin og vitnin C og D bera.
Brotaþoli, B, kvaðst muna síðast eftir sér þar sem hún sat við borð á skemmtistaðnum Ásláki. Hún kvaðst ekkert muna eftir ferðinni heim eða heimkomunni. Hún kvaðst næst muna eftir að hafa rankað við sér þar sem maður var ofan á henni og grúfði sig yfir hana. Hún kvaðst hafa séð andlit hans og herðar og muna andlit hans. Þá hafi hún fundið lykt sem henni fannst vond, eins og lykt af svita og sæði eða samfaralykt. Hún kvaðst hafa fundið að maðurinn var að eiga við hana kynferðislega, en kvaðst ekki átta sig á hvernig. Hún hafi beðið hann að láta sig í friði eða hætta þessu og síðan hafi hún misst rænu aftur. Hún hafi síðan vaknað nakin um morguninn og þá ennþá fundið þessa sömu lykt. Hún hafi fundið sterka þörf fyrir að komast út úr íbúðinni og hafi hún farið til vinkonu sinnar í Keflavík en hvorki nefnt við hana né aðra hvað hafði gerst. Hún kvaðst hafa verið að reyna sjálf að púsla þessu saman. Um kvöldið kvaðst hún hafa hringt í C og spurt hana hvernig hún hefði komist heim. Hún hefði talað aftur við C á mánudeginum og þá spurt hana nánar. Hefði C sagst hafa tekið hana úr jakka og peysu og hafi C sagt lýsingu hennar á manninum geta átt við leigubílstjórann. Síðan hefði hún farið á neyðarmóttöku. Hún kvaðst hafa átt við þunglyndi að stríða og taka lyf vegna þess. Hefði hún tekið tvær töflur af Serol um morguninn og eina töflu af Tafil Retard og aðra af hinu síðarnefnda um kvöldmatarleytið. Taldi hún þessi lyf virka þannig á sig að hún hefði minna þol við drykkju og færi gjarnan fyrr heim að sofa.
Vætti C styður frásögn B. Hún kvað B hafa spurt sig hvernig hún hefði komist heim og hvort hún hefði tekið eftir einhverjum fyrir utan hjá sér. Daginn eftir hefði B sagt henni frá manninum og að hún hefði vaknað nakin. Hún kvaðst hafa þekkt B lengi og ítrekaði að B hefði verið áfengisdauð og hún vissi af reynslu, þar sem þær hefðu gist saman, að þá væri hún alveg úti. Hún taldi af og frá að B hefði vaknað til að afklæða sig, auk þess sem hún vissi að B svæfi ekki nakin. Hún kvað lýsingu B á manninum eiga við leigubifreiðastjórann sem ók þeim um nóttina. Hún kvaðst hafa gætt þess að segja ekkert varðandi þetta við B að fyrra bragði.
Ákærði var spurður hvað hefði orðið um eyrnalokkinn sem hann kvaðst hafa ætlað að koma til skila þegar hann fór aftur að heimili B. Hann kvaðst ekki vita það og ekki hafa fundið hann. Hann hefði verið búinn að stinga honum í vasann og kvaðst ekki muna hvort hann tók hann upp aftur og ekki minnast þess að konan segði neitt um lokkinn. Hann kvaðst þó helst hallast að því að hann hefði komið honum til skila og taldi sig annars myndu hafa fundið hann. B kannast ekki við eyrnalokk eins og þann sem ákærði lýsti. Ákærði var einnig beðinn um að skýra ástæðu þess að hann, sem er atvinnubílstjóri, lagði á sig svo langan krók á háannatíma, til þess að reyna að koma eyrnalokknum til skila, en hann bar fyrir dóminum að hann hefði verið á leið niður í bæ. Var skýring hans sú að hann reyndi alltaf að losna strax við hluti sem fólk gleymdi í bílnum hjá honum í stað þess að tilkynna fundinn á stöðina, og einnig að honum væri í raun illa við að vinna á nóttunni og tæki það rólega. Aðspurður kannaðist hann við að hann hefði ekki tekjur af öðru en akstri.
B kom á neyðarmóttöku slysadeildar að kveldi mánudagsins 4. júní 2001 í fylgd vitnisins C og var skoðuð þar af Kristínu Andersen lækni. Bar læknirinn fyrir dóminum að B hefði borið greinileg merki þess að hafa orðið fyrir áfalli, verið langt niðri, grátið og talað samhengislaust. Hún hefði komið í allar þrjár endurkomurnar sem boðið sé upp á og taldi vitnið að atburðurinn hefði haft mikil áhrif á hana og valdið miklu umróti í lífi hennar. Vitninu var kunnugt um þau lyf sem brotaþoli hefur notað og taldi hún lyfin Serol og Ropan auka áhrif áfengis og hið síðarnefnda ýta undir svefn, það lyf tók brotaþoli ekki umræddan dag. Vitnið staðfesti skýrslu sína um komu brotaþola.
Brotaþoli framvísaði rúmlaki á neyðarmóttöku, sem hún kvað hafa verið á rúmi sínu. Kvaðst hún hafa sett það hreint á rúmið morguninn áður en atburðurinn átti sér stað. Samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í meinafræði greindist sæði í lakinu.
Heimilislæknir B, Leifur Dungal, staðfesti þá frásögn hennar sjálfrar að hún hefði fyrir þennan atburð átt við alvarlegt þunglyndi að stríða, einnig hefði hún til margra ára þjáðst af verkjum í kvið og gengist undir aðgerð af þeim sökum. Hann staðfesti að hann hefði leiðbeint henni vegna kyndeyfðar. Hann lýsti einnig þeim lyfjum sem hún tekur og taldi að þau myndu hafa haft sáralítil áhrif á ástand hennar að öðru leyti en því að þau gætu virkað til sljóvgunar og að hún yrði syfjaðri. Lagt hefur verið fram læknisvottorð sem vitnið staðfesti. Þar kemur fram að brotaþoli hafi notað, talið frá marsmánuði 2000, lyfin Ropan, Nobligan, Tafil Retard og Serol, einkum tvö síðastnefndu.
Loks kom Guðbjörg Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur fyrir dóminn en B leitaði til hennar eftir atburðinn. Hún kvað hana hafa verið óörugga og hrædda. Hún kvað vera hægt að greina afleiðingar atburðarins þrátt fyrir sjúkdóm brotaþola, en þunglyndi yki á afleiðingar svona atburðar til hins verra. Hefði B tekist vel að nýta sér viðtölin en hún þyrfti meiri hjálp og erfitt væri að segja hvernig tækist endanlega að vinna úr þessu. Kvað hún hana vera í meiri hættu vegna þessa ef hún yrði fyrir frekari áföllum í lífinu. Kvað hún atburðinn hafa haft veruleg neikvæð félagsleg áhrif fyrir B. Lagt hefur verið fram vottorð vitnisins um meðferðina, sem var staðfest.
Niðurstaða
Upplýst þykir með vætti C og D, sem hefur stuðning í framburði brotaþola og vitnisins E, að brotaþoli, B, hafi verið ofurölvi þegar þau fóru frá veitingastaðnum Ásláki upp úr klukkan fjögur umrædda nótt og hafi ekki getað gengið óstudd. Fullyrðing ákærða um að hún hafi staðið sjálf og ekki þurft hjálp við að komast inn í bílinn stangast á við þetta. Einnig þykir sannað að gengið hafi verið undir henni úr bílnum og inn í íbúðina. Þarna stangast framburður ákærða einnig á við framburð vitnanna D og C, enda þótt ákærði hafi sjálfur komið til hjálpar þar sem C réð ekki við að halda henni uppi. Er engin skynsamleg ástæða til annars en að leggja einnig til grundvallar framburð C og D um framvindu mála inni í íbúðinni. Er því byggt á því að B hafi verið lögð í rúm sitt í fötum og breitt yfir hana og hafi hún þá verið áfengisdauð og engin viðbrögð fengist frá henni.
Ekki er fallist á þau rök verjanda að framburður vitnanna sé ótrúverðugur vegna þess að ekki sé fullkomið samræmi í lýsingu þeirra hjá lögreglu og fyrir dómi um smáatriði athafna þeirra eftir að komið var í íbúð brotaþola. Ekkert það misræmi er í framburðum vitnanna sem rýrir trúverðugleika vættis þeirra og er vitnisburðurinn að mati dómsins trúverðugur.
Ákærði fór strax aftur að heimili brotaþola eftir að hafa ekið C og D. Hefur hann því verið þar aftur um 30 mínútum eftir að C og D lögðu B áfengisdauða í rúm sitt og skildu þar við hana. Miðað við ástand hennar þá þykir ótrúverðugt að hún hafi vaknað við að barið var að dyrum, staðið upp og farið til dyra og upphafið þau atlot sem ákærði lýsir. Þetta er enn ótrúverðugra vegna þess að auk þess að hafa drukkið talsvert var hún á lyfjum þeim sem lýst hefur verið hér að framan, og eru þau líkleg til að auka eitthvað á svefnhöfgi. Ekki þykir þó útilokað að manneskja í slíku ástandi rumski við það að átt sé við hana kynferðislega og að andlit gerandans greypist í hugskot hennar. Staðfest er með vætti læknis að hún átti í erfiðleikum í kynlífi sínu á þessum tíma og var hún því einnig af þessum ástæðum ólíkleg til að sýna þá háttsemi sem ákærði lýsir. Saga ákærða um eyrnalokkinn þykir ekki trúverðug í ljósi þess að ákærði kveðst ekki vita hvar lokkurinn sé niðurkominn og framburður hans um hvað af honum varð hefur verið á reiki. Í ljósi ástands B, þegar ákærði ók henni heim, þykir sú skýring ákærða, að hann hafi ætlað að koma til hennar óskilamun á þessum tíma sólarhrings, ótrúverðug og þykir því ljóst að ákærði hafi notað eyrnalokinn sem átyllu fyrir ferð sinni á heimili brotaþola.
Ekki er fallist á það með verjanda ákærða að sjúkrasaga brotaþola skipti máli um trúverðugleika hennar um þennan atburð, auk þess sem sönnunarfærslan um aðalatriði málsins, sem er ölvunarsvefn hennar, byggir að mestu á framburði annarra.
Brotaþoli lýsti svip mannsins sem hún vaknaði með ofaná sér og getur sú lýsing átt við ákærða. Ákærði hefur viðurkennt að hafa verið í íbúðinni og átt kynferðismök við brotaþola. Þau þekktust ekkert fyrir. Sæði var í rúmlakinu og kannast hann við að honum hafi orðið sáðfall, þreifað á kynfærum brotaþola og sett fingur eitthvað inn í leggöng hennar. Ákærða hlýtur að hafa verið ljóst að brotaþoli var ofurölvi þegar hún var skilin eftir í íbúð sinni skömmu áður. Engu að síður fór hann aftur á staðinn, fór inn í íbúðina og átti við hana kynferðislega. Upplýst er að dyrnar að íbúð B voru ólæstar. Að fenginni framangreindri niðurstöðu þykir ljóst að ákærði hafi farið óboðinn inn í íbúðina þar sem B lá sofandi og með því gerst sekur um húsbrot.
Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið þykir brot ákærða sannað og er hann fundinn sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru, að hafa ruðst í heimildarleysi inn í íbúð brotaþola, lagst ofan á hana, káfað á henni og sett fingurinn í kynfæri hennar, og notfært sér það að hún gat ekki spornað við brotinu sökum ölvunar og svefndrunga. Þykir háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Refsiákvörðun.
Ákærði er fæddur 12. júní 1968. Árin 1986 og 1988 gekkst hann tvisvar undir sátt vegna smávægilegra umferðarlagabrota. Árið 1995 gekkst hann undir að greiða 35.000 króna sekt vegna brots gegn 157. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga. Hefur þessi sakarferill ekki áhrif á ákvörðun refsingar.
Með háttsemi sinni braut ákærði gegn kynfrelsi brotaþola og friðhelgi heimilisins og notfærði sér ástand brotaþola. Brotið átti sér stað á heimili brotaþola þar sem hún lá í rúmi sínu eftir að vinir hennar höfðu hjálpað henni heim. Er brotið alvarlegra fyrir það að friðhelgi heimilisins var rofin og það öryggi skert sem það á að veita einstaklingnum. Einnig þykir það vera til þyngingar að ákærði nýtti sér vitneskju sem hann fékk í starfi sínu sem leigubifreiðastjóri. Þykir hann ekki eiga sér neinar málsbætur. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Skaðabótakrafa
Herdís Hallmarsdóttir héraðsdómslögmaður gerir skaðabótakröfu fyrir hönd brotaþola. Krafist er miskabóta úr hendi sakbornings, að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.
Krafan er rökstudd á eftirfarandi hátt: „Um er að ræða kynferðisbrot sem hefur í för með sér miskatjón sem sakborningur ber skaðabótaábyrgð á skv. 26. gr. laga nr. 50/1993. Við kynferðisafbrot verður brotaþoli alltaf fyrir miskatjóni. Bætur fyrir miska skulu ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þykir. Við mat á fjárhæð þeirra ber annars að líta til þess hversu alvarlegt brotið er, hvert sakarstig brotamanns er, hve huglæg upplifun brotaþolans er og loks til umfangs tjónsins. Ljóst er að B varð fyrir andlegu áfalli þegar brotið átti sér stað. Hún var þess algerlega grandalaus að hún væri í nokkurri hættu stödd enda á eigin heimili. Um er að ræða alvarlegt brot gegn kynfrelsi B þar sem kærði nýtti sér ástand hennar. Sök hans er mikil og enginn vafi er um ásetning hans til verksins. Taka ber tillit til alls þessa við mat á sanngjörnum miskabótum til stúlkunnar.”
Krafan er gerð með vísan til 170 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála svo og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Einnig er vísað til 4. og 5. gr. skaðabótalaga. Varðandi vaxtakröfur er vísað til 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og 38/2001. Um málskostnað er vísað til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Einungis er krafist miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði hefur verið sakfelldur samkvæmt ákæru og ber því skaðabótaábyrgð á tjóni brotaþola sem dæmt verður um í máli þessu samkvæmt 170. gr. laga nr. 19/1991. Sannað er með vætti læknisins Kristínar Andersen og Rögnu Ragnars sálfræðings, að brotaþoli, B, varð fyrir alvarlegu áfalli við brot ákærða, sem hún hefur enn ekki unnið sig út úr og óvíst er um hvernig tekst. Brotið átti sér stað á hennar eigin heimili þar sem fólk á að eiga griðastað. Hefur það leitt til töluverðrar röskunar í einkalífi hennar og hefur hún flutt heimili sitt í kjölfarið. Hún hefur þunglyndissjúkdóm og er líklegt að afleiðingarnar séu alvarlegri þess vegna, en á því ber hún ekki sjálf ábyrgð. Hún hefur leitað sér aðstoðar í kjölfar atburðarins og reynt að vinna úr afleiðingum hans. Þykja bætur til hennar úr hendi ákærða hæfilega ákvarðaðar 700.000 krónur með vöxtum frá dómsuppsögudegi eins og greinir í dómsorði. Þá skal ákærði greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola, Herdísar Hallmarsdóttur héraðsdómslögmanns, sem ákvarðast 150.000 krónur.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákvarðast 250.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði J. Friðjónsdóttur saksóknara.
Hjördís Hákonardóttir, Guðjón St. Marteinsson og Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð
Ákærði, Ágúst Þór Gestsson, skal sæta fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákvarðast 250.000 krónur.
Ákærði skal greiða B 700.000 krónur í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá dómsuppsögudegi til greiðsludags og 150.000 krónur vegna þóknunar til réttargæslumanns hennar, Herdísar Hallmarsdóttur héraðsdómslögmanns.