Hæstiréttur íslands

Mál nr. 454/2002


Lykilorð

  • Höfundarréttur
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. maí 2003. 

Nr. 454/2002.

Dánarbú Rúriks Haraldssonar

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.)

gegn

Saga Film hf. og

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

Flugleiðum hf.

(Erlendur Gíslason  hrl.)

 

Höfundarréttur. Skaðabætur.

F hf. fékk S hf. til að framleiða auglýsingu sem átti að sýna á erlendri sjónvarpsstöð. Af þessu tilefni fór S hf. þess á leit við R að hann læsi upp texta úr enskri þýðingu Hávamála fyrir auglýsinguna. Í málinu var deilt um aðdraganda þess að R tók að sér verkið og hvort hann hafi samið við S hf. um greiðslur fyrir það. Var ekki talið sannað að R hafi átt rétt á hærri þóknun en hann var vanur að áskilja sér fyrir sambærilegan upplestur. Voru S hf. og F hf. því sýknuð af kröfu R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 2002. Hann krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér 750.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. apríl 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi Saga Film hf. krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefndi Flugleiðir hf. krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Rúrik Haraldsson, sem var stefnandi málsins í héraði, lést 23. janúar 2003. Hefur dánarbú hans tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, dánarbú Rúriks Haraldssonar, greiði stefndu, Saga Film hf. og Flugleiðum hf., hvorum um sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2002.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 7. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Rúrik Haraldssyni, kt. 140126-2179, Skólabraut 5, Seltjarnarnesi, með stefnu birtri 11. október 2001 á hendur Saga Film hf., kt. 590578-0109, Vatnagörðum 4, Reykjavík, Flugleiðum hf., kt. 601273-0129, Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru þessar:

1.      Að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda fébætur að fjárhæð kr. 500.000, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 frá 23. apríl 2001 til l. júlí s.á., en frá þeim degi með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

2.      Að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð kr. 250.000, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987, frá 23. apríl 2001 til 1. júlí s.á., en frá þeim degi með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

         Þess er krafizt, að dráttarvextir leggist árlega við höfuðstól, í fyrsta sinn 23. apríl 2002, samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001.

         Þá er krafizt málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum, að skaðlausu, að mati dómsins.  Við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

         Dómkröfur stefnda, Flugleiða hf., eru þær aðallega, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu, sbr. málskostnaðarreikning á dskj. nr. 36, og málskostnaður verði dæmdur með álagi.  Til vara gerir stefndi þá kröfu, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar, dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en frá dómsuppsögu, og að málskostnaður verði í því tilviki látinn falla niður.

         Dómkröfur stefnda, Saga Film hf., eru  þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.  Til vara gerir stefndi þær dómkröfur, að bótafjárhæðir verði lækkaðar verulega að mati dómsins, og málskostnaður verði látinn niður falla.

II.

Málavextir:

Verulegur ágreiningur er um málavexti.  Stefnandi, sem er þjóðkunnur leikari, kveðst hafa unnið mikið á undanförnum árum fyrir stefnda, Saga Film hf., við innlestur auglýsinga og fleira, en stefnda, Saga Film hf., hefur m.a. atvinnu sína af auglýsingagerð fyrir sjónvarp.  Stefnandi lýsir því svo í stefnu, að hann hafi unnið störf sín fyrir stefnda sem verktaki, og hafi sá háttur verið á, að stefnandi hafi gefið út reikning fyrir hvert verk til stefnda. 

         Snýst ágreiningur í máli þessu um greiðslur fyrir upplestur á texta úr Hávamálum á ensku, sem stefnandi kveðst hafa lesið fyrir stefnda, Saga Film hf, í janúar 2002 til prufu, sem hafi síðan verið sýndur og lesinn í sjónvarpi, án samráðs við stefnda, eða samþykkis hans.

         Stefnandi lýsir aðdraganda þess svo, að hann hafi verið staddur í starfsstöð stefnda, Saga Film hf., í janúar 2001, við upptöku auglýsingar.  Hafi starfsmaður Saga Film hf. þá komið til hans og beðið hann um að lesa fyrir sig umdeildan texta til prufu, fyrst hann væri þarna á staðnum.  Stefnandi kveðst hafa orðið við beiðninni, og hafi upplesturinn verið hljóðritaður.  Ekkert hafi verið rætt við stefnanda um notkun þessa hljóðrits.  Þá hafi ekkert verið rætt um greiðslur fyrir, enda hafi starfsmaður stefnda fullyrt, að aðeins væri um prufuinnlestur að ræða, sem alls væri óvíst, hvort yrði notaður.  Hafi stefnandi því ekki haft í hyggju að taka þóknun fyrir slíkt verk, en kveðst hafa átt von á, að haft yrði samband við hann, ef óskað yrði eftir, að hann tæki að sér eitthvert tiltekið verk í framhaldi af þessari prufu, eða ef nota ætti viðkomandi hljóðrit.  Nokkru síðar hafi stefnanda verið bent á, að rödd hans hljómaði í auglýsingu fyrir stefnda, Flugleiðir hf., á bandarísku sjónvarpsstöðinni, CNN, og kveðst hann þá hafa gert sér grein fyrir því, að það, sem kallað hefði verið prufuinnlestur, hefði verið notað í þessa auglýsingu, sem framleidd var af stefnda, Saga Film hf., fyrir stefnda, Flugleiðir hf.  Síðar hafi stefnandi heyrt af umfjöllun í sjónvarpsfréttum, að um væri að ræða "auglýsingaherferð" stefnda, Flugleiða hf., á erlendri grundu, og væri hér um að ræða dýrasta átak sem íslenskt fyrirtæki hefði ráðist í til þessa dags, en það myndi kosta mörg hundruð milljónir króna.

         Þann 6. desember 2000 sendi lögmaður stefnanda bréf til stefnda, Saga Film hf., og vakti athygli á, að birting umræddrar auglýsingar hefði verið án alls samráðs eða samkomulags við stefnanda.  Var jafnframt óskað eftir upptöku af umræddri auglýsingu og upplýsingum um, hversu oft hún hefði birzt og í hvaða fjölmiðlum.  Með bréfi framkvæmdarstjóra stefnda, Saga Film hf., dags. 12. desember 2000, var bréfi þessu svarað, og var því þar haldið fram, að samið hefði verið við stefnanda um tiltekna upphæð fyrir upplesturinn, en stefnandi ætti hins vegar eftir að gefa út reikning fyrir verkið og hefði því ekki fengið greitt.  Með símbréfi dags. 16. febrúar 2001 til stefnda, Saga Film hf., ítrekaði lögmaður stefnanda fyrri beiðni sína.  Með bréfi framkvæmdarstjóra stefnda, Saga Film hf., dags. sama dag, fylgdi upptaka af auglýsingunni.  Í bréfinu var því enn haldið fram af hálfu stefnda, að samið hefði verið við stefnanda um ákveðna greiðslu fyrir verkið.

         Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 23. marz 2001, til stefnda, Saga Film hf., var sjónarmiðum stefnanda lýst og settar fram kröfur hans vegna þess tjóns og miska, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna háttsemi stefnda.  Stefnandi kveður engin viðbrögð hafa borizt við þessu bréfi, og hafi efni þess verið ítrekað með bréfi, dags. 29. maí 2001, án árangurs.

         Með bréfi, dags. 29. júní 2001, til framkvæmdarstjóra stefnda, Flugleiða hf., setti lögmaður stefnanda fram kröfur hans á hendur þessum stefnda vegna notkunar á umræddri auglýsingu.  Var jafnframt skorað á stefnda að láta stefnanda í té upplýsingar um, hvar og hversu oft umrædd auglýsing hefði verið birt.  Stefnandi kveður símbréf hafa borizt frá lögmanni stefnda, Flugleiða hf., þann 19. júlí 2001, þar sem greint hafi verið frá því, að bréfi stefnanda yrði svarað, er afstaða lægi fyrir.  Slíkt bréf hafi hins vegar enn ekki borizt.

         Stefndi, Saga Film hf., kveður málavexti vera þá, að starfsmaður stefnda, Jón Bjarni Guðmundsson, hafi hringt í stefnanda og spurt, hvort hann hefði tök á að lesa inn texta á auglýsingu, sem stefndi væri að framleiða.  Framleiðsla á auglýsingunni hafi verið var á lokastigi, og hafi starfsmenn stefnda fengið þá hugmynd að láta einhvern virðulegan leikara af eldri kynslóðinni lesa inn á hana texta úr Hávamálum.  Stefnandi hafi komið í hljóðver stefnda daginn eftir, laugardaginn 15. janúar 2000.  Hafi honum þar verið kynnt verkefnið og fyrir hverja væri verið að vinna auglýsinguna.  Hafi því verið sérstaklega komið á framfæri, að umrædd auglýsing væri ætluð erlendum markaði, enda hafi lestur stefnanda átt að fara fram á ensku.  Þegar stefnandi hafði lokið við lesturinn, hafi hann lýst því yfir, að hann tæki kr. 35.000 fyrir.  Hafi honum þá verið tilkynnt, að ekki væri alveg öruggt, að lesturinn yrði notaður.  Hafi hann verið inntur eftir því, hvort hann væri tilbúinn að semja um lægri þóknun, eftir því hvort lesturinn yrði notaður eða ekki.  Stefnandi hafi tekið því mjög illa og sagzt taka kr. 35.000 fyrir lestur sjónvarpsauglýsingar, án tillits til þess hvort hann væri notaður eða ekki.  Þar sem starfsmaður stefnda hafi verið þess nánast fullviss, að umræddur lestur yrði notaður, hafi verið samþykkt að greiða ásett verð og hafi stefnanda verið sagt að senda reikning.  Reikningur hafi hins vegar ekki borizt.  Stefndi kveðst hafa boðið stefnanda á fund til að endurskoða greiðslur til hans, en það boð hafi verið virt að vettugi.  Eftir að krafa stefnanda um miska- og skaðabætur úr hendi stefnda barst, hafi stefndi greitt umsamda þóknun inn á bankareikning stefnanda, hinn 14. júní 2001.        

         Stefndi, Flugleiðir hf., kveður málsatvik hafa verið þau, að 15. nóvember 1999 hafi orðið samkomulag milli beggja stefndu um gerð auglýsingar til birtingar á sjónvarpsstöðinni CNN.  Á þessum tíma hafi ekki verið gert ráð fyrir, að meðstefndi, Saga Film hf., útvegaði þul í auglýsinguna, heldur hafi það verið ákveðið síðar.  Hafi þessi þáttur í auglýsingunni þar af leiðandi verið reikningsfærður sérstaklega af meðstefnda, Saga Film hf.  Engar sérstakar óskir hafi komið fram af hálfu stefnda, Flugleiða hf., um aðkomu stefnanda að auglýsingunni, og hafi gerð hennar, hvað það varði, einungis verið á ábyrgð meðstefnda, Saga Film hf.

         Meðstefndi hafi skilað auglýsingunni fullbúinni til stefnda, Flugleiða hf., í janúarmánuði árið 2000.  Þá fyrst hafi stefndi, Flugleiðir hf., vitað, að stefnandi læsi upp texta í auglýsingunni.  Í auglýsingunni, sem sé um 30 sekúndur að lengd, heyrist rödd stefnanda á kafla, og lesi hann upp eftirfarandi texta úr Hávamálum á ensku:  “One is truly wise, who has traveled far, and knows the ways of the world."

         Fyrsta birting auglýsingarinnar á sjónvarpsstöðinni CNN hafi átt sér stað þann 31. janúar 2000.

         Stefnda, Flugleiðum hf., hafi ekki verið kunnugt um, með hvaða hætti viðskiptum meðstefnda, Saga Film hf., við stefnanda var háttað og telji sig hafa mátt treysta því, að rétt væri staðið að öllum málum, er vörðuðu auglýsinguna af hálfu meðstefnda, Saga Film hf.  Hafi stefndi, Flugleiðir hf., engin samskipti haft við stefnanda, og sé ekkert samningssamband milli þeirra.  Hafi þessum stefnda fyrst verið ljós ágreiningur meðstefnda og stefnanda, þegar kröfubréf stefnanda, dags. 29. júní 2001, barst félaginu, eða tæpum 18 mánuðum eftir að upptaka á lestri stefnanda fór fram.

III.

Málsástæður stefnanda:

1. Almennt.

Stefnandi byggir á því, að hann hafi, sem listflytjandi, einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings, samkvæmt 45. gr. höfundalaga.  Í þeirri upptöku, sem hér um ræði, flytji stefnandi texta úr Hávamálum á ensku á sinn einstaka hátt, með sinni hljómmiklu röddu.  Sé enginn vafi á, að hér sé um sérstakan listflutning að ræða, en ekki eingöngu upplestur á texta, og sé þessi listflutningur stefnanda meginuppistaðan í umræddri auglýsingu, eins og þeim sé ljóst, er hana hafi séð.  Heimildarlaus notkun stefndu á hljóðriti af umræddum listflutningi stefnanda, án alls samráðs við hann, hafi í senn verið saknæm og ólögmæt.

         Stefnandi hafi verið fenginn til þess af starfsmanni stefnda, Saga Film hf., að lesa inn enskan texta til prufu.  Hafi ekkert verið rætt um frekari notkun umrædds hljóðrits, heldur hafi stefnanda þvert á móti verið gefið í skyn, að umræddur upplestur væri einungis til prufu og alls ekki víst, hvort hann yrði notaður.  Þá hafi, eins og áður sé rakið, ekki verið samið um neina þóknun við stefnanda fyrir umræddan upplestur, og hafi það rennt enn frekar stoðum undir þann skilning stefnanda, að hér væri aðeins um prufu að ræða, og yrði samið um sérstaka þóknun, kæmi til þess, að stefnandi yrði fenginn til að vinna viðkomandi verk, eða ef ætti að birta viðkomandi hljóðrit.  Stefnandi hafi um árabil unnið sem verktaki fyrir stefnda, Saga Film hf., og hafi ávallt gefið út reikning vegna þóknunar fyrir þau verk, sem hann hafi unnið í þágu stefnda.  Stefnandi hafi aldrei gefið út reikning fyrir því verki, sem hér um ræði, og styðji það fullyrðingu stefnanda um, að hér hafi ekki verið um að ræða verk, sem samið hafi verið um þóknun fyrir og þá einnig, að ekki hafi verið samið um notkun hljóðritsins.

         Varðandi stefnda, Flugleiðir, sé vísað til þess, að það sé meginregla í höfundarétti, að sá, sem haldi því fram, að hann hafi fengið höfundarétt framseldan, beri sönnunar­byrði fyrir því, að slíkt framsal hafi átt sér, svo og umfangi þess framsals.  Þótt í þessu máli sé um höfundarétt listflytjanda að ræða, sé réttarvernd stefnanda í grundvallaratriðum sú sama, og þegar um höfund sé að ræða.  Af þeim sökum beri stefndi jafnframt sönnunarbyrðina fyrir því, að framsal hafi átt sér staði svo og hvert umfang framsalsins sé.  Þá sé enn fremur vísað til þess, að eins og fallizt hafi verið á af íslenzkum dómstólum, sé sá bótaskyldur gagnvart höfundi, sem hagnýti sér höfundaverk í formi auglýsingar.  Það fyrirtæki, sem auglýsi vöru sína eða þjónustu, sé því bótaskylt gagnvart höfundi, brjóti notkun þess gegn höfundarrétti hans.

2. Krafa um fébætur.

Krafa stefnanda á hendur stefndu um fébætur, vegna réttarbrota þeirra gegn 45. gr. höfundalaga, sé byggð á l. mgr. 56. gr. höfundalaga og almennum reglum skaðabóta­réttarins, þ.m.t. almennu skaðabótareglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð.  Augljóst sé, að stefndu hafi með sinni saknæmu og ólögmætu háttsemi valdið stefnanda fjártjóni, m.a. með því að svipta hann þeim lögmæta rétti hans sem listflytj­anda að njóta arðs af eign sinni, listflutningnum.  Stefndu beri að bæta stefnanda það tjón hans, sem eftir atvikum verði að meta að álitum, samkvæmt l. mgr. 56. gr. höfundalaga, almennum reglum skaðabóta- og höfundaréttarins og með vísan til dómafordæma.  Við mat á umfangi tjóns stefnanda verði að líta til þess, að tjón hans sé í raun meira en sem nemi eiginlegu fjártjóni.  Í því sambandi hafi það verið almennt viðurkennt, að við ákvörðun fjártjóns vegna brota á höfundarétti skuli miða við helmingi hærri bætur, en sem nemi eiginlegu fjártjóni.

         Til stuðnings fjárhæð kröfu sinnar bendi stefnandi á, að hér hafi verið um óvenju umfangsmikið verk á þessu sviði að ræða.  Samkvæmt umfjöllun sjónvarpsfrétta hafi hér verið um auglýsingaherferð að ræða, sem væri langdýrasta slíka verkefni, sem íslenzkt fyrirtæki hefði ráðist í til þessa dags.  Verði þetta að teljast sennilegt, þar sem hér hafi verið um að ræða fjölmargar birtingar á erlendum sjónvarpsstöðvum.  Stefnandi telji ekki leika vafa á, að hefði honum verið ljóst, hversu hér hafi í raun verið um umfangsmikið verk að ræða og hversu oft og víða listflutningur hans ætti að birtast, hefði hann samið sérstaklega um þóknun fyrir framlag sitt til auglýsingarinnar, einkum ef honum hefði verið ljóst, að þáttur hans í umræddri auglýsingu yrði eins stór og raun hafi borið vitni.  Þessu til hliðsjónar megi benda á grein 3.2. í samningi SÍA og FÍL, sbr. dskj. nr. 10, en þar segi, að samið skuli sérstaklega um meiriháttar verk.  Sé þáttur stefnanda í umræddri auglýsingu gríðarlega stór og ekki hægt að miða við þóknun, sem venjulega sé tekin fyrir einfaldan innlestur á auglýsingu, eins og stefndi, Saga Film hf., hafi boðið fram á einhverju stigi málsins.  Þáttur stefnanda sem listflytjanda í umræddri auglýsingu sé afgerandi, og beiti hann þar leikrænum tilburðum sínum með sinni hljómmiklu röddu, sem löngu sé orðin þjóðþekkt.

         Þá bendi stefnandi á, kröfu sinni til stuðnings, að brot stefndu virðist vera unnið af grófum ásetningi, a.m.k. miðað við þær skýringar, sem stefndi, fyrirtækið Saga Film hf., hafi sjálft gefið á atburðarrásinni, sbr. dskj. nr. 5, en þar komi fram, að aldrei hafi farið milli mála, um hvaða auglýsingu væri að ræða, og hvar hún ætti að birtast.  Þetta hafi ekki verið þær upplýsingar, er stefnanda hafi verið gefnar, er hann var óvænt gripinn til þessa prufuinnlesturs, er hann var staddur á starfsstöð stefnda.  Þvert á móti hafi stefnanda verið gefið í skyn, að um væri að ræða ótiltekinn prufuinnlestur og því hafi raunin orðið sú, að stefnandi hafi ekki samið um neina þóknun fyrir verkið á þeim tíma.  Hafi stefnanda, á þessu stigi, á engan hátt verið ljóst, að þessi flutningur hans yrði með einhverjum hætti birtur opinberlega.  Þá hafi stefndu ekki á neinu stigi málsins látið af þeim ásetningi sínum að svipta stefnanda rétti hans til þess að fá sanngjarna og eðlilega þóknun fyrir listflutning sinn.

         Þá megi þessu til stuðnings benda á, að samkvæmt samningi SÍA og FÍL, sbr. dskj. nr. 10, sé kveðið á um í gr. 2.1, að gerður skuli skriflegur verksamningur um hvert verkefni.  Slíkt hafi ekki verið gert í því tilviki, sem hér um ræði, og verði stefndu að bera hallann af því, telji þau, að um umrætt verk hafi verið samið.  Þá sé í grein 2.2. tekið fram, að í slíkum samningum skuli sérstaklega geta um, í hvaða miðlum auglýsing eigi að birtast, svo og um notkunartíma hennar.  Þá sé kveðið á um það í tilvitnuðum samningi í gr. 4.5, að óheimilt sé að nota hljóðrit í öðru samhengi en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir, nema til komi samþykki viðkomandi félagsmanns FÍL, og samkomulag sé um greiðslu.

3. Krafa um miskabætur.

Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 2. mgr. 56. gr. höfundalaga.  Stefndu hafi með framangreindum réttarbrotum sínum valdið stefnanda ófjárhagslegu tjóni, sem sé bótaskylt samkvæmt nefndu lagaákvæði, en heimildarlaus og ólögmæt eintakagerð og birting á listflutningi listflytjanda, ásamt því sem af slíkri háttsemi leiði, sé augljóslega til þess fallið að valda listflytjandanum miska.

         Þá vilji stefnandi sérstaklega benda á, miskabótakröfu sinni til stuðnings, að hann hafi, af hálfu stefndu, aldrei verið upplýstur um, að umræddur listflutningur hans yrði birtur opinberlega og dreift til almennings.  Eftir að listflutningurinn var kominn í birtingu, hafi stefnanda aldrei verið gert viðvart um það af hálfu stefndu, eða samið við hann um þóknun, hvorki þá né síðar.  Hafi stefnandi komizt að því fyrir hreina tilviljun, að listflutningi hans væri dreift opinberlega, og hafi það einkum verið til þess fallið að valda honum miska.  Þá hafi stefndu engan vilja sýnt til að koma til móts við kröfur stefnanda, eftir að í ljós kom, að flutningur hans hafði verið notaður, fyrir utan það að stefndi, Saga Film hf., hafi boðið honum smánarlega þóknun fyrir verk hans, sem hafi engan veginn verið það, sem stefnandi hafi getað sætt sig við miðað við umfang verksins og þátt hans í auglýsingamyndinni.  Að öllu þessu virtu verði að telja, að háttsemi stefndu hafi verið sérstaklega til þess fallin að valda stefnanda miska.

         Stefnandi byggir kröfur sínar á höfundalögum nr. 73/1972 með síðari breytingum.  Vísað sé til V. kafla laganna, einkum 45. gr. um listflytjendur.  Varðandi fébótakröfu stefnanda sé vísað til 1. mgr. 56. gr. laganna, og varðandi miskabótakröfu hans sé vísað til 2. mgr. sama ákvæðis.  Þá sé vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins, einkum almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um húsbónda­ábyrgð.  Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 fram til l. júlí 2001, en frá þeim degi byggist kröfur hans um dráttarvexti og vaxtavexti á III. og V. kafla laga nr. 38/2001.  Upphafsdagur dráttarvaxta miðist við, að dráttarvextir reiknist á kröfu stefnanda mánuði eftir að hann setti kröfur sínar fyrst fram gagnvart stefnda, þ.e. með bréfi dags. 23. marz 2001, sbr. dskj. nr. 8.  Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður stefnda, Saga Film hf.:

Stefndi, Saga Film hf., byggir sýknukröfu sína á því, að það sé rangt, sem fram komi í stefnu, að stefndi hafi, án samþykkis stefnanda, notað hljóðupptöku af lestri hans inn á umrædda auglýsingu.

         Stefndi hafi fengið stefnanda í máli þessu sérstaklega til að mæta í hljóðver stefnda laugardaginn 15. janúar 2000 til að lesa inn texta úr Hávamálum á ensku á umrædda auglýsingu.  Honum hafi verið gert ljóst frá upphafi, hvaða auglýsingu væri um að ræða; að hún væri gerð fyrir erlendan markað, og að hún væri liður í auglýsingaherferð.  Stefnandi hafi lýst því yfir þá, að hann tæki kr. 35.000 fyrir. Honum hafi þá verið tjáð, að ekki væri alveg öruggt, að lesturinn yrði notaður og hann inntur eftir því, hvort hann væri tilbúinn að semja um lægri fjárhæð, ef niðurstaðan yrði, að lesturinn yrði ekki notaður.  Stefnandi hafi ekki verið reiðubúinn til þess og hafi orðið að samkomulagi aðila, að greiddar yrðu kr. 35.000, óháð því hvort lesturinn yrði notaður eða ekki.

         Samkvæmt gögnum, sem lögð hafi verið fram af hálfu stefnda, sé ljóst, að sú fullyrðing stefnanda, að "hann hafi verið staddur í starfstöð stefnda Saga Film hf. við upptöku auglýsingar" sé röng.  Fram hafi komið, að hljóðupptakan á stefnanda hafi farið fram laugardaginn 15. janúar 2000, en ekki í júlímánuði, eins og stefnandi haldi fram, enda hafi fyrsta birting á auglýsingunni verið á fyrri hluta ársins 2000.  Stefndi hafi látið kanna það, hvort mögulegt sé, að stefnandi hafi verið að vinna að einhverju verkefni á starfstöð stefnda, og hafi komið í ljós, að svo hafi ekki verið.  Í hljóðveri/myndveri stefnda á laugardeginum hafi þeir eingöngu verið að vinna þáttinn "Með hausverk um helgar", sem hafi verið í útsendingu á sjónvarpstöðinni Sýn. Samkvæmt verkseðlum starfsmanna stefnda hafi einungis verið að vinna að tveimur öðrum auglýsingum þennan dag, og hafi stefnandi hvergi komið þar nærri.  Samkvæmt verkskýrslum starfsmanna stefnda sé ljóst, að stefnandi hafi ekki komið að neinu verki hjá stefnda utan umrædds lesturs þann 15. janúar.

         Stefnandi hafi, eins og fram komi í stefnu, á undanförnum árum unnið töluvert af verkefnum fyrir stefnda.  Í öllum tilfellum hafi stefnandi gefið út reikning fyrir vinnu sinni, og hafi sá reikningur verið byggður á samkomulagi aðila um þóknun. Aldrei hafi staðið á stefnda að greiða útgefna reikninga stefnanda, enda hafi þeir verið gefnir út í samræmi við samkomulag þeirra.  Samkvæmt dskj. nr. 15 - 19, sem séu útgefnir reikningar stefnanda til handa stefnda á tímabilinu 15. maí 1996 - 1. september 1998, sé ljóst, að þetta fyrirkomulag hafi verið við lýði í viðskiptum aðila um langt skeið. Megi því með sanni segja, að þróazt hafi mjög skýr viðskiptavenja milli þessara sömu aðila.  Aldrei hafi verið gerður skriflegur samningur, en munnlegt samkomulag hafi verið gert, þegar verk hafi verið unnið, og síðan hafi verið greitt samkvæmt því samkomulagi, þegar reikningur barst frá stefnanda.  Samkvæmt þessum reikningum sé ljóst, að venja hafi verið í viðskiptum aðila, að stefnandi gæfi út reikning fyrir vinnuframlaginu, og stefndi greiddi fyrir samkvæmt reikningnum.  Aldrei hafi verið gerður skriflegur samningur milli aðila um innlesturinn, enda hafi munnlegt samkomulag aðila verið talið nægilegt.

         Þessi viðskiptavenja hafi ekki einungis verið viðhöfð milli aðila máls þessa, heldur einnig milli stefnda og annarra aðila, sem hafi lesið inn á auglýsingar hjá honum.  Þessu til stuðnings séu lagðir fram reikningar þriggja leikara vegna innlesturs, sbr. dskj. nr. 27 - 29.

         Stefndi telji sýnt, að samkomulag aðila feli í sér, að það verk, sem stefnandi sé fenginn til að vinna, verði notað og birt.  Heimild stefnda til að nota það verk, sem stefnandi sé fenginn til að vinna, hljóti að vera forsenda þess, að greitt sé fyrir vinnu­framlagið.  Með vísan til þess að aðilar hafi um árabil stundað viðskipti sín á milli með ofangreindum hætti, sé því haldið fram hér, að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðreynd, að öðruvísi hafi verið háttað varðandi vinnu þá, sem innt hafi verið af hendi þann 15. janúar 2000.  Þar að auki sé vísað til þess, að sú fjárhæð, sem samið hafi verið um, sé í fullu samræmi við undanfarandi greiðslur vegna innlesturs stefnanda á auglýsingar, sbr. dskj. nr. 15-­19.

         Verði bótaskylda stefnda talin vera fyrir hendi, sé byggt á því, að bæði fjárhags- og miskatjón stefnanda sé ósannað, en stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því, að hann hafi orðið fyrir tjóni.  Eins og áður hafi komið fram, hafi stefnandi fengið greiddar kr. 35.000,00, sbr. dskj. nr. 25 - 26.  Ef mið sé tekið af þeim fjárhæðum, sem stefnandi hafi fengið greiddar fyrir svipaða vinnu, sé ljóst, að sú fjárhæð virðist eðlileg.  Einnig ef mið sé tekið af reikningum á dskj. nr. 27-29.  Eiginlegt fjártjón stefnanda sé því ekki til staðar.

         Varðandi þá fullyrðingu stefnanda, að um sé að ræða óvenju umfangsmikið verk, sé henni mótmælt. Framleiðsla á umræddri auglýsingu sé ekki dýrari eða umfangsmeiri en gangi og gerist hérlendis.  Auglýsingaherferðin sjálf sé dýr, enda sé birtingarkostnaður á erlendum sjónvarpstöðvum margfalt dýrari en hérlendis.  Stefndi hafi hins vegar ekkert með birtingu auglýsingarinnar að gera, og framleiðslukostnaður við gerð auglýsingar sé ekki í neinum tengslum við það, hvar og hversu oft hún verði birt í framhaldinu.  Sú vinna, sem stefnandi hafi innt af hendi að beiðni stefnda, sé síður en svo umfangsmeiri en innlestur á aðrar auglýsingar.  Þeirri fullyrðingu stefnanda, að hér sé um óvenju umfangsmikið verk að ræða, sé því mótmælt.

         Tilvísunum stefnanda í samning SÍA og FÍL sé mótmælt, enda sé stefndi ekki aðili að umræddum samningi.

         Því sé sérstaklega mótmælt sem ósönnuðu, að stefnandi hafi í reynd beðið eitthvert ófjárhagslegt tjón, þ.e. miska.  Það, að lestur hans á Hávamálum, undir myndefni af erlendum stórborgum og íslenskri náttúru, fái að hljóma á erlendum sjónvarpsstöðvum, hljóti að teljast stefnanda til tekna.

         Með hliðsjón af fyrrgreindu byggi stefndi á því, að skilyrðum l. og 2. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 um greiðslu skaða- og miskabóta sé ekki fullnægt.

         Um lækkunarkröfu stefnda vísist til ofangreindra raka.

         Stefndi byggi sýknukröfu sína á reglum samningaréttarins um skuldbindingar­gildi samninga.  Einnig sé byggt á 1., 2. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972, auk almennra reglna skaðabótaréttarins um sönnunarbyrði.  Málskostnaðarkröfur byggi á 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með breytingum.

Málsástæður stefnda, Flugleiða hf.:

Aðalkrafa.

1. Aðildarskortur.

Stefndi, Flugleiðir hf., byggir á því, að máli þessu sé ranglega beint að honum, þar sem hann hafi enga hlutdeild átt í hinu meinta broti og geti ekki borið meðábyrgð á meintu broti meðstefnda, Saga Film hf., á meintum listflytjandarétti stefnanda.  Ekkert vinnusamband sé á milli stefnda og meðstefnda, Saga Film hf.  Málið sé honum í raun óviðkomandi, þar sem hann hafi fengið auglýsinguna fullbúna í hendurnar frá meðstefnda, Saga Film hf., og hafi engar óskir haft uppi um aðkomu stefnanda að henni.  Því eigi samaðild samkvæmt 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ekki við í þessu máli.  Leiði þetta til þess, að um aðildarskort stefnda sé að ræða, sem leiði til sýknu, sbr. 16. gr. sömu laga.

         Þá byggi stefndi á því, að ágreiningur milli stefnanda og meðstefnda um fjárhæð endurgjalds fyrir upplestur og notkun þess upplestur hafi ekki með meintan listflytjandarétt hans að gera, og geti stefnandi ekki beint kröfum að þessum stefnda á þeim grundvelli, að ekki hafi samizt um þóknun fyrir flutninginn.  Verði niðurstaðan sú, að samizt hafi um upplestur og notkun hans, en ekki fjárhæð endurgjalds, sé um að ræða samningsréttarlegt atriði milli meðstefnda, Saga Film hf., og stefnanda, sem sé stefnda, Flugleiðum hf., óviðkomandi.  Því eigi samaðild samkvæmt 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ekki við, og leiði það til þess, að um aðildarskort stefnda sé að ræða, sem leiði til sýknu, sbr. 16. gr. sömu laga.

2. Skilyrði sakarreglu um, að bótakröfu verði beint að þeim sem hefur bakað meint tjón.

Stefndi, Flugleiðir hf., byggi á því, að ekki sé uppfyllt það skilyrði sakarreglu, að bótakröfu verði beint að þeim, sem baki hið meinta tjón.  Stefndi hafi engan þátt átt í hinu meinta broti á meintum listflytjandarétti stefnanda.  Ekkert vinnusamband sé á milli þessa stefnda og meðstefnda, Saga Film hf.  Hann hafi mátt treysta því, að engir annmarkar væru á því að sýna auglýsingu þá, sem mál þetta varði, og hafi ekki bakað stefnanda hið meinta tjón hans.

3. Tómlæti.

Stefndi, Flugleiðir hf., byggi á því, að jafnvel þó viðurkennt yrði af dómi, að hann bæri ábyrgð á broti á listflytjandarétti stefnanda, sé stefnandi engu að síður búinn að glata þeim rétti fyrir tómlætissakir.  Þannig hafi stefnandi engar kröfur haft uppi á hendur stefnda, fyrr en um 18 mánuðum eftir að upptaka fór fram, og allt að einu um einu ári eftir að stefnandi hafi vitað af birtingu auglýsingar.  Geti kröfugerð á hendur meðstefnda, Saga Film hf., engu breytt í þessu sambandi.

4. Ekki er um verndaðan listflutning að ræða.

Stefndi, Flugleiðir hf., byggi á því, að upplestur stefnanda úr Hávamálum, eins og hann komi fyrir í téðri auglýsingu, uppfylli ekki lágmarksskilyrði til að njóta verndar höfundalaga nr. 73/1972.  Einungis sé um að ræða örstutta auglýsingu, um 30 sekúndur í heild, með mörgum myndrænum og hljóðrænum þáttum, þar á meðal upplestri stefnanda.  Upplestur stefnanda nái einungis til stutts textabrots, eða 15 orða alls, og geti því ekki uppfyllt lágmarksskilyrði til þess að njóta verndar, og sé því sérstaklega mótmælt, að upplestur hans, eins og hann komi fyrir í auglýsingunni, njóti verndar, sem og að upplestur hans sé meginuppistaðan í auglýsingunni.  Minna beri á, að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því, að um listflutning sé að ræða, sem njóti verndar.

         Því er sérstaklega mótmælt, að frægð raddar stefnanda hafi eitthvað með meintan listflytjandarétt hans að gera, enda hafi frægð raddar eða manneskju ekkert með réttindi samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 að gera.

5. Grandleysi.

Jafnvel þó viðurkennt yrði af dómi, að um verndaðan listflutning væri að ræða, og að ekki hefði samizt um upptöku og notkun á téðri auglýsingu milli meðstefnda, Saga Film hf., og stefnanda, hafi stefndi verið grandlaus um slíkt og geti því ekki borið ábyrgð, hvorki eftir almennu skaðabótareglunni, reglum um vinnuveitendaábyrgð, né ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972.  Ranglega sé haldið fram af stefnanda, að viðurkennt sé af íslenskum dómstólum, að sá sé bótaskyldur gagnvart höfundi, sem hagnýti sé höfundarverk í formi auglýsingar.  Til slíks geti ekki komið án sakar þess, sem hagnýti höfundarverkið, eða í þessu tilfelli listflutning, og hafi annað ekki verið viðurkennt.  Slíkt færi og gegn ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972, og sé því mótmælt, að stefndi geti grandlaus borið skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda.  Áratugavenja liggi fyrir framsali á vernduðum listflutningi á Íslandi vegna auglýsingagerðar, og megi hverjum, sem komi að gerð auglýsingar, vera ljóst, að hún verði birt sem slík.  Engan sérstakan löggerning þurfi til framsals afnotaréttar af listflutningi, þegar um auglýsingar sé að ræða, annars vegar frá listflytjanda til auglýsingafyrirtækis, og hins vegar frá auglýsingafyrirtæki til kaupanda auglýsingar, enda sé slíkt falið í eðli þessara viðskipta.  Hafi stefndi mátt treysta því, að slíkt framsal hefði átt sér stað.

6. Ekkert brot hafi verið framið.

Óumdeilt sé, að stefnandi hafi heimilað upptöku á lestri hans hjá auglýsingafyrirtæki, og hafi hann lesið upp texta á ensku vitandi vits um, að hljóðupptaka væri gerð.  Þannig geti ekki verið um brot á meintum rétti hans sem listflytjanda að ræða á grundvelli 45. gr. höfundalaga nr. 73/1972, eða annarra ákvæða þeirra laga.  Stefnanda megi vera ljóst, að upptaka sé ekki gerð hjá auglýsingafyrirtæki, án þess að not hennar séu fyrirhuguð, og sé byggt á því, að um leið og upptaka sé gerð með vitneskju og heimild listflytjanda, sé þar með framseldur réttur til notkunar upptökunnar; enda fái listflytjandi greitt fyrir vinnu sína við upplestur.  Í raun hafi mál þetta því ekkert með höfundalög nr. 73/1972 að gera, heldur einungis það atriði, hvort komizt hafi á samningur um endurgjald fyrir þessa vinnu.  Slíkt geti ekki haft áhrif til ákvörðunar á því, hvort framsal hafi átt sér stað eða ekki, eða hvort um sé að ræða brot á rétti listflytjanda.  Byggt sé á, að ágreiningur milli stefnanda og meðstefnda um fjárhæð endurgjalds fyrir upplestur og notkun þess upplesturs, hafi ekki með meintan listflytjandarétt hans að gera, og geti stefnandi ekki beint kröfum að stefnda, Flugleiðum hf., á þeim grundvelli, að ekki hafi samizt um þóknun fyrir meintan listflutning.

         Stefndi mótmæli því, að stefnandi geti beint að honum kröfum á þeim grundvelli, að hann beri sönnunarbyrði um framsal til hans á afnotarétti að meintum listflutningi, eða að stefndi eigi að bera sönnunarbyrði um slík atriði.  Mál þetta sé skaðabótamál, og sé óumdeilanlegt, að samkvæmt íslenzkum rétti beri stefnandi sönnunarbyrði á meintu broti, sem og meintu tjóni.  Stefnandi geti ekki velt sönnunarbyrði um heimild til notkunar yfir á stefnda, þegar um skaðábótamál sé að ræða.

         Þá byggi stefndi á því, að í raun hafi samizt milli meðstefnda, Saga Film hf., og stefnanda um upplestur stefnanda og notkun hans, sem og um þóknun vegna þessa. Þannig hafi stefnandi komið þann 15. janúar 2000 á starfstöð meðstefnda sérstaklega til að lesa inn á hljóðupptöku, og hafi honum verið fullkunnugt, að ætlunin væri að nota upplestur hans í auglýsingu, sem birt yrði erlendis.  Stefnanda hafi hlotið að vera ljóst, að auglýsingin væri ætluð fyrir erlenda markaði, enda hafi upplesturinn verið á ensku.  Þá hafi hann samið við meðstefnda, Saga Film hf., um tiltekna þóknun, sem skyldi standa, óháð því hvort upplesturinn yrði í raun notaður í endanlegri auglýsingu eða ekki.  Stefndi mótmæli öllum fullyrðingum stefnanda um, að hann hafi verið staddur í öðrum erindagjörðum á starfstöð meðstefnda, Saga Film hf., en til að taka upp upplestur hans fyrir not í téða auglýsingu, eða að atvik, þegar að upptöku og samningsgerð við stefnanda hafi verið staðið, séu með nokkrum öðrum hætti en meðstefndi, Saga Film hf., hafi lýst.  Fyrir liggi bindandi yfirlýsing af hálfu stefnanda á bls. 2 í stefnu, 2. til 4. línu talið ofanfrá, að venja hafi skapazt milli stefnanda og meðstefnda, Saga Film hf., að staðið væri að viðskiptum þeirra með þeim hætti, sem meðstefndi, Saga Film hf., haldi fram, að samizt hafi um í þessu máli.  Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að víkja hafi átt frá þessu fyrirkomulagi í þetta skipti.  Þá megi ljóst vera, að venja hafi skapazt um eingreiðslu fyrir upplestur í auglýsingar hjá meðstefnda, Saga Film hf., óháð birtingarfjölda, auk þess sem stefnanda hafi mátt vera ljóst, að upplestur á ensku fyrir auglýsingafyrirtæki yrði notaður í auglýsingu fyrir erlend markaðssvæði.  Stefndi byggir ennfremur á, að hugsanlegur ágreiningur um endurgjald geti ekki haft áhrif í þá átt, að um brot gegn listflytjandarétti sé að ræða, sem sé grundvallarforsenda stefnanda fyrir því að sækja bætur úr hendi stefnda, Flugleiða hf.

7. Ekkert tjón hafi orðið.

Meðstefndi, Saga Film hf., hafi þegar greitt stefnanda umsamda og sanngjarna þóknun fyrir vinnu hans og notkun á upplestri hans í téðri auglýsingu.  Hafi stefnandi því ekki orðið fyrir neinu tjóni.

         Stefndi mótmæli því, að um umfangsmikið verk sé að ræða, enda sé ekki um sérstaklega langa auglýsingu að ræða.  Um sé að ræða einfaldan upplestur á 15 orðum í auglýsingu, sem í heild sinni sé 30 sekúndur að lengd, sem eðli málsins samkvæmt geti ekki talizt vera "umfangsmikið" verk.  Ekkert hamli því, að samið sé um eingreiðslu vegna upplesturs fyrir auglýsingu, óháð birtingarstað eða birtingarfjölda, eins og gert hafi verið í þessu tilviki, og sé slíkt viðskiptavenja í starfsemi meðstefnda, Saga Film hf.  Það, hversu miklum fjárhæðum stefndi, Flugleiðir hf., hafi kosið að ráðstafa í kaup á birtingum í erlendri sjónvarpsstöð, geti ekki haft áhrif til hækkunar á endurgjaldi til stefnanda.  Þá hafi stefnanda mátt vera ljóst, að um væri að ræða auglýsingu fyrir erlendan markað, enda um upplestur á ensku að ræða.

         Því sé sérstaklega mótmælt, að meint uppgötvun stefnanda á notkun á upplestri hans hafi verið til þess fallin að valda honum miska, eða atriði sem þessi hafi nokkur áhrif á ákvörðun um miskabætur samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972.  Sama gildi um greiðslu þóknunar meðstefnda, Saga Film hf., til stefnanda, og önnur atvik málsins.

8. Önnur atriði.

Stefndi mótmæli því, að stefnandi geti gert kröfur á hendur honum á grundvelli samnings SÍA og FÍL. Í fyrsta lagi sé meðstefndi, Saga Film hf., ekki meðlimur í SÍA og hafi enga aðild að samningi þessara aðila, og því hafi téður samningur enga þýðingu í þessu máli.  Þá sé því í öðru lagi mótmælt, að ekki sé unnt að semja á annan veg en kveðið sé á um í þeim samningi.  Í þriðja lagi sé því mótmælt, að farið hafi verið gegn þeim samningi í þessu máli.  Aukinheldur geti slíkt ekki haft í för með sér, að stefndi, Flugleiðir hf., beri ábyrgð gagnvart stefnanda, enda ekkert samningssamband milli hans og stefnanda, auk þess sem stefndi hafi mátt treysta því, að rétt væri staðið að málum af hálfu meðstefnda, Saga Film hf.

Varakrafa.

Verði ekki fallizt á sýknukröfu í málinu, byggi stefndi, Flugleiðir hf., á því, að fjárhæð tjóns stefnanda sé ósannað.  Fjárhæðir í kröfugerð séu í raun úr lausu lofti gripnar og úr hófi.  Því sé sérstaklega mótmælt, að viðurkennt sé af dómstólum að dæma helmingi hærri fjárhæð í bætur fyrir fjártjón, en sem nemi fjártjóni.  Þá liggi fyrir bindandi yfirlýsing í stefnu á bls. 4, að hér sé krafizt helmingi hærri bóta fyrir fjártjón, en nemur meintu raunverulegu fjártjóni, og beri þegar af þeirri ástæðu að lækka kröfur vegna fjártjóns um helming.  Til áréttingar skuli tekið fram, að jafnvel þótt það yrði gert, telji stefndi engu að síður, að bæði krafa um bætur vegna fjártjóns og fyrir miska séu langt umfram það, sem sanngjarnt megi telja.  Þá hafi stefnandi þegar fengið greidda sanngjarna þóknun fyrir vinnu sína, í samræmi við venju milli stefnanda og meðstefnda, Saga Film hf., og beri að taka tillit til þess.

         Enn fremur séu kröfufjárhæðir langt frá því að vera í samræmi við þær bætur, sem dæmdar hafi verið fram að þessu vegna brots á réttindum þeim, sem höfundalög nr. 73/1972 mæli fyrir um, og beri því þegar af þeirri ástæðu að lækka dómkröfur stórlega.

         Varakrafa varði enn fremur upphafsdag dráttarvaxta, þ.e. að sá dagur skuli vera við dómsuppsögu, enda hafi stefnandi ekki áður sýnt fram á tjón sitt, þannig að bindi stefnda.  Jafnvel þótt ekki yrði fallizt á að setja upphafsdag dráttarvaxta við dómsuppsögu, sé upphafsdegi dráttarvaxta, eins og hann sé ákveðinn í stefnu, mótmælt sem röngum, enda hafi engar kröfur verið gerðar á hendur stefnda fyrr en 29. júní 2001.  Upphafsdagur dráttarvaxta geti því í fyrsta lagi orðið 29. júlí 2001.

         Stefndi kveðst byggja mál sitt á 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, almennum reglum skaðabótaréttarins, þ.m.t. sakarreglu, ákvæðum höfundalaga nr. 72/1973, meginreglum samningaréttarins og meginreglum kröfuréttar.  Vegna dráttarvaxta sé vísað til vaxtalaga nr. 25/1987 og til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. sérstaklega ákvæði 2. málsl. 9. gr. laganna.  Til stuðnings kröfum um málskostnað vísist til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum.  Enn fremur vitnin, Jón Bjarni Guðmundsson, framleiðandi hjá Saga Film hf., Lárus Halldórsson, markaðsstjóri hjá Saga Film hf., og Nicholas Anthony Cathcart-Jones, hljóðmaður hjá Saga Film hf.

         Kröfu sína á hendur stefnda, Saga Film hf., byggir stefnandi á því, að hann hafi verið beðinn um að lesa inn umræddan texta til prufu, þegar hann var staddur á Saga Film í öðrum erindagjörðum, og hafi upplesturinn verið notaður heimildarlaust. Byggir stefnandi á því, að hann hafi ekki gefið út reikning fyrir verkið, svo sem hann geri alltaf, og styðji það fullyrðingar hans um, að um prufuinnlestur hafi verið að ræða, og hvorki hafi verið samið um notkun hans né greiðslu fyrir.

         Stefndi, Saga Film hf., heldur því fram, að stefnandi hafi verið boðaður sérstaklega til upplestursins á laugardegi, og hafi verið samið við hann um greiðslu við  það tækifæri.

         Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi m.a., að hann hefði verið staddur í húsakynnum Saga Film hf. í erindagjörðum, sem hann gat ekki gert grein fyrir, einhvern tímann í janúar 2001, þegar einhver starfsmaður stefnda, sem hann gat ekki gert grein fyrir hver var, bað hann um að koma í prufukeyrslu á ensku á auglýsingu frá Flugleiðum.  Hann kvaðst ekki minnast þess, að myndin hefði verið sýnd um leið og hann las inn textann, en sérstaklega aðspurður, vildi hann ekki útiloka það.  Hann taldi upptökuna hafa tekið um 5 mínútur.  Hann bar ýmist, að hann vissi ekki til þess, að raddprufa væri notuð í auglýsingu, þótt hún tækist vel, en jafnframt bar hann, að ákvæði stefndi að nota raddprufu, sem tekizt hefði vel, væri ekki haft samband við stefnanda sérstaklega, heldur greitt beint inn á reikningsnúmer hans, hefði hann ekki skrifað reikning.  Hann kvað yfirleitt ekki gerða skriflega samninga, en í þessu tilviki hefði honum fundizt slíkt eðlilegt.  Munurinn á þessu tilfelli og öðrum tilfellum væri sá, að þessi auglýsing væri margra milljóna króna virði, og það skipti máli varðandi greiðsluna.  Sérstaklega aðspurður, hvort honum fyndist hann hefði átt að fá hærra endurgjald fyrir þennan upplestur vegna þess, hversu miklum fjármunum Flugleiðir hefðu ætlað að eyða í þessa auglýsingaherferð, svaraði hann því játandi og kvað annað endurgjald eiga að vera, sé auglýsing birt í erlendum sjónvarpsstöðvum en íslenzkum.

         Vitnunum, Jóni Bjarna Guðmundssyni, Lárusi Halldórssyni og Nicholas Anthony Cathcart-Jones, bar saman um, að stefnandi hefði sérstaklega verið boðaður í upptöku auglýsingar á laugardegi, en útilokað væri, að hann hefði verið staddur fyrir tilviljun í húsinu þennan dag, þar sem húsið væri læst og engin starfsemi í bókhaldi, sem skýrt gæti veru hans þar.  Þá sýnir yfirlit, gert eftir verkseðlum starfsmanna stefnda, Saga Film hf., á dskj. nr. 23, að unnið hafi verið við auglýsinguna laugardaginn 15. janúar.  Er ekkert að finna á því yfirliti, sem tengir stefnanda við önnur verk þann daginn, sem skýrt gæti veru hans í staðnum.  Þar sem minni stefnanda um tildrög upptökunnar er svo óljóst, en framburður vitnanna staðfastur og trúverðugur og á jafnframt stoð í framlögðu yfirliti á dskj. nr. 23, verður að leggja hann til grundvallar um aðdraganda þess, að stefnandi var fenginn til að lesa inn umdeilda auglýsingu.

         Samkvæmt framburði framangreindra vitna er sá munur á raddprufu og lestri inn á auglýsingu sá, að við raddprufu er texti eingöngu lesinn inn, en auglýsingin ekki sýnd jafnframt á sjónvarpsskjá, og kom fram hjá vitninu, Nicholas Anthony, að ekki sé alltaf lesinn endanlegur texti við raddprufu.  Að sögn vitnisins, Jóns Bjarna, er raddprufa aldrei notuð í auglýsingu, raddprufu er ekki leikstýrt og ekki lögð í hana sama vinna og upplestur.  Að sögn vitnisins, Nicholasar Anthonys, er ekki venja að kalla menn inn til raddprufu á laugardegi, og hefur ekkert komið fram, sem styður þá fullyrðingu stefnanda.  Vitnin báru öll, að við umdeildan upplestur hefði myndin verið sýnd jafnóðum og stefnandi las inn textann, svo sem gert sé við lestur inn á auglýsingu.  Töldu vitnin, að upptakan hefði tekið um 15 mínútur, og hefði verið tekin 5-7 sinnum.

         Það kom fram í framburði vitnisins, Jóns Bjarna, að auk stefnanda hefði erlendur maður, Marteinn Regal, jafnframt lesið inn textann.  Þetta væri ekki hið sama og prufulestur og væri mjög algengt.  Hann hefði sagt stefnanda, að kúnninn ætti eftir að sjá auglýsinguna með upplestri hans og gæti hugsanlega hafnað honum, en hann hafi jafnframt bætt við, að hann ætti ekki von á því að stefnanda yrði hafnað, en færi svo, hafi hann samt viljað bjóða honum laun fyrir ómakið, þannig að þeir gætu sætzt á tvenns konar greiðslu.  Stefnandi hefði hafnað því og sagzt taka kr. 35.000 fyrir að lesa inn á auglýsinguna.  Aðspurður um hinn tvöfalda taxta svaraði vitnið því til, að alltaf sé greitt fyrir upplestur, sem hafnað sé, sendi þulur inn reikning, en í 90% tilvika rukki þulir ekki fyrir þannig upplestur.  Með vísan til þessa framburðar vitnisins þykir mega líta svo á, að um einhvers konar prufulestur hafi verið að ræða, þar sem tveir þulir lásu inn sama texta, og kaupanda auglýsingarinnar var gefinn kostur á að velja milli þeirra.  Hins vegar kom jafnframt skýrt fram, að fyrir slíkan lestur er greitt samkvæmt reikningi, enda auglýsingin í endanlegri gerð.  Stefnandi sendi hins vegar aldrei inn reikning.

         Svo sem fyrr er rakið telst upplýst, að stefnandi hafi verið sérstaklega til kvaddur til að lesa inn á auglýsingu laugardaginn 15. janúar.  Honum var kunnugt um það í upphafi, að auglýsingin var fyrir Flugleiðir hf., sbr. framburð hans fyrir dómi, og enn fremur að hún skyldi eingöngu notuð fyrir erlendan markað.  Engu að síður gerði hann engan fyrirvara um hærri greiðslur fyrir vikið en venja var til.  Stefnandi, sem var vanur verktaki hjá Saga Film hf., getur ekki borið fyrir sig eftir á, að gera hefði átt sérstakan samning um greiðslu vegna umfangs auglýsingarinnar erlendis og kostnað kaupandans, Flugleiða hf., við birtingu hennar.  Þá gerði stefnandi engan fyrirvara um sérstakt endurgjald vegna birtingar á erlendri sjónvarpsstöð.  Ekki er fallizt á, að auglýsingin hafi verið notuð í heimildarleysi, þrátt fyrir að greiðsla hefði ekki borizt fyrir hana, með því að stefnandi lagði aldrei fram reikning til stefnda, Saga Film hf., svo sem honum bar að gera sem verktaka og sem var viðtekin venja í samskiptum hans við stefnda.  Stefnandi bar sjálfur fyrir dómi, að hann hefði almennt ekki grennslast sérstaklega fyrir um, hvort auglýsing væri notuð, sem hann hefði lesið inn á, og ekki hefði verið venja, að tilkynna honum sérstaklega um það.  Hann skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði reiknað með því, þegar hann las inn auglýsinguna, að hún yrði hugsanlega notuð.  Er því ósannað, að atvikum hafi verið háttað með öðrum hætti við gerð umdeildrar auglýsingar en endranær, þegar stefnandi tók að sér verk fyrir stefnda.

         Stefnandi hefur ekki sýnt fram á, að honum hafi borið hærri fjárhæð fyrir auglýsinguna, en þegar hefur verið greidd, kr. 35.000, ef litið er til greiðslna fyrir sambærilega vinnu hans, sbr. dskj. nr. 15-19 og með vísan til framburðar hans fyrir dómi þar að lútandi.  Að öllu þessu virtu ber að sýkna stefnda, Saga Film hf., af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

         Krafa stefnanda á hendur stefnda, Flugleiðum hf., er á því byggð, að framsal höfundarréttar og umfang þess framsals til þessa stefnda sé ósannað.

         Stefnanda var ljóst, að auglýsingin var unnin fyrir Flugleiðir hf., svo sem hann bar sjálfur fyrir dómi.  Stefnandi gerði engan fyrirvara um notkun þess fyrirtækis á auglýsingunni eða um meintan höfundarrétt sinn.  Ber því þegar af þeim sökum að sýkna þennan stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. 

         Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilegur til handa hvorum um sig kr. 150.000.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Saga Film hf. og Flugleiðir hf., skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Rúriks Haraldssonar, í máli  þessu. 

         Stefnandi greiði stefndu, hvorum um sig, kr. 150.000 í málskostnað.