Hæstiréttur íslands
Mál nr. 91/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Aðild
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 15. mars 2002. |
|
Nr. 91/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi) gegn X (Jón E. Jakobsson hdl.) |
Kærumál. Ákæra. Aðild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Héraðsdómur vísaði frá máli ákæruvaldsins gegn fyrirsvarsmanni E ehf. fyrir brot á 1. mgr. 4. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 133/1994 um atvinnuréttindi útlendinga, á þeim grundvelli að málið hefði átt að höfða á hendur félaginu en ekki fyrirsvarsmanninum. Hæstiréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi með vísan til þess að 15. gr. áðurnefndra laga hefði ekki að geyma heimild til að gera lögaðila fésekt, sbr. 19. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 140/1998, en jafnvel þótt hún væri fyrir hendi myndi hún ekki breyta því að sækja mætti fyrirsvarsmanninn til saka.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. febrúar 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðila með ákæru 27. nóvember 2001, þar sem varnaraðila voru gefin að sök brot gegn lögum nr. 133/1994 um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa á tímabilinu 30. ágúst til 28. október 2001, sem fyrirsvarsmaður E ehf., ráðið til sín níu nafngreinda útlendinga til starfa við byggingarvinnu, þrátt fyrir að enginn þeirra hafi haft atvinnuréttindi hér á landi. Var þessi háttsemin talin varða við 1. mgr. 4. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 133/1994. Með hinum kærða úrskurði var málinu sem áður segir vísað frá héraðsdómi. Var það gert á þeim grundvelli að sóknaraðila hafi borið að höfða málið gegn þeim lögaðila, sem byggt væri á að hafi haft umrædda útlendinga í vinnu, en ekki varnaraðila.
Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 133/1994 er mælt fyrir um að hverjum manni, félagi eða stofnun, sem reki atvinnu eða starfræki fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, sé óheimilt að ráða útlending til starfa, hvort heldur um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni án atvinnuleyfis. Skuli slíkt leyfi liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Í 15. gr. er síðan kveðið á um að brot gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim varði þann sektum, sem hafi útlending í vinnu án leyfis, svo og útlending, sem starfi án leyfis. Samkvæmt 19. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 140/1998, verður lögaðila gerð fésekt þegar lög mæla svo fyrir. Ákvæði 15. gr. laga nr. 133/1994 hafa ekki að geyma slíka heimild, en jafnvel þótt hún væri fyrir hendi myndi hún ekki breyta því að sækja mætti varnaraðila til saka. Verður málinu því ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að það hafi átt að höfða á hendur þeim lögaðila, sem hafi haft umrædda útlendinga í vinnu án leyfis. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. febrúar 2002.
Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 25. janúar sl., er höfðað með ákæru Sýslumannsins í Kópavogi útgefinni 27. nóvember s.l. gegn X „fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa á tímabilinu 30. ágúst 2001 til 28. október 2001, sem fyrirsvarsmaður E ehf. ráðið í vinnu til sín 9 útlendinga þá:
[...]
alla með ríkisfang í Litháen, til starfa við byggingavinnu að [...], þar sem þeir störfuðu til 7. nóvember s.l., þrátt fyrir að enginn þeirra væri með atvinnuréttindi á Íslandi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 4. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 133 frá 1994, um atvinnuréttindi útlendinga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að ríkissjóði verði gert að allan sakarkostnað og þar með talda þóknun verjanda við rannsókn og flutning málsins. Til vara krefst ákærði þess að honum verði dæmd svo mild refsing sem frekast er kostur að lögum og að sakarkostnaði verði þá skipt. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna.
Við munnlegan málflutning reifaði verjandi ákærða sjónarmið sem lutu að því að ákæra yrði ekki gefin út á hendur ákærða að lögum, vegna þeirrar háttsemi sem lýst sé í ákæru. Komi það fram í ákæruskjali að krafist sé sakfellingar fyrir háttsemi sem ákærði eigi að hafa viðhaft sem fyrirsvarsmaður E ehf. Ekki sé fyrir að fara refsiheimild í lögum nr. 133/1994 á hendur starfsmönnum eða eigendum félaga persónulega. Gerði verjandi ákærða ekki kröfu um frávísun vegna þessa en krafðist sýknu meðal annars á þessum grundvelli, en vakti jafnframt athygli á að þessir annmarkar kynnu að eiga að leiða til frávísunar málsins án kröfu. Ekki komu fram við flutning málsins mótrök af hálfu ákæruvaldsins við þessum sjónarmiðum verjanda ákærða.
Í 4. gr. laga nr. 133/1994 um atvinnuréttindi útlendinga segir að óheimilt sé hverjum manni, félagi eða stofnun, sem reki atvinnu eða starfræki fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, að ráða útlending til starfa, hvort heldur um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytji til landsins í því skyni án atvinnuleyfis. Í 15. gr. sömu laga segir að brot gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim varði þann sektum er hafi útlending í vinnu án leyfis, svo og útlending er starfar án leyfis. Verknaðarlýsing 4. gr. laganna er því ótvíræð um það atriði að manni, félagi eða stofnun er óheimilt að ráða til starfa útlending sem ekki hefur tilskilin leyfi til að starfa hér á landi. Að mati dómsins er það einnig ótvírætt að refsiheimild sú sem fram kemur í 15. gr. laganna nær til þess aðila sem hefur viðkomandi útlending í vinnu. Þegar orðalagið að „það varði þann sektum er hafi útlending í vinnu án leyfis“ er skýrt kemur vart annað til greina en að miða við að sá sem hafi einhvern í vinnu sé vinnuveitandi útlendingsins í skilningi vinnuréttar. Í máli þessu er hið meinta vinnusamband á milli hinna níu nafngreindu litháísku ríkisborgara og E ehf.. Kemur þetta fram í ákæruskjali þar sem krafist er refsingar á hendur ákærða fyrir þá háttsemi að ráða útlendinga í vinnu án leyfis og er hann í ákæruskjali sagður hafa gert þetta sem fyrirsvarsmaður E ehf. Þegar virt er orðalag ákæruskjals sem og það sem fram kemur í öðrum gögnum málsins verður að telja vafalaust að ákæruvaldið byggi á því að vinnuréttarsamband hafi verið á milli hinna níu nafngreindu litháísku ríkisborgara sem taldir eru upp í ákæru og E ehf. Með hliðsjón af þeirri meginreglu refsiréttar að refsiákvæði skuli vera skýr og afdráttarlaus verður refsiheimild sú sem fram kemur í 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, og áður er vitnað til, ekki að mati dómsins skilin víðari skilningi en orð hennar gefa tilefni til. Því hefur ekki verið haldið fram í málinu að vinnuréttarsamband hafi verið til staðar á milli ákærða og hinna erlendu manna og verður honum því ekki refsað á grundvelli 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Hefði ákæruvaldinu því borið að gefa ákæru í máli þessu út á hendur þeim lögaðila sem byggt er á að hafi haft umrædda útlendinga í vinnu í andsöðu við ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 133/1994.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat dómsins að ákæru í máli þessu sé ranglega beint að ákærða og því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi ex officio sbr. 4. mgr. 122. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 með síðari breytingum. Þar sem verjandi ákærða reifaði við aðalmeðferð málsins sjónarmið varðandi þetta atriði án þess að fram kæmu mótröksemdir af hálfu ákæruvaldsins telur dómurinn fullnægt skilyrðum lokamálsliðar 4. mgr. 122. gr. laga um meðferð opinberra mála og því ekki þörf á að endurupptaka málið og gefa sakflytjendum færi á að tjá sig sérstaklega um frávísun.
Í ljósi þessarar niðurstöðu verður sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Einars Jakobssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 200.000 og er þá tekið tillit bæði til starfa hans við flutning málsins og á rannsóknarstigi. Er við ákvörðun málsvarnarlauna sérstaklega horft til þess að störf verjanda urðu umfangsmeiri en þau ella hefðu orðið, sökum þess hvernig málatilbúnaði ákæruvaldsins var háttað.
Þeir níu litháísku ríkisborgarar sem ákærða er gefið að sök að hafa haft í vinnu voru teknir einu sinni í yfirheyrslu hjá lögreglu en komu ekki fyrir dóminn. Voru þeir farnir úr landi þegar mál þetta var þingfest. Af gögnum þeim sem ákæruvaldið lagði fram er erfitt að ráða hvenær hver og einn þessara manna á að hafa hafið störf hjá E ehf. og ákæruvaldið gerði enga tilraun í málflutningi sínum til að fjalla um þátt hvers þeirra fyrir sig á grundvelli þeirra lögregluskýrslna sem þó lágu fyrir. Verður þó ekki annað séð en full ástæða hefði verið til að gera þetta þar sem framburður þessarra manna fyrir lögreglu er ekki á einn veg og óljós um mörg atriði.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi Sýslumannsins í Kópavogi fór með mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin másvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Einars Jakobssonar hdl., 200.000 krónur.