Hæstiréttur íslands

Mál nr. 312/2002


Lykilorð

  • Námaréttindi
  • Landskipti
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. mars 2003.

Nr. 312/2002.

Þorlákur Friðriksson

Jóhanna Ármann Guðjónsdóttir

Júlíus Þórðarson og

Jóna Ármann Guðjónsdóttir

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

gegn

Guðmundi Birki Jónssyni og

Jóni Bjarnasyni

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

 

Námaréttindi. Landskipti. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

Eigendur jarðanna SI, SII og SIII deildu um hvort námaréttindum hafi verið skipt með fjórum landskiptagerðum um jörðina S samkvæmt landskiptalögum nr. 46/1941 eða hvort réttindin væru í óskiptri sameign þeirra. Hafði landskiptagerð sú, sem fyrst var gerð, glatast og ekki vikið að skipt­ingu réttindanna í síðari gerðum. Samkvæmt því var ósannað að allir eigendur hafi samþykkt slík skipti. Var heldur ekki sýnt fram á að þau hafi verið svo hagkvæm að ekki væri á neinn hallað, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þá var óumdeilt að arði af malartöku úr landi jarðanna þriggja hafði á undanförnum áratugum að mestu verið skipt þannig að eigendur SI fengu helming en eigendur SII og SIII hvor um sig einn fjórða. Var því fallist á kröfu eiganda jarðarinnar SI um að eigendum hinna jarðanna tveggja væri skylt að greiða honum helming endurgjalds fyrir malar­efni úr óskiptum námaréttindum jarðanna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Árni Kolbeinsson og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. júlí 2002. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að hún verði lækkuð í 933.720 krónur. Þá krefjast þau að viðurkennt verði „að námarétti í landi Skorrastaðarjarða sé og hafi verið skipt eftir landamerkjum jarðanna, þannig að hver landeigenda hafi óskoraðan námarétt á sínu landi þar sem landi hefur verið skipt og þar með að námaréttur sé ekki sameiginlegur á þeim hluta jarðanna sem skipt hefur verið.“ Enn fremur krefjast þau málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu kefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

 

I.

Stefndu, sem eru eigendur jarðarinnar Skorrastaðar I í Fjarðabyggð, höfðuðu mál þetta fyrir héraðsdómi 18. júní 2001 og kröfðust þess að áfrýjendur, sem eru eigendur jarðanna Skorrastaðar II og Skorrastaðar III yrðu dæmdir óskipt til að greiða sér 1.162.500 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Reistu þeir kröfu sína á því að áfrýjendur hefðu með samningi 25. maí 2000 selt Jóni Hlíðdal ehf. 15.500 rúmmetra af malarefni á 150 krónur hvern rúmmetra úr óskiptum námaréttindum Skorrastaðarjarðanna þriggja. Þar sem undir Skorrastað I félli helmingur af óskiptum réttindum jarðanna ættu þeir kröfu til helmings endurgjalds samkvæmt framangreindum samningi. Var málið þingfest 19. júní 2001.

 Áfrýjendur kröfðust sýknu af kröfu stefndu og reistu sýknukröfu sína á því að umræddum námaréttindum hafi verið skipt milli Skorrastaðar I annars vegar og Skorrastaðaðar II og Skorrastaðar III hins vegar eftir landamerkjum jarðanna og hafi umræddur samningur varðað töku malar úr þeim hluta námunnar, sem í hlut síðasttöldu jarðanna hafi komið. Jafnframt höfðuðu þau gagnsök með stefnu 18. september 2001, sem þingfest var sama dag, og kröfðust þess „að með dómi verði viðurkennt að námarétti í landi Skorrastaðarjarða sé og hafi verið skipt eftir landamerkjum jarðanna, þannig að hver landeigenda hafi óskoraðan námarétt á sínu landi þar sem landi hefur verið skipt og þar með að námaréttur sé ekki sameiginlegur á þeim hluta jarðanna sem skipt hefur verið.“ Þegar gagnsök var höfðuð var löngu liðinn sá mánaðarfrestur frá þingfestingu aðalsakar, sem til þess er veittur í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður gagnsök því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Sýknukrafa áfrýjenda í aðalsök er reist á sömu málsástæðu og verður afstaða til hennar tekin við úrlausn um fjárkröfu stefndu.

II.

Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er nánar rakið sömdu forráðamenn jarðanna þriggja 1976 sameiginlega við Steypusöluna hf. um einkarétt til malarnáms á eyrum Norðfjarðarár við Skorrastaðarjarðir. Af yfirlýsingu Gylfa Gunnarssonar, þáverandi forsvarsmanns Steypusölunnar hf., svo og skýrslum stefnda Jóns Bjarnasonar og vitnisins Þórðar Júlíussonar fyrir héraðsdómi verður ráðið að Steypusalan hf. hafi stundað þar malartekju um alllangt árabil. Var endurgjaldi fyrir efnistökuna skipt þannig að eigendur Skorrastaðar I fengu helming en eigendur Skorrastaðar II og Skorrastaðar III hvor um sig einn fjórða. Af gögnum málsins er ljóst að endurgjaldi Vegagerðarinnar fyrir malartöku á árunum 1981 og 1984 var skipt með sama hætti. Þá er í héraðsdómi rakið að endurgjaldi Vegagerðarinnar fyrir efnistöku samkvæmt samningi 1992 við forsvarsmenn Skorrastaðar II og Skorrastaðar III var í reynd skipt milli jarðanna þriggja í sömu hlutföllum enda þótt áfrýjendur væru ekki sáttir við þá skipan. Þó að óljósar upplýsingar liggi fyrir um malartöku annarra úr landi jarðanna og ljóst sé að aðilar hafi ekki alltaf verið sammála um malarnámið er óumdeilt að í raun hafi arði af malartöku úr landi Skorrastaðarjarðanna þriggja á undanförnum áratugum að mestu leyti verið skipt með aðilum í framangreindum hlutföllum.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að námaréttindum í landi Skorrastaðarjarðanna hafi ekki verið skipt staðbundinni skiptingu og séu þau því í óskiptri sameign jarðanna þriggja þannig að helmingur fylgi jörðinni Skorrastað I en fjórðungur jörðunum Skorrastað II og Skorrastað III hvorri um sig. Áfrýjendum ber samkvæmt því að greiða stefndu helming endurgjalds vegna sölu á malarefni samkvæmt framangreindum samningi þeirra við Jón Hlíðdal ehf. Fyrir Hæstarétti krefjast áfrýjendur þess til vara að krafa stefndu verið lækkuð um 228.780 krónur, en það samsvari greiddum virðisaukaskatti af seldu efni samkvæmt samningnum. Verður að fallast á það með stefndu að þessi krafa sé of seint fram komin og verður henni hafnað þegar af þeirri ástæðu. Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur um annað en gagnsök

Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnsök er vísað frá héraðsdómi.

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en gagnsök.

Áfrýjendur, Þorlákur Friðriksson, Jóhanna Ármann Guðjónsdóttir, Júlíus Þórðarson og Jóna Ármann Guðjónsdóttir, greiði óskipt stefndu, Guðmundi Birki Jónssyni og Jóni Bjarnasyni, samtals 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 9. apríl 2001.

Mál þetta hafa Guðmundur Birkir Jónsson, kt. 310760-2509 og Jón Bjarnason, kt. 141025-7919, báðir til heimilis að Skorrastað I, Fjarðabyggð, höfðað með stefnu útgefinni 11. júní 2001 fyrir Héraðsdómi Austurlands gegn Þorláki Friðrikssyni og Jóhönnu Ármann Guðjónsdóttur, báðum til heimilis að Skorrastað II, Fjarðabyggð og Júlíusi Þórðarsyni og Jónu Ármann Guðjónsdóttur, báðum til heimilis að Skorrastað III, Fjarðabyggð.

Var málið þingfest á Egilsstöðum þann 19. júní 2001.

Með gagnstefnu, útgefinn 18. september 2001 höfðuðu Þorlákur Friðriksson, Jóhann Ármann Guðjónsdóttir, Júlíus Þórðarson og Jóna Ármann Guðjónsdóttir gagnsök gegn þeim Guðmundi Birki Jónssyni og Jóni Bjarnasyni.

Var gagnsökin þingfest þann 18. september 2001 á Egilstöðum.

Málin voru dómtekin að loknum munnlegum málflutningi 9. apríl 2002.

Dómkröfur stefnenda í aðalsök eru að stefndu verði dæmd til að greiða in solidum kr. 1.162.500 að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 2000 til greiðsludags.

Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu eftir mati dómsins, að meðtöldum áhrifum 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Stefndu í aðalsök krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda í máli þessu. Þá verði stefnendum gert að greiða stefndu in solidum málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.

Í gagnsök gera gagnstefnendur þær dómkröfur, að með dómi verði viðurkennt að námarétti í landi Skorrastaðajarða sé og hafi verið skipt eftir landamerkjum jarðanna, þannig  að hver landeigenda hafi óskoraðan námarétt á sínu landi þar sem landi hafi verið skipt og þar með að námaréttur sé ekki sameiginlegur á þeim hluta jarðanna sem skipt hefur verið.

Í gagnsök gera gagnstefndu þær dómkröfur að þeir verði sýknaðir af kröfu gagnstefnenda um viðurkenningu á því að námarétti í landi Skorrastaðajarða sé og hafi verið skipt eftir landamerkjum jarðanna, þannig að hver landeigandi hafi óskoraðan námarétt á sínu landi þar sem landi hefur verið skipt og þar með að námaréttur sé ekki sameiginlegur á þeim hluta jarðanna sem skipt hefur verið. 

 Þá krefjast gagnstefndu þess, að gagnstefnendur verði dæmdir til að greiða gagnstefndu málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins í gagnsökinni, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Málavextir.

Aðalstefnendur og gagnstefndu, í máli þessu, hér eftir nefndir stefnendur, feðgarnir Jón Bjarnason og Guðmundur Birkir Jónsson, eru sameigendur jarðarinnar Skorrastaðar I í Fjarðabyggð, áður Norðfjarðarhreppi. Aðalstefndu og gagnstefnendur, hér eftir nefnd stefndu, Þorlákur Friðriksson og Jóhanna Ármann Guðjónsdóttir eru eigendur Skorrastaðar II og Júlíus Þórðarson og Jóna Ármann Guðjónsdóttir eru eigendur Skorrastaðar III.

Jörðinni Skorrastað, sem áður var ein jörð, hefur verið skip nokkrum sinnum. Virðist sem jörðinni hafi fyrst verið skipt 1925 í tvær jarðir, Skorrastað I og II sem er ekki ágreiningur um, að skipt var til helminga. Ekki var um þessi skipti gerð landskiptagerð, heldur er um að ræða afsal Jóns Bjarnasonar til Guðjóns Ármanns fyrir helmingi jarðarinnar með helmingi þeirra landsnytja og réttindi, sem henni fylgja.

Landi jarðarinnar mun hafa verið skipt með landskiptagerð árið 1945, en sú landskiptagerð mun vera glötuð með glataðri landskiptabók Norðfjarðarsveitar frá þessum árum.

Árið 1957 var Skorrastað II skipt, þegar Guðjón Ármann afhendir dóttur sinni Jónu og eiginmanni hennar Júlíusi Þórðarsyni til eignar helminginn af eignarjörð hans Skorrastað II með gögnum og gæðum en án húsa. Tekið er fram, að undanskilið er í afhendingunni óskipt stykki, sem Skorrastaður á fyrir neðan Hof á árbökkunum. Síðan segir svo í afsali þessu, sem dagsett er 3. 12. 1957: „Hinum afsalaða jarðarhluta fylgja að hálfu öll jarðargæði, er Skorrastaður II á í óskiptu landi Skorrastaðar þ.e. einn fjórði hluti alls lands og landsnytja, er Skorrastað tilheyra, sbr. þó það, sem áður segir um stykki neðan við Hof.”

Landskiptagerðir eru síðan gerðar 2. júní 1963, 31. júlí 1978 og 8. júní 1981. Í öllum skiptagerðum þessum er skipt ræktuðu eða ræktanlegu landi með nákvæmum merkjum. Í engu þeirra skjala, sem lögð hafa verið fram í dóminum um skipti jarðarinnar, er vikið í neinu að þeim námaréttindum og hlunnindum, sem lýst er í 1. mgr. 3.gr. laga nr. 46/1941.

Óumdeilt er í málinu, að hlutföll núverandi jarða af upprunalegum landsréttindum Skorrastaðar eru: Skorrastaður I, ½, Skorrastaður II, ¼ og Skorrastaður III ¼.

Í máli þessu er deilt um réttindi til malartöku í landi Skorrastaðar.

Frammi liggur í málinu óundirritaður samningur dagsettur 11. maí 1976, þar sem Jón Bjarnason, Júlíus Þórðarson og Jóhanna Ármann, sem eru í meginmáli samningsins kallaðir án frekari aðgreiningar, eigendur Skorrastaðar, leigja Steypustöðinni hf., Neskaupstað malarnám á svonefndum Skorrastaðaeyrum á árinu 1976. Síðan segir í samningnum: „Malartekjan fer fram á sama stað og á síðasta ári á eyrunum neðan við Skorrastað, þar sem malar og þvottastöð Steypusölunnar hf. er staðsett. Greiðsla fyrir malartökuna er kr. 50 per rúmmetra miðað við útselt efni úr stöðinni. Undirritaðir lýsa því yfir að þeir muni ekki leigja öðrum aðstöðu til malartöku á þessu svæði á meðan samningur þessi er í gildi. Sama gildir um malartöku án endurgjalds.”

Í stefnu er sagt, að samningur þessi hafi verið undirritaður og hafi greiðslum frá leigutaka verið skipt jafnt á milli Skorrastaðar I annars vegar og Skorrastaðar II og Skorrastaðar III hins vegar.

Með samningi dagsettum 23. september 1992 milli Vegargerðarinnar og landeigenda á Skorrastað 2 og Skorrastað 4 um efnistöku í og við Norðfjarðará og er áætlað magn um 50 - 60.000 m3, sem tekið verði á næstu árum.

Af hálfu stefnenda var samningsgerð þessari mótmælt og krafist réttrar hlutdeildar Skorrastaða I í umsömdu endurgjaldi fyrir tekið malarefni. Leiddi þetta til þess, að af hálfu Vegargerðarinnar var greiðslunni skipt jafnt á milli Skorrastaða I annars vegar og Skorrastaða II og III hins vegar.

Stefnendur voru á árinu 1996 kærðir til lögreglu af hálfu stefndu og var krafist lögreglurannsóknar á framkvæmdum og malartöku úr landi Skorrastaðar I. Urðu ekki eftirmál af þeirri kæru.

Í maí 2000 hóf Jón Hlíðberg ehf. malartöku á Skorrastaðaeyrum. Stefnandi Jón Bjarnason kærði efnistökuna til sýslumanns og óskaði rannsóknar á því, hver hefði heimilað efnistökuna og hvort efnið væri selt.

Í rannsókninni bar sá, sem að efnistökunni stóð, fyrir sig samning gerðan 25. maí 2000 milli landeigenda Skorrastaðar II og Skorrastaðar III annars vegar og Jóns Hlíðdal ehf. á Egilsstöðum, hins vegar. Eftir samningi þessum kaupir Jón Hlíðdal ehf „malarefni úr Norðfjarðará í óskiptu landi Skorrastaðar II og Skorrastaðar III 15.500 rúmmetra á heildarverði kr. 150 hvern rúmmetra. … Ef til kemur að efniskaupi verður hindraður í að aka uppgröfnu efni úr námunni þá greiði námueigendur áfallinn kostnað hans við uppgröftinn til baka þegar og ef efnið verður selt. Verði efniskaupi fyrir öðru tjóni vegna malarnámsins þá taki hann það tjón á sig.”

Málsástæður aðalstefnenda í aðalsök og gagnstefndu í gagnsök.

Krafa stefnenda á hendur stefndu er um greiðslu á kr. 1.162.500, sem er helmingur greiðslu samkvæmt samningnum frá 25. maí 2000 (150x15.500:2=1.162.500), auk dráttarvaxta, er á því byggð, að jarðefni þ.mt. malarefni úr landi Skorrastaðar I, II og III sé í óskiptri sameign eigenda jarðanna í þeim hlutföllum, að Skorrastaður I sé helmingur heildarjarðarinnar, en Skorrastaður II og Skorrastaður III,  einn fjórði hluti hvor.

Ekkert samband hafi verið haft við stefnendur við gerð samningsins um sölu malarefnis til Jóns Hlíðdal ehf. og er á því byggt að sá samningur fái ekki staðist, þar sem ekki sé til staðar nauðsynlegt samþykki allra sameigenda þeirra verðmæta sem um ræðir. Í öllu falli sé ljóst, að stefnendum beri helmingshlutdeild í umsömdu endurgjaldi fyrir tekið efni í landi jarðanna. Stefnendur hafi þegar gert athugasemdir við framkvæmdir og efnistöku í landi Skorrastaðar eftir samningi þessum, en ákváðu að hindra ekki framkvæmdir og valda þannig tjóni hjá kaupendum malarinnar.

Hin forna jörð Skorrastaður sé í dag þrjú lögbýli. Upphafleg skipti jarðarinnar hafi farið fram 1945 og verið skráð í skiptabók fyrir Norðfjarðarhrepp í Suður-Múlasýslu. Þá hafi jörðinni verið skipt í tvær jarðir, sem báðar hafi átt jafnan rétt til lands og landsgæða. Hafi þess verið sérstaklega getið í skiptagerðinni frá 1945, að efnistaka úr landi jarðanna væri sameiginleg og jöfn milli Skorrastaðar I og II.

Í skiptagjörðum þeim, sem gerðar voru 1963, 1978 og 1981, sé ekki vikið að staðbundinni skiptingu jarðefna eða vatnsréttinda.

Eigendur jarðanna hafi að minnsta kosti einu sinni staðið sameiginlega að ráðstöfun á malarefni úr óskiptri sameign jarðanna og hafi greiðslum fyrir þá töku skiptist til helminga á milli Skorrastaðar I og Skorrastaðar II og III.

Stefnendur byggja á því, að öll jarðefni í landi Skorrastaðajarðanna þriggja séu í óskiptri sameign eigenda jarðanna, enda sé ekki gert ráð fyrir því í 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941, að við landskipti séu gerð staðbundin skipti á námaréttindum, nema skiptin séu það hagkvæm, að á engan eiganda sé hallað eða samþykki allra eigenda komi til. Hvorki hafi stefnendur né fyrri eigendur samþykkt staðbundin skipti á möl eða öðrum jarðefnum og engin tiltæk gögn eða upplýsingar bendi til annars en að jarðefni í landi Skorrastaðar séu í óskiptri sameign eigenda jarðanna þriggja.

Málsástæður aðalstefndu og gagnstefnenda í aðalsök og gagnsök.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að námaréttindi í landi Skorrastaðar séu ekki sameiginleg með öllum býlunum, heldur hafi þeim í raun verið skipt þegar árið 1945 og það síðan staðfest í síðar gerðum landskiptum, þar sem aldrei sé vikið að námarétti. Stefndu telji að sú skipting, sem á stundum hafi verið viðhöfð, að skipta arði af malartekju til helminga á milli Skorrastaðar I annars vegar og Skorrastaðar II og III hins vegar, eigi sér ekki stoð í landskiptalögum, sé byggð á misskilningi og sé andstæð hagsmunum allra landeigenda að Skorrastað.

Stefndu byggja á því, að við landskiptin 1945 og í síðari landskiptum hafi aldrei verið minnst á námur eða efnistöku úr landinu. Hefðu námur átt að vera sameiginlegar, hefði slíkt verið tekið fram sérstaklega. Því hafi í raun gilt um skiptin það ákvæði í 3. gr. landskiptalaga, að „…skiptin séu það hagkvæm, að á engan eiganda sé hallað,…”. 

Í landi Skorrastaðarjarða þar sem malarnámur eru, sé að finna geysilegt magn af möl, sem Norðfjarðará hefur borið fram í aldanna rás. Öll tún milli þjóðvegar og Norðfjarðarár í landi jarðanna, standi á þykku malarlagi. Sé að finna á landi Skorrastaðar I sem og á landi Skorrastaðar II og III meiri möl í jörðu en svo að hægt verði að fullnýta hana í fyrirsjáanlegri framtíð.

Þegar jörðinni hafi verið skipt árið 1945 hafi malarnámur almennt ekki verið taldar til hlunninda eða neins verðmætis. Hafi verið liðið langt fram yfir miðja öldina, áður en almennt var farið að greiða fyrir malartekju.

Með lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, hafi verið lögð mikil áhersla á, gildi hinnar svonefndu landeigandastefnu, sem gerir ráð fyrir, að réttur til jarðefna fylgi eignarrétti að landi og vísar sérstaklega í 3. gr. laganna, þar sem segir, að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu. Þá segir í 9. gr. laganna, að landeigandi megi ekki undanskilja eignarlandi sínu rétt til jarðefna, nema með sérstöku leyfi ráðherra.

Líta verði til þess, frá þessum sjónarmiðum, að landskiptalögin séu orðin hátt í 60 ára gömul og séu að ýmsu leyti úrelt og taki ekki mið af breyttum þjóðfélagsaðstæðum.

Sú skipan mála, sem stefnendur telji að gildi að Skorrastað, að námaréttur í landinu sé sameiginlegur, sé augljóslega andstæður hagsmunum allra landeigenda. Í landinu öllu sé ofgnótt af nýtanlegri möl og muni stefndu undir rekstri málsins leggja fram gögn þar að lútandi. Stefndu telja, að námaréttur hafi aldrei verið sameiginlegur með jörðunum, en krafa stefnenda byggist á fullyrðingum þeirra um skráningu í landskiptum frá árinu 1945, sem ekki verður héðan af sönnuð.

Niðurstaða.

Í 1. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 segir, að eftir lögum þessum geti komið til skipta eða endurskipta að nokkru eða öllu leyti heimalönd sveitajarða og afréttarlönd, sem jöfnum höndum eru notuð til vetrarbeitar, tún, sáðreitir, engi, landsnytjar aðrar og hlunnindi svo og mannvirki, sem tvö eða fleiri býli hafa eða hafa áður haft til samnota.

Engin deila er um það í máli þessu, að jörðinni Skorrastað í Norðfirði, hefur fjórum sinnum verið skipt með landskiptagjörð samkvæmt lögum þessum.

Í 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga segir, að við skiptin skuli ekki aðeins farið eftir flatarmáli lands, heldur og gæðum þess og verðmæti á hverjum stað. Eigi megi staðbundin skipti gera á námarétti, þar með talin mótak, veiði í vötnum eða sjó, selveiði og fleiri hlunnindum, nema skiptin séu það hagkvæm, að á engan eiganda sé hallað, eða samþykki allra eigenda komi til.

Í máli þessu er deilt um, hvort rétti til malarnáms á jörðinni sé skipt eftir landamerkjum þeim, sem sett hafa verið með þeim landskiptagerðum, sem gerðar hafa verið um jörðina, eða hvort réttindi þessi séu í óskiptri sameign allra eigenda jarðarinnar.

Landskiptagerð sú, sem allir aðilar eru sammála um að gerð hafi verið 1945, er glötuð og verður aðeins getum leitt að því, hvað í henni hefur staðið, eða treyst á minni þeirra, sem sáu hana áður en hún glataðist. Þó virðist mega lesa út úr landskiptagerð þeirri, sem gerð var 2. júní 1963, eitthvað um efni gerðarinnar frá 1945, en í 4. tölulið hennar segir: „Sýslumaður Suður-Múlasýslu óskaði munnlega eftir að skráð væru upp öll eldri skipti milli Skorrastaðabýla og komu engin mótmæli gegn því af hálfu fundarmanna”. Á fundi þessum voru meðal annarra, tveir af aðilum máls þessa þeir Jón Bjarnason og Júlíus Þórðarson.

Í þessari landskiptagerð frá 2. júní 1963, er, í lýsingu eldri skipta, eða þeirra skipta sem gerð voru 1963, ekki vikið orði að námaréttindum, hvorki að þeim væri skipt, eða að þau væru óskipt. Sama verður sagt um landskiptagerðir frá 1978 og 1981.

Ef ætlun landskiptanefndar hefur verið að skipta námurétti staðbundinni skiptingu með landskiptagerð, verður að gera þá kröfu, að þess hefði verið getið sérstaklega og jafnframt að uppfyllt væru skilyrði þess, að vikið skuli frá eindregnu banni við staðbundinni skiptingu í 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga. Ef slík skipti eru rökstudd með því, að þau séu svo hagkvæm, að ekki sé á neinn hallað, þurfa að liggja fyrir gögn um að svo sé í raun, eða samþykki allra eigenda ef ákvörðun væri byggð á því.

Ekkert af þessu kemur fram í landskiptagjörðum frá 1963, 1978 og 1981, og ekki hefur verið sýnt fram á, neitt af þessu hafi komið fram í landskiptagerðinni frá 1945. Þá hefur ekki verið sýnt fram á í máli þessu, að staðbundin skipti eftir landamerkjum séu það hagkvæm, að á engan eiganda sé hallað. Verður þá að hafa í huga ákvæði í 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga, að ekki skuli aðeins farið eftir flatarmáli lands, heldur og gæðum þess og verðmæti á hverjum stað. Mundi þannig ekki nægja, að sýna fram á, að nægilegt sé til af efni um alla jörðina, heldur verður að taka tillit til fleiri atriða, þar á meðal aðgengi.

Verður þá að líta svo á, að námaréttindum í landi Skorrastaðar hafi aldrei verið skipt staðbundinni skiptingu og séu þau í óskiptri sameign allra eigenda jarðanna Skorrastaðar I, að helmingi, Skorrastaðar II að einum fjórða og Skorrastaðar III að einum fjórða.

Samkvæmt þessu ber eigendum greiðsla eftir eignarhlutföllum fyrir alla möl, sem seld er úr jörðinni, hvar sem hún er tekin.

Af þessu leiðir, að aðalstefndu, Þorláki Friðrikssyni, Jóhönnu Ármann Guðjónsdóttur, Júlíusi Þórðarsyni og Jónu Ármann Guðjónsdóttur, ber að greiða in solidum aðalstefnendum Guðmundi Birki Guðjónssyni og Jóni Bjarnasyni, andvirði helmings söluverðs á möl til Jóns Hlíðdal ehf, sem óumdeilt er, að þeir hafa veitt viðtöku, eða kr. 1.162.500 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Í gagnsök skulu gagnstefndu Guðmundur Birkir Jónsson og Jón Bjarnason vera sýknir af öllum kröfum gagnstefnenda.

 Aðalstefndu og gagnstefnendur, Þorlákur Friðriksson, Jóhanna Ármann Guðjónsdóttir, Júlíus Þórðarson og Jóna Ármann Guðjónsdóttir greiði in solidum aðalstefnendum og gagnstefndu, Guðmundi Birki Jónssyni og Jóni Bjarnasyni kr. 300.000 í málskostnað.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Aðalstefndu, Þorlákur Friðriksson, Jóhanna Ármann Guðjónsdóttir, Júlíus Þórðarson og Jóna Ármann Guðjónsdóttir greiði in solidum aðalstefnendum, Guðmundi Birki Jónssyni og Jóni Bjarnasyni, kr. 1.162.500 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Í gagnsök skulu gagnstefndu, Guðmundur Birkir Jónsson og Jón Bjarnason vera sýknir af öllum kröfum gagnstefnenda í máli þessu.

Aðalstefndu og gagnstefnendur, Þorlákur Friðriksson, Jóhanna Ármann Guðjónsdóttir, Júlíus Þórðarson og Jóna Ármann Guðjónsdóttir greiði in solidum aðalstefnendum og gagnstefndu, Guðmundi Birki Jónssyni og Jóni Bjarnasyni kr. 300.000 í málskostnað.