Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-4
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Dánarbú
- Miskabætur
- Skaðabætur
- Aðildarskortur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 12. janúar 2022 leitar dánarbú Tryggva Rúnars Leifssonar leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 17. desember 2021 í máli nr. 636/2020: dánarbú Tryggva Rúnars Leifssonar gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili tekur ekki afstöðu til beiðninnar að öðru leyti en því að hann andmælir því að fallast beri á hana á þeim grunni að dómur Landsréttar sé bersýnlega rangur.
3. Með dómi Hæstaréttar 22. febrúar 1980 í máli nr. 214/1978 var Tryggvi Rúnar Leifsson sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi, brennu, nauðgun og þjófnaðarbrot. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 13 ár. Tryggvi Rúnar lést 1. maí 2009. Hinn 24. febrúar 2017 féllst endurupptökunefnd á endurupptöku málsins að hluta. Með dómi Hæstaréttar 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 var Tryggvi Rúnar sýknaður af ákæru fyrir manndráp af gáleysi. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta í febrúar 2020 og krafðist miskabóta vegna sakfellingar Tryggva Rúnars sem orðið hefði að ósekju að undangenginni óréttlátri málsmeðferð, frelsissviptingu og harðræði í gæsluvarðhaldi, afplánun og á tímabili reynslulausnar. Þá krafðist leyfisbeiðandi skaðabóta vegna atvinnumissis og annars fjárhagslegs tjóns sem hann taldi Tryggva Rúnar hafa orðið fyrir vegna málsins.
4. Með dómi Landsréttar var talið að í málinu væru ekki uppfyllt skilyrði XXXIX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 2. mgr. 18. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þannig að krafa um miskabætur gæti hafa erfst og runnið til dánarbúsins. Gagnaðili var því sýknaður af þeirri kröfu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá var talið að leyfisbeiðandi hefði ekki lagt fram nein gögn til stuðnings kröfu sinni um skaðabætur vegna atvinnumissis og annars fjártjóns. Þeirri kröfu var því vísað frá héraðsdómi sökum vanreifunar.
5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því efni telur hann viðurkennt að Tryggvi Rúnar hafi öðlast rétt til bóta með dómi Hæstaréttar í máli nr. 521/2017. Við það hafi stofnast eignarréttindi sem séu vernduð af 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Því sé mikilvægt að fá afdráttarlaust fordæmi Hæstaréttar um hvort leyfisbeiðandi geti átt aðild að málinu. Í öðru lagi byggir hann á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína í ljósi þess að þeir njóti verndar mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Loks byggir hann í þriðja lagi á því að ástæða sé til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Þannig telur hann að réttur Tryggva Rúnars til sanngjarnra bóta hafi fyrst orðið raunhæfur og virkur 27. september 2018 við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017. Með dóminum hafi stofnast afturvirkur bótaréttur og rétt sé að leyfisbeiðandi eigi sem dánarbú hans aðild að þeim kröfum sem hafðar eru uppi í málinu. Gagnstæð niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng. Leyfisbeiðandi tekur fram að hann uni niðurstöðu dóms Landsréttar um frávísun kröfu um skaðabætur vegna atvinnumissis og annars fjártjóns.
6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðnin er því samþykkt.