Hæstiréttur íslands

Mál nr. 693/2016

A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem í kæru A var í engu vikið að þeim ástæðum sem hún var reist á, sbr. c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2016, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í eitt ár.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í kæru til Hæstaréttar meðal annars greina ástæður sem hún er reist á. Þessa gætti sóknaraðili í engu, en úr þeim annmarka varð ekki bætt þótt málsástæðum hans hafi verið gerð skil í greinargerð hér fyrir dómi. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti, sbr. meðal annars dóma réttarins, 7. mars 2014 í málinu nr. 118/2014, 2. desember 2014 í málinu nr. 753/2014 og 13. júlí 2016 í málinu nr. 479/2016.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2016.

Með beiðni, sem barst dóminum 5. október sl., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, óstaðsettur í húsi í Reykjavík, verði með vísan til a-liðs 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sviptur sjálfræði í eitt ár. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfunni verði hafnað en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími.

Í kröfu sóknaraðila kemur meðal annars fram að varnaraðili sé 47 ára gamall, einhleypur og barnlaus. Varnaraðili eigi sjúkrasögu sem nái til ársins 2010 þegar hann hafi fyrst komið til innlagnar á geðdeild eftir bílveltu í sjálfsvígstilgangi. Hann eigi að baki samtals tólf innlagnir á geðdeild þar á meðal fjórar á þessu ári en hann útskrifi sig jafnan eftir nokkra daga á deild. Þá hafi varnaraðili verið sviptur sjálfræði áður til eins árs árið 2013.

Krafa sóknaraðila um sviptingu sjálfræðis byggist á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm að etja og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð, sbr. a-lið 4. gr. lögræðislaga.

Beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð B, geðlæknis, dagsett 29. september 2016. Í vottorðinu kemur fram að varnaraðili hafi verið öryrki vegna geðklofasjúkdóms síðan 2012, en unnið með köflum þegar sjúkdómurinn hafi verið í rénun. Varnaraðili hafi átt erfiða skólagöngu, byrjað ungur að starfa við fiskvinnslu, en átt erfitt með vinnu sökum bakvandamála. Hann hafi átt við fíknivanda um skeið, en hafi ekki átt við það að stríða hin síðari ár. Varnaraðili hafi haft óstöðuga búsetu undangengin ár. Ekki sé heldur að sjá að varnaraðili hafi haft fasta búsetu síðastliðið ár og hafi hann m.a. dvalist langdvölum í bifreið sinni. vottorðinu er sjúkrasaga varnaraðila nánar rakin. Hann hafi þrettán sinnum frá sumri 2010 legið inn á geðdeildum í geðrofsástandi. Varnaraðili hafi verið lagður tvisvar sinnum inn á Landspítalann árið 2010 og fjórum sinnum árið 2011. Einnig hafi varnaraðili verið lagður inn árin 2014 og 2015 og fjórum sinnum sem af er árinu 2016. Þá hafi varnaraðili verið lagður nauðungarinnlögn inn á Fjórðungssjúkrahúsið Akureyrar að undangengnu göngudeildareftirliti og verið þar um rösklega hálfs árs skeið fram að vori 2012. Þá er því lýst í vottorðinu að greining frá 2011 hafi verið aðsóknargeðklofi sem hafi verið staðfest í síðari innlögnum. Sjúkdómsinnsæi varnaraðila hafi frá fyrstu innlögn verið lýst sem mjög skertu og samvinna um viðeigandi meðferð, bæði lyfjameðferð og heildræna endurhæfingu, hafi verið mjög takmörkuð. Það hafi markað meðferðarheldni varnaraðila að útskrift lokinni og göngudeildareftirlit yfir lengri tíma hafi af þeim sökum verið endaslepp.

Fram kemur að frá því snemma árs 2013 og þar til snemma árs 2014 hafi varnaraðili verið í göngudeildareftirliti við endurhæfingargeðdeild Landspítala á Kleppi í kjölfar nauðungarvistunar á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Hann hafi þá, í janúar 2013, verið sviptur sjálfræði í eitt. Varnaraðili hafi þá verið til samvinnu um reglubundna lyfjameðferð með forðasprautum um tæplega eins árs skeið en til takmarkaðrar samvinnu um önnur meðferðarúrræði.

                Í vottorðinu er því einnig lýst að varnaraðili sé haldinn aðsóknargeðklofa F20.0 og sé nú í sinni fjórðu innlögn við geðdeild Landsspítala það sem af er ári. Hann hafi verið lagður inn í janúar, maí og ágúst í bráðaþjónustu, eftir að hafa leitað þangað af eigin hvötum, ýmist vegna sjálfsvígshugsana eða ofbeldishugmynda og þá lýst röddum sem hann heyri og hvetji hann til uggvænlegra athafna, og/eða verum, sem vilji honum illt og hann nefnir andverur alheimsins, sem hann sjái en aðrir ekki. Varnaraðili hafi við margar innlagnir æskt útskriftar eftir skamma dvöl, ekki tollað í eftirfylgd og ekki viljað þiggja lyf.

                Í vottorðinu er núverandi ástandi varnaraðila lýst á þá leið að hann hafi lagst inn á geðdeild Landspítalans þann 15. september 2016 fyrir tilstuðlan lögreglu. Varnaraðili hafi brotið rúðu og þegar starfsfólk hafi nálgast hann hafi hann ógnað því með hnífi. Varnaraðili hafi einnig hringt í neyðarnúmer daginn áður og hótað því að verða manns bani. Hann hafi við komu á geðdeild lítið viljað ræða við starfsfólk og neitað alfarið að tjá sig um það sem á undan var gengið. Í samtali við lækni daginn eftir hafi hann setið og sagt að menn myndu ekki skilja gjörðir hans. Hann hafi sagst vera að missa færnina og myndi deyja innan skamms, ýmist úr heilablóðfalli eða hraðfara líkamlegri hrörnun. Hann hafi óskað útskriftar. Varnaraðili hafi verið metinn með klárum og virkum geðrofsmerkjum, ranghugmyndum og röddum sem virtust stýra gjörðum hans. Af þeim sökum hafi hann verið talinn til alls vís og að líkindum hættulegur öðrum við óbreytt ástand. Varnaraðili hafi því verið nauðungarvistaður frá 16. september sl. Varnaraðili hafi illa unað nauðunginni. Hann telji sig hvorki þurfa á innlögn né annarri meðferð að halda og afþakki sömuleiðis aðstoð félagsráðgjafa vegna húsnæðismála. Hann hafi verið styggur í viðmóti, var um sig sem áður og látið lítið uppi um líðan sína. Varnaraðili sé annars stillilegur og sæmilega samvinnuþýður við aðra en lækna og hafi frá 18. september 2016 tekið lyf sín, þótt hann segi það á móti sínum vilja. Sjúkdómsinnsæi sé ljóslega skert og samstarfsvilji um viðeigandi meðferð lítill.

                Í niðurstöðu læknisvottorðsins kemur fram að varnaraðili hafi um margra ára skeið borið viðvarandi einkenni alvarlegs geðsjúkdóms, nánar tiltekið svokallaðs aðsóknargeðklofa, sem á löngum tímabilum hafi haft afgerandi áhrif á samskipti hans við annað fólk, félagslega færni og andlega líðan. Hann sé nú ljóslega alvarlega veikur, með virk geðrofseinkenni sem hafa veruleg áhrif á dómgreind hans og hegðun, og jafnframt mjög skert sjúkdómsinnsæi. Hann þarfnist ljóslega langvarandi meðferðar og eftirfylgdar, sem hann hafi ekki verið, og sé ekki, til samvinnu um. Útilokað megi telja að sú afstaða hans muni breytast á næstu vikum og ósennilegt að hún breytist til muna á nokkrum mánuðum.      Í niðurstöðu læknisins er einnig greint frá því að hann hafi ráðfært sig um ástand varnaraðila og möguleg úrræði við B sérfræðilækni, sem þekki varnaraðila úr fyrri innlögnum, og C yfirlækni. Þær séu á einu máli um að reyna þurfi langtímaendurhæfingu með óslitinni geðrofslyfjameðferð í að minnsta kosti eitt ár, með fram stuðningi til fastrar búsetu og félagslegrar virkjunar, og að slíkri meðferð verði ekki komið við við óbreytt ástand án tímabundinnar sjálfræðissviptingar, í a.m.k. eitt ár. Sé þar litið til sjúkrasögu varnaraðila, sem markast hafi af viðvarandi skertu sjúkdómsinnsæi og getu til samvinnu um nauðsynlega meðferð, bæði geðrofslyfjameðferð, sem af fyrri reynslu að dæma gæti slegið allmjög á sjúkdómseinkenni og bætt líðan varnaraðila til muna, sem og heildræna endurhæfingu, sem vonir standa til að bætt geti færni hans og samskipti við annað fólk.

       B staðfesti vottorð sitt fyrir dómi og að kvað nauðsynlegt fyrir varnaraðila að hann yrði sviptur sjálfræði í ljósi langvarandi og alvarlegra veikinda hans. Fullreynt væri að veita varnaraðila viðeigandi meðferð með vægari úrræðum eins og t.d. göngudeildarmeðferð.

Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann viðurkennir ekki að hann eigi við alvarleg veikindi að stríða og telur ekki þörf á sjálfræðissviptingu. Hann kvaðst hafna kröfu sóknaraðila og sagði ekkert tilefni fyrir henni. Hann sagði jafnframt að rangt væri að hann væri ekki til samvinnu við meðferðaraðila eins og .t.d lyfjatöku. Hann kvað jafnfram að engin meining hefði verið að baki sjálfsvígshugsunum eða hótunum um að skaða aðra. Slíkt hefði hann aldrei gert og myndi ekki gera. Hann mótmælti sérstaklega að hann hefði hótað heilbrigðisstarfsmönnum með hnífi. Hann hefði haft hann meðferðis vegna líkamsárása annarra gegn honum sjálfum. Þá kvaðst varnaraðili vera komin með íbúð á leigu hér í borg.

Niðurstaða:

Eins og að framan er rakið liggur fyrir vottorð B, sérfræðings í geðlækningum, sem hann staðfesti fyrir dóminum, um að varnaraðili eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að etja sem þarfnist meðhöndlunar og að nauðsynlegt væri fyrir varnaraðila að hann yrði svipt sjálfræði. Fullreynt sé að vægari úrræði skili árangri.

                Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn því að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 hvað varðar getu varnaraðila til að sinna persónulegum hagsmunum sínum. Er því óhjákvæmilegt að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið svo að tryggja megi honum viðeigandi læknis­meðferð. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í eitt ár en vegna alvarleika veikinda hans eru ekki efni til að marka sviptingunni skemmri tíma. Í því samhengi er enn fremur til þess að líta að varnaraðili á þess kost, skv. 15. gr. sömu laga, að krefjast niðurfellingar sjálfræðissviptingarinnar að sex mánuðum liðnum frá uppkvaðningu úrskurðar þessa, telji hann að ástæður sviptingar séu ekki lengur fyrir hendi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Anna Guðrún Árnadóttir hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Brynjólfur Eyvindsson hdl.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í eitt ár.

Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.