Hæstiréttur íslands
Mál nr. 718/2013
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Eignarréttur
- Þinglýsing
- Jörð
|
|
Fimmtudaginn 3. apríl 2014. |
|
Nr. 718/2013. |
Gunnar Jónsson (Bjarni S. Ásgeirsson hrl.) gegn Borgarbyggð (Ingi Tryggvason hrl.) |
Kaupsamningur. Eignarréttur. Þinglýsing. Jörð.
Með dómi Hæstaréttar var fallist á kröfu G um að hann ætti hluta tiltekinnar jarðar þrátt fyrir að fyrri eigandi hefði selt jarðarhlutann til forvera B. Ekki varð ráðið af gögnum málsins að G hefði vitað eða mátt vita, er hann öðlaðist eignarrétt að jörðinni, að landinu sem deilt var um hefði verið afsalað til forvera B. Þá var talið að þinglýst afsal G útrýmdi eldri óþinglýstum rétti til landsins sem B byggði kröfu sína á. Breytti engu um þá niðurstöðu þótt áfrýjandi hefði síðar öðlast vitneskju sem gaf honum tilefni til að ætla að einhver hluti lands þess sem hann hafði keypt, kynni áður að hafa verið seldur undan jörðinni. Þegar virt væru þau not sem B hefði haft af hinu umþrætta landi hefði honum ekki tekist sönnun þess að hann hefði frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til G unnið eignarhefð að landinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Stefán Már Stefánsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. nóvember 2013. Hann krefst þess að stefnda verði gert að þola dóm þess efnis að sá hluti jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem ,,óþinglýstur samningur eða samningsdrög eiganda Króks og Upprekstrarfélags Þverárréttar“ 26. maí 1924 tekur til sé eign áfrýjanda og hluti jarðarinnar. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að sami samningur eða samningsdrög hafi ,,einungis fjallað um og náð til sumarbeitarréttar, það er ítaks Upprekstrarfélags Þverárréttar“ í jörðinni. Jafnframt er þess krafist að staðfest verði að sá ítaksréttur hafi fallið niður vegna vanlýsingar, en að því frágengnu að áfrýjandi eigi rétt á að leysa hann til sín samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna. Loks er gerð krafa um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Með kaupsamningi 5. ágúst 1916 seldu hreppsnefndarmenn í Norðurárdalshreppi Brynjólfi Bjarnasyni eignarjörðina Krók í Norðurárdal fyrir hönd hreppsins. Jörðin var seld ,,ásamt öllum þeim rjettindum og hlunnindum sem jörðinni fylgja og fylgja eiga til lands og vatns. Þau skilyrði setjum við kaupanda að á jörðina verði komið býli ekki síðar en í fardögum 1918 ella verði tjeð jörð eign Norðurárdalshrepps fyrir sama verð og hún nú er seld, ennfremur selji kaupandi nokkurn hluta af Krókslandi, að þá gangi upprekstrarfjelag Þverárréttar fyrir kaupum á því að öðru jöfnu.“ Kaupsamningur þessi var þinglesinn á manntalsþingi að Hvammi 19. maí 1918.
Í gögnum málsins er að finna þrjú skjöl sem öll lúta að sölu Brynjólfs á landi því sem er ,,afréttarmegin við afréttargirðingu til Upprekstrarfélags Þverárréttar.“ Í skjali sem dagsett er 26. maí 1924 segir að Brynjólfur sem seljandi og Davíð Þorsteinsson bóndi á Arnbjargarlæk sem kaupandi ,,fyrir upprekstrarfjelag Þverárrjettar“ geri með sér svofelldan kaupsamning: ,,Brynjólfur Bjarnason skuldbindur sig til að selja upprekstrarfélagi Þverárréttar af landi jarðarinnar Króks allt það land sem nú er afréttarmegin við afréttargirðingu Norðdælinga undanskilið er vetrarbeit og slægjur en ekki má styggja afréttarfénað eða verja slægjur fyrir honum ... Kaupverðið er 600 ... krónur ...“ Undir skjalið er ritað Brynjólfur Bjarnason ,,eftir umboði Einar Bjarnason“ og fyrir ,,upprekstrarfjelag Þverárrjettar Davíð Þorsteinsson.“ Í þessu skjali eru yfirstrikanir og hluti texta innan sviga. Þá liggur fyrir annað nær samhljóða eintak af skjalinu, en frábrugðið að því leyti að það sem var innan sviga í fyrra skjali er ekki hluti af texta þess. Eintak þetta er einnig undirritað á sama hátt og hið fyrra og dagsett sama dag. Á skjal þetta hefur Brynjólfur ritað að honum hafi verið greiddar 300 krónur af framangreindu landverði og undir er rituð dagsetningin 19. júní 1924.
Þriðja útgáfa skjalsins er gerð að Arnbjargarlæk í maí 1924 og undirrituð af Einari Bjarnasyni ,,í umboði“, en óundirrituð af hálfu kaupanda. Þar segir að Brynjólfur Bjarnason og Davíð Þorsteinsson, bóndi á Arnbjargarlæk, sem kaupandi fyrir Upprekstrarfélag Þverárréttar geri með sér svofelldan kaupsamning: ,,Það sem selt er, er fjallland úr eignarjörð minni Krók í Norðurárdal svokallaðir Selhagar og ræður landamerkjum á landi þessu að neðan verðu frá Norðurá Króksgirðing og eftir háhálsi Hermundarstaðamerki og svo Hellisgil Hellisá og Norðurá að norðanverðu að fyrnefndri girðingu, undantekið er vetrarbeit, slægjur og veiðiréttindi.“ Kaupverð var tilgreint hið sama og í fyrrnefndum skjölum. Í skjalinu kemur enn fremur fram að Brynjólfur veiti Einari Bjarnasyni á Skarðshömrum fullt umboð til að undirrita kaupsamning á Króksfjallalandi fyrir hans hönd.
Óumdeilt er að landið sem tilgreint er í ofangreindum samningum hefur verið nýtt sem afréttarland af hálfu stefnda og áður forvera stefnda, Upprekstrarfélagi Þverárréttar.
Ágreiningslaust er að veðmálabækur sýsluskrifstofunnar í Borgarnesi brunnu árið 1920. Eftir brunann var brugðið á það ráð að skrifa upp ýmis skjöl, þar á meðal landamerkjabréf. Landamerkjum fyrir jörðina Krók var lýst í landamerkjaskrá í júlí 1923, sem lesin var á manntalsþingi 2. júlí 1924. Engar athugasemdir munu hafa komið fram um lýsingu landamerkja á manntalsþingi, þar sem landamerkjaskrá var lesin upp.
Brynjólfur seldi syni sínum Haraldi eignarjörð sína Krók með afsalsbréfi 1. maí 1958, með ,,öllum húsum og mannvirkjum sem eru á jörðinni ... og með öllum gögnum og gæðum“. Afsalið var móttekið til þinglýsingar 13. maí 1958 og fært í þinglýsingabækur. Haraldur seldi síðan Friðgeiri Sörlasyni jörðina með afsali 7. febrúar 1979 með ,,gögnum og gæðum, sem jörðinni fylgja og fylgja ber til lands og vatns, að undanskilinni afgirtri spildu, sem er getið í kaupsamningi dags. 4.11.1977, nefnd Efra Melatún ... Landamerki jarðarinnar eru svo sem segir í merkjaskrá þinglýstri á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Hefur kaupandi kynnt sér landamerkin og eru þau ágreiningslaus.“ Ágreiningur málsins tekur ekki til spildunnar sem var undanskilin við kaupin.
Með afsalsbréfi 23. nóvember 1982 afsalaði Friðgeir jörðinni til Hauks Péturssonar ,,með öllum mannvirkjum, svo sem húsum, ræktun, girðingum og öðrum gögnum og gæðum til lands og vatns ásamt öllu sem fylgir og fylgja ber ... Landamerki jarðarinnar eru sem segir í merkjaskrá þinglýstri á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Kaupandi hefur kynnt sér landamerkin og eru þau ágreiningslaus.“
Fyrrnefndur Haukur seldi síðan áfrýjanda jörðina með afsali 20. september 1990. Segir þar að seljandi afsali til kaupanda jörðinni Krók, „með öllum mannvirkjum ... gæðum og hlunnindum til lands og vatns, sem jörðinni fylgja og fylgja ber. Ekkert er undanskilið í kaupunum nema spilda sem liggur með þjóðveginum (175 m) að norðan, að austan 60 m til suðurs, þaðan 195 m í mörk milli Háreksstaða og Króks (eigandi Haraldur Brynjólfsson). Landamerki jarðarinnar eru skv. landamerkjaskrá dags. 02.07.1924.“
II
Að framan er rakið efni skjala þeirra er bera yfirskriftina kaupsamningur um land það sem um er deilt í málinu. Skjölin eru óvottuð og ekki samhljóða. Af efni þeirra verður þó ráðið að fyrrnefndur Brynjólfur afsalaði landi því sem hann átti, afréttarmegin við afréttargirðingu til Upprekstrarfélags Þverárréttar og samkvæmt reikningum upprekstrarfélagsins greiddi það umsamið kaupverð fyrir landið. Kvittaði Brynjólfur fyrir móttöku á hluta kaupverðs á því skjali sem greinilega er endanleg gerð þess. Orðalag skjalanna um að undanskilin séu vetrarbeit og slægjur styrkja fyrrgreinda niðurstöðu. Skjölum þessum var ekki þinglýst.
III
Í þinglýsingabókum skal greint frá tilvist allra mikilvægustu réttinda yfir eignum, þar á meðal merkjum jarða. Auk þess að afla réttindum aðila lögverndar gagnvart þriðja manni eiga menn að geta treyst því að það sem fram kemur í þinglýsingabókum sé rétt að efni til.
Eins og rakið hefur verið eignaðist áfrýjandi jörðina Krók með afsali 20. september 1990. Í afsali til hans og afsölum til fyrrum eigenda, að undanskildu afsali til Haraldar, sonar Brynjólfs, var tekið fram að landamerki jarðarinnar væru eins og greinir í merkjaskrá, lesinni á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Jafnframt var sérstaklega áréttað í afsali til áfrýjanda að ekkert væri undanskilið í kaupunum nema spilda sem liggur með þjóðveginum og ekki er ágreiningur um í málinu.
Af hálfu stefnda hefur verið byggt á því að áfrýjandi hafi verið grandsamur um að land það sem um er deilt í málinu hefði verið selt undan jörðinni er áfrýjandi öðlaðist eignarréttindi að henni. Til sönnunar þessum staðhæfingum hefur stefndi meðal annars vísað til bréfs 25. júlí 1995 sem áfrýjandi skrifaði Veiðifélagi Norðurár, en þá voru liðin tæp fimm ár frá því að hann keypti jörðina. Í því bréfi sagði áfrýjandi að 26. maí 1924 hefði Brynjólfur Bjarnason selt sneið af Krókslandi og hefði kaupandi nýtt þessa afrétt, en síðan segir í bréfi þessu: ,,Ég hef ekki fengið upplýst hvort eða hvenær afsal fyrir landspildunni var útgefið, né heldur hvort því eða kaupsamningnum var þinglýst“. Hvorki verður ráðið af efni þessa bréfs né öðrum gögnum málsins að áfrýjandi hafi vitað eða mátt vita er hann öðlaðist eignarrétt að jörðinni Króki, að landi því sem um er deilt í málinu hafði Brynjólfur afsalað til forvera stefnda á árinu 1924. Er til þess að líta að ekkert í orðalagi afsals til áfrýjanda gaf honum tilefni til að ætla annað en að hann væri að kaupa alla jörðina Krók, að undanskilinni landspildu, sem ekki er ágreiningur um að ekki fylgdi með í kaupum, og einnig þess að í afsali til hans var sérstaklega vísað til lesinnar landamerkjaskrár á manntalsþingi, sem tók til alls lands jarðarinnar.
Réttindum yfir fasteign skal þinglýsa svo að þau haldi gildi sínu gagnvart grandlausum viðsemjanda. Þinglýst afsal áfrýjanda útrýmdi því þeim eldri óþinglýsta rétti til landsins sem stefndi byggir kröfu sína á, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt áfrýjandi hafi síðar öðlast vitneskju sem gaf honum tilefni til að ætla að einhver hluti lands þess sem hann hafði keypt, kynni áður að hafa verið seldur undan jörðinni.
Þegar virt eru þau not sem stefndi hefur haft af hinu umþrætta landi hefur honum ekki tekist sönnun þess að hann hafi frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til áfrýjanda unnið eignarhefð að landinu í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.
Samkvæmt framansögðu verður aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennt er að sá hluti jarðarinnar Króks í Borgarbyggð landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til, sé eign áfrýjanda, Gunnars Jónssonar.
Stefndi, Borgarbyggð, greiði áfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 22. október 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. október sl. er höfðað með stefnu birtri 29. nóvember 2012.
Stefnandi er Gunnar Jónsson, Króki, Borgarnesi.
Stefnda er Borgarbyggð.
Kröfur stefnanda eru þessar:
Aðallega:
1. Að stefnda Borgarbyggð verði gert að þola dóm þess efnis að sá hluti jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur eða samningsdrög eiganda Króks og Upprekstrarfélags Þverárréttar, dags. hinn 26. maí 1924, tekur til, sbr. dskj. 12, sé eign stefnanda Gunnars Jónssonar og hluti jarðarinnar Króks.
Í samningnum er landið tilgreint sem hluti af landi jarðarinnar Króks, það er:
"allt það land sem nú er afréttarmegin við afréttargirðingu Norðdælinga. Undanskilið er vetrarbeit og slægjur en ekki má stiggja (svo) afréttarfénað eða verja slægjur fyrir honum."
2. Að stefnda Borgarbyggð verði gert að þola dóm þess efnis að óþinglýstur samningur eða samningsdrög eiganda Króks og Upprekstrarfélags Þverárréttar, dags. hinn 26. maí 1924, sbr. dskj. 12, hafi einungis fjallað um og náð til sumarbeitarréttar, það er ítaks Upprekstrarfélags Þverárréttar í jörðinni Króki.
3. Að staðfest verði með dómi að ítaksréttur Upprekstrarfélags Þverárréttar í jörðinni Króki, hafi fallið niður vegna vanlýsingar.
Til vara: Ef dómurinn fellst ekki á kröfu stefnanda samkvæmt þriðja lið verði dæmt að stefnandi Gunnar Jónsson, eigi rétt á því að leysa til sín ítaksrétt Upprekstrarfélags Þverárréttar í jörðinni Króki, byggðum á samningi frá 26. maí 1924, dómskjali 12, samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna.
Þá er þess krafist að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað.
Stefnda, Borgarbyggð, krefst þess að verða alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Þá krefst stefnda þess að stefnandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Stefnandi kveður málavexti vera þá að hann sé þinglýstur eigandi jarðarinnar Króks, fyrrum Norðurárdalshreppi í Mýrasýslu, nú Borgarbyggð, landnúmer 134817, sbr. veðbandayfirlit dags. 24. ágúst 2012 (dskj. 3).
Stefnandi hafi eignast jörðina Krók, Norðurárdalshreppi í Mýrasýslu, með afsali frá Hauki Péturssyni, dagsettu hinn 20. september 1990. Jörðin hafi verið seld með „öllum gögnum, gæðum og hlunnindum lands og vatns, sem jörðinni fylgja og fylgja ber. Ekkert er undanskilið í kaupunum nema spilda sem liggur með þjóðveginum að austan 60 m til suðurs, þaðan 195 m í mörk milli Háreksstaða og Króks.
Landamerki jarðarinnar eru skv. landamerkjaskrá dags. 02.07.1924 (svo)."
Rétt muni hins vegar vera að landamerkjaskrá sé frá því í júlí 1923, en skráð á manntalsþingi í Hvammi hinn 2. júlí 1924.
Í landamerkjaskrá segi um landamerki milli Króks og Þverárréttarafréttar..."eftir Hellisá að Hellisgili, og síðan eftir Hellisgili og sjónhendingu úr Hellisgilsdragi á háaþúfu á Sýrdalsborg."
Þá er ennfremur tilgreint í afsali að eignin sé seld án kvaða og veðbanda, annarra en þeirra sem kaupandi hafi sjálfur stofnað til.
Afsali þessu hafi verið þinglýst án athugasemda hinn 30. september 1990.
Seljandinn Haukur Pétursson, hafi sótt rétt sinn til afsalsbréfs, dags. 23. nóvember 1982, frá Friðgeiri Sörlasyni. Í afsalsbréfi til Hauks Péturssonar sé eignin seld með gögnum og gæðum. Tekið sé fram um landamerki jarðarinnar: "Landamerki jarðarinnar eru sem segir í merkjaskrá þinglýstri á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Kaupandi hefur kynnt sér landamerkin og eru þau ágreiningslaus."
Þá sé kveðið á um að undanskilja sömu landspildu meðfram þjóðvegi og greini í afsali til Gunnars Jónssonar, hér að framan.
Ekki sé kveðið á um kvaðir aðrar en um forkaupsrétt Sveitarsjóðs Norðurárdalshrepps, sem hafi verið hafnað. Afsalinu hafi verið þinglýst hinn 30. nóvember 1982, án athugasemda.
Friðgeir Sörlason hafi sótt rétt sinn til jarðarinnar Króks skv. afsalsbréfi frá Haraldi Brynjólfssyni, dags. 7. febrúar 1979. Enn sé gögnum og gæðum, sem og landamerkjum lýst á svipaðan hátt og greini að framan.
Í afsalinu sé eftirfarandi tekið fram:
"Landamerki jarðarinnar eru svo sem segir í merkjaskrá þinglýstri á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Hefur kaupandi kynnt sér landamerkin og eru þau ágreiningslaus."
Ekki sé getið um aðrar kvaðir en forkaupsrétt Sveitarsjóðs Norðurárdalshrepps. Afsalinu sé þinglýst án athugasemda hinn 20. júní 1979.
Ofangreindur Haraldur Brynjólfsson hafi sótt rétt sinn til jarðarinnar Króks frá föður sínum Brynjólfi Bjarnasyni sbr. afsalsbréf dags. 1. maí 1958. Jörðin hafi verið seld þar og sé talin 35,7 hundruð að fasteignarmati. Eignin hafi verið seld með öllum gögnum og gæðum. Ekki sé getið um neinar kvaðir. Afsalinu sé þinglýst án athugasemda 13. maí 1958.
Til séu tvenn samningsdrög að "kaupsamningi" frá 26. maí 1924, um Króksland framan við varnargirðingu, sem þar hafi verið fyrir og hefði verið reist nokkrum árum áður vegna garnaveiki, að því er stefnandi telur, sem upp hafi komið á bænum.
Hin þriðju samningsdrögin séu einnig til og dagsett í maí 1924.
Fyrsta skjalið liggur frammi á dskj. nr. 9. Á umræddu skjali hafi margoft verð krotað í texta skjalsins og eftir atvikum textanum breytt og þar með meiningu textans. Skjalið sé undirritað af Brynjólfi Bjarnasyni, "(Eftir umboði Einar Bjarnason)", eins og segi í texta skjalsins. Fyrir upprekstrarfélag Þverárréttar riti Davíð Þorsteinsson. Þá sé skjalið óvottað. Skjalinu hafi ekki verið þinglýst.
Þar sé kveðið á um að kaupverð tilgreinds lands: " er 600 -sex hundruð - krónur sem borgist með jöfnum afborgunum 200 tvö hundruð - krónum á ári fyrir lok októbermánaðar ár hvert, fyrst 1924 og síðast 1926." Þá sé ákvæði um að vextir greiðist frá 31 október þ.a. 6%.
Ennfremur sé ákvæði um að kaupandi fái full umráð yfir umræddu landi í júlí þ. á. Stefnandi kveður að skjal þetta hafi komið til hans frá Haraldi Brynjólfssyni, en til hans frá föður Haraldar, Brynjólfi Bjarnasyni.
Annað skjalið sé jafnframt drög að kaupsamningi og liggur frammi í ljósriti sem "kaupsamningur" dagsettur 26. maí 1924 á dskj. 12. Lögmaður stefnda hafi sent skjalið til lögmanns stefnanda í ljósriti með bréfi sínu frá 24. mars 2010. Samkvæmt fyrrgreindu bréfi byggi stefndi á því að hluti Króklands, það er sá hluti jarðarinnar sem þá hafi verið afréttarmegin við afréttargirðingu Upprekstrarfélagsins, hafi verið seldur til upprekstrarfélags Þverárréttar. Í skjalinu sé þessum hluta lýst sem: "allt það land sem nú er afréttarmegin við afréttargirðingu Norðdælinga. Undanskilið er vetrarbeit og slægjur en ekki má stiggja (svo) afréttarfénað eða verja slægjur fyrir honum."
Skjalið sé að mestu efnislega samhljóða dómskjali 9, sé litið fram hjá fyrrgreindum yfirstrikunum og breytingum á dskj. 9. Í texta dómskjals 9, sé þó kveðið á um að "ekki má notandi stiggja (svo)"... o.s.frv.
Undir skjal þetta riti einnig Brynjólfur Bjarnason, "(Eftir umboði Einar Bjarnason)". Fyrir upprekstrarfélag Þverárréttar undirriti Davíð Þorsteinsson. Skjalið sé einnig óvottað og óþinglýst.
Stefnandi kveður að umræddur Einar Bjarnason hafi verið bróðir Brynjólfs Bjarnasonar. Brynjólfur sé útgefandi afsalsbréfs frá 1. maí 1958.
Þá sé til þriðja skjalið, sem einnig séu samningsdrög að kaupsamningi. Það sé efnislega svipað og dómskjöl 9 og 12, þó einhverju skakki, svo sem að þar sé m.a. getið um að undanteknar séu "vetrarbeit slægjur og veiðirjettindi". Þá séu undirritanir á annan veg og í skjalinu virðist felast e.k. umboð til Einars Bjarnasonar. Skjalið sé sagt dagsett í maí 1924, en ekki 26. maí 1924, eins og fyrrgreind skjöl. Engir vottar séu á skjalinu, frekar en á hinum áðurgreindum uppköstum.
Stefnandi kveður að árið 1995 hafi honum borist bréf þess efnis að skipaðir hefðu verið matsmenn til að gera nýja arðskrá fyrir Norðurá. Bréfinu hafi fylgt skrá um bakkalengd jarða meðfram Norðurá að kvíslum frá ánni. Stefnandi hafi séð að í umræddri skrá hafi Króki einungis verið reiknuð bakkalengd fram að varnargirðingu en Upprekstrarfélaginu fram að fremri Búrfellsá. Fram til þess tíma hafði stefnandi lítt hugað að þessum málum vegna annarra málefna varðandi uppbyggingu jarðarinnar Króks s.s. varðandi girðingar, skógrækt og fl. Stefnandi hafi því ritað stjórn Veiðifélags Norðurár bréf dags. 6. nóvember 1996. Þar sé eignarbreytingum á Króki lýst og hann vísi til afsals til sín og milli eigenda þar næst á undan. Einnig árétti hann eignarrétt sinn til landsins. Hafi þetta fengist leiðrétt með aðkomu Upprekstrarfélags Þverárréttar.
Lögmaður stefnanda hafi ritað Upprekstrarfélagi Þverárréttar bréf dagsett 18. febrúar 2010 og afrit verið sent stefnda. Í bréfi stefnanda sé félaginu tilkynnt um að stefnandi leggi bann við upprekstri sauðfjár og beit sauðfjár á jörðinni Króki í Norðurárdal framan fjallgirðingar (varnargirðingar). Ennfremur sé málavöxtum lýst og eignarrétti stefnanda til umrædds lands.
Þá sé því lýst að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi talið sig eiga rétt til beitar í landi stefnanda að Króki. Öllum ætluðum rétti Upprekstrarfélags Þverárréttar samkvæmt fyrrgreindum gerningi frá 1924 sé alfarið hafnað.
Þá sé og bent á lög nr. 113 frá 1952, um lausn ítaka á jörðum og að ef Upprekstararfélag Þverárréttar eða annar aðili hafi talið til réttar á einhverjum hluta á jörðinni Króki, eða ítak í jörðinni, hafi hinum sama borið að gæta réttar síns og lýsa ítaki sínu eins og greini í lögunum. Hafi þessi réttindi á einhverjum tíma verið til staðar séu þau löngu fallin niður annað tveggja vegna ofangreindra laga eða vegna vangeymslu og tómlætis.
Þá sé enn fremur gerð grein fyrir ágangi sauðfjár á landi stefnanda og því tjóni sem það valdi.
Í svarbréfi lögmanns stefnda dags. 24. mars 2010, segi m.a:
"Hinn 26. maí 1924 keypti upprekstrarfélag Þverárréttar þann hluta jarðarinnar Króks sem þá var afréttarmegin við afréttargirðingu Upprekstrarfélagsins. Fyrir kaupin hafði því þessi hluti jarðarinnar verið nýttur sem afréttur og svo hefur verið óbreytt síðan. Seljandi þessa hluta jarðarinnar var Brynjólfur Bjarnason þáverandi eigandi Króks. Í reikningum Upprekstrarfélagsins frá þessum árum má sjá að kaupverðið var innt af hendi í samræmi við kaupsamninginn. Hins vegar mun kaupsamningnum ekki hafa verið þinglýst"
Þá segir í bréfinu, " Verði eignarréttur að landinu ekki viðurkenndur af hálfu umbjóðanda yðar verður ekki hjá því komist að leggja málið fyrir dómstóla til úrlausnar."
Með bréfi lögmanns stefnanda dags. 14. maí 2010 hafi sjónarmiðum Upprekstrarfélags Þverárréttar verið harðlega mótmælt og ítrekuð fyrri sjónarmið og eignarréttur stefnanda að allri jörðinni Króki að engu undaskildu. Þá sé til þess vísað að stefnandi hefði búist við að stefndi myndi vísa málinu til dómstóla eins og boðað hefði verið í bréfi lögmanns stefnda frá 24. mars 2010.
Þegar ekki hafi orðið úr því að stefndi hafi vísað málinu til dómstóla hafi stefnda enn verið ritað bréf hinn 31. maí 2012. Þar sé málið rakið í stuttu máli. Þá segi m.a. í bréfinu.
" Eins og fram kemur í bréfaskiptum okkar, þá bjóst umbjóðandi minn við að umbjóðandi þinn myndi vísa málinu til dómstóla. Það hefur ekki orðið raunin.
Nú hefur umbjóðandi minn óskað eftir því við undirritaðan að eignarréttur umbjóðanda míns og fyrri sjónarmið væru ítrekuð. Sérstaklega er nú spurt hvort skilja megi tómlæti umbjóðanda þíns svo, að eignarréttur að allri jörðinni að Króki að engu undanskildu sé viðurkenndur."
Með bréfi frá lögmanni stefnda til lögmanns stefnanda dags. 8. júní 2012, séu fyrri sjónarmið stefnda ítrekuð.
Þá segi í niðurlagi bréfsins.
"Þar sem Borgarbyggð telur engan vafa á því að hún eigi umræddan hluta jarðarinnar Króks hefur hún ekki séð ástæðu til að leggja málið undir dómstóla."
Eftir ofangreind bréfaskipti sé ljóst að stefnandi eigi ekki önnur úrræði til að ná fram viðurkenningu á þinglýstum rétti sínum til jarðarinnar Króks en að vísa málinu til dómstóla.
Stefnandi byggir á því að hann sé þinglýstur eigandi alls lands Króks, eins og því er lýst í landamerkjaskrá. Hér að framan sé því lýst hvernig jörðin Krókur flytjist á milli eigenda allt frá árinu 1958, er Brynjólfur Bjarnason selji landið syni sínum, Haraldi Brynjólfssyni, samanber afsalsbréf dags. 1. maí 1958. Þar selji hann eignarjörð sína Krók með öllum gögnum og gæðum. Seljandi Brynjólfur sé aðili að samningsdrögum frá 26. maí 1924. Enn fremur sé aðili að sömu gerningum Davíð Þorsteinsson oddviti Þverárhlíðarhrepps. Þessir sömu menn séu einnig aðilar að gerð landamerkjaskrár frá því í júlí 1923. Hvorugur þeirra geri athugasemd er landamerkjaskráin sé skráð á manntalsþingi í Hvammi, hinn 2. júlí 1924.
Með því að engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu þeirra fyrirsvarsmanna, sem hlut hafi átt að máli, sé komin full sönnun fyrir lýsingu í afsali og samanber lýsingu í landamerkjaskrá. Þessi málsástæða eigi fullan stuðning í lið b, að neðan.
Bent sé á fullkomið grandleysi stefnanda í þessu máli, komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að fyrrgreindur kaupsamningur frá 26. maí 1924 hafi haft gildi varðandi eignarrétt eða ítaksrétt á eignarréttindi í jörðinni Króki. Stefnandi hafi frá upphafi ekki haft neina ástæðu til að telja annað en að þinglýst gögn og landamerkjaskrá séu rétt. Þeim megi stefnandi treysta, samkvæmt almennum reglum um eignarrétt og þinglýsingu eignarréttinda. Vegna aðstæðna sé honum hins vegar nauðsynlegt að höfða mál þetta, eins og lýst hafi verið.
Stefnandi telur að fyrrgreindir fyrrum eigendur að Króki hafið alla tíð talið landamerki jarðarinnar ljós og m.a. vísað því til stuðnings til landamerkjaskrár og að landamerki séu ágreiningslaus. Nefndur Brynjólfur Bjarnason, hafi m.a. selt syni sínum Haraldi jörðina Krók árið 1958. Í þeim samningi sé ekki getið um beitarrétt, og Haraldur hafi síðan selt jörðina með þeim landamerkjum sem tilgreind séu í landamerkjaskránni frá 1923.
Stefnandi kveður að allir fyrrgreindir eigendur jarðarinnar Króks hafi hver um sig verið vissir um að jörðin væri samkvæmt landamerkjum, eins og hún sé tilgreind í landamerkjaskránni frá 1923. Við sölur jarðarinnar séu aldrei gerðar athugasemdir um landamerkin. Einhverjir eigendur jarðarinnar hafi að líkindum hins vegar gert sér grein fyrir því að Upprekstrarfélagið hafi á einhverjum tíma greitt fyrir beitarrétt á landinu framan við varnargirðingu. Það breyti í engu þinglýstum eignarrétti stefnanda.
Eins og samningsdrög af kaupsamningi liggi fyrir hafi aldrei komist á gildur samningur, sem stefndi geti byggt nokkurn eignarrétt á varðandi umrætt land. Formskilyrði vanti, s.s. vottun sem og skýrleika. Þá hafi skjalinu ekki verið þinglýst. Eins og skjalið virðist hafa verið í stakk búið hefði það ekki fengist þinglýst. Bent sé á misvísandi útgáfur af "kaupsamningi" og innihald því óskýrt og ósannað. Umrætt skjal / skjöl, hafa í besta falli verið uppkast að samningi sem aldrei hafi tekið gildi.
Þá sé umboð það sem vísað sé til á dómskjölum 9 og 12 óskiljanlegt og í andstöðu við dskj. 23. Hinn 26. maí 1926, eigi Brynjólfur Bjarnason að hafa undirritað á Arnbjargarlæk kaupsamning um sölu á hluta úr jörð sinni Króki. Samkvæmt efni skjalanna nr. 9 og 12, megi allt eins ætla að Einar Bjarnason hafi verið að gefa Brynjólfi Bjarnasyni umboð, en ekki hið gagnstæða. Brynjólfur hafi ekkert við slíkt umboð að gera við þessa athöfn. Brynjólfur sé sjálfur þinglýstur eigandi jarðarinnar, sem Einar eigi ekkert í. Um sé að ræða enn aðra óskýrða villu í gerð skjalanna. Ekki verði, á skjölunum byggt að þessu leiti, gegn mótmælum stefnanda. Mótmælt sé að dómskjal 23, skýri þessa villu. Þessu sé ósvarað og verði ekki svarað þar, sem umræddir menn séu fallnir frá.
Þá hafi stefndi ekki getað staðfest eða sýnt fram á að frumrit samningsins sé til. Samningnum í heild og efni hans sé því mótmælt. Það sé sjónarmið stefnanda að í engu verði byggt á hvorugu skjalinu af hálfu stefnda. Sama eigi við um drög á dómskjali 23.
Þá bendir stefnandi á að samkvæmt efni skjalsins/skjalanna megi ætla að afréttargirðingin sé eldri en samningurinn. Ef rétt sé, gæti samningurinn verið eins konar greiðsla Krókseiganda fyrir að fá land sitt girt af frá afrétti. Þessu sé enn fremur ósvarað og auki enn á óskýrleika gagna stefnda.
Samningurinn/samningsdrögin beri með sér að um sumarbeit hafi verið að ræða. Ekki séu fyrir því skynsamleg rök að Upprekstrarfélagið hafi verið að slægjast eftir öðru. Þá sé það í samræmi við ofangreint að undanskilin skyldi vetrarbeit og slægjur (og jafnvel veiðiréttur), líklegast til að landið yrði ekki fyrir tjóni af völdum beitarréttar.
Stefnandi bendir á reikninga Norðurárdalshrepps árið 1924 - 1925, þar sem getið sé um greiðslu fyrir þessa beit. Greiðslan sé skráð sem greiðsla fyrir upprekstur. Gjaldið sé fært í tölulið 10, staflið-i, vegna kaupa á upprekstri kr. 66.66. Stefnandi telur að þarna sé bein sönnun fyrir því að samningsdrögin hafi einungis náð til beitarréttar.
Greiðslan sé í engu samræmi við nefnda samningsgreiðslu kr. 200, eins og henni hafi verið lýst í drögum að kaupsamningi á dskj. 9 og 12. Staðfesti það sjónarmið stefnanda að kaupverð hafi aldrei verið greitt og því hafi aldrei kaupsamningur komist á.
Vísað sé til laga nr. 113, frá árinu 1952, um lausn ítaka af jörðum. Lög þessi hafi tekið gildi í árslok 1952. Vísað sé til megintilgangs laganna og einkum 5. gr. 1. og 2. mgr. um skyldur þeirra sem telja sig eiga ítak í jörð.
Samkvæmt ákvæðum þessum sé það ljóst að hafi stefndi eða Upprekstrarfélag Þverárréttar eða annar aðili talið til réttar á einhverjum hluta af jörðinni Króki, eða ítaki í jörðinni, hafi hinum sama borið að gæta réttar síns og lýsa ítaki sínu innan 12 mánaða frá síðustu birtingu áskorunnar þess efnis. sbr. 4. gr. laganna. Hafi þessi réttindi, á einhverjum tíma verið til staðar, séu þau því löngu fallin niður annað tveggja vegna ofangreindra laga eða vegna vangeymslu og tómlætis.
Það séu meginsjónarmið í lögum um landbúnað að landréttindi (eignarréttindi) megi ekki skiljast frá jörð. Hafi svo orðið eigi jarðeigandi rétt til að leysa til sín umrædd réttindi.
Vísist þar til laga nr. 61/2000 sbr. 9. gr. og laga nr. 64/1994, sbr. 8. gr. 2. mgr.
Um alllangan tíma hafi sauðfé í afréttum fækkað verulega. Það leiði til þess að hvorki Upprekstrarfélaginu og né stefnda sé þörf á umræddu landi, svo sem áður hafi verið.
Hafi ítaksréttindi verið til staðar, hefðist þau ekki, ekki síst með vísan til ofangreindra laga nr. 113/1952, sem hafi beinlínis verið sett til að uppræta ýmiss konar ítök í jörðum, sem farin hafi verið að íþyngja jarðareigendum á ýmsan hátt. Hefðarréttur sé ekki gildur ef hann stangist á við lög
Þá geti stefndi ekki eignast land fyrir hefð ef um landið hafi verið gildur samningur.
Þá hafi ekki verið liðin full 40 ár sem áskilin séu til að hefð kunni að hafa skapast fyrir ósýnilegum ítökum sbr. 8. gr. laga nr. 46/1905, er lög nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum tóku gildi 30. desember 1952.
Varakrafa:
Varðandi varakröfu vísast til þeirra raka sem greinir ef dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að stefndi eigi ítaksrétt í jörðinni. Þá eigi stefnandi rétt til að leysa til sín þessi réttindi samanber lög nr. 113/1952. Vísað er þar til 6. og 7. gr. laganna
Um það að viðurkennd sé sala á umræddu landi frá Króki af hálfu stefnanda árið 1995 í bréfi dagsettu 25. júlí 1995 segir stefnandi að þar sé um misskilning stefnanda að ræða. Bent sé á að stefnandi sé ekki löglærður. Þessi misskilningur stefnanda verði ekki hermdur upp á hann, sem bindandi loforð af hans hálfu eða yfirlýsingu þess eðlis. Á þessum misskilningi verði því ekki byggt, þannig að það nái til eignarréttar stefnanda og þinglýstra heimilda hans yfir öllu Krókslandi. Bent sé á skilning stefnanda á eignarrétti sínum til jarðarinnar Króks, ekki löngu síðar. Í bréfi stefnanda frá 6. nóvember 1996, til Veiðifélags Norðurár segi m.a.: "Ég fæ ekki betur séð en að ég sé þinglýstur eigandi þess lands, sem Haraldur gerir tilkall til og að öll samskipti við upprekstrarfélag Þverárréttar vegna þess komi því í minn hlut. "
Mótmælt er því sjónarmiði sem fram komi í gögnum stefnda, s.s. að stefndi geti á nokkurn hátt borið fyrir sig ljósrit af "kaupsamningi", sem sé ekki til í frumriti, óþinglýstur og óvottaður, auk óskýrleika vegna yfirstrikana og innihalds.
Stefndi beri alla sönnunarbyrði fyrir tilvist þessa samnings, gildi hans og innihaldi.
Mótmælt er að samningur um kaup á hluta jarðarinnar, eða ítaki í
jörðinni hafi komist á með umræddum samningi.
Mótmælt er að fyrir þessum samningi liggi nokkrar sannanir, s.s.
reikningar stefnda. Mótmælt er að greiðsla kr. 300, með vísan til dómskjals 13, eða annarra skjala, breyti þar nokkru um. Mótmælt er að umrætt skjal nái til ætlaðra kaupa, auk þess að vera ólæsilegt eða illlæsilegt að hluta. Umrædd og ætluð greiðsla stemmir ekki við ætlaða samningsgreiðslu, sem hefði numið kr. 200.
Þá er það í hreinu ósamræmi við málavexti og ætluð kaup, að greitt hafi verið annars vegar fyrir upprekstur og hins vegar fyrir kaup á landinu.
Lagarök:
Stefnandi vísar til þeirra meginreglna sem gilda samkvæmt eignarrétti og um réttmæti þinglýstra gagna. Vísað er til laga um þinglýsingar nr. 39/1978. Lög nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum. Lög um hefð nr. 46/1905, Lög um lax og silungsveiðar nr. 61/2000 sbr. 9. gr. Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994, sbr. 8. gr. 2. mgr. Meginreglu um sönnunarbyrði stefnda, vilji hann bera fyrir sig óþinglýst og óvottuð samningsdrög sem gilda löggerninga varðandi eignarrétt jarða.
Þá er byggt á meginreglum á sviði samninga- og kröfuréttar innan sem utan samninga.
Varðandi varnarþing vísast til 33. og 34. gr. laga 91/1991
Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum sbr. 129 og 130. gr. Bent er á að með athöfnum sínum og að virða ekki þinglýstar heimildir stefnanda, hefur stefndi komið stefnanda í þá stöðu að nauðsynlegt er að höfða mál þetta og ber stefndi því alla ábyrgð á máli þessu. Eðlilegt er að tekið sé tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.
Varðandi virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísast til laga nr. 50/1988, en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og er nauðsynlegt að fá dæmdan virðisaukaskatt á málflutningsþóknun, þar sem lögmönnum er skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.
Um málavexti tekur stefndi fram að með kaupsamningi dags. 5. ágúst 1916 hafi Brynjólfur Bjarnason keypt jörðina Krók, Norðurárdalshreppi, af sveitarfélaginu og kaupverðið verið 2.500 kr. Kaupverðið hafi verið greitt með því að kaupandi hafi yfirtekið skuld seljanda (sveitarfélagsins) við Jón Brynjólfsson kaupmann í Reykjavík ásamt áföllnum vöxtum frá 15. maí 1916. Kaupandi hafi sett jörðina Krók að veði með fyrsta veðrétti til tryggingar á greiðslu skuldarinnar. Í kaupsamninginn hafi verið sett það skilyrði af hálfu seljanda að á jörðina yrði komið býli ekki síðar en um fardaga 1918 ella yrði jörðin aftur eign seljanda fyrir sama verð. Ennfremur skyldi kaupandi selja aftur nokkurn hluta af Krókslandi skyldi Upprekstrarfélag Þverárréttar ganga fyrir kaupum á þeim hluta jarðarinnar. Sé ljóst að landið hafi átt að selja til afréttarnota og leggja það til afréttarlands upprekstrarfélagsins .
Af gögnum málsins megi ráða að Brynjólfur Bjarnason hafi verið í fjárhagserfiðleikum þegar hann keypti jörðina Krók og árin þar á eftir. Í bréfi til Davíðs Þorsteinssonar oddvita á Arnbjargarlæk dags. 27. maí 1918 komi fram að Davíð hafi lánað Brynjólfi 100 kr. veturinn þar á undan og Brynjólfur verið að greiða skuldina í maí. Þá komi jafnframt fram í bréfinu staðfesting Brynjólfs á því að hann hafi skuldbundið sig til þess að bjóða Upprekstrarfélagi Þverárréttar til kaups landspildu sem liggi frá Hellisgili ofan að Kvíslaflóa og Blesastaðagili. Vegna þessa þurfi að girða fyrir framan Króksland til að verjast ágangi og biðji Brynjólf oddvitann að hafa samband við sig vegna þessa.
Stefnda byggir sýknukröfu sína hvað varðar aðalkröfur stefnanda aðallega á því að stefnda sé eigandi að því landi sem stefnandi krefst eignarréttar yfir þ.e. hinu svokallaða afréttarlandi jarðarinnar Króks, Borgarbyggð. Þá bendi ekkert til þess að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi aðeins verið að kaupa sumarbeitarrétt með kaupsamningi dags. 26. maí 1924 og þar hafi því verið um ítak að ræða sem hafi fallið niður fyrir vanlýsingu. Af þeim sökum verði einnig að sýkna stefndu af varakröfu stefnanda.
Verði ekki fallist á að stefnda hafi keypt umrætt afréttarland árið 1924 og sé því eigandi þess er byggt á því að Upprekstrarfélag Þverárréttar og síðar stefnda hafi farið með landið og nýtt það sem sína eign, enda talið sig með réttu eiga það, í fullan hefðartíma eða allt frá árinu 1924 til dagsins í dag.
Það sé ljóst af skjalinu frá 26. maí 1924 (dómskjal nr. 27 og 12) að þar sé um kaupsamning að ræða enda beri skjalið m.a. yfirskrift þar um. Þar hafi ekki verið að ráðstafa einhverjum óbeinum eignarrétti eða ítaki eins og stefnandi vilji halda fram. Stefndi telji ljóst að það sé þessi gerningur sem gildi en ekki uppköst sem stefnandi hafi lagt fram (dómskjöl nr. 9 og 23). Dómskjal nr. 9 sé greinilega uppkast en þar hafi texti verið yfirstrikaður og annar texti settur í staðinn sem síðan sé inni í endanlega samningnum. Uppkastið á dómskjali nr. 23 sé ekki undirritað af hálfu kaupanda og því ljóst að það uppkast geti ekki haft neitt gildi. Kaupsamningurinn frá 26. maí 1924 eigi sér ákveðinn aðdraganda sem jafnframt styðji það að um kaup á landi sé að ræða en ekki eitthvað annað. Brynjólfur Bjarnason hafi keypt jörðina Krók af Norðurárdalshreppi árið 1916 og í kaupsamningi verið gert ráð fyrir því að Brynjólfur myndi selja hluta jarðarinnar aftur og þá til Upprekstrarfélags Þverárréttar. Einnig sé ljóst að Brynjólfur hafi átt í fjárhagsvandræðum eftir að hann hafi keypt Krók, sbr. bréf hans dagsett 27. maí 1918. Því hafi verið mjög eðlilegt að hann stæði við það fyrirheit að selja svokallaðan afréttarhluta Króks. Í kaupsamningnum segi að undanskilið sé vetrarbeit og slægjur en samt hafi ekki mátt styggja afréttarfénað eða verja slægjur fyrir honum. Af þessu orðalagi megi ráða að landið hafi verið var selt í þeim tilgangi að leggja það til afréttar Þverárréttarupprekstrar og nýting á slægjum, sem undanskildar hafi verið við söluna, skyldi meira að segja víkja fyrir notum kaupanda á landinu. En slægjurnar og vetrarbeitin hafi í raun verið ítak seljanda í hinu selda landi sem nú sé fallið niður.
Reikningar Upprekstrarfélags Þverárréttar fyrir árið 1924 styðji það að umrætt land í Króki hafi verið keypt af félaginu en þar séu færðar til gjalda 200 krónur og skýringin sé 1/3 af landi sem var keypt hafi verið Brynjólfi í Króki. En kaupverðið sem verið hafi 600 krónur hafi átt að greiða með þremur jöfnum greiðslum í október 1924, 1925 og 1926. En síðan hafi verið ákveðið árið 1925 að greiða eftirstöðvar kaupverðsins þ.e. 400 krónur auk vaxta og sjáist það á reikningi upprekstrarfélagsins árið 1925. Hinn 19. júní 1925 hafi Brynjólfi verið greiddar 300 krónur af þessum 400 krónum og samkvæmt kvittun seljanda sem árituð hafi verið á kaupsamninginn sé um að ræða greiðslu á ,,framanskráðu landverði.“ Þarna sé landverð nefnt og því ljóst að verið hafi verið að kaupa land en ekki eitthvað annað svo sem óbeinan eignarrétt eins og beitarrétt.
Þegar Brynjólfur hafi selt Haraldi syni sínum jörðina Krók árið 1958 hafi ekki verið minnst á landamerkjabréf fyrir jörðina heldur hafi jörðin verið seld með öllum gögnum og gæðum. Að sjálfsögðu hafi Brynjólfur vitað það að hann gat ekki selt aftur afréttarlandið sem hann hafði selt 1924 og Haraldi hefur væntanlega verið fullkunnugt um það að afréttarlandið fylgdi ekki með í kaupunum en hann hafi verið fæddur og uppalinn í Króki. Enda bendi ekkert til þess í gögnum málsins að á meðan Haraldur hafi átt jörðina hafi hann talið að hann ætti afréttarlandið. Sama sé að segja um þá tvo aðila sem átt hafi jörðina á eftir Haraldi þá Friðgeir Sörlason, sem átt hafi jörðina frá 1979-1982, og Hauk Pétursson sem átt hafi jörðina frá 1982-1989. Enginn af þessum aðilum hafi nokkurn tímann léð máls á því að þeir ættu afréttarland Króks. Skipti þar engu máli þó að í kaupsamningum Friðgeirs og Hauks hafi verið vitnað í merkjaskrá fyrir jörðina og innan þeirrar lýsingar sem þar er sé umrætt afréttarland. Það sé ljóst að Haraldur hafi ekki keypt afréttarlandið og hafi því ekki getað selt Friðgeiri það og þar sem Friðgeir hafi ekki keypt það hafi hann ekki getað selt Hauki það.
Eins og fram sé komið hafi stefnandi eignast Krók árið 1989 og af gögnum málsins megi ráða að honum hafi verið fullkunnugt um að hann hafi ekki keypt afréttarland jarðarinnar. Í bréfi hans til stjórnar Veiðifélags Norðurár dags. 25. júlí 1995 segi orðrétt: ,,Hinn 26. maí árið 1924 seldi þáverandi eigandi Króks, Brynjólfur Bjarnason, Upprekstrarfélagi Þverárréttar sneið af Krókslandi, þ.e. landspilduna frá afréttargirðingu að Hellisá. Þessa landsneið hefur kaupandinn nýtt sem afrétt.“ Þarna komi það alveg skýrt fram að stefnanda hafi verið fullkunnugt um það þegar hann eignaðist jörðina 1989 að hann hafi ekki keypt afréttarlandið. Í tilvitnuðu bréfi hans viðurkenni hann eignarrétt Upprekstrarfélags Þverárréttar og í raun haldi hann því fram sem staðreynd að svo sé. Tilkall sitt til veiðiréttar fyrir afréttarlandinu byggi stefnandi á því að þegar landið hafi verið selt hafi ekki mátt skilja veiðirétt frá jörð og bannað hafi verið að láta hann fylgja landspildum sem skipt væri út úr jörð. Þannig að viðurkenning stefnanda á því að hann eigi ekki afréttarland Króks geti ekki verið skýrari. En árið 1996 komi fram af einhverjum ástæðum sú skoðun Haraldar Brynjólfssonar að hann eigi hugsanlega vatns- og veiðiréttindi fyrir afréttarlandinu þar sem þau réttindi hafi ekki fylgt lengur með jörðinni Króki við sölu eftir að afréttarlandið hafi verið selt árið 1926. Í þessum sjónarmiðum Haraldar felist ótvíræður vitnisburður hans um að hvorki afréttarlandið eða hlunnindi því tengd hafi fylgt þegar hann hafi seldi Friðgeiri Sörlasyni jörðina Krók árið 1979. Hins vegar virðist Haraldur byggja á ódagsettu uppkasti að samningi frá í maí 1924 en það verði ekki lagt til grundvallar um þau réttindi sem eigandi Króks hafi undanskilið við sölu afréttarlandsins.
Í kaupsamningnum frá 26. maí 1924 séu vetrarbeit og slægjur undanskildar en ekki sé minnst á veiðirétt. Af því verði ekki önnur ályktun dregin en sú að veiðiréttur fyrir hinu selda afréttarlandi hafi fylgt með í kaupunum. Það hafi ekki verið fyrr en 1961 sem bakkalengd Norðurár hafi verið mæld og fyrst þá hafi áin fyrir afréttarlandinu verið metin til arðs í arðskrá Veiðifélags Norðurár. Frá 1961 og allt þar til árið 2000 þegar nýtt yfirmat hafi tekið gildi hafi Upprekstrarfélag Norðurár fengið arð fyrir afréttarlandi Króks. En þá virðist fyrir vangá eða misskilning, þvert á gögn málsins, hafa verið viðurkennt af hálfu Upprekstrarfélags Þverárréttar að stefnandi ætti tilkall til arðs af veiði fyrir afréttarlandinu sem hann eigi ekki.
Þrátt fyrir að stefnandi hafi látið það hvarfla að sér árið 1996 að hann ætti afréttarlandið hafi hann ekki haft þá skoðun alla tíð síðan. Því í yfirmatsgerð fyrir Norðurá frá 25. júní 1999 komi fram að stefnandi hafi áréttað það sjónarmið sitt, sem ítarlega hafi verið lýst fyrir undirmatsmönnum, að ,,Krókur eigi veiðirétt fyrir landspildu, sem seld var Upprekstrarfélagi Þverárréttar 1924 úr landi Króks og nær frá afréttargirðingu framan Króks að Hellisá.“ Þarna viðurkenni stefnandi það enn og aftur að hann eigi ekki afréttarland Króks. Hefði hann haldið því fram að hann ætti landið og getað sannað það hefði væntanlega ekki þurft að reifa sjónarmið um það hver ætti veiðirétt fyrir afréttarlandinu.
Því sé ljóst að stefnandi hafi ítrekað eftir að hann hafi eignast jörðina Krók árið 1989 viðurkennt að afréttarland Króks hafi verið selt árið 1924 og hann hafi aldrei átt það. Það eitt og sér ætti að nægja til þess að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Það hafi enga þýðingu þó vitnað hafi verið í merkjaskrá jarðarinnar Króks hvað landamerki jarðarinnar varðar í kaupsamningum og afsölum þegar viðskipti með jörðina hafi átt sér stað. Þeir sem eiga viðskipti með jarðir geti ekki unnið neinn rétt á grundvelli landamerkjabréfa ef í ljós kemur t.d. að innan lýstra merkja sé land sem ekki tilheyri viðkomandi jörð eins og í tilfelli Króks. Í þessu sambandi megi nefna að landamerkjabréf ein og sér veita eigendum jarða ekki rétt umfram það sem þýðing þeirra hefur. Sé t.d. lýst í landamerkjabréfi að ákveðið land sé innan landamerkja jarðar en í ljós kemur að eigandi jarðarinnar geti ekki leitt rétt sinn frá þeim sem numið hefur landið eða sannanlega náð fullkomnum eignarrétti yfir því fylgi umrætt land ekki jörðinni. Þetta hafi margoft verið staðfest í dómum og úrskurðum Óbyggðanefndar. Þannig standist tilkall stefnanda til afréttarlands Króks á grundvelli landamerkjabréfs fyrir jörðina ekki. Það hafi enginn annar en Upprekstrarfélag Þverárréttar og síðar stefnda átt afréttarland Króks síðan 1924 og af þeim sökum verði landamerkjabréf jarðarinnar Króks eitt og sér ekki lagt til grundvallar eignarrétti stefnanda fyrir afréttarlandinu. Ekki sé hægt að byggja tilkall til eignaréttar á landamerkjabréfi jarðarinnar Króks einu saman þegar öll önnur gögn sýni hið gagnstæða. Augljóst sé að þegar landamerkjabréf jarðarinnar Króks var skrifað upp eftir að gögn sýslumanns Mýra- og Borgarfjarðarsýslu brunnu árið 1920 að leitast var við að skrá merkin eins og þau komu fyrir í upprunalegu landamerkjabréfi jarðarinnar. Landamerkjabréfið hafi verið endurskrifað í júlí 1923 eða tæpu ári áður en kaupsamningur var gerður um afréttarlandið. Landamerkjabréf jarðarinnar taki því eðli máls samkvæmt ekki til þess gernings (kaupsamnings) sem síðar hafi verið gerður um kaup á afréttarlandinu. Þá hafi ekki verið litið til kaupsamningsins um afréttarlandið þegar landamerkjabréfið var skráð á manntalsþingi ári síðar enda hafi kaupunum ekki verið þinglýst á þeim tíma.
Það komi fram í fjölda gagna sem til séu að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi keypt afréttarland Króks árið 1924. Þessi gögn styðji það eindregið að fullkominn eignarréttur að afréttarlandi Króks hafi verið seldur 1924.
Eins og rakið hafi verið hafi sveitarfélög og/eða upprekstrarfélög í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum á svipuðum tíma og afréttarland Króks var keypt af Upprekstrarfélagi Þverárréttar keypt hluta ýmissa jarða sem átt hafi lönd sem lágu að afréttarlöndum sveitarfélaganna. Sé ljóst að þetta hafi verið gert til að tryggja næg afréttarlönd fyrir sveitirnar í héraðinu. Þannig sé ljóst að kaup Upprekstrarfélags Þverárréttar á afréttarlandi Króks hafi ekki verið einsdæmi. Þvert á móti styðji öll þessi kaup það að afréttarland Króks hafi verið keypt árið 1924 og eftir það verið undirorpið fullkomnum eignarrétti Upprekstrarfélags Þverárréttar og síðar stefndu.
Upprekstrarfélag Þverárréttar telur sig með réttu hafa keypt afréttarland Króks árið 1924 og síðan þá hafi félagið og síðar stefnda farið með landið sem sína eign og notað það átölulaust. Eftir kaupin 1924 hafi því fyrst verið hreyft árið 1995 að hugsanlega gæti einhver annar átt landið en það hafi verið öllum ljóst að sú fullyrðing hafi ekki staðist og því hafi ekkert verið gert með hana. Eftir það hafi Upprekstrarfélag Þverárréttar og síðar stefnda farið áfram með afréttarlandið sem sína eign og það hafi síðan ekki verið fyrr en árið 2010 sem stefnandi hafi talið allt í einu að hann ætti afréttarland Króks. Stefnandi hafi hins vegar ekki getað bent á nein haldbær gögn eða rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni. Reyndar haldi stefnandi þessu fram þvert á öll gögn málsins. Því sé ljóst hvað sem öllu líður að stefnda og áður forveri hennar hafi með réttu farið með afréttarland Króks sem sína eign í fullan hefðartíma og í raun mun lengur en það. Þannig að fari svo ólíklega að ekki verði fallist á að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi keypt afréttarland Króks árið 1924 sé ljóst að félagið og síðar stefnda hafi hefðað landið.
Þegar allt framanritað sé virt í heild sinni þykir stefndu algerlega ljóst að komin sé fram fullkomin sönnun fyrir því að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi keypt afréttarland jarðarinnar Króks árið 1924 og engin gögn sem liggi frammi í málinu bendi til annars. Telji stefnda því útilokað annað en sýkna verði hana af öllum kröfum stefnanda í málinu.
NIÐURSTAÐA
Í máli þessu liggur frammi afsal til Brynjólfs Bjarnasonar frá 5. ágúst 1916 fyrir jörðinni Króki í Norðurárdal sem var eign Norðurárdalshrepps. Segir þar að selji kaupandi nokkurn hluta af Krókslandi að þá gangi upprekstrarfélag Þverárréttar fyrir kaupum því að öllu jöfnu. Þá liggur frammi ljósrit bréfs Brynjólfs frá 27. maí 1918 þar sem Brynjólfur endurgreiðir lán ásamt vöxtum en í bréfi þessu segir: „Nú er í ráði að girða fyrir framan Króks land, en samkvæmt kaupbrjefi mínu er jeg skuldbundinn til að bjóða upprekstrarfjelagi Þverárrjettar landspildu þá er liggur frá Hellisgili ofan að Kvíslarflóa og Blesastaðagili. Þetta land hef ég lofað að gefa upprekstrarfélaginu kost á að kaupa (forkaupsrje ... ef jeg girði eða sel.“ Þessu næst liggur fyrir kaupsamningur dagsettur 26. maí 1924 undirritaður f.h. Brynjólfs af Einari Bjarnasyni sem seljanda og Davíð Þorsteinssyni fyrir upprekstrarfélag Þverárrjettar sem kaupanda en samkvæmt kaupsamningi þessum skuldbindur seljandi sig til þess að selja kaupanda allt það land af landi Króks sem þá var afréttarmegin við afréttargirðingu Norðlinga. Undanskilið er vetrarbeit og slægjur. Kaupverð var 600 krónur sem greiðast skyldi með jöfnum afborgunum tvö hundruð krónum á ári fyrir lok októbermánaðar ár hvert, fyrst 1924, síðast 1926. Vextir skyldu greiðast frá 31. október þ.á. 6%. Kaupandi skyldi fá full umráð yfir landi þessu í júlí þ.á. Á kaupsamninginn er kvittun Brynjólfs Bjarnasonar frá 19. júní 1924 fyrir 300 krónum af kaupverði. Þá liggja frammi ljósrit reikninga upprekstararfélags Þverárréttar fyrir árin 1924 og 1925 þar sem fram kemur að 1924 hafi verið greiddar 200 krónur af kaupverði lands keyptu af Brynjólfi í Króki og á árinu 1924 hafi eftirstöðvar af Krókslandi auk vaxta samtals 420 krónur verið greiddar. Lítur dómari svo á að með nefndum kaupsamningi hafi upprekstrarfélagið keypt og eignast landspildu þá sem stefnandi gerir nú tilkall til að verði dæmd eign sín.
Til þess er að líta að fram kemur í málinun að landamerkjabréf fyrir jörðina Krók sem stefnandi telur sig geta byggt á um núverandi mörk jarðar sinnar er frá 1923 þ.e. áður en Brynjólfur seldi umþrætta spildu og verður ekki fallist á það með stefnanda að við þinglýsingu á manntalsþingi 1924 hafi eignarréttur Upprekstrarfélagsins horfið aftur til Brynjólfs.
Þá er til þess að taka að í bréfi dagsettu 25. júlí 1995 til formanns Veiðifélags Norðurár segir stefnandi að hinn 26. maí 1924 hafi þáverandi eigandi Króks, Brynjólfur Bjarnason selt Upprekstrarfélagi Þverárréttar sneið af Krókslandi, þ.e. landspilduna frá afréttargirðingu að Hellisá. Þessa landssneið hafi kaupandinn nýtt sem afrétt. Loks segir eftirfarandi í Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Norðurár sem lauk hinn 2. apríl 1997: „Áréttuð eru sjónarmið, sem ítarlega var lýst fyrir undirmatsmönnum, að Krókur eigi veiðirétt fyrir landspildu, sem seld var Upprekstrarfélagi Þverárréttar 1924 úr landi Króks og nær frá afréttargirðingu framan Króks að Hellisá.“ Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að Brynjólfur Bjarnason seldi forvera Borgarbyggðar, Upprekstrarfélagi Þverárréttar, spildu þá sem stefnandi gerir kröfu til í máli þessu með kaupsamningi dagsettum 26. maí 1924. Stefnandi var sala þessi kunn a.m.k. þegar á árinu 1995 og verður ekki fallist á það að hann sé grandlaus um hana og geti byggt á því að hann hafi öðlast betri rétt en forverar hans, sem hann leiðir rétt sinn frá, áttu, er hann keypti jörðina.
Þá er þeirri málsástæðu stefnanda að einungis hafi verið um sölu á rétti til beitarafnota hafnað. Þvert á móti verður að líta svo á að seljandi hafi á sínum tíma haft slægjuítak og ítak til vetrarbeitar í hinni seldu spildu en eignarréttur hans horfið til Upprekstrarfélags Þverárréttar við kaupin.
Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda en málskostnaður milli aðila fellur niður.
Allan V. Magnússon, dómstjóri kvað upp þennan dóm.
Stefndi, Borgarbyggð, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Gunnars Jónssonar.
Málskostnaður á milli aðila fellur niður.