Hæstiréttur íslands
Mál nr. 166/2010
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Bótanefnd skv. lögum nr. 69/1995
|
Fimmtudaginn 25. nóvember 2010. |
|
|
Nr. 166/2010. |
Alexander Kendrick Alonzo (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Bótanefnd skv. lögum nr. 69/1995.
Í júlí 2006 sótti A, sem starfaði fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli, um bætur til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðsluskyldu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Sendi hann inn umsóknina í kjölfar þess að hann varð fyrir líkamsárás í Reykjanesbæ árið 2005 af hálfu G, venesúelskur ríkisborgari, sem var í héraðsdómi sakfelldur fyrir brotið. Nefndin hafnaði beiðni A þar sem hún taldi að tilvikið ætti undir 2. tl. 5. gr. laga nr. 69/1995, þar sem kveðið er á um að bætur samkvæmt lögunum skulu ekki greiddar þegar bæði tjónvaldur og tjónþoli voru þegar brot var framið um stundarsakir, eða í stuttan tíma, staddir hér á landi. A höfðaði í kjölfarið mál og krafðist þess meðal annars að ákvörðun bótanefndarinnar yrði felld úr gildi. Deildu aðilar um hvort dvöl A hér á landi hafi verið um stundarsakir eða í stuttan tíma í skilningi ákvæðis 2. tl. 5. gr. áðurgreindra laga. Ekki var ágreiningur um að dvöl G hér á landi sem ferðamaður félli undir ákvæðið. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti, kemur meðal annars fram að samkvæmt varnarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951, hafi komið skýrt fram að þeir sem kynnu að dvelja hér á landi á grundvelli samningsins hefðu lítil eða engin tengsl við landið í lagalegum skilningi. Dvöl þeirra væri eingöngu tímabundin og skapaði ekki rétt til fastrar búsetu eða heimilisfesti. A hafi verið hér á landi vegna sérstakrar atvinnu sinnar og ljóst hafi verið að þegar starfstíma hans lyki myndi hann hverfa af landi. Í tilviki A hafi dvöl hans hér á landi einungis geta talist vera dvöl um stundarsakir án sérstakra tengsla við landið og því ótvírætt að hann félli undir ákvæði 2. tl. 5. gr. laga nr. 69/1995. Var í því sýknað af kröfum A í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2010. Hann krefst þess að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota 3. október 2006 verði felld úr gildi og stefnda gert að greiða sér 3.100.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. ágúst 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2009.
Mál þetta, sem höfðað var 10. mars 2009, var dómtekið 30. nóvember sl.
Dómkröfur stefnanda, Alexander Kendrick Alonzo, eru að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 frá 3. október 2006 í máli nr. 59/2006 verði felld úr gildi og að stefnda greiði stefnanda kr. 3.100.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. ágúst 2006 til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað. Þess er krafist að tildæmdur málskostnaður beri 24,5% virðisaukaskatt.
Dómkröfur stefnda, íslenska ríkisins, eru aðallega þær, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar, en málskostnaður þá látinn niður falla.
I
Hinn 6. ágúst 2005 varð stefnandi, sem hefur bandarískt ríkisfang og starfaði í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, fyrir fólskulegri líkamsárás fyrir utan skemmtistaðinn Traffic í Reykjanesbæ. Árásarmaðurinn G, venesúelskur ríkisborgari, hlaut dóm fyrir árásina í Héraðsdómi Reykjaness þann 16. júní 2006 í málinu nr. S-335/2006 og fékk hann 18 mánaða fangelsi þar af 15 mánuði skilorðsbundna.
Með bréfi, mótteknu af bótanefnd þann 20. júlí 2006, fór Vilhjálmur Þórhallsson hrl. þess á leit fyrir hönd stefnanda að honum yrðu greiddar skaðabætur úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota vegna tjóns af völdum árásarinnar. Erindi stefnanda var hafnað í ákvörðun bótanefndar frá 3. október 2006 í máli nr. 59/2006. Forsendur þeirrar niðurstöðu voru þær að árásarmaðurinn hafi verið staddur á Íslandi sem ferðamaður þegar hann framdi brot sitt; hann teldist því hafa verið á landinu um stundarsakir. Þá hafi stefnandi verið á landinu vegna sérstakrar atvinnu sinnar og ljóst að þegar starfstíma hans lyki myndi hann hverfa af landi brot. Nefndin leit svo á að í framangreindu tilviki hafi verið um að ræða dvöl beggja aðila sem teldist vera um stundarsakir án sérstakra tengsla við landið. Nefndin taldi því að tilvikið ætti undir undantekningarákvæði 2. tl. 5. gr. laga nr. 69/1995 en samkvæmt ákvæðinu skulu bætur samkvæmt lögunum ekki greiddar þegar bæði tjónvaldur og tjónþoli voru, þegar brot var framið, um stundarsakir eða í stuttan tíma staddir hér á landi.
II
Tjónvaldur sem sé dæmdur til að greiða tjónþola hafi í fæstum tilvikum tök á að greiða bæturnar og í mörgum tilvikum sé ólíklegt að hann hafi það í náinni framtíð. Markmið laga nr. 69/1995 sé að styrkja stöðu slíkra tjónþola þannig að ríkissjóður greiði bætur fyrir líkamstjón og miska vegna tjóns sem leiði af broti á almennum hegningarlögum. Meginregla laganna, sem birtist í 1. mgr. 1. gr. þeirra, sé sú að tjónþoli eigi lögvarða kröfu til greiðslu bóta úr ríkissjóði. Stefnandi byggi á því að allar undantekningar frá þessari meginreglu beri að túlka þröngt. Stefnandi telji að lagaskilyrði fyrir bótagreiðslu á grundvelli laga nr. 69/1995 séu fyrir hendi. Því beri ríkissjóður greiðsluskyldu gagnvart honum vegna árásarinnar sem hann varð fyrir þann 6. ágúst 2005. Óumdeilt sé að árásin átti sér stað innan íslenska ríkisins og braut gegn almennum hegningarlögum. Erindi stefnanda til bótanefndarinnar hafi, eins og áður segi, verið hafnað á grundvelli þess að stefnandi og árásarmaðurinn dveldu báðir hér á landi um stundarsakir og hvorugur þeirra hefði sérstök tengsl við landið. Stefnandi telji undantekningarákvæði 2. tl. 5. gr. laga nr. 69/1995 ekki geta átt við um hann enda hafi dvöl hans hér á landi verið til langtíma og skapað sterk tengsl stefnanda við land og þjóð. Stefnandi telji að þó svo að dvöl hans hafi verið á ábyrgð bandarískra yfirvalda samkvæmt varnarsamningi þjóðanna þar að lútandi og hann því ekki þurft að fá eiginlegt dvalarleyfi samkvæmt lögum nr. 96/2002 um útlendinga sé ekki þar með sagt að stefnandi hafi verið hér um stundarsakir eða ekki haft nein sérstök tengsl við landið. Stefnandi telji að jafna megi störfum hans fyrir bandaríska varnarliðið við önnur hefðbundin störf hér á landi enda hafi bandaríska varnarliðið ekki síður starfað í þágu íslenskrar þjóðar. Samkvæmt sérstakri skipun bandaríska flughersins hafi stefnandi hafið dvöl sína hér landi þann 9. apríl 2004 og hafi henni átt að ljúka tveimur árum síðar eða þann 15. apríl 2006. Stefnandi hafi, þegar árásin átti sér stað, búið í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli í nærri hálft annað ár og því telji hann dvöl sína hér á landi langt því frá hafa verið um stundarsakir. Ljóst sé að mati stefnanda að undantekningarákvæði 2. tl. 5. gr. laganna eigi fyrst og fremst við um ferðamenn en ekki þá sem starfi hér á landi í ár eða meira eins og í tilviki stefnanda. Um það vísist til athugasemda við 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 69/1995 en þar séu ferðamenn nefndir í dæmaskyni. Í því sambandi sé bent á að samkvæmt reglugerð nr. 53/2003, sbr. 58. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sé útlendingi ekki heimilt að dvelja hér á landi lengur en í þrjá mánuði án dvalarleyfis en telja verði að slík dvöl teljist vera um stundarsakir. Stefnandi telji nokkuð ljóst að dvöl sín, sem hafði varað í um hálft annað ár þegar árásin átti sér stað, geti því ekki talist hafa verið um stundarsakir. Þá hafi tengsl stefnanda við land og þjóð verið sterk. Stefnandi hafi átt íslenska vini og kunningja og talsvert farið út fyrir varnarsvæðið eins og venja hafi verið meðal varnarliðsmanna. Í því skyni bendi stefnandi einnig á þá staðreynd að bandaríska varnarliðið hafi ávallt skipt íslenska þjóð miklu máli og þúsundir Íslendinga hafi starfað fyrir og í tengslum við það. Tengslin við landið hafi því verið mikil að mati stefnanda. Með vísan til framangreinds telji stefnandi að fallast beri á kröfu hans um að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 frá 3. október 2006 í máli nr. 59/2006 verði felld úr gildi.
Þá sé einnig gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 3.100.000 ásamt dráttarvöxtum frá 20. ágúst 2006. Samkvæmt matsgerð Sigurðar Thorlacius, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, dags. 21. apríl 2006, hafi varanleg örorka stefnanda vegna árásarinnar verið metin 10% og varanlegur miski 15%. Stefnandi hafi gert kröfu um greiðslu bóta vegna þessa fyrir bótanefndinni; kr. 5.993.921 vegna örorkunnar og kr. 949.740 vegna miskans. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota sé aftur á móti kveðið á um hámark bóta vegna einstaks verknaðar. Greiddar séu að hámarki kr. 2.500.000 vegna líkamstjóns og kr. 600.000 fyrir miska. Þar sem krafa stefnanda á hendur árásarmanninum sé hærri en sem þessu nemi miðist stefnufjárhæðin við hámark bótafjárhæðar fyrir þessa liði, eða kr. 3.100.000. Stefnandi krefjist dráttarvaxta af fjárhæðinni frá og með mánuði frá því að hann fyrst krafði bótanefnd um bætur vegna árásarinnar, sbr. áðurnefnt bréf, dags. 20. júlí 2006.
Um lagarök sé vísað til ákvæða laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, einkum 1. mgr. 1. gr. laganna. Þá sé einnig vísað til laga nr. 96/2002 um útlendinga.
Vaxtakrafa stefnanda er byggð á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Krafa stefnanda um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé gerð krafa um 24,5% virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað. Stefnandi þessa máls sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda.
III
Stefndi byggir á því að bæði tjónvaldur, G, og tjónþoli, stefnandi Alexander Kendrick Alonzo, hafi verið staddir hér á landi um stundarsakir eða stuttan tíma, í skilningi 2. tl. 5. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum þolenda afbrota, er tjónsatburður átti sér stað og eigi stefnandi því ekki rétt á bótum úr hendi stefnda.
Tjónvaldur hafi verið staddur hér á landi sem ferðamaður og því ljóst að fyrirhuguð dvöl hans hér á landi væri um stuttan tíma.
Stefnandi sé bandarískur ríkisborgari og hafi starfað hér tímabundið í her Bandaríkjanna. Hann hafi ekki verið með eiginlegt dvalarleyfi svo sem það sé skilgreint í lögum um útlendinga nr. 96/2002.
Dvöl stefnanda hafi verið á ábyrgð bandarískra yfirvalda samkvæmt varnarsamningi þjóðanna frá árinu 1951, sbr. lög nr. 110/1951 um staðfestingu hans ásamt viðauka.
Í greinargerð með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 69/1995, segi m.a. um 5. gr., að í sérstökum tilvikum eigi einstaklingar ekki rétt á bótum samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, þ.e. þegar hvorki tjónvaldur né tjónþoli hafa nein sérstök tengsl við Ísland eða eru hér staddir um stundarsakir, t.d. sem ferðamenn. Á því sé byggt m.a. með hliðsjón af framangreindri umsögn bótanefndar, að stefnandi hafi stöðu sinnar vegna hér á landi, ekki haft þau tengsl við Ísland sem áskilið sé í 2. tl. 5. gr. laga nr. 69/1995, sem til staðar þurfi að vera svo að bótaskylda/greiðsluskylda stefnda sé fyrir hendi. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda þar sem stefnandi falli ótvírætt undir ákv. 2. tl. 5. gr. laga nr. 69/1995.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu er á því byggt af hálfu stefnda að stefnukröfur beri að lækka.
Bótakröfur stefnanda í málinu séu of háar og ekki í samræmi við 7. gr. laga nr. 69/1995, sem mæli fyrir um þak á bótum.
Hámark bóta fyrir líkamstjón, sé kr. 2.500.000.- og kr. 600.000.- fyrir miska, þ.e. miska skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, en ekki varanlegan miska skv. 4. gr. laganna.
Á því sé byggt af hálfu stefnda að í 7. gr. laga nr. 69/1995 sé mælt fyrir um hámark bóta í hverju tjónstilviki, og eigi það m.a. við um vexti, sem bætist því ekki við hámarksbætur, kr. 2.500.000.-
Þess sé krafist að allar greiðslur sem stefnandi hafi þegið eða eigi rétt á vegna tjónstilviksins komi til frádráttar tildæmdum bótum, m.a. með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, með síðari breytingum, sbr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 69/1995.
Vaxtakröfum stefnanda sé mótmælt sérstaklega.
IV
Samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, eigi þeir sem verða fyrir hegningarlagabroti innan íslenska ríkisins lögvarða kröfu á hendur ríkissjóði til greiðslu skaðabóta vegna afleiðinga brotsins, samanber 1. mgr. 1. gr. laganna.
Stefnandi varð fyrir líkamsárás af hálfu G í Keflavík hinn 6. ágúst 2005 og hlaut af henni líkamstjón.
Í 2. tl. 5. gr. laganna segir að ekki skuli greiða bætur skv. lögunum í þeim tilvikum þegar bæði tjónvaldur og tjónþoli voru, þegar brot var framið, um stundarsakir eða í stuttan tíma staddir hér á landi. Í skýringum með frumvarpi að lögunum kemur fram að það eigi við um einstaklinga sem dvelji á landinu skamman tíma eða hafi ekki nein sérstök tengsl við landið. Nefnt er í skýringum að það geti til dæmis átt við ferðamenn.
Fyrir liggur að tjónvaldur er venesúelskur ríkisborgari, sem staddur var hér á landi sem ferðamaður, og er ágreiningslaust að hann hafi verið staddur hér á landi um stundarsakir. Tjónþoli, sem er bandarískur ríkisborgari, var hins vegar staddur á Íslandi vegna atvinnu sinnar þar sem hann starfaði í her Bandaríkjanna þegar brotið var framið. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort dvöl hans hér á landi teljist hafa verið um stundarsakir eða í stuttan tíma í skilningi ákvæðis 2. tl. 5. gr. laga nr. 69/1995.
Bandarískir ríkisborgarar, sem komu til landsins til að starfa í liði Bandaríkjamanna á Íslandi, fengu ekki eiginlegt dvalarleyfi eins og það er skilgreint í lögum um útlendinga nr. 96/2002. Dvöl þeirra á Íslandi var á ábyrgð bandarískra yfirvalda samkvæmt varnarsamningi þjóðanna frá 1951 og lögum nr. 110/1951 um staðfestingu hans, ásamt viðauka. Í 1. gr. viðaukans kemur fram að hermenn í liði Bandaríkjanna og starfslið, sem því fylgi, hafi hvorki fasta búsetu eða ríkisfang á Íslandi. Í 7. gr. hans segir að þeir sem ekki eru íslenskir þegnar og dveljast á Íslandi vegna starfa í eða fyrir lið Bandaríkjanna, svo og þeir sem eru í skylduliði þeirra, teljist dveljast á Íslandi um stundarsakir, enda skuli slík dvöl ekki teljast heimilisfang eða búseta og skapi ekki á neinn hátt skattskyldu til hins íslenska ríkis.
Í samningi þessum þykir koma skýrt fram að þeir sem kunni að dvelja á Íslandi á grundvelli hans hafi lítil eða engin tengsl við landið í lagalegum skilningi. Þá kemur þar fram að litið sé á dvöl þeirra sem starfa á grundvelli hans á Íslandi sem tímabundna og skapi hún þeim ekki fasta búsetu eða heimilisfesti. Það eitt verður að líta á sem forsendu þess að eiga tengsl við landið í skilningi laganna.
Stefnandi var á landinu vegna sérstakrar atvinnu sinnar, eins og að framan er rakið, og ljóst að þegar starfstíma hans lyki myndi hann hverfa af landi. Það er því mat dómsins, með hliðsjón af öllu framanröktu, að í tilviki hans hafi eingöngu verið um að ræða dvöl, sem telst vera um stundarsakir, án sérstakra tengsla við landið. Ljóst sé því að stefnandi falli ótvírætt undir ákvæði 2. tl. 5. gr. laga nr. 69/1995 og því séu ekki lagaskilyrði fyrir kröfu hans um bótagreiðslu á grundvelli laga nr. 69/1995.
Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Alexander Kendrick Alonzo, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.