Hæstiréttur íslands

Mál nr. 253/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. ágúst 2000.

Nr. 253/2000.

Björn Baldursson fyrir hönd

Aðalsteins Bjarna Björnssonar

(sjálfur)

gegn

íslenska ríkinu og

(enginn)

Rut Skúladóttur

(enginn)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

B höfðaði mál gegn R og íslenska ríkinu til ógildingar á samkomulagi um skaðabótagreiðslur íslenska ríkisins til sonar hans A. Var málinu vísað frá héraðsdómi á grundvelli þess að B væri ekki forsjáraðili A og því brysti hann heimild til að reka málið. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2000, sem sóknaraðili kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um 24. sama mánaðar, en með úrskurðinum var máli hans á hendur varnaraðilum vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði með dómi að Björn Baldursson sé forsjárforeldri Aðalsteins Bjarna Björnssonar ásamt móður hans, varnaraðilanum Rut Skúladóttur, svo og að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2000.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 20. desember sl.

Stefnandi er Björn Baldursson, kt. 290348-3239, Nesvegi 3, Höfnum vegna sonar síns Aðalsteins Bjarna Björnssonar, kt. 060187-2749.

Stefnda er Rut Skúladóttir, kt. 041058-5929, Nökkvavogi 6, Reykjavík og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs Íslands.

Dómkröfur stefnanda eru þær að samkomulag lögmannanna Jóns G. Tómassonar vegna íslenska ríkisins og Jóns S. Gunnlaugssonar vegna Aðalsteins B. Björnssonar dags. 7. janúar 1997 varðandi endanlegar skaðabótagreiðslur ríkisins til Aðalsteins B. Björnssonar verði dæmt ógilt.  Jafnframt er krafist málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefndu Rut Skúladóttur eru þær aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.  Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi Björns Baldurssonar ásamt álagi.

Af hálfu stefnda fjármálaráðherra eru þær kröfur gerðar aðallega að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi.  Til vara er krafist sýknu og í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mæti réttarins.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu að honum og Rut Skúladóttur hafi fæðst drengurinn Aðalsteinn Bjarni 6. janúar 1987.  Hann hafi nokkra daga gamall fengið bakteríumengaðan pela fyrir mistök starfsliðs spítalans á sængurkvennadeild.  Afleiðingar þessara mistaka hafi verið mjög alvarleg veikindi Aðalsteins um árabil og 90% varanleg örorka.  Frá fæðingu Aðalsteins hafi báðir foreldrar verið lögráðamenn hans.  Við brottför Björns Baldurssonar af landinu í september 1995 hafi Aðalsteinn ásamt tveimur bræðrum sínum farið til dvalar hjá stefndu Rut Skúladóttur, en áður hefðu bræðurnir aðallega dvalist hjá stefnanda Birni um árabil.  Áður en sóknaraðili hafi horfið af landi brott hafi hann sent ríkislögmanni bótakröfubréf vegna Aðalsteins.  Þar eð hvorki hafi gengið né rekið í bótakröfumálinu frá september 1995 til sama tíma á árinu 1996 og 10 ára fyrningarfrestir hafi verið á næsta leyti hafi stefnandi höfðað skaðabótamál á hendur ríkinu fyrir sig og Aðalstein Bjarna í desember 1996.  Þann 7. janúar 1997 hafi Jón Steinar Gunnlaugsson að tilhlutan Rutar Skúladóttur, stefndu, gert samkomulag við ríkislögmann Jón G. Tómasson um endanlegar bætur til handa Aðalsteini Bjarna.  Stefnanda hafi ekki verið kunnugt um samkomulagið fyrr en árinu 1998 og þá í tengslum við dómsmál, sem stefnandi hafði höfðað á hendur ríkinu í desember 1996. Fljótlega eftir komu stefnanda til landsins í september 1997 hafi komið fram sú afstaða hjá stefndu Rut Skúladóttur að hagsmunar Aðalsteins kæmu sóknaraðila ekki lengur vel.  Hafi stefnda Rut einkum skírskotað til þess að hún hefði á miðju ári 1997 stofnað til hjúskapar með Halldóri Harðarsyni og synir stefnanda þar fengið nýjan föður.  Föðurhlutverki stefnanda hafi þar með verið lokið.  Hafi Rut lýst því yfir að hún vildi ekki framar heyra sóknaraðila eða sjá.  25. nóvember 1998 hafi dómsmálaráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi og stefnda Rut færu sameiginlega með forsjá Aðalsteins. 16. júní 1999 hafi yfirlögráðandinn í Reykjavík viðurkennd forsjárréttarkröfu stefnanda.

Málsástæður stefnanda eru sagðar þær að báðir foreldrar Aðalsteins Bjarna Björnssonar hafi verið forsjárforeldrar hans á þeim tíma sem samkomulag hafi orðið um endanlegar bætur honum til handa, sem hafi verið gerðar af aðeins öðru foreldrinu, varnaraðilanum Rut Skúladóttur.  Báðum lögmönnunum sem annast hefðu gerð samkomulagsins hafi verið kunnugt um það að sóknaraðili hefði sett fram kröfu fyrir hönd Aðalsteins Bjarnar og sóknaraðili teldi rétt og skylt sem föður að annast hagsmunagæslu fyrir Aðalstein.  Báðir lögmennirnir hafi með framkomu sinni brotið mannréttindi á sóknaraðila og komið í veg fyrir að sóknaraðili fengi notið foreldraréttar og sinnt þeim skyldum sem á sóknaraðila hvíldu í uppgjörsmálinu vegna sonarins Aðalsteins Bjarna.  Til að sniðganga stefnanda hafi lögmennirnir fengið móður Aðalsteins, stefndu Rut Skúladóttur, til að gefa út ranga yfirlýsingu um réttarstöðu sína og stefnanda.  Yfirlýsingu sem sé fullkomlega andstæð yfirlýsingu varnaraðila Rutar Skúladóttur í Hæstaréttarmáli nr. 176/1991: Rut Skúladóttir gegn Lögfræðiþjónustunni hf.

Sóknaraðili telur að uppgjör ríkisins við Aðalstein Bjarna Björnsson hafi verið komið til leiðar með ólögmætum aðferðum, sem bitnað hafi á réttargæsluhagsmunum stefnanda og fjárhagslegum hagsmunum sonarins Aðalsteins Bjarna.  Af þessum sökum krafðist sóknaraðili ógildingar á samkomulagi ríkisins og móður Aðalsteins Bjarna frá 7. janúar 1997.  Stefnandi skírskotar til lögræðislaga og styður ógildingakröfu sína við 29. gr. 2. mgr. 1. ml. barnalaga nr. 22/1992 og 3. mgr. 29. gr. sömu laga svo og við 1. tl. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 2. tl. greinarinnar, en ákvæðin höfðu lagagildi hér á landi eftir setningu laga nr. 62/1994.

Í málinu liggur frammi yfirlýsing Rutar Skúladóttur dags. 6. janúar 1997, þar sem segir að vegna uppgjörs á bótakröfu Aðalsteins Bjarna Björnssonar frá 6. janúar 1987 vegna heilsutjóns er hann hafi hlotið af völdum sýkingar á vökudeild Landspítalans skömmu eftir fæðingu, þá lýsi hún því yfir að hvorki við fæðingu Aðalsteins Bjarna né síðar hafi hún verið í hjúskap eða í sambúð með föður Aðalsteins Bjarna, Birni Baldurssyni stefnanda máls þessa, né heldur hafi þau samið um að forsjá hans yfir Aðalsteini Bjarna skyldi vera sameiginleg.  Þannig færi hún ein með forsjá Aðalsteins Bjarna, sbr. 2. mgr. 30. gr. barnalaga nr. 20/1992.

Þá hefur verið lagt fram bréf sýslumannsins í Reykjavík dags. 2. júlí 1999 og þar segir að þann 17. febrúar 1999 hafi stefndu Rut Skúladóttur verið falin bráðabirgðaforsjá yfir Aðalsteini Bjarna og ennfremur liggur fyrir í málinu úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. febrúar 1999, en þar segir í úrskurðarorði að sóknaraðili, Rut Skúladóttir, skuli fara með forsjá sona sinna og varnaraðila Björns Baldurssonar, þeirra Aðalsteins Bjarna, Bergsteins Björns og Sigursteins Gísla Björnssona til bráðabirgða þar til endanlegur dómur gengur í ágreiningsmálum um forsjá þeirra.

Með úrskurði 22. mars 1999 var mál stefnanda á hendur Rut Skúladóttur, þar sem hann krafðist forsjár ofannefndra þriggja sona þeirra vísað frá dómi og verður hér á því byggt að stefnda Rut Skúladóttir fari ein með forsjá drengsins Aðalsteins Bjarna Björnssonar.

Af framangreindum gögnum verður ráðið að stefnandi er ekki forsjáraðili Aðalsteins Bjarna Björnssonar og brestur hann því heimild til þess að reka mál þetta og þykir þegar af þeirri ástæðu óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi ex officio.

Rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Málið þessu er vísað frá dómi ex officio.

Málskostnaður fellur niður.