Hæstiréttur íslands

Mál nr. 464/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sjálfræðissvipting

Reifun

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði svipt sjálfræði í 12 mánuði á grundvelli a. og b. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Miðvikudaginn 3. ágúst 2011.

Nr. 464/2011.

A

(Brynjar Níelsson hrl.)

gegn

B og

C

(Arnar Þór Jónsson hrl.)

Kærumál. Sjálfræðissvipting.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði svipt sjálfræði í 12 mánuði á grundvelli a. og b. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júlí 2011, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í 12 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá er krafist þóknunar vegna meðferð málsins fyrir Hæstarétti sem greiðist úr ríkissjóði.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og að þóknun talsmanns þeirra greiðist úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila, og Arnars Þórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs talsmanns varnaraðila, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júlí 2011.

Með beiðni, dagsettri 19. þ.m., hefur Björg Valgeirsdóttir hdl., f.h. sóknaraðila, [...], og [...], krafist þess með vísan til a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, að varnaraðili og dóttir sóknaraðila, [...], verði svipt sjálfræði í 18 mánuði en til vara í 12 mánuði, svo unnt verði að veita henni læknismeðferð við mjög alvarlegri áfengissýki og átröskun.  Er því haldið fram að högum hennar og sjúkdómi sé svo komið að hætta sé á því, að hún bíði varanlegt heilsutjón eða jafnvel bana, fái hún ekki læknismeðferð á geðdeild. Hafi hún hvorki nægilegt innsæi né dómgreind til þess að átta sig á því hversu miklu heilsutjóni hún hafi orðið fyrir né heldur til þess að taka ábyrgð á því að hún fái nauðsynlegra læknishjálp.  Um aðild sóknaraðila vísast til d- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. 

Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt.  Ekki er vefengt að hún sé haldin þessum sjúkdómum og að þeir séu hættulegir, jafnvel lífshættulegir.  Aftur á móti geri hún sér sjálf fulla grein fyrir því hvernig heilsu hennar sé farið og því skorti skilyrði 4. gr. lögræðislaga fyrir því að svipta hana sjálfræði.  Þá er áhersla lögð á það að varnaraðili eigi rétt á því, samkvæmt 7. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74, 1997, að hafna læknismeðferð.  Loks heldur hún því fram að læknismeðferð muni ekki bera árangur að henni nauðugri.

   Varnaraðili hefur verið vistuð nauðug á geðdeild samkvæmt ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 8. þ.m.  Meðal gagna málsins er staðfest vottorð X geðlæknis á Landspítala þar sem fram kemur að varnaraðili er haldin fíknisjúkdómi, einkum áfengissýki svo og átröskun, hvorri tveggja á háu stigi.  Í vætti hans og vottorði kemur framað nauðsynlegt og óhjákvæmilegt sé að veita henni samræmda langtímameðferð á geðdeild við þessum sjúkdómum.  Hafi verið margreynt að veita henni slíka meðferð utan geðdeildar en án árangurs, enda hafi hún hvorki innsæi né næga dómgreind til þess að taka slíkri meðferð frjáls, því hún fari ekki að læknisráði.  Sé því óhjákvæmilegt að hún verði svipt sjálfræði.  Álítur læknirinn hæfilegan tíma vera 12 mánuði.  Fyrir dóminn hefur einnig komið Z geðlæknir og hefur hann borið á sama veg og X.  Hann segir 12 mánuði vera lágmarkstíma í þessu efni en best væri þó að hafa sviptingartímann 18 mánuði.

Dómurinn álítur vafalaust af vætti sérfræðilæknanna tveggja að [...] sé haldin tveimur alvarlegum geðsjúkdómum og að heilsa hennar og jafnvel líf sé í hættu af þeim sökum.  Þá sé einnig sannað með vætti þeirra að hún hafi ekki fengist til þess að þiggja nauðsynlega læknishjálp við þeim þar sem hana skorti í þeim efnum sjúkdómsinnsæi og dómgreind.   Álítur dómurinn að hún sé vegna geðsjúkdóms og vímufíknar ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a- og b-liði 4. gr. lögræðislaga.  Í 1. mgr. 7.gr. laga um réttindi sjúklinga segir að virða skuli rétt sjúklings til að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð.  Aftur á móti segir í 2. mgr. þessarar greinar að ákvæði lögræðislaga gildi um samþykki fyrir meðferð sjúklinga sem vegna greindarskorts, eða af öðrum ástæðum sem þau lög tilgreina, séu ófærir um að taka ákvörðun um meðferð.  Að þessu öllu athuguðu ber að ákveða að varnaraðili, [...], skuli vera svipt sjálfræði.  Þykir sviptingartíminn vera hæfilega ákveðinn 12 mánuðir.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Bjargar Valgeirsdóttur hdl. 200.000 krónur og talsmanns varnaraðila, Brynjars Níelssonar hrl. 150.000 krónur.  Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, [...], er svipt sjálfræði í 12 mánuði.

Þóknun til skipaðra talsmanna málsaðila, Bjargar Valgeirsdóttur hdl., 200.000 krónur, og talsmanns varnaraðila, Brynjars Níelssonar hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.