Hæstiréttur íslands

Mál nr. 507/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald


Þriðjudaginn 8

 

Þriðjudaginn 8. september 2009.

Nr. 507/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Úrskurður héraðsdóms, um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. desember 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2009 var varnaraðili dæmdur til að sæta níu ára fangelsi en til frádráttar refsingunni skyldi koma að fullri dagatölu gæsluvarðhald sem hann hafi sætt frá 20. apríl 2009. Varnaraðili hefur áfrýjað dóminum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, árið 2009, fimmtudaginn 3. september.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess með vísan til 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr.  laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í Hæstarétti í máli hans en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 3. desember 2009, kl. 16.00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru dags. 9. júlí 2009 hafi dómfelldi verið ákærður fyrir að hafa flutt til landsins í félagi við fimm aðra einstaklinga fíkniefni ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Þáttur dómfellda hafi verið talinn vera sá að sigla með efnin áleiðis til Íslands og afhenda þau áfram í því skyni að þeim yrði komið áfram til landsins.

Ætlað brot dómfellda hafi í ákæru verið talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu varði fangelsi allt að 12 árum.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 6. ágúst sl. hafi dómfelldi verið sakfellur samkvæmt ákæru. Niðurstaða dómsins hafi verið sú að dómfelldi hafi verið dæmdur í 9 ára fangelsi og hafi hann áfrýjað málinu til Hæstaréttar.

Dómfelldi hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 21. apríl til 23. júní  sl. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 en síðan þá á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-362/2009.

Hæstiréttur hafi ítrekað endurskoðað úrskurði héraðsdóms um að dómfelldi skuli sæta gæsluvarðhaldi, síðast úrskurð í máli R-321/2009. Hæstiréttur hafi staðfest þá niðurstöðu héraðsdóms, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 391/2009, eins og í öðrum tilvikum.

Með vísan til 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og á grundvelli dóms þyki nauðsynlegt vegna almanna­hagsmuna að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gangi í máli hans. Með vísan til framangreinds sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 6. ágúst 2009 í sakamálinu nr. S-766/2009, var dómfelldi sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og dæmdur til að sæta níu ára fangelsi. Hefur hann áfrýjað dóminum til Hæstaréttar.

Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með tilliti til þess og með því að skilyrði 3. mgr. 97. gr. eru uppfyllt, verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Dómfelldi, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í Hæstarétti í máli hans en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 3. desember 2009, kl. 16.00.