Hæstiréttur íslands
Mál nr. 670/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 28. desember 2007. |
|
Nr. 670/2007. |
Ákæruvaldið (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 106. gr. sömu laga, var staðfestur, en gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti, þó eigi lengur en til mánudagsins 31. mars 2008, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi frá 11. september 2006 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þann 4. desember sl. var hann dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar og jafnframt úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stæði, þó eigi lengur en til 1. janúar 2008. Varnaraðili lýsti yfir áfrýjun málsins 13. desember 2007 og var áfrýjunarstefna gefin út 18. sama mánaðar. Ríkissaksóknari fól lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að gera kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald varnaraðila meðan mál hans væri til meðferðar fyrir Hæstarétti og var krafa þess efnis tekin til greina með hinum kærða úrskurði. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest að skilyrði séu fyrir hendi til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi, en með hliðsjón af því hve rík skylda er til að hraða málsmeðferð þegar sakborningur sætir gæsluvarðhaldi þykja ekki efni til að marka því lengri tíma en greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 29. febrúar 2008 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], með dvalarstað að [heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til mánudagsins 31. mars 2008, kl. 16.00.
Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að þann 11. september sl. hafi dómfellda verið gert, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, að sæta gæsluvarðhaldi til 6. nóvember sl. á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Hafi úrskurðurinn verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 477/2007. Þann 6. nóvember hafi varðhaldinu verið framlengt til 4. desember með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-587/2007, sem hafi svo aftur verið framlengt með úrskurði nr. R-637/2007 til 1. janúar nk. kl. 14 og þá með skírskotun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Þann 6. nóvember hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðað opinbert mál á hendur dómfellda með útgáfu ákæru. Hafi dómfellda verið gefið að sök að hafa á tímabilinu 11. júní til 11. september framið fimm auðgunarbrot, eina nytjatöku, þrjú fíkniefnalagabrot og þrjú umferðarlagabrot. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-1759/2007, sem kveðinn hafi verið upp 4. desember sl., hafi dómfelldi hlotið 12 mánaða fangelsisrefsingu fyrir ofangreind brot. Dómfelldi hafi nú áfrýjað þessum dómi til Hæstaréttar Íslands.
Dómfelldi eigi að baki langan sakarferil sem hafi verið nær óslitinn frá árinu 1985. Þann 5. september 2006 hafi hann hlotið 12 mánaða fangelsisdóm fyrir auðgunarbrot og akstur sviptur ökuréttindum, og hafi hann lokið afplánun þess dóms 3. ágúst sl. Þá hafi hann strokið úr afplánun 9. júní uns hann var handsamaður af lögreglu 22. júní. Öll þau brot sem dómfelldi hafi verið sakfelldur fyrir í dóminum 4. desember hafi annars vegar verið framin á tímabilinu 9. til 22. júní og hins vegar eftir 3. ágúst sl.
Í ljósi brotaferils dómfellda síðustu misseri séu yfirgnæfandi líkur fyrir því að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Við rannsókn mála hans hafi komið í ljós að hann hafi verið atvinnu- og húsnæðislaus og í mikilli neyslu fíkniefna. Það megi því ætla að hann framfleyti sér með afbrotum.
Það sé mat ríkissaksóknara, sbr. meðfylgjandi bréf hans dags. í dag, að nauðsynlegt sé að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Þá liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt. Ekkert hafi komið fram í málinu sem breytt geti því mati.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, og frá 4. desember sl. einnig með vísan til 106. gr. sömu laga, vegna afbrota sem hann var sakfelldur fyrir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 4. desember sl. Var honum þá gert að sæta 12 mánaða fangelsi en frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 11. september 2007. Dómfelldi tók sér fjögurra vikna frest til ákvörðunar um áfrýjun. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laganna stendur. Fyrir dóminn hefur verið lagt fram ljósrit yfirlýsingar dómfellda til ríkissaksóknara, dags. 13. desember sl., um áfrýjun dómsins og ljósrit áfrýjunarstefnu ríkissaksóknara, dags. 18. desember sl. Skilyrðum c-liðs 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fullnægt til þess að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 106. gr. laganna meðan mál hans er til meðferðar hjá ríkissaksóknara og fyrir æðra dómi, en yfirlýsing hans um áfrýjun framangreinds dóms bindur ekki ein sér enda á gæsluvarðhald yfir honum. Samkvæmt þessu verður krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómfelldi, X, [kt.], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til mánudagsins 31. mars 2008, kl. 16.00.