Hæstiréttur íslands
Mál nr. 140/1999
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Sekt
- Vararefsing
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 1999. |
|
Nr. 140/1999. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Sigurði Ingvarssyni (Sigurður Gizurarson hrl.) |
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Vararefsing. Skilorð.
S var ákærður fyrir að hafa ekki sem framkvæmdastjóri og varastjórnarmaður einkahlutafélags staðið skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur hafði verið í nafni félagsins, að fjárhæð 5.493.008 krónur og að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins að fjárhæð 2.817.109 krónur. S játaði háttsemina og var sakfelldur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í lögum um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda er kveðið á um lágmarks- og margfeldissektir og skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri skattafjárhæðinni. Þótti ekki fært að verða við kröfu S um að við ákvörðun fésektar hans yrði farið niður fyrir lögbundið lágmark með stoð í 1. mgr. 51. gr. almennra hegningarlaga. Var hann dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og greiðslu sektar, sem samsvaraði tvöfaldri skattfjárhæðinni, en til vararefsingar yrði sektin ekki greidd innan tilskilins tíma.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Arnljótur Björnsson og Sigurður Líndal prófessor.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 1999 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
I.
Í máli þessu er ákærði sóttur til refsingar meðal annars fyrir brot á 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er vísað til þess í málatilbúnaði ákæruvalds fyrir Hæstarétti að öll fjárhæðin, sem ákærði stóð ekki skil á, 8.310.117 krónur, hafi fallið í gjalddaga eftir gildistöku laga nr. 42/1995 um breyting á refsiákvæðum nokkurra skattalaga og breytingu á 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem gerð hafi verið með lögum nr. 39/1995. Með 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995 sé kveðið á um að fésektir skuli nema allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð, sem vanrækt var að greiða, og að sekt skuli aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Telur ákæruvaldið að sekt, sem ákærði hafi unnið til, verði ekki lækkuð með heimild í 1. mgr. 51. gr. almennra hegningarlaga, svo sem héraðsdómari hafi gert.
Í málsvörn ákærða er því meðal annars lýst að löggjafarvald á Íslandi sé komið út í öfgar með þeim harkalegu fésektarákvæðum, sem kveðið sé á um í skattalögum. Sé að því leyti gengið mun lengra hér á landi en í Danmörku og Noregi, þar sem önnur viðhorf ríki um sektarrefsingar. Fésekt hafi jafnan að forsendu fjárhagslegt bolmagn dómþola til að greiða sekt. Komi fram í 1. mgr. 51. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 140/1998, að dómari skuli, þegar hann ákveður fjárhæð sektar, hafa hliðsjón af tekjum og eignum sakbornings og öðrum atriðum, sem áhrif hafi á greiðslugetu hans. Tekjur ákærða séu lágar og eignir litlar og óhugsandi að hann geti greitt sekt, sem ákveðin yrði eftir fyrirmælum laga nr. 42/1995 án þess að taka jafnframt tillit til aðstæðna hans. Megi ætla að þau takmörk, sem sett séu á fjárhæð sekta í 50. gr. almennra hegningarlaga taki mið af því hvað unnt sé að leggja á venjulegan borgara án þess að fésektakerfi þeirra laga verði að hreinum óskapnaði. Leiði hvorki skynsemi né réttlæti til þess að meginreglur í V. kafla almennra hegningarlaga verði virtar að vettugi þegar refsing sé ákveðin í málum vegna brota á skattalögum.
II.
Lög nr. 42/1995 hafa að geyma sambærilegar reglur um lágmarks- og margfeldissektir að því er varðar tekju- og eignarskatt í 1. gr., staðgreiðslu opinberra gjalda í 2. gr. og virðisaukaskatt í 3. gr. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi er varð að þessum lögum, kemur meðal annars fram að með frumvarpinu og öðru frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum sé stefnt að því að gera öflugt átak gegn brotum á skattalögum og lögum um bókhald. Felist mikilvæg breyting í ákvæði um lágmarkssektir. Er því jafnframt lýst, að þar sem um margfeldissektir sé að ræða sé yfirleitt ekki ætlast til að almennar refsilækkunarheimildir séu nýttar til að færa sektir niður fyrir það lögbundna lágmark, sem í frumvarpinu sé lýst. Slík lækkun sé þó sjálfsagt heimil í hreinum undantekningartilvikum. Aðrar refsiákvörðunarreglur, svo sem sú regla að hafa hliðsjón af greiðslugetu sökunautar eða efnahag, sbr. 51. gr. almennra hegningarlaga, eigi oft ekki við og stundum alls ekki.
Eins og lög nr. 45/1987 og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995 skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Orðalag laganna er afdráttarlaust að því er varðar lágmark sekta. Í ljósi alls þess, sem að framan er rakið, þykir ekki fært að verða við kröfu ákærða um að fésekt hans verði ákveðin þannig að farið sé niður fyrir lögbundið lágmark með stoð í 1. mgr. 51. gr. almennra hegningarlaga. Verður refsing hans ákveðin þannig, að staðfest verður niðurstaða héraðsdóms um fangelsisrefsingu og ákærði jafnframt dæmdur til að greiða í ríkissjóð 16.625.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms. Skal ákærði ella sæta fangelsi í átta mánuði frá uppsögu dómsins. Er vararefsing ákveðin með sama hætti og í dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999 í máli nr. 327/1998.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vara óraskað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærða, Sigurðar Ingvarssonar, og um skilorðsbindingu refsingarinnar skal vera óraskað.
Ákærði greiði í ríkissjóð 16.625.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í átta mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Gizurarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 1999.
Ár 1999, fimmtudaginn 4. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hjördísi Hákonardóttur héraðsdómara kveðinn upp svohljóðandi dómur í sakamálinu nr. 959/1998: Ákæruvaldið gegn Sigurði Ingvarssyni.
Mál þetta sem dómtekið var 28. janúar sl. er höfðað með ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 7. október sl. á hendur Sigurði Ingvarssyni, Fannafold 111, Reykjavík, kt. 080557-2139.
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærða, sem framkvæmdastjóra og varastjórnarmanni Sigurverks ehf., kt. 701294-3359, sem úrskurðað var gjaldþrota 3. desember 1997, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni Sigurverks ehf. á árunum 1995 og 1996 samtals að fjárhæð 5.493.008 og sundurliðast sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil: |
|
|
|
Árið 1995 |
|
|
|
Nóvember - desember |
kr. 649.471 |
kr. 649.471 |
|
Árið 1996 |
|
|
|
Janúar - febrúar |
kr. 245.482 |
|
|
Mars - apríl |
kr. 484.936 |
|
|
Maí - júní |
kr. 1.257.890 |
|
|
September - október |
kr. 2.250.608 |
|
|
Nóvember - desember |
kr. 604.621 |
kr. 4.843.537 |
|
Samtals: |
|
kr. 5.493.008 |
Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Þá er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Gjaldheimtunni í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Sigurverks ehf. á árinu 1996, samtals að fjárhæð kr. 2.817.109 og sundurliðast sem hér segir:
|
Greiðslutímabil: |
|
|
|
Árið 1996 |
|
|
|
Júlí |
kr. 1.345.284 |
|
|
Ágúst |
kr. 443.868 |
|
|
September |
kr. 394.554 |
|
|
Október |
kr. 337.657 |
|
|
Nóvember |
kr. 178.764 |
|
|
Desember |
kr.116.982 |
kr. 2.817.109 |
|
Samtals: |
|
kr.2.817.109 |
Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.
Ákærði játaði skýlaust brot sitt samkvæmt ákærunni er hann kom fyrir dóminn og var farið með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991. Var það tekið til dóms samdægurs án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um atriði er kynnu að hafa áhrif á ákvörðun viðurlaga. Síðar var málið endurupptekið og lögð fram gögn til upplýsingar um fjárhagsstöðu ákærða.
Ákærði kveður fyrirtækið Sigurverk ehf. vera verktakafyrirtæki. Kveður hann mikið tap hafa orðið á einu verki sem það hafi verið með og fjárhagur fyrirtækisins farið úr skorðum við það. Kvaðst hann hafa látið ganga fyrir öðru að greiða starfsmönnum laun, og hafi ekki verið til fjármunir til að standa skil á greiðslum virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Þeir fjármunir sem vangoldnir séu hafi farið í rekstur fyrirtækisins, en ekki til einkanota hans. Fyrirtækið Sigurverk ehf. var úrskurðað gjaldþrota hinn 3. desember 1997. Samkvæmt upplýsingum skiptastjóra námu lýstar kröfur kr. 48.064.145 og var hinn 25. ágúst sl. ekki útlit fyrir að neitt fengist upp í þær. Virðisaukaskattskýrslum og staðgreiðsluskilagreinum var skilað án greiðslu og ekki á lögskipuðum tíma.
Samkvæmt staðfestum skattframtölum ákærða námu skuldir hans í árslok 1996 kr. 17.269.210, en í árslok 1997 kr. 10.026.333. Eignastaða er svipuð, fasteign að fasteignamati 1997 kr. 12.113.000 og bifreið. Launatekjur ákærða árið 1997 eru taldar kr. 850.000 frá hinu gjaldþrota fyrirtæki, en voru árið 1996 taldar kr. 2.173.566. Launatekjur maka árið 1997 eru taldar kr. 850.778, en voru árið 1996 kr. 478.780. Þau eru með þrjú börn undir 18 ára aldri á framfæri sínu.
Ákærði var framkvæmdastjóri fyrirtækisins og bar ábyrgð því að standa skil á hinum lögmæltu gjöldum og þeirri ákvörðun að greiða þau ekki. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og er sannað að hann er sekur um háttsemi þá sem honum er gefin að sök. Brotin eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru að öðru leyti en því að 262. gr. almennra hegningarlaga þykir eiga við um heildarbrotið og ekki við II. ákærulið einan sér.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Hann hefur lýst því að hann hafi þegar greitt mikið sjálfur vegna gjaldþrots fyrirtækisins og samkvæmt skattframtali hans eru skuldir frá rekstri Sigurverks taldar kr. 8.289.333 í árslok 1997. Ákærði hefur skýrt skilmerkilega frá málavöxtum og hefur ekki leynt brotunum. Ljóst þykir að viss áhætta fylgi verktakastarfsemi. Tekjur hans og maka á síðasta ári voru lágar en framfærslubyrði talsverð. Telur dómurinn að hér séu forsendur til að beita 1. mgr. 51. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingar í tvö ár frá birtingu dóms þessa og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði skal einnig greiða kr. 4.000.000 í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í átta mánuði verði sektin ekki greidd innan þess tíma.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað þar með talda málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns Sigurðar Gizurarsonar hæstaréttarlögmanns kr. 30.000.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Sigurður Ingvarsson, skal sæta fjögurra mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingar í tvö ár frá birtingu dóms þessa og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr almennra hegningarlaga.
Ákærði skal greiða kr. 4.000.000 í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í átta mánuði verði sektin ekki greidd innan þess tíma.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda málflutningsþóknun til skipaðs verjanda síns, Sigurðar Gizurarsonar hæstaréttarlögmanns, kr. 30.000.