Hæstiréttur íslands

Mál nr. 339/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 31. maí 2011.

Nr. 339/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. júní 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], skuli sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 22. júní 2011 kl. 16.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að um kl. 16 í gær hafi verið óskað eftir lögreglu að [...], vegna tilkynningar um að búið væri að spenna upp glugga á suðurhlið íbúðarinnar. Komið hafi fram að tilkynnandi hafi séð tvo aðila ganga frá íbúðinni. Þarna hafi herbergisgluggi verið spenntur upp og fartölvu og ipod stolið.

Á meðan lögregla hafi verið á vettvangi hafi tilkynnandi komið og lýst aðilunum sem hann hafi séð. Annars vegar [...], [...], u.þ.b [...] cm, með svarta húfu með skyggni, klæddan svörtum jakka og svörtum buxum og hins vegar kvenmanni eða karlmanni, [...] cm, með [...], með [...], bleikum/rauðum jakka og grænum hermannabuxum.

Skömmu síðar hafi borist tilkynning um að aðilarnir sem sést hafi við [...], væru nú staddir við Fákafen á leið í [...]. Lögreglubifreiðar í nágrenninu hafi farið á vettvang. Þarna hafi verið á ferðinni kærði, X, og Y. X og Y hafi passað við lýsinguna og verið handtekin fyrir utan [...] í Fákafeni. Y hafi verið með bakpoka meðferðis og í bakpokanum hafi fundist m.a. tveir DVD mynddiskar og grár Ipod.

Við handtökuna hafi X verið með svarta húfu með skyggni og klæddur svörtum jakka með grænum röndum og svörtum buxum. Y hafi verið með hvíta húfu og klædd í rauða hettupeysu og grænar hermannabuxur.

Við yfirheyrslu hefur kærði játað sök.

Auk þessa máls sé kærði sterklega grunaður um eftirfarandi brot framin í apríl og maí 2011:

Mál 007-2011-30131

Kærði grunaður um gripdeild, með því að hafa fimmtudaginn 19. maí farið inn í verslun [...], [...] í Reykjavík, opnað þar áfengisflösku og drukkið úr henni. Við yfirheyrslu hefur kærði játað sök.

Mál 007-2011-29940

Kærði er grunaður um eignaspjöll, með því að hafa á tímabilinu 18.-19. maí farið inn í bifreiðina [...], þar sem hún stóð á bifreiðastæði við [...] í Reykjavík, og ollið á henni skemmdum. Við yfirheyrslu hefur kærði játað sök.

Mál 007-2011-29667

Kærði er grunaður um þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 17. maí, í félagi við konu, farið inn í bílskúr við [...] í Reykjavík og stolið þaðan leðurjakka, flakkara, fartölvu, armbandsúri, rakvél og hringjum. Við yfirheyrslu bar kærði við minnisleysi. Lýsing vitna komi hins vegar heim og saman við kærða og samverkakonu hans, auk þess sem kærði var með leðurjakkann við handtöku.

Mál 007-2011-30323

Kærði er grunaður um þjófnað, með því að hafa mánudaginn 16. maí, í félagi við konu, í verslun [...] við [...] í Kópavogi, stolið áfengisflösku að verðmæti 3.565 krónur. Við yfirheyrslu hefur kærði játað að hafa verið með umræddri konu í umrætt sinn en segist hafa haldið að hún hefði keypt flöskuna.

Mál 007-2011-28149

Kærði er grunaður um þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 11. maí farið inn í íbúð við [...] í Reykjavík og stolið þaðan farsíma, húslyklum, greiðslukortum og ökuskírteini. Við yfirheyrslu kveðst kærði ekki muna eftir þjófnaðinum, hvorki játar né neitar. Við handtöku í öðru máli fundust munir úr innbrotinu á kærða.

Mál 007-2011-28093

Kærði er grunaður um nytjastuld og eignaspjöll, með því að hafa miðvikudaginn 11. maí, í heimildarleysi, tekið bifreiðina [...] til eigin nota og ekið henni um götur borgarinnar uns lögregla stöðvaði för hans við verslun [...] í [...9 í Kópavogi þar sem kærði olli skemmdum á bifreiðinni og öðrum bifreiðum sem þar voru. Við yfirheyrslu hefur kærði játað aksturinn.

Mál 007-2011-28093

Kærði er grunaður um fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 11. maí, í bifreiðinni [...] þar sem hún stóð á bifreiðastæði við [...] í Kópavogi, haft í vörslum sínum 1,89 g af kannabisefni.

Mál 007-2011-27498

Kærði er grunaður um þjófnað, með því að hafa mánudaginn 9. maí, í verslun [...] í Smáralind, Kópavogi, stolið vörum að verðmæti 3.742 krónur. Við yfirheyrslu hefur kærði játað sök.

Mál 007-2011-26833

Kærði er grunaður um nytjastuld, með því að hafa föstudaginn 6. maí, í félagi við aðra konu og í heimildarleysi, tekið bifreiðina [...], þar sem hún stóð við [...] í Reykjavík, til eigin nota og ekið henni um götur borgarinnar. Við yfirheyrslu hefur kærði játað aksturinn.

Mál 007-2011-26833

Kærði er grunaður um eftirfarandi hlutdeild í fjársvikum, með því að hafa notið góðs af fjársvikum samverkakonu sinnar í nytjastuldinum þann 6. maí, en í bifreiðinni voru greiðslukort sem hún notaði til að svíkja út vörur og selja fyrir fíkniefni. Kærði fékk m.a. sígarettur og jafnframt fíkniefni sem keypt höfðu verið fyrir vörur sem sviknar voru út.

Mál 007-2011-24752

Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa miðvikudaginn 27. apríl, í félagi við konu, reynt að brjótast inn í einbýlishúsið við [...] í Reykjavík, en horfið frá. Við yfirheyrslu hefur kærði neitað sök, en samverkakona hans játað sök og sagt kærða hafa verið með sér í umrætt sinn. Klæðnaður beggja við handtöku passar jafnframt við lýsingu vitna.

Mál 007-2011-24752

Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa miðvikudaginn 27. apríl, í félagi við konu, reynt að brjótast inn í einbýlishúsið við [...] í Reykjavík, en horfið frá er þau urðu húsráðanda vör. Við yfirheyrslu hefur kærði neitað sök, en samverkakona hans játað sök og sagt kærða hafa verið með sér í umrætt sinn. Klæðnaður beggja við handtöku passar jafnframt við lýsingu vitna auk þess sem húsráðandi hefur bent á kærða í myndsakbendingu.

Mál 007-2011-23200

Kærði er grunaður um þjófnað, með því að hafa mánudaginn 18. apríl, í verslun [...] í Kringlunni, Reykjavík, stolið vörum að verðmæti 18.171 króna. Við yfirheyrslu hefur kærði játað sök.

Mál 007-2011-29752

Kærði er grunaður um þjófnað, með því að hafa mánudaginn 18. apríl, í verslun [...] við [...] í Kópavogi, stolið tveimur áfengisflöskum, þó með klukkustundar millibili. Við yfirheyrslu hefur kærði játað sök.

Mál 007-2011-22730

Kærði er grunaður um húsbrot, með því að hafa laugardaginn 16. apríl, í félagi við konu, í heimildarleysi, farið inn í þvottahús í kjallara við [...] í Reykjavík, með því að spenna upp glugga. Við yfirheyrslu hefur kærði játað sök.

Hinn 25. febrúar sl. var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. sml. til 24. mars vegna fjölmargra auðgunarbrota. Gæsluvarðhaldið var framlengt þann 24. mars um tvær vikur en kærða var að því loknu sleppt þar sem ekki tókst að gefa út ákæru áður en gæsluvarðhaldinu lauk. Að baki þeirri kröfu lágu neðangreind 13 mál sem kærði er sterklega grunaður um aðild að, en þau áttu sér stað á tímabilinu 10. janúar til 24. febrúar:

  1. Mál lögreglu nr. 033-2011-625

Fyrir fjársvik, með því að hafa á tímabilinu frá mánudeginum 10. janúar til 19. janúar 2011, í félagi við Y, kt. [...], notað í 11 skipti í heimildarleysi greiðslukort í eigu B, kt. [...], til að greiða fyrir vörur að samtals verðmæti 33.150 kr. Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi kærði að hafa notað kortið í umrædd skipti.

  1. Mál lögreglu nr. 033-2011-573

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 16. janúar 2011 stolið tveimur tölvuflökkurum af gerðinni ACIE og ABIGS á heimili C, kt. [...], að [...] í Reykjavík. Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi kærði að hafa stolið einum flakkara. 

  1. Mál lögreglu nr. 033-2011-562

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 23. janúar 2011 brotist inn í sumarhús við [...] í Grímsnesi, með því að spenna upp hurð í húsnæðinu með kúbeini og stolið þaðan borvél af gerðinni Boss að verðmæti 70.000 kr. og Phillips sjónvarpstæki að verðmæti um 125.000 kr.

  1. Mál lögreglu nr. 033-2011-555

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 23. janúar 2011 brotist inn í sumarhús við [...] í Grímsnesi, með því að spenna upp hurð í húsnæðinu með kúbeini og stolið þaðan verkfæratösku og borvél af gerðinni Dewalt, samtals að verðmæti kr. 139.000. Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi kærði að hafa stolið umræddri borvél.

  1. Mál lögreglu nr. 007-2011-5271

Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 24. janúar 2011 tekið skyrtu og rakvél, að samtals verðmæti 18.989 kr., í verslun [...] í Smáralind í Kópavogi, stungið vörunum inn á sig og gengið út án þess að greiða fyrir þær.

  1. Mál lögreglu nr. 007-2011-5326

Fyrir þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 25. janúar 2011 tekið Durex Gel Heat og Durex gleðihring, að samtals verðmæti 1.959 kr., í verslun [...] í Skeifunni í Reykjavík, stungið vörunum inn á sig og gengið út án þess að greiða fyrir þær.

  1. Mál lögreglu nr. 033-2011-571

Fyrir gripdeild, með því að hafa þriðjudaginn 25. janúar 2011 í verslun [...] við Austurveg á Selfossi tekið rifjasteik og ensk-íslenska orðabók, samtals að verðmæti kr. 17.166, og hlaupið með vörurnar út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær. Kærði var handtekinn á vettvangi og viðurkenndi verknaðinn.

  1. Mál lögreglu nr. 007-2011-8316

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 6. febrúar 2011 stolið nautalundum að verðmæti 4.707 kr. úr verslun [...] við [...] í Reykjavík.

  1. Mál lögreglu nr. 033-2011-1243

Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 21. febrúar 2011 fengið bifreiðina [...] lánaða til reynsluaksturs hjá bílasölunni [...] við [...] á Selfossi en í heimildarleysi og til eigin nota ekið bifreiðinni áleiðis til Reykjavíkur en lögregla handtók kærða ásamt samverkamönnum við Litlu Kaffistofuna eftir að bifreiðin hafði bilað. Kærði er einnig grunaður akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna en hann viðurkenndi neyslu skömmu áður en beðið er niðurstöðu blóðsýnarannsóknar.

  1. Mál lögreglu nr. 033-2011-1255

Fyrir þjófnað og gripdeild, með því að hafa mánudaginn 21. febrúar 2011 í verslun [...] við [...] í Hveragerði stolið þremur pökkum af rakvélablöðum að andvirði kr. 6.585, með því að taka vörurnar og setja þær í úlpuvasa og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar og með því að hafa dælt eldsneyti á bifreiðina [...] að andvirði kr. 6.500 og ekið á brott án þess að hafa greitt fyrir eldsneytið.

  1. Mál lögreglu nr. 033-2011-1262

Fyrir eignaspjöll, með því að hafa mánudaginn 21. febrúar 2011 á lögreglustöðinni á Selfossi eyðilagt fangadýnu með því að rífa hana í sundur og skilað af sér þvagi yfir dýnuna.

  1. Mál lögreglu nr. 007-2011-11056

Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 23. febrúar 2011, í félagi við Z, kt. [...], brotist inn í Auglýsingastofuna [...] við [...] í Reykjavík, með því að hafa brotið rúðu í húsnæðinu og stolið þaðan Dell fartölvu og iMac tölvu að verðmæti 300.000 kr.

  1. Mál lögreglu nr. 007-2011-11438

Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa miðvikudaginn 23. febrúar 2011, í auðgunarskyni farið inn um ólæstan glugga á íbúð að [...] í Reykjavík í þeim tilgangi að verða sér út um verðmæti sem kærði hugðist koma í verð til að verða sér út um peninga.

Kærði eigi að baki langan sakarferil sem nái allt aftur til ársins 1990 og hafi hann á þeim tíma hlotið 31 refsidóm vegna ýmissa brota. Stór hluti þessara dóma sé vegna auðgunarbrota eða skjalabrota sem tengist fíkniefnaneyslu kærða. Nú síðast hafi kærði hlotið 12 mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 1. desember 2008 vegna tilraunar til ráns og árásar á opinberan starfsmann, sjá dóm nr. S-1340/2008. Kærða hafi verið veitt reynslulausn 26. nóvember 2009 í 2 ár á eftirstöðvum refsingar á 317 dögum. Kærði hafi hinsvegar ekki staðist reynslulausnina og hafi hafið afplánun eftirstöðvanna hinn 31. janúar 2010. Kærði hafi lokið afplánun hinn 14. desember 2010 og nú sé kærði sterklega grunaður í ofangreindum málum.

Þá liggi fyrir, að mati lögreglu, verði kærði fundinn sekur fyrir ofangreind brot muni hann fá óskilorðsbundna fangelsisrefsingu.

Við rannsókn mála kærða hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu fíkniefna og án atvinnu. Með vísan til samfellds brotaferils kærða, sem hafi færst mjög í aukanna á síðustu dögum sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Eins og að framan er rakið vinnur lögregla að rannsókn fjölmargra brota sem kærði er grunaður um að eiga aðild að. Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem getur varðað hann fangelsisrefsingu. Þegar virtur er fjöldi þeirra brota sem grunur leikur á að kærði hafi gerst sekur um á síðustu mánuðum verður að fallast á það með lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni halda áfram brotastarfsemi verði hann frjáls ferða sinna. Eru því uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og er því krafa um gæsluvarðhald tekin til greina. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.     

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 22. júní 2011 kl. 16.