Hæstiréttur íslands

Mál nr. 335/2008


Lykilorð

  • Umferðarlagabrot
  • Fíkniefnalagabrot
  • Hegningarauki
  • Ölvunarakstur
  • Ökuréttarsvipting
  • Fésekt
  • Skilorð
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. desember 2008.

Nr. 335/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

Friðþóri Erni Kristinssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Umferðarlagabrot. Fíkniefnalagabrot. Hegningarauki. Ölvunarakstur. Ökuréttarsvipting. Fésekt. Skilorð. Skaðabætur.

 

F var sakfelldur fyrir þjófnað með því að hafa stolið tveimur leikjatölvum og fyrir að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna í tvígang og í síðara skiptið einnig undir áhrifum áfengis. F var dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði en fullnustu fimm mánaða refsingarinnar var frestað. Þá var F dæmdur til greiðslu 250.000 króna sektar og sviptur ökurétti í þrjú ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar  Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. maí 2008 af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á sektarrefsingu og hann verði sviptur ökurétti um lengri tíma en gert var í hinum áfrýjaða dómi. 

Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.   

Brotaferill ákærða er nægilega rakinn í héraðsdómi. Þess ber einnig að geta að ákærði var dæmdur 4. júlí 2008 í Héraðsdómi Norðurlands eystra í 100.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot, umferðalagabrot og þjófnað.

Í annarri ákæru málsins er ákærða gefið að sök að hafa í tvö skipti, annars vegar 22. desember 2007 og hins vegar degi síðar, ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Í síðara skiptið var hann einnig undir áhrifum áfengis. Ákærði var handtekinn klukkan 22.08 að kvöldi 22. desember 2007 grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Blóðsýni var tekið úr ákærða klukkan 22.40 og honum sleppt tíu mínútum síðar.  Rúmum fjórum klukkustundum síðar var ákærði handtekinn aftur og grunaður um sams konar brot. Í kjölfarið var á ný tekið blóðsýni úr ákærða. Niðurstöður rannsókna á fyrra blóðsýninu leiddu í ljós 55 ng/ml. amfetamíns en í síðara blóðsýninu mældust 0,72‰ alkóhóls og 90 ng/ml. amfetamíns. Með þessu framferði hefur ákærði sýnt einbeittan brotavilja.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu, heimfærslu brota til refsiákvæða og ákvörðun fangelsisrefsingar. Að virtri 8. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er fésekt ákærða ákveðin 250.000 króna til ríkissjóðs og sæti hann 18 daga fangelsi greiði hann ekki sektina innan fjögurra vikna. Fallist er á með héraðsdómi að um sviptingu ákærða á ökurétti fari samkvæmt 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga og verður hann sviptur ökurétti í þrjú ár frá 23. júní 2008 að telja.  

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um skaðabætur er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og stendur það óraskað.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Með þessari dómsniðurstöðu er leiðrétt viðurlagaákvörðun hins áfrýjaða dóms er varðar umferðarlagabrot ákærða og er því rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir  Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Friðþór Örn Kristinsson, sæti 6 mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu 5 mánaða refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 18 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í þrjú ár frá 23. júní 2008 að telja.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Áfrýjunarkostnaður málsins, samtals 227.054 krónur, greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 211.650 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. apríl 2008.

Mál þetta, sem var dómtekið þann 4. apríl sl., höfðaði sýslumaðurinn á Akureyri hér fyrir dómi með tveimur ákærum, báðum útgefnum þann 8. febrúar 2008, á hendur Friðþóri Erni Kristinssyni, kt. 181084-3679, Duggufjöru 12, Akureyri.

Með fyrra ákæruskjalinu er ákært;

„fyrir þjófnað, með því að hafa 19. desember 2007, stolið tveimur Playstation 3, leikjatölvum, að verðmæti samtals kr. 79.800- úr verslun Hagkaupa að Furuvöllum 17 á Akureyri.

Brot þessi teljast varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.  Í málinu gerir Hagkaup hf. kt. 430698-3549, Skeifunni 15, Reykjavík, bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð kr. 79.800-, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001, frá 19.12.2007 og síðan dráttarvöxtum til greiðsludags;“

Með síðara ákæruskjalinu er ákært;

„fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

I.

Að hafa laugardagskvöldið 22. desember 2007, ekið bifreiðinni JZ-868, undir áhrifum ávana- og fíkniefna (amfetamíns 55 ng/ml) austur Höfðahlíð á Akureyri og norður Skarðshlíð, þar sem lögregla stöðvaði akstur hans.

II.

Að hafa aðfaranótt sunnudagsins 23. desember 2007, ekið sömu bifreið undir áhrifum áfengis (0,72‰) og ávana og fíkniefna (amfetamíns 90 ng/ml.) frá bifreiðastæði við bæjarskrifstofurnar á Akureyri, vestur Geislagötu, suður Laxagötu, austur Gránufélagsgötu og aftur að ráðhúsinu, þar sem hann stöðvaði bifreiðina.

Brot þessi teljast varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. A, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66,2006.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 1. mgr., sbr. 4. mgr. 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66, 2006.“

I.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust viðurkennt sakargiftir líkt og brotum hans er lýst í ákæruskjölum.  Játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu og önnur gögn málsins.

Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, er nægilega sannað að hann hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök.  Varðar háttsemi hans við þau lagaákvæði sem tilgreind eru í ákæruskjölum.  Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu með heimild í 125. gr. laga nr. 19/1991.

II.

Ákærði, sem er 23 ára, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins fimm sinnum áður sætt refsingum.  Þann 22. júlí 2002 gekkst hann undir lögreglustjórasátt, 22.000 króna sekt, fyrir eignaspjöll og þann 20. maí 2003 var honum með viðurlagaákvörðun héraðsdóms gerð 20.000 króna sekt fyrir hilmingu.  Þann 2. september 2005 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár fyrir þjófnað.  Þann 14. maí 2007 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í eitt ár, fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga.  Var um hegningarauka að ræða og var því fyrrnefndur skilorðsdómur frá 2. september 2005 dæmdur upp.  Loks var ákærði með dómi héraðsdóms þann 19. desember 2007 dæmdur til greiðslu 90.000 króna sektar og sviptur ökurétti í sex mánuði frá 23. desember 2007 fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og deyfandi lyfja.

Í máli þessu hefur ákærði gerst sekur um þjófnað og umferðarlagabrot í tvígang.  Með brotum þessum hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 14. maí 2007.  Ber að taka upp þann dóm og dæma málin í einu lagi og tiltaka refsingu eftir reglum 77. gr., en einnig 78. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 60. gr. sömu laga.

Refsing ákærða þykir með vísan til sakaferils hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði og 180.000 króna sekt til ríkissjóðs.  Eftir atvikum og í ljósi þess að ákærði virðist upp á síðkastið hafa verið að taka sig á, hefur m.a. farið vímuefnameðferð og hafið atvinnuþátttöku, þá þykir fært að fresta framkvæmd fimm mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum þremur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.  Greiði ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna sæti hann 12 daga fangelsi.

Svipta ber ákærða ökurétti.  Þar sem síðasti dómurinn yfir ákærða var kveðinn upp áður en hann framdi umferðarlagabrot þau sem hann er hér sakfelldur fyrir ber að ákvarða ökuréttindasviptinguna með hliðsjón af 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50. 1987.  Er hann því sviptur ökurétti í tvö ár frá 23. júní 2008 að telja.

Í málinu er höfð uppi bótakrafa Hagkaupa hf. Þykir hún nægilega rökstudd og verður tekin til greina svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, sem samkvæmt yfirliti nemur 174.479 krónum.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Friðþór Örn Kristinsson, sæti 6 mánaða fangelsi, en fresta skal framkvæmd fimm mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum þremur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19, 1991, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.

Ákærði greiði 180.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 12 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá 23. júní 2008 að telja.

Ákærði greiði Hagkaupum hf. 79.800 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2007 til 8. febrúar 2008 en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 174.479 krónur í sakarkostnað.