Hæstiréttur íslands
Mál nr. 456/2000
Lykilorð
- Veðskuldabréf
|
|
Fimmtudaginn 3. maí 2001. |
|
Nr. 456/2000. |
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) gegn Friðriki B. Frederiksen (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Veðskuldabréf.
F tók lán hjá L sem var tryggt með veði í fasteign í eigu Byggingarsjóðs ríkisins. Fyrir beiðni síðari eiganda fasteignarinnar leysti L tvo þriðju hluta hennar úr veðböndum. L krafði F síðan um endurgreiðslu lánsins. Hafnaði F greiðsluskyldu, meðal annars á þeirri forsendu að L hefði rýrt verðgildi veðtryggingarinnar án samráðs við sig. Talið var að L hefði átt val um hvort hann leitaði fullnustu í veðtryggingunni eða hjá F sjálfum. Var engu talið breyta hvort F var jafnframt veðþoli eða ekki. Var talið L óviðkomandi hvernig F hafði kosið að verja andvirði lánsins og að það leysti F ekki undan greiðsluskyldu þótt lánsféð kynni að hafa nýst öðrum en honum. Var F því gert að greiða L eftirstöðvar lánsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 865.703 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. október 1995 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málið á rætur að rekja til þess að 28. janúar 1991 tók stefndi lán hjá áfrýjanda að fjárhæð 1.000.000 krónur. Var lánið verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu og skyldi það endurgreitt á 25 árum með gjalddögum tvisvar á ári. Til tryggingar greiðslu var fenginn 2. veðréttur í allri húseigninni nr. 34 við Hásteinsveg í Stokkseyrarhreppi. Húsið var þá í eigu Byggingarsjóðs ríkisins, sem veitti stefnda leyfi til þess að veðsetja það vegna þeirrar lántöku, sem að framan greinir. Guðmundur Sigþórsson, sem keypti húsið af Byggingarsjóði ríkisins, skipti eigninni í þrennt með eignaskiptayfirlýsingu 10. maí 1991 og seldi skömmu síðar alla eignarhlutana. Fyrir beiðni hans hafði áfrýjandi þá með yfirlýsingu 10. júní 1991 aflétt veði sínu af tveimur þessara eignarhluta, en hélt veðrétti sínum í hinum þriðja, sem taldist vera 35,8% allrar fasteignarinnar. Er fram komið af hálfu áfrýjanda að fasteignamat allrar eignarinnar fyrir skiptinguna hafi numið rúmlega 4.500.000 krónum og brunabótamat hennar rúmlega 7.600.000 krónum.
Vanskil urðu á greiðslu lánsins og var eignarhlutinn, sem áfrýjandi átti veðrétt í, seldur nauðungarsölu 26. október 1993, þar sem hann gerðist kaupandi. Fékk hann af söluverðinu 107.074 krónur upp í kröfu sína, sem samkvæmt kröfulýsingu nam þá 1.320.063 krónum. Áfrýjandi seldi eignina aftur í mars 1995 fyrir 358.000 krónur. Að teknu tilliti til kostnaðar við söluna telur hann sig enn eiga kröfu á stefnda fyrir 865.703 krónum og sætir sú fjárhæð ekki mótmælum. Stefndi telur sig hins vegar ekki vera greiðsluskyldan gagnvart áfrýjanda af ástæðum, sem raktar eru í héraðsdómi.
II.
Stefndi er skuldari samkvæmt því veðskuldabréfi, sem áfrýjandi reisir kröfu sína á. Hinn síðarnefndi átti val um það hvort hann leitaði fullnustu í þeirri eign, sem sett var til tryggingar kröfu hans, eða gengi að skuldaranum, sem ber persónulega og endanlega skyldu til að endurgreiða lánið. Breytti engu í þeim efnum hvort skuldarinn væri jafnframt veðþoli eða ekki. Þurfti áfrýjandi ekki að bera undir stefnda eða leita heimildar hans til að gefa eftir hluta af þeim veðrétti, sem hann hafði fengið til tryggingar kröfu sinni. Áfrýjanda var jafnframt óviðkomandi hvernig stefndi kaus að verja andvirði lánsins. Getur það ekki leyst stefnda undan greiðsluskyldu þótt lánsféð kunni að hafa nýst öðrum en honum sjálfum. Samkvæmt þessu verður krafa áfrýjanda tekin til greina. Skal stefndi jafnframt greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Friðrik B. Frederiksen, greiði áfrýjanda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, 865.703 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. október 1995 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 9. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, b-deild, kt. 711297-3919, Bankastræti 7, Reykjavík, með stefnu birtri 14. október 1999 á hendur Friðriki Björgvinssyni Frederiksen, kt. 050545-2889, Þverbrekku 4, Kópavogi,
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 865.703, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum, frá 23. marz 1995 til greiðsludags. Jafnframt er þess krafizt, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 23. marz 1996, samkvæmt 12. gr. laga nr. 25/1987. Þá er krafizt málskostnaðar að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti á málskostnað.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hans vegna kostnaðar hans af málinu.
II.
Málavextir:
Með veðskuldabréfi útgefnu 28.01.1991 að fjárhæð kr. 1.000.000 til stefnanda tók stefndi að sér að endurgreiða nefnda fjárhæð á 25 árum með tveimur gjalddögum á ári, þann 29.01. og 29.07., í fyrsta sinn þann 29.07.1991. Skuldin var með 5,5% breytilegum vöxtum og grunnvísitölu 2969 og var tryggð með 2. veðrétti í fasteigninni nr. 34 við Hásteinsveg (Jaðar), Stokkseyrarhreppi. Á fyrsta veðrétti hvíldi skuldabréf Byggingarsjóðs ríkisins, að fjárhæð kr. 400.000. Með yfirlýsingu dags. 10. júlí 1991 var eftirfarandi hluti hinnar veðsettu eignar leystur úr veðböndum: 1. hæð, vesturendi, auðk. 010101, og 2. hæð, vesturendi, auðk. 010201, en eftir stóð veðrétturinn í tilheyrandi sameign og lóðarréttindum í 2. hæð, auðk. 010202, sem taldist vera 35,8% fasteignarinnar allrar, sbr. eignaskiptayfirlýsingu, dags. 10.05.1991. Þann 26.10.1993 var eignin seld á nauðungaruppboði, og komu kr. 107.074 upp í kröfuna, sem var, samkvæmt kröfulýsingu, kr. 1.320.063. Með afsali, dags. 23. marz 1995 var eignin seld fyrir kr. 358.000, en kostnaður nam kr. 10.714. Mismunurinn nemur kr. 865.703, sem er grundvöllur kröfu stefnanda á hendur stefnda í máli þessu.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á ofangreindu veðskuldabréfi, útgefnu af stefnda, sem ekki hafi verið fullnægt af hans hálfu, sbr. ákvæði kaupalaga og samningalaga.
Dráttarvaxtakröfur byggist á 10. gr. l. 25/1987, sbr. 2. mgr.14. gr, s.l., sbr. 5. gr. 1. nr. 67/1989. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. 1. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda:
Stefndi kveður kr. 130.000 hafa greiðst af láninu, sem hafi runnið til stefnda, en kr. 870.000 til Húsnæðisstofnunar ríkisins, vegna kaupa Guðmundar Sigþórssonar á fasteigninni, sem skuldabréfið var tryggt með veði í. Hafi stefnda og Guðmundi samizt svo um, að Guðmundur tæki að sér endurgreiðslu lánsins. Í júní 1991 hafi Guðmundur farið fram á það við stefnanda fyrir hönd stefnda, að hann létti láninu af tveimur eignarhlutum eignarinnar, þannig að það hvíldi eftirleiðis á 35,8% eignarinnar í stað hennar allrar, sbr. dskj. nr. 12, og hafi stefnandi orðið við þeirri beiðni Guðmundar. Hafi stefndi hvergi komið nærri þessari ráðstöfun og hafi ekki vitað um afléttingu veðbanda fyrr en rúmum þremur árum síðar. Eignarhlutinn, sem skuldabréfið hvíldi á eftir afléttingu þess af 64.2% eignarinnar, hafi verið seldur nauðungarsölu 26. október 1993 og hafi fengizt greiddar kr. 107.074 upp í kröfuna, en stefnandi hafi verið hæstbjóðandi á uppboðinu. Með bréfi dags. 19. janúar 1996, sbr. dskj. nr. 9, hafi stefnandi krafið stefnda um greiðslu eftirstöðva skuldar samkvæmt skuldabréfinu, sem hann hafi talið vera að fjárhæð kr. 1.221.831. Með bréfi dags. 20. febrúar 1996, sbr. dskj. nr. 13, hafi Stefán Pálsson hrl. svarað bréfinu og mótmælt kröfunni og farið fram á, að hún yrði felld niður. Með bréfi dags. 9. marz 1999 hafi stefnandi ítrekað kröfu sína, sem hann hafi þá talið nema kr. 1.998.773, sbr. dskj. nr. 10, og hafi mótmæli við kröfunni verið ítrekuð með símatali við lögmann stefnanda með vísan til fyrra mótmælabréfs.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi, með saknæmum hætti, valdið því, að þær tryggingar, sem voru fyrir greiðslu lánsins, reyndust ekki nægar. Hafi stefnandi gert það á grundvelli beiðni frá eiganda eignarinnar fyrir hönd stefnda, án þess að hann hefði til þess umboð. Hafi beiðnin þannig ekki stafað frá stefnda, og sé hún ekki skuldbindandi fyrir hann, og hafi aflétting veðbanda því verið á ábyrgð stefnanda. Með því að samþykkja aflýsinguna hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til að krefja stefnda um eftirstöðvar skuldabréfsins, þar sem sú trygging, sem eftir stóð, hafi ekki nægt til að greiða kröfuna að fullu, enda hafi veðtrygging í allri fasteigninni að Hásteinsvegi 34, Stokkseyrarhreppi, verið forsenda stefnda fyrir lánssamningi aðila samkvæmt skuldabréfinu.
Þegar litið sé til dskj. nr. 14 og 15, megi sjá, að ef veðskuldabréfið hefði hvílt á allri eigninni, hefði hún staðið undir greiðslu kröfunnar. Dómskjal. nr. 14 sé kaupsamningur um eignarhluta 02-01, sem veðskuldabréfið hafi einnig hvílt á fyrir afléttinguna, en kaupverð þess eignarhluta hafi verið kr. 3.700.000. Samkvæmt dskj. nr. 15, sem sé afsal á grundvelli kaupsamningsins, hafi kaupandi staðið að fullu við greiðslu kaupverðsins, þannig að ljóst sé, að þessi eignarhluti einn hefði staðið undir greiðslu kröfu samkvæmt umræddu veðskuldabréfi. Samkvæmt dskj. nr. 16, sem sé afsal Guðmundar Sigþórssonar til Vinnustofunnar Hlíðar hf., dags. 13. júní 1991, vegna kaupa þess síðarnefnda á eignarhluta nr. 02-02, sem sé sá eignarhluti, sem umstefnt veðskuldabréf hafi verið tryggt í, hafi Vinnustofan Hlíð hf. greitt kaupverðið að fullu. Kaupverðið komi ekki fram í afsalinu, en þó sé ljóst, að yfirteknar skuldir hafi verið að fjárhæð kr. 1.270.000, þannig að ljóst sé, að kaupverðið hafi numið a.m.k. þeirri fjárhæð. Eignarhluti 01-0l hafi ekki verið seldur á almennum markaði og því erfitt að sýna fram á verðmæti þess eignarhluta, en eignarhlutinn hafi verið seldur nauðungarsölu 18. febrúar 1993. Almennt sé viðurkennt, að eignir seljist lægra verði á nauðungarsölu en á almennum markaði, en eignarhluti nr. 01-01 hafi verið seldur á kr. 600.000, sem verði að skoða sem lágmarksverð fyrir eignina, ef hún hefði verið seld á almennum markaði. Þegar litið sé til þess, er að framan greini, sé ljóst, að verðmæti eignarinnar á árunum 1991-1993 hafi ekki verið minna en kr. 5.570.000, sem sé langt umfram það, sem nægt hefði til að fullnusta greiðslu samkvæmt skuldabréfinu, hefði tryggingum ekki verið aflétt af hálfu stefnanda. Árétti þessi staðreynd, að stefnukrafa þessa máls sé óréttmæt og að sýkna beri stefnda af dómkröfum.
Liðin hafi verið u.þ.b. sex ár frá því að nauðungarsala á eigninni fór fram, þar til stefna hafi verið birt í málinu, sem sé óeðlilega langur tími, ef stefnandi teldi sig eiga kröfu á stefnda um greiðslu eftirstöðva kröfunnar. Þá hafi verið liðin rúm átta ár frá því að aflétting veðbanda fór fram. Verði stefnandi að bera hallann af því, að örðugt sé að sýna fram á nákvæmt verðmæti eignarinnar, þegar veðbandslausn fór fram, enda eigi hann einn sök á þeim mikla drætti, sem orðið hafi á málinu. Til leiðbeiningar megi þó, umfram það, sem að framan greini, leiða líkur að því, að verðmæti eignarinnar hafi aldrei verið minna en kr. 1.800.000, sem sé það verð, sem greitt hafi verið fyrir hana á nauðungarsölu 31. október 1988, sbr. dskj. nr. 17.
Auk þess, sem að framan greini, vísi stefndi til ógildingarreglna samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr., enda sé ljóst, að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig lánssamning, þegar atvikum sé háttað eins og í þessu máli.
Kröfu um greiðslu málskostnaðar styður stefndi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefndi gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann skýrði svo frá, að hann hefði séð auglýsingu í DV, þar sem auglýst hafi verið eftir láni. Stefndi hafi sjálfur ekki haft þörf fyrir þetta lán, svo hann hafi látið mann, sem hann haldi, að hafi heitið Guðmundur, hafa lánið, en á móti hafi stefndi fengið greidda einhverja fjárhæð. Hann hafi engin samskipti átt við Guðmund, eftir að bréfið var gefið út. Guðmundur hafi átt að sjá um að greiða af bréfinu, og hafi hann jafnframt lagt til veðið. Stefndi kvaðst ekki muna í hvaða eign veðið var. Hann kvaðst einungis hafa lánað nafnritun sína á bréfið.
Krafa stefnanda byggir á veðskuldabréfi, svo sem lýst hefur verið hér að framan. Málið er ekki rekið samkvæmt XVII. kafla l. nr. 91/1991, og er ekki ágreiningur með aðilum um, að varnir stefnda komist að í málinu.
Stefndi byggir á því aðallega, að stefnandi hafi, með saknæmum hætti, valdið því að tryggingar lánsins reyndust ekki nægar, sem leiði það til þess, að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til að krefja stefnda um eftirstöðvar skuldabréfsins, vegna brostinnar forsendu. Þá vísar stefndi til ógildingarreglna samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr., þar sem það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig, eins og atvikum sé háttað.
Svo sem fram kemur af framburði stefnda, geta ýmsar ástæður legið að baki því, að lántaki og veðhafi séu ekki sami aðilinn. Veðinu er ætlað að standa til tryggingar greiðslu skuldar gagnvart lánveitanda, en í vissum tilvikum, svo sem hér ræðir, þegar lántaki er annar en veðsali, getur veðið jafnframt veitt lántaka tryggingu. Það liggur fyrir, að samþykkis stefnda var ekki leitað, þegar stefnandi tók þá ákvörðun að aflétta veðinu af hluta hinnar veðsettu eignar. Þá ber dskj. nr. 18 með sér, að eignarhluti sá, nr. 01.02.02, sem eftir stóð til tryggingar skuldinni, stóð ekki undir henni, þegar litið er til fasteignamats eignarhlutans, sem er ranglega merktur á dskj. nr. 18 sem eignarhluti nr. 01.00.02. Stangast fullyrðing í málflutningi lögmanns stefnanda um, að fasteignamatið hefði staðið undir tryggingu skuldarinnar, þegar hluta veðsins var aflétt, á við tilvitnað dómskjal, en samtals hvíldu þá á 1. og 2. veðrétti skuldir að höfuðstól kr. 1.400.000. Liggur ekkert fyrir um, að húsið hafi verið í niðurníðslu eftir útgáfu veðbréfsins, sem valdið hafi því, að eignarhlutinn stóð ekki undir veðkröfum.
Stefnanda mátti vera ljóst, að skuldari og veðsali voru ekki einn og sami aðilinn. Mátti stefnandi því ætla, að lögskiptum stefnanda og veðsala kynni að vera háttað á þann veg, sem stefndi hefur lýst, og þar með að veðtryggingin gæti verið forsenda stefnda fyrir láninu. Við það, að veðinu var aflétt, féll niður hluti þeirrar tryggingar, sem stefndi hafði í lögskiptum sínum við veðsala. Er ekki fallizt á, að veðhafi geti ráðstafað veðinu að eigin geðþótta, án samráðs eða samþykkis skuldara, og bakað honum með því tjón. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á, að heildarveðið hefði ekki staðið undir veðskuldinni, en samkvæmt dskj. nr. 18 var fasteignamat heildareignarinnar árið 1990 kr. 4.558.000.
Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið og með vísan til 36. gr. l. nr. 7/1936 skal stefndi vera sýkn af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir þessum úrslitum bar að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 140.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Friðrik Frederiksen, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, b-deild í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda kr. 140.000 í málskostnað.