Print

Mál nr. 125/2011

Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Börn

                                     

Fimmtudaginn 1. desember 2011.

Nr. 125/2011.

Löndun ehf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Guðmundi Halldórssyni

(Björn L. Bergsson hrl.)

Skaðabætur. Vinnuslys. Líkamstjón. Börn.

G krafðist bóta vegna slyss sem hann varð fyrir 15 ára gamall við vinnu sína við uppskipun á járni hjá L ehf. Talið var að starfið sem G sinnti félli ekki undir undantekningarákvæði c. liðar 60. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og engu skipti þótt G og forráðamanni hans hafi verið kunnugt um hvers konar starfsemi fór fram hjá L ehf. Hæstarétti staðfesti hinn áfrýjaða dóm með vísan til forsendna hans m.a. að gættum aldri G þegar hann varð fyrir slysinu og því að hann hafði takmarkaða reynslu af slíkum störfum sem ekki voru hættulaus.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2011. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi var stefndi 15 ára að aldri þegar hann slasaðist í starfi hjá áfrýjanda við uppskipun á járni. Hafði stefndi takmarkaða reynslu af slíkum störfum sem ekki eru hættulaus. Þá liggur fyrir að stefndi stóð við vinnu sína á járnbúntum í snjókomu og myrkri þegar hann tók á móti og stýrði þungu járni sem slakað var niður. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Löndun ehf., greiði stefnda, Guðmundi Halldórssyni, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                    

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2011.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 11. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Halldóri Guðmundssyni, f.h. ólögráða sonar síns Guðmundar Halldórssonar, með stefnu birtri 16. júní 2010, á hendur Löndun ehf., Kjalarvogi 21, Reykjavík og Tryggingamiðstöðinni ehf. til réttargæslu. Undir rekstri málsins varð Guðmundur lögráða og hefur hann því tekið við aðild þess.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 4.247.211 krónur auk vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.113.470 krónum frá 30. janúar 2008 til 30. júní 2008 og af 4.899.169 krónum frá þeim degi til 15. október 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. og IV. kafla laga nr. 38/2008 frá þeim degi til 6. maí 2010 en af 4.247.721 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af dómkröfum stefnanda en til vara lækkunar. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins en í varakröfu er þess krafist að málskostnaður falli niður.

II

Málavextir

Hinn 30. janúar 2008 varð stefnandi fyrir slysi þar sem hann var við störf hjá stefnda við uppskipun úr skipi á athafnasvæði Eimskips í Hafnarfjarðarhöfn. Nánari tildrög slyssins voru þau að verið var að hífa steypustyrktarjárn í búntum úr skipinu og var verkefni stefnanda að taka á móti heisinu og stýra þegar því var slakað niður. Fjögur búnt voru í hverri hífingu sem vó um átta tonn. Með honum við verkið unnu þrír aðrir starfsmenn stefnda. Verkstjóri leiðbeindi kranastjóranum þar sem kranastjórinn hafði skert útsýni yfir svæðið þar sem járninu var slakað niður en því var slakað ofan á búnt sem þegar hafði verið skipað upp. Stefnandi stóð uppi á búntinu ásamt vinnufélögum sínum til að stýra heisinu á sinn stað. Í umrætt sinn mun heisið hafa færst til þannig að stefnandi og vinnufélagar hans þurftu að rétta það af með því að styðja við það, en í sömu mund og heisinu var slakað niður rann stefnandi til og hægri fótur hans lent undir því. Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild og reyndist hann ökklabrotinn. Slysið átti sér stað um klukkan fimm síðdegis í lok janúar og var því komið myrkur.

Vinnueftirlit ríkisins kom á vettvang strax í kjölfar slyssins. Í umsögn eftirlitsins um slysið kemur fram að stefnandi, hafi verið 15 ára gamall er slysið átti sér stað og hefði því ekki aldur til að vinna svona vinnu. Taldi vinnueftirlitið að orsök slyssins mætti telja þá að snjór hafi borist með skóm stefnanda á steypustyrktarjárnið og valdið því að hann hafi runnið til. Einnig mætti ætla að stefnandi hefði ekki næga reynslu vegna aldurs. Vísaði eftirlitið til 10. gr. reglugerðar nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga.

Stefnandi krafðist bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda. Réttargæslustefndi hafnaði bótaskyldu en aðilar urðu þó ásáttir um að afla sameiginlega matsgerðar um tjón stefnanda. Voru Leifur N. Dungal læknir og Örn Höskuldsson hrl. fengnir til starfans og er matsgerð þeirra dags. 26. apríl 2010.

Skýrslur fyrir dómi gáfu stefnandi, Sigurþór Sigurþórsson og Unnar Helgi Daníelsson.

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi með því að nýta stefnanda til þeirra verka sem um ræddi gerst brotlegur við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar sem stefnandi hafi ekki haft aldur og þroska til starfans sem ekki hafi verið hættulaus. Vísar stefnandi sérstaklega til a- og d-liðar 62. gr. laganna. Þá vísar hann til reglugerðar nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga og viðauka með henni.

Stefnandi telur að með því að ráða 15 ára pilt, til þeirra starfa að landa steypustyrktarjárni, hafi stefndi gerst sekur um saknæmt gáleysi sem sé í andstöðu við áðurnefnd ákvæði laga og reglugerðar. Ljós sé að 15 ára piltur hafi ekki sömu burði eða reynslu og fullorðinn maður og sé líklegri til að hrasa eða detta þegar honum sé fengið að reyna að stjórna eða stilla af gríðarþunga byrði af steypustyrktarjárni sem látin sé síga ofan á hann. Bæði framkvæmd vinnunnar og aðstæður hafi verið hættulegar.

Stefnandi bendir á að hann hafi verið í hlutastarfi hjá stefnda um hálfs árs skeið. Hefði hann að jafnaði unnið einn dag í viku. Ekki hafi því verið til að dreifa reynslu stefnanda í starfi. Þá hafi störf hans verið ólík og hafi hann þurft að aðlagast nýju verklagi.

Í stefnukröfu sinni sundurliðar stefnandi þannig; þjáningarbætur rúmliggjandi 8.520 krónur, þjáningarbætur batnandi 229.500 krónur, varanlegur miski 10 stig 875.450 krónur og varanleg örorka 10% 3.775.669, samtals 4.988.169 krónur. Við upphaf aðalmeðferðar lækkaði stefnandi fjárhæð kröfunnar í 4.247.211 krónur með tilliti til þess að hinn 6. maí 2010 greiddi réttargæslustefndi örorkubætur að upphæð 651.958 krónur úr slysatryggingu stefnda vegna slyssins.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu skaðabótaréttar um ábyrgð á saknæmri háttsemi, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, ákvæða laga nr. 46/1980 og reglugerðar nr. 426/1999. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er því mótmælt að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Stefndi vísar til þess að stefnandi og faðir hans hafi vitað eða mátt vita hvers konar starfsemi hafi farið fram hjá stefnda. Stefndi hafi óskað eftir vinnu hjá fyrirtækinu af fúsum og frjálsum vilja. Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. laga nr. 46/1980 sé heimilt að ráða þá sem séu orðnir 14 ára til vinnu sem henti þeim og kunnara sé en frá þurfi að segja að áratuga venja sé fyrir því hér á landi að unglingar starfi við verk eins og þarna hafi verið að vinna. Hafnar stefndi því að brotið hafi verið gegn ákvæði 62. gr. laganna.

Stefndi telur að ekkert liggi fyrir um að verkefnið hafi verið ofvaxið líkamlegu atgerfi stefnanda, enda geti það ekki talist erfiðisverk að stýra byrði sem hangi í lausu lofti til lendingar, auk þess sem þrír aðrir starfsmenn stefnda hafi unnið verkið með honum. Þá fellst stefndi ekki á að verkið hafi verið eitthvað hættulegra en gengur og gerist eða að hinn slasaða hafi skort reynslu til að átta sig á hættu sem fælist í því og hvað þar bæri helst að varast. Stefndi mótmælir því enn fremur að hann hafi gerst brotlegur við reglugerð 426/1999.

Stefndi bendir á að þótt um brot á ákvæðum þessum væri að ræða leiddi það ekki til bótaskyldu samkvæmt íslenskum lögum séu ekki einhver tengsl milli þeirrar háttsemi sem rekja má tjónið til og þeirrar hátternisreglu laga eða reglna sem brotið er gegn. Stefnandi telur að ekki sé í ljós leitt að ungur aldur hins slasaða hafi átt einhvern þátt í slysinu, heldur hafi hér verið um óhappatilvik að ræða, þ.e. hinn slasaði hafi runnið til á sama augnabliki og byrðinni hafi verið slakað niður. Fjórir menn hafi unnið að verkinu undir stjórn verkstjóra þannig að ekki verði séð annað en að forsvaranlega hafi verið staðið að því í umrætt sinn. Þá geti myrkur og snjór engu máli skipt, enda alvanalegar aðstæður við útivinnu á Íslandi yfir vetrarmánuðina. Stefnandi hafi unnið hjá fyrirtækinu um sex mánaða skeið og margsinnis unnið svipuð verk þ.e. að halda við byrði sem verið var að slaka niður og verkið sem slíkt sáraeinfalt og létt, einkum og sér í lagi þegar haft er í huga að fleiri hafi unnið verkið með honum.

Stefndi mótmælir vaxtakröfu, einkum dráttarvaxtakröfunni, sem hann telur að eigi sér ekki stoð í lögum, en kröfubréf stefnanda sé dagsett 5. maí 2010.

Ekki eru af hálfu stefnda gerðar athugasemdir við fjárhæð eða sundurliðun endalegrar kröfu stefnanda.

IV

Niðurstaða

Fyrir liggur að stefnandi varð fyrir slysi í vinnu sinni við uppskipun hjá stefnda. Er slysið átti sér stað var hann 15 ára gamall og enn í skyldunámi. Hann hafði ráðið sig í hlutastarf hjá stefnda tæpu hálfu ári áður og starfaði að jafnaði einn dag í viku. Daginn sem slysið átti sér stað var starfsdagur í grunnskóla stefnanda og hafði hann unnið allan daginn. Var þetta í fyrsta skipti sem stefnandi vann við uppskipun á steypustyrktarjárni hjá stefnda en oftast vann hann við að hlaða vöruflutningabifreiðar. Verkið sem stefnandi vann í umrætt sinn fólst í því að taka, ásamt þremur samstarfsmönnum, á móti heisi, sem í voru fjögur búnt af steypustyrktarjárni, samtals um átta tonn að þyngd. Stóð hann ofan á búntum sem þegar var búið að landa. Þegar slysið varð, um klukkan fimm síðdegis, var myrkur úti og snjór á jörðu. Þótt verkið, sem stefnanda var falið, væri í sjálfu sér einfalt verður að telja að veruleg hætta hefði getað skapast, hefði eitthvað farið úrskeiðis.

Um vinnu barna og ungmenna er fjallað í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, með síðari breytingum, sem og í reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999, sem sett er með stoð í lögunum. Gilda ákvæði X. kafla laga nr. 46/1980 um vinnu einstaklinga innan 18 ára aldurs. Samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laganna merkir barn einstakling sem er undir 15 ára aldri eða sem er í skyldnámi. Samkvæmt 60. gr. laganna er meginreglan sú að ekki megi ráða börn til vinnu. Í undantekningartilvikum er þó heimilt að ráða börn til vinnu, sbr. a-c liði ákvæðisins. Þar sem stefnandi var enn við skyldunám, þótt hann hefði náð 15 ára aldri, telst hann barn í skilningi laganna. Kemur þá einkum til skoðunar hvort ákvæði c-liðar 60. gr. laganna geti átt við það starf er hann hafði með höndum í umrætt sinn en þar er mælt fyrir um að ráða megi börn, sem náð hafa 14 ára aldri, til starfa af léttara tagi. Í viðauka 4 við reglugerð nr. 426/1999 er að finna lista yfir hvað teljist starf af léttara tagi sem börn megi vinna. Eru þar nefnd störf eins og t.d. fóðrun, hirðing og gæsla dýra og að hreinsa og sópa rusl. Listinn er ekki tæmandi en í 3. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Vinnueftirlit ríkisins geti veitt leyfi fyrir vinnu barna við störf af léttara tagi, sem ekki séu tilgreind í viðauka 4, enda sé um sambærileg störf að ræða. Störf við uppskipun eða löndun eru ekki nefnd í viðaukanum og ekki liggur fyrir að Vinnueftirlit ríkisins hafi veitt leyfi fyrir vinnu barna við þessi störf. Fellur starf það sem stefnandi var við er hann slasaðist því ekki undir undantekningarákvæði c-liðar 60. gr. laga nr. 46/1980 og var stefnda því óheimilt að fela honum það. Ber stefndi því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Skiptir engu máli í þessu samhengi þótt stefnanda og forráðamanni hans hafi verið kunnugt um hvers konar starfsemi fór fram hjá stefnda, er stefnandi réð sig í vinnu, enda skýrt að ábyrgðin er atvinnurekandans, sbr. orðalag 60. gr. nefndra laga þess efnis að „börn megi ekki ráða til vinnu“.

Stefndi hefur ekki gert tölulegan ágreining um endanlega fjárhæð kröfu stefnanda og verður hún því tekin til greina að fullu. Með vísan til 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2008 verður upphafsdagur dráttarvaxta ákveðinn frá 5. júní 2010, þ.e mánuði eftir að stefnandi lagði, með kröfubréfi sínu til réttargæslustefnda, fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta fjárhæð bóta. Um vexti að öðru leyti fer eins og í dómsorði greinir.

Með hliðsjón af þessum málsúrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, þ.e. þóknun lögmanns sem telst hæfilega ákveðin 627.500 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 200.000 krónur, þ.e. samtals 827.500 krónur.

Kolbrún Sævarsdóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Löndun ehf. greiði stefnanda Guðmundi Halldórssyni, 4.247.211 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.113.470 krónum frá 30. janúar 2008 til 30. júní 2008 og af 4.899.169 krónum frá þeim degi til 6. maí 2010 og af 4.247.721 krónu frá þeim degi til 5. júní 2010 en með dráttarvöxtum samkv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2008 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 827.500 krónur í málskostnað.