Hæstiréttur íslands

Mál nr. 109/2001


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Brottrekstur úr starfi
  • Uppsagnarfrestur
  • Sjóveðréttur


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. júní 2001.

Nr. 109/2001.

Soffanías Cecilsson hf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

gegn

Vilhjálmi Bragasyni

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

 

Sjómenn. Brottvikning. Uppsagnarfrestur. Sjóveðréttur.

V, sem var 1. vélstjóri, mætti ölvaður til skips 2. desember 1999. Vék skipstjóri honum samstundis úr starfi munnlega af þeim sökum. Taldi V uppsögnina hafa verið ólögmæta og krafðist bóta af þeim sökum. Fallist var á að ölvunin hefði ekki verið gild uppsagnarástæða. 17. október 1999 hafði skipstjóri boðað V til sín á stjórnpall og sagt honum upp vegna óánægju með störf hans. Kvaðst V hafa litið svo á að fallið hefði verið frá fyrri uppsögninni. Ekkert var talið benda til þess og var því litið svo á að V hefði verið sagt upp störfum 17. október 1999. Var S því dæmdur til að greiða V laun til loka uppsagnarfrests.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að honum verði ekki gert að greiða hærri fjárhæð en 1.150.000 krónur auk þess sem krafa stefnda verði þá lækkuð enn frekar vegna eigin sakar hans og skyldu til að takmarka tjón sitt. Að því frágengnu krefst áfrýjandi lækkunar á stefnukröfu að mati Hæstaréttar af sömu ástæðum og tilgreindar eru í varakröfu. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Stefndi starfaði sem 1. vélstjóri á fiskiskipi áfrýjanda Sigurborgu SH-12 frá nóvember 1998 til 2. desember 1999. Þann dag lá skipið bundið við bryggju í Grundarfirði, en samkvæmt ákvörðun skipstjórans skyldi því haldið til veiða kl. 19.00 um kvöldið. Stefndi og tveir aðrir skipverjar komu til skips milli kl. 19.30 og 20.00 eftir að hafa neytt áfengis um daginn. Hittu þeir skipstjórann fyrir á bryggjunni, sem sagði þeim öllum upp starfi vegna ölvunar þeirra. Er rakið í héraðsdómi hvað fram er komið í framburði aðila og vitna um drykkju stefnda þennan dag og ölvunarástand hans er hann kom til skips. Þar er jafnframt gerð grein fyrir málavöxtum að öðru leyti, svo og málsástæðum aðila og lagasjónarmiðum.

Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti vísaði áfrýjandi sérstaklega til 1. mgr. 22. gr. áfengislaga nr. 75/1998, en samkvæmt henni varði það missi réttinda ef þar til greindir stjórnendur bifreiða, flugvéla, skipa eða véla eru undir áhrifum áfengis við starf sitt. Meðal þeirra, sem undir þetta falli, séu vélstjórar. Samkvæmt því verði ríkari kröfur gerðar að þessu leyti til yfirmanna á skipi, sem stjórni búnaði þess, en annarra skipverja og megi lítið til koma svo neysla áfengis hamli störfum hinna fyrrnefndu. Stefndi hafi sannanlega verið ófær vegna ölvunar að sinna starfi sínu og verði að skýra ákvæði 4. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 í þessu ljósi.

Stefndi hóf ekki störf um borð í Sigurborgu er hann kom til skips. Kemur 1. mgr. 22. gr. áfengislaga því ekki til sérstakra álita við úrlausn á ágreiningi málsaðila. Skilyrði fyrir brottvikningu úr skiprúmi er samkvæmt áðurnefndu ákvæði sjómannalaga að skipverji sé ítrekað drukkinn um borð, en ekkert er fram komið í málinu um að stefndi hafi áður gerst sekur um slíka háttsemi. Annar vélstjóri var í áhöfn Sigurborgar. Aðvörun skipstjóra til áhafnar skipsins 11. nóvember 1999 um að ölvun um borð hefði í för með sér brottvikningu getur ekki gegn ákvæðum laganna ráðið úrslitum um rétt skipstjórans að þessu leyti, en ekki var um að ræða lið í ráðningu stefnda að þurfa að sætta sig við fyrirvaralausa brottvikningu ef út af brygði. Að gættu því, sem að framan greinir, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ölvun stefnda í umrætt sinn hafi ekki verið gild brottvikningarástæða. Verður einnig staðfest niðurstaða hans um þá málsástæðu áfrýjanda að stefndi hafi ekki komið til skips á tilsettum tíma, en skipið var enn ekki ferðbúið þegar stefndi mætti, svo sem nánar greinir í héraðsdómi.

II.

Varakrafa áfrýjanda er á því reist að skipstjóri Sigurborgar hafi sagt stefnda upp starfi 17. október 1999. Þegar atvikið 2. desember varð hafi því verið liðinn sem næst helmingur af þriggja mánaða uppsagnarfresti, sem stefndi naut. Hvað sem öðru líði eigi stefndi af þessum sökum einungis rétt til launa fyrir það, sem eftir lifði uppsagnarfrestsins, sem séu 1.150.000 krónur. Stefndi viðurkennir að skipstjórinn hafi rekið sig úr starfi umræddan dag, en heldur jafnframt fram að hann hafi dregið uppsögnina til baka nokkrum dögum síðar. Hafi stefndi ekki tekið þessa uppsögn alvarlega, en litið svo á að skipstjórinn hafi verið í slæmu skapi í umrætt sinn, nývaknaður og úrillur. Alvara hafi ekki búið að baki þessari uppsögn og hún ómarktæk. Þá sé ákvæði í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna þess efnis að uppsögn skuli vera skrifleg af beggja hálfu. Hinni munnlegu uppsögn hafi ekki verið fylgt eftir með annarri skriflegri.

Vitnið Ómar Þorleifsson skipstjóri gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa boðað stefnda til sín á stjórnpall skipsins 17. október 1999 og sagt honum upp störfum vegna óánægju með störf hans. Kvaðst vitnið hafa skráð atvikið í skipsbókina sama dag, en þar kemur fram að stefndi hafi verið kallaður á stjórnpall og sagt upp störfum vegna vanrækslu í starfi. Kvað vitnið málið ekki hafa verið rætt þeirra á milli eftir þetta og neitaði jafnframt að hafa dregið uppsögnina til baka.

Hvorki er ágreiningur um að skipstjórinn sagði stefnda upp starfi 17. október 1999 né að það hafi borið að með þeim hætti, sem hinn fyrrnefndi hélt fram. Engin atvik eru fram komið í málinu sem leitt geta til þeirrar niðurstöðu að stefndi hafi ekki átt að taka uppsögnina alvarlega. Þar sem viðurkenning stefnda liggur fyrir reynir ekki á ákvæði í kjarasamningi um að uppsögn skuli vera skrifleg. Gegn neitun skipstjórans er ósannað að uppsögnin hafi síðar verið dregin til baka. Að þessu virtu verður fallist á varakröfu áfrýjanda, en ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila. Kaup samkvæmt 25. gr. sjómannalaga sætir ekki frádrætti vegna annarra tekna stefnda á uppsagnarfresti og sjónarmið áfrýjanda um lækkun vegna eigin sakar stefnda eiga ekki við í málinu.

Samkvæmt öllu framanröktu verður áfrýjanda gert að greiða stefnda 1.150.000 krónur með vöxtum eins og segir í dómsorði. Fallist verður á kröfu stefnda um staðfestingu sjóveðréttar í Sigurborgu SH-12. Verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

D ó m s o r ð:

Áfrýjandi, Soffanías Cecilsson hf., greiði stefnda, Vilhjálmi Bragasyni, 1.150.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. desember 1999 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sjóveðrétt, skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 20. desember 2000.

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð hinn 7. desember 2000, hefur Vilhjálmur Bragason, kt. 040254-3159, Hjallavegi 6 Hvammstanga, höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 18. maí 2000 á hendur Soffaníasi Cecilssyni hf., kt. 611292-2959, Borgarbraut 1 Grundarfirði.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 2.100.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 2. desember 1999 til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Krafist er að staðfestur verði sjóveðréttur í Sigurborgu SH-12, skipaskrárnr. 1019, fyrir dómkröfunni.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara, krefst hann þess að launakrafa stefnanda verði lækkuð í kr. 1.150.000, en þar segir stefndi að um sé að ræða staðgengilslaun. Stefndi krefst þess að fjárhæð varakröfu verði lækkuð vegna eigin sakar stefnanda og skyldu hans til að takmarka tjón sitt. Til þrautavara krefst stefndi  að honum verði gert að greiða stefnanda kr. 2.100.000 að frádreginni lækkun vegna eigin sakar stefnanda og skyldu hans til að takmarka tjón sitt.

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur um dómkröfu stefnanda, ekki heldur um fjárhæðir í kröfugerð stefnda, en stefnandi mótmælir frádrætti sem krafist er.

II.

Stefnandi var 1. vélstjóri á skipi í eigu stefnda, Sigurborgu SH 12, skipaskrárnúmer 1019. Stefnandi hefur lagt fram ljósrit af opnu úr dagsbók skipsins. Þar má sjá að bókað hefur verið við 2. desember 1999: “Kl. 18.50 mætir skipstjóri til skips. Brottför var ákveðin kl. 19. 00. Kl. 20.00 mætir 1. vélstjóri Vilhjálmur Bragason til skips ásamt þeim Guðmundi H. Sigurðssyni matsveini og Trausta G. Björgvinssyni. Ofurölvi. Þeim er umsvifalaust sagt að taka pokann sinn (reknir). Brottför er frestað til kl 10.00 daginn eftir meðan verið er að manna skipið.”

Stefnandi hefur og lagt fram ljósrit af annarri opnu skipsdagbókar Sigurborgar, af dagbókarfærslum októbermánaðar 1999. Samkvæmt því skjali var bókað í dagbókina við 17. október: “kl 1100 1. vélstj. kallaður á stjórnpall og sagt upp störfum. (Ástæða, vanræksla í starfi.)”. Stefndi styður varakröfur sínar um lækkun m.a. þeirri málsástæðu, að þarna hafi verið um að ræða uppsögn með þriggja mánaða uppsagnarfresti og helmingur uppsagnarfrestsins því liðinn er stefnandi var rekinn í land. Stefnandi heldur því fram, að ekki hafi verið um gilda uppsögn að ræða, til þess hefði hún þurft að vera skrifleg, enda hafi hún verið dregin til baka, svo sem síðar verður lýst.

Stefnandi kveðst krefjast skaðabóta (meðalbóta) samkvæmt 25. gr. sjómannalaga miðað við þriggja mánaða eða 90 daga laun.

III.

Af hálfu stefnanda er tildrögum málsins þannig lýst í stefnu, að árið 1998 hafi hann hafið störf hjá stefnda sem l. vélstjóri á togbátnum Sigurborgu SH 12. Þann 1. des. 1999 kl. 7:00 hafi verið landað úr bátnum í Grundarfjarðarhöfn 28 tonnum af bolfiski. Löndun hafi lokið um hádegisbil. Daginn eftir, um kl. 14:00 þann 2. desember 1999,  hafi stefnandi farið á  veitingahús í bænum, ásamt tveimur öðrum úr áhöfn bátsins, matsveininum Guðmundi H. Sigurðssyni og hásetanum Trausta G. Björgvinssyni. Þar hafi þeir snætt hádegisverð og staldrað við á veitingahúsinu í alls fjórar til fimm klst. Stefnandi hafi drukkið bjór með matnum. Alls hafi hann drukkið þrjá til fjóra bjóra á þessu tímabili, eða samtals 1,5 til 2,0 lítra.

Um kl. 19:00 síðdegis hafi þeir skipverjarnir þrír haldið áleiðis til skips, en komið við í söluturni í bænun til þess að kaupa sér vinnuvettlinga. Í söluturninum hafi þeir hitt útgerðarstjóra stefnda, Sigurð Sigurbergsson. Hann hafi brugðist ókvæða við er hann sá að matsveinninn hafði bjórflösku meðferðis. Útgerðarstjórinn hafi innt þá eftir því hvort þeir væru ölvaðir. Stefnandi hafi neitað því en viðurkennt að hafa drukkið bjór. Útgerðarstjórinn hafi þá tilkynnt þeim að þeir færu ekkert um borð, þeir hefðu ekkert um borð að gera, og gengið burt.

Þegar stefnandi og hinir skipverjarnir tveir komu gangandi eftir bryggjunni hafi skipstjórinn á Sigurborgu SH 12, Ómar Þorleifsson, gengið til þeirra og sagt þeim að taka pokann sinn. Þar sem skipstjórinn hafi þannig rift ráðningunni, hafi stefnandi sótt föggur sínar og vikið úr skiprúmi.

Undir lok desember 1999 kveðst lögmaður stefnanda hafa tilkynnt lögmanni stefnda, að framhald yrði á málinu, enda teldi hann að brottvikning stefnanda væri ólögmæt, sbr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 2. 2. 2000 var sett fram kröfugerð stefnda vegna ólögmætrar riftunar á skiprúmssamningi.

Af hálfu stefnda er málavöxtum svo lýst, að þann 17. október 1999 hafi skipstjóri sagt stefnanda upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti vegna vanrækslu stefnanda í starfi. Þann 11. nóvember sama ár hafi skipstjóri tilkynnt áhöfn að ölvun væri stranglega bönnuð um borð í Sigurborgu SH 12, að viðlagðri brottvikningu. Þann l. desember 1999 hafi verið landað úr skipinu á Grundarfirði. Áður en áhöfn fór frá skipshlið hafi skipstjóri boðað áhöfn til skips kl. 19.00 daginn eftir þann 2. desember. Þann 2. desember 1999 um kl. 19.15 hafi framkvæmdastjóri stefnda mætt stefnanda í verslun á Grundarfirði. Stefnandi hafi verið  drukkinn. Framkvæmdastjórinn hafi sagt stefnanda og tveimur öðrum skipverjum, sem allir hafi verið drukknir og með bjór meðferðis, að þeir ættu varla von á góðu er þeir mættu drukknir til skips. Klukkan 19.00 hafi áhöfnin verið mætt til skips, aðrir en stefnandi og skipverjarnir tveir. Stefnandi hafi loks mætt til skips kl. 20.00. Greinilegt hafi það verið öllum er við skipið voru, að stefnandi hafi þá verið talsvert drukkinn.

Þar sem stefnandi hafi verið óvinnufær vegna ölvunar og ljóst að hann yrði ekki vinnufær fyrr en hann hefði sofið úr sér, auk þess sem hann hafi mætt of seint til skips, hafi skipstjórinn ákveðið að víkja stefnanda úr skiprúmi, og tilkynnt honum það þarna við skipshlið.

Í framhaldi af atvikum þessum hafi skipstjórinn ráðið annan vélstjóra til skipsins og hafi framkvæmdastjóri stefnda þurft að aka til Borgarness síðar sama kvöld og ná í hann. Á leið úr Borgarnesi hafi framkvæmdastjóri stefnda og hinn nýráðni vélstjóri  orðið fyrir töfum, þannig að þeir hafi ekki komist ekki til skips fyrr en um kl. 9.00 þann 3. desember. Skipið hafi þá þegar í stað haldið til veiða.

IV.

Dómkröfur sínar kveðst stefnandi einkum byggja á 5., 6., 9., 25. og 53. gr. sjml. nr. 35/1985 og ákvæði 1.21. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem tók gildi þ. 27. mars 1998, og kröfu um sjóveð á l. tölulið 1. mgr. 197. gr. og 201. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Stefndi hafi fyrirvaralaust og með og bótaskyldum hætti rift ráðningu stefnanda sem 1. vélstjóra á togbátnum Sigurborgu SH-12 þann 2. desember 1999. Stefnandi hafi verið ráðinn ótímabundið sem 1. vélstjóri bátsins og eigi því rétt til 3ja mánaða uppsagnarfrests skv. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Um riftun gildi fyrirmæli 1. ml. l. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Þar segi að ef skipverja er vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. gr. eða 24. gr. laganna, eigi hann rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. laganna, í þrjá mánuði skv. 2. mgr. 9. gr., enda hafi stefnandi verið yfirmaður á bátnum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Ákvæði 25. gr. sjómannalaga sé riftunarregla sem feli í sér skaðabætur skv. svonefndri meðalbótareglu (normalerstatningsregel), hvort sem tjón skipverja verði meira eða minna vegna riftunarinnar en bótunum nemur. Með þessari skaðabótareglu sé fundið áætlað tekjutap þess sem rekinn er, án þess að þær tekjur sem viðkomandi skipverji kann að hafa eftir riftunina komi til frádráttar bótunum.

Endanleg dómkrafa stefnanda er miðuð við staðgengilslaun þriggja mánaða tímabils eftir að honum var vikið úr skiprúmi. Eins og fyrr segir eru ekki um hana tölulegur ágreiningur.

V.

Stefnandi telur sýnt að ráðningu hans hafi verið rift vegna meintrar ölvunar. Hann telur riftun á þeim grundvelli ekki fá staðist og vísar þar um til 4. töluliðar 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga. Þar segi að skipstjóri geti vikið skipverja úr skiprúmi, ef skipverji er ítrekað drukkinn um borð, nema brot sé því alvarlegra, eða að skipverji sé undir áhrifum fíkniefna. Ósannað sé að stefnandi hafi verið drukkinn. Neysla hans á 1,5 til 2,0 lítrum af bjór á fimm klukkustundum með staðgóðum málsverði og eftir að hans hafði verið neytt,  þ.e. frá kl. 14:00 til kl. 19:00 þann 2. desember 1999, geti með engu móti hafa leitt til þess að hann yrði drukkinn í skilningi nefnds ákvæðis 24. gr. sjómannalaga. Í öðru lagi ekki til þess að starfsgetu hans væri hamlað miðað við öll málsatvik. Í þriðja lagi, ef um ölvun teldist að ræða, þá sé um slíka minniháttar ölvun að ræða að skylt hefði verið að áminna stefnanda í skilningi ákvæðisins áður en brottrekstri yrði beitt, sbr. þann áskilnað ákvæðisins að skipverji sé ítrekað drukkinn um borð. Samkvæmt orðanna hljóðan og efni máls verði umræddu ákvæði ekki beitt í þessu tilviki, þar sem stefnandi hafi ekki verið ítrekað drukkinn um borð.

Stefnandi telur að ósamræmis gæti í skriflegri aðilaskýrslu skipstjórans á Sigurborgu SH-12, dags. 8. febrúar 2000. Þar sé að finna mismunandi orðalag um meint ölvunarástand stefnanda. Ýmist sé sagt, að hann hafi verið ofurölvi eða mjög drukkinn. Kjarni málsins sé sá, að skipstjórinn hafi gengið rakleiðis til stefnanda á bryggjunni og rekið hann hann, án þess að kynna sér á nokkurn hátt hvort hann væri ölvaður. Fram sé komið í málinu að það hafi verið útgerðarstjórinn, sem tekið hafi þá ákvörðun að reka stefnanda rétt fyrir kl. 19:00 þann 2. desember 1999 [svo í stefnu]. Útgerðarstjórinn hafi síðan skipað skipstjóranum að staðfesta brottreksturinn þegar stefnandi kæmi til skips, og skipstjórinn hafi hlýtt þeim fyrirmælum gagnrýnislaust.

Varðandi rétt skipstjóra til þess að víkja skipverja úr skiprúmi samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga bendir stefnandi á, að samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga geti skipstjóri vikið skipverja úr skiprúmi ef skipverji kemur ekki til skips á ákveðnum tíma og skipið á að láta úr höfn eða ráða verður annan mann í hans stað. Stefndi haldi því fram að stefnandi hafi verið boðaður um borð í Sigurborgu SH-12 kl. 19:00 þann 2. desember 1999, en að hann hafi ekki komið til skips fyrr en kl. 20:00 þetta sama kvöld. Hið rétta sé að stefnandi hafi verið staddur í söluturni rétt fyrir kl. 19:00 þ. 2. desember 1999 að kaupa vinnuvettlinga, á leiðinni til skips, þegar hann var rekinn. Hann hafi verið rekinn vegna ætlaðrar ölvunar, en ekki vegna þess að hann mætti ekki á réttum tíma til skips. Þessu til stuðnings fullyrðir stefnandi að óvíst hafi verið hvenær unnt yrði að halda til veiða. Eftir hafi verið að ganga frá toghlerum, sem ekki hafi verið í verkahring stefnanda, en deginum áður hafi stefnandi gengið frá öllum þeim hlutum um borð sem að honum sneru, svo sem að taka olíu og gera við kranakistu. Þetta kvöld, 2. desember, hafi verið leiðindaveður, 8 vindstig samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands. Í raun hafi báturinn ekki haldið úr höfn fyrr en um hádegi daginn eftir. Vinna við toghlera falli utan verkskyldna vélstjóra skv. 53. gr. sjómannalaga, þó svo að stefnandi hafi ekki sett það fyrir sig; hann hafi gengið í öll þau verk sem hann sá að gera þyrfti um borð og hann hafði getu til að sinna, útgerðinni og öðrum skipverjum til hagsbóta. Um þetta vísar stefnandi sérstaklega til forsendna héraðsdóms í Hrd. 1981:557 (564). Stefnandi hafi verið ráðinn í vél, en ekki á þilfar. Hann hafi hagað störfum sínum í samræmi við það.

VI.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að skipstjóri Sigurborgar SH 12, starfsmaður stefnda, hafi haft heimild í 2. tölulið og einnig í 4. tölulið 1. mgr. 24. gr. laga 35/1985 til þess að víkja stefnanda úr skiprúmi. Samkvæmt 3. mgr. sama lagaákvæðis beri stefnda ekki skylda til þess að greiða stefnanda kaup lengur en stefnandi gegndi starfi sínu. Stefnandi hafi fengið greitt kaup til þess tíma.

Skipstjóri hafði boðað áhöfn Sigurborgar SH-12 til skips kl. 19.00 þann 2. desember 1999, og það sé óumdeilt og öllum Ijóst að engin breyting yrði þar á, þar sem skipið hafi verið á leið til veiða. Skipið hafi því verið að láta úr höfn í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 24. gr. laga 35/1985. Skipstjóri hefði látið úr höfn, ef stefnandi hefði mætt ódrukkinn á réttum tíma til skips.

Stefndi vísar til 1. mgr. 59. gr. laga 35/1985. Skipstjóri beri ábyrgð á öryggi áhafnar og skipinu sjálfu, samanber III. kafla siglingalaga 34/1985 og III. kafla sjómannalaga nr. 35/1985, meðal annars beri skipstjóri ábyrgð á því samkvæmt 1. mgr. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 að skip sé nægilega mannað. Þar sem skipstjóra hafi verið ljóst að stefnandi var drukkinn og þar af leiðandi óhæfur til þeirrar vinnu er hann var ráðinn til, þá hafi skipið ekki verið nægjanlega mannað. Ekki sé unnt að leggja þá skyldu á skipstjóra, sem beri ábyrgð á mönnum og skipi, að taka við drukknum mönnum til starfa um borð í skipi sínu. Stefnandi staðfesti drykkju sína í stefnu. Ákvæði 2. tl. l. mgr. 24. gr. laga 35/1985 missti tilgang sinn, ef skipstjórinn teldist ekki hafa haft heimild til þess að víkja stefnanda úr skiprúmi, bótalaust. Stefnandi, yfirmaður á skipinu, hafi mætt að skipshlið einni klukkustund of seint, án nokkurrar réttmætar ástæðu, og þar að auki ölvaður og óhæfur til þeirrar vinnu er hann var ráðinn til. Þar að auki hafi skipstjóri sérstaklega áréttað þremur vikum fyrr, að ölvun liðist ekki um borð í skipinu. Útilokað væri fyrir skipstjóra stefnda að halda uppi aga og reglu um borð í skipi sínu eins og honum beri skylda til, ef hann hefði tekið stefnanda um borð í skipið, í því ljósi að stefnandi mætti of seint til skips og þar að auki drukkinn. Stefndi vísar sérstaklega  til þess að starf stefnanda sé hátekjustarf, og hljóti ábyrgð stefnanda að vera í einhverju samræmi við þær tekjur.

Stefndi gerir einnig kröfu um sýknu með vísan til 3. tl. sbr. 4 tl. 1. mgr. 24. gr. laga 35/1985. Skipstjórinn hafi sagt stefnanda upp störfum þann 17. október 1999, vegna vanrækslu i starfi. Skipstjórinn hafi þann 11. nóvember 1999 tilkynnt allri áhöfn að "ölvun væri stranglega bönnuð um borð að viðlagðri brottvikningu." Engu að síður hafi stefnandi mætt of seint og þar að auki drukkinn til skips kl. 20.00 hinn 3. desember 1999. Þessi staðreynd geri brot stefnanda það alvarlegt að skipstjóri stefnda hafi haft heimild til þess að víkja stefnanda úr skiprúmi samkvæmt 3. tl., sbr 4. tl. 24. gr. laga nr. 35/ 1985, bótalaust samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laga nr. 35/1985.

Fallist dómurinn ekki á aðalkröfu stefnda, gerir stefndi kröfu til þess að krafa stefnanda verði felld niður eða lækkuð verulega. Miðað verði við kaup stefnanda á uppsagnarfresti, frá 17. október 1999 að telja, en það kaup verði fellt niður eða lækkað verulega, með vísan til réttra staðgengilslauna í uppsagnarfresti og með vísan til eigin sakar stefnanda og vegna skyldu stefnanda til að draga úr tjóni sínu og vegna launatekna stefnanda á öðrum vinnustað á uppsagnartíma.

Skipstjóri stefnda hafi sagt stefnanda upp störfum frá og með 17. október 1999, eins og fram komi í skipsdagbók. Þar sem viðurkenning stefnanda á uppsögn liggi fyrir, en slík viðurkenning komi fram í stefnu, sé ástæðulaust að krefjast skriflegrar uppsagnar. Ákvæðið í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna, grein 1.21, um að uppsögn skuli vera skrifleg, sé leiðbeiningarákvæði eða verklagsregla til þess að auðvelda sönnun. Formbundin sönnum heyri til hreinna undantekninga í íslenskum rétti, hún sé helst þekkt á sviði réttarfars, t.d um stefnubirtingar og á örfáum öðrum sviðum, t.d. varðandi arfleiðsluvottorð ef erfðaskrá er vefengd. Stefnandi eigi því aldrei kröfu til launa lengur en í þrjá mánuði, frá og með 17. október 1999 til og með 17. janúar 2000. Hann hafi unnið og fengið greidd laun á uppsagnarfresti til 2. desember 2000, er honum var vikið úr skiprúmi vegna þeirra atvika er lýst er í aðalkröfu. Miðað við varakröfu stefnda ætti launakrafa stefnanda því aldrei að geta orðið hærri en staðgengilslaun fyrir desember og frá 1. janúar 2000 til 17. janúar 2000.

Enn telur stefndi að umdeild málsatvik í máli þessu staðfesti eigin sök stefnanda á þeim atvikum er leiddu til þess að honum var vikið úr starfi, jafnvel þótt ekki teldist um að ræða þau atvik, sem undir 24. gr. laga 35/1985 falla.

Þrautavarakrafa stefnda er þannig skýrð, að verði það mat dómsins að ekki hafi réttilega verið staðið að uppsögn 17. október 1999, heldur eigi uppsögn að miðast við 2. desember 1999, er stefnanda var vikið úr skipsrúmi, þá telur stefndi að kaup stefnanda í þrjá mánuði frá þeim tíma, það er vegna desember 1999, janúar 2000 og febrúar 2000, eigi að vera samtals kr. 2.100.000. Um þá fjárhæð út af fyrir sig er ekki ágreiningur.

Stefndi gerir kröfu til þess að samanlögð lækkun á kröfu stefnanda vegna verulegrar eigin sakar og vegna annarra launatekna stefnanda sé sama fjárhæð og krafa stefnanda.

VII.

Stefndi heldur því fram að ástæða fyrir frestun brottfarar hafi ekki verið vegna slæms veðurs heldur vegna brottvikningar 1. vélstjóra, sbr. skýrslu skipstjórans á Sigurborgu SH-12. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands sem fram hafa verið lagðar í málinu, hafi veðurlag á Snæfellsnesi dagana 2. og 3. desember 1999 verið eftirfarandi: Hægur vindur framan af degi þ. 2. desember en hvessti mjög er líða tók á daginn, 36 hnútar eða 8 vindstig um kvöldið. Hvasst fram undir morgun daginn eftir, en veðurhæð komin niður í 6 vindstig í mestu hviðum milli kl. 09:00 og 12:00 þ. 3. desember, en veður hafi síðan róast. Skipinu hafi einmitt verið haldið til veiða um hádegi þ. 3. desember þegar veður var orðið skaplegt.

Til frekari stuðnings því að ekki hafi verið sjóveður hefur stefnandi lagt fram útdrátt úr dagbók stýrimannsins á Ófeigi VE-325, Guðmundar Jóns Valgeirssonar, en sá bátur hafi legið bundinn var við bryggju þessa sömu nótt vegna veðurs. Í dagbókinni kemur fram að fimmtudaginn 2. desember 2000, milli kl. 15:00 og 16:00, hafi verið hætt við að fara út vegna brælu. Ófeigur VE-325 sé 238 brúttótonn með 727 kw aðalvél en Sigurborg SH sé 313 brúttótonn með 746  kw aðalvél.

Af framangreindu telur stefnandi mega ráða, að sér hafi ekki verið vikið úr skiprúmi vegna þess að hann hann hafi komið of seint til skips. Brottrekstur stefnanda verði ekki byggður á slíkum síðar tilbúnum málsástæðum. Þá verði að líta til þess að hvorugu skilyrði til brottrekstrar samkvæmt ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 24. gr. sjml. sé hér fullnægt; skipið hafi hvorki verið að láta úr höfn eins og ákvæðið áskilji né þurft að ráða annan mann í hans stað. Ráðning nýs vélstjóra hafi ekki átt sér ekki stað fyrr en síðar þetta sama kvöld, þ.e. eftir að stefnanda var vikið úr starfi. Umrætt ákvæði geti því aldrei átt við í því tilviki sem hér er til umfjöllunar.

Stefnandi telur að þar sem lögmaður stefnda sjái ástæðu til þess að vitna til ákvæðis 22. gr. áfengislaga nr. 75/1998 í bréfi sínu dags. þ. 02.05.2000, sem fram hefur verið lagt í málinu, til réttlætingar þeirri ákvörðun að víkja stefnanda fyrirvaralaust úr starfi, þá beri til þess að líta að samkvæmt 23. gr. sömu laga sé sakborningi heimilt að láta skera úr því með blóðrannsókn eða öndunarprófi, sem læknir eða annar kunnáttumaður framkvæmi, hvort hann sé undir áhrifum áfengis, leiki á annað borð einhver vafi um slíkt. Áfengislögin kunni að vera allra góðra gjalda verð, en máli þessu þó óviðkomandi. Þá leiðbeiningarreglu, sem fram komi um sönnun í 23. gr. laganna, mætti þó skoða í sambandi við það mál sem hér er til umfjöllunar. Stefnanda hafi aldrei verið gefinn kostur á að verjast ásökunum stefnda og starfsmanna hans, þess efnis að hann væri ölvaður og þá svo ölvaður að hann gæti ekki sinnt vélstjórastörfum sínum. Vilji stefndi beita nefndu ákvæði sjómannalaga um brottvikningu stefnanda úr starfi sökum ölvunar hvíli öll sönnunarbyrðin í þeim efnum á stefnda. Stefnandi vísar enn fremur í Hrd. 1993:1235 og Hrd. 1984:524 til stuðnings kröfum sínum. Athygli er vakin á því að mistök hafi orðið við útgáfu Hrd. 1993:1235 þar sem rangur héraðsdómur fylgi Hæstaréttardómnum. Réttan héraðsdóm í máli Hæstaréttar frá 1993, bls. 1235, sé að finna á bls. 1228 til 1234 í dómasafni Hæstaréttar fyrir árið 1993.

VIII.

Stefnandi, Vilhjálmur Bragason, bar fyrir dóminum að hann hefði hafið störf hjá stefnda í nóvember 1998 og starfað hjá honum sleitulaust þangað til hann var rekinn 2. desember 1999.

Hann var spurður hvort honum hefði verið sagt upp störfum áður en til þess kom að hann var rekinn. Hann kvaðst hafa verið kallaður upp í brú og skipstjórinn hefði sagt honum að hann væri rekinn. Sér hefði skilist að ástæðan hefði verið sú að hann hefði ekki verið nógu duglegur að þrífa. Hann kvaðst þó ekki kannast við neina vanrækslu í starfi. Stefnandi kvaðst hafa tekið þetta þannig að það lægi bara illa á skipstjóra, enda hefði það komið á daginn; skipstjóri hefði dregið þetta til baka viku – 10 dögum síðar. Þeir hefðu þá verið staddir tveir einir í borðsal skipsins, og skipstjóri hefði þá sagt honum að þeir skyldu bara gleyma þessu, sem hann hefði sagt í brúnni. Aðspurður kvaðst stefnandi aldrei hafa fengið skriflega áminningu eða skriflega uppsögn. Þessum brottrekstri eða uppsögn hefði ekki á neinn hátt verið fylgt eftir af hálfu útgerðar eða skipstjóra. Hann kvaðst ekki minnast þess að sér hefði verið sýnd bókun í skipsdagbók um að honum hefði verið vikið úr starfi. Hann hefði aldrei kvittað fyrir neitt slíkt. Ekki heldur í véladagbók skipsins. Yfirvélstjóri, Valdimar Elíasson hefði aldrei nefnt þetta við sig.

Í skriflegri aðiljaskýrslu skipstjórans, Ómars Þorleifssonar, er m.a. þessi klausa: ,,Kl. 1100 þann 17. okt 1999 var 1. vélstjóri Vilhjálmur Bragason kallaður uppí brú og sagt upp störfum. Ástæða fyrir brottvikningu var vanræksla í starfi. Yfirvélstjóra Valdimar Elíssyni er tafarlaust tilkynnt um uppsögn 1. vélstjóra er hann mætir á vakt. Uppsagnarfrestur er 3 mánuðir. (Sjá skips-dagbók)” Þessa lýsingu í aðiljaskýrslu skipstjóra sagði stefnandi vera bull. 

Stefnandi lýsti svo aðdraganda að brottrekstri sínum úr skiprúmi 2. desember 1999, að hann hefði farið með Guðmundi Hafsteini Sigurðssyni, matsveini, upp í kjörbúð; hann hefði ætlað að bæta við kost. Kosturinn hefði verið tekinn til, og átt hefði að senda hann niður í skip. Þeir hefðu farið inn á hótel og sig minnti að Guðmundur hefði fengið einhvers staðar bjór. Þeir hefðu drukkið einn lítinn bjór þarna inni á hótelinu. Þetta hefði verið fyrir hádegi. Stefnandi kvaðst vera slæmur í maga, og hefði selt upp bjór þessum. Þeir hefðu farið í apótek og þaðan í Krákuna, veitingahús. Þar kvaðst stefnandi hafa drukkið einn stóran bjór. Með þeim Guðmundi Hafsteini hefði verið háseti á skipinu. Þeir hefðu farið heim til hans og setið þar nokkra stund, en þaðan rölt aftur á Krákuna. Hann kvaðst ekki minnast þess að þeir hefðu drukkið heima hjá hásetanum. [Stefnandi mundi ekki nafn hásetans, en í stefnu kemur fram að hann heitir Trausti G. Björgvinsson.]

Stefnandi sagði að skipverjar hefðu verið boðaðir til skips kl. 19 þennan dag, en brottför hefði verið áætluð kl. 20. Eftir hefði verið að taka um borð toghlera áður en lagt væri úr höfn. Stefnandi var spurður hvort það hefði verið í hans verkahring, og hann svaraði: ,,Við unnum allir að þessu, yfirleitt öllu.”

Stefnandi sagði að á leið til skips, klukkan rúmlega 19, hefðu þeir félagar komið við í Esso-sjoppu. Þar hefðu þeir hitt útgerðarstjóra stefnda. Hann hefði spurt þá, hvort þeir væru drukknir. Stefnandi kvaðst hafa neitað því og sagt að þeir hefðu drukkið fáeina bjóra. Hann hefði haldið því fram að þeir væru drukknir og hefði sagt að þeir færu ekkert um borð svona, ,,við værum bara reknir”. Þeir skipsfélagar hefðu tekið þetta sem brottrekstur. Þeir hefðu sest niður þarna í sjoppunni og fengið sér kaffisopa og hugsað málið, setið þar drykklanga stund. Þeir hefðu ætlað að fá vettlinga í sjoppunni, en ekki fengið. Þeir hefði því farið til verkstjóra í fyrirtæki stefnda og fengið þar vettlinga. Þeim hefði síðan verið ekið til skips og hefðu komið þangað fyrir kl. 20.

Stefnandi sagði að þegar þeir þrír hefðu komið til skips hefði Ómar Þorleifsson skipstjóri komið til þeirra og sagt þeim ,,að taka draslið okkar”. Hann hefði ekki spurt þá út í drykkju, en hefði virst vita um hana. Hann hefði enga ástæðu gefið fyrir brottrekstrinum. Þeir hefðu þá farið um borð og sótt dótið sitt.

Stefnandi var spurður út frá atvikalýsingu stefnu, hvort þeir þrír skipsfélagar hefðu borðað hádegisverð og drukkið bjór með. Hann kvaðst hafa verið slæmur í maga og ekki borðað. Hann kvaðst ekki hafa drukkið meira en tvo-þrjá bjóra á Krákunni. Hann sagði þó að verið gæti að þeir hefðu verið þrír-fjórir, eins og segir í stefnu. Hann neitaði því að hafa drukkið sterkara áfengi en bjór. 

Stefnandi kannaðist við það sem segir í aðiljaskýrslu skipstjóra, að 11. nóvember hefði skipstjóri tilkynnt áhöfn að ölvun væri stranglega bönnum um borð að viðlagðri brottvikningu.

Stefnandi kvaðst aðspurður hafa verið á atvinnuleysisbótum í janúar og febrúar 2000 og meðfram í íhlaupavinnu, farið einn og einn túr. Fasta vinnu hefði hann ekki fengið fyrr en í apríl.

Stefnandi kvaðst hafa átt heima á Hvammstanga þegar atvik máls gerðust, hann hefði ekki haldið neitt heimili í Grundarfirði. Hann hefði bara dvalist um borð í skipinu. Hann sagði að Sigurborg SH 12 hefði verið gerð út fyrst á rækju og síðan á fiskitroll, meðan hann var á henni. Meðan skipið hefði verið á rækjunni, hefði verið landað á Húsavík. Hafnarfrí hefðu þá ekki verið tekin samkvæmt kjarasamningum.

Framkvæmdastjóri stefnda, Sigurður Sigurbergsson, lýsti því í aðiljaskýrslu sinni, hvað þeim stefnanda hefði farið á milli í Esso-sjoppunni. Hann kvaðst hafa komið þangað fyrir tilviljun þegar klukkan hefði verið 19:15-19:20. Þegar hann hefði komið inn hefði hann séð þar þrjá skipverja á Sigurborgu. Hann kvaðst strax hafa séð að þeir hefðu veri ölvaðir, og einn þeirra hefði verið með bjórflösku í hendi. Hann hefði orðið mjög undrandi og sagt við þá:  ,,Strákar mínir, ég trúi því ekki að þið séuð hér blindfullir, hangandi uppi í sjoppu, þegar þið eigið að vera mættir til skips. Þið eigið ekki von á góðu þegar þið komið um borð. Ómar verður ekki ánægður með að sjá ykkur.” Meira hefði þeim ekki farið á milli. Hann hefði síðan farið út. Hann neitaði því að hafa sagt við stefnanda eða nokkurn annan, að hann væri rekinn. Hann kvaðst vel vita að hann hann hefði rétt til að ráða og reka skipverja, en hefði aldrei gert það, skipstjórar hefðu séð um að ráða og reka menn hjá stefnda alla tíð.

Aðilinn Sigurður kvaðst síðan hafa farið niður að skipi, Sigurborgu, og hitt þar skipstjórann og aðra úr áhöfn, sem komnir hefðu verið til skips. Ómar skipstjóri hefði verið að furða sig á að þeir þremenningar væru ekki mættir. Hann kvaðst þá hafa sagt við hann, að hann hefði ekki séð betur en að þeir hefðu verið ,,blindfullir” uppi í sjoppu. Nánar spurður um samtal sitt við skipstjóra, sagði aðilinn Sigurður að hann hefði sagt við hann á þessa leið: ,,Ég ætla bara að vona það Ómar, að við förum ekki að gera út einhverja galeiðu hér.” Hann kvaðst hafa verið staddur við skip þegar þeir þremenningar hefðu komið þangað. Þá hefði klukkan verði langt gengin í átta eða að verða átta, eða eitthvað á bilinu hálfátta-átta.  Hann kvaðst hafa orðið vitni að því úr fjarlægð þegar skipstjóri rak þremenningana. Það hefðu orðið orðaskipti milli skipstjóra og þeirra, þegar þeir hefðu verið að koma út úr bíl.

Aðilinn sagði aðspurður að hann hefði ekki fengið tilkynningu um uppsögn stefnanda, enda hefði skipstjóri ekki tilkynnt sér þegar hann hefði ráðið menn eða rekið. Útgerðin hefði ekki fengið neinar upplýsingar um uppsögn stefnanda 17. október.

Aðilinn Sigurður var nánar spurður um ölvunarástand þremenninganna. Hann sagði að þeir hefðu verið ,,áberandi blindfullir”. Þeir hefðu verið slagandi, og stefnandi áberandi mest ölvaður. Og einn hefði verið með bjórflösku í hendi.

 

Skipstjórinn á Sigurborgu, Ómar Þorleifsson, gaf aðiljaskýrslu fyrir dómi. Hann staðfesti það sem fram kemur í skriflegri aðiljaskýrslu, að hann hefði 17. október 1999 kallað stefnanda á stjórnpall og sagt honum upp störfum. Ástæðan hefði verið vanræksla í starfi að hans mati. Hann hefði þó ekki tekið fram við stefnanda að uppsögnin væri vegna vanrækslu, heldur hefði hann sagt honum að hann væri óánægður með hans störf.  Hann hefði síðan tilkynnt yfirvélstjóra þessa uppsögn. Stefnandi hefði ekki hreyft mótbárum við þessari uppsögn. Hann hefði ekki merkt það á viðbrögðum stefnanda að hann teldi að hann hefði verið rekinn. Af hálfu stefnda hefur verið lagt fram ljósrit af opnu skipsdagbókar Sigurborgar SH 12, sem tekur til októbermánaðar 1999. Þar er m.a. skráð við sunnudag 17. október: ,, kl 1100 1. vélstjóri kallaður á stjórnpall og sagt upp störfum. (Ástæða. vanræksla í starfi)” Skipstjóri sagði aðspurður að stefnandi hefði ekki verið vitni að því að þetta var ritað í skipsdagbókina, og hann hefði ekki verið beðinn að kvitta fyrir þessa athugasemd. Klausa þessi hefði verið skráð í skipsbókina síðar sama dag eða um kvöldið. Stefnanda hefði ekki verið tilkynnt um þetta síðar, hvorki skriflega eða með öðrum hætti. En skipstjórinn kvaðst hafa tilkynnt stefnanda að honum væri sagt upp störfum frá þessum degi, 17. október. Aðilinn Ómar kvaðst aðspurður ekki hafa farið fram á að yfirvélstjóri skráði uppsögnina í véladagbók, og hann kvaðst ekki vita til þess að yfirvélstjóri hefði gert það. Hann kvaðst ekki muna til að hafa síðar dregið uppsögnina til baka, og hann sagðist aldrei hafa rætt þetta síðar við stefnanda.

Aðilinn Ómar sagði að brottför skipsins 2. desember 1999 hefði verið ákveðin kl. 19:00. Ef um hefði verið að ræða að hætt hefði verið við brottför vegna veðurs, hefði hann tilkynnt það áhöfninni kl. 19. Skipstjórinn sagði að stefnandi hefði komið til skips kl. 20. Hann kvaðst hafa verið ,,búinn að frétta af þessu brölti þeirra”, bæði frá Sigurði, að þeir væru drukknir, og öðrum í áhöfninni. Þegar þeir hefðu komið að skipinu kl. 20, klukkustund of seint, þá hefði hann farið upp á bryggju og talað við þá. Hann hefði þá séð í hvers lags ástandi þeir voru og hefði þá rekið þá alla þrjá. Hann hefði tiltekið ástæðuna fyrir brottrekstri, hún hefði verið ölvun. Hann kvaðst aðspurður ekki muna hvort hann hefði tilgreint sem brottrekstrarástæðu að þeir hefðu komið seint til skips. Hann gæti ekki staðfest það. Hann hefði ekki fengið nein sérstök viðbrögð þeirra við þessu, önnur en þau að þeir hefðu tekið dótið sitt, nema hvað Trausti háseti hefði þvertekið fyrir að vera drukkinn. Hann kvaðst ekki hafa haft neitt samband við stefnanda eftir þetta, og fyrst vitað af viðbrögðum stefnanda með bréfi lögmanns stefnanda [dags. 23. mars 2000. Innskot dómara]. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa snúið sér til lögreglu eða gert neinar ráðstafanir til að staðfesta ölvun stefnanda. Hann neitaði því að hann hefði  gert  tilraun til að sýna fram á með óyggjandi hætti að stefnandi væri óhæfur til starfa. Hann sagði að þremenningarnir hefðu verið slagandi drukknir og hefðu átt mjög erfitt með að komast um borð og frá borði. 

Stefnandi hefur lagt fram sem dskj. tvær opnur úr skipsdagbók. Önnur opnan er með bókunum í nóvember 1999. Þar er neðst á opnu bókun tímasett fimmtudag 2., að því er virðist desember, þótt mánuður sé ekki skráður, á þessa leið: ,,Kl 1850 mætir skipstjóri til skips. Brottför var ákveðin kl. 1900. Kl 2000 mætir 1. vélstj Vilhjálmur Bragason til skips ásamt þeim Guðmundi H Sigurðssyni matsveini og Trausta G. Björgvinssyni Ofurölvi. Þeim er umsvifalaust  sagt að taka pokann sinn (reknir) Brottför er frestað til kl 1000 daginn eftir meðan verið er að manna skipið.” Skipstjórinn kannaðist við að hafa ritað þetta í skipsbókina. Hann sagði að stefnandi hefði átt að byrja sína vakt kl. 19.

Aðilinn Ómar kannaðist við, aðspurður, að toghlerar hefðu verið á bryggjunni, þegar stefnandi kom til skips. Þá hefði verið að gera klárt til veiða. Toghlerar hefðu ekki verið komnir um borð. Annað hefði ekki verið ógert fyrir brottför. 

Aðilinn Ómar var spurður hvort hvasst hefði verið þegar atvik gerðust. Hann svaraði að það hefði verið einhver vindur, norðaustan 10-15 m/sek., hann myndi það ekki nákvæmlega. Hann væri vanur að leggja úr höfn í slíku veðri.

Í aðiljaskýrslu skipstjórans er m.a. þetta skráð: ,,Skipstjóri tilkynnti áhöfn þann 11. nóv. 1999 að ölvun væri stranglega bönnuð um borð að viðlagðri brottvikningu.” Aðilinn var beðinn um skýringar á þessari klausu. Hann sagði að hann hefði átt við með þessu að ölvun um borð og að mæta ölvaður til skips á brottfarartíma væri stranglega bannað. Hann hefði áminnt menn um þetta. Hann kvaðst hafa sagt áhöfninni að sér kæmi ekki við hvað menn gerðu í sínum hafnarfríum, en menn skyldu mæta ódrukknir til skips. Ef menn ætluðu að drekka vín, ættu þeir ekki að gera það um borð, heldur ættu þeir að fá sér hótelherbergi. Hafnarfrí væri 30 klst. í heimahöfn, og menn ættu enga heimtingu á því að vera um borð þann tíma. Þetta væri ekki heimili þeirra í hafnarfríum í heimahöfn. Skipstjóri sagði að ekki hefði verið sérstakt tilefni til að gefa ofangreinda áminningu, en hann hefði fyrst og fremst verið að hugsa um að menn væru ekki að klöngrast á milli skips og bryggju drukknir. Í Grundarfirði væri mikill munur flóðs og fjöru og erfitt að binda báta svo að þeir héldust vel að bryggju.

Aðilinn Ómar sagði að Sigurborgu hefði verið róið frá Húsavík á rækjuveiðar u.þ.b. 7 mánuði á ári, en fjóra mánuði hefði verið róið frá Grundarfirði. Hann kvaðst aðspurður kannast við að stefndi hefði verið sektaður vegna brota hans á ákvæðum kjarasamninga um hafnarfrí.

Aðilinn sagði aðspurður að nýr vélstjóri hefði verið ráðinn eftir að stefnanda var vikið úr skiprúmi.

Vitnið Guðmundur Jón Valgeirsson gaf skýrslu fyrir dómi. Frá honum stafar ljósrit úr dagbók, sem stefnandi hefur lagt fram. Hann bar að dagbók þessa hefði hann haldið á Ófeigi VE-325. Þar er skráð við fimmtudag 2. desember m.a.: ,,Tekin kör og ís –Grundó?” og einnig: ,, Bræla hætt við að fara út”. Vitnið sagði að Ófeigur hefði verið í Grundafjarðarhöfn 2. desember 1999. Hann staðfesti bókunina: ,,Bræla hætt við að fara út”. Vitnið sagði að mjög sjaldan hefði komið fyrir að frestað hefði verið brottför vegna veðurs. Í nefndu ljósriti stefndur við 3. desember: ,, - Grundó kl. 1110” Vitnið sagði að þetta þýddi að Ófeigur hefði verið að fara frá Grundarfirði á þessum tíma. Fram kom hjá vitninu að hann hefði verið stýrimaður á Ófeigi, en einnig gengt þar öðrum stöðum.

 

Vitnið Guðmundur Hafsteinn Sigurðsson var matsveinn á Sigurborgu SH 12 og var einn þremenninganna sem reknir voru úr skiprúmi 2. desember 1999. Hann var spurður um aðdraganda þess að hann var ásamt tveimur mönnum öðrum rekinn úr skiprúmi. Hann sagði að stefnandi hefði þennan dag sennilega drukkið um þrjá bjóra, tvo litla og einn stóran, ekkert sterkara áfengi. Það hefði ekki séð á honum áfengi, hann hefði ,,virkað alveg eðlilegur”. Vitnið sagði að þeir félagar hefðu drukkið einn bjór á herbergi sem hann hefði haft á hóteli, og síðan hefðu þeir farið á veitingahúsið Krákuna og síðan hefðu þeir komið við heima hjá þriðja skipsfélaganum og þaðan farið til skips.  Vitnið Guðmundur Hafsteinn var spurður hvaða orð skipstjórinn hefði viðhaft við þá þremenninga þegar þeir komu að skipshlið. Hann sagði að skipstjóri hefði sagt að þeir þyrftu ekki að mæta um borð eða koma með. Hann hefði tilgreint þá ástæðu að ,,við værum undir áhrifum áfengis”. Vitnið kannaðist við að hafa fengið aðvörun áður, en kvaðst ekki vita til að stefnandi hefði fengið slíka aðvörun. Hann neitaði því að hafa fengið nokkuð skriflegt frá stefnda um brottreksturinn, hann hefði bara fengið launagreiðslu, ,,og þær stóðust alveg”.

Vitnið Friðfinnur Friðfinnsson er veitingamaður á Krákunni. Hann gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið staðfesti að beiðni lögmanns stefnda, að stefnandi hefði verið á Krákunni 2. desember 1999 og verið að drekka þar ásamt tveimur öðrum mönnum. Hann sagðist hafa ekið þeim brott af Krákunni kl. 18:30 nákvæmlega heim til Trausta Björgvinssonar, en hann kvaðst ekki muna hvenær þeir hefðu komið, en þeir hefðu verið þarna í einn og hálfan til tvo klukkutíma. Þremenningarnir hefðu ýmist verið að drekka bjór eða vodka. Hann kvaðst aðspurður geta staðfest að stefnandi hefði drukkið, en ekki getað borið um hvort hann drakk vodkað eða bjórinn. Hann sagðist hafa merkt áfengisáhrif á stefnanda og á þeim öllum. Þeir hefðu verið kenndir, fullgróft væri að segja að þeir hefðu verið haugdrukknir. Það hefði vel mátt merkja á þeim vín. Það hefði verið í þeim hávaði, og hann hefði viljað losna við þá út; hann hefði átt von á matargestum. Hann hefði heyrt á þeim að þeir ættu að fara að mæta til skips.

Lögmaður stefnanda spurði vitnið Friðfinn hvort verið gæti að þau atvik sem hann hefði verið að lýsa hefðu gerst 1. desember 1999 en ekki 2. desember. Vitnið kvaðst halda að það gæti varla verið. Spurður um hvaða vikudag þetta hefði verið, sagði vitnið að þetta hefði sennilega verið fimmtudagur. Þegar hér var komið skýrslunni sagðist vitnið Friðfinnur ekki vilja fullyrða hvort þetta hefði verið 1. eða 2. desember. Lögmaður stefnda spurði þá vitnið Friðfinn hvort hann minntist þess að þremenningarnir hefðu verið á Krákunni 1. desember í mat. Vitnið kvaðst þá muna þetta, að þeir hefðu verið í mat daginn áður en hann ók þeim heim til Trausta.

Vitnið Einar Víðir Einarsson var háseti á Sigurborgu SH 12 þegar atvik máls urðu. Hann kvaðst aðspurður muna eftir að skipstjóri hefði varað skipverja við að vera ölvaðir um borð. Það hefði verið vegna þess að sést hefði vín á skipverja. Hann kvaðst ekki vita hvort stefnandi hefði heyrt þessa áminningu.

Vitnið Einar Víðir sagði að hann hefði ásamt fleirum komið akandi frá Reykjavík 2. desember og verið kominn um borð í Sigurborgu um kl. 18. Rétt fyrir kl. 19 hefðu þeir skipverjar farið að græja hlerana uppi á bryggju. Þá hefðu þeir þrír komið að skipi, ,,kokkurinn og Villi” og þriðji maður sem vitnið mundi ekki nafnið á; sá hefði verið búinn að fara einn túr. Hann hefði ekki heyrt hvað þeim hefði farið á milli skipstjóra og stefnanda, en þeir þrír hefðu farið um borð og sótt dótið sitt og farið á brott. Stefnandi hefði komið og kvatt sig. Vitnið Einar Víðir játaði því aðspurður að stefnandi hefði verið undir áhrifum áfengis: ,,Já, ég svo sem gat ekki annað en haldið það að hann hafi verið eitthvað í því.” ,,Hann tók í höndina á mér og tók utan um mig og kvaddi mig, og mér fannst hann hafa neytt áfengis. Ekki þannig að hann væri alveg veltandi fullur, heldur að það væri eitthvað í honum.”

Vitnið sagði að honum hefði verið sagt þegar hann frá borði 1. desember, að hann ætti að mæta til skips kl. 19 næsta dag. Skipið hefði átt að fara þá.

IX.

Niðurstöður.

Sannað er að stefnandi var undir áhrifum áfengis þegar hann kom að skipshlið Sigurborgar að kveldi 2. desember 1999. Ósannað er hins vegar að hann hafi verið ofurölvi, eða blindfullur, eins og forsvarsmenn stefnda hafa haldið fram, enda er slíkt í ósamræmi við vætti vitnanna Guðmundar Hafsteinn Sigurðssonar, Einars Víðis Einarssonar og Friðfinns Friðfinnssonar og framburð stefnanda. Ákvæði 4. tl. 1. mgr. 23. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 heimilar skipstjóra að víkja skipverja úr skiprúmi, ef “skipverji er ítrekað drukkinn um borð, nema brot sé því alvarlegra . . .” Því er ekki haldið fram í málinu að um ítrekaða drykkju stefnanda um borð í Sigurborgu hafi verið að ræða. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á það að áhrif áfengisneyslu stefnanda hafi verið slík að hann hafi ekki getað sinnt þeim skyldum sem honum bar að sinna sem 1. vélstjóra um borð í Sigurborgu. Ósannað er að drykkja stefnanda hafi ekki verið svo alvarleg að 4. tl. 1. mgr. 23. gr. sjómannalaganna eigi við um tilvikið. Stefnda var því ekki heimilt að víkja stefnanda úr skiprúmi með vísan til áfengisneyslu hans. Viðvörun sú sem skipstjóri hafði uppi við áhöfn, þar sem hann bannaði áfengisneyslu um borð í skipinu að viðlögðum brottrekstri,  hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu.

Við það verður að miða að skipstjóri hafi einungis tilgreint áfengisneyslu stefnanda sem ástæðu fyrir því að hann vék honum úr skiprúmi, sbr. einkum aðiljaskýrslu skipstjórans fyrir dóminum. Samkvæmt skýrslu skipstjóra áttu skipverjar að koma til skips kl. 19, og þá átti að leggja úr höfn. Þetta fær stuðning af vætti vitnisins Einars Víðis. Stefnandi ber aftur á móti að hann hafi átt að koma til skips kl. 19 og brottför skyldi verða kl. 20. Þessi frásögn fær stuðning af því að skipið var ekki búið til brottfarar kl. 19, því að þá átti eftir að taka um borð toghlera sem voru á bryggjunni, en ekki verður talið að vinna við það hafi verið í verkahring stefnanda, sbr. 53. gr. sjómannalaga. Skipstjóri bar að stefnandi hefði komið til skips kl. 20, en stefnandi sagði að hann hefði komið fyrir kl. 20, og ber að miða við að svo hafi verið, sbr. framburð framkvæmdarstjóra stefnda, Sigurðar Sigurbergssonar, en hann bar að stefnandi hefði verið kominn til skips eitthvað á bilinu hálfátta-átta. Þegar virt er það sem hér er saman dregið um komu stefnanda til skips, telur dómari að ekki verði á það fallist að stefndi geti borið fyrir sig að skipstjóra hafi verið heimilt að vísa stefnanda úr skiprúmi á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 23. gr. sjómannalaga.

Samkvæmt því sem nú hefur verið reifað var brottvikning stefnanda úr skiprúmi á Sigurborgu SH 12 2. desember 1999 ólögmæt, og á hann rétt til bóta skv. 1. málslið 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga, sbr. 9. gr. sömu laga.

Stefndi heldur því fram að stefnanda hafi verið sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 17. október 1999. Stefnandi greinir öðru vísi frá, segir að skipstjóri hafi rekið sig, en dregið síðar þá ákvörðun til baka. Samkvæmt skýru ákvæði kjarasamnings, sem aðiljar eru bundnir af, frá 27. mars 1998, gr. 1.21., 3. mgr., skal uppsögn vélstjóra vera skrifleg. Svo var ekki. Stefndi hefur að vísu lagt fram ljósrit opnu úr skipsdagbók, þar sem lesa má við 17. október að skipstjóri hafi sagt stefnanda upp störfum og tilkynnt það yfirvélstjóra. Skipsdagbókin sjálf hefur ekki verið sýnd í réttinum og ekki hefur yfirvélstjórinn verið leiddur sem vitni. Þá upplýsti skipstjóri að stefnanda hefði ekki verið sýnd bókunin í skipsdagbókina. Verður að telja ósannað að stefnanda hafi verið sagt upp störfum, svo sem stefndi heldur fram.

Sú verður niðurstaða þessa máls að stefndi verður dæmdur til að greiða þriggja mánaða staðgengilskaup, sbr. 1. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga.

Í 25. gr. sjómannalaga felst sérregla um skaðabætur vegna ólöglegrar riftunar á skiprúmssamningi, svokölluð meðalbótaregla. Eiga bætur ekki að sæta frádrætti vegna annarra tekna bótakröfuhafa eða vegna eigin sakar, eins og stefndi heldur fram til rökstuðnings varakröfu og þrautavarakröfu sinni. Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.100.000 með þeim dráttarvöxtum sem krafist er, enda er ekki tölulegur ágreiningur milli aðila um fjárhæðina. Þá ber að fallast á kröfu stefnanda um að staðfestur verði sjóveðréttur hans í skipinu Sigurborgu SH 12 fyrir dómkröfunni, sbr. lagatilvísanir í stefnu.

Eftir úrslitum máls ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, og skal hann vera kr. 350.000, og er þá ekki gert ráð fyrir virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

Mál þetta sótti Friðrik Á Hermannsson hdl.fyrir stefnanda, en Magnús Helgi Árnason hdl. hélt uppi vörnum fyrir stefnda.

Dóm þennan kveður upp Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari. 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Soffanías Cecilson hf, greiði stefnanda, Vilhjálmi Bragasyni, kr. 2.100.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 2. desember 1999 til greiðsludags.

Stefnandi á sjóveðrétt í Sigurborgu SH-12, skipaskrárnr. 1019, fyrir hinni dæmdu fjárhæð ásamt vöxtum.

Stefndi greiði stefnanda kr. 350.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.