Hæstiréttur íslands
Mál nr. 656/2006
Lykilorð
- Aðild
- Samningur
- Frávísunarkröfu hafnað
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 7. júní 2007. |
|
Nr. 656/2006. |
Mark Ashley Wells(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Lesley Patricia Ágústsson(Andri Árnason hrl.) |
Aðild. Samningur. Frávísunarkröfu hafnað. Gjafsókn.
L gerði 4. október 2004 samning við félagið A um að L myndi inna af hendi fjármagn til félagsins en fá í staðinn nánar tilgreind réttindi í svonefndu viðskiptakerfi þess. M var eigandi félagsins og jafnframt framkvæmdastjóri þess og ritaði sem slíkur undir samninginn við L. L innti féð af hendi. Í máli sem hún höfðaði á hendur félaginu og M persónulega krafðist hún endurgreiðslu þess. Fyrir Hæstarétti var einvörðungu leyst úr ábyrgð M. L hélt því meðal annars fram að M hefði bakað sér bótaábyrgð gagnvart henni með því að fá hana með saknæmum og ólögmætum hætti til að leggja fram fjármuni til félagsins. Ekki var fallist á frávísunarkröfu M. Þá var heldur ekki fallist á að sýkna M vegna aðildarskorts. Varnir M sem lutu að því að hann hefði ekki valdið L tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti komust ekki að fyrir Hæstarétti þar sem þær voru of seint fram bornar. Að því virtu, gögnum málsins og framburði vitna, var lagt til grundvallar í málinu að M hefði með saknæmum og ólögmætum hætti fengið L til að inna af hendi fé til félagsins A. Á því bar hann skaðabótaábyrgð gagnvart henni og var krafa hennar á hendur honum tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Hjördís Hákonardóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2006. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefndu, en að því frágengnu sýknaður að svo stöddu. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.
I.
Stefnda gerði 4. október 2004 samning við félagið Aquanetworld Ltd. Félagið er samkvæmt gögnum málsins í eigu áfrýjanda en hann er jafnframt framkvæmdastjóri þess og ritaði sem slíkur undir samninginn, sem fjallaði um að stefnda innti af hendi fjármagn til félagsins og fengi í staðinn nánar tilgreind réttindi í svonefndu viðskiptakerfi þess. Til stóð að stefnda yrði svæðisbundinn stjórnandi félagsins á Íslandi. Á tímabilinu 6. október 2004 til 25. febrúar 2005 innti hún af hendi samtals 2.644.850 krónur í fimm greiðslum til félags áfrýjanda. Í tölvupósti stefndu til áfrýjanda 9. júlí 2005 óskaði hún eftir endurgreiðslu fjárins þar sem hún taldi að hann hefði ekki efnt áðurnefndan samning. Í svari áfrýjanda 10. júlí 2005 kom fram að hann hafi ákveðið að endurgreiða stefndu „að fullu (þrátt fyrir samninginn) eins skjótt og auðið er“. Í tölvubréfi lögmanns stefndu til áfrýjanda 9. ágúst 2005 krafðist hann endurgreiðslu að fjárhæð 2.700.000 króna. Í svarbréfi áfrýjanda sama dag var fyrri afstaða um endurgreiðslu áréttuð. Enn voru kröfur stefndu ítrekaðar í bréfi lögmanns hennar 28. september 2005. Í svarbréfi áfrýjanda 9. október 2005 kom fram sú afstaða að stefnda ætti fyrst rétt á endurgreiðslu 28. september 2007, þegar þrjú ár væru liðin frá fjárfestingunni. Stefnda höfðaði mál á hendur Aquanetworld Ltd. og áfrýjanda til endurgreiðslu fjármunanna 26. janúar 2006. Í hinum áfrýjaða dómi voru Aquanetworld Ltd. og áfrýjandi dæmd óskipt til endurgreiðslu fjárins. Félagið unir héraðsdómi en áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar eins og áður er lýst.
II.
Áfrýjandi byggir frávísunarkröfu sína á því að stefna málsins hafi ekki fullnægt skilyrðum e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran málsgrundvöll auk þess sem persónuleg aðild áfrýjanda að málinu hafi verið vanreifuð. Sýknukrafa áfrýjanda er reist á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Verði ekki fallist á það byggir áfrýjandi á því fyrir Hæstarétti að allar staðhæfingar stefndu um óheiðarleika og svik hans við hana séu ósannaðar. Þrautavarakrafa áfrýjanda um sýknu að svo stöddu er reist á því að skylda til endurgreiðslu samkvæmt samningnum 4. október 2004 sé hvað sem öðru líður enn ekki orðin virk.
Stefnda mótmælir málástæðu áfrýjanda um óskýran málsgrundvöll sem of seint fram kominni. Þá hafnar stefnda því að aðild áfrýjanda að málinu sé vanreifuð. Kröfu sína um staðfestingu héraðsdóms reisir hún aðallega á því að áfrýjandi hafi persónulega tekið á sig ábyrgð á endurgreiðslu fjárins með yfirlýsingum sínum í tölvubréfum, en til vara á því að áfrýjandi hafi bakað sér bótaábyrgð gagnvart stefndu með því að fá hana með saknæmum og ólögmætum hætti til að leggja fram fjármuni í félagið Aquanetworld Ltd., sem áfrýjandi var stofnandi að og í fyrirsvari fyrir. Loks telur stefnda að ekki beri að sýkna að svo stöddu þar sem greiðsluskylda hafi þegar skapast. Stefnda mótmælir sérstaklega sem of seint fram komnum málsástæðum áfrýjanda sem lúta að því að stefnda hafi ekki staðið við samningsskuldbindingar sínar við Aquanetworld Ltd. og að óheiðarleiki og blekkingar áfrýjanda séu ósannaðar í málinu.
III.
Aðild áfrýjanda að málinu er nægilega reifuð í stefnu enda er þar getið með fullnægjandi hætti um þær málsástæður sem teflt er fram til stuðnings því að kröfur stefndu á hendur áfrýjanda persónulega skuli teknar til greina. Þá er grundvöllur málsins nægilega skýrt markaður í stefnu en það atriði varðar frávísun án kröfu ef við á. Samkvæmt þessu er frávísunarkröfu áfrýjanda hafnað.
Að framan er rakið á hverju stefnda byggir málatilbúnað sinn á hendur áfrýjanda. Hann hefur borið því við að endurgreiðslukrafa stefndu sé reist á samningi við Aquanetworld Ltd. sem áfrýjandi var ekki aðili að og hafi hann einvörðungu komið fram fyrir hönd þess félags sem fyrirsvarsmaður og geti af þeim sökum ekki borið ábyrgð á kröfunni. Ekki er útilokað að lögum að fyrirsvarsmaður félags beri ábyrgð á tjóni sem hann bakar öðrum með saknæmum og ólögmætum hætti í nafni félags. Er þá slík ábyrgð einkum reist á almennu skaðabótareglunni eða eftir atvikum reglum um ábyrgð forsvarsmanna félags. Stefnda hefur teflt því fram að áfrýjandi beri ábyrgð á kröfu sinni á framangreindum grundvelli. Þegar af þeirri ástæðu verður áfrýjandi ekki sýknaður vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Áfrýjandi færði engar varnir fram í héraði gegn þeirri málsástæðu stefndu sem að framan er lýst og lýtur að því að hann hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið henni tjóni. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi teflt slíkum vörnum fram en stefnda hefur mótmælt því að þær komist að. Fallist er á með stefndu að varnir þessar séu of seint fram komnar, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu virtu, gögnum málsins og framburði þeirra vitna sem leidd voru fyrir héraðsdóm, verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins fullyrðingar stefndu um að áfrýjandi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti fengið hana til að inna fé af hendi til félagsins Aquanetworld Ltd. sem er í hans eigu. Á því ber hann skaðabótaábyrgð gagnvart henni. Samkvæmt því verður krafa stefndu á hendur áfrýjanda tekin til greina en áfrýjandi hefur ekki andmælt fjárhæð hennar eða upphafstíma dráttarvaxta.
Að virtum þessum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði.
Gjafsóknarákvæði héraðsdóms verður staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er áfrýjanda, Mark Ashley Wells, varðar um annað en málskostnað.
Áfrýjandi greiði samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Lesley Patriciu Ágústsson, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2006
Mál þetta, sem var dómtekið 25. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Lesley P. Ágústsson, Strandaseli 2, Reykjavík á hendur Aquanetworld ltd., Grundarhúsum 15, Reykjavík og Mark Ashley Wells, 11 Wellington Lodge N, Winfield, Windsor, Bretlandi, dvalarstaður að Öldugötu 33, Hafnarfirði með stefnu birtri 26. janúar 2006.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 2.644.850 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júlí 2005 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefndu krefjast nú aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og til vara krefst stefndi, Aquanetworld ltd., sýknu að svo stöddu.
Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað.
Í greinargerð sinni til Héraðsdóms kröfðust stefndu aðallega frívísunar málsins frá Héraðsdómi. Með úrskurði Héraðsdóms frá 4. maí sl. var frávísunarkröfunni hafnað.
Málsatvik.
Stefnandi og Aquanetworld gerðu með sér samning hinn 4. október 2004, þess efnis að stefnandi legði fjármagn í viðskiptakerfi Aquanetworld, og átti stefnandi að verða svæðisbundinn stjórnandi Aquanetworld fyrir Ísland.
Á tímabilinu 10. október 2004 til 25. febrúar 2005 greiddi stefnandi síðan stefnukröfu málsins, þ.e. 2.644.850 kr.
Stefnandi mun í júlí 2005 hafa lýsti yfir óánægju sinni með samstarfið við stefndu og farið þess á leit að hún fengi endurgreitt það fjármagn, sem hún hafði fjárfest í viðskiptakerfi Aquanetworld ltd.
Í svari fyrirsvarsmanns Aquanetworld ltd., stefnda Marks, frá júlí 2005 samþykkti hann að leysa stefnanda undan þeim skyldum sem hún hafði tekist á hendur með samningnum og að endurgreiða henni þá fjárhæð er hún hafði innt af hendi til félagsins.
Með tölvuskeyti 9. ágúst 2005 frá lögmanni stefnanda til fyrirsvarsmanns Aqua-networld, var þess síðan krafist að Aquanetworld endurgreiddi stefnanda u.þ.b. 2,7 milljónir íslenskra króna.
Í tölvupósti frá stefnda, Mark, sama dag, ítrekaði hann boð um að leysa stefnanda undan samningnum og endurgreiða henni, jafnvel þótt samningur þeirra á milli tilgreini að ekki yrði boðið upp á neinar endurgreiðslur í þrjú ár.
Með bréfi 28. september 2005, frá lögmanni stefnanda til fyrirsvarsmanns Aquanetworld, var krafan ítrekuð. Þessu bréfi lögmannsins svaraði fyrirsvarsmaður Aquanetworld með bréfi 9. október 2005, þar sem hann ítrekaði fyrri svör Aquanetworld.
Með stefnu, útgefinni 6. janúar 2006, höfðaði stefnandi síðan mál á hendur Aquanetworld ltd. og Mark Ashley Wells, en honum er stefnt persónulega til að þola dóm.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi upplýsir, að hún hafi greitt inná bankareikning stefnda hér á landi í KB banka nr. 301-26-7898 samtals kr. 2.644.850, þ.e. 6. október 2004, 445.000 kr., 11. október sama ár 99.850 kr., 7. desember sama ár 2.000.000 kr. og loks 25. febrúar 2005, 100.000 kr. Stefnandi freistar þess nú að ná aftur þessum fjármunum og vísar til almennu skaðabótareglunnar og meginreglna samninga- og kröfuréttar varðandi endurgreiðslu fjár, riftun og skilarétt.
Stefnandi kveður rétt að upplýsa um forsögu málsins. Hún kveður þau stefnda, Mark, hafa hist haustið 2004. Hann hafi verið að kynna fyrirtæki sitt Aquanetworld ltd. en það fyrirtæki átti að selja aðgang að viðskiptaneti sem byggt væri á einhvers konar afsláttarkerfi. Talað hafi verið um að þeir sem keyptu aðgang fengju eigin vefsíðu með tenglum inná ýmis fyrirtæki sem samþykkt hefðu að veita afslætti. Þá áttu þeir að fá afsláttarkort á afslætti hjá þessum sömu fyrirtækjum og heimild til þess að gera samninga um aðgang nýrra aðila og fá hlutdeild í tekjum vegna þess. Um hafi verið að ræða einhvers konar píramídakerfi, þannig að viðkomandi fengi tekjur og punkta af þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem skráðu sig inn undir viðkomandi eða á hans vegum. Þá hafði Mark lýst þessu sem stórkostlegum tekjumöguleika og fé sem lagt væri inn í fyrirtækið myndi skila sér margfalt til baka og stefnandi fengi hlut í framtíðartekjum stefnda, Aquanetworld ltd. Þá átti hún að fá stöðu staðbundins stjórnanda á Íslandi gegn viðbótargreiðslum, sem hún innti af hendi og átti þetta að tryggja henni fastar mánaðarlegar greiðslur. Auk þess skyldi stefnandi fá eitt þúsund svokallaðar ,,portfolios“, möppur, sem hún átti að geta selt áfram til nýrra meðlima.
Stefnandi kveðst hafa tekið lán til að geta greitt fyrir framangreint. Einnig hafi hún sagt upp vinnu sinni til þess að geta einbeitt sér að væntanlegu starfi fyrir stefndu. Stefnandi kveður að ekkert hafi bólað á efndum og hún hafi ekki fengið greiðslur frá stefndu.
Stefnandi kveðst hafa innt 2.000.000 kr. greiðsluna í desember 2004 af hendi eftir að stefndi, Mark, hafi haft samband við hana til að ýta á eftir með greiðslu. Hann hafi tjáð stefnanda að verið væri að leggja lokahönd á hugbúnað að nafni GIANTS og ganga frá tæknimálum varðandi vefsíðu fyrirtækisins. Stefnandi kveðst um vorið 2005 hafa farið að gruna að ekki væri allt með felldu þegar hún hafi heyrt frá öðrum aðilum sem tengdust fyrirtækinu að hlutirnir væru ekki eins og stefndi, Mark, héldi fram. Í framhaldi hafi farið fram bréfskipti milli aðila og stefndi, Mark, hafi fallist á að rifta samningum við stefnanda og endurgreiða henni það fé sem hún hafði greitt stefnda eins fljótt og kostur væri, þ.e. innan mjög skamms tíma eða um leið og fjármunir væru fyrirliggjandi til slíks. Stefnandi kveðst hafa skilað stefndu öllum gögnum varðandi aðgang sinn að kerfinu og hætt öllum störfum fyrir félagið. Þá endurgreiddi stefnandi þeim aðilum sem hún hafði selt aðgang að kerfinu.
Stefnandi heldur því fram að stefndi, Mark, hafi beitt sig og öðrum blekkingum til þess að leggja fé inní félagið Aquanetworld. Hann nýti sér trúgirni fólks og hagnaðarvon til þess að fá það til þess að afhenda sér fé. Stefndi, Mark, lýsti því fjálglega fyrir fólki hvernig hann sjálfur hefði hagnast gríðarlega á síðustu árum eða frá því hann vann sem verkamaður í verksmiðju í Bretlandi. Hann vilji nú gefa fólki kost á því að taka þátt í ævintýrinu og hagnast á sama hátt. Ekkert hefur borið á efndum þess sem hann hefur lofað þeim sem afhent hafa honum fé. Stefnandi kveðst hafa kært stefnda, Mark, til lögreglunnar í Reykjavík.
Stefnandi heldur því fram að lýsingar á heimasíðu Aquanetworld á veraldarvefnum, veffanginu aquanetworld.com, um hvernig fólk geti hagnast gífurlega með tiltölulega auðveldum hætti og litlum tilkostnaði, fái ekki staðist. Stefnandi kveður umrætt afsláttakerfi aldrei hafa komist á koppinn og afsláttarkort séu ekki í umferð. Á vefsíðunni er einnig vísað til hugbúnaðarins, GIANTS, sem eigi að vera byltingarkenndur og er ekki annað að sjá en að hugbúnaðurinn eigi að vera tilbúinn og í fullri notkun. Þetta sé einungis blekking ein.
Stefnandi tekur fram að hún sé ekki auðug og hafi sett fé sitt í framangreint og hefði einnig þurft að taka bankalán vegna þessa sem hún er nú að greiða af. Stefnandi byggir á því að hún eigi rétt til endurgreiðslu þess fjár sem hún lagði inná reikning stefnda, Aquanetworld ltd., hér á landi að kröfu stefnda, Mark Ashley Wells. Ekki hafi verið um gjöf að ræða. Stefnandi átti að fá í sinn hlut ákveðna stöðu, vöru, þjónustu og tekjur. Ákveðnar forsendur og væntingar hafi legið fyrir hjá stefnanda, þegar umrætt fé var látið af hendi til stefnda, sem byggði á loforðum og yfirlýsingum stefnda, Mark, sem ekki hafi staðist. Þessar forsendur, sem stefnandi byggði greiðslur sínar á og kunnar voru við samningsgerðina, hafa brostið. Byggt er á að stefnandi eigi rétt til endurgreiðslu þess fjár sem hún greiddi stefndu vegna þessa.
Stefnandi telur ljóst að stefndu hafi beitt svikum eða blekkingum til þess að fá stefnanda til þess að leggja sér til umrædda fjármuni. Þessar blekkingar komu fram í þeim samtölum sem stefnandi átti við stefnda, Mark, og koma einnig að hluta fram á heimasíðu félagsins. Því eigi stefnandi endurgreiðslu og skaðabótakröfu á hendur stefndu vegna þessa. Með því að fá stefnanda til þess að leggja til umrætt fé hafi stefndu valdið stefnanda tjóni sem nemur a.m.k. sömu fjárhæð og stefnukröfur málsins.
Stefnandi tekur fram að hvað sem líði ætluðum blekkingum og svikum gagnvart stefnanda, sem virðast augljós, sé byggt á að stefnandi eigi rétt til endurgreiðslu fjár síns á grundvelli almennra reglna samninga- og kröfuréttar um endurgreiðslu- og skilarétt. Byggt er á að þeim samningi sem stefnandi byggði greiðslur sínar á, hvert sem efni hans eða form sé, hafi verið rift og réttur til endurgreiðslu stofnast. Hafa stefndu enn fremur fallist á það skriflega og hafi það samþykki verið gefið án nokkurra fyrirvara að því er virðist og boð um endurgreiðslu verið ítrekað en ekki efnt. Stefnandi telur að með því að fallast á riftun og að endurgreiða stefnanda hafi stefndu viðurkennt stefnukröfurnar í málinu. Stefndu geta ekki afturkallað þetta samþykki sitt enda var það gefið án fyrirvara eða annarra skilyrða.
Varðandi dráttarvaxtakröfuna þá miðast upphaf hennar við 10. júlí 2005 eða þann tíma sem ljóst sé að stefndi hafi samþykkt riftun og að endurgreiða stefnanda fé sitt.
Stefnandi tekur fram að Berglindi Baldursdóttur sé stefnt fyrir dóm til þess að mæta f.h. stefnda, Aquanetworld ltd. Hún muni vera umboðsmaður stefnda, Aquanetworld ltd., hér á landi. Stefna í málinu sé birt fyrir henni að því er varðar stefnda, Aquanetworld. Stefndi, Mark, er stofnandi og forstjóri fyrirtækisins og er kröfum beint gegn honum persónulega í málinu og stefna birt fyrir honum, í þeim tilgangi, á dvalarstað hans í Reykjavík.
Um lagarök er vísað til reglna samninga- og kröfuréttar varðandi endurgreiðslu- og skilarétt. Vísað er til almennu skaðabótareglunnar og meginreglna skaðabótaréttar innan og utan samninga. Vísað er til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum IV. kafla þeirra varðandi galla á söluhlut. Þá er vísað til IX. kafla þeirra einkum 64. gr. Einnig er vísað til laga um neytendakaup nr. 48/2003, einkum VIII. kafla þeirra. Þá er vísað til III. kafla laga um samningsgerð o.fl. nr. 7/1936 einkum 30., 33. og 36. gr. laganna. Varðandi varnarþing er vísað til 4. tl. 32. gr. og 1. tl. 35. gr. eml. nr. 91/1991, sbr. 40. gr. laganna sbr. og 5. gr. laga um Lúganósamninginn nr. 68/1995. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, einkum 5. og 6. gr. Kröfu um málflutningsþóknun styður stefnandi við XXI. kafla eml. nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndi, Aquanetworld ltd., byggir á því að málshöfðun stefnanda eigi rætur sínar að rekja til samnings milli stefnanda og Aquanetworld ltd., Reg. No. HE 142831, 70 Kyrillou Loukareos Str., Kato Polemidia, 4156 Limasol, Kýpur, sem undirritaður var á Kýpur, 4. október 2004. Stefndi telur sérstakt að stefnandi hafi ekki lagt fram samninginn í málinu, því telja verður að lögskipti samningsaðila, og þ.a.l. endurgreiðslukrafa stefnanda, grundvallist á samningnum.
Samningurinn ber með sér að hann sé gerður milli stefnanda, Lesley P. Ágústsson, og Aquanetworld ltd., Reg. No. HE 142831, 70 Kyrillou Loukareos Str., Kato Polemidia, 4156 Limasol, Kýpur. Stefndi telur ljóst, að stefndi, Aquanetworld ltd., kt. 490804-9190, sem sé ekki með skráð lögheimili á Íslandi, en staðsettur að Grundarhúsum 15, Reykjavík, er ekki aðili að ofangreindum samningi og því sé endurgreiðslukröfu stefnanda, sem er grundvölluð á lögskiptum sem byggja á ofangreindum samningi, ekki réttilega beint að stefnda. Stefndi gerir því þá kröfu að vera alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Hvað varðar frekari rök fyrir sýknukröfunni er vísað til málsatvikalýsingar og rökstuðnings fyrir frávísunarkröfu stefnda í greinargerðinni.
Stefndi, Mark Ashley Wells, byggir á því að málshöfðun stefnanda eigi rætur sínar að rekja til samnings milli stefnanda og Aquanetworld ltd., Reg. No. HE 142831, 70 Kyrillou Loukareos Str., Kato Polemidia, 4156 Limasol, Kýpur, sem undirritaður var á Kýpur, 4. október 2004.
Samkvæmt samningnum er hann gerður milli stefnanda, og Aquanetworld ltd., Reg. No. HE 142831, 70 Kyrillou Loukareos Str., Kato Polemidia, 4156 Limasol, Kýpur, og undirritaður af stefnanda, Lesley P. Ágústsson, og stefnda, Mark Ashley Wells, sem fyrirsvarsmanni Aquanetworld.
Stefndi, Mark, telur að ekki sé með nokkrum hætti gerð grein fyrir því af hverju stefnda, Mark Ashley Wells, er stefnt persónulega í málinu, en ljóst sé af samningnum að stefndi, Mark, ritar undir samninginn sem fyrirsvarsmaður og f.h. Aquanetworld ltd. Það sé því ljóst að stefndi, Mark Ashley Wells, sem hefur aldrei verið með skráð lögheimili á Íslandi, en staðsettur í hús, að Tunguvegi 18, Reykjavík, er ekki aðili að nefndum samningi og sé því endurgreiðslukröfu stefnanda, sem er grundvölluð á lögskiptum sem byggja á ofangreindum samningi, ekki réttilega beint að stefnda.
Stefndi gerir því þá kröfu að vera alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varðandi kröfu stefnda, Aquanetworld ltd., um sýknu að svo stöddu, bendir stefndi á að gjalddagi endurgreiðslukröfu stefnanda sé ekki kominn, sbr. 2. mgr. 3. gr. á blaðsíðu 3 í fylgiskjali með samningi málsaðila frá 4. október 2004 og yfirlýsingu fyrirsvarsmanns Aquanetworld að endurgreiðsla til stefnanda muni eiga sér stað um leið og þess væri kostur og eigi síðar en 28. september 2007.
Varðandi málskostnaðarkröfu er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er gerð krafa um virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað.
Um lagarök er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 16., 17. 32., 33. og 80. gr. laganna, laga nr. 68/1995 um Luganosamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum. Þá er einnig vísað til grunnreglna samninga- og kröfuréttar.
Forsendur og niðurstaða.
Í málinu leitast stefnandi við að ná aftur þeirri fjárhæð er hún greiddi Aquanetworld ltd. á tímabilinu 10. október 2004 til 25. febrúar 2005. Kröfur sínar byggir stefnandi á almennu skaðabótareglunni og meginreglum samninga- og kröfuréttar varðandi endurgreiðslu fjár, riftun og skilarétt, svo sem segir í stefnu. Fjárhæðir þessar voru greiddar á grundvelli samnings stefnanda og stefndu frá 4. október 2004.
Báðir stefndu byggja sýknukröfur sínar á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, auk þess sem stefndi, Aquanetworld ltd., krefst einnig sýknu að svo stöddu og byggir á því að gjalddagi endurgreiðslukröfunnar sé ekki fyrr en 28. september 2007.
Fyrir liggur í málinu að stefnandi greiddi hinar umkröfðu fjárhæðir inn á bankareikning 0301-26-7898, þar sem eigandi er tilgreindur Aquanetworld ltd., Stórhöfða 15, 112 Reykjavík, með kt. 490804-9190, en stefndi, Mark, var forstjóri og stofnandi þess félags. Ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu stefndu við móttöku innborgananna, sem hefði þó verið rétt hefðu stefndu þá ekki talið sig réttu aðilana til að veita greiðslunum móttöku, þar eð samningurinn við stefnanda hafi verið gerður af hálfu einhvers annars félags á Kýpur. Með því að það var ekki gert, og gögn málsins bera það með sér að um sama félag er að ræða, er sýknukröfum stefndu vegna aðildarskorts hafnað.
Til vara gerir stefndi, Aquanetworld ltd., kröfu um sýknu að svo stöddu þar sem endurgreiðslan muni eiga sér stað um leið og þess væri kostur og þó eigi síðar en 28. september 2007.
Í málinu liggur fyrir undirritaður samningur málsaðila frá 4. október 2004 sem nefna mætti samning milli fjárfesta. Þá liggur einnig fyrir skjal sem nefnt er tilboð stefnda, Aquanetworld ltd., til fjárfestisins, tilgangur þess, skilmálar og arður af fjárfjárfestingunni, eins og segir í upphafi þess skjals. Í skjali þessu kemur fram að ekki sé hægt að biðja um uppsögn fyrstu þrjú árin. Skjal þetta er óundirritað af málsaðilum.
Fyrir liggur í málinu bréf stefnda, Marks, frá júlí 2005 en þar segir svo: „Samt sem áður, sökum tregðu þinnar til að greiða lokagreiðsluna fyrir stöðu þína sem svæðisbundinn stjórnandi og skorts á nokkrum árangri í 7 mánuði, áleit ég að innst inni vildir þú ekki halda áfram störfum hjá okkur svo ég bauð þér að leysa þig undan samningnum þínum sem meðlimur í Aquanetworld. Og þegar þú varst spurð hvort þetta væri það sem þú vildir sagðirðu JÁ og við samþykktum það.“ Í tölvupósti frá 9. ágúst 2005 er stefndi, Mark, sendir, sem forstjóri og stofnandi Aquanetworld, kemur fram að hann hafi boðist til að leysa stefnanda undan samningnum og endurgreiða henni, jafnvel þótt samningurinn tilgreini að ekki sé boðið upp á neinar endurgreiðslur í þrjú ár. Síðan segir að stefndu hafi samþykkt að endurgreiða stefnanda fjárhæðina um leið og hægt væri. Í bréfi stefnda, Marks, dags. 9. október 2005 er áréttað að stefnandi fái fé sitt samkvæmt skilmálum samnings hennar, en hinn 28. september 2007 verða 3 ár liðin frá dagsetningu fjárfestingarinnar.
Eins og að framan greinir liggur fyrir viðurkenning stefnda, Marks, á endurgreiðslu fjárhæðarinnar. Að mati dómsins er engin forsenda fyrir því að bíða til 28. september 2007 þar sem stefnandi hefur ekki undarritað þann samning sem þetta ákvæði er hluti af og einnig liggur fyrir viljayfirlýsing stefnda, Mark, um greiðsluna. Því er kröfu stefnda, Aquanetworld, um sýknu að svo stöddu hafnað.
Af hálfu stefndu er ekki haldið uppi frekari málsástæðum fyrir sýknu en að framan greinir. Í greinargerð stefndu varðandi sýknukröfu Aquanetworld ltd. segir þó, að vísað sé til málavaxtalýsingar og rökstuðnings fyrir frávísunarkröfunni um frekari rök fyrir sýknukröfunni. Að mati dómsins skortir hér verulega á skýrleika málsástæðna og er þessi framsetning ekki í samræmi við 2. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála.
Niðurstaða málsins er því sú að stefndu, Aquanetworld ltd. og Mark Ashley Wells, greiði stefnanda stefnukröfu málsins. Þá ber stefndu að greiða vexti svo sem krafist er í stefnu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. um meðferð einkamála ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 450.000 kr.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Vilhjálms Bergs hdl., sem er hæfilega ákveðin 450.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur Bergs hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Þ. Skorri Steingrímsson hdl., en hann tók við meðferð málsins við aðalmeðferð þess.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndu, Aquanetworld ltd. og Mark Ashley Wells, greiði stefnanda, Lesley P. Ágústsson, in solidum 2.644.850 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júlí 2005 til greiðsludags og 450.000 kr. í málskostnað.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Vilhjálms Bergs hdl., 450.000 kr.