Hæstiréttur íslands

Mál nr. 123/2004


Lykilorð

  • Víxill
  • Auðgunarkrafa
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. október 2004.

Nr. 123/2004.

Sverrir Jóhannesson

(Skúli Th. Fjeldsted hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

 

Víxill. Auðgunarkrafa. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.

Í hf. höfðaði mál gegn S á grundvelli 74. gr. víxillaga nr. 93/1933. Í dómi Hæstaréttar segir að Í hf. hafi í engu leitast við að sanna að félagið hafi orðið fyrir tjóni vegna greiðslufalls á víxlinum né með hvaða hætti S myndi auðgast ef fjárheimtan félli niður. Var málið talið  svo vanreifað af hálfu Í hf. að vísa bæri því frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. mars 2004. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda en að því frágengnu að krafan verði lækkuð. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í áfrýjunarstefnu er leitað endurskoðunar á úrskurði héraðsdóms þar sem frávísunarkröfu áfrýjanda var hafnað.

I.

Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu 8. janúar 2002. Þar er því lýst að skuld sú, sem krafið sé um greiðslu á, sé samkvæmt víxli útgefnum 5. janúar 1999 af áfrýjanda, samþykktum til greiðslu í Íslandsbanka hf. af einkahlutafélaginu Finestra 25. janúar sama árs. Ábekingur á víxlinum hafi verið Hjalti Sigurðsson. Einkahlutafélagið Finestra hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi stefndi ekkert fengið upp í kröfu sína við skiptin. Í stefnu er einnig gerð nokkur grein fyrir tilraunum stefnda til þess að fá dóm fyrir víxilskuldinni meðal annars með rekstri dómsmáls á hendur Hjalta Sigurðssyni þar sem höfð var uppi varakrafa, sem reist var á 74. gr. víxillaga nr. 93/1933. Hafi þeirri varakröfu verið vísað frá dómi.

Þá segir í stefnu að víxilréttur stefnda hafi glatast fyrir fyrningu og sé honum því „sem eiganda víxilsins, nauðsynlegt að höfða mál þetta til heimtu þeirrar fjárhæðar sem stefndi myndi vinna úr hendi honum ef fjárheimtan félli niður, sbr. 74. gr.“ víxillaga.

II.

Þótt stefndi reisi málatilbúnað sinn á 74. gr. víxillaga hefur hann í engu leitast við að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna greiðslufalls á víxlinum né með hvaða hætti áfrýjandi myndi auðgast ef fjárheimtan félli niður.

Um fyrra atriðið segir einungis í stefnu að vegna ógjaldfærni aðalvíxilskuldarans hefði stefndi „þurft að leggja í kostnað sem nemur fjárhæð víxilkröfunnar og um leið hefur stefnandi orðið fyrir tjóni sem því nemur.“ Að síðara atriðinu er ekkert vikið í stefnu. Hefur stefndi undir rekstri málsins ekki bætt að neinu marki úr þessum annmörkum. Hann hefur ekki upplýst um lögskiptin að baki víxlinum. Á víxileyðublaði kemur fram að hann hafi átt að vera tryggingarvíxill vegna skuldar á tilgreindum hlaupareikningi. Ekkert hefur verið upplýst um hver skuldin á þeim hlaupareikningi var þegar bú einkahlutafélagsins Finestra var tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki hefur verið lögð fram kröfulýsing stefnda í þrotabúið, en á skrá skiptastjóra um lýstar kröfur kemur fram, að stefndi lýsti tveimur kröfum í þrotabúið. Er ekki upplýst hvor krafan er til meðferðar í máli þessu. Þá liggur ekkert fyrir um það með hvaða hætti áfrýjandi ætti að auðgast við að fjárheimtan félli niður. Er engin grein gerð fyrir því hvers vegna áður var höfðað mál á hendur Hjalta Sigurðssyni, ábekingi á víxlinum, og gerð varakrafa sem reist var á 74. gr. víxillaga, en sama krafa sé nú höfð uppi á hendur áfrýjanda.

Samkvæmt framansögðu er málið svo vanreifað af hálfu stefnda að vísa ber því frá héraðsdómi.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verði í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði áfrýjanda, Sverri Jóhannessyni, 200.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2003.

Ár 2003, miðvikudaginn 15. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Allani Vagni Magnússyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. E- 02169/2002

             Íslandsbanki

             gegn

             Sverri Jóhannessyni.

Mál þetta sem dómtekið var í dag er höfðað með stefnu birtri í lögbirtingablaði 16. janúar 2002.

Stefnandi er Íslandsbanki hf. Kirkjusandi, Reykjavík.

Stefndi er Sverrir Jóhannesson, Hagamel 45, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda er þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.955.375 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 25. janúar 1999 til og með 30. júní 2001 og skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar skv. mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður og til vara að dómkröfur verði lækkaðar. Í báum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.

Stefnandi krefur um skuld samkvæmt víxli að fjárhæð 3.955.375 krónur, útgefnum í Reykjavík 5. janúar 1999 af stefnda Sverri, samþykktum til greiðslu af Finestra ehf. og ábektum af Hjalta Sigurðssyni til greiðslu 25. janúar 1999 í Íslandsbanka hf. Reykjavík. Víxillinn er áritaður um að afsögn sé óþörf. Stefnandi kveður Finestra ehf. ekki stefnt þar sem félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum þann 21. janúar 2000. Mál vegna víxils þessa hafi áður verið þingfest þann 30. nóvember 1999 en verið fellt niður 7. mars 2000 vegna misritunar í stefnu. Málið var aftur þingfest 30. maí en vísað frá með dómi þann 14. ágúst 2000 vegna ófullnægjandi upplýsinga á víxlinum. Málið var síðan þingfest á Hjalta Sigurðsson, aftur þann 20.02.2001 og var dómur uppkveðinn og varakröfu vísað frá. Varakrafan var byggð á 74. gr. víxillaga og var fundið að því í dómnum að ekkert kæmi fram um hag útgefanda víxilins, stefnda í máli þessu og þar af leiðandi kveðst stefnandi stefna  máli þessu á nýjan leik.

Greiðslufall hafi orðið á víxilinum á gjalddaga hans 25. janúar 1999 en víxilréttur stefnanda glatast fyrir fyrningu og sé honum því, sem eiganda víxilsins, nauðsynlegt að höfða mál þetta til heimtu þeirrar fárhæðar sem stefndi myndi vinna úr hendi honum ef fjárheimtan félli niður, sbr. 74.gr. laga nr. 93/1933. Greiðandi og samþykkjandi víxilsins hafi verið einkahlutafélagið Finestra, sem úrskurðað hafi verið gjaldþrota 21. janúar 2000 og hafi stefndandi ekkert fengið upp í kröfu sína við skiptameðferð. Innheimtutilraunir hafi því eigi borið árangur. Vegna ógjaldfærni aðalvíxilskuldarans hafi stefnandi þurft að leggja í kostnað sem nemi fjárhæð víxilkröfunnar og um leið hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem því nemi. Nái dómkröfur stefnanda ekki fram að ganga muni stefndi hagnast á kostnað stefnanda.

Mál þetta er höfðað á grundvelli víxillaga nr. 93/1933, aðallega 74. gr. laganna. Einnig er vísað til meginreglna kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 25/1987 og laga nr. 38/2001.

Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 en krafa um virðisaukaskatt af honum er reist á lögum nr. 50/1988.

Af hálfu stefnda er á því byggt að meginskilyrði þess, að kröfu skv. 74. grein víxillaga verði komið fram sé að stefndi hefði unnið fé úr hendi stefnanda við það að fjárheimtan féll niður. Stefndi hafi ekki sjálfur stofnað til neinnar skuldar við stefnanda í tengslum við uppáskrift sína á víxileyðublaðið og skuldi stefnanda ekki neitt, hafi ekkert fé fengið til sín í tengslum við þessi viðskipti og hagnist því ekki sjálfur, eða vinni nokkurn rétt úr hendi stefnanda við það að fjárheimtan féll niður.

NIÐURSTAÐA

Í víxilrétti er á því byggt að vera kunni að víxilskuldari verði ekki fyrir tjóni enda þótt honum verði gert að leysa til sín víxil eftir að frestir eru liðnir samkvæmt víxillögum. Þannig þarf útgefandi ekki að verða fyrir tjóni þótt honum sé gert að greiða víxilfjárhæðina eftir að víxilhafi hefur glatað endurkröfurétti sínum. Hefði svo ekki verið hefði útgefandi a.m.k. í einhverjum tilvikum þurft að leysa til sín víxilinn án þess að geta leitað fullnustu hjá öðrum. Í slíkum tilvikum myndi víxilskuldari auðgast við það að losna undan ábyrgð sinni við það að endurkröfuréttur samkvæmt víxillögum félli niður. Löggjafinn hefur metið það svo að það væri ósannjarnt og á því byggjast ákvæði í 74. gr. víxillaga, sem heimila víxilhafa, sem glatað hefur endurkröfurétti, að sækja víxilskuldara um þá fjárhæð, er hann mundi annars vinna honum úr hendi, ef fjárheimtan félli niður, sem um hverja aðra skuld. Í máli því, er hér er dæmt, stendur svo á að greiðandi víxilsins er gjaldþrota og fram kom við munnlegan málflutning að bú hans var eignalaust. Við þessar aðstæður er ljóst að stefndi myndi vinna víxilfjárhæðina úr hendi stefnanda við það að fjárheimtan félli niður vegna ákvæða víxillaganna og skilyrði 74. gr. þeirra eiga því við. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfur stefnanda og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

DÓMSORÐ

Stefndi, Sverrir Jóhannesson, greiði stefnanda Íslandsbanka hf. 3.955.375 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 25. janúar 1999 til og með 30. júní 2001 og skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags og 200.0000 krónur í málskostnað.