Hæstiréttur íslands
Mál nr. 482/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 30. ágúst 2013. |
|
Nr. 482/2013. |
Árni Sverrisson (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og K-taki ehf. (Guðjón Ármannsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni S hf. og K ehf. um dómkvaðningu tveggja matsmanna til að meta afleiðingar líkamstjóns Á vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir 31. október 1999.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til þess að meta afleiðingar líkamstjóns sóknaraðila vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir 31. október 1999. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður „verði felldur úr gildi eða hann ómerktur.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málatilbúnaður sóknaraðila er einkum reistur á því að í matsbeiðni sé leitað álits á atriðum sem dómari hafi með höndum samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Þótt með matsbeiðni í máli þessu sé leitað álits á einhverju sem öðrum þræði snertir lagaleg atriði myndi niðurstaða þar um í matsgerð ekki binda hendur dómara eða þrengja svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Er þess jafnframt að gæta að varnaraðilar yrðu að bera halla af því ef sönnunargildi matsgerðar verður rýrara en ella vegna þess að lögð hefur verið til grundvallar mati forsenda þeirra sem reynist ekki eiga við rök að styðjast. Verður varnaraðilum ekki meinað að afla matsgerðar um þetta efni, enda bera þeir sjálfir kostnað af matsgerðinni og áhættu af því hvort hún komi þeim að notum. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Árni Sverrisson, greiði varnaraðilum, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og K-taki ehf., hvorum um sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013.
Með matsbeiðni móttekinni 4. mars sl. kröfðust matsbeiðendur, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. [...] og K-tak ehf., kt. [...], þess, með vísan til IX. kafla laga um meðferð einkamála, að dómkvaddir yrðu tveir óvilhallir og hæfir sérfæðingar, læknir og lögfræðingur, til þess að meta afleiðingar líkamstjóns Árna Sverrissonar, kt. [...], vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir hinn 31. október 1999.
Matsbeiðendur óska þess að dómkvaddir matsmenn svari eftirtöldum spurningum:
1. Hefur orðið versnun á heilsufari matsþola eftir 12. desember 2001, sem hafi verið ófyrirsjáanleg þegar upphaflega örorkumatið var framkvæmt, sbr. 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?
2. Ef svarið við spurningu 1 er já, er þess óskað að matsmenn svari eftirfarandi matsspurningum varðandi þá heilsufarsversnun sem átt hefur sér stað eftir 12. desember 2001 umfram það sem upphaflegt örorkumat gerði ráð fyrir og beinlínis er að rekja til slyssins:
a. Hvenær taldist versnun heilsufars vegna slyssins að fullu komin fram og ekki von frekari bata eða versnunar?
b. Hver telst varanlegur miski matsþola vegna versnunar einkenna eftir 12. desember 2001 af völdum slyssins, sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?
c. Hver telst varanleg örorka matsþola vegna versnunar einkenna eftir 12. desember 2011 af völdum slyssins, sbr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?
Matsþoli gerir þær dómkröfur að beiðni matsbeiðenda um dómkvaðningu matsmanna verði synjað. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar úr hendi matsbeiðenda að teknu tilliti til þess að matsþoli er ekki virðisaukaskattskyldur.
I
Matsþoli slasaðist í bílslysi 31. október 1999 og leitaði til læknis næsta dag vegna eymsla í baki. Hann kom reglulega í eftirlit, síðast þann 22. september 2000. Þá leitaði matsþoli til Júlíusar Valssonar læknis þann 30. apríl 2001.
Matsþoli var frá vinnu vegna slyssins frá slysdegi til 13. desember 1999 og að hálfu leyti til 17. sama mánaðar, en þar að auki var hann talinn óvinnufær að hálfu leyti frá 1. til 10. janúar 2000.
Í matsgerð læknanna Guðmundar Björnssonar og Atla Þórs Ólafssonar, dags. 15. október 2001, var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski matsþola vegna slyssins væri 8 stig og varanleg örorka 5%.
Á grundvelli matsgerðarinnar fór fram fyrirvaralaust lokauppgjör skaðabóta til matsþola þann 12. desember 2001.
Þann 11. febrúar 2010 óskaði matsþoli þess að örorkunefnd mæti varanlegan miska og varanlega örorku vegna slyssins. Samkvæmt álitsgerð örorkunefndar var talið að varanlegur miski matsþola væri 8 stig, en varanleg örorka 15%.
Með bréfi til matsbeiðanda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., dags. 17. maí 2010, krafðist matsþoli greiðslu frekari bóta með vísan til niðurstöðu örorkunefndar um varanlega örorku hans og 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þessari kröfu var hafnað með tölvubréfi, dags. 25. maí 2010, með vísan til þess að í álitsgerðinni væri varanlegur miski hans metinn hinn sami og áður og að ekki yrði ráðið að slíkar verulegar og ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsufari hans að skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga væri fullnægt.
Með stefnu, birtri 30. júní 2010, höfðaði matsþoli mál á hendur matsbeiðendum með kröfum um skaðabætur vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á heilsu sinni frá því slysð var gert upp 12. desember 2012. Undir rekstri dómsmálsins óskaði matsþoli eftir, því að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að meta afleiðingar slyssins fyrir hann og var m.a. lagt fyrir þá að svara því, hvort breytingar hefðu orðið á heilsufari hans, eftir að matsgerð læknanna lá fyrir. Voru dómkvaddir þeir Torfi Magnússon, sérfræðingur í taugalækningum, og Sigurður B. Halldórsson hrl. Matsgerð þeirra lá fyrir 1. júlí 2012. Samkvæmt matsgerðinni var varanlegur miski talin 8 stig en varanleg örorka talin 15%. Þá var stöðugleikadagur ákvarðaður 24. maí 2000. Matsmenn kváðu breytingar hafa orðið á heilsufari matsþola eftir að matsgerð læknanna, Guðmundar Björnssonar og Atla Þórs Ólasonar lá fyrir. Töldu þeir heilsufar hans hafa versnað frá síðari hluta árs 2001. Matsmenn voru hins vegar ekki beðnir að svara þeirri spurningu hvort breytingar á heilsufari matsþola teldust ófyrirsjáanlegar í skilningi 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 12. mars 2012 var fallist á skaðabótakröfu matsþola um greiðslu bóta úr hendi úr matsbeiðenda. Matsbeiðendur telja forsendur dómsins ekki standast og hafa áfrýjað málinu til Hæstaréttar. Vilja þeir jafnframt afla nýs mats um heilsufar matsþola og er matsbeiðni þessi sett fram í því skyni.
Er þess farið á leit að matsmenn kynni sér sjúkrasögu matsþola og persónulega hagi þegar lagt er mat á afleiðingar líkamstjónsins frá 31. október 2001. Jafnframt er óskað eftir því að greint verði milli þess sem beinlínis þykir mega rekja til slyssins og annarra orsaka.
II
Matsþoli byggir á því að samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 leggi dómari mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Dómkvaddir matsmenn verði því ekki beðnir um álit á atriðum sem falla undir almenna þekkingu og menntun eða lagaþekkingu.
Í spurningu nr. 1 felist beiðni um lagalega túlkun matsmanna á orðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um skilyrði fyrir endurupptöku skaðabótamáls varnaraðila. Bein tilvísun til lagaákvæðisins í spurningunni taki af öll tvímæli þar að lútandi. Að túlka réttarreglur sé ekki hlutverk dómkvaddra matsmanna heldur dómara.
Mat á því hvort skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku séu uppfyllt, þ.e. að breytingar eða versnun á heilsufari hafi verið ófyrirsjáanlegar, sé framkvæmt með venjubundum samanburði á tveimur matsgerðum, annars vegar þeirri matsgerð sem uppgjör hafi verið byggt á, og hins vegar matsgerð sem aflað sé síðar. Hæstiréttur Íslands hafi staðfest að þessi samanburður sé í höndum dómara og þar reyni á lögfræðilega þekkingu hans við mat á sönnunargildi matsgerða og skýringu réttarreglna, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 604/2012.
Hvorki í þessu máli né öðrum sjái þess stað, að óskað sé eftir því að dómkvaddir matsmenn svari því hvort hækkun á varanlegri örorku og/eða miska sé veruleg, en það er seinna skilyrði endurupptöku bótaákvörðunar skv. 11. gr. skaðabótalaga. Ástæðan sé sú að dómarinn noti lagaþekkingu sína til að meta hvort því skilyrði sé fullnægt. Nákvæmlega sama gildi um skilyrði 11. gr., hvort breytingar eða versnun á heilsufari séu ófyrirsjáanleg.
Af framangreindu leiði að hafna beri beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Það taki til allra matsspurninganna, enda verði spurningu nr. 2 ekki svarað nema spurningu 1 verði svarað.
Spurningar nr. 2b 2c feli þar að auki í sér beiðni um endurmat á atriðum sem þegar hafi verið metin af dómkvöddum matsmönnum.
Spurning nr. 2a virðist fela í sér tvær spurningar og hvorug virðist falla innan þess sem meta eigi samkvæmt skaðabótalögum.
Spurning nr. 2b og 2c feli í sér að matsmenn svari því um hve mörg prósentustig varanleg örorka og varanlegur miski hafi hækkað frá upphaflegu örorkumati. Þetta séu efnislega sömu spurningar og settar séu fram í beiðni um dómkvaðningu matsmanna og svarað sé í matsgerð þeirra.
Vilji sóknaraðili ekki una fyrirliggjandi matsgerð eigi hann þann einn kost að krefjast dómkvaðningar yfirmatsmanna, eins og skýrt sé kveðið á um í 64. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
III
Í máli þessu krefjast matsbeiðendur þess að dómkvaddir verði matsmenn til að meta hvort versnun hafi orðið á heilsufari matsþola sem hafi verið ófyrirsjáanleg þegar upphaflega örorkumatið var framkvæmt, sbr. 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Matsbeiðandi byggir á því að honum sé nauðsynlegt að fá umbeðið mat svo hann geti staðreynt hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari matsbeiðanda.
Matsþoli byggir á því að hafna beri kröfunni þar sem í spurningu nr. 1 felist beiðni um túlkun á 11. gr. skaðabótalaga. Það sé hlutverk dómara, en ekki dómkvaddra matsmanna, að leggja mat á atriði sem krefjist almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 fara aðilar máls með forræði á sönnunarfærslu. Dómari getur þó meinað aðila um sönnunarfærslu ef bersýnilegt er að atriðið, sem aðilinn vill sanna, skiptir ekki máli sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna. Það er því að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómara að takmarka þann rétt umfram það, sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar.
Með matsgerðinni kveðast matsbeiðendur ætla að staðreina hugsanlega kröfu, sem þeir eigi á hendur matsþola og sanna atvik að baki henni en auk þess hafi þeir ríka og lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreining milli aðila.
Það er mat dómsins að í matsspurningu nr. 1 felist ekki beiðni um mat á atriði sem dómara ber sjálfum að meta, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.
Í lögum nr. 91/1991 er ekki að finna sérstakar hömlur á að lagðar séu fyrir matsmenn spurningar. Á það einnig við spurningar sem snúa í ýmsu að sömu atriðum og fjallað hefur verið um í fyrri matsgerðum.
Samkvæmt framangreindu er því unnt að verða við beiðni matsbeiðenda um dómkvaðningu matsmanna til að svara þeim spurningum sem fram koma í matsbeiðni og raktar eru hér að framan.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og því að ekki er höfð uppi málskostnaðarkrafa af hálfu matsbeiðanda verður ekki dæmt um málskostnað.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Tekin er til greina krafa matsbeiðenda, Sjóvá-Almennra trygginga hf. og K-tak ehf., um að dómkvaddir verði tveir óvilhallir og hæfir sérfræðingar, læknir og lögfræðingur, til þess að meta afleiðingar líkamstjóns Árna Sverrissonar, kt. [...], vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir hinn 31. október 1999.
Hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.