Hæstiréttur íslands

Mál nr. 105/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 25. febrúar 2011.

Nr. 105/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. mars 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann „kærumálskostnaðar, að mati dóms, fyrir meðferð máls fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti Íslands.“

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í máli nr. 88/2011, sem einnig varðar gæsluvarðhald varnaraðila, er af hans hálfu nú gerð samskonar krafa um málskostnað og gerð var í því máli. Í forsendum þess dóms komu fram athugasemdir Hæstaréttar um kröfugerðina sem hefðu átt að leiða til þess að hún yrði ekki endurtekin orðrétt nú. Ekki eru fremur en þá skilyrði til að fallast á slíka kröfu, sbr. 38. gr. og 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærða X, kt. [...], [...], Reykjavík. verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. mars 2011 kl. 16.

Kærði hefur mótmælt kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að henni verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna með vísan til a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 frá 9. febrúar sl. vegna neðangreindra mála:

Mál nr. 007-2011-8140

Fyrir þjófnað og fíkniefni, með því að hafa, aðfararnótt þriðjudagsins 9. febrúar 2011, farið ásamt Y, og brotist inn í eldhús [...] kl. 01:12, tekið þar þýfi með sér og farið burt á bifreiðinni [...]. Komið sama dag, ásamt Y, kl. 01:52 og farið aftur inn í eldhús [...] og borið þýfi þaðan í bifreiðina [...].

X og Y voru handteknir kl. 02:25, sömu nótt í [...] þar sem þeir voru í bifreiðinni [...].  Þýfið var í bifreiðinni. Þýfið var upp á samtals 151.520 en kostnaður vegna skemmdanna liggja ekki fyrir. Einnig fannst við leit á kærða 5,82 gr. amfetamín og 0,11 gr. maríhúana. Kærði hefur við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkennt að hafa brotist inn í [...] í félagi við Y og stolið þaðan áfengi og humri og einnig vörslur fíkniefnanna.

Mál 007-2011-7473

Fyrir þjófnað, með því að hafa, föstudaginn 5. febrúar 2011, brotið sér leið inn í veitingastaðnum [...] á [...], með því að brjóta rúðu á útidyrahurð ásamt óþekktum aðila og stolið 19.000 kr. í reiðufé og 9 áfengisflöskum. Lögreglumenn þekkja kærða af upptökum úr öryggismyndavél staðarins. Kærði hefur við skýrslutöku neitað sök. 

Mál 007-2011-6777

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því hafa, þriðjudaginn 2. febrúar 2011, haft í vörslum sínum 2,35 gr. amfetamín og 2,90 gr. maríhúana á veitingastaðnum [...] á [...] og reynt að fela það bak við spilakassa þegar lögregla hafði afskipti af honum. Kærði hefur við skýrslutöku viðurkennt brotið.

Mál 007-2011-525

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 3. janúar, haft í vörslum sínum 17,18 gr. af amfetamíni er fannst við leit á lögreglustöð. Kærði hefur játað sök.

Mál 007-2010-85803

Fyrir þjófnað, með því að hafa, þriðjudaginn 28. desember 2010, spennt sér leið inn um þakglugga á veitingastaðnum [...] á [...] og stolið áfengi og tilraun til að taka peninga úr sjóðsvél og brotið sér leið út um hurð.

Lögreglumenn þekkja kærða á upptökum úr öryggismyndavélum staðarins en kærði neitar sök.

Mál 007-2010-81544

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 9. desember 2010, haft í vörslum sínum 0,58 gr af amfetamíni er fannst við leit á lögreglustöð. Kærði hefur játað sök.

Mál 007-2010-80366

Fyrir þjófnað, með því að hafa, sunnudaginn 5. desember 2010, brotist inn í verslunina [...] við [...], með því að spenna upp glugga og stolið þaðan 18-25.000 kr. í skiptimynt. Fingraför náðust af tölvuskjá sem innbrotsþjófurinn hafði átt við og hafa þau verið samkennd við X. Kærði neitar sök í skýrslutöku lögreglu.

Mál 007-2010-75297

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 14. nóvember 2010 brotist inn í íbúð á 2. hæð [...], með því að brjóta rúðu í hurð og þannig farið inn. Stolið sjónvarpsflakkara, fartölvu, Ipod, útvarpi, DVD diskum o.fl.  Fingrafar fannst á bolla í húsinu sem hefur verið sannreynt eftir X.  Kærði hefur verið skýrslutöku hjá lögreglu neitað sök.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi höfðað mál á hendur kærða fyrir fyrstu þrjú brotin að neðan með ákæru dagsettri 14. desember 2010 og sé ákæran til meðferðar hjá héraðsdómi Reykjavíkur.

Mál 007-2010-60685

Fyrir þjófnað, með því að hafa, aðfararnótt mánudagsins 20. september 2010, brotið rúðu á veitingastaðnum [...] á [...] og farið inn í auðgunarskyni og stolið þaðan 20.000 kr. úr peningakassa sem þar var. Kærði hefur við skýrslutöku hjá lögreglu játað ofangreint brot.

Mál 007-2010-58634

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, aðfararnótt laugardagsins 11. september 2010, á veitingastaðnum [...] á [...] haft í vörslum sínum 1,21 g af maríhúana, sem kærði var með í sígarettupakka. Kærði hefur við skýrslutöku hjá lögreglu játað vörslur efnisins.

Mál 007-2010-40501

Fyrir þjófnað og gripdeild, með því að hafa, miðvikudaginn 23. júní 2010, á bifreiðarstæði við [...] í Kópavogi farið heimildarlaust inn í bifreiðina [...] og stolið vasaljósi, vasahníf, sólgleraugum og smápeningum að heildarverðmæti 5.000 kr., jafnframt fyrir að hafa tekið reiðhjól ófrjálsri hendi sem stóð við bílskúrshurð að [...] en kærði var á umræddu reiðhjóli þegar lögregla hafði afskipti af honum. Kærði hefur við skýrslutöku hjá lögreglu játað að hafa stolið umræddum hlutum úr bifreiðinni og að hafa tekið reiðhjólið ófrjálsri hendi.

Kærði eigi að baki langan sakaferil allt frá árinu 1983 með fjölda dóma vegna auðgunar- og fíkniefnabrota. Kærði hafi síðast verið dæmdur í 8 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember 2010 fyrir fjölda þjófnaðar- og fíkniefnabrota. Sá dómur sæti nú áfrýjun til Hæstaréttar. Kærði hafi lokið afplánun vegna 10 mánaða dóms Hæstaréttar nr. 597/2009 fyrir peningafals í byrjun apríl 2010 og hafið fljótlega aftur brotastarfsemi eftir að afplánun lauk og sé grunur um að hann hafi hafið brotastarfsemi fáum vikum eftir að hann losnaði úr fangelsi og að brot hans séu samfelld frá þeim tíma.

 Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Eins og að framan er rakið vinnur lögregla að rannsókn fjölmargra innbrota sem kærði er grunaður um að eiga aðild að. Rannsókn þessi er á frumstigi en með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem getur varðað hann fangelsisrefsingu.

Þegar virtur er fjöldi þeirra brota sem grunur leikur á að kærði hafi gerst sekur um á síðustu mánuðum verður að fallast á það með sækjanda að ætla megi að kærði muni halda áfram brotastarfsemi verði hann frjáls ferða sinna. Eru því uppfyllt skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og er því krafa um gæsluvarðhald tekin til greina. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. mars 2011 kl. 16.