Hæstiréttur íslands
Mál nr. 618/2017
Lykilorð
- Hlutafélag
- Hlutabréf
- Forkaupsréttur
- Útivist
- Kröfugerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Hann krefst þess að viðurkennt verði aðallega að hann eigi forkaupsrétt að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf., en til vara þann rétt að þeim stefnda frágengnum, á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu stefndu Elínar Ingvarsdóttur, Ingvars Mars Jónssonar, Sigríðar Ingvarsdóttur, Sigurðar Ingvarssonar og Þórönnu Jónsdóttur á hlutunum 4. janúar 2016, sem áfrýjandi telur aðallega hafa verið til stefnda KÖS ehf. en að öðrum kosti til stefnda SPV 25 ehf. Áfrýjandi krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti aðallega úr hendi stefnda KÖS ehf., en til vara stefnda SPV 25 ehf.
Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Að öðrum kosti krefjast stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. að kaupverð hlutanna í fyrstnefnda félaginu, sem dómkröfur áfrýjanda snúa að, verði ákveðið 93.060.000 krónur, sem taki breytingum eftir vísitölu neysluverðs frá grunntölunni 428,2 stig til greiðsludags og beri frá 4. janúar 2016 til þess tíma dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í öllum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Fyrir Hæstarétti hefur verið sótt þing af hálfu allra stefndu og haldið uppi í einu lagi vörnum í málinu með þeim dómkröfum, sem að framan greinir. Í héraði varð frá öndverðu útivist af hálfu stefndu Elínar, Ingvars og Þórönnu. Stefndu Sigríður og Sigurður sóttu sjálf þing á fyrstu stigum í héraði og gerðu í greinargerð „ekki aðrar kröfur í máli þessu en þær að málið verði dæmt á réttum forsendum“, svo og að áfrýjanda yrði gert að greiða þeim málskostnað, en frá næsta þinghaldi eftir að greinargerð þessi var lögð fram gætti lögmaður hagsmuna þeirra í málinu. Í héraði gerði þannig enginn þessara stefndu nokkra dómkröfu, að frátalinni kröfu tveggja þeirra um málskostnað, hvað þá að bera upp málsástæður, svo sem þau gera á hinn bóginn öll fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 29. gr. laga nr. 49/2016, verður þeim málatilbúnaði ekki komið að hér fyrir dómi og verður honum ekki gefinn frekari gaumur.
II
Í héraði neyttu stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. heimildar samkvæmt 6. málslið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 til að leggja fyrst í stað fram greinargerðir eingöngu um þær kröfur sínar að málinu yrði vísað frá dómi, ýmist í heild eða að hluta. Eftir að þeim kröfum hafði verið hafnað með úrskurði 21. nóvember 2016 lögðu þeir í sameiningu fram í þinghaldi 25. janúar 2017 greinargerð, sem aðeins hefði átt að snúa að efnisvörnum í málinu, sbr. 7. málslið sama lagaákvæðis. Í þeirri greinargerð kröfðust þessir stefndu allt að einu í annað sinn að málinu yrði vísað frá dómi og byggðu þar í meginatriðum á sömu rökum og héraðsdómur hafði þegar hafnað. Til þessara röksemda var síðan að nokkru leyti aftur tekin afstaða í hinum áfrýjaða dómi og hafnað að vísa málinu frá. Þessi málatilbúnaður var ósamrýmanlegur tilgangi framangreindra ákvæða 99. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. hafa ekki gagnáfrýjað héraðsdómi og geta því rök þeirra fyrir aðalkröfum sínum fyrir Hæstarétti ekki komið til skoðunar nema þau gætu leitt til þess að vísa ætti málinu frá héraðsdómi án kröfu. Til röksemda, sem haldið hefur verið fram fyrir þessum kröfum hér fyrir dómi, þarf að þessu virtu ekki að taka að öðru leyti afstöðu í einstökum atriðum, en þær eru með öllu haldlausar.
III
Samkvæmt því, sem fram kemur í gögnum málsins, var Þingvallaleið ehf. stofnað á árinu 1969 af fimm mönnum, þar á meðal foreldrum áfrýjanda og stefndu Elínar, Sigríðar og Sigurðar, þeim Ingvari Sigurðssyni og Guðlaugu Þórarinsdóttur, en Ingvar mun hafa látist í júní 1990 og Guðlaug í október 2014. Áfrýjandi mun hafa starfað um árabil hjá félaginu og verið forráðamaður þess um tíma. Eftir samþykktum félagsins var tilgangur þess rekstur langferðabifreiða og annar skyldur atvinnurekstur. Þar kom fram að hlutafé í félaginu væri alls 141.000 krónur, sem skiptist í tuttugu hluti, og væri hver þeirra að nafnvirði 7.050 krónur. Um eigendaskipti að hlutum voru svofelld ákvæði í 7. grein samþykktanna: „Eigendaskipti að hlutum í félaginu öðlast ekki gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hefur verið tilkynnt um það skriflega. Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hafa hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Verði ágreiningur um verð hluta skal það ákveðið með mati tveggja óvilhallra manna, sem dómkvaddir skulu til þess starfa. Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þá mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt. Eigendaskipti vegna arfsals til erfingja við andlát hluthafa lúta ekki framangreindum forkaupsréttarreglum.“
Eftir andlát Guðlaugar Þórarinsdóttur munu erfingjar hafa fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar 19. nóvember 2014. Fyrir liggur í málinu að dánarbúinu hafi tilheyrt átta hlutir í stefnda Þingvallaleið ehf., en á þeim tíma hafi hluthafar í félaginu að öðru leyti verið áfrýjandi með fjóra hluti, stefndu Elín og Sigurður hvort með tvo hluti og stefndu Ingvar og Þóranna hvort með einn. Tveir hlutir munu síðan hafa verið í eigu félagsins sjálfs. Við skipti á dánarbúi Guðlaugar, sem mun hafa lokið á árinu 2015, fengu áfrýjandi og stefndu Elín, Sigurður og Sigríður hvert um sig tvo hluti í félaginu að arfi.
Samkvæmt gögnum málsins virðist áfrýjandi hafa um vorið 2015 efnt til samstarfs við Konráð Örn Skúlason, Karl Kristján Bjarnason og Bjarna Karlsson, sem munu saman hafa átt stefnda KÖS ehf., um fyrirhuguð kaup á hlutum annarra hluthafa í stefnda Þingvallaleið ehf. Af þessu tilefni gerðu áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. „f.h. óskráðs einkahlutafélags (eignarhaldsfélags)“ tilboð um kaup á hlutum þeirra 4. júní 2015, sem þau samþykktu sama dag. Í tilboðinu var kafli með fyrirsögninni: „Bakgrunnur“, þar sem meðal annars kom fram að það væri forsenda tilboðsgjafa að í gegnum hann myndu áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. eignast allt hlutafé í stefnda Þingvallaleið ehf., sem í tilboðinu var nefnt félagið, en þó þannig að það myndi áfram eiga eigin hluti. Þar sagði einnig eftirfarandi: „Þór Ingvarsson og KÖS ehf. hafa sammælst um að Þór verði eigandi að 51% hlutafé tilboðsgjafa og KÖS ehf. verði eigandi að 49% hlutafjár tilboðsgjafa í nýju eignarhaldsfélagi. Við stofnun eignarhaldsfélagsins skal Þór leggja til 6 hluti í félaginu og KÖS skal leggja til kr. 46.530.000 sem verður notað til að greiða fyrir hluti í félaginu samkvæmt kauptilboði þessu. ... Verði efndadagur samkvæmt kauptilboðinu mun eignarhaldsfélagið eiga 18 hluti í félaginu (og félagið mun eiga 2 eigin hluti). Aðilum er ljóst að helmingur kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu er ófjármagnaður en gert er ráð fyrir að eignarhaldsfélagið afli sér lánsfjár til að geta greitt kaupverð kauptilboðsins að fullu, en kauptilboðið er m.a. skilyrt um fjármögnun.“ Þá voru í þessum kafla tilboðsins ákvæði um að áfrýjandi, stefndu Ingvar, Sigríður og Þóranna og fyrrnefndur Bjarni myndu eiga sæti í stjórn stefnda Þingvallaleiðar ehf. þar til kaupverð yrði að fullu greitt, en í viðauka með tilboðinu var jafnframt kveðið á um að stjórnin skyldi ráða áðurnefndan Konráð til að starfa sem framkvæmdastjóri félagsins á sama tímabili. Í öðrum kafla í tilboðinu voru síðan ákvæði um kaupverð og afhendingu hinna seldu hluta, en þar kom fram að fyrir hvern þeirra yrðu greiddar 7.755.000 krónur og næmi því kaupverðið samtals 93.060.000 krónum, sem yrði bundið vísitölu neysluverðs með grunntölunni 428,2 stig. Tekið var fram hvernig fjárhæð þessi myndi skiptast milli stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu og átti að leggja hlutdeild hvers þeirra inn á tiltekinn bankareikning ekki síðar en 4. janúar 2016. Væri tilboðið háð þeim skilyrðum annars vegar að þessi stefndu staðfestu á síðari stigum skriflega við tilboðsgjafa að þau hefðu eignast hlutabréfin, sem tilheyrðu þá enn dánarbúi Guðlaugar, og hins vegar að tilboðsgjafa tækist að fjármagna tilboð sitt að fullu, en yrðu þessi skilyrði ekki uppfyllt 4. janúar 2016 eða tilboðsgjafi fallið frá þeim fyrir þann tíma myndi tilboðið falla úr gildi. Uppgjör samkvæmt tilboðinu átti að fara fram að liðnum tilteknum tíma frá því að skilyrðum þessum yrði fullnægt nema aðilarnir kæmu sér saman um annað, en við uppgjörið skyldu hlutirnir afhentir án kvaða eða veðbanda, kaupverðið greitt, seljendur láta af hendi hlutaskrá, sem bæri með sér að tilboðsgjafi væri eigandi hlutanna, og hluthafafundur haldinn til að kjósa nýja stjórn fyrir félagið. Tilboðið var áritað af meiri hluta stjórnar stefnda Þingvallaleiðar ehf. um að það hafi verið kynnt henni og félagið fallið frá forkaupsrétti vegna kaupanna.
Af gögnum málsins verður ráðið að þær breytingar á stjórnun stefnda Þingvallaleiðar ehf., sem ráðgerðar voru í tilboðinu samkvæmt áðursögðu, hafi komið til framkvæmdar í beinu framhaldi af samþykki þess. Á hinn bóginn hafi orðið dráttur á aðgerðum til að útvega lánsfé vegna kaupanna og stofna eignarhaldsfélag til að standa að þeim, en ósamkomulag virðist hafa komið upp um þetta milli áfrýjanda og þeirra, sem stóðu að stefnda KÖS ehf. Vegna þessa ritaði lögmaður fyrir hönd þess stefnda bréf til áfrýjanda 30. desember 2015. Þar var áfrýjandi boðaður til fundar að morgni 4. janúar 2016 til að stofna einkahlutafélag, sem yrði eignarhaldsfélagið sem um ræddi í tilboðinu, en þess var getið að áfrýjandi hafi áður hafnað að nota í þessu skyni annað tiltekið félag, sem þegar væri til, sökum þess að hann „hafi ekki átt beina aðkomu að stofnun þess félags.“ Jafnframt var skorað á áfrýjanda að „leggja inn í“ nýja félagið við sama tækifæri hlutina sína í stefnda Þingvallaleið ehf., svo sem hann hafi skuldbundið sig til í tilboðinu, og tekið fram að um leið myndi stefndi KÖS ehf. inna af hendi til félagsins 46.530.000 krónur með verðbótum eins og hann hafi heitið. Einnig var tekið fram að „tilboðsgjafa stendur til boða lán sem notað verður til að greiða helming kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu ... Fyrir hönd tilboðsgjafa verður undirritað skjal um lánið á stofnfundinum.“ Þá var þess getið að stefndi KÖS ehf. hafi boðað seljendur hlutanna til annars fundar síðar um daginn 4. janúar 2016 til að ljúka uppgjöri kaupanna. Í lok bréfsins sagði síðan að ef áfrýjandi mætti ekki „á boðaðan stofnfund tilboðsgjafa“ áskildi stefndi KÖS ehf. sér rétt til að stofna félagið einn „og/eða efna kauptilboðið fyrir hönd tilboðsgjafa þannig að skuldbindandi sé fyrir aðila þess.“ Í tölvubréfi lögmanns áfrýjanda 4. janúar 2016 til lögmanns stefnda KÖS ehf. var vísað til þess að á fundi þeirra að morgni sama dags hafi komið fram að sá stefndi hafi gert ráðstafanir til að afla fjár til að standa við kauptilboðið frá 4. júní 2015, en það yrði gert með því að „hið óstofnaða félag“ gæfi út skuldabréf til tiltekins félags, sem lögmaður þessa stefnda stæði að ásamt nafngreindum bróður sínum. Skuldabréf þetta yrði að fjárhæð 46.812.527 krónur, sem yrðu endurgreiddar með verðbótum og 9,9% ársvöxtum með 48 mánaðarlegum afborgunum, en í drögum að bréfinu væru einnig ákvæði um að kröfuhafa væri „hvenær sem er heimilt að breyta kröfu sinni samkvæmt bréfinu í hlutafé“ í stefnda Þingvallaleið ehf., auk þess sem ráðgert væri að hlutabréf í því félagi, sem óstofnaða félagið myndi eignast, yrðu sett að veði fyrir kröfunni. Teldi áfrýjandi að þessi lántaka væri „afar óhentug fyrir félag sem þetta“, sem hefði ekki „tryggt greiðsluflæði til að standa undir afborgunum“, en einnig yrði skuldabréfið „með breytirétti, sem er virkur frá því að lánið er tekið“, þannig að staða áfrýjanda yrði óljós.
Framangreindur ágreiningur var ekki látinn standa því í vegi að fundur var haldinn síðla dags 4. janúar 2016 til að gera upp kaup á hlutum stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu í stefnda Þingvallaleið ehf., en þar var undirrituð yfirlýsing, sem seljendurnir stóðu að ásamt áfrýjanda og „KÖS ehf. f.h. óskráðs einkahlutafélags, SPV 25 ehf. („SPV“)“. Í henni kom fram að ágreiningur væri risinn milli stefnda SPV 25 ehf. og áfrýjanda um hvort kaupin á hlutunum væru „til samræmis við“ kauptilboðið frá 4. júní 2015 eða um væri að ræða „önnur og óskyld viðskipti þar sem kauptilboðið sé úr gildi fallið“, en seljendurnir stæðu „ekki í ágreiningi við hvorki SPV né Þór Ingvarsson.“ Þá sagði eftirfarandi í yfirlýsingunni: „Bæði SPV og Þór Ingvarsson lýsa því yfir að engum kröfum verði beint að seljendum vegna viðskipta þessara, enda valdi það ekki réttarspjöllum, t.d. gagnvart forkaupsrétti sem Þór telur sig hafa. Af hálfu SPV er því sérstaklega haldið til haga að það telur sig vera að vinna á grundvelli ákvæða kauptilboðsins. Í því ljósi mun félagið beina því að Þór Ingvarssyni að leggja hluti sína í Þingvallaleið ehf. inni í SPV til samræmis við ákvæði kauptilboðsins og efna skuldbindingar samkvæmt því að öðru leyti. SPV áréttar að það telji forkaupsrétt Þórs ekki vera til staðar, hvort sem dómstólar telja kauptilboðið vera gilt eða ekki. Af hálfu Þórs Ingvarssonar er því sérstaklega haldið til haga að hann telur kauptilboðið vera úr gildi fallið þar sem skilyrði þess hafa ekki verið uppfyllt. Af hálfu Þórs er litið svo á að um nýjan samning milli SPV og seljenda sé að ræða. Þór lítur svo á að forkaupsréttur hans samkvæmt samþykktum félagsins sé virkur vegna þeirra kaupa. Af hálfu seljenda er óskað eftir að bókað verði að þeir telji að kauptilboðið hafi ekki fallið úr gildi vegna ástæðna er varði seljendur. Þar sem kauptilboðið hafi ekki verið formlega ógilt, telja seljendur sig skuldbundna til að uppfylla það.“ Á fundinum var kaupverð hlutanna innt af hendi án þess að áfrýjandi veitti til þess atbeina sinn eða gerðist stofnandi félags, sem ætlað var að standa að kaupunum, eða hluthafi í því. Í framhaldi af þessu var haldinn stjórnarfundur í stefnda Þingvallaleið ehf., þar sem fært var í fundargerð að félaginu hafi verið tilkynnt um efndir kaupanna, áfrýjandi hafi lýst yfir að hann teldi kaupin ekki vera í samræmi við samþykkt tilboð um þau með þeim afleiðingum að hann nyti forkaupsréttar að hlutunum og stjórnin hafi undirritað nýja hlutaskrá til að afhenda kaupanda þeirra. Þá var haldinn hluthafafundur í stefnda Þingvallaleið ehf. 8. janúar 2016 og mættu þar áfrýjandi ásamt fulltrúa stefnda KÖS ehf. og „óstofnaðs hlutafélags SPV25.“ Þar ítrekaði áfrýjandi að hann teldi sig eiga forkaupsrétt að hlutunum, sem sér hafi ekki enn verið boðið að nýta, en stefndi KÖS ehf. teldi á hinn bóginn stefnda SPV 25 ehf. hafa uppfyllt skilyrði og fyrirvara í tilboðinu frá 4. júní 2015 og hafi orðið eigendaskipti að hlutunum með réttum efndum þess félags á kaupunum. Á fundinum var síðan kjörin ný stjórn fyrir stefnda Þingvallaleið ehf., sem áfrýjandi tók sæti í ásamt fjórum öðrum.
Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjanda 25. janúar 2016 sagt upp störfum hjá stefnda Þingvallaleið ehf., þar sem hann mun hafa unnið orðið sem bifreiðastjóri. Sama dag var stefndi SPV 25 ehf. stofnað og áðurnefndir Bjarni Karlsson og Konráð Örn Skúlason kjörnir í stjórn félagsins. Í svonefndri stofngerð fyrir félagið var meðal annars tekið fram að ákveðið hafi verið á stofnfundi að „félagið tæki skuldabréfalán að fjárhæð kr. 46.812.527“ með nánar tilgreindum skilmálum, en af lýsingu þeirra að dæma virðist það hafa verið sama efnis og drög, sem lögmaður áfrýjanda fjallaði um í fyrrnefndu tölvubréfi 4. janúar 2016. Þá er þess að geta að í málinu liggur fyrir yfirlýsing „stjórnenda Þingvallaleiðar ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf.“ um staðfestingu á því að 4. janúar 2016 hafi síðastnefnda félagið, sem þá hafi verið óskráð, orðið „löglegur eigandi 12 hluta (60%) í Þingvallaleið ehf. þegar kauptilboð 4. júní 2015 var efnt“, en stefndi KÖS ehf. hafi „aldrei verið eigandi hlutafjár í Þingvallaleið ehf.“
Með bréfi 28. janúar 2016 tilkynnti áfrýjandi öllum stefndu, öðrum en SPV 25 ehf., að hann teldi forkaupsrétt sinn að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. hafa orðið virkan við áðurnefnd kaup 4. sama mánaðar. Lýsti áfrýjandi því yfir að hann nýtti sér þennan rétt og skoraði á stefnda KÖS ehf. að veita sér innan viku upplýsingar „um endanlegt kaupverð hlutafjárins“, svo og inn á hvaða bankareikning greiða ætti þá fjárhæð. Þessu var andmælt í bréfi stefnda KÖS ehf. til áfrýjanda 12. febrúar 2016. Í framhaldi af því höfðaði áfrýjandi mál þetta með stefnu 22. mars sama ár.
IV
Með samþykki stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu á tilboðinu, sem áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. beindu til þeirra „f.h. óskráðs einkahlutafélags“ 4. júní 2015 um kaup á hlutum þeirra í stefnda Þingvallaleið ehf., komst á samningur, sem háður var tilteknum skilyrðum, en að þeim uppfylltum skyldi hann efndur ekki síðar en 4. janúar 2016. Þegar samningurinn komst á var einkahlutafélag, sem var ætlað að verða kaupandi hlutanna, ekki aðeins óskráð, heldur hafði það ekki verið stofnað. Ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög taka ekki eftir orðanna hljóðan til aðstæðna sem þessara, enda ná þau til skuldbindinga, sem myndaðar eru í nafni slíks félags sem hefur þegar verið stofnað eftir reglum 3. gr. til 8. gr. þeirra laga en ekki hefur enn verið skráð.
Af framangreindum ástæðum verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. hafi einir og í sameiningu notið réttinda og borið skyldur kaupanda samkvæmt samningnum. Að því verður þó einnig að gæta að sem fyrr segir var í tilboðinu lýst svonefndum bakgrunni þess, þar á meðal að það hafi verið gert á þeirri forsendu að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. myndu „eignast“ hlutina í stefnda Þingvallaleið ehf. „í gegnum“ væntanlegt félag sitt, sem yrði í eigu áfrýjanda að 51% og stefnda KÖS ehf. að 49%. Verður þannig að líta svo á að með samþykki tilboðsins hafi stefndu Elín, Ingvar, Sigríður, Sigurður og Þóranna gengist undir að hlíta því að áfrýjandi og stefndi KÖS ehf. gætu á síðari stigum ákveðið upp á sitt eindæmi að færa réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum til félags, sem þeir myndu stofna til eignarhalds á hlutunum í stefnda Þingvallaleið ehf. og yrði í eigu þeirra í fyrrgreindum hlutföllum. Eftir gögnum málsins var hvorki stofnað slíkt félag né efndi áfrýjandi í eigin nafni fyrir sitt leyti þær skuldbindingar, sem hann tók á sig með tilboðinu. Þegar af þeim ástæðum varð ekkert úr þeim kaupum, sem komust á með samþykki þess 4. júní 2015. Á hinn bóginn mun stefndi KÖS ehf. hafa á áðurnefndum fundi 4. janúar 2016 innt af hendi til stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu greiðslur sömu fjárhæðar og mælt hafði verið fyrir um í tilboðinu og þau framselt að endurgjaldi hluti sína í stefnda Þingvallaleið ehf. Líta verður svo á að með þessu hafi komist á nýr kaupsamningur, sem jafnframt var efndur þegar í stað en virðist aldrei hafa verið skjalfestur. Þegar atvik þessi gerðust hafði stefndi SPV 25 ehf. ekki enn verið stofnað og liggur ekkert fyrir í málinu um að kaup þessi hafi verið gerð með skilmála, hliðstæðum þeim sem fólst í samþykki tilboðsins 4. júní 2015, um að seljendur myndu hlíta því að það félag tæki við stöðu kaupanda eftir stofnun þess. Verður því kaupandi eftir þessum óskráða samningi að teljast hafa verið stefndi KÖS ehf.
Þegar kaupsamningur þessi komst á 4. janúar 2016 milli stefnda KÖS ehf. og stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu varð virkur forkaupsréttur, sem áfrýjandi naut sem hluthafi í stefnda Þingvallaleið ehf. samkvæmt fyrrnefndri 7. grein samþykkta þess félags, að hlutunum sem kaupin tóku til. Í þeirri grein samþykktanna var kveðið á um að forkaupsréttarhafi hefði frest til að beita þeim rétti í tvo mánuði frá því að stjórn félagsins væri tilkynnt um kaup. Af fundargerð frá fundi stjórnar stefnda Þingvallaleiðar ehf. 4. janúar 2016 er ljóst að henni hafi þá samdægurs verið tilkynnt um þessi kaup, en áfrýjandi lýsti eins og áður segir bréflega yfir 28. sama mánaðar við alla, sem hlut áttu að máli, að hann nýtti forkaupsrétt sinn og var það þannig gert í tæka tíð. Stjórn félagsins lýsti á hinn bóginn engu slíku yfir fyrir hönd þess innan frestsins, sem hún naut í því skyni og lauk 4. mars 2016, en til annarra en félagsins og áfrýjanda gat forkaupsréttur ekki náð eins og atvikum var háttað. Áfrýjandi deildi þannig hvorki með öðrum forkaupsrétti né stóð hann í því efni öðrum að baki. Í bréfum sínum 28. janúar 2016 óskaði áfrýjandi svo sem fyrr greinir eftir upplýsingum um fjárhæð, sem sér bæri að inna af hendi vegna nýtingar forkaupsréttar síns, og hvert hann ætti að greiða hana, en við því fékk hann engin svör frá öðrum en stefnda KÖS ehf., sem ítrekaði í bréfi 12. febrúar sama ár mótmæli gegn því að forkaupsréttur áfrýjanda hafi orðið virkur. Má samkvæmt þessu líta svo á að áfrýjandi hafi innan tilskilins tíma samkvæmt samþykktum fyrir stefnda Þingvallaleið ehf. boðið fram greiðslu á kaupverði hlutanna, sem neitað hafi verið að taka við. Glataði áfrýjandi ekki forkaupsrétti sínum með því að aðhafast ekkert frekar í þessu sambandi fram að því að mál þetta var höfðað.
Samkvæmt öllu framangreindu verður orðið við kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á því að hann eigi forkaupsrétt að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. vegna sölu stefndu Elínar, Ingvars, Sigríðar, Sigurðar og Þórönnu á þeim 4. janúar 2016 til stefnda KÖS ehf. Áfrýjandi hefur jafnframt krafist þess að viðurkennt verði að hann njóti þessa réttar á verðinu 93.625.054 krónur. Stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. hafa á hinn bóginn krafist þess sem áður segir til ítrustu vara að kaupverðið verði ákveðið 93.060.000 krónur, sem bundið sé vísitölu neysluverðs með grunntölunni 428,2 stig og beri að auki dráttarvexti frá 4. janúar 2016. Um þetta ágreiningsefni verður að gæta að því að með nýtingu forkaupsréttar gengur áfrýjandi inn í stöðu stefnda KÖS ehf. sem kaupanda eftir samningi hans við seljendurna, stefndu Elínu, Ingvar, Sigríði, Sigurð og Þórönnu, og ber áfrýjandi samkvæmt því skyldur við þau, meðal annars til greiðslu kaupverðs, en ekki við aðra stefndu. Ákvörðun kaupverðsins er af þessum sökum stefndu Þingvallaleið ehf., KÖS ehf. og SPV 25 ehf. óviðkomandi og verður þannig aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina á þann hátt, sem segir í dómsorði.
Í samræmi við kröfugerð áfrýjanda verður stefnda KÖS ehf. gert að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi svo sem í dómsorði greinir, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Viðurkenndur er forkaupsréttur áfrýjanda, Þórs Ingvarssonar, að tólf hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu stefndu Elínar Ingvarsdóttur, Ingvars Mars Jónssonar, Sigríðar Ingvarsdóttur, Sigurðar Ingvarssonar og Þórönnu Jónsdóttur á þeim hlutum til stefnda KÖS ehf. 4. janúar 2016.
Stefndi KÖS ehf. greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2017.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu sem var þingfest 7. apríl 2016 af Þór Ingvarssyni, Stigahlíð 56, 105 Reykjavík, á hendur KÖS ehf., Vorsabæ 1, 110 Reykjavík, Þingvallaleið ehf., Skógarhlíð 10, 105 Reykjavík, Elínu Ingvarsdóttur, Rjúpnasölum 10, 201 Kópavogi, Ingvari Mar Jónssyni, Bjarmalandi 18, 108 Reykjavík, Sigríði Ingvarsdóttur, Kjarrvegi 4, 108 Reykjavík, Sigurði Ingvarssyni, Fannafold 126, 112 Reykjavík og Þórönnu Jónsdóttur, Kvistalandi 17, 108 Reykjavík.
Til vara höfðar stefnandi málið á hendur SPV 25 ehf., Vorsabæ 1, 110 Reykjavík, Þingvallaleið ehf., Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur.
Í þinghaldi 3. maí 2016 lögðu aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleið ehf. og varastefndi SPV 25 ehf. fram greinargerðir um frávísunarkröfur með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með úrskurði dómsins 21. nóvember 2016 var hafnað kröfu aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. um frávísun málsins, sem og kröfu aðalstefnda KÖS ehf. um frávísun á aðal- og varakröfu stefnanda og kröfu varastefnda SPV 25 ehf. um frávísun á þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda. Í þinghaldi 25. janúar sl. var lögð fram greinargerð af hálfu aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleiðar ehf. og varastefnda SPV 25 ehf.
I.
Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi forkaupsrétt að 12 hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., eða 60% hlutafjár félagsins, samkvæmt 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. á verðinu 93.625.054
krónur vegna sölu umræddra hluta frá stefndu Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur til aðalstefnda KÖS ehf. þann 4. janúar 2016.
Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi forkaupsrétt að 12 hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., eða 60% hlutafjár félagsins, að aðalstefnda Þingvallaleið ehf. frágengnum, samkvæmt 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu umræddra hluta frá stefndu Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur til aðalstefnda KÖS ehf. þann 4. janúar 2016.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, úr hendi aðalstefnda KÖS ehf. samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Til þrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi forkaupsrétt að 12 hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., eða 60% hlutafjár félagsins, samkvæmt 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu umræddra hluta frá stefndu Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur til varastefnda SPV 25 ehf. þann 4. janúar 2016.
Til þrautaþrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi forkaupsrétt að 12 hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., eða 60% hlutafjár félagsins, að aðalstefnda Þingvallaleið ehf. frágengnum, samkvæmt 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. á verðinu 93.625.054 krónur vegna sölu umræddra hluta frá stefndu Elínu Ingvarsdóttur, Ingvari Mar Jónssyni, Sigríði Ingvarsdóttur, Sigurði Ingvarssyni og Þórönnu Jónsdóttur til varastefnda SPV 25 ehf. þann 4. janúar 2016.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, úr hendi varastefnda SPV 25 ehf. samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Aðalstefndi Þingvallaleið ehf. krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Komist dómurinn að niðurstöðu um að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016 og að rétturinn sé ekki fallinn niður, krefst aðalstefndi þess til þrautavara að kaupverð hinna 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. sé 93.060.000 krónur og taki sú fjárhæð breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu í maí árið 2015 (428,2 stig) til greiðsludags, og að fjárhæðin þannig uppreiknuð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2016 til greiðsludags. Aðalstefndi krefst þess í öllum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Aðalstefndi KÖS ehf. krefst þess aðallega að aðal- og varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara krefst aðalstefndi sýknu af aðal- og varakröfu stefnanda. Komist dómurinn að niðurstöðu um að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016 og að rétturinn sé ekki fallinn niður, krefst aðalstefndi þess til þrautavara að kaupverð hinna 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. sé 93.060.000 krónur og taki sú fjárhæð breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu í maí árið 2015 (428,2 stig) til greiðsludags, og að fjárhæðin þannig uppreiknuð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2016 til greiðsludags. Aðalstefndi krefst þess í öllum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Varastefndi SPV 25 ehf. krefst þess aðallega að þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016 og að rétturinn sé ekki fallinn niður, krefst aðalstefndi þess til þrautavara að kaupverð hinna 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. sé 93.060.000 krónur og taki sú fjárhæð breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu í maí árið 2015 (428,2 stig) til greiðsludags, og að fjárhæðin þannig uppreiknuð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2016 til greiðsludags. Varastefndi krefst þess í öllum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Aðalstefndu og varastefndu Sigríður Ingvarsdóttir og Sigurður Ingvarsson krefjast þess að ,,málið verði dæmt á réttum forsendum“ og að þeim verði dæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Aðalstefndu og varastefndu Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson og Þóranna Jónsdóttir hafa ekki látið málið til sín taka.
II.
Málsatvik
Mál þetta er til komið vegna ágreinings um kaup á hlutabréfum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Þann 4. júní 2015 gerðu stefnandi og aðalstefndi KÖS ehf. kauptilboð fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags í hluti aðal- og varastefndu Elínar Ingvarsdóttur, Ingvars Mars Jónssonar, Sigríðar Ingvarsdóttur, Sigurðar Ingvarssonar og Þórönnu Jónsdóttur. Hlutir í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. eru samtals 20 talsins og þar af á félagið tvo eigin hluti. Samkvæmt kauptilboðinu átti stefnandi fjóra hluti í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., aðal- og varastefndi Elín, Ingvar Mar, Sigríður, Sigurður og Þóranna áttu samtals sex hluti í félaginu og dánarbú Guðlaugar Þórarinsdóttur átti átta hluti. Við skipti dánarbúsins skyldu sex hlutir skiptast á milli aðal- og varastefndu Elínar, Sigurðar og Sigríðar. Í kauptilboðinu sagði meðal annars að forsenda tilboðsgjafa væri að stefnandi og aðalstefndi KÖS ehf. myndu í gegnum tilboðsgjafa, hið óstofnaða einkahlutafélag, eignast allt hlutafé aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., aðra en eigin hluti. Þá var tekið fram að stefnandi yrði eigandi að 51% hlutafjár í tilboðsgjafa en aðalstefndi KÖS ehf. yrði eigandi að 49% hlutafjárins. Við stofnun eignarhaldsfélagsins skyldi stefnandi leggja til sex hluti í félaginu en aðalstefndi KÖS ehf. skyldi leggja til 46.530.000 krónur sem skyldi nota til að greiða fyrir hluti samkvæmt kauptilboðinu. Í stefnu er tekið fram að stefnandi hafi í lengri tíma átt 20% í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. en hafi við andlát móður stefnanda eignast 10% til viðbótar.
Einnig var tekið fram í kauptilboðinu að aðilum væri ,,.ljóst að helmingur kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu er ófjármagnaður en gert er ráð fyrir að eignarhaldsfélagið afli sér lánsfjár …“. Kaupverðið, sem var 7.755.000 krónur á hlut, eða samtals 93.060.000 krónur fyrir samtals 12 hluti, tengt vísitölu neysluverðs miðað við maí 2015, skyldi greitt í peningum eigi síðar en 4. janúar 2016. Undir fyrirsögninni ,,4. Skilyrði“ sagði enn fremur að kauptilboðið væri bundið skilyrði um að viðeigandi tilboðshafar myndu undirrita staðfestingu sem var að finna í viðauka við kauptilboðið og afhenda tilboðsgjafa í kjölfar skipta á framangreindu dánarbúi, auk þess sem kauptilboðið væri bundið því skilyrði að tilboðsgjafa tækist að afla nægilegrar fjármögnunar vegna allra kaupanna fyrir 4. janúar 2016. Tekið var fram að hefðu skilyrðin ekki verið uppfyllt þann 4. janúar 2016 eða tilboðsgjafi ekki fallið frá þeim fyrir þann tíma, félli kauptilboðið úr gildi.
Í 7. gr. samþykkta fyrir aðalstefnda Þingvallaleið ehf. kemur meðal annars fram að eigendaskipti að hlutum í félaginu öðlist ekki gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hafi verið tilkynnt um það skriflega. Stjórn félagsins hafi forkaupsrétt fyrir hönd félagsins að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hafi hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutaeign sína. Forkaupsréttarhafi hafi tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og teljist fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þá megi eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því kaup voru ákveðin þar til kaupverð sé greitt.
Þann 19. september 2015 undirrituðu aðal- og varastefndu Elín, Sigríður og Sigurður staðfestingu á því að skipti á dánarbúi Guðlaugar Þórarinsdóttur hefðu farið fram og að fyrrgreint kauptilboð næði jafnframt til þeirra hluta sem undirrituð hefðu fengið úthlutað úr dánarbúinu, nánar tiltekið samtals sex hluti.
Með bréfi, dags. 30. desember 2015, var stefnandi boðaður til stofnfundar tilboðsgjafa vegna fyrrgreinds kauptilboðs sem skyldi fara fram þann 4. janúar 2016 á tilteknum stað kl. 9:00. Tekið var fram í bréfinu að tilboðsgjafa stæði til boða lán sem notað yrði til að greiða helming kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu og fyrir hönd tilboðsgjafa yrði undirritað skjal um lánið á stofnfundinum. Með bréfinu var stefnandi einnig boðaður til efndadags en sá fundur skyldi fara fram síðar sama dag á tilteknum stað kl. 14:00. Með bréfi, dags. 30. desember 2015, til aðal- og varastefndu Þórönnu, voru tilboðshafar einnig boðaðir til fyrrnefnds efndadags og var meðal annars tekið fram í bréfinu að tilboðsgjafa hefði tekist að afla nægilegrar fjármögnunar vegna allra kaupanna.
Á uppgjörsfundinum 4. janúar 2016 greiddi aðalstefndi KÖS ehf. kaupverðið gegn afhendingu 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Á fundinum kom upp ágreiningur milli aðila um hvort þessi viðskipti væru í samræmi við kauptilboðið frá 4. júní 2015, eða hvort um ný viðskipti væri að ræða. Taldi stefnandi að um ný viðskipti væri að ræða, enda væri kauptilboðið fallið niður, en aðrir málsaðilar töldu að viðskiptin væru í samræmi við fyrrgreint kauptilboð.
Á stjórnarfundi í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., sem haldinn var 4. janúar 2016, samþykkti stjórn aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. umrædd kaup. Á stjórnarfundinum var bókuð sú afstaða stefnanda að hann teldi fyrrgreint kauptilboð ekki vera í gildi þar sem skilyrði þess hefðu ekki verið uppfyllt. Um nýjan samning væri að ræða milli SPV og seljenda og að forkaupsréttur stefnanda samkvæmt samþykktum aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. væri virkur vegna þeirra kaupa. Stefnandi myndi því ekki staðfesta nýja hlutaskrá. Á hluthafafundi í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., sem haldinn var 8. janúar 2016, var bókuð athugasemd stefnanda, þess efnis að hann liti svo á að forkaupsréttur hans hafi orðið virkur vegna eigendaskipta að 60% hlutafjár í félaginu 4. janúar 2016. Af hálfu aðalstefnda KÖS ehf., fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags, var bókað að eigendaskiptin 4. janúar 2016 hefðu farið fram á grundvelli fyrrgreinds kauptilboðs og hefði forkaupsréttur stefnanda ekki orðið virkur.
Með bréfi, dags. 28. janúar 2016, til aðalstefnda KÖS ehf., lýsti lögmaður stefnanda því yfir að stefnandi nýtti sér forkaupsrétt sinn og skoraði á félagið að upplýsa, eigi síðar en sjö dögum frá dagsetningu bréfsins, um endanlegt kaupverð hlutafjárins samkvæmt greiðslu þann 4. janúar 2016 og inn á hvaða reikning stefnandi ætti að greiða þá fjárhæð. Með bréfi, dags. 12. febrúar 2016, hafnaði aðalstefndi KÖS kröfum stefnanda.
Þann 1. febrúar 2016 var tilkynning um stofnun varastefnda SPV 25 ehf. móttekin af Fyrirtækjaskrá. Tilkynningin er samþykkt sama dag og þar kemur fram að félagið sé stofnað af aðalstefnda KÖS ehf. Í meðfylgjandi stofnskrá félagsins, dags. 25. janúar 2016, kemur fram að hlutafé félagsins sé 46.812.527 krónur sem greinist í krónuhluti og aðalstefndi KÖS ehf. skrái sig fyrir öllu hlutafénu.
Mál þetta höfðaði stefnandi eins og að framan er rakið með stefnu sem var þingfest 7. apríl 2016.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi rekur að veruleg óvissa sé um hvort aðalstefndi KÖS ehf. eða varastefndi SPV 25 ehf. sé hinn raunverulegi eigandi þess hlutafjár sem viðskiptin 4. janúar 2016 hafi snúist um. Þegar vísað sé til aðalstefnda KÖS ehf. sé eftir því sem við á einnig átt við varastefnda SPV 25 ehf., og öfugt, eftir því hvor verði talinn eigandi bréfanna.
Stefnandi telur að kauptilboð, dags. 4. júní 2015, hafi verið viljayfirlýsing aðila um sölu að því gefnu að tiltekin skilyrði myndu ganga eftir. Samþykki allra aðila hafi þurft til að gera breytingar á tilboðinu. Samkvæmt kauptilboðinu hafi tilboðsgjafi, hið óstofnaða einkahlutafélag, átt að afla fjármagns. Stefnanda hafi fyrst þann 4. janúar 2016 verið gert kunnugt um hvernig aðalstefndi KÖS ehf. hafi einhliða staðið að fjármögnun fyrir félagið. Að mati stefnanda hafi slík fjármögnun aldrei getað skuldbundið hann samkvæmt ákvæðum tilboðsins. Þar að auki hafi skilmálar skuldabréfsins ekki verið ásættanlegir. Skilmálarnir hafi meðal annars kveðið á um að greiða skyldi háa vexti (9,9%) og verðtryggingu á höfuðstól lánsins, auk þess sem þar hafi verið sett ýmis skilyrði af hálfu lánveitanda um rekstur félagsins, þar á meðal hver yrði framkvæmdastjóri, bann við því að félagið gæti endurfjármagnað sig og að lánveitandi gæti breytt skuld sinni í hlutafé í félaginu hvenær sem hann kysi. Með skuldabréfinu hafi fylgt átta viðaukar, m.a. umboð, framsal hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. og vísir að breyttri hlutaskrá, en þessi skjöl hafi öll verið ódagsett. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins hafi stefnanda borið að undirrita þau, sem hefði í raun falið í sér samþykkti stefnanda fyrir fram um að A81 ehf. gæti yfirtekið hlutafé hans í félaginu hvenær sem væri. Stefnandi hafi því ekki viljað skrifa undir veðskuldabréfið. Enn fremur hafi stefnandi ekki þekkt til lánveitandans, A81 ehf., að öðru leyti en því að félagið hafi verið í eigu þeirrar lögmannsstofu sem hafi komið fram fyrir hönd aðalstefnda KÖS ehf. Þá hafi verið óljóst hvernig það félag hafi fjármagnað umrædda lánveitingu þar sem félagið hafi verið nýstofnað og hlutafé þess einungis verið 500.000 krónur.
Umrætt kauptilboð hafi verið með fyrirvara um fjármögnun og í forsendum þess hafi falist að stofna ætti einkahlutafélag í tilteknum eignarhlutföllum. Öll þessi atriði hafi þurft að ganga eftir til að unnt væri að efna tilboðið, þ.e. stofna félag s þar sem stefnandi ætti 51% hlutafjár og það félag myndi svo standa að fjármögnun sem félagið og þar með talið báðir aðilar, teldu ásættanlega. Samþykki beggja aðila, þ.e. bæði aðalstefnda KÖS ehf. og stefnanda, í gegnum eignarhaldsfélagið fyrir fjármögnun, hafi augljóslega verið forsenda samkvæmt tilboðinu. Þá sé ljóst út frá ákvæðum tilboðsins að væri fjármögnunar ekki aflað félli tilboðið úr gildi.
Á svokölluðum uppgjörsfundi sem haldinn var 4. janúar 2016 hafi að mati stefnanda verið ljóst að kauptilboðið væri úr gildi fallið þar sem tilboðsgjafar hefðu ekki efnt tilboðið samkvæmt efni sínu. Þetta hafi komið skýrt fram af hálfu stefnanda á fundinum.
Aðrir aðilar kauptilboðsins hafi talið það enn vera í gildi, meðal annars þar sem aðalstefndi KÖS ehf. hefði útvegað nægilegt fjármagn upp á sitt eindæmi, með vísun til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og þar sem tilboðið hafi ekki verið formlega fellt úr gildi. Það breyti því ekki að kauptilboðið hafi fallið úr gildi 4. janúar 2016 gagnvart stefnanda. Mál þetta snúist ekki um hvort tilboðshafar hafi mögulega átt kröfu um efndir á stefnanda eða aðalstefnda KÖS ehf. á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994. Fallist dómurinn á að viðskipti aðalstefnda KÖS ehf. og tilboðshafa/seljenda hafi verið á grundvelli þeirrar reglu sé á því byggt að þau viðskipti hafi eftir sem áður virkjað forkaupsrétt stefnanda, enda eðli þeirra viðskipta annað en ákvæði tilboðsins frá 4. júní 2015 kváðu á um, stefnandi hafi ekki verið aðili að þeim og um nýjan samning hafi verið að ræða.
Af þessu leiði að stefndu hafi verið skylt að fylgja ákvæðum 7. gr. samþykkta aðalstefnda Þingvallaleiða ehf. um forkaupsrétt annarra hluthafa vegna sölu hlutanna í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Samkvæmt því ákvæði hafi stjórn Þingvallaleiða ehf. forkaupsrétt fyrir hönd félagsins að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hafi hver hluthafi forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Af þessum ákvæðum leiði að kjósi einstakir hluthafar að nýta ekki forkaupsrétt sinn njóti aðrir hluthafar aukins réttar en beri jafnframt auknar skyldur, því þeir geti ekki gengið inn í kaupin að hluta.
Grundvallarforsenda stefnanda fyrir því að skrifa undir kauptilboð dags. 4. júní 2015 hafi verið að hann yrði aðili að kaupum á hlutafénu. Á þeim tímapunkti hafi ekki enn verið ljóst hvort af kaupunum yrði, enda hafi átt eftir að koma í ljós hvort skilyrði tilboðsins gengju eftir. Þar sem stefnandi hefði orðið, samkvæmt orðalagi tilboðsins, eigandi að 51% hlut í eignarhaldsfélagi, sem átti allt hlutafé í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., að undanskildu því hlutafé sem félagið átti í sjálfu sér, hafi ekki reynt á forkaupsrétt stefnanda við undirritun tilboðsins, heldur aðeins hvort stjórn félagsins hygðist nýta sér forkaupsrétt, sem fallið hafi verið frá. Í ljósi uppbyggingar fjármögnunar og eðlis skilmála fyrrnefnds veðskuldabréfs sé ljóst að þessi forsenda stefnanda hafi brostið. Af þeim sökum hafi forkaupsréttur stefnanda orðið virkur.
Telji dómurinn, þrátt fyrir framangreint, að aðalstefndi KÖS ehf. hafi efnt umrætt kauptilboð með bindandi hætti gagnvart stefnanda þann 4. janúar 2016 sé á því byggt að víkja beri þeim gerningi til hliðar gagnvart stefnanda með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Skilmálar viðskiptanna hafi verið verulega ósanngjarnir í garð stefnanda og í raun andstæðir góðri viðskiptavenju. Stefnandi vísar einkum til þess hvernig staðið hafi verið að fjármögnun kauptilboðsins, til skilmála veðskuldabréfsins, þeirra ódagsettu skjala sem stefnanda hafi borið að undirrita vegna veðskuldabréfsins og til samskipta aðila fyrir og eftir samningsgerðina. Stefnandi sé því ekki bundinn við kauptilboðið og forkaupsréttur stefnanda hafi eftir sem áður orðið virkur.
Aðalkrafa stefnanda byggi á því að í fyrsta lagi hafi meirihluti stjórnar aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. átt beina aðild að eigendaskiptunum þann 4. janúar 2016 með hluti í félaginu. Stjórnarfundur sem haldinn hafi verið strax í kjölfar uppgjörsfundar þann 4. janúar 2016 hafi samþykkt nýja hlutaskrá í félaginu þrátt fyrir andmæli stefnanda. Af því leiði að líta verði svo á að meirihluta stjórnar félagsins hafi verið kunnugt um eigendaskiptin, staðfest þau með útgáfu nýrrar hlutaskrár og kosið að neyta ekki forkaupsréttar. Aðrir hluthafar, að undanskildum stefnanda, hafi selt sína hluti þann 4. janúar 2016. Af þessu leiði að stefnandi eigi samkvæmt 7. gr. samþykkta félagsins forkaupsrétt að öllum hinum framseldu hlutum, 12 talsins, á því verði sem miðað hafi verið við í viðskiptunum eða 93.625.054 krónur í heild. Stefnandi hafi ítrekað þennan rétt sinn með bókun við eigendaskiptin, með bókun á stjórnarfundi sama dag, á hluthafafundi þann 8. janúar 2016 og með bréfi 28. janúar 2016 til allra aðila viðskiptanna þar sem tilkynnt hafi verið að stefnandi hygðist nýta sér forkaupsrétt sinn. Þá byggi aðalkrafa stefnanda á því að aðalstefndi KÖS ehf. sé núverandi eigandi umdeildra hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf.
Varakrafa stefnanda sé byggð á sömu sjónarmiðum og aðalkrafan, að því undanskildu að þessi krafa miðist við að bjóða verði stjórn aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. forkaupsrétt og að því frágengnu stefnanda, í samræmi við ákvæði 7. gr. samþykkta félagsins. Í því felist að stjórn félagsins ætti forkaupsrétt að hinu selda hlutafé, þrátt fyrir að hafa samþykkt kaupin á stjórnarfundi þann 4. janúar 2016. Vera megi að aðrir hluthafar njóti forkaupsréttar, en ekki sé nauðsynlegt að beina málsókn að þeim, þar sem forkaupsrétturinn sé sjálfstæður réttur hvers og eins hluthafa.
Þrautavarakrafa stefnanda byggi á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa, að því undanskildu að ekki reyni á hana nema aðalstefndi KÖS ehf. verði sýknaður og dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að varastefndi SPV 25 ehf. sé núverandi eigandi hinna umdeildu hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf.
Þrautaþrautavarakrafa stefnanda sé byggð á sömu sjónarmiðum og aðal- og varakrafa, að því undanskildu að ekki reyni á hana nema aðalstefndi KÖS ehf. verði sýknaður og dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að varastefndi SPV 25 ehf. sé núverandi eigandi hinna umdeildu hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, einkum 2. mgr. 10. gr. og 14. gr. Þá vísar stefnandi til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, auk meginreglna samninga- og kröfuréttar. Krafa stefnanda um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 1. mgr. 130. gr. Varðandi aðild vísar stefnandi til 2. mgr. 19. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., aðalstefnda KÖS ehf. og varastefnda SPV 25 ehf.
Stefndu byggja kröfu sína um frávísun málsins á því í fyrsta lagi að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn dómkrafna sinna þar sem hann hafi ekki leitt að því líkur að hann sé fær um að greiða kaupverð umræddra hlutabréfa. Þar sem stefnandi fari þá leið að krefjast viðurkenningar á rétti til að kaupa tiltekna eign á ákveðnu kaupverði sé það lágmarkskrafa að stefnandi leiði að því líkur að hann sé fær um að greiða a.m.k. 93.625.054 krónur. Stefnandi hafi ekki lagt fram neinar upplýsingar sem gefi það til kynna. Upplýsingar í stefnu gefi þvert á móti hið gagnstæða til kynna. Stefndu skori á stefnanda að leggja fram skjöl sem sanni greiðslugetu hans að því viðlögðu að dómurinn bregðist við neitun stefnanda með því að telja hann samþykkan staðhæfingum stefndu um að það sé sannað að stefnandi hafi ekki fjárhagslega burði til að greiða a.m.k. 93.625.054 krónur.
Stefndu telja einnig í öðru lagi að sá réttur sem stefnandi krefjist viðurkenningar á sé ekki enn orðinn til, sbr. 1. mgr. 26. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Annars vegar taki hvorki aðal- né þrautavarakrafa stefnanda mið af því að aðalstefndi Þingvallaleið ehf. eigi forkaupsrétt sem gangi á undan forkaupsrétti stefnanda og annarra hluthafa, verði talið að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016, sbr. 7. gr. samþykkta félagsins. Aðal- og þrautavarakrafa stefnanda byggi á því sjónarmiði að stjórn félagsins hafi „... kosið að neyta ekki forkaupsréttar ...“, en á þetta sé ekki unnt að fallast. Engu máli skipti þó að meirihluti stjórnar aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi átt aðild að viðskiptunum 4. janúar 2016 og því verið kunnugt um þau enda sé stjórn einkahlutafélags lögbundin stjórnareining sjálfstæðs lögaðila sem taki ákvarðanir fyrir hönd félagsins á fundum í samræmi við lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög og samþykktir þess. Viðhorf, vitneskja eða aðgerðir eins eða fleiri stjórnarmanna verði því almennt ekki samsömuð ákvörðunum eða vitneskju stjórnar einkahlutafélags. Þá sé ekki unnt að fallast á að stjórn aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi með því að gefa út nýja hlutaskrá í félaginu 4. janúar 2016 kosið að neyta ekki forkaupsréttar. Allar athafnir stjórnarinnar á fundi 4. janúar 2016 hafi miðað við að verið væri að staðfesta viðskipti samkvæmt kauptilboði 4. júní 2015 en ekki að um væri að ræða „ný viðskipti“ 4. janúar 2016.
Í þriðja lagi beri að vísa málinu frá dómi þar sem engin af kröfum stefnanda taki mið af því að aðrir hluthafar, þ. á m. stefndi Þingvallaleið, myndu njóta forkaupsréttar samhliða stefnanda, verði talið að forkaupsréttur hafi virkjast 4. janúar 2016. Í málatilbúnaði stefnanda sé ekki byggt á því að stefndi Þingvallaleið, sem hluthafi, hafi fallið frá forkaupsrétti sínum. Í málflutningi um frávísun 12. október 2016 hafi málsástæðu stefnanda þar að lútandi verið mótmælt sem of seint fram kominni og séu mótmælin ítrekuð.
Í fjórða lagi byggi frávísunarkrafa stefndu á því að umræddar kröfur beinist ekki að kaupanda hlutanna, varastefnda SPV 25 ehf., heldur að stefnda KÖS ehf. Aftur á móti sé nauðsynlegt að beina kröfu um viðurkenningu forkaupsréttar að öllum aðilum samnings sem forkaupsréttarhafi telji að hafi gert forkaupsrétt sinn virkan. Þegar af þeirri ástæðu að kröfunum sé ekki hagað þannig beri að vísa þeim frá dómi. Stefnandi hafi einhverra hluta vegna gert sérstakan ágreining um það hvort varastefndi SPV 25 væri eigandi hlutanna eða stefndi KÖS. Hinn 4. janúar 2016 hafi óskráð einkahlutafélag, varastefndi SPV 25 ehf., orðið eigandi að 12 hlutum í stefnda Þingvallaleið ehf. og við skráningu varastefnda SPV 25 hafi félagið tekið við réttindum og skyldum sem fylgi hlutunum.
Gögn málsins beri þess skýrt merki að 4. janúar 2016 og í kjölfarið hafi ávallt verið tilgreint að stefndi KÖS ehf. kæmi fram fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags, sem kallað var SPV 25. Það sé rangt sem segi í stefnu, að stofngögn varastefnda SPV 25 ehf. séu eigi í samræmi við 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Í stofngerð og samþykktum varastefnda SPV 25 ehf. komi fram að félagið taki við skuldbindingum samkvæmt ítarlega tilgreindu skuldabréfaláni, sem hafi legið fyrir fundarmönnum á stofnfundi félagsins. Í svokölluðum bakgrunnskafla skuldabréfalánsins komi m.a. fram að lánið sé tekið fyrir hönd hins óskráða einkahlutafélags til að kaupa hluti í stefnda Þingvallaleið ehf. í samræmi við kauptilboð, dags. 4. júní 2015. Í því skyni að staðreyna framangreint enn frekar hafi stjórnendur stefndu Þingvallaleiðar ehf., KÖS ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. lýst því yfir að síðastnefnda félagið sé réttmætur eigandi umræddra hluta og hafi verið það frá 4. janúar 2016.
Krafa stefndu um sýknu byggir í fyrsta lagi á því að engin óvissa sé um eignarhald umþrættra hluta í stefnda Þingvallaleið ehf. Af þeim sökum eigi stefndi KÖS ehf. hvorki þau réttindi né skyldur sem aðal- og varakrafa stefnanda varði. Því beri að sýkna stefnda KÖS ehf. vegna aðildarskorts.
Í öðru lagi telja stefndu að forkaupsréttur stefnanda hafi ekki orðið virkur 4. janúar 2016. Úrlausn um það ráðist af því hvort kauptilboðið 4. júní 2015 hafi þá verið fallið úr gildi. Stefndu mótmæli þeim málatilbúnaði stefnanda að skilyrði og „forsendur“ tilgreindar í kauptilboðinu hafi ekki gengið eftir, að forsendur þess hafi brostið og að kauptilboðinu eigi að víkja til hliðar. Útilokað sé að forkaupsréttur samkvæmt 7. gr. samþykkta stefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi virkjast 4. janúar 2016 enda hafi þá einungis farið fram efndir á bindandi samningi sem hafi komist á 4. júní 2015.
Þann 4. júní 2015 hafi tilboðshafar samþykkt kauptilboð stefnda KÖS ehf. og stefnanda f.h. tilboðsgjafa í hlutafé stefnda Þingvallaleiðar ehf. Í samræmi við reglur samningaréttar hafi komist á bindandi samningur þess efnis sem í kauptilboðinu var skrásett. Það fái því ekki staðist að kauptilboðið 4. júní 2015 hafi verið „viljayfirlýsing“.
Aðilar séu sammála um að kauptilboðið hafi verið bundið skilyrði um fjármögnun, sbr. kafla 4, og að „forsendur“ kauptilboðsins hafi verið annars vegar að stefnandi og stefndi KÖS ehf. myndu „í gegnum tilboðsgjafa eignast allt hlutafé [stefnda Þingvallaleiðar ehf.], þó þannig að félagið [myndi] áfram eiga eigin hluti“, sbr. C-lið bakgrunnskaflans, og hins vegar að stefnandi og stefndi KÖS ehf. sammæltust um að stefnandi yrði „eigandi að 51% hlutafé tilboðsgjafa og [stefndi KÖS ehf. yrði] eigandi að 49% hlutafjár tilboðsgjafa í nýju eignarhaldsfélagi“, sbr. D-lið. Niðurstaða um gildi „forsendnanna“ tveggja ráðist af því hvort skilyrðið um fjármögnun hafi gengið eftir eða ekki. Eigi hið fyrrnefnda við hafi stefnandi einfaldlega vanefnt „forsendurnar“ en eigi hið síðarnefnda við hafi „forsendurnar“ ekki verið skuldbindandi fyrir hann.
Aðila greini á um hvort kauptilboðið hafi verið bundið frekari skilyrðum eða „forsendum“. Byggi stefnandi á því að kauptilboðið hafi fallið úr gildi annars vegar þar sem stefnandi og stefndi KÖS ehf. hafi ekki í „sameiningu“ stofnað nýtt eignarhaldsfélag og hins vegar þar sem „eignarhaldsfélagið“ hafi ekki verið stofnað áður en farið var í að afla fjármagns. Þessum skilyrðum eða „forsendum“ sjái hvergi stað í kauptilboðinu né í gögnum málsins og sé því mótmælt að aðilar hafi samið á þann veg.
Í kauptilboðinu komi hvergi fram hvernig stofna hafi átt tilboðsgjafa. Ekki verði heldur séð hvaða tilgangi það ætti að þjóna, svo framarlega sem staðið var eðlilega að stofnun tilboðsgjafa, þannig að ekki væri gert á hlut annars hvors aðila. Stefnandi hafi ekki borið því við að svo hafi verið gert. Eigi síðar en 17. nóvember 2015 hafi stefnandi fengið upplýsingar um að félag, A80 ehf., kt. 441115-0670, hefði verið stofnað til að vera tilboðsgjafi samkvæmt kauptilboðinu. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við þetta á sínum tíma né í tölvupóstsamskiptum 28. og 29. desember 2015 þrátt fyrir trúnaðarskyldu sína gagnvart stefnda KÖS ehf. Með aðgerðarleysi sínu hafi stefnandi því jafnframt sýnt af sér tómlæti. Það hafi ekki verið fyrr en eftir framangreind samskipti, þegar efndadagur nálgaðist óðfluga, sem hann hafi mótmælt þessari tilhögun. Þrátt fyrir að stefndi KÖS ehf. teldi um fyrirslátt að ræða af hálfu stefnanda hafi, umfram skyldu, verið ákveðið að koma til móts við „sjónarmið“ stefnanda og stofna nýtt félag á stofnfundi. Stefnandi hafi ekki þegið að taka þátt í því. Því hafi stefndi KÖS ehf. staðið eitt að stofnun félagsins.
Þá komi hvergi fram í kauptilboðinu hvenær stofna hafi átt tilboðsgjafa. Ljóst sé að engin lagaleg rök standi til þess að nauðsynlegt hafi verið að stofna tilboðsgjafa áður en samið var um fjármögnun við lánveitanda eða áður en kauptilboðið var efnt, enda sé gert ráð fyrir því í 10. gr. laga nr. 138/1994 og dómaframkvæmd Hæstaréttar að unnt sé að gera samninga í nafni óstofnaðs félags. Þá standi engin rök til þess að nauðsynlegt hafi verið að stofna félagið áður en farið var í að afla fjármagns eða efna kauptilboðið. Þá sé málsástæða stefnanda, í þá veru að nauðsynlegt hafi verið að stofna tilboðsgjafa áður en farið var í fjármögnun, í ósamræmi við ráðningarsamning framkvæmdastjóra stefnda Þingvallaleiðar ehf., dags. 4. júní 2015, sem hafi verið hluti af viðskiptunum sem ákveðin voru með kauptilboði sama dag. Í ráðningarsamningnum kemur orðrétt fram um verkefni framkvæmdastjóra: „VI. Vinna að fjármögnun á kaupum nýrra eigenda að félaginu.“ Þá hafi stefnanda jafnframt verið fullkunnugt um að af hálfu stefnda KÖS ehf. hafi verið unnið að því að afla fjármagns án þess að hann gerði nokkurn tímann athugasemd við það. Stefnandi hafi því sýnt af sér verulegt tómlæti enda brýnt tilefni fyrir hann til að gera athugasemd ef hann taldi þá tilhögun ekki standast.
Skilyrði um fjármögnun af hálfu tilboðsgjafa sé frestskilyrði sem hafi haft það að verkum að skyldu tilboðsgjafa til að greiða kaupverðið hafi verið slegið á frest þar til skilyrðið var uppfyllt. Í íslenskum samningarétti sé slíkt skilyrði ekki án skuldbindingar fyrir tilboðsgjafa. Einnig skipti miklu að við samningsgerð hafi komið fram tveir aðilar f.h. tilboðsgjafa, þ.e. stefnandi og stefndi KÖS ehf. Við framkvæmd kauptilboðsins hafi þeir því borið trúnaðarskyldu gagnvart hvor öðrum og tilboðshöfum.
Óumdeilt sé að fjármagns hafi verið aflað fyrir tilboðsgjafa og að það var nýtt 4. janúar 2016 til að greiða kaupverðið. Þegar af þeirri ástæðu hafi skilyrði kauptilboðsins um fjármögnun verið uppfyllt. Stefnandi virðist á hinn bóginn byggja á því að skilyrði um fjármögnun hafi ekki verið uppfyllt þar sem hann hafi ekki talið hana „ásættanlega“. Vegna trúnaðarskyldu stefnanda gagnvart stefnda KÖS ehf. við framkvæmd kauptilboðsins hafi stefnandi ekki getað hafnað fjármögnun sem stóð til boða án þess að fyrir lægi að fjármögnunin væri óeðlileg og á einhvern hátt í andstöðu við það sem hann mátti vænta þegar kauptilboðið var samþykkt.
Upphafspunktur við mat á því hljóti að vera fjárhagsstaða stefnda Þingvallaleiðar ehf., enda hafi verið ljóst frá upphafi að eina eign tilboðsgjafa yrði hlutafé í því félagi. Möguleikar eignarhaldsfélags, eins og tilboðsgjafa, til að afla fjármögnunar taki eðlilega mið af eignum þess. Fjárhagur stefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi verið slæmur um árabil. Umrædd viðskipti séu komin til vegna þess að nauðsynlegt hafi verið að fá frekara fjármagn og gera róttækar breytingar á rekstri félagsins til að koma stöðu þess til betri vegar.
Stefnanda tefli fram fáeinum rökum því til stuðnings að fjármögnunin hafi ekki verið „ásættanleg“. Megi ráða að það sem fyrst og fremst valdi því að hann telji fjármögnunina ekki „ásættanlega“ sé að með veðskuldabréfinu hafi fylgt átta viðaukar sem stefnandi segir að hafi „í raun falið í sér að stefnandi samþykkti fyrirfram að A81 ehf. gæti yfirtekið hlutafé hans í félaginu hvenær sem er, aðeins þyrfti að dagsetja skjölin“. Umfjöllun þessi byggi á misskilningi. Umræddir viðaukar geri það að verkum að í tilviki vanefndar og m.a. að undangengnum fresti lántaka til að bæta úr vanefnd hafi lánveitandi heimild til að nýta sér viðaukana, m.a. með því að dagsetja þá, og taka þar með við réttindum sem hlutunum fylgi, sbr. greinar 5.2 og 5.3 í veðskuldabréfinu.
Sé miðað við vaxtaprósentur verðtryggðra skuldabréfalána á markaði sé vaxtaprósentan, 9,90%, eðlileg fyrir lán af þessari tegund og í þessum geira. Það sé vel þekkt að skuldabréfalán með breytirétti séu tekin þegar ráða þurfi bót á slökum rekstri einkahlutafélags, eins og hafði verið um skeið hjá stefnda Þingvallaleið ehf. Lánveitandi taki þá áhættu að lána aðila sem sé um greiðslugetu háður fjárhag félags sem sé illa statt fjárhagslega. Lánveitandinn hafi þá val um hvort hann innheimti lánið eða felli niður skuldina gegn því að fá hlut í lántaka. Ekkert óeðlilegt sé við að lánveitandi setji skilyrði í lánssamning um rekstur félags sem standi láninu að veði.
Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við fundaboðanir, þar sem m.a. hafi komið fram að fjármagns hefði verið aflað, á þeim rúmlega fjórum dögum sem liðu frá því að boðað var til efnda þar til þær fóru fram 4. janúar 2016. Einnig hafi verið skorað á stefnanda að gera tillögur um breytta tilhögun á skilmálum fjármögnunarinnar en stefnandi hafi ekki orðið við því. Með því framferði stefnanda hafi hann brotið í bága við trúnaðarskyldu sína gagnvart stefnda KÖS ehf.
Óumdeilt sé að „forsendur“ sem tilgreindar eru í C- og D-lið bakgrunnskafla kauptilboðsins hafi hvorug gengið eftir. Þar sé við engan að sakast nema stefnanda sjálfan. Þar sem skilyrði kauptilboðsins um fjármögnun hafi gengið eftir hafi stefnandi verið skuldbundinn til að efna kauptilboðið 4. janúar 2016. Það hafi hann á hinn bóginn ekki gert og hafi hann því vanefnt samningsskyldur sínar. Eðli málsins samkvæmt geti vanefnd stefnanda á samningsskyldum sínum ekki leitt til þess að kauptilboðið hafi fallið úr gildi, hafi aðrir aðilar kauptilboðsins haldið sig við efni þess og hafi ekki beitt vanefndaúrræðum kröfuréttar til að fella það úr gildi.
Málatilbúnaður stefnanda um að forsenda hans fyrir kauptilboðinu 4. júní 2015 hafi brostið og því hafi kauptilboðið fallið úr gildi og forkaupsréttur stefnanda virkjast 4. janúar 2016 sé ekki sannfærandi og beri að hafna honum þegar vegna meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga. Því sé jafnframt mótmælt að reglan um brostnar forsendur geti átt við um þær ástæður sem stefnandi beri fyrir sig enda hafi verið tekin afstaða til þeirra í kauptilboðinu 4. júní 2015 og því ekki uppfyllt hugtaksskilyrðið um að ekki hafi verið mælt fyrir um ástæðurnar í samningi.
Það leiði einnig af eðli og tilgangi reglunnar um brostnar forsendur að forsenda geti ekki talist hafa brostið, með þeim réttaráhrifum að samningur fellur úr gildi, ef viðkomandi aðili er valdur að því að forsendan gangi ekki eftir. Sé fallist á með stefndu að skilyrði kauptilboðsins um fjármögnun hafi verið uppfyllt, hafi stefnanda verið skylt að eiga aðild að viðskiptunum og leggja hluti sína í stefnda Þingvallaleið ehf. inn í tilboðsgjafa gegn því að eignast 51% í tilboðsgjafa. Með því að gera það ekki hafi hann vanefnt skyldur sínar. Geti hann þá ekki borið fyrir sig regluna um brostnar forsendur.
Stefnandi byggi á því að víkja eigi kauptilboðinu frá 4. júní 2015 til hliðar „gagnvart [sér]“ með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Erfitt sé að henda reiður á hvað stefnandi telji ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju við að aðilar beri fyrir sig kauptilboðið. Einna helst virðist stefnandi telja skilmála fjármögnunarinnar haldna meinbugum. Með vísan til framangreinds sé því mótmælt að eitthvað sé óeðlilegt við skilmála hennar. Fram að 4. júní 2015 hafði stefnandi verið hluthafi í stefnda Þingvallaleið ehf. og framkvæmdastjóri félagsins um árabil. Sem slíkur hafi hann búið yfir reynslu af viðskiptum og verulegri þekkingu á félaginu. Hann hafi því haft forskot á aðra aðila kauptilboðsins og fráleitt að hann hafi staðið höllum fæti. Þá hafi hann, eins og aðrir aðilar kauptilboðsins, notið liðsinnis lögmanns við gerð kauptilboðsins.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að forkaupsréttur stefnanda hafi orðið virkur 4. janúar 2016 byggja stefndu sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að forkaupsrétturinn sé fallinn niður sökum þess að liðnir eru frestir 7. gr. samþykkta stefnda Þingvallaleiðar, sbr. 14. gr. laga um einkahlutafélög; annars vegar frestur til að greiða kaupverð og hins vegar frestur til að beita forkaupsrétti.
Stefnandi hafi hvorki greitt kaupverðið né sett fram lögmætt greiðsluboð. Í samræmi við ákvæði 7. gr. samþykkta stefnda Þingvallaleiðar ehf., sem hafi vanlýsingaráhrif, „mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt“. Verði fallist á málatilbúnað stefnanda, um að „ný viðskipti“ hafi farið fram 4. janúar 2016, hafi kaupin verið ákveðin þann dag. Ákvæði um forkaupsrétt horfi til takmörkunar á eignarrétti og samningsfrelsi. Því verði þau ekki túlkuð rýmra en samkvæmt orðanna hljóðan. Þriggja mánaða frestur stefnanda til að greiða kaupverðið hafi því byrjað að líða 4. janúar 2016 og hafi liðið undir lok eigi síðar en 3. apríl sama ár. Stefnandi hafi óumdeilanlega ekki greitt kaupverðið og sé forkaupsréttur hans þegar af þeirri ástæðu fallinn niður.
Stefnandi hafi eigi síðar en 4. janúar 2016 haft allar upplýsingar um kaupverð, greiðslustað og aðra skilmála viðskiptanna sem farið hafi fram 4. janúar 2016. Hann hafi verið aðili að kauptilboðinu 4. júní 2015 og hafi undirritað yfirlýsingu 4. janúar 2016 þar sem aðilar hafi m.a. lýst því yfir að þeir væru „sammála um að seljendum sé greitt kaupverð sem nemur sömu fjárhæð og er fjárhæð kaupverðsins samkvæmt kauptilboðinu, þ.m.t. ákvæði um vísitölubindingu, við undirritun yfirlýsingar þessarar og seljendur afhendi hlutaskrá undirritaða af hálfu stjórnar félagsins“. Þá hafi stefnandi setið í stjórn stefnda Þingvallaleiðar ehf. 4. janúar 2016 og setið stjórnarfund þegar tilkynning um viðskiptin barst. Hafi stefnandi talið sig þurfa frekari upplýsingar um viðskiptin til að greiða kaupverðið hafi hann getað beitt sér fyrir því að stjórn stefnda Þingvallaleiðar ehf. hefðist að. Stefnandi geti ekki unnið rétt með því að halda sjálfur að sér höndum.
Í bréfi stefnanda 28. janúar 2016 var skorað á stefnda KÖS að upplýsa „um endanlegt kaupverð“ og „inn á hvaða greiðslureikning [stefnandi] eigi að greiða þá fjárhæð“. Í bréfi 12. febrúar s.á. hafi þessari áskorun verið svarað. Stefnandi hafi haft allar upplýsingar um viðskiptin, þ. á m. um kaupverðið og greiðslustað, þ.e. bankareikningsnúmer seljenda sem voru tilgreind í kauptilboðinu 4. júní 2015. Því hafi ekkert staðið í vegi fyrir því að stefnandi greiddi kaupverðið.
Verði ekki fallist á málatilbúnað stefndu um greiðslufrest stefnanda sé byggt á því til vara að reglan í niðurlagi c-liðar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 138/1994 eigi við. Verði fallist á málatilbúnað stefnanda, um að „ný viðskipti“ hafi verið ákveðin 4. janúar 2016, sé ljóst að seljendur og kaupandi hafi ekki samið sérstaklega um gjalddaga. Því verði að beita meginreglum kröfuréttar til fyllingar. Sú regla gildi að hafi ekki verið samið á annan veg geti seljandi krafist greiðslu þegar eftir gerð samnings og beri seljanda að afhenda hið selda samtímis greiðslu kaupverðs. Greiðsla kaupverðs og afhending hins selda hafi farið fram 4. janúar 2016. Frestur stefnanda til að greiða kaupverðið hafi þá liðið undir lok sama dag.
Fallist dómurinn ekki á að frestur stefnanda til að greiða kaupverðið sé liðinn og forkaupsréttur stefnanda niður fallinn af þeim sökum sé byggt á því að stefnandi hafi ekki tekið fullnægjandi ákvörðun um beita forkaupsrétti sínum innan frests. Samkvæmt 7. gr. samþykkta stefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi forkaupsréttarhafi „tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboðið“. Stjórn stefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi borist tilkynning um viðskiptin 4. janúar 2016 og stefnandi hafi haft allar upplýsingar um kaupverð, greiðslustað og aðra skilmála viðskiptanna. Stefnandi hafi borið því við að hafa tilkynnt um ákvörðun sína „að hann vildi nýta sér“ forkaupsrétt með bréfi 28. janúar 2016. Sú tilkynning hafi verið ófullnægjandi. Samkvæmt almennum reglum um forkaupsrétt verði ákvörðun forkaupsréttarhafa um að neyta forkaupsréttar að vera án skilyrða, skýr og afdráttarlaus. Í umræddu bréfi sé á hinn bóginn óskað upplýsinga sem bent hafi verið á að stefnandi byggi þegar yfir, sbr. bréf 12. febrúar 2016. Eftir að stefnanda var sent bréfið hafi ákvörðun hans aldrei borist. Því hafi liðið undir lok tveggja mánaða frestur hans til að neyta forkaupsréttar.
Verði einhver af kröfum stefnanda tekin til greina sé farið fram á að kaupverð, sem forkaupsréttur stefnanda miðist við, sé ákvarðað með réttum hætti. Í forkaupsrétti felist enda að forkaupsréttarhafi sé bundinn af skilmálum í samningi seljanda og kaupanda. Kaupverð í samningi seljenda og kaupanda, hvort sem miðað sé við að viðskiptin hafi farið fram á grundvelli kauptilboðsins 4. júní 2015 eða „nýrra viðskipta“ 4. janúar 2016, hafi verið ákvarðað 93.060.000 krónur m.v. vísitölu neysluverðs eins og hún stóð í maí árið 2015, þ.e. 428,2 stig. Gjalddagi kaupverðsins hafi jafnframt verið 4. janúar 2016 og því beri kaupverðið dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þegar kaupverðið var greitt í janúar 2016 hafi útreikningur kaupverðsins leitt af sér fjárhæð sem nam 93.625.054 krónum. Verði forkaupsréttur stefnanda viðurkenndur þurfi hann að greiða kaupverðið í samræmi við skilmála viðskiptanna að teknu tilliti til þróunar vísitölu neysluverðs og með dráttarvöxtum.
Stefndu fari hver fyrir sig fram á að stefnandi greiði þeim málskostnað. Stefndi KÖS ehf. veki sérstaka athygli á því að aðild hans að málinu sé tilhæfulaus. Aðal- og varakrafa stefnanda eigi því engan rétt á sér. Allir stefndu veki athygli á því að málið hafi af þessum sökum orðið umfangsmeira en nauðsyn beri til en í því sambandi megi einnig nefna að málatilbúnaður stefnanda sé ruglingslegur og málsatvikalýsing hlaðin málsástæðum. Málskostnaðarkröfur stefndu byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129.-131. gr. Um lagarök byggi stefndu á meginreglum eignarréttar um forkaupsrétt, meginreglum samninga- og kröfuréttar og meginreglum einkamálaréttarfars. Þá sé byggt á lögum nr. 91/1991, þ. á m. 16. gr., 26. gr., X. kafla og XXI. kafla, lögum nr. 138/1994, þ. á m. 12. gr. og 14. gr., lögum nr. 7/1936, lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup og lögum nr. 9/1978 um geymslufé.
IV.
Málsástæður og lagarök aðalstefndu og varastefndu Sigríðar Ingvarsdóttur og Sigurðar Ingvarssonar
Aðalstefndu og varastefndu Sigríður Ingvarsdóttir og Sigurður Ingvarsson telja rangt að kauptilboð frá 4. júní 2015 hafi í raun aldrei verið annað en yfirlýsing um vilja aðila til að ganga til viðskipta. Kauptilboðið hafi verið samþykkt af hálfu seljenda þann dag. Frá og með undirritun kauptilboðsins og fram að efndadegi hafi verið teknar skuldbindandi ákvarðanir um fyrirkomulag rekstrar aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. Þessar ákvarðanir hafi allar gengið eftir og verið uppfylltar af hálfu allra aðila eftir því sem aðalstefndu og varastefndu Sigríður og Sigurður viti best til. Því hafi skuldbindandi samkomulag um sölu 60% í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. komist á 4. júní 2015 og hafi efndir farið fram eftir því sem efni hafi staðið til. Yfirlýsingar stefnanda um að hann hygðist neyta forkaupsréttar hafi ekki komið fram fyrr en löngu síðar eða 4. janúar 2016. Í ljósi þessa sé útilokað að ákvæði í samþykktum aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. um forkaupsrétt geti átt við um þessi viðskipti. Hinn 4. janúar 2016 hafi viðskiptunum sem stofnað var til 4. júní 2015 lokið með uppgjöri en ekki farið fram ný viðskipti.
Þær breytingar sem gerðar hafi verið á rekstri aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi tengst umræddri sölu á 60% hlut í því félagi. Salan hafi verið talin nauðsynleg til að unnt væri að gera brýnar breytingar á rekstri félagsins sem hafi ekki gengið vel, eða að minnsta kosti ekki eins vel og væntingar hafi staðið til af hálfu allra hluthafa fyrir söluna. Allir hluthafar hafi talið breytingar nauðsynlegar og brýnar og að nýir aðilar kæmu að rekstrinum. Aðalstefndu og varastefndu Sigríði og Sigurði hafi verið ókunnugt um að helstu fjármálastofnanir landsins hafi ekki viljað fjármagna umrædd kaup, enda hafi komið fram, meðal annars á stjórnarfundum aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., að kaupandi væri að vinna að fjármögnun og ekki annars að vænta en að hún gengi eftir.
Aðalstefndu og varastefndu Sigríður og Sigurður vísa til þess að yfirlýsing, dags. 4. janúar 2016, hafi verið útbúin að frumkvæði lögmanna til að halda seljendum utan við ágreining kaupenda. Með þessu hafi verið greitt fyrir því að fullar efndir gætu farið fram á samkomulaginu milli kaupenda og seljenda þrátt fyrir yfirlýsingu stefnanda um að hann teldi að salan á hlutafénu hefði farið fram á grundvelli nýs samnings og kauptilboðið fallið úr gildi gagnvart honum. Með þessari afstöðu stefnanda hafi rekstri aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. verið teflt í tvísýnu, enda hafi samkomulag um rekstur félagsins ekki gilt lengur en til 4. janúar 2016. Með yfirlýsingunni um að halda seljendum fyrir utan ágreininginn hafi verið komið í veg fyrir að daglegur rekstur aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. færi í uppnám.
Í stefnu sé ekki útskýrt eða rökstutt nánar af hverju stefnandi telji nauðsynlegt að allir aðilar umræddra viðskipta eigi aðild að þessu máli. Það sé óljóst, sérstaklega í ljósi samkomulags um að halda seljendum fyrir utan ágreininginn í málinu. Röksemdir fyrir þessari nauðsyn hefðu þurft að koma fram í stefnu svo stefndu væri nægilega ljóst hvernig haga bæri vörnum í þessu máli.
Mjög óljóst sé hvað átt sé við með þeirri málsástæðu stefnanda að hafi aðalstefndi KÖS ehf. efnt tilboðið frá 4. júní 2015 með bindandi hætti gagnvart stefnanda 4. janúar 2016 beri að víkja þeim gerningi til hliðar gagnvart stefnanda með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Verði þessi málsástæða stefnanda tekin til greina sé réttarstaða aðila málsins óljós. Með vísan til þessa sé ekki unnt að taka afstöðu til þessarar málsástæðu stefnanda og halda uppi vörnum varðandi hana.
Aðalstefndu og varastefndu Sigríður og Sigurður geri engar athugasemdir við að stefnandi leiti úrlausnar fyrir dómstólum um hinn meinta forkaupsrétt sinn en telji að þau eigi að vera skaðlaus af þeim málaferlum.
V.
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn stefnandi, Bjarni Karlsson, fyrirsvarsmaður aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleiðar ehf. og varastefnda SPV 25 ehf., Þóranna Jónsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Ingvar Mar Jónsson og gáfu aðilaskýrslu. Einnig komu fyrir dóminn vitnin Konráð Örn Skúlason, Ásgeir Erling Gunnarsson, Bogi Guðmundsson og Benedikt Egill Árnason. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þurfa þykir.
Með úrskurði dómsins 21. nóvember 2016 var hafnað frávísunarkröfum aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleiðar ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. Til einföldunar verður rætt um aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleið ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. sameiginlega sem stefndu. Stefndu gera enn kröfu um frávísun málsins.
Frávísunarkrafa stefndu byggir í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki leitt að því líkur að hann sé fær um að greiða kaupverð umræddra hlutabréfa og hafi því ekki lögvarða hagsmuni af höfðun málsins. Leyst var úr þessari málástæðu í úrskurði dómsins. Þar sagði m.a. að stefnandi hefði ,,ekki gert grein fyrir því hvernig hann hyggist greiða kaupverð þessara 12 hluta, að öðru leyti en með því að vísa til þess að hann eigi ótilgreinda fjármuni inni hjá aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Fram hjá því verður þó ekki litið að aðilar máls hafa ekki enn lýst gagnaöflun lokinni. Stefnanda er því enn kleift að varpa ljósi á það með frekari gagnaöflun hvernig hann hyggist fjármagna kaup á hlutum í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Verður málinu því þegar af þessari ástæðu ekki vísað frá dómi að svo stöddu.“ Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn um getu sína til að greiða kaupverð þeirra 12 hluta í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. sem krafa hans tekur til. Þó kvaðst stefnandi í skýrslu sinni fyrir dóminum hafa fengið lánsloforð hjá Arion banka hf. Þó að dómari hafi hafnað beiðni lögmanns stefnanda um að leggja umrætt lánsloforð fram við upphaf aðalmeðferðar þykir stefnandi með staðhæfingu sinni um að slíks loforðs hafi verið aflað hafa leitt að því nægar líkur að hann geti greitt kaupverð hlutabréfanna til þess að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn um dómkröfur sínar. Verður málinu af þessari ástæðu ekki vísað frá dómi.
Stefndu byggja einnig á því að aðal- og varakröfu stefnanda beri að vísa frá dómi þar sem þær kröfur beinist ekki að kaupanda hlutanna. Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna byggja stefndu á því að sýkna beri aðalstefnda KÖS af þessum kröfum vegna aðildarskorts. Aðal- og varakrafa stefnanda byggist á því að aðalstefndi KÖS ehf. sé kaupandi þeirra hluta sem málið lýtur að, en þrautavara- og þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggist á því að varastefndi SPV 25 ehf. sé kaupandinn. Stefndu byggja hins vegar á því að varastefndi SPV 25 ehf. sé kaupandinn. Samkvæmt þessu lýtur ágreiningur aðila að því hver sé kaupandi umræddra hluta. Verði niðurstaða dómsins sú að aðalstefndi KÖS ehf. sé ekki kaupandi hlutanna, heldur varastefndi SPV 25 ehf., leiðir það til sýknu þess fyrrnefnda af aðal- og varakröfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ekki til frávísunar.
Í kauptilboði, dags. 4. júní 2015, í hlutafé aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. kemur fram að tilboðsgjafi sé stefnandi og aðalstefndi KÖS ehf. fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags. Í C-lið bakgrunns kauptilboðsins er tekið fram að forsenda tilboðsgjafa sé að stefnandi og aðalstefndi KÖS ehf. muni ,,í gegnum tilboðsgjafa eignast allt hlutafé“ aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., þó þannig að félagið muni áfram eiga eigin hluti. Í D-lið bakgrunnsins er m.a. tekið fram að aðalstefndi KÖS ehf. skuli leggja til 46.530.000 krónur sem verði notaðar til að greiða fyrir hluti í félaginu samkvæmt kauptilboðinu. Aðilum væri ljóst að helmingur kaupverðsins samkvæmt tilboðinu væri ófjármagnaður en gert væri ,,ráð fyrir að eignarhaldsfélagið afli sér lánsfjár til að geta greitt kaupverð kauptilboðsins að fullu“. Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi tilboðsgjafi greiða tilboðshöfum 7.755.000 krónur fyrir hvern hlut, eða samtals 93.060.000 krónur, tengt við vísitölu neysluverðs miðað við maí 2015, 428,2 stig. Á efndadegi 4. janúar 2016 skyldu tilboðshafar hafa afhent tilboðsgjafa hið selda og tilboðsgjafi greiða tilboðshöfum kaupverðið. Í 4. gr. samningsins voru tiltekin tvö skilyrði, að viðeigandi tilboðshafar myndu undirrita staðfestingu sem var að finna í viðauka 2 og afhenda tilboðsgjafa í kjölfar skipta á dánarbúi Guðlaugar Þórarinsdóttur, sem á þeim tíma átti hluti í aðalstefnda Þingvallaleið ehf., hins vegar var tilboðið bundið því skilyrði að ,,tilboðsgjafa takist að afla nægilegrar fjármögnunar vegna allra kaupanna fyrir 4. janúar 2016“. Tekið var fram í sömu grein að hefðu skilyrðin ekki verið uppfyllt þann 4. janúar 2016 eða tilboðsgjafi ekki fallið frá þeim fyrir þann tíma félli kauptilboðið úr gildi.
Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er gert ráð fyrir því að löggerningur sé gerður fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags en við þær aðstæður bera þeir sem tekið hafa þátt í gerningnum eða ákvörðunum um hann óskipta persónulega ábyrgð á efndum. Við skráningu tekur félagið við þeim skyldum sem leiðir af stofnsamningi eða félag hefur tekið á sig eftir stofnfund.
Þetta kauptilboð var undirritað af stefnanda og fyrir hönd aðalstefnda KÖS ehf. vegna tilboðsgjafa og af tilboðshöfum, sem eru stefndu Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurður Ingvarsson og Þóranna Jónsdóttir. Með undirritun kauptilboðsins komst á samningur milli þessara aðila þess efnis sem greinir í tilboðinu, sem var bundinn þeim tveimur skilyrðum sem áður eru rakin. Er þeirri málsástæðu stefnanda hafnað að í kauptilboðinu hafi einungis falist viljayfirlýsing aðila, enda ber tilboðið ekki með sér að það hafi ekki átt að vera skuldbindandi fyrir tilboðsgjafa, sbr. 9. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Þar sem samningur var kominn á milli stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. sem tilboðsgjafa fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags annars vegar og tilboðshafa hins vegar var aðilum samningsins skylt, í samræmi við almennar reglur um trúnað í viðskiptum, að vinna í góðri trú að því að skilyrði samningsins gengju eftir. Hvað stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. varðar urðu þeir að stofna saman tilboðsgjafa og afla nægilegrar fjármögnunar vegna allra kaupanna eigi síðar en 4. janúar 2016. Hitt skilyrði tilboðsins, um undirritun staðfestingar í kjölfar skipta á dánarbúi Guðlaugar Þórarinsdóttur, gekk eftir og þarfnast ekki frekari umfjöllunar.
Með bréfi, dags. 30. desember 2015, til stefnanda og þáverandi lögmanns hans, var stefnandi boðaður á stofnfund tilboðsgjafa sem fara skyldi fram þann 4. janúar 2016 á tilteknum stað og tíma. Í bréfinu kom fram að á fundinum yrði tilboðsgjafi stofnaður sem einkahlutafélag. Með bréfinu var stefnandi einnig boðaður til uppgjörsfundar síðar sama dag á tilteknum stað og tíma. Stefnandi byggir á því að hann hafi fyrst vitað um tilhögun fjármögnunar þann 4. janúar 2016. Stefnandi telur að slík fjármögnun, sem aðalstefndi KÖS ehf. hafi einhliða aflað, geti ekki skuldbundið hann, auk þess sem skilmálar skuldabréfsins hafi ekki verið aðgengilegir.
Í kaupsamningi aðila var ekki með skýrum hætti útlistað hvernig eða hvenær stofna skyldi tilboðsgjafa, þótt í forsendu D virtist gert ráð fyrir að félagið skyldi stofnað áður en lánsfjár væri aflað. Vegna ákvæðis 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 gerðist þess þó ekki þörf að tilboðsgjafi væri stofnaður áður en fjármagns væri aflað og er því ekki hald í málsástæðu stefnanda um að tilboðsgjafa hafi borið að stofna áður.
Í kaupsamningnum er ekki heldur útlistað með nákvæmum hætti hvernig vinna við fjármögnun skuli fara fram eða minnst á hverjir skuli annast þá vinnu. Í ráðningarsamningi aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. við Konráð Örn Skúlason sem framkvæmdastjóra félagsins var gert ráð fyrir að eitt af verkefnum hans væri að vinna að fjármögnun kaupanna og upplýsa um hvernig sú vinna gengi. Þá var Konráði Erni heimilað í ráðningarsamningnum að útdeila hluta af starfsskyldum sínum til Bjarna Karlssonar, stjórnarmanns í aðalstefnda KÖS ehf. Samkvæmt þessu virðist það hafa verið ætlun stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. að Konráð Örn og eftir atvikum Bjarni myndu vinna að því að afla nauðsynlegs fjármagns en eftir atvikum halda stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. upplýstum um það. Samkvæmt framlögðum fundargerðum stjórnarfunda aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf., sem stefnandi sat sem einn stjórnarmanna félagsins, og framburði Bjarna Karlssonar, Konráðs Arnar Skúlasonar, Þórönnu Jónsdóttur, Sigríðar Ingvarsdóttur var staða fjármögnunar rædd á stjórnarfundunum. Stefnandi gerir ekki grein fyrir því hvernig hann telji að standa hafi átt að standa að fjármögnuninni og hvaða hlutverki hann hafi átt að gegna í þeirri vinnu. Samkvæmt þessu er ekki unnt að fallast á það með stefnanda að hann sé ekki bundinn af því fjármagni sem aflað var af þeirri ástæðu að þess hafi verið aflað án hans þátttöku.
Stefnandi færir fyrir því rök hvernig hann telur skilmála skuldabréfsins óaðgengilega en stefndu mótmæla því. Hvað varðar lánskjör skuldabréfsins vísa stefndu til þess að þau endurspegli slæma fjárhagsstöðu aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. og þá staðreynd að hlutafé í því félagi yrði eina eign tilboðsgjafa. Sú afstaða stefndu að fjárhagsleg staða aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi verið erfið fær stoð í ráðningarsamningi Konráðs Arnar, en þar er tekið fram að hann sé ,,sérstaklega ráðinn til að koma stöðu fyrirtækisins til betri vegar og vinna að aðkallandi málum sem hafa setið á hakanum“. Hið sama kom fram í framburði Bjarna Karlssonar, Konráðs Arnar Skúlasonar, Þórönnu Jónsdóttur, Sigríðar Ingvarsdóttur og, Ásgeirs Erlings Gunnarssonar. Stefnandi hefur ekki andmælt því að fjárhagsleg staða aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. hafi verið erfið. Eðli málsins samkvæmt hljóta kjör á lánum, sem tekin eru til að kaupa hluti í fyrirtæki í rekstri, að fara eftir fjárhagslegri stöðu og rekstri þess fyrirtækis sem um ræðir, sem og þeim tryggingum sem lánveitanda eru áskildar fyrir efndum, en samkvæmt skuldabréfinu eru ekki aðrar tryggingar settar fyrir efndum en handveð í hlutabréfum aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. Gegn andmælum stefndu hefur stefnandi ekki gert sennilegt að önnur og hagstæðari fjármögnun hafi staðið til boða á sama tíma eða að endurgreiðsla skuldar samkvæmt skuldabréfinu væri á kjörum sem tilboðsgjafi gæti ekki staðið við.
Hvað varðar athugasemdir stefnanda við breytirétt lánveitanda og viðauka við skuldabréfið er mælt fyrir um í grein 5.2 í skuldabréfinu að réttur skuldara til hlutanna eða réttinda sem þeim fylgi teljist sjálfkrafa fallinn niður eigi vanefnd sér stað eða skuldari brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt skuldabréfinu. Í kjölfar vanefndar eða brots skuldara á skyldum sem skuldari hafi ekki bætt úr innan viku frests frá tilkynningu kröfuhafa hafi kröfuhafi heimild til að fara með atkvæðisrétt og önnur réttindi sem fylgi hlutunum. Í grein 5.3 segir enn fremur að skuldari skuli því afhenda ódagsett en undirrituð skjöl sem fylgi með skuldabréfinu í viðaukum 4, 5 og 7. Við þær aðstæður sem fram komi í grein 5.2 sé kröfuhafa heimilt að dagsetja skjölin og hafi þá fulla heimild til að nýta sér rétt sinn samkvæmt efni þeirra. Samkvæmt þessu orðalagi er heimild kröfuhafa samkvæmt þessum greinum bundin við þau tilvik ef vanefnd verður eða skuldari brýtur gegn öðrum skyldum sínum og bætir ekki úr. Þessu til viðbótar hefur kröfuhafi breytirétt samkvæmt grein 13. Samkvæmt þeirri grein getur kröfuhafi, hvenær sem er á lánstímanum, breytt eftirstöðvum skuldarinnar í nýtt hlutafé í skuldara sem nemi þriðjungs eignarhlut í félaginu. Samkvæmt þessu veita tilvitnuð ákvæði skuldabréfsins ekki kröfuhafa heimild til þess að yfirtaka hlutafé stefnanda hvenær sem er með útfyllingu þar tilgreindra viðauka við skuldabréfið. Er málsástæðu stefnanda þar að lútandi því hafnað.
Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að skilyrði kaupsamnings aðila frá 4. júní 2015 um fjármögnun tilboðsins hafi gengið eftir. Þar sem skilyrði tilboðsins höfðu gengið eftir var stefnanda og aðalstefnda KÖS ehf. skylt að stofna tilboðsgjafa. Neitun stefnanda á að undirrita fyrrnefnt skuldabréf og stofna tilboðsgjafa á fundi 4. janúar 2016 fól því í sér vanefnd af hans hálfu. Kaupsamningurinn féll því ekki niður 4. janúar 2016 samkvæmt 4. gr. samningsins og var efndur gagnvart tilboðshöfum á uppgjörsfundi þann dag með greiðslu kaupverðsins.
Aðilar munu hafa hist á fundi þann 20. janúar 2016 í því skyni að stofna tilboðsgjafa en vegna ágreinings aðila mun þeim fundi hafa verið slitið. Í kjölfarið stofnaði aðalstefndi KÖS ehf. einhliða varastefnda SPV 25 ehf. hinn 25. janúar 2016. Tilkynnt var um stofnun félagsins til fyrirtækjaskrár með tilkynningu sem var móttekin 1. febrúar 2016. Í stofngerð varastefnda SPV 25 ehf. var bókað að félagið tæki skuldabréfalán að fjárhæð 46.812.527 krónur sem veitti kröfuhafa þess rétt til að breyta kröfu sinni á hendur félaginu í hlut í því. Hið sama kemur fram í 4. gr. samþykkta félagsins. Í stofnsamningi er ekki vikið að því hvort varastefndi SPV 25 ehf. taki við skyldum tilboðsgjafa samkvæmt fyrrnefndum kaupsamningi, en í hluthafaskrá aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. kemur fram að varastefndi sé hluthafi í því félagi og eigi 12 hluti í félaginu, eða 60% hlutafjár. Samkvæmt þessu er varastefndi SPV 25 ehf. tilboðsgjafi samkvæmt kaupsamningnum og eigandi hlutafjár í aðalstefnda Þingvallaleið ehf. Þegar af þeirri ástæðu verða aðalstefndu sýknuð af aðal- og varakröfu stefnanda.
Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um öflun fjármögnunar og skilmála veðskuldabréfsins og viðauka við það verður kaupsamningnum ekki vikið til hliðar gagnvart stefnanda á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Þar sem á fundi 4. janúar 2016 voru gerð upp viðskipti samkvæmt kaupsamningi aðila frá 4. júní 2015 stofnaðist ekki til þess forkaupsréttar sem stefnandi telur sig njóta, enda ekki um ný viðskipti að ræða. Vegna þessarar niðurstöðu gerist þess ekki þörf að taka afstöðu til málsástæðna stefndu um forkaupsrétt aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. sem njóti forgangs gagnvart forkaupsrétti hluthafa og um að dómkröfur stefnanda taki ekki mið af forkaupsrétti annarra hluthafa. Samkvæmt þessu verða varastefndu sýknuð af þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda.
Í samræmi við þessa niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleið ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað. Stefnandi verður einnig dæmdur til að greiða aðalstefndu og varastefndu Sigríði Ingvarsdóttur og Sigurði Ingvarssyni 200.000 krónur óskipt í málskostnað. Aðrir aðalstefndu og varastefndu létu málið ekki til sín taka og verður þeim því ekki dæmdur málskostnaður.
Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóm dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Aðilar eru sammála dómara um að ekki þörf á endurflutningi málsins.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Kröfu aðalstefnda Þingvallaleiðar ehf. um frávísun málsins er hafnað.
Kröfu aðalstefnda KÖS ehf. um frávísun aðal- og varakröfu málsins er hafnað.
Kröfu varastefnda SPV 25 ehf. um frávísun þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu málsins er hafnað.
Aðalstefndu, KÖS ehf., Þingvallaleið ehf., Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurður Ingvarsson og Þóranna Jónsdóttir, eru sýknuð af aðal- og varakröfu stefnanda, Þórs Ingvarssonar.
Varastefndu, SPV 25 ehf., Þingvallaleið ehf., Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurður Ingvarsson og Þóranna Jónsdóttir, eru sýknuð af þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda.
Stefnandi greiði aðalstefndu KÖS ehf. og Þingvallaleið ehf. og varastefnda SPV 25 ehf. óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði aðalstefndu og varastefndu Sigríði Ingvarsdóttur og Sigurði Ingvarssyni 200.000 krónur í málskostnað.
Málskostnaður fellur niður milli stefnanda og aðalstefndu og varastefndu Elínar Ingvarsdóttur, Ingvars Mars Jónssonar, og Þórönnu Jónsdóttur.