Hæstiréttur íslands
Mál nr. 297/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 14. maí 2010. |
|
Nr. 297/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. maí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 8. júní 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með sóknaraðila að sterkur grunur sé um að varnaði hafi gerst sekur um brot sem varðað geti 10 ára fangelsi og telja verði varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. maí 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur með kröfu dagsettri 11. maí sl. krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], dvalarstaður [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 8. júní 2010 kl. 16:00.
Kærði hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni og krafist þess að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að lögreglu hafi þann 3. maí sl. um kl. 22:03 borist tilkynning um yfirstandandi líkamsárás að M. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi verið þar fyrir árasarþolar, A, kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...]. Á vettvangi hafi árásarþolar greint lögreglu frá því að þau hafi þá rétt áður verið búin að festa barnabílstól með barni C í bifreið sem var fyrir utan M. Þá hafi tveir aðilar ráðist á A, sparkað í kvið hans og andlit. Annar aðilinn hafi dregið upp hníf og otað að A. B hafi reynt að verja A en fengið spörk í sig og orðið fyrir meiðslum. Einnig hafi verið ráðist á C og sparkað í líkama hennar liggjandi á jörðinni. Þegar árásarmennirnir fóru hafi þeir hótað því að koma aftur. Kl. 23:25 voru kærði og Y handteknir við [...]. Við öryggisleit á Y fannst innanklæða öxi og hamar, við öryggisleit á honum í fangaklefa fannst síðan hnífur í buxnastreng.
Blóðblettir fundust á fötum kærða og Y.
A var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús vegna alvarleika áverka sinna.
Teknar hafa verið skýrslur af öllum árásarþolum og hafa þau öll borið að rétt eftir að C hafi verið búin að festa 6 vikna gamalt barn sitt í sæti bifreiðar fyrir utan M hafi komið að þeim 2 karlmenn, kærði og Y, hafi þeir spurt um D, barnabarn A og B, viljað fá símanúmer hans og sagt þeim að D skuldaði þeim peninga. Þegar að kærða og Y hafi verið ljóst að D var ekki á M hafi þeir ráðist á þau þrjú. Hafi þeir báðir kýlt A í andlitið svo að hann hafi dottið en þá hafi kærði ásamt Y sparkað í höfuð hans og búk. C og B hafi reynt að koma A til hjálpar og hafi þá kærði og Y ráðist á C. Hafi þeir kýlt hana með krepptum hnefa í andlitið þannig að hún féll í jörðina og fylgt því eftir með spörkum í höfuð hennar og kvið. Þegar að A hafi síðan náð að standa upp hafi kærði og Y ráðist aftur að honum slegið hann í jörðina og sparkað í andlit hans og kvið. Öll hafa árásarþolarnir vitnað um að kærðu hefðu verið með hníf við árásina og hótað að beita honum þannig að árásarþolar gátu óttast um líf sitt.
Rannsókn máls þessa er í fullum gangi. Telur lögregla að hin ætlaða háttsemi kærða kunni að varða einkum við ákvæði 2. mgr. 218. gr., 233. gr. og 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Y var yfirheyrður af lögreglu sl. föstudag þann 7. maí og viðurkenndi hann að hafa farið að M til að ná sér í pening og slegið A einu höggi en að X hefði ráðist á A.
Kærði var yfirheyrður af lögreglu sl. föstudag þann 7. maí og neitaði hann að tjá sig við öllum spurningum lögreglu um atburði þessa kvölds.
Að mati lögreglu er fram komin sterkur grunur um að kærði hafi í félagi við Y framið verknað sem varðað geti að lögum allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Um sé að ræða mjög alvarlegt brot, unnið í félagi við meðkærða, og er brotið þess eðlis að ljóst var að brotið gæti haft í för með sér bersýnilega hættu fyrir ætlaða þolendur og jafnvel lífsháska.
Telji lögreglustjóri brotið vera í eðli sínu svo svívirðilegt að áframhaldandi
gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Af hálfu sækjanda hefur verið vakin athygli á sakaferli kærða.
Niðurstaða:
Dómari hefur undir höndum ásamt rannsóknargögnum dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. október 2009 þar sem kærði er dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir samverknað sem var talinn varða við 2. mgr. 226. gr., 231. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómur þessi er nú undir áfrýjun. Segir í dómnum að verknaður kærða hafi verið gríðarleg misgerð við persónu og heimilisfrið aldraðs manns og að kærði hafi brotist tvívegis inn og stolið tveimur dögum eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi vegna ránsins.
Þá hefur dómari einnig undir höndum gæsluvarðhaldsúrskurð yfir kærða sem staðfestur var í Hæstarétti þann 6. maí sl. þar sem fram kemur lýsing á afleiðingum árásar kærða en þar segir að samkvæmt upplýsingum frá lækni á sjúkrahúsi Keflavíkur var árásarþolinn B víða aum, kenndi til í hálsi, var illt í hnjám og átti erfitt með gang. Kvað læknirinn áverka hennar geta orðið greinilegri er frá liði. Ekki væri grunur um beinbrot hjá B. Læknirinn kvað C hugsanlega vera með brot í andlitsbeini. Hún hefði verið lemstruð og með áverka víða um líkamann. Áverkarnir ættu eftir að koma betur fram er fram liði frá árásinni. Kvað læknirinn að gengið hafi verið hrottalega í skrokk á þessu fólki og mildi að ekki fór verr. Læknir á Landspítala háskólasjúkrahúsi kvað A hafa hlotið talsvert mikla áverka. Hann hefði nefbrotnað og væri blár og marinn yfir augum sem væru sokkin. Hann væri með glóðaraugu á báðum augum, mar á baki, skrámur á hnjám, ýmsa mjúkvefja áverka, eymsli yfir í háls, verk í vinstri öxl og verk í baki. Mat læknis var að A hefði orðið fyrir meiriháttar og fólskulegri líkamsárás og væri heppinn að ekki hefði farið verr.
Dómari telur engum vafa undirorpið að hin hrottafengna tilefnislausa árás tvímenninganna fyrir utan heimili A og B hafi verið gerð í þeim eina tilgangi að afla fjár eins og fram kemur í rannsóknargögnum að hafi verið raunin
Við mat á nauðsyn þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna vegur þungt að hann skirrist ekki við að beita blásaklaust fólk háskalegu ofbeldi þrátt fyrir að hafa í lok október verið dæmdur til langrar fangelsisvistar sem m.a. á rót sína að rekja til ofbeldisbrots (ráns) í tengslum við fjáröflun sem telja má að tengist fíkniefnum.
Að öllu framangreindu virtu, sem og öðrum rannsóknargögnum málsins, verður fallist á það með lögreglustjóra að nægilega sterkur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um brot sem séu í eðli sínu svo svívirðileg að nauðsyn beri til að láta hann sæta gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna.
Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 8. júní nk. kl. 16.00.
Úrskurð þennan kveður upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 8. júní 2010, kl. 16.00.
Gæsluvarðhaldið er án takmarkana.