Hæstiréttur íslands

Mál nr. 94/2008


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. júní 2008.

Nr. 94/2008.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl)

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl., réttargæslumaður)

 

Kynferðisbrot. Miskabætur.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við A á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Talið var sannað með vísan til trúverðugs framburðar A, sem fékk nokkra stoð í framburði vitna, og líkamlegs ástands hennar að ákærði hafi gerst sekur um verknaðinn. Við ákvörðun refsingar X var litið til þess að brot hans var alvarlegt og beindist að persónufrelsi ungrar stúlku sem virtist hafa borið traust til hans vegna fjölskyldutengsla. Var einnig litið til þess að engin viðhlítandi gögn lágu fyrir um afleiðingar verknaðarins auk þess sem dráttur varð á lögreglurannsókn málsins. Þótti refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Þá þótti X með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til A sem þóttu hæfilega ákveðnar 800.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson og Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 1.500.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar á ný. Til vara krefst hann sýknu og að kröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og dæmd fjárhæð til A lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að brot ákærða var alvarlegt og beindist að persónufrelsi ungrar stúlku, sem virðist hafa borið traust til hans vegna fjölskyldutengsla. Á hinn bóginn verður að gæta að því að engin viðhlítandi gögn liggja fyrir um hvaða afleiðingar verknaðurinn hafi haft fyrir stúlkuna, auk þess sem mikill dráttur varð á lögreglurannsókn, sem engar skýringar hafa verið gefnar á. Þegar þetta er virt ásamt því að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átján mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um bætur úr hendi ákærða til A og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 601.085 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

 

                               Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. nóvember 2007.

          Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 4. júlí s.l. á hendur X, kt. [...],[...],[...], „fyrir nauðgun, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 27. maí 2006, í íbúð að [...],[...], haft samræði við A og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar.

                Telst þetta varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 196. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa á hendur ákærða:

Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.500.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 27. maí 2006 til greiðsludags.“

Mál þetta var þingfest í [...] 5. ágúst s.l. en ákærði kom þá ekki fyrir dóm. Ákærði mætti fyrir dómi 3. október s.l. og neitaði þá sök. Aðalmeðferð málsins var haldin á [...] 25. október s.l. og var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi. Verjandi ákærða krafðist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærði hlyti vægustu refsingu sem lög leyfa. Þá var krafist frávísunar á framkominni bótakröfu og málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins. Réttargæslumaður kæranda, Margrét Gunnlaugsdóttir, hdl., krafðist þess að krafa hennar næði fram að ganga og henni yrði dæmd hæfileg þóknun samkvæmt framlögðum reikningi.

Málavextir.

Laugardaginn 27. maí 2006 kl. 13:45 tilkynnti B lögreglunni í [...] að kæranda hefði verði nauðgað þar sem hún var stödd þar í bæ. Kom fram hjá B að hann hefði þetta eftir dóttur sinni, C, en kærandi hefði hringt í hana skömmu áður og skýrt henni frá þessu. Stuttu síðar hringdi móðir kæranda, D og sagði dóttur sína vera á heimili E að [...]. Lögreglumenn fóru þegar þangað og höfðu tal af kæranda og húsráðandanum E. Segir í lögregluskýrslu að kærandi hefði verið útgrátin og hefði hún sagt ákærða hafa nauðgað sér um nóttina þar sem hún hefði legið í sófa í stofunni. Kærandi var færð á lögreglustöðina til skýrslutöku og kom þar fram hjá henni að hún hefði verið að skemmta sér á veitingastaðnum F ásamt E. Hafi ákærði komið þangað og í framhaldi af því hafi þau farið á veitingastaðinn G. Hafi hún fljótlega orðið veik þar og farið að æla. Hafi ákærði þá farið með hana heim til E, klætt hana úr ytri fatnaði og síðan haft við hana samfarir. Hún hafi ekki getað veitt neina mótspyrnu þar sem hún hafi verið alveg máttlaus og ekki getað sagt neitt. Kærandi hafði enga skýringu á máttleysi sínu. Hún sagði ákærða ekki hafa náð að klára sig af þar sem dyrabjallan hafi hringt og hefði ákærði þá hætt. Sagðist kærandi hafa heyrt að E væri komin heim en hún hafi ekkert getað sagt sökum máttleysis og hafi hún fljótlega sofnað. Hún kvaðst hafa vaknað skömmu eftir hádegi og þá hringt í vinkonu sína og skýrt henni frá atvikum.

          Lögregla ljósmyndaði vettvang og tók í vörslur sínar fatnað kæranda, bláar gallabuxur og rauða og svarta hettupeysu. Ákærði var handtekinn kl. 16:13 sama dag og kannaðist hann ekki við að hafa haft samfarir við kæranda. Hann kannaðist við að hafa hitt hana á veitingastaðnum F ásamt E um nóttina eftir að E hafi ítrekað sent honum SMS skilaboð með beiðni um að hitta þær þar. Þau hafi síðan farið á G og fljótlega hafi hann orðið var við að kærandi lá inni á kvennasalerni og var búin að æla á gólfið. Hafi hann talað við E, sem hann sagði vera fyrrverandi tengdamóður sína, og sagt henni frá ástandi kæranda. Hafi E ekkert viljað með hana hafa og hafi það endað með því að hann hafi fylgt kæranda heim. Hafi hún haldið áfram að æla þar og hafi hann aðstoðað hana úr buxum og peysu og hún lagst upp í sófa og sofnað. Hafi hann reynt að ná símasambandi við E en það ekki tekist. Hafi E skömmu síðar komið heim. Ákærði var færður á Heilbrigðisstofnun [...] til læknisrannsóknar og að því loknu afhenti hann lögreglu fatnað þann sem hann sagðist hafa verið í um nóttina, en um var að ræða svartar nærbuxur, bláar gallabuxur og ljósbleika skyrtu. Samkvæmt matsgerð Jakobs Kristinssonar, dósents hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, fannst ekki alkóhól í mælanlegu magni í blóð- og þvagsýni, sem tekin voru úr ákærða.

          Kærandi var samdægurs flutt á neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi í Reykjavík. Samkvæmt skýrslu Rannveigar Pálsdóttur, læknis, kom hún þangað kl. 19:10 og kl. 19:45 voru tekin úr henni blóð- og þvagsýni til eiturefna- og alkóhólrannsóknar. Samkvæmt niðurstöðu Jakobs Kristinssonar, dósents hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndist alkóhól ekki í mælanlegu magni í blóðinu, en í þvagi hafi mælst 0,24 ‰. Við lyfjaleit í þvagi hafi hvorki fundist slævandi lyf né ávana- eða fíkniefni eða gamma-hýdroxýsmjörsýra. Segir í vottorðinu að niðurstöður rannsóknanna gætu bent til þess að hlutaðeigandi hafi neytt áfengis alllöngu áður en blóð- og þvagsýnin voru tekin. Á neyðarmóttökunni er haft eftir kæranda að ákærði hafi hjálpað henni úr peysunni, sem hafi verið með ælu á ermunum og þá hafi hann viljað að hún færi einnig úr gallabuxunum, þar sem æla væri á skálmunum. Hafi hann hjálpað henni í sófa í stofu og sótt fötu ef hún myndi kasta meira upp. Hann hafi verið að hjálpa henni að æla þegar hún hafi fundið beran lim hans strjúkast við andlitið. Hún hafi stirðnað upp og streist á móti. Hafi hún lagst á grúfu og sagst ekki vilja þetta. Síðan hafi hún gefist upp. Ákærði hafi snúið henni við, reynt samfarir um leggöng en ekki haft sáðlát því dyrabjallan hafi hringt. Ákærði hafi kastað sæng yfir hana og móðursystir hennar hafi komið inn. Hún hafi sofnað í stofusófanum og vaknað af og til en farið á fætur um kl. 13. Í niðurstöðum læknisins kemur fram að kærandi hafi verið þreytt og fjarræn, oft eins og hún væri langt í burtu. Hún sýni lítil tilfinningaleg viðbrögð en gefi söguna vélrænt, hún sé búin að tala við lögregluna í [...]. Á líkama séu nýir áverkar í andliti, á baki, upphandleggjum aftanverðum og á vinstri fótlegg, eftir fingur og einnig legu á hörðu undirlagi. Á ytri kynfærum, spöng, sé roði og þroti eins og eftir þurran núning. Læknirinn taldi skoðun og sögu kæranda koma vel heim og saman og passi áverkar á líkama við sögu um að henni hafi verið snúið frá legu á maga yfir í legu á baki.

          Við rannsókn á fatnaði ákærða sáust blettir á skyrtu hans sem gáfu jákvæða svörun við AP sæðisprófi. Þrír blettir voru prófaðir áfram með ABA p30 staðfestingarprófi og gáfu þeir jákvæða svörun. Þann 29. júní 2006 voru send til DNA-greiningar hjá Rettsmedisinsk Institutt við háskólann í Osló sýni sem safnað var í þágu rannsóknar málsins. Í niðurstöðu rannsóknarstofunnar dagsettri 29. nóvember sama ár kemur fram að í nærbuxum kæranda og í sýnum sem tekin voru af kynfærum kæranda hafi fundist mikið af sáðfrumum og við greiningu á sáðfrumuhluta sýnanna hafi komið fram DNA-snið sem hafi samsvarað DNA-sniði ákærða. Við rannsókn á stroki sem tekið var frá lim ákærða kom í ljós blanda DNA-sniða frá a.m.k. tveimur aðilum. Hafi eitt DNA-snið verið í miklum meirihluta og hafi það verið sams konar og DNA-snið ákærða. Þær aukasamsætur sem komið hafi fram hafi allar verið til staðar í DNA-sniði kæranda. Hafi kyngreinir gefið til kynna að um væri að ræða sýni frá karlmanni, (X-Y) en það útilokaði ekki að í sýninu væri lítilræði af DNA frá kvenmanni (X-X).

          Við rannsókn á SMS skilaboðum í síma ákærða kom fram að kl. 02:38 þann 27. maí 2006 hafi hann fengið skilaboð úr síma E um að koma á H og nokkrum mínútum síðar eru honum send skilaboð þess efnis að kærandi vilji hitta hann. Þá kemur fram að kl. 03:43 sendir ákærði skilaboð í síma E þar sem hann lofar að koma. Við rannsókn á notkun á síma kæranda sömu nótt kemur ljós að send eru SMS-skilaboð úr síma hennar í síma C kl. 01:51 og kl. 04:30 er hringt úr síma hennar í síma C og stendur það samtal í 208 sekúndur og nítján mínútum síðar er hringt úr síma kæranda í síma C og stendur það samtal í 632 sekúndur. Næsta símtal úr síma kæranda er ekki skráð fyrr en kl. 12:44. Við rannsókn á notkun síma ákærða kemur fram að kl. 04:39 er hringt í síma hans í leigubifreiðarstöð og kl. 05:20 er hringt úr síma E í síma ákærða og stendur það samtal í 218 sekúndur. Kl. 05:51 er hringt úr síma ákærða í síma E og stendur það samtal í 16 sekúndur og kl. 06:04 er hringt úr síma ákærða í leigubifreiðarstöð. Kl. 06:09 er hringt úr síma ákærða í E og stendur það samtal í 1605 sekúndur.

          Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu 27. maí 2006 kannaðist ákærði ekki við að hafa haft samfarir við kæranda. Hann kvaðst hafa fengið lykla að íbúð E að [...] og farið með kæranda þangað í leigubifreið vegna ölvunarástands hennar. Hann kvað kæranda hafa farið inn á salernið og ælt þar. Hún hafi beðið hann um að hringja í vinkonu sína og kvaðst hann hafa gert það og látið kæranda fá símann. Kvaðst ákærði hafa tjáð vinkonunni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af kæranda. Hann kvaðst hafa klætt kæranda úr buxum og peysu sem hún hafi verið búin að æla á. Kærandi hafi sjálf gengið inn í stofu og lagt sig á sófa þar. Hann hafi fært henni vatnsglas og dall sem hún gæti ælt í. Hann hafi hringt í E sem hafi ekki svarað en stuttu síðar hafi hún hringt og sagst vera á leiðinni. Hún hafi komið heim stuttu síðar og hafi þau spjallað saman inni í stofu. Hann hafi síðan hringt á leigubifreið og farið. Eftir að hann hafi verið kominn heim hafi E hringt í hann og hafi þau spjallað um son sinn, þ.e. barnabarn E.

Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 18. júlí 2006 og óskaði eftir að breyta framburði sínum að því er varðaði samskipti hans við kæranda umrædda nótt. Kvaðst hann kannast við að hafa haft samfarir við hana og lýsti atvikum þannig að hún hafi byrjað að káfa á klofinu á honum þar sem hún lá í sófanum inni í stofu. Hann hafi þá lagst hjá henni og þau byrjað að hafa samfarir sem ekki hafi staðið meira en í 2 mínútur. Kvaðst hann þá hafa tjáð henni að hann gæti þetta ekki þar sem hún væri frænka barnsmóður hans og fyndist honum þetta ekki vera rétt. Aðspurður hvers vegna hann hefði breytt framburði sínum kvað hann sér hafa brugðið þegar lögreglan kom og tilkynnti honum að hann væri handtekinn. Þá hafi honum brugðið enn þá meira þegar lögreglumaður hafi tjáð honum að hann væri í djúpum skít. Hann kvaðst hafa skýrt þáverandi verjanda sínum frá þessu og kvaðst ákærði ekki hafa haft hugmynd um að hann mætti bara hringja og breyta skýrslu sem hann hefði gefið. Ákærði taldi að hann hefði ekki fengið sáðlát við samfarirnar og þá gat hann ekki gefið skýringar á sæðisblettum á skyrtu sinni. Ákærði mætti til skýrslutöku hjá lögreglu 7. mars s.l. og voru honum þá kynntar framangreindar rannsóknar- niðurstöður. Hann gerði ekki athugasemdir við rannsóknina en hélt því enn fram að hann hefði ekki fengið sáðlát.

Ákærða var birt skaðabótakrafa kæranda 12. apríl s.l. en hann vildi ekki tjá sig um hana.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að kærandi hafi viljað hitta sig á veitingastaðnum F, en hún væri frænka E sem væri móðir barnsmóður ákærða. Hann kvað kæranda hafa heilsað sér þegar hann kom á staðinn og fljótlega hafi þau ásamt E ákveðið að fara á veitingastaðinn G. Þar kvaðst hann hafa hitt kunningja sinn og boðið honum og kæranda upp á staup af sterku áfengi. Hann kvaðst ekki hafa fylgst að öðru leyti með áfengisdrykkju kæranda. Hann kvaðst hafa dansað lítillega við hana en eftir það hafi hann farið að tala við vini sína. Hann kvað dyravörð hafa komið að máli við sig og tjáð sér að kærandi væri að æla uppi á klósetti. Ákærði kvaðst hafa haft tal af E og spurt hana hvort hún ætti ekki að fara með kæranda heim. Hún hafi ekki nennt því eða ekki viljað það og hafi þá verið ákveðið að ákærði færi heim til E með kæranda. Hann kvaðst hafa fengið lykla að íbúð E og farið þangað með kæranda í leigubifreið. Hann kvaðst hafa aðstoðað hana upp tröppurnar og inn í íbúðina. Hann kvaðst hafa sagt henni að fara að sofa því hann hafi ætlað að láta E fá húslyklana. Hann kvað kæranda hafa játað því og lyft upp höndunum. Hann kvaðst þá hafa klætt hana úr peysu og buxum og sagt henni að fara að sofa. Hann kvaðst hafa náð í vatnsglas handa henni og eitthvað til þess að æla í. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við að ákærða ældi inni í íbúðinni. Hann kvað hana farið inn á klósett en hann vissi ekki hvort hún hefði verið að reyna að æla þar. Hann kvaðst hafa hringt í vinkonu kæranda að beiðni hennar og hafi þær rætt eitthvað saman. Hann kvaðst einnig hafa rætt við vinkonuna og sagt á sér deili. Annað hafi þeim ekki farið á milli. Hann kvað kæranda hafa lagst upp í sófa inni í stofu og hafi hann þá sagt henni að hann ætlaði að fara. Hún hafi þá beðið hann um að fara ekki og hafi hún þá byrjað að leita á hann þar sem hann stóð hjá henni. Hafi hún byrjað að káfa á læri hans og klofi og reynt að losa um belti hans. Hann hafi þá komið við brjóstin á henni og hafi hún haldið áfram að strjúka honum um klofið. Hann kvaðst þá hafa lagst hjá henni og klárað að losa buxurnar sjálfur. Kærandi hafi þá verið í nærbuxum og bol, hún hafi tekið nærbuxurnar til hliðar og þau byrjað samfarir. Hann kvað kæranda hafa tekið utan um sig og tekið eðlilegan þátt í samförunum. Hann kvað hana hafa verið vel vakandi og ekkert sem benti til þess að hún vildi þetta ekki. Ákærði kvaðst hafa hætt mjög fljótlega þar sem honum fannst þetta ekki vera rétt þar sem kærandi væri skyld barninu hans. Hann kvaðst hafa tjáð henni það og hafi hún jánkað því. Hann hafi þá staðið upp, sest í sófann og hringt í E. Hann minnti að hún hafi ekki svarað en er hann hafi hringt aftur hafi hún verið á leiðinni. E hafi síðan komið og hann hleypt henni inn. Ákærði kvað sér hafa brugðið þegar hann var handtekinn og taldi í fyrstu að um væri að ræða eitthvert kosningagrín, en kosningar hafi verið þennan dag. Hann kvað lögreglumann hafa tjáð sér að hann væri í slæmum málum. Hann kvað sér hafa brugðið við þetta og því hafa neitað sakargiftum. Hann kvaðst hafa rætt við lögfræðing sinn nokkrum dögum seinna og tjáð honum að hann hefði haft samfarir við kæranda. Kvaðst hann hafa spurt lögfræðinginn hvort ekki væri réttast að láta vita að hann hefði sagt ósatt að þessu leyti. Lögfræðingurinn hafi hins vegar sagt honum að ekkert lægi á, rétt væri að bíða fram að næstu skýrslutöku. Ákærði hafði ekki skýringar á því af hverju kærandi segði samfarirnar hafa verið að óvilja hennar. Þá gat ákærði ekki skýrt áverka sem voru á kæranda og hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því að hún væri með áverka. Ákærði varð ekki var við að kærandi væri máttlaus eða máttfarin. Hún hafi getað gengið og talað allan tímann. Hún hafi beðið hann um að hringja úr símanum sínum og þá hafi hún beðið hann um að fara ekki. Hann taldi kæranda hafa verið ölvaða en ekki ofurölvi. Hún hafi aldrei gefið í skyn að samfarirnar væru henni mótfallnar. Hann taldi sig ekki hafa haft sáðlát og hafði ekki skýringar á niðurstöðum rannsókna þar að lútandi. Hann kannaðist ekki við að hafa velt kæranda á magann og reynt að hafa við hana endaþarmsmök.

Kærandi skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi farið til [...] seint á föstudagskvöldinu í heimsókn til móðursystur sinnar. Þær hafi fengið sér bjór og ákveðið að fara á F. Þar hafi þær setið og spjallað og drukkið bjór. Hún kvað E hafa beðið ákærða um að koma, hann hafi komið og stuttu síðar hafi þau farið á G. Þar hafi hann boðið henni í glas en hún mundi ekki hvað það var, en hana minnti að þetta hefði verið eitt „skot.“ Hún kvaðst síðan muna eftir sér ælandi uppi á klósetti. Hún kvaðst áður hafa drukkið svona og aldrei orðið svona veik eins og þarna. Hún kvaðst hafa verið í símasambandi við vinkonu sína allt kvöldið og skyndilega orðið veik. Hún kvaðst hafa farið heim til E í leigubíl með ákærða og hafi hann stutt hana inn í íbúðina. Hún kvaðst hafa haldið áfram að æla í íbúðinni og hafi hún verið öll útæld. Kærandi kvað ákærða strax hafa orðið skrýtinn þegar þau komu í íbúðina, hann hafi ekki verið hann sjálfur eins og hún þekkti hann. Hún kvaðst hafa beðið ákærða um að hringja í C vinkonu sína vegna þess að hún hafi ekki treyst ákærða og kvaðst hún hafa heyrt þau spjalla saman. Hún kvaðst vita til þess að C hafi sagt honum að fara. Þá kvaðst hún hafa heyrt ákærða segja við hana, „láttu ekki svona, ég er ekki þannig maður“. Ákærði hafi komið til hennar inn á klósett og sagt henni að leggjast inni í stofu. Hún kvaðst varla hafa haft mátt til þess að ganga og hefði ákærði hjálpað henni að standa á fætur og sagt henni að hún þyrfti að fara úr fötunum. Hún kvaðst hafa neitað því en hann hafi ítrekað það og hafi hún þá farið úr peysu og buxum. Hafi ákærði hjálpað henni að leggjast í sófann og náð í vatnsglas og dall sem hann setti við sófann svo hún gæti ælt í hann. Kærandi kvaðst hafa legið hálf meðvitundarlaus í sófanum og verið að kasta upp er ákærði hafi dregið hana upp í sófann og byrjað að veifa tippi sínu framan í hana. Hún kvaðst hafa snúið sér við og fært sig og verið enn hálfælandi. Hafi ákærði þá byrjað að þröngva lim sínum inn í leggöng hennar. Hún kvaðst hafa verið í nærbuxum, brjóstahaldara og hlírabol. Stuttu seinna hafi hann snúið henni við og ætlað að byrja aftan frá þegar dyrabjallan hafi hringt. Ákærði hafi þá hætt og sett sæng yfir hana. Kærandi kvaðst þá hafa verið orðin alveg máttlaus og ekkert geta sagt og ekki hreyft sig. Hún kvaðst ekki hafa getað talað og ekki getað gert ákærða grein fyrir því að hún vildi ekki hafa samfarir við hann. Hún kvaðst hafa heyrt að E væri komin heim. Ákærði og E hafi spjallað saman inni í eldhúsi og kvaðst kærandi hafa verið alveg stjörf og ekki getið látið E vita hvað gerst hefði. Eftir þetta kvaðst kærandi hafa sofnað. Kærandi kvaðst ekki hafa getað veitt ákærða neitt viðnám, hún hafi verið alveg máttlaus. Hún kvaðst enga skýringu hafa á þessu ástandi sínu, hún hafi oft drukkið áður og ælt, en aldrei lent í því áður að geta ekki gengið af sjálfsdáðum. Hún kvað ákærða ekki hafa beitt sig ofbeldi, en þegar hún hafi verið að æla í sófanum hafi hann tekið um upphandleggi hennar. Kærandi neitaði því alfarið að hún hefði haft frumkvæði að samförum hennar og ákærða og hefði enginn samdráttur verið milli þeirra um kvöldið. Kærandi kvaðst hafa verið í miklu uppnámi þegar hún vaknaði um morguninn, hún kvaðst hafa grátið og hringt í C vinkonu sína og lýst atburðum fyrir henni. Hún kvaðst ekki hafa treyst sér til þess að vinna í hálft ár eftir þetta, hún hafi fengið sjálfsvígshugsanir og grátið sig í svefn lengi á eftir. Þá kvaðst hún hafa verið þunglynd og hafa leitað sér sálfræðiaðstoðar.

Vitnið E skýrði svo frá fyrir dómi að kærandi hefði komið í heimsókn til sín og hefðu þær ákveðið að fara á F. Hefði kærandi farið að senda ákærða SMS-skilaboð úr síma vitnisins í þeim tilgangi að fá hann til að hitta þær. Vitnið taldi að hún hefði ekki sent þessi skilaboð sjálf. Hann hefði komið og hefðu þau spjallað saman. Síðan hefðu þau farið á veitingastaðinn G og þar kvaðst vitnið hafa misst af kæranda. Hún kvaðst ekki hafa fylgst með drykkju kæranda á G en vissi að hún hefði drukkið bjór fyrr um kvöldið og eitt glas af sterku áfengi á F. Vitnið kvaðst hafa frétt af því frá ákærða og einhverjum öðrum að kærandi hefði verið farin að æla á G. Hana minnti að ákærði hefði boðist til að fylgja kæranda heim til vitnisins og hafi orðið úr að hann hefði gert það. Vitnið kvaðst síðan hafa komið heim til sín og hringt dyrabjöllunni. Hafi ákærði opnað en kærandi verið sofandi undir sæng í sófa inni í stofu. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við neitt óeðlilegt í fari ákærða, en þau hefði spjallað saman inni í eldhúsi. Vitnið kvaðst ekkert hafa hugað að kæranda og farið inn í herbergi sitt að sofa þegar ákærði var farinn.

Vitnið I, leigubifreiðarstjóri, skýrði svo frá fyrir dómi í símaskýrslu að hann hefði ekið ákærða og kæranda frá veitingastaðnum G að [...] umrædda nótt. Hann kvað ákærða hafa verið í þokkalegu ástandi en kærandi hafi verið svolítið ölvuð. Hann kvað kæranda hafi getað gengið óstudd og hafi hún ekki verið ofurölvi. Hann kvað hafa verið eitthvað þungt í henni og hafi hún talað um að hún hafi verið að slíta sambandi við einhvern strák. Hann tók ekki sérstaklega eftir því hvort ákærði studdi kæranda inn. Hann gat ekki séð að neinn samdráttur hefði verið milli þeirra og þá kvaðst hann ekki hafa tekið eftir því að kærandi hefði kastað upp.

Vitnið C skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði verið í símasambandi við kæranda umrætt kvöld. Hafi kærandi talað um að hún væri á skemmtistað og væri orðin dauðadrukkin og jafnframt að henni væri flökurt. Hún kvaðst hafa talað við kæranda í síma eftir að hún hafi verið komin heim til frænku sinnar með ákærða og hafi hún þá tjáð vitninu hágrátandi að hún vildi að ákærði færi. Vitnið kvaðst hafa talað við ákærða sem hafi sagt að hann væri ekki þannig maður og hafi hann eytt nokkrum tíma í það að útskýra að hann væri enginn nauðgari. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt aftur í kæranda fyrr en daginn eftir og hefði hún þá tjáð sér að henni hefði verið nauðgað og hefði ákærði verið þar að verki. Hefði kærandi talað um að hún hefði verið alveg lömuð, ekki getað talað og ekki hreyft sig. Vitnið kvaðst hafa sagt föður sínum frá þessu sem hefði látið lögreglu í [...] vita. Vitnið kvað kæranda hafa verið hágrátandi þegar hún talaði við hana um morguninn og hafi hún átt mjög erfitt með að skilja hana. Hafi verið greinilegt að henni hafi liðið mjög illa.

Vitnið J skýrði svo frá fyrir dómi að hann væri fyrrverandi kærasti kæranda. Hefðu þau rætt saman um hádegi umræddan dag og kærandi þá skýrt frá því að henni hefði verið nauðgað. Hann mundi ekki nánar hvernig hún lýsti því. Henni hafi liðið illa og verið grátandi.

Vitnið Rannveig Pálsdóttir, læknir, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði tekið við kæranda á neyðarmóttöku, annast læknisskoðun á henni og skráð eftir henni frásögn hennar af atburðum. Vitnið kvað núningsáverka á spöng kæranda staðfesta að hafðar hefðu verið við hana samfarir án þess að hún hefði verið líkamlega tilbúin til þeirra. Hins vegar væri ekki útilokað að áverkinn gæti stafað af öðrum orsökum, en reynsla hennar væri sú að slíkir áverkar sæjust nánast aldrei án þess að um ofbeldi hefði verið að ræða. Vitnið kvað kæranda hafa liðið mjög illa, hún hafi verið algjörlega frosin og þurft hafi að toga frásögn út úr henni. Hafi henni greinilega liðið mjög illa og ekki náðst tilfinningalegt samband við hana. Vitnið kvað kæranda ekki hafa haft orð á því að reyndar hefðu verið samfarir við hana um endaþarm. Þá kvað hún kæranda ekki hafa haft orð á því að hún hefði verið haldin magnleysi.

Vitnið Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur í tæknideild hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kom fyrir dóm, staðfesti sérfræðivinnu sína í máli þessu og gerði jafnframt grein fyrir niðurstöðum Rettsmedisinsk Institut í Osló.

Niðurstaða.

Eins og fyrr hefur verið rakið kemur fram í frumskýrslu lögreglu að er lögregla kom á staðinn fljótlega upp úr hádegi sama dag hafi kærandi verið útgrátin og hafi hún sagt ákærða hafa nauðgað sér um nóttina þar sem hún hafi legið í sófa í stofunni. Er skýrsla var tekin af henni stuttu síðar kvaðst hún hafa veikst fljótlega eftir að hún kom á G og farið að æla. Hafi ákærði þá farið með hana heim til E, klætt hana úr ytri fatnaði og síðan haft við hana samfarir. Hún hafi ekki getað veitt neina mótspyrnu þar sem hún hafi verið alveg máttlaus og ekki getað sagt neitt. Kærandi hafði enga skýringu á máttleysi sínu. Hún sagði ákærða ekki hafa náð að klára sig af þar sem dyrabjallan hefði hringt og hefði ákærði þá hætt. Sagðist kærandi hafa heyrt að E væri komin heim en hún hefði ekkert getað sagt sökum máttleysis og hefði hún fljótlega sofnað. Hún kvaðst hafa vaknað skömmu eftir hádegi og þá hringt í vinkonu sína og skýrt henni frá atvikum.

Kærandi var samdægurs flutt á neyðarmóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss í Reykjavík. Skýrði hún þar í megindráttum eins frá og hjá lögreglu. Þegar hún svo kom fyrir dóm tæpum 17 mánuðum síðar skýrði hún enn í öllum meginatriðum eins frá. Í niðurstöðum læknisins kemur fram að kærandi hafi verið þreytt og fjarræn, oft eins og hún væri langt í burtu. Hún sýndi lítil tilfinningaleg viðbrögð en gæfi söguna vélrænt. Læknirinn taldi læknisskoðun og sögu kæranda koma vel heim og saman og að áverkar á líkama pössuðu við lýsingu hennar um að henni hafi verið snúið frá legu á maga yfir í legu á baki.

Þegar vitnisburður kæranda er metinn heildstætt verður að telja hann staðfastan og trúverðugan um aðdraganda samfaranna. Fær framburður hennar nokkurn stuðning í vitnisburði C vinkonu hennar um lýsingu kæranda á ástandi hennar í fyrra símtalinu um nóttina og varðandi símtal hennar við ákærða síðar um nóttina. Þá bar vitnið og um grát kæranda þegar kærandi hringdi í vitnið um hádegi daginn eftir og skýrði henni frá hvað gerst hefði. Sama gerði fyrrverandi kærasti kæranda, J, varðandi símtal þeirra á svipuðum tíma. Þá fær frásögn kæranda nokkurn stuðning í vitnisburði Rannveigar Pálsdóttur læknis sem annaðist læknisskoðun á henni á neyðarmóttöku og skráði eftir henni frásögn hennar af atburðum. Sagði hún núningsáverka á spöng kæranda staðfesta að hafðar hefðu verið við hana samfarir án þess að hún hefði verið líkamlega tilbúin til þeirra. Hins vegar væri ekki útilokað að áverkinn gæti stafað af öðrum orsökum en reynsla hennar væri sú að slíkir áverkar sæjust nánast aldrei án þess að um ofbeldi hefði verið að ræða.

Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu 27. maí 2006 neitaði ákærði að hafa haft samfarir við kæranda. Með það að markmiði að fá úr þessu skorið voru sýni sem tekin voru úr kynfærum og nærbuxum kæranda send 29. júní 2006 til DNA-greiningar hjá Rettsmedisinsk Institutt við háskólann í Osló. Áður en niðurstöðurnar bárust, sem nánar er lýst fyrr í þessum dómi, óskaði ákærði við skýrslutöku hjá lögreglu 18. júlí 2006 eftir að breyta framburði sínum hvað þetta varðar og viðurkenndi þá að hafa haft samfarir við kæranda. Spurður um ástæður þess að hann hefði ekki fyrr greint frá þessu sagðist hann hafa skýrt þáverandi verjanda sínum frá samförunum og ekki hafa haft hugmynd um að hann mætti bara hringja og breyta skýrslu sem hann hefði gefið. Hefði verjandinn hins vegar sagt honum að ekkert lægi á, rétt væri að bíða fram að næstu skýrslutöku. Verður að telja skýringar ákærða á hinum ranga framburði í upphafi ekki haldbærar, annars vegar að honum hafi brugðið svo er hann var handtekinn og hins vegar að hann hafi talið að um einhvers konar kosningagrín væri að ræða. Þá hefur ákærði ekki sýnt fram á að ástæður fyrir framangreindum drætti á að leiðrétta framburð sinn eigi við rök að styðjast.

Óumdeilt er að kærandi kastaði upp á veitingastaðnum G og af ljósmyndum af vettvangi má ráða að hún hafi kastað upp í dall inni í stofu íbúðarinnar. Verður og af framburði kæranda ráðið, sem fær stoð í framburði vitna, að hún hefur verið illa haldin af þessum uppköstum, bæði stuttu áður og eftir að í íbúðina var komið. Hlýtur því ótrúlegt að teljast að hún hafi verið reiðubúin til samfara í því ástandi eins og ákærði hefur haldið fram. Að mati dómsins er sá framburður ákærða því fjarstæðukenndur að kærandi hafi við þessar aðstæður farið að leita á hann með því að káfa á lærum hans og klofi og losa belti hans.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og framburði ákærða að öðru leyti telur dómurinn að framburður hans sé ekki trúverðugur.

Kærandi hefur frá upphafi borið að hún hafi verið haldin slíku magnleysi að hún hafi ekki getað gert ákærða grein fyrir því að hún væri mótfallin samförum við hann. Við rannsókn á þvagi kæranda fundust hvorki slævandi lyf eða ávana- og fíkniefni né heldur gamma-hýdroxýsmjörsýra. Þá reyndist alkóhól ekki í mælanlegu magni í blóðinu en í þvagi mældist 0,24‰. Samkvæmt vottorði Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði gátu niðurstöður rannsóknanna bent til þess að hlutaðeigandi hefði neytt áfengis alllöngu áður en blóð- og þvagsýnin voru tekin, sem fyrir liggur að hafi átt sér stað kl. 19:45 þann dag. Samkvæmt upplýsingum um símanotkun kæranda og frásögn hennar má ætla að samfarir þeirra ákærða hafi hafist fljótlega eftir að símtali úr síma kæranda í síma vinkonu hennar lauk upp úr kl. 05:00. Kærandi hefur borið að ákærði hafi hætt samförunum er dyrabjöllunni hafi verið hringt og hafi hún heyrt ákærða og E tala saman eftir það. Samkvæmt fyrirliggjandi símagögnum hringdi E í síma ákærða kl. 05:20 og stóð símtalið í rúmar þrjár mínútur. Einnig kemur þar fram að ákærði hringdi í E upp úr kl. 05:51 og virðist E hafa komið heim skömmu eftir það. Hafa því liðið um 15 klukkustundir þar til framangreind sýni voru tekin.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi var við áfengisdrykkju allt frá því hún kom í heimsókn til E upp úr kl. 22:30 kvöldið áður. Samkvæmt fyrrgreindri lögregluskýrslu skýrði hún lögreglu þannig frá því að hún hefði verið búin að drekka þrjá sterka bjóra og nokkur staup af „Corkis“. Þá er og haft eftir henni að hún hafi drukkið einn bjór inni á F og eitt eða tvö „skot“ sem ákærði hafi gefið henni inni að veitingastaðnum G. Fyrir dómi kvaðst hún hafa fyrst drukkið bjór heima hjá E og haldið þeirri drykkju áfram á F. Ákærði hafi svo því til viðbótar boðið henni upp á glas á G og minnti hana að það hafi verið eitt „skot“. Ákærði staðfesti í lögregluskýrslu sinni sama dag að hann hefði keypt handa henni eitt „skot“ á G og kvaðst jafnframt hafa keypt einhvern drykk sem eigi að vera góður í maga. Þá bætti hann við að fleiri sem þarna hafi verið staddir hafi keypt fyrir hana áfengi. Fyrir dómi kannaðist hann eingöngu við að hafa keypt handa henni eitt „skot“. E skýrði frá því fyrir dómi að hún vissi til þess að kærandi hefði drukkið bjór fyrr um kvöldið og síðan eitt glas af sterku áfengi á F. Þá er og haft eftir ákærða í fyrrgreindri lögregluskýrslu að hann hafi farið með kæranda að [...] vegna ölvunarástands hennar. Þá bar hann fyrir dómi að hann teldi kæranda hafa verið ölvaða þó hann teldi hana ekki hafa verið ofurölvi. Loks kom fram hjá vitninu C að í símtali hennar við kæranda um nóttina hefði kærandi talað um að hún væri dauðadrukkin á skemmtistað.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að telja nægilega sönnun fram komna um að kærandi hafi verið ölvuð umrædda nótt. Liggur ekkert annað fyrir en að ástand kæranda, eftir að hún kom með ákærða að [...], veikindi og magnleysi, megi rekja til áfengisdrykkju hennar fyrr um kvöldið og um nóttina.

Þegar allt framangreint er virt heildstætt, og sérstaklega litið til framburðar kæranda í því sambandi, verður að telja að ákærða hljóti að hafa verið ljóst, þegar hann hóf samfarir við kæranda, að ástand hennar væri slíkt að hún gæti ekki spornað við verknaðinum sökum framangreinds ölvunarástands. Að mati dómsins haggar það ekki þessari niðurstöðu að vissrar ónákvæmni gætir í lýsingu kæranda á því hvað orðið hafi til þess að ákærði lét af samförunum með hliðsjón af þeim skýrslum um símanotkun kæranda og ákærða sem liggja fyrir í málinu og nánar er lýst hér að framan. Hlýtur í því sambandi að verða að hafa í huga ástand hennar á þeim tíma þegar samfarirnar áttu sér stað og aðstæður allar að öðru leyti. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök og réttilega er færð til refsiákvæða í ákæruskjali.

Sakaferill, viðurlög.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki sætt refsingu svo kunnugt sé.

Ákærði hefur með framangreindri háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Eftir að brot ákærða var framið hefur refsilöggjöf breyst og ber því í samræmi við ákvæði 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga að dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu.  Þó er ekki heimilt að dæma þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum sem í gildi voru þegar brot var framið. Brot gegn 196. gr. almennra hegningarlaga, sem í gildi var þegar brot ákærða var framið, varðaði fangelsi allt að 6 árum, en ekki var kveðið á um lágmarksrefsingu. Brot gegn 2. mgr., sbr. 1. mgr. 194 gr. almennra hegningarlaga, eins og henni hefur verið breytt, varðar nú fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Með hliðsjón af dómaframkvæmd að því er varðaði brot gegn 196. gr. laganna þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Bótakrafa.

Margrét Gunnlaugsdóttir, hdl., hefur fyrir hönd kæranda lagt fram kröfu um miskabætur úr hendi ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur auk dráttarvaxta frá 27. maí 2006 til greiðsludags. Er krafan rökstudd með því að verknaðurinn hafi haft alvarlegt tjón í för með sér fyrir kæranda. Hafi hún fundið til vanlíðunar eftir atburðinn, kvíða og öryggisleysis. Hún sofi illa og treysti sér ekki til að vera á ferðinni einsömul. Hafi hún ekki treyst sér til þess að stunda vinnu nema að litlu leyti eftir atburðinn þar sem þyrmi yfir hana af minnsta tilefni og hún finni fyrir hræðslu vegna þess sem fyrir hana hafi komið. Til stuðnings kröfunni er vísað til XX. kafla laga nr. 19/1991 og 26. gr. skaðabótalaga. Málskostnaðarkrafa er reist á 4. mgr. 172. gr., sbr. 129. og 130. gr. laga nr. 19/1991. Dráttarvaxtakrafa er reist á III. kafla laga nr. 38/2001. Ákærði er sannur að sök um meingerð gagnvart kæranda sem er til þess fallin að valda henni andlegum erfiðleikum. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan 12. apríl 2007. Verður ákærði dæmdur til að greiða kæranda skaðabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 800.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Sakarkostnaður.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 164. gr. sömu laga ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað, 236.586 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Lárussonar, hdl., 311.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 11.200 krónur vegna aksturs og þóknun skipaðs réttargæslumanns kæranda, Margrétar Gunnlaugsdóttur, hdl., 230.325 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvalds.

Hjörtur O Aðalsteinsson dómstjóri og héraðsdómararnir Ásgeir Magnússon og Ástríður Grímsdóttir kváðu upp dóminn

Dómsuppsaga hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna anna dómenda.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði greiði A 800.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. maí 2006 til 12. maí 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað, 236.586 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Lárussonar, hdl., 311.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 11.200 krónur vegna aksturs og þóknun skipaðs réttargæslumanns kæranda, Margrétar Gunnlaugsdóttur, hdl., 230.325 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.