Hæstiréttur íslands

Mál nr. 372/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður
  • Gjafsókn


                                                                                                                 

Mánudaginn 4. október 1999.

Nr. 372/1999.

X

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

Y

(Valborg Þ. Snævarr hdl.)

Kærumál. Málskostnaður. Gjafsókn.

Kærður var úrskurður héraðsdómara um málskostnað í máli sem X höfðaði gegn Y þar sem hann krafðist forsjár barns þeirra. Náðist sátt í málinu þess efnis að Y skyldi fara með forsjá barnsins, en X hefði rúman umgengnisrétt og var það að mestu í samræmi við óskir sem hann hafði sett fram áður en til málshöfðunar kom. Talið var að með hliðsjón af ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri rétt að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 1999, þar sem kveðið var á um málskostnað og gjafsóknarkostnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, sem var að öðru leyti lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt undir rekstri málsins í héraði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms höfðaði sóknaraðili málið í því skyni að fá forsjá barns hans og varnaraðila, en áður höfðu málsaðilar um nokkurra mánaða skeið árangurslaust reynt að ná samkomulagi um forsjána, svo og um umgengni við barnið. Eftir að dómkvaddur matsmaður hafði átt fundi með málsaðilum tókst sátt um að varnaraðili færi með forsjá barnsins, en sóknaraðili hefði rúman umgengnisrétt, sem var að mestu í samræmi við fyrri kröfur hans í þeim efnum.

Þótt niðurstaða málsins samkvæmt dómsátt aðilanna hafi orðið sú að krafa sóknaraðila um forsjá næði ekki fram að ganga, urðu lyktir þess um umgengni við barnið sem fyrr segir að mestu leyti í samræmi við óskir, sem hann hafði sett fram áður en til málshöfðunar kom. Í þessu ljósi og með hliðsjón af ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði, svo og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Samkvæmt gjafsóknarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 18. maí 1999 var gjafsókn sóknaraðila bundin við rekstur málsins í héraði. Kemur því ekki til þess að mæla fyrir um gjafsóknarkostnað í kærumáli þessu, sbr. 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Hvor aðili skal bera sinn kostnað af málinu fyrir héraðsdómi.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 1999.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, var höfðað með stefnu, birtri 10. febrúar 1999. Stefnandi er X, [...]. Stefnda er Y, [...].

Mál þetta höfðaði stefnandi til þess að krefjast forsjár dóttur málsaðila, Z, [...].

Í samráði við lögmenn aðila var Aðalsteinn Sigfússon sálfræðingur dómdvaddur sem hæfur og óvilhallur til þess að meta tengsl barnsins við foreldrana, almennt hæfi foreldranna og aðstæður þeirra. Eftir að sálfræðingurinn hafði átt fundi með aðilum og lögmönnum þeirra í nokkur skipti varð sátt með aðilum á þann veg að stefnda fer með forsjá dótturinnar.

Lögmaður stefnanda krafðist þess að stefnda verði dæmd til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn í málinu með leyfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 18. maí sl.

Lögmaður stefndu krafðist þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Ágreiningsatriði þetta er hér til úrlausnar.

Þegar litið er til atvika málsþessa og niðurstöðu þykir rétt að stefnandi greiði stefndu í málskostnað 300.000 krónur.

Málskostnaður stefnanda þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Daggar Pálsdóttur hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði

Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

Með vísan til 2.mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992 ákveðst að kostnaður af vinnu Aðalsteins Sigfússonar sálfræðings, 51.450 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Stefnandi, X, greiði stefndu, Y 300.000 krónur í málskostnað.

Málskostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Daggar Pálsdóttur hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Kostnaður vegna vinnu Aðalsteins Sigfússonar sálfræðings, 51.450 krónur, greiðist úr ríkissjóði.