Hæstiréttur íslands

Mál nr. 712/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 20. nóvember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta vægari úrræðum, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í málinu er komið fram að við komu varnaraðila til landsins 9. nóvember 2017 hafi hann borið á sér 339 g af kókaíni. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                              

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 10. nóvember 2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að kærða, X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 20. nóvember 2017, kl. 16:00, og að á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun

Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess aðallega að henni verði hafnað, til vara að vægara úrræði verði beitt, svo sem farbanni, og til þrautavara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.

I

Í kröfu lögreglustjóra er til þess vísað að tilkynning hafi borist frá tollgæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær, 9. nóvember 2017, þess efnis að kærði hefði verið stöðvaður á tollhliði í komusal við komu hingað til lands með flugi [...] frá [...] vegna gruns um að hann kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum. Í kjölfarið hafi kærði verið færður í leitaraðstöðu tollgæslu þar sem leitað hafi verið á honum. Við leitina hafi fundist ætlað kókaín, sem kærði hafi verið með innanklæða. Af þeim sökum hafi kærði verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Kærði hafi jafnframt verið færður til röntgenskoðunar en niðurstaða hennar hefði verið sú að kærði væri ekki með aðskotahluti innvortis.

Kærði hafi til þessa neitað að tjá sig. Hann hafi ekki gefið skýringar á því hvaða efni það hafi verið sem á honum hafi fundist. Kærði hafi jafnframt neitað að svara spurningum um ætluð tengsl hans við Y sem lögregla telji að verið hafi með honum í för.

II

Lögreglustjóri segir rannsókn málsins á algeru frumstigi. Lögregla hafi meðal annars til rannsóknar aðdragandann að ferð kærða og tengsl hans við mögulega vitorðsmenn, bæði hér á landi og erlendis. Lögregla telji að þau fíkniefni sem kærði hafi komið með til landsins hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi. Háttsemi hans ­kunni að varða við ákvæði 173. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Auk kröfu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi krefjist lögreglustjóri þess einnig að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu, sbr. ákvæði b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og að kærða verði í gæsluvarðhaldinu gert að sæta takmörkunum samkvæmt a-, c-, d-, e- og f-liðum 1. mgr. 99. gr.

Til stuðnings kröfum sínum vísar lögreglustjóri til alls framangreinds, rannsóknar­hagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

III

Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.

Rannsókn málsins er á frumstigi. Ætla verður lögreglu ráðrúm til þess að rannsaka aðdragandann að ferð kærða og eftir atvikum möguleg tengsl hans við vitorðsmenn, bæði hér á landi og erlendis. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en ekki verður talið að markmiðum gæsluvarðhaldsins verði náð með öðru og vægara úrræði.

Með vísan til framangreinds er jafnframt fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því og öðru framangreindu verður krafa lögreglustjóra tekin til greina með þeim hætti sem hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

 Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 20. nóvember 2017 kl. 16:00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.