Hæstiréttur íslands

Mál nr. 392/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Afhending gagna
  • Frestur


                                     

Föstudaginn 8. júní 2012.

Nr. 392/2012.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

X

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

Y

(Gestur Jónsson hrl.)

Z og

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Þ

(Karl Axelsson hrl.)

Kærumál. Afhending gagna. Frestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X, Y, Z og Þ um að þeim yrði afhent eintak svonefndrar atburðaskrár um tengingar milli símtala eða sambærileg gögn og afrit allra tölvubréfa sem fóru um netföng þeirra og hald var lagt á undir rannsókn málsins. Á hinn bóginn var fallist á kröfu þeirra um framlengingu frests til að skila greinargerð í málinu. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð meðal annars að virtri meginreglu sakamálaréttarfars um að hver sá sem sökum sé borinn um refsiverða háttsemi fái nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2012, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að þeim verði afhent eintak svonefndrar atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur sambærileg gögn sem hafa að geyma yfirlit símtala sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum og kröfu varnaraðila um að þeim verði afhent afrit allra tölvubréfa sem fóru um netföng þeirra og embætti sérstaks saksókna lagði hald á undir rannsókn málsins. Þá var frestur verjenda varnaraðila til að skila greinargerð í málinu framlengdur til mánudagsins 1. október 2012.  Kæruheimild í s. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar  áðurgreinda framlengingu á fresti, en til vara að frestinum verði markaður skemmri tími.

Varnaraðilar kærðu úrskurðinn fyrir sitt leyti 1. júní 2012. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðilar krefjast þess að kröfur þeirra um að sóknaraðila verði gert skylt að afhenda þeim eintak atburðaskrár eða önnur gögn, sem hafa að geyma yfirlit símtala sem hleruð voru og afrit allra tölvubréfa, sem sóknaraðili lagði hald á, verði teknar til greina.

Samkvæmt b. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, skal hver sá, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, fá nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína. Að virtri þeirri meginreglu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þó með þeirri athugasemd að rétt hefði verið að vísa til 110. gr. laga nr. 88/2008 í heild sinni í stað 2. mgr. hennar við úrlausn á kröfum varnaraðila um afhendingu þeirra gagna sem að framan greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2012.

Með ákæru, dagsettri 16. febrúar sl., höfðaði sérstakur saksóknari, samkvæmt lögum nr. 135, 2008, sakamál á hendur ákærðu fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og fyrir brot gegn 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108, 2007.  Gögn málsins eru mikil að vöxtum, rúmar 6000 blaðsíður af margvíslegum skjölum, þ. á m. skýrslum um yfirheyrslur sakborninga og vitna, afriti tölvuskeyta og m. fl.  Komið er fram í málinu að saksóknaraembættið hefur í vörslum sínum rafræn gögn af ýmsu tagi, sem hald var lagt á í þágu lögreglurannsóknarinnar en ekki voru lögð fram með ákærunni, svo sem atburðaskrár (log-skrár) um símtöl sem hleruð hafa verið, upptökur af þeim, svo og mikið magn tölvuskeyta.  Hinn 4 maí sl. var kveðinn upp úrskurður í málinu þar sem kröfum ákærðu var vísað frá dómi.  Úrskurðurinn var kærður til hæstaréttar Íslands, sem með dómi hinn 16. þ.m. felldi úr gildi hinn kærða úrskurð og lagði fyrir héraðsdóm að taka til efnisúrlausnar kröfu ákærðu um að þeim verði afhent tiltekin gögn sem embætti sérstaks saksóknara lagði hald á undir rannsókn málsins. 

Kröfur ákærðu í málinu eru þessar:

1.  Að úrskurðað verði að þeim skuli afhent eintak atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur þau gögn, sem kunna að hafa orðið til við rannsókn málsins hjá embætti sérstaks saksóknara og hafa að geyma yfirlit yfir símtöl, sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum í málinu.

2.  Að ákærðu verði afhent afrit allra tölvupósta, sem fóru um netföng þeirra og saksóknaraembættið lagði hald á við rannsókn málsins.

3.   Að frestur til þess að skila greinargerð, sem ákveðinn hafði verið til 12. júní nk., verði framlengdur að minnsta kosti til 1. október nk.  Krafa þessi kom fram í málinu 24. maí sl.

Krafa ákæruvaldsins er sú að kröfum ákærðu verði synjað, en þær voru teknar til úrskurðar hinn 24. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi.

Um 1:

Í bókun ákærðu segir að af hálfu ákæruvaldsins hafi verið upplýst að símahlustun hafi verið beitt gagnvart ákærðu öllum við rannsókn málsins.  Hafi endurrit símtala sem ákæruvaldið telji hafa sönnunargildi í málinu verið lögð fram í því.  Ákæruvaldið hafi hins vegar neitað að afhenda yfirlit yfir þau símtöl sem hleruð voru og jafnframt synjað beiðni ákærðu um að þeir fái afhent öll þau gögn sem aflað var á grundvelli úrskurða um hlustanir.  Með þessari synjun sé jafnræði aðila við meðferð málsins raskað, enda séu takmarkanir á aðgangi ákærðu að gögnum máls bundnar að lögum við meðferð málsins á rannsóknarstigi.

Ákæruvaldið bendir á það að rannsókn málsins sé lokið, ákæra hafi verið gefin út og dómsmeðferð hafin.  Á þessu stigi máls verði þess ekki krafist að ákæruvaldið afhendi ákærðu gögn úr rannsókn þess hjá lögreglu.  Hins vegar geti ákærðu krafist þess að tiltekin gögn verði lögð fram í málinu og meti dómari þá hvort umrædd gögn geti haft sönnunargildi í málinu, sbr. 3. mgr. 110 gr. skml., og beini hann því til ákæruvalds að afla þeirra og leggja fram telji hann ástæðu til, sbr. 2. mgr. 110. gr. skml.  Við rannsókn málsins hjá lögreglu hafi verið aflað svokallaðra „símagagna“, sbr. 80. og 81. gr. skml., í krafti úrskurða héraðsdóms þar að lútandi.  Hafi í þeim verið markaðar heimildir lögreglu til símhlustana í hverju tilviki.  Sá hluti þeirra símagagna, sem aflað var á grundvelli fyrrgreindra úrskurða og talinn var hafa sönnunargildi, hafi verið gerður að rannsóknargögnum í málinu og þau lögð fram í málinu, sbr. 134. gr. skml.  Þ. á m. séu rafrænar „atburðaskrár“ (log-skrár) um tengingu milli símtala. Ákærðu eigi ekki rétt á að fá slík gögn afhent, sbr. t.d. Hrd. nr. 205/2012 og 497/2009.  Hins vegar geti þeir fengið aðstöðu hjá saksóknaraembættinu til þess að kynna sér skrár þessar í húsakynnum embættis sérstaks saksóknara.  Umrædd gögn séu ekki skjöl í skilningi 37. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Sé með þessari framkvæmd í raun gengið lengra en gert er ráð fyrir í lögum en jafnframt sé hér um að ræða bestu lausnina til að bregðast við kröfum ákærðu.  Þá verði að hafa í huga að þau gögn sem lögregla leggur hald á verði ekki sjálfkrafa rannsóknargögn sakamáls í skilningi 57. gr. laga um meðferða sakamála.  Þau gögn sem lögreglu þykja hafa sönnunargildi verði síðan að rannsóknargögnum í málinu.  Beri því að synja kröfu ákærðu um „rétt til afrita af öllum gögnum sem aflað var á grundvelli úrskurða um hlustanir“. 

Niðurstaða

Gögn þau, sem ákærðu krefjast að fá afhent, hafa ekki verið lögð fram í málinu.  Þeirra mun aftur á móti hafa verið aflað í þágu lögreglurannsóknarinnar í því.  Ákæruvaldið hefur lýst því yfir að gögnin séu aðgengileg fyrir ákærðu hjá lögreglu og þeir geti þar kynnt sér hvort þau hafi, að þeirra mati, þýðingu fyrir málið og hvort rétt sé að þau verði lögð fram, svo og endurrit símtalanna sem um ræðir.  Kemur þá fyrst til álita hvort gögn þessi, öll eða einhver hluti þeirra, verði lögð fram í dómsmálinu, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga um meðferð sakamála.  Verður að telja að ákæruvaldinu sé almennt skylt, vegna meginreglunnar um jafnræði aðila, að veita ákærðu eða verjendum þeirra aðgang að þeim gögnum sem lögregla hefur aflað vegna rannsóknar sakamáls en ekki hafa verið lögð fram í því við málshöfðun.  Aftur á móti er ekki unnt að líta svo á að lögreglu eða ákæruvaldi sé skylt að afhenda þeim slík gögn.  Ber samkvæmt þessu að synja kröfu ákærðu um það að úrskurðað verði að þeim skuli afhent eintak atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur sambærileg gögn, sem hafa að geyma yfirlit yfir símtöl, sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum í málinu. 

Um 2:

Í öðru lagi krefjast ákærðu þess að fá afhent afrit af tölvuskeytum sem ekki hafa verið lögð fram í málinu en fóru um þeirra eigið netfang og voru meðal rannsóknargagna.  Þeim hafi verið synjað um að fá afrit þessara gagna.  Telja ákærðu að þessi afstaða ákæruvaldsins raski jafnræði aðila við meðferð málsins, enda séu takmarkanir á aðgangi ákærðu að gögnum máls bundnar að lögum við meðferð þess á rannsóknarstigi.

Ákæruvaldið ítrekar það sem haldið var fram um lið 1, að ákærðu geti ekki á þessu stigi máls krafist þess að umrædd gögn verði afhent þeim, heldur geti krafa þeirra einungis snúið að því að gögnin verði lögð fram.  Þá sé þeim skilningi ákærðu mótmælt að öll haldlögð gögn verði sjálfkrafa rannsóknargögn í máli.  Hið rétta sé að rannsakendur fari yfir haldlögð gögn og í framhaldi af því séu gögn gerð að rannsóknargögnum sem þyki hafa sönnunargildi í máli.  Í þessu máli hafi verið lagt hald á gífurlegt magn tölvuskeyta.  Leitað hafi var í þeim með þar til gerðu leitarforriti og eingöngu prentað út það sem talið var hafa sönnunargildi og það svo orðið að rannsóknargögnum í málinu.  Tölvuskeytin sem ákærðu vilji fá afhent séu rafræn gögn og gildir því það sama um þau og rafræn símagögn sem krafist er í þessu máli, að ákærðu eiga ekki rétt á að fá þau afhent frekar en símagögnin, sbr. t.d. Hrd. nr. 205/2012 og Hrd. 497/2009.  Hafi hverjum ákærðu verið boðið að fá að skoða eigið pósthólf og skeytin í því hjá embætti sérstaks saksóknara en þeim hafi hins vegar verið neitað um að fá þessi gögn afhent, enda sé um að ræða rafræn gögn og einnig vegna þess að bankaleynd kunni að taka til þeirra upplýsinga sem þar komi fram.  Þá séu umrædd gögn í eigu bankans en ekki ákærðu.  Þá séu umrædd gögn ekki skjöl í skilningi 37. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Ákæruvaldið gangi eins langt og unnt sé til þess að koma til móts við kröfur ákærðu.  Þannig fái þeir aðstöðu til að kynna sér efni tölvuskeytanna og geti í framhaldinu farið fram á það að tiltekin skeyti verði prentuð út og lögð fram í málinu.  Þá verði að hafa í huga að þau gögn sem lögregla leggur hald á verði ekki sjálfkrafa rannsóknargögn sakamáls í skilningi 57. gr. laga um meðferða sakamála.  Þau gögn sem lögreglu þykja hafa sönnunargildi verði síðan að rannsóknargögnum í málinu. 

Niðurstaða

Þau rafrænu gögn þau, sem ákærðu krefjast að fá afhent, tölvupósthólf og innihald þeirra, hafa ekki verið lögð fram í málinu en þeirra mun aftur á móti hafa verið aflað í þágu lögreglurannsóknarinnar í því.  Ákæruvaldið hefur lýst því yfir að gögnin séu aðgengileg fyrir ákærðu hjá lögreglu og að þeir geti þar kynnt sér hvort þau hafi, að þeirra mati, þýðingu fyrir málið og hvort rétt sé að þau verði lögð fram.  Kemur þá fyrst til álita hvort gögn þessi, öll eða einhver hluti þeirra, verði lögð fram í dómsmálinu, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga um meðferð sakamála.  Verður að telja að ákæruvaldinu sé almennt skylt, vegna meginreglunnar um jafnræði aðila, að veita ákærðu eða verjendum þeirra aðgang að þeim gögnum sem lögregla hefur aflað vegna rannsóknar sakamáls en ekki hafa verið lögð fram í því við málshöfðun.  Aftur á móti er ekki unnt að líta svo á að lögreglu eða ákæruvaldi sé skylt að afhenda þeim slík gögn.  Ber samkvæmt þessu að synja kröfu ákærðu um það að úrskurðað verði að þeir fái afhent afrit allra tölvupósta, sem fóru um netföng þeirra og saksóknaraembættið lagði hald á við rannsókn málsins.

Um 3:

Loks krefjast ákærðu þess að frestur til þess að skila greinargerð í málinu sem ákveðinn hefur verið til 12. júní nk. verði framlengdur til 1. október nk. hið minnsta.  Frestur til þess að skila greinargerð eigi ekki að byrja að líða fyrr en endanleg niðurstaða liggi fyrir um aðgang ákærðu og verjenda  að gögnum málsins.  Fyrr geti verjendur ekki með góðu móti skipulagt vinnu sína.  Ákæruvaldinu hafi verið heimilað að leggja fram 127 síðna skriflegur málflutning í málinu og verði ákærðu að fá svigrúm til þess að bregðast við honum.  Verði vinna verjenda þeim mun umfangsmeiri af þessum sökum.  Þá hafi því verið hafnað nýverið að veita vörninni aðgangi að mynddiskum sem hafi í för með sér að verjendur verði að vinna úr skriflegum gögnum málsins, enda sé ófært að verjendur allir hafi vinnuaðstöðu hjá sérstökum saksóknara.  Þá sé á það að líta að málsgögnin séu um 7000 blaðsíður og sé miðað er við það að hægt sé að fara yfir 30-40 síður á klukkustund með þokkalegri athygli taki það á þriðja hundrað tíma að fara í gegnum málsgögnin.  Sé þá eftir að vinna úr gögnunum og takast á við skriflega greinargerð ákæruvaldsins.  Sé ekki raunhæft að ætla að vinna við þetta verk sé undir 500 klukkustundum, eða 2-3 mánuðir í vinnu.  Þá hafi ekki verið tekið tillit til þess að verjendur eru bundnir af fleiri verkum en þessu á sama tíma.  Tveir verjenda hafi haft lögmæt forföll frá síðari hluta marsmánaðar til 22. apríl sl.  Frá þeim tíma hafi verið tekist á um gögn málsins og aðgang að gögnum hjá ákæruvaldinu og þeim þætti málsins sé ekki lokið.  Þá liggi fyrir að einn verjandi verði fjarverandi frá 15. júní fram til 15. september, eins og löngu sé búið að tilkynna dómstólunum um.  Einn verjandi til sé upptekinn næstu vikur við meðferð mála bæði í héraði og fyrir hæstarétti.  Loks sé þess að gæta að mál þetta hafi verið eitt af þeim fyrstu sem tekið var til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara og fjöldi starfsmanna komið að rannsókn þess í þrjú ár.  Á þeim tíma hafi aðgangur verjenda að gögnum málsins verið verulega takmarkaður.  Sé enn tekist á um aðgang ákærðu að afmörkuðum hluta rannsóknargagna og geti ekki nema örfáir daga liðið frá niðurstöðu Hæstaréttar um þann þátt málsins þar til ákærðu er ætlað að skila greinargerð.

Ákærðu hafi ekki áhuga á því að tefja meðferð málsins en þeir krefjist þess að fá eðlilegan aðgang að málsgögnunum, hæfilegt ráðrúm til að vinna úr þeim og til þess að takast á við málatilbúnað ákæruvaldsins.  Ákærðu fái ekki þrjú ár til þess en í ljósi umfangs málsins hljóti krafan um það að fá frest til þess fram á haustið að teljast eðlileg.   

Af hálfu ákæruvaldsins er skírskotað til 1. mgr. 171. gr. laga um meðferð sakamála þar sem mælt sé fyrir um það að hraða beri meðferð máls eftir föngum. 

Niðurstaða

Mál þetta er mikið umfangs og hafa verjendur fært gild rök fyrir því sjónarmiði að frestur til 12. júní nk. sé alls ónógur til þess að skila viðunandi greinargerð af þeirra hálfu og að nauðsynlegt sé að lengja hann fram á haustið.  Þegar svo hafðar eru í huga fyrirsjáanlegar fjarvistir og annir verjanda og það jafnframt að tími sumarleyfa fer nú í hönd, ber að taka kröfu verjendanna til greina og ákveða að lengja frest til þess að skila greinargerð í málinu.  Þykir rétt að setja hann til mánudagsins 1. október nk., kl. 9:15. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Synjað er kröfu ákærðu um það að þeim verði afhent eintak atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur sambærileg gögn, sem hafa að geyma yfirlit yfir símtöl, sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum í málinu.

Synjað er kröfu ákærðu um það að þeir fái afhent afrit allra tölvupósta, sem fóru um netföng þeirra og saksóknaraembættið lagði hald á við rannsókn málsins.

Frestur verjenda til þess að skila greinargerð í máli þessu er framlengdur til mánudagsins 1. október nk., kl. 9:15.