Hæstiréttur íslands

Mál nr. 378/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Barnavernd
  • Dómstóll
  • Frávísun frá héraðsdómi


Mánudaginn 5

 

Mánudaginn 5. september 2005.

Nr. 378/2005.

Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

Y og

Z

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Barnavernd. Dómstólar. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Börn Y og Z höfðu verið vistuð utan heimilis um tiltekinn tíma með úrskurði B, sem hlotið hafði staðfestingu í héraðsdómi. Höfðaði B að því loknu mál á hendur Y og Z þar sem þess var krafist að þau yrðu varanlega svipt forsjá barnanna. Tóku Y og Z til varna og gerðu meðal annars þá kröfu í málinu að kveðið yrði á um rýmri umgengnisrétt, en B hafði ákvarðað, meðan málið væri til meðferðar fyrir dóminum. Féllst héraðsdómari á kröfur þeirra í hinum kærða úrskurði. Dæmt var að B ætti úrskurðarvald um ágreiningsefni er vörðuðu umgengni við kynforeldra, þegar svo stæði á sem hér var raunin og væru úrskurðir kæranlegir til kærunefndar barnaverndarmála. Það væri því ekki hlutverk dómstóla að kveða á um inntak umgengnisréttar, en þeir ættu úrskurð um það, hvort ákvarðanir barnaverndaryfirvalda væru byggðar á lögmætum grunni. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og málinu vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. ágúst 2005 um umgengni varnaraðila við börn sín, D, f. [...] 2003, og óskírt stúlkubarn, f. [...] 2005, sem höfðu verið vistuð utan heimilis með úrskurði sóknaraðila 31. maí 2005. Kæruheimild felst í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega, að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og kröfu varnaraðila um inntak umgengni við börnin verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfu varnaraðila um inntak umgengni við börnin aftur til meðferðar í sama horfi og málefnið var í eftir að krafan var sett fram í þinghaldi 28. júlí 2005 og til þrautavara að Hæstiréttur ákveði inntak umgengni varnaraðila við börnin á nánar tiltekinn hátt.

Varnaraðilar krefjast þess, að kæru sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að niðurstöðu til. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

I.

Samkvæmt gögnum málsins hefur sóknaraðili haft eftirlit með heimili varnaraðila frá því áður en sonur þeirra fæddist. Hafði nefndin beitt aðgerðum til að styrkja varnaraðila í uppeldishlutverki sínu og meðal annars höfðu, með samþykki þeirra, verið gerðar áætlanir ellefu sinnum um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga eftir að sonurinn fæddist. Dóttir varnaraðila fæddist [...] 2005. Var að ákvörðun formanns sóknaraðila gripið til neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga og barnið kyrrsett á barnadeild sjúkrahússins þar sem gögn málsins gæfu til kynna, að heilsu og öryggi barnsins væri hætta búin, ef foreldrarnir færu með það heim. Þá var drengurinn kyrrsettur hjá dagmóður sinni með sömu ákvörðun. Með úrskurði 31. maí 2005 ákvað sóknaraðili að vista börn varnaraðila utan heimilis í tvo mánuði frá þeim degi að telja, sbr. b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Varnaraðilar skutu úrskurðinum til Héraðsdóms Norðurlands eystra og kröfðust þess, að hann yrði felldur úr gildi, en kröfu þeirra var hafnað með úrskurði dómsins 21. júní 2005. Sóknaraðili ákvað, að umgengni varnaraðila við börnin yrði vikulega, klukkustund við hvort barn. Á fundi sóknaraðila 20. júlí 2005 fóru varnaraðilar fram á aukna umgengni við börnin. Sóknaraðili hafnaði því að svo stöddu en ákvað að umgengni yrði aukin í samráði við dómkvaddan matsmann, en 28. júlí dómkvaddi héraðsdómari tvo sálfræðinga til að meta forsjárhæfni varnaraðila.

Með stefnu, sem þingfest var fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 30. júní 2005, höfðaði sóknaraðili mál gegn varnaraðilum og krafðist þess, að þau yrðu svipt forsjá barna sinna með vísan til a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Varnaraðilar kröfðust þess á dómþingi 28. júlí, að umgengni þeirra við börnin yrði aukin, og féllst héraðsdómari á þá kröfu með hinum kærða úrskurði.

II.

Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga fer um meðferð forsjársviptingarmála eftir ákvæðum X. kafla laganna og gilda samkvæmt 53. gr. ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með þeim frávikum, sem fram koma í barnaverndarlögum. Í úrskurðarmálum samkvæmt 27. gr. og 28. gr. barnaverndarlaga gilda málsmeðferðarreglur XI. kafla laganna. Í framangreindum málsmeðferðarreglum er hvergi vikið að heimild dómara til að ákvarða umgengni meðan forsjársviptingarmál eru rekin.

Eins og að framan greinir ákvað sóknaraðili að vista börn varnaraðila utan heimilis þeirra. Samkvæmt 4. mgr. 81. gr. barnaverndarlaga á barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni, sem varða umgengni kynforeldra við barn, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd, og eru úrskurðir nefndarinnar kæranlegir til kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 9. mgr. 81. gr. laganna. Það er því ekki hlutverk dómstóla að kveða á um inntak umgengnisréttar, en þeir eiga úrskurð um það, hvort ákvarðanir barnaverndaryfirvalda séu byggðar á lögmætum grunni.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað frá héraðsdómi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. ágúst 2005.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 28. f.m., er til komið vegna kröfu lögmanns stefndu um að þeim verði tryggð samvist og umgengni við drenginn D tvisvar í viku, þ.e.a.s. miðvikudaga kl. 13:00 - 18:00 og laugardaga kl. 09:00 - 18:00, án þess að samvistin sé undir eftirliti, og við stúlkubarnið þrisvar í viku tvo tíma í senn, mánudaga, fimmtudaga og sunnudaga kl. 13:00 -15:00 og setja sig ekki upp á móti því að umgengni sú verði undir eftirliti. 

Þessari kröfu mótmælir lögmaður stefnenda, sem telur hana of seint fram komna og telur að ákvæði 80. og 81. og 84. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002 eigi hér við, þ.e.a.s. að stefnandi hafi úrskurðarvaldið varðandi umgengnina og séu úrskurðir stefnanda kæranlegir til kærunefndar barnaverndarmála, skv. lokaákvæði 81. gr. barnaverndarlaga.

Þessu mótmælir lögmaður stefndu og telur að með vísan til 57. gr. barnaverndarlaga geti aðilar flutt fram nýjar málsástæður og andmæli allt þar til mál er dómtekið og í því felist í sjálfu sér að aðilar geti haft uppi nýjar kröfur og sé því krafa stefndu ekki of seint fram komin og mótmælir túlkun stefnanda á því að stefnandi hafi forræði málsins á hendi sér þar sem málið sé nú rekið fyrir dómi.

Álit dómsins.

Mál það sem stefnendur hafa höfðað á hendur stefndu til sviptingar forsjár þeirra yfir börnunum D, [kt.], og ónefndu stúlkubarni S, [kt.], er byggt á þeim málsástæðum sem um getur í a- og d- lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002 þar sem stefndu séu óhæf til að annast forsjá barna sinna.  Er byggt á þeirri megin reglu að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.

Það er álit dómsins að við úrlausn máls þessa reyni á lagaskilareglur barnaverndarlaga nr. 80, 2002 og hins vegar barnalaga nr. 76, 2003, en í 34. gr. barnalaga er mælt fyrir um þær málsástæður sem dómari skal byggja úrlausn sína á er foreldra greinir á um forsjá barna og hljóta þau sömu sjónarmið að koma til álita í máli þessu að breyttu breytanda.  Þá kveður 35. gr. barnalaga á um það að dómari geti úrskurðað til bráðabirgða hvernig umgengni við börn skuli háttað undir rekstri máls fyrir dómi. 

Til hins ber einnig að líta að með úrskurði dóms þessa, uppkveðnum 21. júní 2005 og máli þessu sem þingfest var 30. júní 2005 var forsjánni komið í ákveðinn farveg þar til efnisdómur gengur í máli þessu. 

Þar sem mál þetta er nú rekið fyrir dómi telur dómurinn sig hafa fulla lögsögu til að kveða á um umgengnisrétt stefndu við börn sín á meðan málið er rekið fyrir dómi. 

Eftir atvikum telur dómurinn rétt að fallast á kröfur stefndu um umgengni við börnin eins og hún er fram sett.

Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Stefndu, Y og Z, skulu hafa umgengni við börn sín, D tvisvar í viku þannig:  Á miðvikudögum kl. 13:00 - 18:00 og laugardögum kl. 09:00 - 18:00, og við óskírt stúlkubarn þrisvar í viku tvo tíma í senn, mánudaga, fimmtudaga og sunnudaga kl. 13:00 - 15:00.