Hæstiréttur íslands
Mál nr. 266/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Gagnaöflun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
Mánudaginn 14. júní 2010. |
|
|
Nr. 266/2010. |
DekaBank Deutsche Girozentrale (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Gagnaöflun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli D gegn Í var vísað frá dómi. D taldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna viðskipta við G banka við greiðsluþrot bankans. Héraðsdómari vísaði málinu frá dómi þar sem málshöfðun D í skaðabótamáli væri ótímabær, en grundvöllur skaðabótakröfu komi ekki til álita fyrr en að loknu uppgjöri á fjárkröfu D á hendur G við slitameðferð bankans. Hæstiréttur taldi að D reisti kröfu sína á atvikum sem þegar væru að baki og að Í hafi ekki sýnt fram á að krafa D væri háð ókomnum atvikum. Ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 stæðu því ekki í vegi að D gæti borið kröfu sína undir dómstóla til úrlausnar og fái því ekki breytt þótt slitum G banka væri ekki lokið. Þá var talið að málatilbúnaður D væri ljós í aðalatriðum og málið væri því ekki vanreifað. Jafnframt var talið að ekki lægi fyrir að fjárhæð kröfu D muni ráðast af atvikum sem síðar kunni að koma fram, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Eins og málið lægi fyrir væru ekki næg efni til að telja annmarka á reifun D á kröfugerð sinni slíka að ekki mætti bæta þar úr við meðferð þess eða að vörn verði svo áfátt vegna skorts á matsgerð þegar á fyrstu stigum að vísa bæri málinu frá héraðsdómi nú. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili átti viðskipti við Glitni banka hf. og telur sig hafa orðið fyrir verulegu tjóni við greiðsluþrot bankans í byrjun október 2008, en frá þessum viðskiptum greinir nánar í hinum kærða úrskurði. Bankanum var nokkru síðar skipuð slitastjórn, sem hefur meðal annars með höndum meðferð krafna á hendur honum. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa bankans, sem birtist í Lögbirtingablaði 26. maí 2009 og 16. júní sama ár og var sóknaraðili meðal þeirra, sem lýstu kröfu. Jafnframt höfðaði hann þetta mál á hendur varnaraðila. Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að hann krefji varnaraðila um skaðabætur, sem nemi tjóni hans að frádregnu því, sem ætla megi að fáist endurheimt við slit Glitnis banka hf. Hann telur að hámark þess, sem þannig fáist, verði 30% af heildarkröfunni, en mismuninn eða 70% krefji hann varnaraðila um á grundvelli málsástæðna, sem nánar greinir í úrskurði héraðsdóms.
II
Fyrir héraðsdómi bar varnaraðili fram ýmsar ástæður, sem hann taldi að ættu að leiða til þess að málinu yrði vísað frá dómi. Fyrir Hæstarétti teflir hann fram sömu rökum til stuðnings kröfu sinni. Meðal þeirra er að kröfugerð á hendur honum sé ótímabær meðan skiptum á Glitni banka hf. sé ekki lokið. Af þeim sökum sé óvissu háð hvert hlutfall almennra krafna fáist greitt, en krafa sóknaraðila mun njóta rétthæðar við skiptin samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Endanleg niðurstaða um það ráðist af ýmsum óorðnum atvikum og fjölmargir óvissuþættir séu til staðar í því sambandi. Þannig geti til dæmis tíminn, sem slitameðferðin taki, skipt máli um verðmæti krafna. Ókleift sé því að ganga út frá að sóknaraðili nái ekki að endurheimta af eignum bankans meira en þau 30% sem hann miði við í kröfugerð á hendur varnaraðila í þessu máli. Krafan miðist því við einhliða hugmyndir sóknaraðila um hve mikið fáist greitt við slitameðferð upp í kröfur í heild og þar með talda kröfu sóknaraðila, en við þetta miðist aðalkrafa og varakrafa hans. Þessar hugmyndir séu eins konar getspá. Telur varnaraðili að sóknaraðili hvorki hafi né geti á þessu stigi sýnt fram á hvað hann kunni að fá upp í kröfu sína. Varnaraðili vísar til þess að í úrskurði héraðsdóms komi fram að 1. mgr. 26. gr. og 114. gr. laga nr. 91/1991 séu meðal þeirra heimilda, sem ætlað sé að sporna við slíkri málsmeðferð og þversögn, sem af þessu hlytist. Verði endurheimtuhlutfall krafna við slit bankans hærra en samkvæmt gefnum forsendum sóknaraðila fæli viðurkenning á kröfu hans í sér óréttmæta auðgun, sem fái ekki staðist.
Í stefnu til héraðsdóms greinir sóknaraðili frá því að við gerð aðalkröfu miði hann við að tapa 70% af kröfu á hendur Glitni banka hf. en endurheimta 30%. Alþjóðleg fjármálafyrirtæki hafi á hinn bóginn áætlað mun lægra endurheimtuhlutfall almennra krafna. Hann nefnir tvö slík dæmi, þar sem í öðru tilvikinu hafi verið áætlað að rúmlega 14% almennra krafna fáist greidd en í hinu sé reiknað með 21% endurheimtu þessara krafna. Þá telur hann að íslenskir kröfuhafar Glitnis banka hf. áætli að þeir muni endurheimta um 15% af almennum kröfum sínum. Krafa sín í málinu sé því ekki óhófleg, heldur njóti varnaraðili þvert á móti góðs af öllum hugsanlegum vafa um umfang tjónsins. Þá áskilur hann sér rétt til að óska eftir dómkvaðningu matsmanna til að svara spurningum varðandi tjónið og meta umfang þess. Með vitnaleiðslum við aðalmeðferð málsins sé einnig unnt að sanna að eignir bankans hrökkvi ekki fyrir 30% almennra krafna á hendur honum. Hann mótmælir jafnframt að endurheimta ráðist af óorðnum atvikum eða að þau ákvæði laga nr. 91/1991, sem áður var vikið að, geti leitt til þess að krafa varnaraðila verði tekin til greina. Hann mótmælir jafnframt að aðrar ástæður, sem varnaraðili heldur fram til stuðnings kröfu um frávísun, eigi sér nokkra stoð.
III
Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 skal vísa máli frá dómi ef það er höfðað til úrlausnar um rétt eða skyldu, sem stefnandi játar eða ljóst er af öðrum sökum að enn er ekki orðin til. Í ákvæðinu felst jafnframt að mál verður ekki höfðað um hagsmuni, sem eru til orðnir að einhverju marki, en endanleg tilvist þeirra ræðst þó af forsendu, sem getur fyrst ræst í framtíðinni.
Svo sem fram er komið rekur sóknaraðili tjón sitt til greiðsluþrots Glitnis banka hf., sem endanlega lá fyrir í október 2008. Hann reisir rétt sinn þannig á atvikum, sem eru þegar að baki, og varnaraðili hefur gegn þessu ekki sýnt fram á að krafa sóknaraðila sé háð ókomnum atvikum. Ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 stendur því ekki í vegi að sóknaraðili geti borið kröfu sína undir dómstóla til úrlausnar og fær því ekki breytt þótt slitum Glitnis banka hf. sé ekki lokið og afleiðingar greiðsluþrots hans og um leið þeirra gerða varnaraðila, sem sóknaraðili telur ólögmætar gagnvart sér, séu ekki endanlega komnar fram.
Þá vísar varnaraðili til stuðnings kröfu sinni um frávísun til 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 og telur málið vanreifað af hálfu sóknaraðila og sakarefnið ekki skýrt afmarkað. Ekki verður fallist á þessi rök varnaraðila, en málatilbúnaður sóknaraðila er ljós í aðalatriðum og í stefnu rökstyður hann fjárhæð skaðabótakröfu sinnar og vísar til gagna sem hann telur varpa ljósi á réttmæti fjárhæðar hennar. Ekki verður fallist á að sóknaraðila hafi borið skylda fyrir höfðun málsins til að leita eftir mati dómkvaddra manna um endurheimtuhlutfall almennra krafna við slit Glitnis banka hf. fyrr en ljóst var að varnaraðili féllist ekki á rökstuðning hans um það. Þá áskildi sóknaraðili sér sérstaklega í stefnu til héraðsdóms rétt til frekari framlagningar gagna og til að afla mats dómkvaddra manna undir rekstri málins. Sóknaraðili krefur varnaraðila um greiðslu ákveðinnar fjárhæðar og liggur ekki fyrir að hún muni ráðast af atvikum, sem síðar kunni að koma fram, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Eins og málið liggur fyrir eru ekki næg efni til að telja annmarka á reifun sóknaraðila á kröfugerð sinni slíka að ekki megi bæta þar úr við meðferð þess eða að vörn verði svo áfátt vegna skorts á matsgerð þegar á fyrstu stigum að vísa beri málinu frá héraðsdómi nú. Leiða hvorki framangreind ákvæði laga nr. 91/1991 til þeirrar niðurstöðu né aðrar ástæður, sem varnaraðili hefur borið fyrir sig og getið er í úrskurði héraðsdóms.
Samkvæmt öllu framanrituðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, DekaBank Deutsche Girozentrale, samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2010.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu sem birt var fyrirsvarsmanni stefnda 29. júní 2009.
Stefnandi er DekaBank Deutsche Girozentrale, Mainzer Landstr. 16, Frankfurt am Main, en stefndi íslenska ríkið, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
Aðalkrafa
Stefnandi, DekaBank Deutsche Girozentrale, krefst þess að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmdur til að greiða stefnanda 337.887.914,20 evrur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Fyrsta varakrafa
Stefnandi, DekaBank Deutsche Girozentrale, krefst þess að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmdur til að greiða stefnanda 67.577.588,23 evrur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Önnur varakrafa
Stefnandi, DekaBank Deutsche Girozentrale, krefst þess að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að álitum vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir, sem beri dráttarvexti og samkvæmt lögum um vexti og verðbætur nr. 38/2001, eftir því sem við eigi.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þessar:
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Til þrautavara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.
Helstu málsatvik
Í byrjun október 2008 féllu allir stóru íslensku viðskiptabankarnir þrír, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn. Með lögum nr. 125/2008 var Fjármálaeftirlitinu (FME) heimilað að grípa inn í starfsemi bankanna og taka yfir stjórn þeirra. Hinn 7. október nýtti FME valdheimildir laganna til þess að taka yfir stjórn Landsbankans og Glitnis, eftir að stjórnir bankanna tveggja höfðu óskað eftir aðkomu FME í samræmi við ákvæði laganna og skipaðar voru skilanefndir fyrir bankana tvo sem tóku við hlutverki stjórna þeirra. FME tók einnig yfir stjórn Kaupþings 9. október eftir að bresk yfirvöld höfðu gripið til aðgerða gegn dótturfélagi Kaupþings í Bretlandi.
Bönkunum var hverjum fyrir sig skipt upp í „nýjan og gamlan banka“. FME flutti innlenda starfsemi bankanna þriggja til hinna nýju banka gegn andvirði skuldabréfs eða fjármálagernings sem á að byggjast á mati endurskoðenda til þess að endurspegla sanngjarnt endurgjald fyrir þær eignir og skuldir sem fluttar voru. Skuldbindingar Glitnis gagnvart stefnanda urðu eftir hjá „gamla“ Glitni.
Gömlu bönkunum hefur verið veitt heimild til greiðslustöðvunar og þeim hefur verið skipuð slitastjórn í samræmi við lög nr. 44/2009. Slitastjórn Glitnis var skipuð 12. maí 2009.
Stefnandi og Glitnir banki hf. áttu í svokölluðum endurhverfum viðskiptum á grundvelli samnings frá 13. mars 2008 (Global Master Repurchase agreement, hér nefndur REPO-samningurinn). Stefnandi kveður samninginn vera eins konar rammasamning um viðskipti sem kunni að eiga sér stað milli aðilanna annað slagið. Samkvæmt samningnum samþykki Glitnir að selja stefnanda verðbréf og aðra fjármálagerninga gegn greiðslu stefnanda á kaupverði og á sama tíma samþykki stefnandi að selja verðbréfin á ákveðnum degi eða þegar þess sé krafist gegn greiðslu Glitnis á endurkaupverði til stefnanda.
Í þeim viðskiptum sem hafi verið virk á grundvelli samningsins hafði stefnandi keypt skuldabréf útgefin af Kaupþingi og Landsbankanum. Tilkynning um vanefndir hafi verið send 8. október 2008 þar sem Glitni hafi verið tilkynnt að einn eða fleiri vanefndaatburðir (eins og þeir eru skilgreindir í REPO-samningnum) hefðu átt sér stað 6. október. Með þessu hafi verið bundinn endi á öll viðskipti.
Samkvæmt tilkynningu um vanskil, dags. 14. janúar 2009, var krafa stefnanda á hendur Glitni 482.697.058,80 evrur.
Stefnandi kveðst hafa leitast við að eiga samvinnu við hinar skipuðu nefndir gamla Glitnis og við stjórnvöld til þess að leita lausna á þeim erfiðu álitamálum sem risið hafa eftir fall bankanna. Telur stefnandi að verulegur skortur hafi verið á upplýsingagjöf, gagnsæi og samstarfsvilja af hálfu íslenskra stjórnvalda. Stefndi hafi ekki sýnt raunverulegan áhuga á því að ná sameiginlegri lausn með kröfuhöfum bankanna. Af þeim sökum sé stefnandi knúinn til þess að höfða mál þetta sem síðasta úrræði til þess að gæta hagsmuna sinna.
Ágreiningsefni málsins lýtur að því að stefnandi telur íslenska ríkið bera skaðabótaábyrgð vegna aðgerðarleysis í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008, en stefnandi á kröfu á hendur Glitni hf. sem nú er í slitameðferð.
Í þessum þætti málsins er til meðferðar krafa stefnda um frávísun málsins. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins í þessum þætti málsins.
Málsástæður stefnanda
Kröfu sína um bótaábyrgð stefnda kveðst stefnandi byggja á athöfnum og athafnaleysi íslenska ríkisins fyrir hrun bankanna. Um þau atriði sé einkum stuðst við skýrslu Kaarlo Jännäri, fyrrum forstöðumanns finnska fjármálaeftirlitsins, frá 30. mars 2009 sem nefni fjölmörg mistök og gallaða meðferð mála af hálfu ríkisstjórnarinnar, Seðlabankans og FME á mánuðunum fyrir hrun bankanna.
Helstu málsástæður stefnanda eru þessar:
1. Fyrir hrun bankanna hafi fjölmörg mistök verið gerð af hálfu stjórnvalda, einkum FME og Seðlabankans, við framfylgd löggjafar og framkvæmd eftirlits með bankakerfinu, svo og af hálfu ríkisstjórnar með því að grípa ekki til aðgerða á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um hina alvarlegu stöðu bankanna. Á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar beri að líta á þessi mistök sem orsakir tjóns stefnanda. Þótt ein og sér hafi mistökin ekki verið fullnægjandi til þess að leiða til tjónsins, þá hafi þau verið ómissandi þáttur í atburðarásinni sem leiddu til hruns bankanna og þar með til tjóns stefnanda.
2. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að eignast 75% hlut í Glitni gegn greiðslu 600 milljón evra hafi skort lagaheimild. Ákvörðunin hafi haft þær algerlega fyrirsjáanlegu afleiðingar að lánshæfismat Íslands og bankanna var lækkað og allar lánalínur lokuðust. Þessi tiltekna ákvörðun, þ.e. að eignast hlut í Glitni fremur en að veita þrautavaralán, líkt og óskað var eftir, kann að hafa verið sá einstaki atburður sem mestu réð varðandi fall bankanna. Ekki einungis hafi ákvörðunina skort lagastoð heldur var hún tekin í andstöðu við ráðleggingar flestra sérfræðinga.
3. Tiltekin ákvæði laga nr. 125/2008, eða a.m.k. ákvarðanir FME á grundvelli laganna, feli í sér brot á eignarrétti stefnanda sem verndaður sé samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta samningsviðauka MSE.
3.1. Afleiðingar af ákvörðun ríkisins um að skipta Glitni í „gamlan og nýjan“ banka og flytja flestar innlendar eignir bankans til Nýja Glitnis urðu þær að stefnandi muni ekki einu sinni endurheimta sama hlutfall kröfu sinnar og hann hefði gert ef engin tilfærsla á eignum og skuldum hefði farið fram.
3.2. Skiptingin og ferlið í heild hafi það að markmiði að veita innlendum kröfuhöfum, einkum innlendum innistæðueigendum, sterkari stöðu en erlendum kröfuhöfum.
3.3. Með því að innistæðum og kröfum tryggingarsjóðs innstæðueigenda hafi verið veittur forgangur umfram almennar kröfur við gjaldþrot og slitameðferð bankanna hafi verðmæti kröfu stefnanda á hendur Glitni rýrnað. Þar með hafi verið brotið gegn réttmætum væntingum stefnanda varðandi réttarstöðuna við gjaldþrot bankans. Stefnandi hafi verið í góðri trú, en réttarstöðunni hafi verið breytt honum í óhag með afturvirkum hætti.
3.4. Ofangreint (atriði 3.1.-3.3.) hafi skert verðmæti kröfu stefnanda og þar með svipt hann eign sinni, í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta viðauka MSE.
3.5. Að öðrum kosti, ef litið verði á þessar skerðingar sem almennar takmarkanir á eignarréttindum sem séu heimilar gagnvart 72. gr. stjórnarskrárinnar, þá sé ljóst að farið hafi verið út fyrir leyfileg mörk slíkra almennra takmarkana.
3.6. Í öllum tilvikum sé byggt á því að samkvæmt fordæmi Hæstaréttar sé óheimilt að skerða kröfuréttindi stefnanda með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf.
4. Ákvæði laga nr. 125/2008 eða a.m.k. beiting FME á lögunum séu í andstöðu við grunnreglur um jafnræði og bann við mismunun, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, 14. gr. MSE (sbr. 1. gr. fyrsta samningsviðauka) og 26. gr. ABSR.
4.1. Ákvörðun FME um skiptingu Glitnis og tilfærslu eigna hafi verið tekin með það að markmiði að tryggja innlenda kröfuhafa. Þeir eigi nú kröfur á hendur hinum gjaldfæra Nýja Glitni sem njóti stuðnings ríkisins á meðan stefnandi, ásamt flestum erlendum kröfuhöfum, hafi verið skilinn eftir í hinum fallna (gamla) Glitni, ásamt ýmsum verðlitlum eignum.
4.2. Kröfuhafar Nýja Glitnis, þ.e. innistæðueigendur, hafi haft tafarlausan aðgang að öllum fjármunum sínum, á meðan stefnandi og aðrir kröfuhafar í sömu aðstöðu verði að bíða um ókominn tíma eftir því að endurheimta óþekkt hlutfall af kröfum sínum.
4.3. Meðal þeirra krafna sem með afturvirkum hætti hafi verið veittur forgangur með lögum nr. 125/2008 séu kröfur tryggingarsjóðs innistæðueigenda sem séu í raun krafa ríkisins. Engar málefnalegar ástæður séu fyrir hendi varðandi þann forgang sem þessum kröfum ríkisins var veittur.
5. Matsferlið varðandi þær eignir sem fluttar voru til Nýja Glitnis hafi verið ógagnsætt, stefnandi hafi verið útilokaður frá mikilvægum upplýsingum og þannig verið neitað um raunhæfa möguleika á því að gæta hagsmuna sinna. Þar að auki hafi matið á eignum verið framkvæmt án fullnægjandi lagaheimildar.
6. Samkvæmt lögum nr. 125/2008 hafi víðtækt stjórnsýsluvald verið framselt ríkissjóði og FME. Hvað varðar FME sé stofnuninni veitt heimild til þess að beita þessu valdi án þess að virða málsmeðferðarreglur í IV.-VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Valdheimildir þessar beinist enn fremur að stjórnarskrárvernduðum mannréttindum. Stefnandi telur að þetta valdframsal sé of víðtækt og ekki nægilega skilgreint í lögum.
7. Á grundvelli þessara víðtæku og lítt skilgreindu valdheimilda hafi FME tekið ákvarðanir sem skorti lagastoð. Þannig hafi ekki aðeins löggjafinn farið út fyrir leyfileg mörk við framsal valds til stjórnvalda gagnvart stjórnarskránni, heldur hafi FME einnig farið út fyrir þau mörk sem valdi stofnunarinnar séu sett í lögunum. Þar að auki hafi FME byggt ákvarðanir sínar á ómálefnalegum ástæðum, þ.e. mismunað kröfuhöfum á grundvelli þjóðernis.
8. Lög nr. 125/2008 afnemi IV.-VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 varðandi ákvarðanir FME. Stefnandi telur að í þessu felist sjálfstætt brot á ákvæðum 72. og 65. gr. stjórnarskrárinnar.
9. Í öllum tilvikum telur stefnandi að FME hafi brotið gegn þeim meginreglum stjórnsýsluréttar sem koma fram í III. kafla stjórnsýslulaga, þar á meðal jafnræðisreglunni, meðalhófsreglunni, málshraðareglunni og rannsóknarreglunni. Þar að auki sé FME, líkt og önnur stjórnvöld, bundið af óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Meðal þessara meginreglna sé andmælaréttur og réttur til upplýsinga og hafi þær verið hundsaðar af FME, m.a. í tengslum við mat á tilfærðum eignum.
10. Ríkið hafi ekki byggt á stjórnskipulegum neyðarrétti til réttlætingar á brotum sínum gegn mannréttindum. Hins vegar vísar ríkisstjórnin oft til laga nr. 125/2008 sem „neyðarlaganna“ og því sé tilefni til umfjöllunar um þetta atriði af hálfu stefnanda.
10.1. Stefnandi telur að eftir að stjórnarskrárgjafinn hafnaði innleiðingu ákvæðis um frávik frá ákvæðum stjórnarskrárinnar á neyðartímum við undirbúning stjórnarskrárbreytinganna árið 1995 eigi stjórnskipulegur neyðarréttur sér enga stoð í íslenskum stjórnskipunarrétti.
10.2. Sé litið svo á að slíkur neyðarréttur fyrirfinnist þá telur stefnandi að aðstæður þær sem uppi voru í október 2008 séu engan veginn sambærilegar þeim aðstæðum sem réttlætt hafa beitingu neyðarréttar í íslenskri réttarsögu, þ.e. síðari heimsstyrjöld. Þá verði ekki fallist á að aðstæðurnar hafi „ógnað lífi þjóðarinnar“ í skilningi 4. gr. ABSR og 15. gr. MSE.
10.3. Neyðarástandi hafi ekki verið lýst yfir opinberlega, sbr. 1. mgr. 4. gr. ABSR og tilkynning hafi hvorki verið send Evrópuráðinu né Sameinuðu þjóðunum, sbr. 3. mgr. 4. gr. ABSR og 3. mgr. 15. gr. MSE.
10.4. Gildissvið stjórnskipulegs neyðarréttar sem heimildar til frávika frá stjórnarskránni sé takmarkað við ákvæði sem tengjast valddreifingu og valdframsali, en heimili ekki frávík frá mannréttindum.
10.5. Í öllum tilvikum sé því haldið fram að frávik frá stjórnarskrárvörðum réttindum í máli þessu geti ekki talist hafa verið bráðnauðsynleg, m.a. þar sem þau hafi falið í sér mismunun (sbr. 4. gr. ABSR). Ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar vægari aðgerðir hafi ekki verið mögulegar.
11. Ráðstafanir ríkisins hafi falið í sér brot á reglum EES-réttar.
11.1. Brotið hafi verið gegn banni við mismunun sem mælt sé fyrir um í 4. gr. EES samningsins þar sem stefnandi njóti ekki sömu meðferðar og kröfuhafar Nýja Glitnis, sem séu nær allir íslenskir eða búsettir á Íslandi, né geti hann endurheimt það hlutfall kröfu sinnar sem hann hefði endurheimt ef aðgerðir ríkisins til varnar íslenskum hagsmunum hefðu ekki komið til sögunnar. Ekki sé unnt að réttlæta þessar verndarráðstafanir þar sem þær uppfylli ekki skilyrði um meðalhóf.
11.2. Ráðstafanir ríkisins feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð í andstöðu við 61. gr. EES samningsins. aðstoðin verði ekki felld undir leyfilegar undanþágur í ljósi þess að sá háttur sem hafður var á framkvæmd aðstoðarinnar hafi ekki verið í samræmi við reglur EES-réttar.
11.3. Brotið hafi verið gegn ákvæði 16. gr. tilskipunar 2001/24/EB sem gerir kröfu um sambærilega meðferð og forgang innlendra og erlendra kröfuhafa. Annað hvort beri að túlka ákvæði laga nr. 125/2008 til samræmis við fyrrnefnt ákvæði tilskipunarinnar, og þá verði litið svo á að ákvarðanir stjórnvalda skorti fullnægjandi lagastoð, eða að líta verði svo á að ríkið hafi ekki innleitt tilskipunina með fullnægjandi hætti inn í íslenskan rétt og verði þá skaðabótaskylda ríkisins virk, samkvæmt meginreglum EES-réttar.
12. Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar beri ríkið skaðabótaábyrgð á tjóni sem teljist afleiðing af háttsemi starfsmanna þess eða stofnana og afleiðing af töku ólögmætra stjórnvaldsákvarðana. Taki þetta bæði til þess þegar ákvarðanir séu teknar án fullnægjandi lagaheimildar og þegar málsmeðferðarreglum sé ekki fylgt. Íslenska ríkið sé jafnframt skaðabótaskylt samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar vegna tjóns sem sé afleiðing löggjafar sem brjóti í bága við stjórnarskrá. Enginn vafi sé á því að afleiðingar aðgerða og aðgerðarleysis íslenska ríkisins í máli þessu hafi verið fyrirsjáalegar.
Umfang tjóns stefnanda
Krafa stefnanda á hendur Glitni
Stefnandi eigi háa kröfu á hendur (gamla) Glitni. Á grundvelli þeirra ástæðna sem raktar hafa verið sé því haldið fram af hálfu stefnanda að íslenska ríkið sé bótaskylt vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna þess að krafan fæst ekki greidd.
Stefnandi hafi gert samning um endurhverf viðskipti (REPO-samninginn) við Glitni 13. mars 2008. Samkvæmt tilkynningu um vanskil frá 14. janúar 2009 sé nettó fjárhæð kröfunnar sem Glitni beri að greiða stefnanda 482.697.058,80 evrur.
Fjárhæðin sé útskýrð í viðauka I (Appendix I) við fyrrnefnda tilkynningu um vanskil. Þau verðbréf sem keypt voru af stefnanda í samræmi við ákvæði REPO-samningsins voru skuldabréf (senior unsecured bonds) útgefin af Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 352.000.000 evrur og skuldabréf útgefin af Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 324.982.000 evrur. Glitni bar að kaupa skuldabréfin aftur, í samræmi við ákvæði samningsins, á ákveðnu verði. Glitnir hafi ekki virt skyldur sínar í þessum efnum og því hafi stefnandi neyðst til þess að eiga skuldabréfin áfram og hafi hann skráð þau í bókhald sitt sem eignir á grundvelli markaðsvirðis. Nettó verðmæti skuldabréfa Landsbankans hafi á þeim tíma verið 13.940.000 evrur og verðmæti skuldabréfa Kaupþings hafi verið 16.089.100 evrur. Þessar fjárhæðir hafi verið skráðar í bókhald stefnanda á grundvelli verðmats þriggja viðurkenndra fjármálafyrirtækja, eins og sjá megi í fyrrgreindum viðauka I við tilkynningu um vanskil frá 14. janúar 2009.
Nettó verðmæti skuldabréfanna sé dregið frá heildarkröfunni á hendur Glitni. Einnig sé dregin frá viðbótartrygging í peningum sem greidd hafi verið af Glitni til stefnanda að fjárhæð 109.100.000 evrur sem og krafa um vexti sem greiða beri Glitni að fjárhæð 1.530.000 evrur. Hins vegar sé lögfræðikostnaður stefnanda að fjárhæð 75.736,96 evrur hluti af kröfu hans, í samræmi við ákvæði REPO samningsins.
Nettófjárhæð kröfu stefnanda á hendur Glitni sé reiknuð út á eftirfarandi hátt:
Krafa Glitnis á hendur stefnanda:
|
Nettóverðmæti skuldabréfa |
30.029.100,00 EUR |
|
Viðbótartrygging + vextir |
109.100.000,00 EUR |
|
Vaxtagreiðslur |
1.530.000,00 EUR |
|
samtals |
140.659.100,00 EUR |
Krafa stefnanda á hendur Glitni:
|
Útreiknað umsamið kaupverð |
623.280.421,84 EUR |
|
Lögfræðikostnaður og annar sérfræðikostnaður |
75.736,96 EUR |
|
Samtals |
623.356.158,80 EUR |
Nettófjárhæð kröfu stefnanda á hendur Glitni: 482.697.058,80 EUR
Þessi nettófjárhæð endurspegli kröfu stefnandans á hendur Glitni í tengslum við hin endurhverfu viðskipti. Ekki sé unnt að fá kröfuna greidda frá Glitni.
Kröfur á hendur stefnda
Stefnandi gerir eftirfarandi kröfur á hendur stefnda, eins og fram kemur í stefnu.
a) Aðalkrafa stefnanda er sú að íslenska ríkið verði dæmt til greiðslu 337.887.941,16 EUR ásamt dráttarvöxtum.
b) Fyrsta varakrafa stefnanda er sú að íslenska ríkið verði dæmt til greiðslu 67.577.588,23 EUR ásamt dráttarvöxtum.
c) Önnur varakrafa stefnanda er sú að íslenska ríkið verði dæmt til greiðslu skaðabóta að álitum að mati dómstóla.
Stefnandi fellst á að hann kunni að endurheimta hluta af kröfu sinni frá Glitni eftir að slitameðferð er lokið. Við afmörkun á aðalkröfu sinni reiknar stefnandi með því að hann tapi 70% af kröfu sinni og sé það varlega áætlað að hans mati. Alþjóðleg fjármálafyrirtæki hafi áætlað mun lægra endurheimtuhlutfall almennra krafna á hendur Glitni eða frá 14 21%. Stefnandi hefur ástæðu til að ætla að íslenskir kröfuhafar gömlu bankanna endurheimti um 15% kröfufjárhæða á hendur Glitni. Því sé óhætt að segja að dómkrafa stefnanda sé örugglega ekki óhófleg, heldur sé einmitt ljóst að ríkið njóti góðs af öllum hugsanlegum vafa hvað varðar umfang tjónsins. Með öðrum orðum feli aðalkrafa stefnanda í sér sanngjarnt mat á tjóni stefnanda.
Möguleikinn á því að endurheimta hluta af kröfu stefnanda frá Glitni veltur að miklu leyti á niðurstöðum úr mati á eignum þeim sem fluttar voru frá Glitni hf. til Nýja Glitnis, nú Íslandsbanka. Matinu hefur verið lokið og niðurstöðurnar eru í matskýrslum Deloitte sem hafa verið yfirfarnar af Oliver Wyman. Stefnandi ber því við að ómögulegt hafi reynst að öðlast aðgang að þessum upplýsingum, nema með því að undirgangast óaðgengileg skilyrði hvað varðar leyfilega notkun á upplýsingunum. Íslenska ríkið hafi hins vegar fullan aðgang að matsskýrslunum og þar af leiðandi fulla vitneskju um hið raunverulega endurheimtuhlutfall sem má búast við, að teknu tilliti til verðmætis fjármálagerningsins sem ráðgert er að Nýi Glitnir gefi út til þess að bæta upp fyrir mismun milli tilfærðra eigna og skuldbindinga. Hefur stefnandi undir rekstri málsins skorað á stefnda að leggja matsskýrsluna fram fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en ekki hefur verið orðið við því. Byggir stefnandi þess vegna kröfur sínar á því að matsskýrslan staðfesti þá ályktun að eignir Glitnis hf. nægi einungis til greiðslu 30% skuldbindinga bankans, eða minna. Með því að leggja matsskýrsluna ekki fram telur stefnandi að stefndi staðfesti þessa ályktun, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum sé ekki ómögulegt að meta tjón stefnanda vegna athafnaleysis stjórnvalda í aðdraganda bankahrunsins.
Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu
Stefndi byggir á því að málatilbúnaður stefnanda sé með þeim hætti að vísa beri málinu frá dómi.
Stefndi bendir á að málið sé höfðað sem skaðabótamál, en stefnandi geri ekki minnstu tilraun til að sýna fram á að fyrir hendi séu skilyrði skaðabótakrafna um tiltekna athöfn eða athafnaleysi sem teljist saknæm og orsakatengsl á milli þeirra og þess tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Stefnandi skilgreini ekki á neinn viðhlítandi hátt með hvaða hætti stjórnvöld hafi valdið honum skaðabótaskyldu tjóni.
Stefndi bendir á að tölulegar fjárhæðir kröfugerðar stefnanda, bæði aðal- og varakrafna, séu háðar síðar til komnum atvikum. Þær byggist á tilteknum forsendum um greiðsluhlutfall almennra krafna við slitameðferð Glitnis sem ekki fáist staðreynt í dag. Bendir stefndi á að þrautavarakrafa stefnanda virðist jafnframt að mestu byggja á áþekkum sjónarmiðum, þ.m.t. um ætlað endurheimtuhlutfall. Ekki liggi fyrir á þessu stigi hversu mikið muni fást upp í greiddar kröfur. Af þessu leiði hins vegar að með öllu sé óraunhæft á þessu stigi að leggja mat á ætlað tjón stefnanda, þ.e. samkvæmt þeim forsendum sem tjónsfjárhæð byggir á í stefnu. Sakarefnið sé nánar tiltekið ekki nógu ljóst til að dómur verði felldur á það. Vísar stefndi í þeim efnum til ákvæðis 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/191 um meðferð einkamála. Af framangreindu leiði jafnframt að málatilbúnaður stefnanda uppfylli hvorki kröfur 1. mgr. 80. gr. þeirra laga né meginreglur einkamálaréttarfars um nauðsyn skýrrar afmörkunar á sakarefni.
Stefndi telur að gera verði ráð fyrir að stefnandi lýsi kröfum á hendur Glitni banka hf. við slitameðferð bankans. Enn fremur að stefnandi verði þar að byggja kröfugerð sína (og hugsanleg andmæli við kröfulýsingarskrá) á sjónarmiðum, sem byggt sé á í stefnu, svo sem varðandi breytingu á forgangsrétti innistæðna. Þá megi gera ráð fyrir að stefnandi geri skaðabótakröfur á hendur bankanum vegna hugsanlegs tjóns sem ráðstafanir hans hafi valdið stefnanda. Af þeim sökum sé ljóst að málatilbúnaður á hendur íslenska ríkinu, í formi skaðabótamáls, hljóti að teljast ótímabær, þar sem óvíst sé hvernig kröfum stefnanda á hendur Glitni hf. reiði af. Bendir stefndi á að yrði endurheimtuhlutfall krafna úr Glitni hærra en samkvæmt gefnum forsendum stefnanda, fæli viðurkenning á kröfum stefnanda í sér óréttmæta auðgun hans, og telur stefndi slíka niðurstöðu ekki geta staðist.
Stefndi vekur einnig athygli á því í þessu sambandi að ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 feli meðal annars í sér að ekki megi höfða mál um hagsmuni sem hafa byrjað að myndast að einhverju leyti, en endanleg tilvist þeirra ráðist þó af forsendu sem geti fyrst ræst í framtíðinni. Með þessari reglu sé ætlað að koma í veg fyrir að dómstólar þurfi að fjalla um afstæð réttindi, þ.e.a.s. tilvik þar sem tilurð réttinda sé háð ókomnum atvikum. Í stefnu málsins „áskilur stefnandi sér rétt til þess að breyta fjárhæðum aðalkröfu sinnar og fyrstu varakröfu komi fram nýjar upplýsingar m.a. varðandi endurheimtuhlutfall krafna á hendur Glitni eða niðurstöðu mats á verðmæti hinna tilfærðu eigna“. Af stefnu málsins verði ekki ráðið að stefnandi vísi hér eingöngu til möguleikans á því að draga úr kröfum sínum en ljóst sé að hvers konar hækkun á kröfum stefnanda sé útilokuð, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.
Þá bendir stefndi á, varðandi mat á tjóni að álitum samkvæmt þrautavarakröfu stefnanda, að það eigi einungis við þegar ómögulegt sé að meta bótaskylt tjón nákvæmlega. Slíku sé ekki til að dreifa við þessar aðstæður, heldur sé ómöguleika eingöngu til að dreifa nú en ekki síðar, þ.e. þegar niðurstöður slitameðferðar Glitnis munu liggja fyrir.
Frávísunarkrafa stefnda er einnig byggð á því að algerlega skorti á rökræn tengsl milli dómkrafna og málsástæðna. Þar sem þetta samhengi skorti sé málatilbúnaður stefnanda í reynd beiðni um lögfræðilega álitsgerð á ýmsum atriðum, sem sé andstætt 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála.
Því telur stefndi að niðurstaðan af öllu framangreindu feli í sér að ekki sé hægt að fjalla um dómkröfur stefnanda, grundvöll þeirra og útreikninga sem þeir byggja á. Krafist sé skaðabóta vegna tjóns sem enn hafi ekki orðið í þeim skilningi að hægt sé að staðreyna fjárhæðir. Dómkröfur séu því algjörlega ósannaðar og vanreifaðar. Einnig skorti á að skilmerkileg grein sé gerð fyrir viðskiptum stefnanda við Glitni. Afar knöpp og ófullkomin lýsing sé á svokölluðum endurhverfum viðskiptum auk þess sem grundvallarskjöl þar um og önnur séu ekki þýdd á þingmálið, svo sem gera verði kröfu til eftir 10. gr. laga um meðferð einkamála. Telur stefndi því að vísa beri málinu frá dómi.
Niðurstaða
Svo sem fram er komið áttu stefnandi og Glitnir banki hf. í svokölluðum endurhverfum viðskiptum á grundvelli REPO samnings frá 13. mars 2008. Samkvæmt tilkynningu um vanskil, dags. 14. janúar 2009, var krafa stefnanda á hendur Glitni 482.697.058,80 evrur. Stefnandi hefur lýst kröfu sinni við slitameðferð Glitnis.
Stefnandi hefur höfðað mál þetta á hendur stefnda sem skaðabótamál, og er sú málshöfðun byggð á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því fjárhagslega tjóni sem stefnandi muni verða fyrir við úthlutun á kröfu sinni við lok slitameðferðar Glitnis. Stefnandi telur að hann muni tapa 70% af kröfu sinni á hendur Glitni og er aðalkrafa hans í málinu, 337.887.941,16 evrur, við það miðuð. Stefnandi telur að aðalkrafan feli í sér sanngjarnt mat á tjóni hans, sem er miðuð við að 30% kröfunnar endurheimtist. Alþjóðleg fjármálafyrirtæki hafi áætlað mun lægra endurheimtuhlutfall almennra krafna á hendur Glitni eða frá 14 21%. Stefnandi kveðst telja að íslenskir kröfuhafar gömlu bankanna endurheimti um 15% kröfufjárhæða á hendur Glitni. Því sé óhætt að segja að dómkrafa stefnanda sé örugglega ekki óhófleg, heldur sé einmitt ljóst að ríkið njóti góðs af öllum hugsanlegum vafa hvað varðar umfang tjónsins. Stefnandi bendir á að möguleikinn á því að endurheimta hluta af kröfu stefnanda frá Glitni velti að miklu leyti á niðurstöðum úr mati á eignum þeim sem fluttar voru frá Glitni hf. til Nýja Glitnis, nú Íslandsbanka. Matinu hafi verið lokið og niðurstöðurnar séu í matskýrslum Deloitte sem hafa verið yfirfarnar af Oliver Wyman, en þær séu ekki aðgengilegar stefnanda með fullnægjandi hætti.
Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða 67.577.588,23 evrur. Við útreikning þeirrar fjárhæðar hefur stefnandi miðað við 30% endurheimtuhlutfall krafna sinna en jafnframt er tekið tillit til þess í útreikningi, að mati stefnanda, hvaða áhrif það hefði haft á endurheimtuhlutfall kröfu hans að kröfum innistæðueigenda var veittur forgangur í skuldaröð með lögum nr. 125/2008.
Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda bætur að álitum.
Tölulegar fjárhæðir samkvæmt aðal- og varakröfu stefnanda eru háðar síðar til komnum atvikum. Þær byggjast á tilteknum forsendum um greiðsluhlutfall almennra krafna við slitameðferð Glitnis sem ekki liggja fyrir. Sama gildir um þrautavarakröfu sem byggist á svipuðum sjónarmiðum að því er varðar ætlað endurheimtuhlutfall. Fallast verður á með stefnda að óraunhæft sé, á þessu stigi, að setja fram fjárkröfur samkvæmt þeim forsendum sem stefnandi byggir á. Er það andstætt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 1. mgr. 114. gr. laganna. Þá byggja varakröfur stefnanda á flóknum útreikningum, sem miðast við tilbúnar ófyrirséðar forsendur. Kröfugerð stefnanda að þessu leyti byggir einnig á svo óljósum atriðum að um vanreifun er að ræða.
Telja verður, eins og atvikum er háttað, að málshöfðun stefnanda á hendur stefnda í skaðabótamáli sé ótímabær. Grundvöllur skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda kemur ekki til álita fyrr en lokið er uppgjöri á fjárkröfu stefnanda á hendur Glitni við slitameðferð bankans og fyrir liggur að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Verður því fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 400.000 krónur.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, DekaBank Deutsche Girozentrale, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 400.000 krónur í málskostnað.