Hæstiréttur íslands

Mál nr. 265/2003


Lykilorð

  • Kjarasamningur
  • Laun
  • Uppsögn
  • Félagsdómur
  • Res Judicata


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004.

Nr. 265/2003.

Björn Briem

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Kynnisferðum sf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

 

Kjarasamningur. Laun. Uppsögn. Félagsdómur. Res judicata.

Ó og B, félagsmönnum í stéttarfélaginu S, var sagt upp störfum hjá K. Í gildandi kjarasamningi var ákvæði um forgangsrétt félagsmanna í S til starfa samkvæmt kjarasamningnum. Félagsdómur hafði í framhaldi af þessu fallist á með S að K hafi með fyrrgreindum uppsögnum brotið gegn forgangsréttarákvæðinu. Að fenginni þeirri niðurstöðu kröfðust Ó og B skaða- og miskabóta vegna ólögmætrar uppsagnar. Með því að dómar Félagsdóms eru endanlegir og verður ekki áfrýjað var áðurgreind niðurstaða Félagsdóms lögð til grundvallar dómsúrlausn. Var K dæmdur til greiðslu skaðabóta, en sýknaður af kröfu um miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júlí 2003. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaða- og miskabætur að fjárhæð 1.549.695 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. júlí 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir  Hæstarétti.

Eins og greinir í héraðsdómi sagði stefndi áfrýjanda og Óskari Stefánssyni, sem báðir voru félagsmenn í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, upp störfum með bréfi 26. september 2001. Var ástæða uppsagnanna sögð vera samdráttur hjá fyrirtækinu í tenglsum við minnkandi umsvif í flugrekstri. Á þeim tíma sem uppsagnirnar tóku gildi var í gildi kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins og Bifreiðarstjórafélagsins Sleipnis 5. júlí 2001. Í grein 5.1. í samningnum var ákvæði um forgangsrétt félagsmanna í síðastgreindu stéttarfélagi til starfa samkvæmt kjarasamningnum og er ákvæðið tekið orðrétt upp í hinum áfrýjaða dómi. Stéttarfélagið höfðaði mál fyrir Félagsdómi á hendur Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar vegna stefnda í máli þessu og gerði þær dómkröfur að viðurkennt yrði að stefndi hafi brotið kjarasamning aðila með því að segja áðurnefndum mönnum upp störfum og hafa á sama tíma í störfum fólksflutningabifreiðastjóra sem voru félagsmenn í öðru nafngreindu stéttarfélagi. Með dómi Félagsdóms 28. maí 2002 í máli nr. 2/2002 var fallist á með Bifreiðastjórafélaginu Sleipni að stefndi hafi með uppsögnunum brotið gegn forgangsréttarákvæðinu, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Í máli þessu, sem höfðað var með stefnu 26. ágúst 2002 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, krefst áfrýjandi skaða- og miskabóta vegna ólögmætrar uppsagnar. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu um skaðabótakröfuna.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að uppsögn áfrýjanda hafi hvorki farið í bága við lög né kjarasamning. Telur stefndi að ákvæði kjarasamninga um forgangsrétt viðkomandi stéttarfélags til starfa nái ekki til uppsagna starfsmanna. Skuldbindingar sem slík forgangsréttarákvæði feli í sér fyrir vinnuveitendur verði að túlka þröngt með tilliti til félagafrelsisákvæða 74. gr. stjórnarskrárinnar með áorðnum breytingum, 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 5. gr. Félagsmálasáttmála Evrópu.

Félagsdómur hefur, sem fyrr segir, dæmt að með því að segja áfrýjanda upp starfi hafi stefndi brotið forgangsréttarákvæðið kjarasamningsins 5. júlí 2001. Í forsendum fyrir niðurstöðu sinni taldi dómurinn að samningsákvæðið hafi hvorki verið í andstöðu við framangreind ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar né áðurnefnda sáttmála. Samkvæmt 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eru dómar Félagsdóms endanlegir og verður ekki áfrýjað. Verður að leggja niðurstöðu Félagsdóms um að uppsögnin hafi verið brot á áðurnefndu forgangsréttarákvæði kjarasamningsins og þar með ólögmæt til grundvallar úrlausn í máli þessu, sbr. meginreglur 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Fallist er á með áfrýjanda að hann eigi rétt til bóta vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Ekkert er komið fram í málinu sem valdið getur því að áfrýjandi hafi glatað þeim bótarétti sínum, svo sem vegna tómlætis, fyrningar kröfunnar eða annarra atriða. Í málinu gerir stefnandi kröfu um að sér verði greiddar 549.695 krónur í skaðabætur vegna uppsagnarinnar. Eru þær miðaðar við þriggja mánaða laun ásamt orlofi og 6% vegna tapaðra lífeyrisrétttinda að frádregnum atvinnuleysisbótum, sem hann naut á tímabilinu. Er óumdeilt að bætur verði þannig ákveðnar og nemi þessari fjárhæð. Verður krafan samkvæmt framansögðu tekin til greina með vöxtum, eins og í dómsorði greinir.

         Fallist er á með héraðsdómara að ekki séu lagaskilyrði til að verða við kröfu áfrýjanda um greiðslu miskabóta.

         Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

       Stefndi, Kynnisferðir sf., greiði áfrýjanda, Birni Briem, 549.695 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. júlí 2002 til greiðsludags.

         Stefndi greiði áfrýjanda samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2003.

         Málið var höfðað 28. ágúst 2002, þingfest 5. september 2002 og dómtekið 20. mars 2003.

Stefnandi er Björn Briem, kt. 200864-3609, Hjarðarhaga 64, Reykjavík.

Stefndi er Kynnisferðir sf., kt. 620372-0489, Vesturvör 6, Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.549.695 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 3. júlí 2002 til greiðsludags og málskostnað.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

 

Málsatvik og helstu ágreiningsefni

Stefnandi er félagsmaður í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni. Á árinu 2000 átti Sleipnir í harðvítugum kjaradeilum og verkfallsaðgerðum, sem meðal annars beindust gegn stefnda. Stefnandi var einn af samningamönnum Sleipnis í kjaradeilunni. Sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 9. júní 2000 lögbann við verkfallsvörslu Sleipnis, vegna starfsmanna tveggja fyrirtækja, Teits Jónassonar ehf. og Austurleiðar hf. Lögbannið var staðfest með tveimur dómum  Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 14. júní 2000.  Sleipnir áfrýjaði þessum dómum en féll frá áfrýjun, sbr. dóma Hæstaréttar 13. desember 2000, mál nr. 303/2000 og 304/2000.

Í framangreindum dómum komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að ákvæði í kjarasamningi um skylduaðild bifreiðastjóra að Sleipni stangaðist á við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til að standa utan félaga. Ákvæði kjarasamningsins um forgangsrétt félagsmanna stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) var hins vegar ekki talið andstætt stjórnarskrá. Ákvæðið var talið binda hendur atvinnurekenda á þann hátt að þeim væri óheimilt að ráða aðra til aksturs en þá sem væru í einhverju aðildarfélagi ASÍ og veitti jafnframt þeim mönnum forgang um vinnu fram yfir þá sem ekki væru í stéttarfélagi sem ætti aðild að ASÍ.  Jafnframt taldi héraðsdómur að félagsmenn Sleipnis hefðu í raun ekki notið forgangsréttar til vinnu á félagssvæði Sleipnis. Í forsendum dómsins var bent á að árum saman hefði viðgengist að til aksturs hópferðabifreiða væru ráðnir bifreiðastjórar búsettir á félagssvæði Sleipnis sem ekki væru í félaginu. Sleipnir hefði ekki framfylgt samningsákvæðinu um félagsaðild að Sleipni nema að litlu leyti.

Í kjölfar dómsins sögðu margir bifreiðastjórar hjá stefnda sig úr Sleipni og gengu í önnur verkalýðsfélög, meðal annars Verslunarmannafélag Reykjavíkur og Eflingu.

Nýr kjarasamningur var undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og Sleipnis 5. júlí 2001.  Í 5. kafla samningsins kom inn nýtt forgangsréttarákvæði. Kaflinn ber yfirskriftina “Um forgangsrétt til vinnu” og er svohljóðandi:

 

„5.1. Bifreiðastjórar í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni skulu hafa forgangsrétt til starfa samkvæmt kjarasamningi þessum.

5.1.1. Vinnuveitendur hafa ávallt frjálst val um það, hvaða félagsmenn þeir taka í vinnu.

5.1.2. Fastráðnir starfsmenn skulu ganga fyrir um aukavinnu, enda séu þeir tiltækir og hafi tilkynnt það, enda gangi það ekki á svig við ákvæði samningsins um hvíldartíma.”

 

Fyrir undirritun kjarasamningsins áréttaði SA túlkun sína á ákvæðinu með eftirfarandi bókun:

 

„Í nýjum kjarasamningi aðila dags. 5. júlí 2001 er forgangsréttarákvæði, þar sem ljóst er að ákvæði eldri samnings um aðildarskyldu er í andstöðu við gildandi lög.

Í hinu nýja ákvæði er forgangsréttur Bifreiðstjórafélagsins Sleipnis viðurkenndur samkvæmt kjarasamningi þess við SA. Þetta samningsákvæði breytir ekki rétti annarra stéttarfélaga samkvæmt kjarasamningum þeirra við SA og rétti félagsmanna þeirra til starfa.

Um samhliða forgangsrétt fyrrgreindra stéttarfélaga er því að ræða vegna bifreiðastjóra hópferða- og sérleyfisbifreiða. "

 

Samninganefnd Sleipnis tók bókun þessa til umfjöllunar og tók afstöðu til hennar með annarri bókun og segir þar m.a.:

 

„Í tilefni af þessari bókun vill Bifreiðastjórafélagið Sleipnir taka fram að samningar SA við önnur stéttarfélög um störf hópferða- sérleyfisbifreiða eru Bifreiðastjórafélaginu Sleipni óviðkomandi."

 

Í kjölfar samdráttar í flugi haustið 2001 létu 16 af 39 bifreiðastjórum stefnda af störfum, en hluti þeirra höfðu verið ráðnir tímabundið. Tveimur félagsmönnum Sleipnis var sagt upp störfum frá 1. janúar 2001 og einn sagði upp störfum. Þá létu sjö félagsmenn VR af störfum í árslok 2001 og sex félagsmenn Eflingar og Hlífar. Eftir uppsagnirnar voru meðal annarra 10 félagsmenn í VR áfram við störf hjá stefnda.

Stefnandi var annar þeirra félagsmanna í Sleipni sem sagt var upp störfum hjá stefnda 26. september 2001 og tók uppsögnin gildi 1. janúar 2002. Hinn var Óskar Stefánsson, formaður Sleipnis, en hann hefur höfðað sambærilegt bótamál á hendur stefnda. Vegna uppsagna Sleipnismannanna tveggja reis ágreiningur um það hvort uppsagnir félagsmanna í Sleipni brytu í bága við framangreint forgangsréttarákvæði í 5. kafla kjarasamnings aðila. Félagsdómur kvað upp dóm 28. maí 2002 í máli Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Kynnisferða sf. og féllst á kröfur Sleipnis. Dómsorðið var svohljóðandi:

„Viðurkennt er að stefndi, Kynnisferðir sf., braut gegn grein 5.1. í gildandi kjarasamningi milli aðila frá 5. júlí 2001 með því að segja upp störfum Óskari Stefánssyni og Birni Briem, félagsmönnum í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni og starfsmönnum hjá Kynnisferðum sf.,  þann 1. janúar 2002, og hafa á sama tíma í störfum sem fólksflutningabifreiðastjóra félagsmenn í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.“

 

Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 3. júní 2002 þar sem krafist var greiðslu bóta vegna uppsagnar stefnanda og Óskars Stefánssonar. Þeirri kröfu var hafnað með bréfi SA dagsettu 12. júní 2002.

Stefnandi krafðist í stefnu bóta að fjárhæð 1.710.319 krónur en lækkaði kröfuna við upphaf aðalmeðferðar um fjárhæð sem nemur atvinnuleysisbótum á því þriggja mánaða tímabili sem krafa vegna launa tekur til. Endanleg bótakrafa stefnanda sundurliðast þannig:

 

Krafa vegna launa í 3 mánuði...................................................................................... 710.319      krónur

Miskabætur................................................................................................................. 1.000.000      krónur

Samtals......................................................................................................................... 1.710.319      krónur

Frádráttur atvinnuleysisbóta....................................................................................... 160.624      krónur

Leiðrétt krafa............................................................................................................... 1.549.695      krónur

 

Málsástæður og lagarök aðila

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að með dómi Félagsdóms 28. maí 2002 hafi uppsögn stefnanda verið dæmd brot á kjarasamningi. Dómar Félagsdóms séu endanlegir um réttarágreining sem undir hann heyri. Umrædd niðurstaða Félagsdóms sæti því ekki endurskoðun almennra dómstóla og verði lögð til grundvallar í þessu máli hvað varðar ólögmæti uppsagnar stefnanda. 

Krafist er bóta vegna ólögmætrar uppsagnar, annars vegar skaðabóta á grundvelli dómvenju og hins vegar miskabóta vegna ófjárhagslegs tjóns.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að skaðabótakrafan samsvari þriggja mánaða launum hans hjá stefnda. Miðað sé við meðalmánaðarlaun stefnanda vegna síðustu 6 mánaða í starfi, en þau hafi verið 202.751 krónur. Þriggja mánaða laun nemi því samtals 608.253 krónum. Ofan á launin sé reiknað 10,17% orlof, samtals 61.859 krónur, svo og 6% viðbót vegna tapaðra lífeyrisréttinda, eða 40.207 krónur. Skaðabótakrafan nemi því 710.319 krónum.

Þá sé krafist 1.000.000 króna miskabóta. Til stuðnings miskabótakröfu er vísað til þess að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt. Stefnandi hafi verið félagsmaður í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni. Þá hafi hann átt sæti í samninganefnd félagsins í allnokkur ár og tekið þátt í erfiðum kjaradeilum. Stefndi hafi leynt og ljóst stuðlað að því að sniðganga Sleipnisfélaga við ráðningar starfsmanna og gert það að skilyrði við ráðningar nýrra starfsmanna að þeir væru félagsmenn annarra stéttarfélaga en Sleipnis, þrátt fyrir að stefndi sé aðili að kjarasamningi við Sleipni í gegnum Samtök atvinnulífsins.

Stefnandi telur augljóst samhengi milli uppsagnar stefnanda hjá stefnda og starfa hans fyrir stéttarfélagið, enda hafi því ekki verið neitað við málflutning í Félagsdómi. Uppsögnin sé öllum kunn í þessari starfsgrein og hafi stefnanda ekki boðist sambærilegt starf við akstur fólksflutningabifreiða en því starfi hafi hann sinnt um árabil. Uppsögn þessi sé því ein mynd þess sem kallað hafi verið atvinnukúgun. Það hugtak sé notað um það þegar hömlur séu með ólögmætum og ómálefnalegum hætti lagðar á atvinnufrelsi manna, þvingun sem eigi rætur að rekja í óréttmætri mismunun, og af félagslegum toga, svo sem ef litarháttur fólks eða kyn sé látið ráða um störf.

Stefnandi telur eina mynd atvinnukúgunar vera þá að atvinnurekandi beiti starfsmenn sína ólögmætum þvingunum, gjarnan félagslegum, sem komi í veg fyrir að þeir geti sinnt störfum sínum með þeim hætti sem ráðningarsamningur þeirra geri ráð fyrir eða notið skoðanafrelsis. Með löggjöf sé reynt að sporna við atvinnukúgun en hún sé í eðli sínu andstæð lögum. Um þetta er vísað til um atvinnufrelsisákvæðisins í 75. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt er vísað til laga um stéttarfélög og vinnudeilur, en í 4. gr. þeirra laga sé sérstakt ákvæði sem ætlað sé að vernda starfsmenn gegn atvinnukúgun. Ennfremur er bent á ákvæði í alþjóðasáttmálum, einkum samþykkt alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 98, um beitingu grundvallarreglna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginleg, en þar segi að verkamenn skuli tilhlýðilega verndaðir fyrir því að þeir séu látnir gjalda þess um atvinnu að þeir séu félagsbundnir. Slík vernd skuli sérstaklega beinast að athöfnum sem miði að því að binda ráðningu verkamanna til vinnu því skilyrði að þeir gangi ekki í stéttarfélag eða segi sig úr slíku félagi og því að verkamönnum sé sagt upp vinnu eða þeim gert annað ógagn vegna hlutdeildar sinnar í félagsskap, þátttöku í félagsstarfsemi utan vinnutíma eða í vinnutíma með samþykki vinnuveitanda.

Af hálfu stefnanda er einnig vísað til b-liðs 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til stuðnings miskabótakröfunni og til orlofslaga nr. 30/1987.

 

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að félagið hafi ekki bakað sér bótaskyldu með því að segja stefnanda upp störfum, enda hafi uppsögnin hvorki verið andstæða lögum né kjarasamningum.

Stefndi telur að forgangsréttarákvæði umrædds kjarasamnings nái ekki til uppsagna starfsmanna þar sem ekki felist "ruðningsréttur" í slíku ákvæði. Stefndi telur að ef félagsmenn í öðrum stéttarfélögum hafi verið ráðnir til starfa í fullu samræmi við forgangsréttarákvæði kjarasamninga verði forgangsréttinum ekki síðar beitt gegn þeim með lögmætum hætti.

Stefndi byggir jafnframt á því að óheimilt hafi verið að mismuna starfsmönnum í VR á grundvelli félagsaðildar, með því að láta félagsmenn í Sleipni ganga fyrir um að halda vinnu við fækkun starfsmanna. Umræddir félagsmenn í VR hafi allir verið í starfi þegar ákvæði um forgangsrétt til starfa hafi komið inn í kjarasamning Sleipnis. Að mati stefnda hefði sú ráðstöfun, að segja frekar upp félagsmönnum í VR vegna félagsaðildar þeirra, verið andstæð lögum og alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland sé bundið af.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að forgangsréttarákvæði kjarasamninga eigi sér langa sögu en undanfarin ár hafi viðhorf til þeirra breyst og séu þau túlkuð mun þrengra en áður. Megi aðallega rekja breytt viðhorf til þróunar á alþjóðavettvangi, sem hafi meðal annars leitt til breytinga á stjórnarskránni, sbr. lög nr. 97/1995. Í 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar sé verndaður réttur manna til að stofna stéttarfélög og ganga í slík félög. Á þeim tíma, þegar umræddir bifreiðastjórar hafi gengið í VR, hafi ekkert lögmætt ákvæði verið í kjarasamningi SA og Sleipnis um forgangsrétt til vinnu. Réttur bifreiðastjóranna til að ganga í VR hafi því verið ótvíræður. Stefnda hafi verið óheimilt að hafa áhrif á félagafrelsi þessara starfsmanna sinna og krafa um félagaskipti, að viðlagðri uppsögn, hefði stangast á við rétt þeirra samkvæmt 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár. Réttur stefnanda til vinnu, samkvæmt ákvæði kjarasamnings um forgangsrétt, víki fyrir stjórnarskrárvörðum rétti annarra starfsmanna til að halda áfram aðild að því stéttarfélagi sem þeir höfðu valið með lögmætum hætti.

Krafa stefnda um breytta stéttarfélagsaðild, að viðlagðri uppsögn, hefði einnig verið andstæð ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um neikvætt félagafrelsi. Hvorki sé heimilt með kjarasamningum né öðrum samningum að kveða á um aðildarskyldu, hvort heldur er með beinum eða óbeinum hætti. Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar bindi ekki einungis hendur löggjafa og framkvæmdavalds heldur nái þau einnig til einkaréttarlegra samninga. Ákvæði kjarasamninga um forgangsrétt til vinnu verði því að túlka með hliðsjón af stjórnarskránni. Stefndi telur stjórnarskrána ekki heimila samningsbundna þvingun til aðildar að félagi. Nefndarálit stjórnarskrárnefndar með sérstakri umfjöllun um forgangsréttarákvæðin breyti ekki ótvíræðu ákvæðu stjórnarskrárinnar sjálfrar.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að Ísland sé bundið af Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sbr. lög nr. 62/1994, þar á meðal af 11. gr. sáttmálans. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi talið rétt manna til að standa utan félaga verndaðan af 11. gr. MSE og staðfest að þvingun til aðildar að stéttarfélagi geti við sumar aðstæður brotið gegn kjarna félagafrelsisákvæðis.

Þá byggir stefndi á því að Ísland hafi fullgilt Félagsmálasáttmála Evrópu árið 1976. Í 5. gr. sáttmálans sé réttur manna til að ganga í stéttarfélög og standa utan félags verndaður.

Af hálfu stefnda er jafnframt vísað til þess að atvinnurekendum sé óheimilt, samkvæmt 4. gr. laga nr. 80/1938, að hafa áhrif á afstöðu starfsmanna til stéttarfélagsaðildar með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn. Hótun af hálfu stefnda til félagsmanna VR um uppsögn ef þeir gengju ekki í Sleipni hefði því án vafa verið talið andstæð lögum.

Loks vísar stefndi til þess að Ísland hafi fullgilt samþykktir ILO nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess, sbr. auglýsingu nr. 86/1950, og nr. 98 um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega en sú samþykkt hafi verið fullgilt árið 1952. Félagafrelsisnefnd ILO hafi talið skylduaðild að stéttarfélögum andstæða þessum samþykktum.

Stefndi byggir á því að framangreind ákvæði laga og sáttmála veiti þeim starfsmönnum, sem ráðnir hafi verið í fullu samræmi við lög og kjarasamninga, meiri rétt en stefnanda. Réttur samkvæmt þeim lögum og sáttmálum vegi þyngra en ákvæði í kjarasamningi um forgangsrétt til starfa.

Verði fallist á þá málsástæðu stefnanda, að stefnda hafi verið óheimilt að segja honum upp störfum, er krafist lækkunar á kröfu stefnanda. Miskabótakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt á þeim grundvelli að engin lagaskilyrði séu fyrir greiðslu miskabóta. Því er mótmælt að b-liður 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga eigi við í máli þessu. Mótmælt er sem ósönnum fullyrðingum í stefnu um að stefnandi hafi verið látinn gjalda þess að hafa gengt trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélag sitt.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að þegar flugsamgöngur hafi dregist umtalsvert saman haustið 2001 hafi verið óhjákvæmilegt að fækka starfsmönnum og þá hafi alls 16 bifreiðastjórar látið af störfum hjá stefnda. Einungis tveimur af 14 Sleipnismönnum hafi verið sagt upp störfum en mun fleiri félagsmenn annarra stéttarfélaga hafi látið af störfum. Af því megi sjá að uppsögnum hafi ekki sérstaklega verið beint gegn Sleipnismönnum.

Stefndi byggir ennfremur á því að þegar stéttarfélag stefnanda hafi mótmælt uppsögn hans sem ólögmætri hafi því ekki verið haldið fram að störf fyrir stéttarfélag hafi verið ástæða uppsagnarinnar og hafi sú málsástæða ekki komið til kasta Félagsdóms. Þessi málsástæða hafi ekki komið fram fyrr en í júní 2001, eða rúmum átta mánuðum eftir að stefnanda hafi verið sagt upp störfum.

Stefndi telur að framangreindur dómur Félagsdóms frá 28. maí 2002 hafi ekki bindandi áhrif á niðurstöðu þessa máls. Mál þetta sé skaðabótamál og dómar Hæstaréttar í sambærilegum málum sýni að taka þurfi sjálfstæða afstöðu til þess hvort skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi þótt slík niðurstaða Félagsdóms liggi fyrir.

 

Niðurstaða

Heimilisvarnarþing stefnda er í Kópavogi. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við það af hálfu stefnda að málið sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og verður að líta svo á að um það sé samkomulag með aðilum.

Félagsdómur starfar á grundvelli 38. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Meginverkefni dómstólsins eru talin upp í 1. mgr. 44. gr. laganna en þau eru:

 

„1. Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á lögum þessum og tjóni, sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.

2.                   Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.

3.                   Að dæma í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðiljar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta kosti 3 af dómendunum því meðmæltir.”

 

Ágreiningur um hvort stefndi hefði brotið forgangsréttarákvæði kjarasamnings, sem Félagsdómur dæmdi um 28. maí 2002, í máli Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. samtaka ferðaþjónustunnar vegna Kynnisferða sf., átti undir Félagsdóm á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Umrætt forgangsréttarákvæði er sem fyrr segir í 5. kafla kjarasamnings aðila frá 5. júlí 2001 og hefur áður verið greint frá efni þess.

Í  forsendum dóms Félagsdóms er meðal annars fjallað um þá málsástæðu Samtaka atvinnulífsins að forgangsréttur félagsmanna í Sleipni, samkvæmt greindum kjarasamningi, næði ekki til þess að félagsmennirnir sætu fyrir um vinnu þegar fækka þyrfti starfsmönnum. Félagsdómur taldi að ekki yrði á þessa málsástæðu fallist, enda væri ljóst að forgangsréttarákvæði næði ekki tilgangi sínum yrðu þau takmörkuð með þessum hætti, sbr. og dóm Félagsdóms V:193, þar sem reynt hafi á forgangsrétt við uppsögn.

Niðurstaða Félagsdóms var sú að stefndi hefði brotið gegn forgangsréttarákvæði í gildandi kjarasamningi milli aðila frá 5. júlí 2001 með því að segja stefnanda upp störfum frá 1. janúar 2002 og hafa á sama tíma í störfum sem fólksflutningabifreiðastjóra félagsmenn í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.

Samkvæmt framansögðu hefur Félagsdómur einungis fjallað um og komist að niðurstöðu um það álitaefni hvort stefndi hafi með því að segja stefnanda upp störfum brotið gegn ákvæði kjarasamnings um forgangsrétt félagsmanna í Sleipni til starfa hjá stefnda.

Í máli þessu er gerð krafa um bætur fyrir fjártjón og miska vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar. Við úrlausn þess hvort uppsögnin hafi verið ólögmæt og bótaskyld koma fleiri álitaefni til skoðunar en það eitt hvort stefndi hafi brotið gegn forgangsréttarákvæði í framangreindum kjarasamningi með uppsögninni.

Leggja verður til grundvallar þá fullyrðingu í greinargerð stefnda að þegar kjarasamningar voru undirritaðir 5. júlí 2001 hafi 16 bifreiðastjórar stefnda verið í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, 14 í Sleipni, 5 í Eflingu og 4 í öðrum stéttarfélögum. Einnig verður lagt til grundvallar að 16 af 39 bifreiðastjórum hjá stefnda hafi hætt störfum í kjölfar samdráttar í flugi haustið 2001. Af framburði Kristjáns Jónssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda fyrir dómi má ráða að einhverjir þessara starfsmanna voru ráðnir tímabundið sem sumarmenn en í greinargerð stefnda er því haldið fram að 6 þeirra sem hættu hafi verið með tímabundna samninga. Kristján bar að níu eða tíu bifreiðastjórum af 28 föstum bifreiðastjórum hafi verið sagt upp störfum í umrætt sinn. Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að 10 bifreiðastjórum hafi verið sagt upp störfum og að tveir þeirra hafi  verið félagsmenn í Sleipni. Samkvæmt því er ljóst að lægra hlutfalli Sleipnismanna var sagt upp störfum en bifreiðastjórum utan Sleipnis.

Ekki verður ráðið af dómi Félagsdóms frá 28. maí 2002 að því hafi verið haldið fram af hálfu Bifreiðastjórafélagsins Sleipni í því máli að stefnda hafi verið sagt upp störfum af þeirri ástæðu að hann var félagsmaður í Sleipni. Stefnandi eða Óskar Stefánsson héldu því heldur ekki fram við skýrslugjöf fyrir Félagsdómi. Því er hins vegar haldið fram í þessu máli að uppsögn stefnanda hafi mátt rekja til starfa hans í þágu stéttarfélagsins.

Fyrir dómi bar stefnandi að hann hefði starfað í samninganefnd Sleipnis. Hann kvað aldrei hafa verið sett út á störf sín hjá stefnda og taldi að honum hefði verið sagt upp störfum af því að hann hafi verið í Sleipni. Ekki hafi farið á milli mála að stefndi hafi verið að fækka Sleipnismönnum. Honum hafi verið boðið hærra kaup hjá stefnda ef hann skipti um stéttarfélag.

Vitninu Óskari Sigurðssyni, formanni Sleipnis var sagt upp störfum hjá stefnda á sama tíma og stefnanda. Hann bar fyrir dómi að meðal þeirra bifreiðastjóra sem ekki hafi verið sagt upp störfum hjá stefnda hafi verið menn í trúnaðarstörfum hjá Sleipni. Hann kvað uppsagnir þeirra stefnanda hafa verið aðför að Sleipni og áminning til annarra Sleipnismanna að halda sig á mottunni í samskiptum við atvinnurekendur. Hann kvaðst ekki að öðru leyti hafa verið látinn gjalda starfa sinna fyrir Sleipni í starfi hjá stefnda.

Kristján Jónsson fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda bar fyrir dómi að stefnanda hafi, ásamt fleiri bifreiðastjórum, verið sagt upp störfum vegna samdráttar í flugi eftir 11. september 2001 og breytinga á fyrirkomulagi á flutningum vildarklúbbsfarþega Flugleiða sem leitt hafi til samdráttar hjá stefnda. Hann kvað eins vægilega hafa verið farið í uppsagnir eins og mögulegt hafi verið. Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs stefnda hafi útbúið lista yfir þá sem lagt var til að sagt yrði upp störfum og borið listann undir vitnið. Vitnið hafi síðan undirritað uppsagnarbréf ásamt rekstrarstjóranum. Vitnið gaf ekki afdráttarlaus svör um það hvaða sjónarmið hafi legið að baki því hverjum hafi verið sagt upp Vitnið kvaðst ekkert hafa haft út á störf stefnanda og Óskars Stefánssonar að setja.. Hann kvað tilviljun hafa ráðið því hverjum hafi verið sagt upp störfum. Mjög lítið hafi verið farið eftir starfsaldri en fremur litið til þess hvernig menn hefðu staðið sig. Hann taldi stefnanda og Óskar hafa verið ágætisstarfsmenn en þó nendi hann að stefnandi hefði verið hvikull í starfi. Hann hafi verið ráðinn í tiltekið verkefni en gefist upp á því. Þá kvað hann Óskar ekki hafa verið búinn að starfa í mörg ár hjá stefnda. Óskar hafi ekið lítilli bifreið sem notuð hafi verið í akstri áhafna og vildarklúbbsfarþega en í þessari starfsemi hafi samdrátturinn verið mestur. Hann kvað enga bifreiðastjóra hafa verið ráðna til stefnda eftir uppsagnirnar fyrr en á útmánuðum 2002.

Vitnið kvað stefnda hafa haft fleiri Sleipnismenn við störf en nokkurt annað fyrirtæki, þar af tvo formenn og marga samningamenn félagsins. Sagan sýndi að starfsmenn hefðu aldrei verið látnir gjalda þess hjá stefnda að vera félagsmenn í Sleipni. Það hefði engin áhrif haft hjá stefnda hvar menn skipuðu sér í sveit í vinnudeilum eða félagsmálum. Þannig hafi Óskar Stefánsson verið ráðinn til stefnda í kjölfar harðvítugrar vinnudeilu. Hins vegar hafi verið litið svo á að Sleipnismenn hefðu ekki forgang til vinnu og að starfsmenn gætu kosið sér stéttarfélag. Vitnið kvað það fjarstæðu að félagsaðild að Sleipni hafi valdið því að stefnanda og Óskari hafi verið sagt upp störfum hjá stefnda.

         Fyrir liggur að bifreiðastjórum hefur aftur verið fjölgað hjá stefnda en leggja verður til grundvallar að ekki hafi verið farið að ráða bifreiðastjóra að nýju fyrr en á útmánuðum 2002 en samkvæmt því sem fram er komið í málinu eru talsverðar árstíðarsveiflur í rekstri stefnda og bifreiðastjórar ráðnir tímabundið til sumarstarfa. Stefnandi bar fyrir dómi að hann hafi leitað eftir starfi hjá stefnda í byrjun þessa árs en fengið loðin og hreytingsleg svör frá starfsmannastjóra stefnda. Hann kvaðst starfa sem bifreiðastjóri hjá Skeljungi. Þá kom stefnandi fram með skýringar á því af hverju hann hætti störfum við það verkefni sem vitnið Kristján nefndi í framburði sínum. Vitnið Óskar Stefánsson bar fyrir dómi að honum hefði ekki verið boðið starf hjá stefnda og ekki sótt um slíkt starf. Hann kvaðst starfa við akstur leigubifreiðar.

Stefnandi hóf störf hjá stefnda í janúar 1999 og hafði því starfað hjá fyrirtækinu í tæp þrjú ár þegar honum var sagt upp störfum. Fyrir liggur að umræddum 10 starfsmönnum stefnda var ekki sagt upp samkvæmt starfsaldurslista og uppsögnin var ekki til komin vegna þess að forsvarsmenn stefnda hafi haft út á störf stefnanda að setja. Þótt fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda hafi bent á nokkur atriði sem haft hafi áhrif á það hverjum var sagt upp störfum hjá stefnda verður ráðið af framburði hans að við uppsagnirnar hafi ekki verið stuðst við ákveðnar reglur eða fastmótaðar viðmiðanir heldur hafi fremur matskennd og jafnvel tilviljunarkennd sjónarmið ráðið.

Ekkert er fram komið í málinu sem styður fullyrðingar stefnanda og Óskars Stefánssonar um að stefndi hafi reynt að fá þá og aðra Sleipnismenn til að ganga í önnur stéttarfélög og engin tilraun hefur verið gerð í málinu til að sýna fram á að stefndi hafi reynt að hafa áhrif á félagsaðild bifreiðastjóra hjá félaginu. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi hafi með öðrum hætti látið hann gjalda starfa sinna í þágu stéttarfélagsins.

Fyrir liggur að stefnandi hafði unnið að samningamálum fyrir Sleipni og Óskar var formaður félagsins og að þeim var sagt upp störfum hjá stefnda um ári eftir harðvítuga vinnudeilu Sleipnis og stefnda og fljótlega eftir að samningar voru undirritaðir. Þótt þessi atburðarás hafi á sér þann blæ að stefndi hafi verið að losa sig við „óþæga starfsmenn" felur hún hvorki í sér sönnun um að þeim hafi verið sagt upp störfum vegna starfa sinna í þágu Sleipnis né þykir hún veita svo augljósa vísbendingu um slíkt orsakasamband að rétt sé að varpa sönnunarbyrðinni um þetta atriði á stefnda. Líta verður til þess að alls 10 bifreiðastjórum var sagt upp störfum hjá stefnda í umrædd sinn og lægra hlutfalli Sleipnismanna var sagt upp en bifreiðastjórum utan Sleipnis. Þá var öðrum bifreiðastjórum hjá stefnda sem gegndu trúnaðarstörfum hjá Sleipni ekki sagt upp störfum. Þar sem engin áþreifanleg sönnunargögn eða vitnisburðir styðja þær fullyrðingar stefnanda og Óskars Stefánssonar að stefnanda hafi verið sagt upp vegna starfa hans í samninganefnd Sleipnis þykja fullnægjandi sönnur ekki hafa verið færðar af því að svo hafi verið.

Samkvæmt framangreindu verður niðurstaða málsins ekki reist á því að stefnda hafi verið sagt upp störfum vegna þess að hann var félagsmaður í Sleipni og í samninganefnd félagsins. Af því leiðir einnig að hafna verður öllum málsástæðum stefnanda sem byggja á svokallaðri atvinnukúgun.

Verður þá tekin afstaða til þess hvort uppsögn stefnanda teljist bótaskyld vegna þess að hún hafi verið í andstöðu við forgangsréttarákvæði í 5. kafla kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Sleipnis frá 5. júlí 2001.

Sú ályktun verður dregin af fyrrnefndum dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júní 2000 að fyrir undirritun kjarasamningsins 5. júlí 2001 hafi Sleipnisfélagar ekki notið forgangs til starfa umfram aðra bifreiðastjóra hjá stefnda. Þá er óumdeilt að engir bifreiðastjórar voru ráðnir til starfa frá undirritun kjarasamningsins og þar til stefnanda var sagt upp störfum.

Þá þykir rétt að leggja til grundvallar í málinu að önnur stéttarfélög hafi ekki gert sambærilega samninga og Sleipnir um forgangsrétt til bifreiðastjórastarfa hjá stefnda.

Þegar forsvarsmenn stefnda ákváðu að fækka bifreiðastjórum vegna minnkandi verkefna í kjölfar samdráttar í flugi eftir 11. september 2001 lá fyrir að stefndi hafði gert kjarasamning um forgangsrétt félagsmanna í Sleipni til starfa hjá fyrirtækinu. Jafnframt blasti við að aðrir bifreiðastjórar sem störfuðu hjá stefnda höfðu verið ráðnir áður en umræddur kjarasamningur var undirritaður. Umræddur kjarasamningur hafði því ekki haft nein áhrif við ráðningu bifreiðastjóra hjá stefnda þegar þar var komið sögu.

Líta verður á ágreining málsaðila í því ljósi að stefndi stóð frammi fyrir því að ákveða hvort segja ætti upp starfsmönnum án tillits til félagsaðildar þeirra eða hvort hlífa ætti félagsmönnum í Sleipni við uppsögnum á grundvelli fyrrnefnds kjarasamningsins og segja í staðinn upp bifreiðastjórum utan þess félags. Fyrir liggur að stefnandi og Óskar Stefánsson báru því þegar við gagnvart stefnda þegar þeim var tilkynnt um uppsögnina að hún væri í andstöðu við forgangsréttarákvæði umrædds kjarasamnings.

Hið almenna félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar er í 1. mgr. 74. gr. Ákvæði til verndar svokölluðu neikvæðu félagafrelsi, eða frelsi til að standa utan félags, er hins vegar að finna í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 12. gr. laga nr. 97/1995. Þar segir að engan megi skylda til aðildar að félagi en með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það sé nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Af samanburði á 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, verður sú ályktun dregin að stjórnarskrárákvæðið veiti félagafrelsinu og þá sérstaklega neikvæðu félagafrelsi að minnsta kosti jafn góða vernd og ákvæði sáttmálans.

Í 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er meðal annars kveðið á um að atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda sé óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn.  Ljóst er að jafnt félagsmenn í Sleipni sem aðrir bifreiðastjórar hjá stefnda nutu verndar þessa ákvæðis og forsvarsmönnum stefnda var því rétt að haga uppsögnum þannig að þær færu ekki í bága við ákvæðið.

Þeir alþjóðlegu sáttmálar aðrir sem stefndi hefur vísað til. og fullgiltir hafa verið af Íslands hálfu, ganga í svipaða átt til verndar því að menn verði ekki þvingaðir til að ganga í stéttarfélög eða standa utan slíkra félaga.

Við meðferð frumvarps þess sem varð að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 komu fram breytingartillögur frá stjórnarskrárnefnd, meðal annars á 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins, þess efnis að stjórnmálafélaga og stéttarfélaga yrði sérstaklega getið í 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Í nefndarálitinu var vikið sérstaklega að forgangsréttarákvæðum kjarasamninga með þeim orðum að sérstök ástæða væri til að nefna að svonefnd forgangsréttarákvæði, þegar í kjarasamningum væri samið um að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags skyldu hafa forgang til vinnu á félagssvæði þess, leiddu ekki af sér félagsskyldu af þeim toga sem fyrri málsliður 2. mgr. tæki til. Í ljósi þessa liti nefndin svo á að með samþykkt frumvarpsins væri í engu verið að hrófla við núverandi réttarstöðu á vinnumarkaði að því er varðar forgangsréttarákvæði.

Af afdráttarlausu ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um að engan megi skylda til aðildar að félagi og öðrum lagaákvæðum og sáttmálum sem nefndir hafa verið hér að framan verður sú ályktun dregin að enda þótt ákvæði í kjarasamningum um forgangsrétt til starfa verði almennt ekki talin brjóta í bága við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar verði að beita slíku ákvæði af varfærni þegar saman lýstur hagsmunum félagsmanna í stéttarfélagi sem gert hefur slíkan samning og samstarfsmanna þeirra sem ekki heyra undir samninginn.

Ljóst er að forgangsréttarákvæði til starfa hafa almennt verið skilin þannig að félagsmenn í tilteknu stéttarfélagi skuli að öðru jöfnu sitja fyrir við ráðningu í störf hjá þeim fyrirtækjum sem heyra undir viðkomandi kjarasamning. Þannig geta félagsmenn í öðrum stéttarfélögum eða einstaklingar utan stéttarfélaga verið ráðnir ef enginn félagsmaður í stéttarfélagi með forgangsrétt sækir um starfið. Slík ráðning þarf því ekki að brjóta í bága við forgangsréttarákvæði.

Eitt af því sem skiptir launþega hvað mestu máli er starfsöryggi þeirra. Fallast má á með stefnda að ef vinnuveitandi lætur félagsaðild skipti sköpum þegar til uppsagna kemur, þannig að félagsmönnum í tilteknu stéttarfélagi sé skipulega hlíft við uppsögnum á kostnað annarra starfsmanna feli það í sér svo alvarlega íhlutun í frelsi manna til að velja sér stéttarfélag eða vera utan þeirra að jafngildi þvingun til aðildar að viðkomandi stéttarfélagi. Telja verður slíka framkvæmd á forgagnsréttarákvæði kjarasamnings ósamrýmanlega 4. gr. laga nr. 80/1938 og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

         Eins og áður segir voru félagsmenn í Sleipni og aðrir bifreiðastjórar hjá stefnda ráðnir áður en forgagnsréttarákvæðið kom í kjarasamning Sleipnis 5. júlí 2001. Jafnstaða var því með öllum bifreiðastjórum hjá stefnda að þessu leyti án tillits til stéttarfélagsaðildar þegar til uppsagna kom. Þótt fyrrnefndur kjarasamningur hafi skapað Sleipnismönnum forgangsrétt til starfa hjá stefnda eftir undirritun hans verður að líta svo á þeir bifreiðastjórar sem stóðu utan Sleipnis hafi mátt treysta því að stéttarfélagsaðild þeirra skipti ekki sköpum varðandi starfsöryggi þeirra.

Við umræddar aðstæður var stefnda rétt að líta svo á að með því að hlífa félagsmönnum Sleipnis alfarið við uppsögnum væri þeim skilaboðum komið til annarra starfsmanna að með því að ganga í Sleipni gætu þeir komist hjá því að verða sagt upp störfum ef til frekari samdráttar kæmi. Samkvæmt því mátti stefndi vænta þess að uppsagnir starfsmanna á þessari forsendu færu í bága við 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Þegar tekið er mið af því að forsvarsmenn stefnda stóðu frammi fyrir því að saman laust þeim lögbundnu og stjórnarskrárvörðu réttindum bifreiðastjóra utan Sleipnis að starfsöryggi þeirra réðist ekki af stéttarfélagsaðild og ákvæði í kjarasamningi um forgangsrétt félagsmanna Sleipnis til starfa hjá stefnda verður að líta svo á að forsvarsmönnum stefnda hafi verið rétt að líta fremur til framangreindra félagafrelsissjónarmiða fremur en að segja eingöngu bifreiðastjórum utan Sleipnis upp störfum til að hlífa Sleipnismönnum við uppsögnum. Samkvæmt því verður ekki fallist á með stefnanda að uppsögn hans úr starfi hjá stefnda 26. september 2001, með lögmætum þriggja mánaða uppsagnarfresti, hafi bakað stefnda bótaábyrgð. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Með vísan til þess að veruleg vafaatriði hafa verið uppi í máli þessu og að niðurstaða dóms Félagsdóms 28. maí 2002 gaf stefnanda ástæðu til að láta reyna á bótaábyrgð stefnda fyrir dómi þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

 Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð

Stefndi, Kynnisferðir sf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Björns Briem, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.